25. kafli – Sparisjóður Svarfdæla

25. Sparisjóður Svarfdæla

Sparisjóður Svarfdæla var stofnaður 1. maí árið 1884. Í fyrstu stjórn sjóðsins sátu þeir Sigurður Sigurðsson formaður, Baldvin Þorvaldsson varaformaður og Jóhann Jónsson gjaldkeri sem jafnframt gegndi stöðu sparisjóðsstjóra.1

Hinn 1. maí 1993 sameinuðust Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Hríseyjar og Sparisjóður Árskógsstrandar undir merkjum Sparisjóðs Svarfdæla.2 Í gildandi samþykktum sjóðsins sem dagsettar eru 26. september 2012 segir í 3. grein að tilgangur sjóðsins sé að stunda sparisjóðastarfsemi eins og hún er skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki. Samfélagslegt hlutverk hans sé að láta gott af sér leiða og standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð á starfssvæði sínu.

Frá því í júní 1979 hefur sparisjóðurinn verið til húsa í Ráðhúsinu á Dalvík auk þess sem útibú er starfrækt að Norðurvegi 6–8 í Hrísey. 3 Sparisjóðsstjóri er Jónas M. Pétursson og hefur hann gegnt því starfi frá árslokum 2008. Áður hafði Friðrik Friðriksson gegnt stöðu sparisjóðsstjóra frá árinu 1985.

Núverandi stjórn Sparisjóðs Svarfdæla var tilnefnd af Bankasýslu ríkisins og kjörin á aðalfundi 29. maí 2012.4 Stjórnarmenn eru Helga Björk Eiríksdóttir formaður, Borghildur Freyja Rúnarsdóttir, Jón Ingi Sveinsson, Valdimar Snorrason og Þröstur Jóhannsson en tveir þeir síðastnefndu hafa báðir setið í stjórn sparisjóðsins frá 2009.

Í lok árs 2007, fyrir fall bankanna, voru stofnfjárhafar 150 og heildareignir sjóðsins námu 6,3 milljörðum króna.5 Sparisjóður Svarfdæla var einn af minnstu sparisjóðum hér á landi með um 1% af heildareignum sparisjóðanna. Samanlagðar eignir allra sparisjóða voru þá 614 milljarðar króna.

Með sviptingum á fjármálamarkaði árið 2008 varð tap á rekstri sjóðsins sem nam rúmlega 2,1 milljarði króna. Skýrðist það að mestu af 2,2 milljarða króna gengistapi af hlutabréfum og skuldabréfum. Í lok árs 2008 var eiginfjárhlutfall sjóðsins neikvætt um 10,8% en lögbundið lágmark var 8%. Bókfært eigið fé var þó jákvætt um 33 milljónir króna.6

Sökum þess að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins fór undir lögbundið lágmark sótti sparisjóðurinn um eiginfjárframlag úr ríkissjóði. Þegar ljóst varð að sparisjóðurinn uppfyllti ekki skilyrði þess að fá slíkt framlag hófust samningaviðræður við Seðlabanka Íslands um uppgjör erlendra lána sparisjóðsins í Sparisjóðabankanum en Seðlabankinn varð helsti kröfuhafi sparisjóðsins við yfirtöku Fjármálaeftirlitins á Sparisjóðabankanum og færði tilteknar eignir og skuldir bankans til Seðlabankans. Um var að ræða ádráttarlínur sem nýttar voru til að fjármagna útlán sparisjóðsins í erlendri mynt. Samkomulag sem fól í sér uppgjör á þessum lánum var undirritað milli Seðlabankans og sparisjóðsins 21. desember 2010. Krafa Seðlabankans á hendur sparisjóðnum hafði numið 725 milljónum króna en með samkomulaginu voru 343 milljónir króna afskrifaðar og 382 milljónum króna breytt í stofnfé í sparisjóðnum. Eftir þessar aðgerðir varð eigið fé sparisjóðsins tæpar 415 milljónir króna og Bankasýsla ríkisins fór með 90% stofnfjár.

Hinn 22. ágúst 2011 var H.F. verðbréfum hf., fyrir hönd Bankasýslu ríkisins, falið að taka til sölumeðferðar stofnfjárhlut ríkisins í sparisjóðnum.7 Tilboð barst frá Landsbankanum og var það samþykkt af stjórn og stofnfjárhöfum Sparisjóðs Svarfdæla í lok árs 2011 og byrjun árs 2012. Þá samþykktu Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fyrirhugaðan samruna. Að áeggjan Samkeppniseftirlitsins leitaði stjórn Sparisjóðs Svarfdæla í lok sumars 2012 til Tryggingasjóðs sparisjóða sem samþykkti að leggja sparisjóðnum til nýtt stofnfé og veita víkjandi lán. Í framhaldi af því var fallið frá kaupsamningi Landsbankans hf. á sparisjóðnum og var samrunatilkynningin dregin til baka.8

Í lok árs 2011 voru heildareignir sparisjóðsins 3,4 milljarðar króna og námu þá 6% af samanlögðum eignum sparisjóðanna. Heildarfjöldi stofnfjáreigenda var 151 og átti Ríkissjóður Íslands 90% stofnfjár.9

Á árinu 2013 var tilkynnt um samruna Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis. Fjármálaeftirlitið samþykkti samrunann og voru þeir sameinaðir undir nafni Sparisjóðs Norðurlands ses.

25.1 Ársreikningar 2001–2011

Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Svarfdæla, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001–2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.10

25.1.1 Rekstrarreikningar

Sparisjóður Svarfdæla var rekinn með hagnaði öll árin frá 2001 til og með 2007 þegar hagnaður ársins nam 106 milljónum króna. Það var 796 milljóna króna lækkun frá hagnaði ársins 2006, sem nam 902 milljónum króna, en hann skýrðist af liðlega eins milljarðs króna gengishagnaði af veltuhlutabréfum. Viðsnúningur varð á rekstrinum á árinu 2008 þegar sparisjóðurinn tapaði 2,1 milljarði króna en það jafngilti samanlögðum hagnaði næstliðinna sjö ára á sama verðlagi. Tapið mátti rekja til 2,2 milljarða króna gengistaps af fjáreignum og 198 milljóna króna framlags í afskriftareikning útlána.

Jákvæðra áhrifa af fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðsins gætti í uppgjöri fyrir árið 2009 þegar hluti víkjandi láns sem sparisjóðurinn tók á árinu 2008 var afskrifaður og 229 milljónir króna voru tekjufærðar í rekstrarreikningi. Árið 2010 kom samkomulagið við Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu til framkvæmdar. Það leiddi til 135 milljóna króna hagnaðar vegna tekjufærðrar eftirgjafar skuldar upp á 343 milljónir króna.

Tap varð á rekstri sjóðsins á árinu 2011 upp á 48 milljónir króna sem stafaði einkum af gengistapi af fjáreignum, framlagi í afskriftareikning og hækkun rekstrarkostnaðar, en hluti þeirrar hækkunar var til kominn vegna aukinna opinberra álagna.11 Af framlagi í afskriftareikning útlána voru 24 milljónir króna vegna svokallaðs gengislánadóms (dómur Hæstaréttar nr. 600/2011). Nokkurrar óvissu hefur gætt um erlend lán sjóðsins og afskriftir vegna þeirra.12

Hreinar rekstrartekjur samanstanda af hreinum vaxtatekjum, hreinum þjónustutekjum, arðstekjum og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga, gengishagnaði (-tapi) af fjáreignum og öðrum rekstrartekjum.

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur sparisjóðsins hækkuðu frá 2001 til 2006. Gengishagnaður af fjáreignum átti þar stærstan hlut að máli, einkum árin 2005 og 2006. Þá voru fjáreignir meginástæða lækkunar hreinna rekstrartekna á árunum 2007 og 2008. Hreinar vaxta- og þjónustutekjur breyttust ekki í sama mæli og fjáreignatekjurnar umrædd ár. Fjárfestingarstarfsemi var þannig allsráðandi um afkomu sparisjóðsins.

Samanlögð afkoma sparisjóðsins af fjáreignum á tímabilinu 2001–2011 var neikvæð um 973 milljónir króna. Gengishagnaðurinn árið 2006 var að mestu til kominn vegna 597 milljóna króna gangvirðisbreytingar á hlutabréfum Meiðs ehf./Exista hf. Þá varð einnig 380 milljóna króna gangvirðishækkun á bréfum Kaupþings banka hf. Gengishagnaður var lítill árið 2007 í samanburði við fyrra ár vegna niðurfærslu á eignarhlut í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Á árinu 2008 varð hins vegar tæplega 2,2 milljarða króna tap af fjáreignum og var liðlega helmingur tapsins til kominn vegna verðbréfaeignar í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Stærsta eign Kistu voru bréf í Exista hf.

Arðs- og hlutdeildartekjur Sparisjóðs Svarfdæla hækkuðu umtalsvert á árinu 2006 og mátti rekja þá þróun til hlutdeildar í afkomu Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Á árinu 2007 var eign sparisjóðsins í bankanum færð meðal veltuhlutabréfa og skýrði það lækkun á þessum lið eftir árið 2006. Gangvirðistap vegna bankans á árinu 2008 nam 670 milljónum króna. Önnur hlutdeildarfélög sparisjóðsins voru Reiknistofa bankanna og Tölvumiðstöð sparisjóðanna hf./Teris hf.

Hreinar þjónustutekjur breyttust nánast ekkert milli ára frá 2001 til 2011. Vægi þeirra fór hæst í 23% af hreinum rekstrartekjum árið 2002 en lægst í 3% árið 2006. Hreinar þjónustutekjur voru 16% hreinna rekstrartekna í árslok 2011.

Aðrar rekstrartekjur voru óverulegur hluti hreinna rekstrartekna eftir árið 2005 en fram að því samanstóðu þær að mestu af söluhagnaði af eignarhlutum í félögum, til dæmis voru færðar 102 milljónir króna vegna söluhagnaðar árið 2004.

Hreinar vaxtatekjur fóru hækkandi á árunum 2001–2004 en lækkuðu svo töluvert árin 2007 og 2008. Síðara árið voru þær 85% lægri en árið 2004. Stærstur hluti vaxtatekna Sparisjóðs Svarfdæla kom frá útlánum eða að jafnaði 88%. Vaxtatekjur af kröfum á lánastofnanir voru á bilinu 6–22% af vaxtatekjum en vaxtatekjur af skuldabréfum fóru aldrei yfir 6% á tímabilinu.

Vaxtagjöld voru að stærstum hluta vegna almennra innlána. Frá 2001 til 2007 voru greiddir vextir af innlánum um og yfir 90% vaxtagjalda en á árinu 2008 lækkaði það hlutfall í 65% þegar heildarvaxtagjöld hækkuðu um rúmlega 286 milljónir króna. Hækkunina mátti einkum rekja til vaxtagjalda vegna endurhverfra lána við Seðlabankann, erlendra endurlána frá Sparisjóðabankanum og aukinnar lántöku þegar sparisjóðurinn tók lán hjá Kaupþingi vegna fjárfestingar í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Vaxtagjöld til lánastofnana voru hæst 14% af vaxtagjöldum árið 2009 og vaxtagjöld vegna lántöku voru hæst 11% árið 2005. Vaxtagjöld vegna víkjandi skulda voru óveruleg nema árin 2008 og 2009 þegar sparisjóðurinn tók víkjandi lán til að bæta eiginfjárstöðu sína, en þá voru þau 16% og 9% af vaxtagjöldum hvors árs.

Vaxtamunur Sparisjóðs Svarfdæla var allt tímabilið talsvert meiri en hjá sparisjóðunum í heild. Eftir 2003 minnkaði vaxtamunurinn töluvert og náði lágmarki árið 2007 í 2,8%. Mestu munaði á vaxtamun sparisjóðsins og sparisjóðanna í heild árið 2003 þegar hann var 12,6% hjá Sparisjóði Svarfdæla en 5,9% að meðaltali hjá sparisjóðunum í heild.

Rekstrargjöld

Undir liðinn rekstrargjöld fellur almennur rekstrarkostnaður sem samanstendur af launakostnaði og öðrum rekstrar- og stjórnunarkostnaði auk annarra rekstrargjalda. Undir þennan lið falla jafnframt afskriftir af rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum auk framlags í afskriftareikning útlána.

Rekstrargjöld Sparisjóðs Svarfdæla breyttust tiltölulega lítið fyrr en árið 2008 þegar þau nærri tvöfölduðust. Framlag í afskriftareikning útlána gerði útslagið á árunum 2008–2010. Á tímabilinu 2001–2011 nam framlag í afskriftareikninginn samtals 891 milljón króna, en þar af voru 599 milljónir króna á árunum 2008–2010.

Framlag í afskriftareikning útlána hækkaði mikið árið 2008. Í lok ársins höfðu þau meira en tífaldast frá fyrra ári og námu 198 milljónum króna. Framlagið hækkaði enn árið 2009 og nam rúmri 231 milljón króna og hélst áfram hátt árið 2010 þegar það nam liðlega 169 milljónum króna. Í árslok 2007 var niðurfærsluhlutfall13 útlána sjóðsins 3,4%. Til samanburðar var hlutfallið 1,6% hjá sparisjóðunum í heild. Í lok árs 2010 var niðurfærsluhlutfallið orðið 13,6% hjá Sparisjóði Svarfdæla en var á sama tíma 21,3% hjá sparisjóðunum í heild.

* Rekstrargjöld samtals eru án sértækra aðgerða, fjárhagslegrar endurskipulagningar 2009 og 2010.

Almennur rekstrarkostnaður hækkaði í samræmi við vöxt sjóðsins frá 2001 til 2006. Hækkun rekstrarkostnaðar á árinu 2008 skýrðist einkum af aðkeyptri sérfræðiaðstoð við árshlutauppgjör, verðmat og áform um hlutafélagsvæðingu sjóðsins.14 Eftir árið 2008 lækkaði kostnaðurinn í samræmi við fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins, þar af lækkaði hann um 22% árið 2009 þegar dregið var úr útgjöldum tengdum markaðsmálum, framlögum og styrkjum. Á tímabilinu 2001–2011 þróaðist hlutfall rekstrarkostnaðar af heildareignum15 Sparisjóðs Svarfdæla með nokkuð sambærilegum hætti og hjá öllum sparisjóðunum. Hlutfallið var hins vegar talsvert hærra hjá Sparisjóði Svarfdæla. Mest bar á milli árið 2005 þegar hlutfallið var 5% hjá Sparisjóði Svarfdæla og 3,2% hjá sparisjóðunum í heild.

Launakostnaður hjá Sparisjóði Svarfdæla var á bilinu 34–44% af almennum rekstrarkostnaði á umræddum árum. Lægst var hlutfallið 34% árið 2009 þegar dregið hafði verið úr starfshlutfalli nokkurra starfsmanna í því skyni að lækka launakostnað, en annars hafði fjöldi stöðugilda haldist nánast óbreyttur frá árinu 2001.16 Í töflu 4 er yfirlit um launakostnað hjá sparisjóðnum og fjölda stöðugilda miðað við heilsdagsstörf í lok hvers reikningsárs 2001–2011.

Launakostnaður á stöðugildi hækkaði um 32% árið 2004 og 20% árið 2005. Þá hækkuðu laun sparisjóðsstjóra einnig um 43% árið 2005. Launakostnaður vegna sparisjóðsstjóra var að jafnaði um 20% af heildarlaunakostnaði á árunum 2003 til 2007. Á árinu 2008 var launakostnaður vegna sparisjóðsstjóra um 24% af heildarlaunakostnaði og nam tæpum 20 milljónum króna. Skýrðist það af starfslokagreiðslu til fráfarandi sparisjóðsstjóra, en nýr sparisjóðsstjóri tók við í árslok 2008. Þóknanir til stjórnar hækkuðu jafnframt á árinu 2008 vegna sérstakrar 800 þúsund króna greiðslu til stjórnarformanns vegna vinnu í tengslum við hlutafélagsvæðingu, stofnfjáraukningu og tengda þætti.

Launakostnaður á stöðugildi þróaðist á svipaðan hátt hjá Sparisjóði Svarfdæla og sparisjóðunum í heild. Líkt og hjá sparisjóðunum í heild hækkuðu laun umfram almenna hækkun meðalvísitölu launa frá 2004 til 2008, en eftir 2009 var lækkunin ívið minni hjá Sparisjóði Svarfdæla.17

Að ákvörðun stjórnar sparisjóðsins voru greiddir kaupaukar til allra starfsmanna sjóðsins vegna góðrar afkomu á árunum 2004–2006. Árið 2005 voru greiddar 150 þúsund krónur til almennra starfsmanna miðað við fullt starf á árinu 2004 en sparisjóðsstjóri og skrifstofustjóri fengu hvor um sig 1,2 milljónir króna. Jafnframt fékk sparisjóðsstjóri viðbótarframlag í séreignarlífeyrissjóð upp á 2 milljónir króna. Árið 2006 voru greiddar 200 þúsund krónur til almennra starfsmanna miðað við fullt starf á árinu 2005 en sparisjóðsstjóri og skrifstofustjóri fengu hvor um sig 1,8 milljónir króna. Á grundvelli afkomu ársins 2006 voru greiddar 300 þúsund krónur til almennra starfsmanna miðað við fullt starf og ennfremur voru greiddir kaupaukar til sparisjóðsstjóra og skrifstofustjóra, 1,2 milljónir króna til hvors um sig. Á síðasta ársfjórðungi 2007 voru enn greiddir kaupaukar til sparisjóðsstjóra og skrifstofustjóra og fékk hvor um sig 1,5 milljónir króna.

Í apríl 2008 var gerður viðbótarsamningur við starfssamning sparisjóðsstjóra þar sem gert var ráð fyrir að hann léti af störfum sem sparisjóðsstjóri þegar sparisjóðurinn yrði að hluta

félagi en sinnti sérverkefnum fyrir sjóðinn og héldi óbreyttum launum og starfskjörum til ágústloka 2010. Sá samningur kom ekki til framkvæmda þar sem sparisjóðsstjórinn veiktist í september 2008 og naut í kjölfarið af því samningsbundinna réttinda sinna.

Starfsmenn Sparisjóðs Svarfdæla nutu engra óhefðbundinna hlunninda né heldur hlunninda sem tengdust íbúðarhúsnæði eða sumarhúsi og fengu engan einkakostnað greiddan, svo sem vegna sumarleyfa. Um stórar gjafir til starfsmanna var ekki að ræða.18

Kjarnarekstur

Hagnaður var af kjarnarekstri sparisjóðsins 2001–2004 en tap öll árin þar á eftir.19 Tapið á árunum 2005–2007 stafaði einkum af lækkandi vaxtatekjum og hækkandi rekstrarkostnaði. Tap á kjarnarekstri á árunum 2008–2011 skýrðist hins vegar að mestu af framlagi í afskriftareikning útlána. Vaxta- og þjónustutekjur stóðu undir almennum rekstarkostnaði öll árin nema 2006–2009. Árið 2008 var einkar slæmt, þá vantaði 152 milljónir króna upp á að samanlagðar vaxta- og þjónustutekjur stæðu undir almennum rekstrarkostnaði. Afkoma af fjáreignum hafði því mest að segja um heildarafkomu sparisjóðsins 2006–2009. Þess má geta að afkoma af kjarnarekstri sparisjóðanna í heild var neikvæð á árunum 2001–2011.20

25.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Svarfdæla í lok áranna 2001–2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á árunum 2001–2011 á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.

Eignir

Í árslok 2001 námu eignir Sparisjóðs Svarfdæla tæplega tveimur milljörðum króna en í árslok 2011 voru þær 3,4 milljarðar króna. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sjóðsins í árslok 2001 3,5 milljarðar króna. Þannig hafði stærð sjóðsins haldist nærri óbreytt á þessum ellefu árum, þrátt fyrir að sjóðurinn hefði stækkað mikið á árunum 2001–2007. Mynd 5 sýnir hvernig eignir sparisjóðsins í lok áranna 2001–2011 skiptust. Á myndinni sést greinilega hvernig hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum þöndust út og stuðluðu að miklum vexti sjóðsins 2001–2007.

Útlán voru stærsti eignaliður sjóðsins allan tímann og var vægi þeirra af heildareignum að meðaltali 56%. Í árslok 2007 varð hlutfall útlána lægst eða 39%, þegar mikil aukning varð á hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum. Árið 2011 hafði hlutur útlána í eignum sparisjóðsins aukist í 70%, þrátt fyrir að þau hefðu lækkað um 598 milljónir króna frá árinu 2008.

Stærstur hluti útlána Sparisjóðs Svarfdæla voru skuldabréfalán til einstaklinga, eða á bilinu 63–75%.21 Önnur lán sparisjóðsins voru nær eingöngu til fyrirtækja, einkum í landbúnaði og sjávarútvegi, og námu þau 24–35% af heildarútlánum.

Eins og fram kemur í töflu 6 hækkaði staða afskriftareiknings útlána mikið á árunum 2008–2010.22 Í árslok 2007 stóð reikningurinn í 87 milljónum króna sem jafngilti 3,4% af heildarútlánum. Með umtalsverðu framlagi í afskriftareikning á árunum 2008 og 2009 hafði staðan nánast fimmfaldast í árslok 2009 og nam svo 13,6% af heildarútlánum í árslok 2010.

Kröfur á lánastofnanir voru næststærsti eignaliður sparisjóðsins frá 2001 til 2004 en þær drógust heldur saman á árunum 2005–2007 þegar þær voru að jafnaði 6% heildareigna. Árið 2008 fjórfölduðust þær hins vegar og voru rúmur milljarður króna í árslok eða 20% af heildareignum sjóðsins. Þar af voru 620 milljónir króna í innistæðubréfum sem voru fjármögnuð að hluta með endurhverfum daglánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands, og 148 milljónir króna á viðskiptareikningi hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. Í árslok 2008 hafði sparisjóðurinn lagt íbúðabréf sem námu rúmlega 338 milljónum króna inn í Seðlabankann í sambærilegum endurhverfum viðskiptum.

Hlutfall fjáreigna af heildareignum var einnig nokkru hærra hjá Sparisjóði Svarfdæla en hjá sparisjóðunum í heild á öllu tímabilinu og var munurinn einkum áberandi 2005–2008. Bókfært virði fjáreigna sjóðsins nærri nífaldaðist á árunum 2001–2007 og nam 3,6 milljörðum króna í árslok 2007. Þetta var langt umfram vöxt heildareigna sjóðsins sem þrefölduðust á sama tímabili. Bókfært virði fjáreigna lækkaði um 68% árið 2008 og munaði þar mest um 2,4 milljarða gangvirðislækkun hlutabréfa. Fjáreignir drógust svo enn frekar saman á árunum 2009–2010 og námu 396 milljónum króna í árslok 2011 eða 12% heildareigna.

Hlutabréf og önnur verðbréf með breytilegum tekjum voru stærsti hluti fjáreigna á árunum 2001–2010. Í árslok 2007 nam bókfært virði þessa eignaliðar 3,4 milljörðum króna sem jafngilti 54% heildareigna sparisjóðsins. Hann var þannig stærsti eignaliður sjóðsins á árinu 2007. Þessi mikla aukning stafaði einkum af breyttri reikningshaldslegri meðhöndlun á eignarhlut í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Frá haustinu 2008 rýrnaði virði hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum í eigu sparisjóðsins og í lok árs 2011 nam bókfært virði þeirra 100 milljónum króna, eða 3% af heildareignum sjóðsins, sem jafnframt var 97% lækkun frá árinu 2007.

Markaðsskuldabréf breyttust tiltölulega lítið á árunum 2001–2007 og voru á bilinu 60–107 milljónir króna. Vægi þeirra var því 3–20% af fjáreignum og aldrei yfir 4% af heildareignum sparisjóðsins á þessum árum. Virði skuldabréfanna lækkaði um 70% frá 2007 til 2009, en í kjölfarið hækkaði það til muna og nam 277 milljónum króna árið 2011. Þar með var þessi eignaliður orðinn sá stærsti af fjáreignum og 8% af heildareignum.

Eign Sparisjóðs Svarfdæla í hlutdeildarfélögum var ekki stór á umræddu tímabili. Árin 2005 og 2006 hækkaði virði liðarins hins vegar töluvert, fyrst og fremst vegna hlutdeildar sparisjóðsins í afkomu Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Engu að síður var þessi liður þá aðeins 4% af heildareignum sjóðsins. Í árslok 2011 átti Sparisjóður Svarfdæla 0,4% hlut í Reiknistofu bankanna og 2,8% hlut í Tölvumiðstöð sparisjóðanna hf./Teris hf. og var bókfært verð þessara eigna samtals 19 milljónir króna sem jafngilti 0,6% af heildareignum sjóðsins.

Skuldir

Innlán voru alltaf stærsti fjármögnunarþáttur Sparisjóðs Svarfdæla á tímabilinu 2001–2011. Hlutfall innlána á móti útlánum var yfir 100% allt tímabilið og fór hæst í 142% árið 2003. Lægst var hlutfallið árið 2008 eða 101%. Útlán sparisjóðsins voru því að fullu fjármögnuð með innlánum.

Skuldir Sparisjóðs Svarfdæla við lánastofnanir jukust mikið á árinu 2008 eða úr 261 milljón króna í 1,3 milljarða króna. Aukninguna mátti rekja til erlendra endurlána sparisjóðsins hjá Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf., endurhverfra viðskipta við Seðlabanka Íslands og lántöku hjá Kaupþingi hf. vegna fjárfestingar í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Hækkun erlendra endurlána sparisjóðsins hjá Sparisjóðabankanum var að mestu leyti tilkomin vegna gengisfalls krónunnar, en nýjar lánveitingar á árinu 2008 námu 55 milljónum króna. Endurhverf viðskipti við Seðlabankann námu rúmlega 338 milljónum króna í árslok 2008. Nánar er fjallað um fjármögnun sjóðsins hér aftar.

Lántaka var ekki stór hluti af skuldum sparisjóðsins en árið 2004 nærri fimmfaldaðist liðurinn og nam 154 milljónum króna í árslok 2004. Skýrðist það af lánasamningi sem sparisjóðurinn gerði við Íbúðalánasjóð upp á 153,9 milljónir króna. Samningurinn var gerður upp árið 2009 og var engin lántaka bókuð eftir það.

Aðrar skuldir samanstóðu af víkjandi skuldum, reiknuðum skuldbindingum og öðrum skuldum. Árin 2005 og 2006 hækkaði tekjuskattskuldbinding mikið og tvöfölduðust þá aðrar skuldir á hvoru ári fyrir sig. Árið 2007 bættust við ógreiddar skuldir vegna Menningarhúss upp á 185 milljónir króna og ógreitt kaupverð eignarhluta að fjárhæð 133 milljónir króna. Engin tekjuskattsskuldbinding var færð eftir 2007 en í mars 2008 gaf sparisjóðurinn út skuldabréf með víkjandi rétti upp á 350 milljónir króna. Ári síðar, samhliða fjárhagslegri endurskipulagningu, var hluti bréfsins greiddur að fengnum afslætti sem tekjufærður var í rekstrarreikning og námu aðrar skuldir þá 249 milljónum króna í árslok 2009. Í lok árs 2011 voru aðrar skuldir einungis 56 milljónir króna.

Eigið fé

Eigið fé Sparisjóðs Svarfdæla jókst mikið á árunum 2005–2007. Góð rekstrarafkoma árin 2005 og 2006 skilaði sér í mikilli hækkun varasjóðs úr 616 milljónum króna í lok árs 2004 í 1,9 milljarða króna í árslok 2006. Ráðist var í mikla stofnfjáraukningu árið 2007 og var stofnfé þá aukið um 514 milljónir króna. Stofnfé var einungis um 1% af eigin fé 2001–2006 en hækkaði í 23% eftir stofnfjáraukninguna 2007. Í árslok 2007 nam eigið fé sjóðsins 2,3 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið þá 36,8%.

Á stjórnarfundi 28. desember 2006 var samþykkt ályktun um að leggja til við aðalfund sparisjóðsins að Sparisjóður Svarfdæla léti reisa um 660 m2 menningarhús sem afhent yrði Dalvíkurbyggð til afnota fyrir hönd íbúa byggðarlagsins. Áætlað var að húsið myndi kosta 200 milljónir króna með öllum búnaði og var það sú fjárhæð sem stjórn sparisjóðsins hafði í hyggju að leggja til verkefnisins. Á árinu 2007 var teikningum af menningarhúsinu breytt og það stækkað. Kostnaður var þá áætlaður 276 milljónir króna án húsbúnaðar. Stjórn sparisjóðsins lagði því til við aðalfund að framlag til byggingar menningarhússins yrði hækkað um 100 milljónir króna og var það samþykkt á aðalfundi 17. apríl 2008.

Þegar hugmyndin um menningarhúsið kom upp var hún kynnt Fjármálaeftirlitinu og varð það sameiginlegur skilningur að litið skyldi á menningarhúsið sem framlag til nærsamfélagsins. Í kjölfar falls viðskiptabankanna þriggja og Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. uppfyllti Sparisjóður Svarfdæla ekki kröfur um lágmarks eiginfjárhlutfall. Hinn 3. júlí 2009 ákvað stjórn sparisjóðsins að leggja til við bæjarráð Dalvíkurbyggðar að menningarhúsið yrði fært í bækur sparisjóðsins vegna versnandi stöðu hans. Þannig yrði húsið eignfært á kostnaðarverði og þær 300 milljónir króna sem þá höfðu verið færðar út af öðru eigin fé bakfærðar. Allur byggingarkostnaður umfram þá upphæð yrði svo eignfærður og nýr samningur gerður við Dalvíkurbyggð þar sem bæjarfélagið tæki húsið til rekstrar.23

Í hálfsársuppgjöri 2009 var menningarhúsið eignfært í efnahagsreikning og eigið fé hækkað að sama skapi um 300 milljónir króna. Þrátt fyrir þetta var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins neikvætt um 3,6% í árshlutauppgjörinu. Í skýringu með árshlutareikningi kom fram að ekki hefði verið leitað samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir eignfærslunni. Samkvæmt bréfi frá sparisjóðnum til rannsóknarnefndarinnar lýsti Fjármálaeftirlitið sig síðar andsnúið þessari tilhögun og eftir aðkomu Seðlabanka Íslands að endurfjármögnun sjóðsins var menningarhúsið fært aftur úr bókum sjóðsins.24

Með samkomulagi milli sparisjóðsins og Dalvíkurbyggðar 27. janúar 2010 tók sveitarfélagið að sér rekstur menningarhússins og greiðslu gjalda sem jafnan eru innt af hendi af þinglýstum eiganda. Á þeim tíma sem sparisjóðurinn var þinglýstur eigandi hússins, skyldu aðilar beita sér sameiginlega fyrir því að húsið yrði fullgert. Sparisjóður Svarfdæla afhenti Dalvíkurbyggð menningarhúsið Berg að gjöf með útgáfu afsals 22. júní 2010.25

Mikið tap var á rekstri sparisjóðsins á árinu 2008 eða 2,2 milljarðar króna. Eigið fé hrapaði þá niður í 33 milljónir króna vegna gengistaps á fjáreignum og virðisrýrnunar útlána. Í árslok var eiginfjárhlutfallið orðið neikvætt um 10,8%. Árið 2009 varð einnig tap upp á 270 milljónir króna. Þá varð eigið fé sparisjóðsins neikvætt um 237 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 15,2%. Á stjórnarfundi í mars 2009 var ákveðið að sækja um eiginfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli reglna sem settar voru af fjármálaráðherra 18. desember 2008 um framlag til sparisjóða samkvæmt 2. gr. laga nr. 125/2008. Hluti af skilyrðum fjármálaráðuneytisins var að óháð endurskoðunarfélag yrði fengið til að meta eignir og reikninga sparisjóðsins. Slíkt mat á eignum Sparisjóðs Svarfdæla leiddi í ljós 16. júní 2009 að færa þyrfti eigið fé niður um 150 milljónir króna til viðbótar. Þar með þurfti sparisjóðurinn á aðkomu kröfuhafa að halda til að fjárhagsleg endurskipulagning væri möguleg.26

25.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Frá 2005 til 2011 námu útlán Sparisjóðs Svarfdæla um það bil helmingi af heildareignum hans. Lægst var hlutfallið á árinu 2007 en hæst 2011. Útlán jukust á árunum 2006–2008 en fóru þá lækkandi á nýjan leik. Að meðaltali voru þau 60% af eignum sparisjóðsins á árunum 1997–2001 en eftir það lækkaði hlutfallið og var lægst 39% árið 2007. Útlán voru 70% af heildareignum sparisjóðsins árið 2011.

Samkvæmt upplýsingum úr skýrslum Sparisjóðs Svarfdæla um útlán og vanskil hófust gengisbundin útlán ekki hjá sjóðnum fyrr en á fyrsta ársfjórðungi ársins 2007 og voru þau orðin 267 milljónir eða 10% af útlánasafni hans í árslok. Gengisbundin útlán námu 687 milljónum eða 21% af heildarútlánum sparisjóðsins í árslok 2008.

Stærsti hluti útlána Sparisjóðs Svarfdæla á árunum 2005–2011 var í formi skuldabréfa eða að meðaltali um 85% af öllum útlánum. Þar fyrir utan lánaði sjóðurinn aðallega í formi yfirdráttarlána.

Útlán til einstaklinga námu að meðaltali um 69 % af lánasafni sparisjóðsins en lán til atvinnustarfsemi um 31%. Í árslok 2011 hafði hlutfall útlána til einstaklinga hækkað og voru þau um 75% heildarútlána sjóðsins. Af atvinnugreinum lánaði sparisjóðurinn mest til landbúnaðar.

Á árununum 2005–2007 var staðan á afskriftareikningi útlána að meðaltali 3,5% af heildarútlánum sparisjóðsins en niðurfærsluhlutfallið hafði lækkað verulega frá árslokum 2003 þegar það var 8,5%. Framlag í afskriftareikning varð mun meira en áður hafði verið eftir gengisfall íslensku krónunnar og nam tæpum 197 milljónum króna árið 2008, um 415 milljónum króna árið 2009 og 2010 var það tæpar 393 milljónir króna. Í lok árs 2010 var niðurfærsluhlutfallið hæst eða 13,6%.

25.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila

Fjármálaeftirlitið gerði ekki sérstaka eftirlitsskýrslu um Sparisjóð Svarfdæla á árunum 2005–2011. Í skýrslum um innri endurskoðun áranna 2005–2007 var bent á að afkoma sparisjóðsins hefði á árunum þar á undan verið borin uppi af gengishagnaði og söluhagnaði hlutabréfa sem óvarlegt væri að treysta á til lengri tíma. Þriðjungur af heildareignum sjóðsins væru veltuhlutabréf og sparisjóðurinn því viðkvæmur fyrir breytingum á verðbréfamörkuðum þar sem sveiflur í verði bréfanna kæmu yfirleitt fyrr fram en breyting á innláns- og útlánsvöxtum. Í skýrslunum var ítrekað mikilvægi þess að stjórn sjóðsins tæki formlega ákvörðun um með hvaða hætti og í hvaða mæli hún vildi að sjóðurinn stundaði viðskipti með hlutabréf. Í skýrslu KPMG um endurskoðun ársreiknings 2007, frá mars 2008, sagði að þrátt fyrir þessi varnaðarorð hefði hlutabréfaeign sjóðsins aukist verulega á árinu 2007 eða úr rétt rúmum 2 milljörðum króna í tæpa 3,5 milljarða króna, allt í íslenskum hlutafélögum. Í sömu skýrslu kom fram að meðalvextir útlána hefðu farið lækkandi meðan meðalvextir innlána hefðu farið hækkandi. Var svo komið að grunnrekstur sparisjóðsins, útlánastarfsemi og þjónusta var hætt að standa undir sér á árunum 2006 og 2007.27

Í skýrslu um innri endurskoðun ársins 2008 kom fram að vanskil viðskiptamanna sparisjóðsins sem voru með útlán yfir einni milljón króna hefðu numið alls rúmum 85 milljónum króna, en við skoðun í október 2007 hefðu vanskilin verið um 30 milljónir króna. Þá var bent á að heildarfyrirgreiðsla til tíu stærstu viðskiptaaðila sjóðsins hefði hækkað úr um 23% í 35% af heildarútlánum og því hefði samþjöppunaráhætta aukist verulega hjá sjóðnum. Einnig kom fram að sparisjóðurinn hefði veitt Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. 130 milljóna króna ábyrgð án trygginga. Þá hefði skoðun leitt í ljós að skuldbindingar fimm viðskiptamanna væru umfram 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins eða umfram leyfilegt hámark samkvæmt lögum. Þar af hefðu skuldbindingar fjögurra aðila hækkað vegna gengisbreytinga erlendra lána viðkomandi. Bent var á að þegar slíkar aðstæður kæmu upp bæri að gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir þeim og til hvaða aðgerða sparisjóðurinn hygðist grípa. Sambærilega greiningu var ekki að finna í skýrslum innri endurskoðunar vegna áranna 2009 og 2010 þar sem eigið fé sparisjóðsins var orðið neikvætt. Árið 2011 voru fjórar áhættuskuldbindingar yfir 25% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar um hvort sjóðurinn hefði tilkynnt um þær skuldbindingar sem fóru yfir 25% markið, kom fram að eiginfjárgrunnur sparisjóðsins hafi verið neikvæður í árslok 2008 og 2009 og við þær aðstæður ættu viðmiðanir við eigið fé illa við. Aðgerðir Fjármálaeftirlitsins hefðu því beinst að því að sjá til þess að viðkomandi fjármálafyrirtæki kæmi eiginfjárgrunni sínum í lögmætt horf.28

Fjármálaeftirlitið vissi af viðræðum sparisjóðsins við Seðlabanka Íslands á þessum tíma um uppgjör krafna Seðlabankans á hendur sparisjóðnum. Samkomulag milli sparisjóðsins og Seðlabankans var samþykkt á fundi stofnfjárhafa sjóðsins í júní 2010, en með því varð eiginfjárgrunnur sparisjóðsins aftur jákvæður. Í skýrslu sparisjóðsins til Fjármáleftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar í lok annars og þriðja ársfjórðungs 2011 kom hins vegar í ljós að fjórir aðilar voru með áhættuskuldbindingar yfir 25% hámarkinu. Fjármálaeftirlitið sendi sparisjóðnum fyrirspurn vegna þessa og í svari hans kom meðal annars fram að sparisjóðurinn væri í söluferli sem meðal annars miðaði að því að auka eiginfjárgrunn hans.29 Samningur um kaup Landsbankans hf. á sparisjóðnum var gerður á fyrsta ársfjórðungi 2012, með fyrirvörum, meðal annars um samþykki viðeigandi stjórnvalda. Fallið var frá kaupsamningnum í september 2012 og samtímis var eiginfjárgrunnur sparisjóðsins styrktur með aðkomu Tryggingasjóðs sparisjóða.

25.2.2 Útlánareglur

Reglur um útlán í Sparisjóði Svarfdæla var einkum að finna á tveimur stöðum, annars vegar í reglum sjóðsins um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra og hins vegar útlánareglum Sparisjóðs Svarfdæla. Báðar reglurnar voru samþykktar af stjórn sparisjóðsins 19. desember 2003 og settar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og með vísan til þágildandi reglna nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar. Reglurnar um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra voru endurnýjaðar í lok árs 2007 en ekki útlánareglurnar, þrátt fyrir tilkomu nýrra reglna um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum nr. 216/2007.

Meginreglur um útlán sparisjóðsins var að finna í 2. gr. útlánareglnanna. Þar kom fram að markmið með útlánum og ábyrgðarveitingum væri að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri sjóðsins og að viðhalda traustri eiginfjár- og lausafjárstöðu ásamt því að veita sem besta þjónustu. Við ákvörðun um fyrirgreiðslu til viðskiptamanna bar að gæta þess að heildarfyrirgreiðsla viðkomandi aðila væri í hæfilegu hlutfalli við eigið fé sparisjóðsins30 með hliðsjón af þeim tryggingum sem til staðar væru og fjárhag viðskiptaaðilans. Sama gilti um heildarfyrirgreiðslu til fleiri en eins aðila sem væru svo fjárhagslega tengdir að með tilliti til útlánaáhættu yrði að skoða skuldbindingar þeirra við sparisjóðinn í einu lagi. Samkvæmt útlánareglunum mátti heildarskuldbinding eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila aldrei vera umfram 25% af eigin fé sparisjóðsins.

Engin ákvæði voru í útlánareglum Sparisjóðs Svarfdæla um lágmarks tryggingaþekju mismunandi veðandlaga en samkvæmt reglunum bar að jafnaði að taka fullnægjandi tryggingar. Þess skyldi gæta við ákvörðun um lánveitingar eða ábyrgðir að fram færi raunmat á tryggingarandlagi og að gögn því til staðfestingar yrðu varðveitt. Heimilt var að veita undanþágu frá tryggingatöku ef upplýsingar sem fyrir lágu sýndu að ekki væri þörf sérstakra trygginga enda væri fylgst með afkomu og fjárhag viðskiptaaðilans á meðan skuldbinding varði. Ekki var sérstaklega skilgreint hvaða upplýsinga skyldi aflað. Þá var einnig heimilt að veita lán án trygginga ef um var að ræða smávægilega fyrirgreiðslu miðað við eigið fé sparisjóðsins og að fyrir lægi fullnægjandi vitneskja um greiðslugetu viðskiptaaðilans. Í útlánareglum var þó hvorki til skilgreining á því hvað teldist vera smávægileg fyrirgreiðsla né hvaða upplýsingar teldust fullnægjandi.

Lánveitingar og önnur fyrirgreiðsla við atvinnufyrirtæki átti að taka mið af viðskiptum þeirra við sparisjóðinn ásamt upplýsingum um rekstur þeirra og fjárhag. Eftir því sem unnt væri, skyldi aflað ársreikninga, rekstrar- og greiðsluáætlana og annarra fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptavinum og úr þeim skyldi unnið á skipulegan hátt.

Engin útlánanefnd var í sparisjóðnum heldur tók sparisjóðsstjóri ákvarðanir um lánveitingar og ábyrgðarveitingar ef heildarskuldbinding viðkomandi viðskiptamanns og fjárhagslega tengdra aðila var innan við 10% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Það þýddi að útlánaheimild hans á tímabilinu frá janúar 2005 fram á mitt ár 2008 var á bilinu 32 til 43 milljónir króna.

Ef heildarskuldbinding við einn aðila eða fjárhagslega tengda aðila fór fram úr 10% af bókfærðu eigin fé sjóðsins þurfti samþykki sparisjóðsstjórnar. Var því ákveðið misræmi milli heimilda sparisjóðsstjóra og stjórnar, þar sem annars vegar var vísað til 10% af eiginfjárgrunni og hins vegar til 10% af bókfærðu eigin fé. Heimild staðgengils sparisjóðsstjóra var sú sama og sparisjóðsstjóra samkvæmt útlánareglunum. Þá átti sparisjóðsstjóri að halda skrá yfir útlánaheimildir starfsmanna og breytingar á skránni þurftu samþykki hans. Í reglunum var ekki að finna ákvæði um hámark lánveitinga til einnar atvinnugreinar til dreifingar á áhættu.

Grunnheimildin um útlánareglur sparisjóðsins fyrir tímabilið 2005–2011 voru reglur Sparisjóðs Svarfdæla um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra sem fyrst voru settar 19. desember 2003 en uppfærðar með nýjum reglum 13. febrúar 2007. Reglurnar voru settar með vísan til 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2001 um fjármálafyrirtæki, sem og samþykkta sparisjóðsins, og tóku til verkaskiptingar stjórnar og sparisjóðsstjóra. Stjórnarfundir, sem sparisjóðsstjóri sat, skyldu vera haldnir einu sinni í mánuði að jafnaði og var útlánaeftirlit á ábyrgð sparisjóðsstjórnar. Svolítill munur var á reglunum frá 2003 og 2007 um það hvenær reglubundin verkefni skyldu tekin fyrir og með nýrri reglunum var þeim málefnum fjölgað sem taka skyldi fyrir á stjórnarfundum. Samkvæmt reglunum frá 2003 voru ákveðin mál ýmist tekin fyrir á eins, þriggja eða tólf mánaða fresti, en frá og með 2007 voru mál tekin fyrir að minnsta kosti á þriggja eða tólf mánaða fresti. Samkvæmt reglunum frá 2007 skyldu teknar fyrir skýrslur um útlánaáhættu á minnst þriggja mánaða fresti sem meðal annars fælu í sér yfirlit yfir skuldbindingar stærstu viðskiptaaðila sjóðsins, sundurliðaðar eftir útlánaformum, ásamt vanskilum, en stærstu viðskiptaaðilarnir voru þeir sem voru með heildarskuldbindingar sem námu 25 milljónum króna eða meira. Þá skyldi einnig lagt fram yfirlit yfir lán veitt milli stjórnarfunda, auk yfirlits yfir lánveitingar eða ábyrgðir til einstakra aðila sem námu 25 milljónum króna eða meira. Leggja skyldi fram skýrslur um lausfjár-, rekstrar- og markaðsáhættu, um vanskil eftir einstökum útlánaformum og öll afgreidd viðskiptaerindi stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir voru í forsvari fyrir.

Í reglunum kom fram að Fjármálaeftirlitið hefði veitt sjóðnum undanþágu frá rekstri endurskoðunardeildar í samræmi við leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2003. Skilyrði þess var að gerður yrði samningur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila um árlega úttekt á innra eftirliti. Þá var sérstaklega tekið fram í reglunum að innra eftirlit væri hluti af skipulagi sparisjóðsins og þáttur í áhættu- og eftirlitskerfi hans og að sparisjóðsstjórninni bæri að afgreiða tillögur sem undirbúnar væru af sparisjóðsstjóra um innra eftirlit sjóðsins.

Í starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra voru hæfisskilyrði stjórnarmanna og sparisjóðsstjóra og einnig ákvæði um hæfi stjórnarmanna til afgreiðslu einstakra mála. Skýrt var kveðið á um meðferð mála sem snertu viðskipti stjórnarmanna sjálfra og fyrirtækja á þeirra vegum sem og þeirra sem teldust venslaðir þeim eða samkeppnisaðilar þeirra. Stjórn sparisjóðsins þurfti einnig að samþykkja þá samninga sem sparisjóðurinn gerði við sparisjóðsstjóra.

Í starfsreglum sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra var vísað til útlánareglna sem taka áttu til framkvæmdar lánveitinga og ábyrgðir, og skyldu mörk heimilda sparisjóðsstjóra og annarra starfsmanna auk fleiri mikilvægra atriða sem snertu útlánareglur sjóðsins vera þar að finna. Starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra heimiluðu sparisjóðsstjóra að veita öðrum starfsmönnum sjóðsins umboð til að fara með afmarkaðar heimildir starfsskyldu sinnar að fengnu samþykki stjórnar. Á hinn bóginn skyldi sparisjóðsstjórn ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra væri verulegt miðað við stærð sparisjóðsins, en um mörkin var nánar kveðið á í útlánareglum sjóðsins.

Starfsreglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána voru frá desember 2003. Þær voru settar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana sem og samþykkta sparisjóðsins. Markmið með reglunum var að tryggja fagleg og vönduð vinnubrögð við mat á útlánum sparisjóðsins og að færðar væru í afskriftareikning útlána nægilegar fjárhæðir með hliðsjón af niðurstöðu slíks mats. Samkvæmt reglunum skyldu þeir lánþegar koma til skoðunar við mat á sérstökum afskriftarframlögum sem eftirfarandi atriði ættu við um: a) vanskil í 3 mánuði eða lengur, b) greiðslustöðvun, c) árangurslaust fjárnám, d) gjaldþrot, e) beiðni um nauðasamninga eða f) aðrar aðstæður sem skertu gjaldþol eða greiðslugetu og gerðu það líklegt að ekki yrði staðið að fullu við lánssamning.

Fjárhæð sérstaks framlags í afskriftareikning útlána skyldi metið með tilliti til heildarskuldbindinga lánþega og áætlaðs verðmætis tryggingarandlaga.

Endanlegar afskriftir útlána skyldu ákveðnar þegar eitthvert af eftirtöldum skilyrðum væri uppfyllt: a) við lok gjaldþrotaskipta, b) við skuldaeftirgjöf eða niðurfærslu skulda, eða c) við árangurslaust fjárnám þegar fyrir lægi mat lögmanns Sparisjóðs Svarfdæla um að frekari innheimtuaðgerðir myndu ekki skila árangri.

25.2.3 Stærstu áhættuskuldbindingar

Rannsóknarnefndin valdi úrtak stærstu lántakenda sparisjóðsins til sérstakrar skoðunar og greiningar til þess að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins og ástæður fyrir afskriftum útlána. Kannað var hvort útlánastarfsemi sparisjóðsins hefði verið í samræmi við reglur sjóðsins og gildandi lög og reglur. Úrtakið var valið með hliðsjón af stærð áhættuskuldbindinga við sparisjóðinn, auk þess sem skoðuð voru sérstaklega lán þar sem sparisjóðurinn færði háar afskriftir.31

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt reglum nr. 216/2007 er ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum álíka skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.32 Í úrtaki rannsóknarnefndarinnar eru lántakendur sem voru tilgreindir sem stærstu áhættuskuldbindingarnar í ársfjórðungsskýrslum sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2008–2011.

Auk skoðunar á stórum áhættuskuldbindingum eru í úrtakinu lántakendur þar sem fært var sérgreint framlag í afskriftareikning á árunum 2008–2011. Eins og sést í töflu 10 um hlutfall afskrifta af útlánasafninu jukust afskriftir hjá Sparisjóði Svarfdæla frá árinu 2009. Úrtakið nær frá 12,8% til 27,4% útlánasafns og 0% til 91,3% af sérgreindum afskriftaframlögum eftir því til hvaða árs er litið. Úrtakið sem er hér til umfjöllunar nemur aðeins um 20% af útlánasafni sparisjóðsins og er ástæðan sú að lán til einstaklinga voru að meðaltali um 67% af heildarútlánum á árunum 2007–2011.

Þrír af fimm stærstu skuldurum sjóðsins fengu lánað fyrir rekstri í grunnatvinnuvegum, þ.e. sjávarútvegi og landbúnaði, með veði í rekstrareignum Í úrtakinu voru tveir einstaklingar og fjórir lögaðilar, þar af tvö útgerðarfélög, félag sem seldi sjávarafurðir og stundaði ráðgjafarstarfsemi og fjárfestingarfélag. Allir lántakendurnir nema fjárfestingarfélagið voru innan starfssvæðis sparisjóðsins.

Einstaklingarnir tveir voru bændur sem fengu lán í erlendum myntum þó tekjur þeirra væru eingöngu í íslenskum krónum. Lánin voru veitt til kaupa á jörðum og mjólkurkvóta með veði í rekstareignum. Aðeins með annarri lánsumsókninni fylgdi mat á hugsanlegu söluverði jarðarinnar sem gert var af starfsmanni bókhaldsfyrirtækis í nóvember 2007. Annar lántakendanna var stjórnarmaður í sparisjóðnum og þurfti á árinu 2009 að færa 15 milljóna króna framlag í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga hans.

Útlán til stærstu skuldara Sparisjóðs Svarfdæla tvöfölduðust á árinu 2008 vegna lækkunar á gengi íslensku krónunnar en á sama tíma rýrnaði eigið fé sparisjóðsins. Stór hluti afskriftareiknings Sparisjóðs Svarfdæla frá og með árinu 2008 skýrðist af efasemdum um lögmæti gengistryggðra lána. Fimm stærstu skuldbindingar Sparisjóðs Svarfdæla á árinu 2008 námu samtals 732 milljónum króna eða um 25% af útlánasafninu. Í árslok 2009 höfðu um 299 milljónir króna verið færðar á sérgreindan afskriftareikning vegna þessara sömu lána en það voru rúm 90% af heildarafskriftum á sérgreinda aðila.

Útgerðarfélögin fengu lán í erlendum myntum og yfirdráttarlán til að fjárfesta í rekstri sínum. Þá veitti sparisjóðurinn einnig fiskmarkaðsábyrgðir. Í einu tilviki var fjárveiting upp á um 100 milljónir króna til kaupa á bát og kvóta sem samþykkt var af stjórn sparisjóðsins gegn því að veðhlutfallið væri ekki hærra en 65%. Ekkert mat virðist hins vegar hafa legið fyrir á verðmæti kvótans. Ekki er þó talin ástæða til að vefengja tryggingarverðmætið. Ákveðið var að selja bát og kvóta en sparisjóðurinn lagði fyrir 170 milljónir króna í sérgreindan afskriftareikning í árslok 2010, sem má að mestum hluta rekja til falls íslensku krónunnar. Í öðru tilviki útgerðarfélags var skuldbindingin tryggð með tryggingarvíxlum og sjálfskuldarábyrgð eiganda án þess að fyrir lægi mat á raungildi trygginga. Gerðar voru athugasemdir við þetta í skýrslum um innri endurskoðun sparisjóðsins á árunum 2007–2010 og bent á nauðsyn þess að tryggingar væru metnar og að sparisjóðurinn aflaði sér frekari trygginga. Sparisjóðurinn fékk viðbótartryggingu með veði í afurðum og rekstrarvörum félagsins á árinu 2010.

Einkahlutafélag, sem seldi sjávarafurðir en fékkst einnig við verðbréfaviðskipti, fékk tvö eingreiðslulán í erlendri mynt árið 2007, samtals að jafnvirði 65 milljóna króna, til að kaupa hlutabréf í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og voru sömu hlutabréf lögð að veði. Ekki var að sjá að fyrir hafi legið mat á markaðsvirði bréfanna þegar lánin voru veitt. Þó var á árinu 2009 aukið við veðin 30 milljónum að nafnvirði í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Önnur veð voru ekki til tryggingar skuldinni. Skuldbindingin hækkaði árið 2008 við gengisfall íslensku krónunnar og bréfin féllu mikið í verði við hræringar á íslenskum fjármálamarkaði haustið 2008. Þurfti sparisjóðurinn því að færa talsverðar fjárhæðir í sérgreindan afskriftareikning vegna skuldbindinga félagsins á árunum 2009 og 2010. Á árinu 2011 var lánum félagsins myntbreytt í íslenskar krónur en töluverður hluti þeirra endanlega afskrifaður.

Rannsóknarnefndin taldi ástæðu til þess að gera grein fyrir viðskiptum sparisjóðsins við Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og þá sérstaklega hvort unnið hafi verið í samræmi við lög og reglur og hvernig afskriftarþörf var metin. Að öðru leyti gaf rannsókn á öðrum lánahópum í úrtakinu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Kista – fjárfestingarfélag ehf.

Sparisjóður Svarfdæla átti 7,1% í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. í árslok 2007 en félagið hafði skuldsett sig til kaupa á bréfum í Exista hf. með veði í þeim bréfum. Á árinu 2008, þegar gengi hlutabréfa í Exista hf. fór að síga og virði trygginga að baki lánum Kistu – fjárfestingarfélags ehf. rýrnaði að sama skapi, óskuðu lánardrottnar Kistu – fjárfestingarfélags ehf. eftir því að eigendur félagsins gengju í ábyrgð vegna skulda þess.

Hinn 4. febrúar 2008 undirritaði stjórn Sparisjóðs Svarfdæla tvær 100 milljóna króna sjálfskuldarábyrgðir til handa Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf. vegna skulda Kistu – fjárfestingarfélags ehf., samtals 200 milljónir króna. Ábyrgðirnar voru samþykktar á stjórnarfundi sparisjóðsins sama dag og áttu þær að gilda til 22. febrúar 2008. Ábyrgðin gagnvart Kaupþingi banka hf. rann út en 20. febrúar 200833 undirritaði stjórn sparisjóðsins nýja 100 milljóna króna ábyrgðaryfirlýsingu vegna skulda Kistu – fjárfestingafélags ehf. við Glitni banka hf. og gilti sú ábyrgð til 15. apríl 2008.

Þá gekkst Sparisjóður Svarfdæla einnig í 80 milljóna króna ábyrgð fyrir skuldum Kistu – fjárfestingafélags ehf. við Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf. með undirritun stjórnar á ábyrgðaryfirlýsingu 31. mars 2008. Ábyrgðin gilti til 15. júlí 2008. Sama dag, 31. mars 2008, undirritaði stjórnin jafnframt 132 milljóna króna ábyrgðaryfirlýsingu gagnvart Glitni banka hf. vegna skulda Kistu – fjárfestingarfélags ehf. og gilti sú ábyrgð til 1. júlí 2008. Þessar ábyrgðir voru samþykktar á stjórnarfundi 14. apríl 2008. Á skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar 31. mars 2008 kom fram 132 milljóna króna áhættuskuldbinding gagnvart Glitni banka hf. sem nam þá 13,7% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.34 Ábyrgðin gagnvart Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. kom ekki fram á þeirri skýrslu.

Ábyrgðirnar tvær voru framlengdar 25. júní 2008 og var gildistími ábyrgðar gagnvart Glitni banka hf. til 30. desember 2008 en gagnvart Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. til 15. október 2008. Framlengingarnar voru samþykktar á stjórnarfundi sparisjóðsins sama dag. Þessar ábyrgðir koma ekki fram á skýrslum sparisjóðsins um stórar áhættuskuldbindingar 30. júní 2008 en þær námu þá tæpum 49% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.35 Á sama tíma var ein önnur skuldbinding sparisjóðsins stærri en 25% af eiginfjárgrunni. Skuldbinding vegna ábyrgðanna var utan efnahags í árshlutauppgjöri ársins 2008.

Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. barst tilkynning frá Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka hf. 8. október 2008 um gjaldfellingu lánasamnings og fullnustu gjaldfallinna krafna. Í þeirri tilkynningu var vísað til sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsinga Sparisjóðs Svarfdæla og annarra eigenda félagsins frá því í júní 2008 til tryggingar á öllum skuldum og skuldbindingum Kistu – fjárfestingarfélags ehf. við Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf. Formlegt innheimtuferli væri hafið til þess að fá fullnustu á gjaldfallinni fjárhæð og yrði í því skyni gengið að tryggingum og ábyrgðum. Í bréfi fjárfestingarbankans til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 21. október 2008 kom fram að félögin hefðu komist að samkomulagi um að gegn greiðslu fjárhæða sem svöruðu til veittra ábyrgða og því að Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hf. leysti til sín handveðsett bréf í Exista hf. væri lán Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka hf. til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. uppgert. Staðfest var að umræddar greiðslur og innlausn hefðu farið fram. Hlutur Sparisjóðs Svarfdæla í þessu uppgjöri voru 80 milljónir króna sem voru færðar á afskriftir útlána í árslok 2008.

Í skýrslu Sparisjóðs Svarfdæla um stórar áhættuskuldbindingar til Fjármálaeftirlitsins frá 31. október 2008 kom fram 130 milljóna króna ábyrgð vegna Kistu – fjárfestingarfélags ehf. og nam sú ábyrgð 15,1% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins. Þessi ábyrgð hafði í sambærilegri skýrslu sem miðaðist við 31. mars 2008 verið færð sem áhættuskuldbinding á Glitni banka hf. Ábyrgð Sparisjóðs Svarfdæla gagnvart Glitni banka hf. vegna skulda Kistu – fjárfestingarfélags ehf. rann út án þess að reyndi á hana. Kista – fjárfestingarfélag ehf. var tekin til gjaldþrotaskipta 20. febrúar 2013.

25.2.4 Lán til stjórnarmanna og starfsmanna

Starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra fólu stjórn sjóðsins að setja reglur um viðskipti starfsmanna hans að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, og mættu þær koma fram í almennum útlánareglum. Þar kom fram að sparisjóðsstjóra var heimilt að veita starfsmönnum lán enda væri slík fyrirgreiðsla á engan hátt frábrugðin sambærilegri fyrirgreiðslu til annarra viðskiptavina. Sparisjóðsstjóra bar samt að gera stjórn grein fyrir fyrirgreiðslunni á fyrsta stjórnarfundi á eftir og skyldi hún færð inn í gerðabók. Í starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra kom ennfremur fram að samningar sparisjóðsins um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við sparisjóðsstjóra væru háðir samþykki stjórnar og skyldu líka bókaðir í gerðabók. Ákvæðið gilti einnig um maka sparisjóðsstjóra. Í útlánareglum sjóðsins var sérstaklega tiltekið að lánveitingar til stjórnarmanna þar sem heildarskuldbinding þeirra og maka færi yfir 5 milljónir króna skyldi leggja fyrir stjórn sjóðsins til samþykktar.

Stjórnum sparisjóða bar að setja sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi fjallað um framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt bar sparisjóðum að skila hálfsárslega til Fjármálaeftirlitsins skýrslu um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila, það er stjórnarmanna, maka þeirra, barna og félaga tengdra þeim, yfir 10 milljónum króna. Tekið var fram í starfsreglum stjórnar að þess skyldi sérstaklega gætt að ekki sköpuðust hagsmunaárekstrar við fyrirgreiðslu til þessara aðila þannig að þeir nytu stöðu sinnar umfram aðra viðskiptamenn sparisjóðsins.36 Viðskiptaerindi stjórnarmanna og fyrirtækja sem þeir væru í forsvari fyrir skyldu lögð fyrir stjórn sparisjóðsins til samþykktar eða synjunar til að tryggja að stjórnarmenn gætu ekki í krafti stöðu sinnar komið á viðskiptum sem ella hefðu ekki verið samþykkt. Heimilt var að setja skýr töluleg viðmið í útlánareglum sparisjóðsins um undanþágu frá þessu.

Samkvæmt leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2006,37 um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga um fjármálafyrirtæki, átti sparisjóðurinn að leggja fyrir innri endurskoðanda að fara með reglubundnum hætti yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og bera þær saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina. Rannsóknarnefndin kannaði hvort aðilar venslaðir Sparisjóði Svarfdæla38 hefðu notið óvenjulegrar lánafyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Athugunin var framkvæmd með þeim hætti að kennitölur umræddra aðila voru keyrðar saman við lánagrunn sparisjóðsins.39 Alls voru 18 venslaðir aðilar með fyrirgreiðslur hjá Sparisjóði Svarfdæla á árunum 2005–2011 en ekki verður séð að þær hafi verið óvenjulegar. Eitt venslað félag var með heildarfyrirgreiðslu yfir 15 milljónum króna á tímabilinu, og einn stjórnarmaður og einn maki stjórnarmanns voru með fyrirgreiðslu lítillega yfir 10 milljónum króna á tímabilinu. Einn stjórnarmaður og eigandi stofnfjár var með háa fyrirgreiðslu á tímabilinu eða um 56 milljónir króna í erlendum myntum í byrjun árs 2008 sem í lok sama árs stóðu í 104 milljónum króna. Á árinu 2011 voru erlendu lánin umreiknuð og rúmar 64 milljónir króna afskrifaðar.

Samtals voru 35 starfsmenn hjá Sparisjóði Svarfdæla á árunum 2005–2011. Á því tímabili voru 26 starfsmenn með lán frá sparisjóðnum. Útlán til starfsmanna námu samtals frá tæpum 14 milljónum króna til 20 milljóna króna í árslok áranna 2005–2010. Þar af var einn starfsmaður með útlán sem nam að meðaltali um 11 milljónum króna á sömu tímabilum. Rannsóknarnefndin gerir ekki athugasemdir við lán til starfsmanna Sparisjóðs Svarfdæla á þessum tíma.

25.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Sparisjóður Svarfdæla setti sér ekki sérstakar reglur um fjárfestingar en í reglum um störf sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra var fjallað um mörk fjárfestingarheimilda. Þar segir að um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til fjárfestingar í verðbréfum fari samkvæmt reglum stjórnar sparisjóðsins um áhættustýringu og ákvörðun stjórnarinnar hverju sinni. Stjórn skyldi einnig fjalla um meiriháttar eða óvenjulegar fjárfestingar, auk fjárfestinga í öðrum fasteignum en fullnustueignum. Í síðari útgáfu reglna um sama efni frá árinu 2007 var ekki getið um aðrar takmarkanir á fjárfestingum en þær að fjárfestingaráform sem teldust meiriháttar eða óvenjuleg skyldu borin upp í stjórn. Í svari við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar til sparisjóðsstjóra kom fram að ekki hefðu verið settar sérstakar reglur um áhættustýringu aðrar en þær sem sneru að útlánum.

Árið 2005 nam samanlögð verðbréfaeign allra minni sparisjóða 157% af samanlögðu eigin fé þeirra en mest varð hún 401% í árslok 2008.40 Verðbréfaeign Sparisjóðs Svarfdæla var á bilinu 82–152% af eigin fé hans frá 2005 til 2011, ef frá eru talin árin 2008 og 2009 þegar eigið fé lækkaði mikið. Árið 2008 voru fjáreignir tæplega 3.500 prósent af eigin fé sparisjóðsins en árið 2009 var eigið fé neikvætt og hlutfall fjáreigna af því ekki marktækt. Hjá Sparisjóði Svarfdæla var hlutfall fjáreigna af eignum mun hærra en sama hlutfall hjá minni sparisjóðunum í heild. Stærsta fjáreign Sparisjóðs Svarfdæla var í Exista hf., bæði í beinni eign og í gegnum Kistu – fjárfestingarfélag ehf. Töluvert tap varð á þessum eignum árin 2008 og 2009 og minnkaði hlutfall fjáreigna í eignasafni sparisjóðsins vegna þess.

Fjáreignir Sparisjóðs Svarfdæla voru nær eingöngu í hlutabréfum og verðbréfum með breytilegum tekjum. Árið 2001 hafði sparisjóðurinn selt eignarhluti í Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. og Kaupþingi hf. með 59 milljóna króna hagnaði. Árið 2002 seldi sparisjóðurinn hlut sinn í SP-Fjármögnun hf. og hagnaðist um 19 milljónir króna á því og ári síðar seldi sjóðurinn hluti í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og hagnaðist við það um 48 milljónir króna. Árið 2004 hafði sparisjóðurinn 102 milljóna króna söluhagnað, einkum af bréfum Kaupþings Búnaðarbanka hf., og gengishagnaður ársins vegna flutnings hlutabréfa sparisjóðsins í Meiði ehf. (síðar Exista hf.) í veltubók var 59 milljónir króna á sama ári.

Á árinu 2005 voru öll bréf Sparisjóðs Svarfdæla í Exista hf. færð í veltubók en helmingur eignarhlutarins hafði verið í fjárfestingarbók. Bókfærðar tekjur vegna þessa voru 306 milljónir króna sem var uppistaða í gengishagnaði sjóðsins það ár. Sama ár seldi sparisjóðurinn hluti í Alþjóða líftryggingafélaginu hf. og Kaupþingi banka hf. og hagnaðist um 61 milljón króna á því. Í árslok 2005 voru stærstu verðbréfaeignir sparisjóðsins í Exista hf., Sparisjóðabanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og VBS Fjárfestingarbanka hf. Sparisjóðurinn fjárfesti einnig í verðbréfasjóðum og átti 302 milljónir króna í hlutdeildarskírteinum þeirra í lok árs 2005.

Verðbréfaeignir sparisjóðsins hækkuðu mikið árin 2006 og 2007, bæði vegna verðhækkana á hlutabréfamarkaði sem höfðu áhrif á skráð bréf í eigu sparisjóðsins og breytinga á uppgjörsaðferðum einstakra eigna. Þannig hækkaði virði Sparisjóðabankans í bókum sparisjóðsins töluvert á árinu 2007 vegna þess að hætt var að færa hann sem hlutdeildarfélag og farið að færa hann á gangvirði. Hlutdeild sparisjóðsins í góðri afkomu Sparisjóðabankans árin 2005 og 2006, ásamt hlutafjáraukningu í bankanum, juku einnig bókfært virði bréfanna. Á fundi 13. desember 2007 ákvað stjórn sparisjóðsins að kaupa hlutabréf í Sparisjóðabanka Íslands hf. fyrir tæpar 427 milljónir króna. Sjóðurinn átti fyrir um 18,3 milljónir hluta í Sparisjóðabankanum en átti eftir þetta 33,5 milljónir hluta. Við skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni sagði sparisjóðsstjóri að hlutdeildarskírteini sparisjóðsins í verðbréfasjóðum Rekstrarfélags Spron hf. hefðu verið seld til þess að fjármagna þessi hlutafjárkaup.41 Þess má geta að fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla, Friðrik Friðriksson, sat í stjórn Sparisjóðabankans frá 2005 til 17. október 2008.

Í árslok 2006 átti Sparisjóður Svarfdæla um 809 milljónir króna að bókfærðu virði í Exista hf. en þá hafði sparisjóðurinn flutt hluta eignar sinnar í félaginu í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Lítið er fjallað um Exista hf. í stjórnarfundargerðum Sparisjóðs Svarfdæla frá árinu 2005 nema hvað hlutafjáraukning í Exista hf. var tekin fyrir í stjórninni 15. desember 2005. Var þá lagt fyrir erindi um hækkun á hlutafé um 2,6 milljarða króna á genginu 7,5492 eða samtals hækkun um 20 milljarða króna. Stjórn Sparisjóðs Svarfdæla samþykkti þátttöku í þessari hlutafjáraukningu og við það jókst hlutur sparisjóðsins í Exista um 109,7 milljónir króna.

Hinn 29. nóvember 2006 kynnti sparisjóðsstjóri Kistu – fjárfestingarfélag ehf. fyrir stjórn sparisjóðsins. Á fundinum fékk hann umboð stjórnar til þess að leggja í félagið annað tveggja: eina milljón króna eða 25% af hlutabréfum sparisjóðsins í Exista hf. í skiptum fyrir hlutabréf í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Við skýrslutökur rannsóknarnefndarinnar af fyrrum sparisjóðsstjóra gat hann ekki staðfest hvort lögð hefði verið fram ein milljón króna eða hlutabréf. Af öðrum gögnum má þó sjá að sparisjóðurinn lagði um 12 milljónir hluta í Exista hf. inn í Kistu – fjárfestingarfélag ehf. 22. desember 2006 og átti þá 7,97% í Kistu. Sama dag tók Kista 3,1 milljarð króna að láni frá Kaupþingi banka hf. til þess að kaupa bréf í Exista hf. af eigendum sínum, samtals um 201 milljón hluta. Í þeim kaupum voru fá bréf keypt af Sparisjóði Svarfdæla. Hlutur sparisjóðsins í Kistu á árunum 2007 og 2008 var 7,01% samkvæmt ársreikningi Kistu fyrir sömu ár.42 Friðrik Friðriksson sat í stjórn Kistu – fjárfestingarfélags ehf.

Á stjórnarfundi Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 22. mars 2007 var samþykkt hlutafjáraukning í félaginu og sex dögum síðar samþykkti stjórn Sparisjóðs Svarfdæla að leggja 25% af eign sparisjóðsins í Exista hf. inn í Kistu. Á fundi 13. júní 2007 samþykkti stjórn sparisjóðsins síðan að færa öll bréf sín í Exista hf. yfir í Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og seldi sparisjóðurinn bréf sem námu um það bil 940 milljónum króna að markaðsvirði (23,9 milljónir hluta) 25. júlí 2007. Kista hafði þá tekið að láni 16,4 milljarða króna frá Glitni, Kaupþingi og Straumi-Burðarási á árinu 2007, til viðbótar þeim 3,1 milljarði sem Kaupþing hafði lánað Kistu á árinu 2006.43

Gengi hlutabréfa í Exista hf. náði hámarki um mitt ár 2007 en bréf í félaginu höfðu verið lögð að veði fyrir lánum Kistu – fjárfestingarfélags ehf. Lánveitendur Kistu fóru fram á auknar tryggingar í kjölfar virðisrýrnunar fyrirliggjandi trygginga í byrjun árs 2008. Á stjórnarfundi Kistu – fjárfestingarfélags ehf. í janúar 2008 var lagt fram minnisblað um að eigið fé félagsins væri uppurið og lögð fram tillaga um hlutafjáraukningu. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Svarfdæla 17. janúar 2008 var fyrirhuguð hlutafjáraukning Kistu kynnt stjórninni og var þá gert ráð fyrir að hlutur Sparisjóðs Svarfdæla í aukningunni yrðu 705,6 milljónir króna. Heildarframlag Sparisjóðs Svarfdæla í hlutafjáraukningunni varð hins vegar tæpar 778 milljónir króna eða rúmlega 1/3 af eigin fé sparisjóðsins í lok árs 2007.

Sparisjóður Svarfdæla fjármagnaði eiginfjárframlag sitt í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. að megninu til með sölu hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóði SPRON en tók lán fyrir hluta aukningarinnar, að fjárhæð 255 milljónir króna, hjá Kaupþingi 19. febrúar 2008. Lánið var veitt til 15. júní 2008 en var þá framlengt til 15. júní 2009. Álagið á fyrri lánasamningi var 2,75% en varð 3,5% við framlenginguna. Þetta lán var í raun skuldskeyting láns Kistu – fjárfestingarfélags ehf. yfir á sparisjóðinn og kom í stað ábyrgðarinnar til Kaupþings banka hf. sem sparisjóðurinn hafði veitt.

Önnur stór eign Sparisjóðs Svarfdæla var hlutur í VBS Fjárfestingarbanka hf. Sparisjóðurinn hafði, líkt og margir aðrir sparisjóðir, átt hlutafé í FSP hf. en varð hluthafi í VBS Fjárfestingarbanka hf. við samruna þessara tveggja félaga. Sparisjóðurinn tók þátt í tveimur hlutafjáraukningum í FSP hf. á árunum 2005 og 2006 og átti 4,4% hlut í félaginu í árslok 2006. Hlutur sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka hf. nam tæplega 2% frá 2007 til 2009. Á árinu 2007 kom upp hugmynd um að selja Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. allt hlutafé sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka hf. og FSP Holding ehf. og var hún samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins í desember það ár. Þau áform gengu þó ekki eftir. Á árinu 2008 gerði Sparisjóðabanki Íslands hf. (Icebank hf.) tilboð í bréf Sparisjóðs Svarfdæla í VBS Fjárfestingarbanka hf. og var tilboðið kynnt fyrir stjórn sparisjóðsins en ekkert varð þó af sölunni. Gengistap sparisjóðsins af VBS Fjárfestingarbanka hf. á árunum 2008 og 2009 nam rúmlega 280 milljónum króna.

Stærsta nýfjárfesting Sparisjóðs Svarfdæla á árunum 2005–2011 var í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Á stjórnarfundi sparisjóðsins 27. maí 2005 var tekið til umfjöllunar bréf Halldórs Jóhannssonar um stofnun fjárfestingarbanka á Akureyri, sem síðar varð Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. Í bréfinu kom fram að stofnaðilar yrðu KEA, Íslensk verðbréf hf., sparisjóðir á Norðurlandi og lífeyrissjóðir á landsbyggðinni. Í mars 2006 undirritaði stjórn sparisjóðsins viljayfirlýsingu um stofnun fjárfestingarbanka með aðsetur á Akureyri og skuldbatt stjórnin sig til þess að leggja fram 100 milljónir króna, en síðar í mánuðinum var sú upphæð hækkuð í 125 milljónir, eða 27,8% af hlutafé bankans. Hinn 25. september 2006 samþykkti stjórnin svo að framlag Sparisjóðs Svarfdæla yrði allt að 260 milljónir króna. Í árslok 2006 átti Sparisjóður Svarfdæla 27,8% í Saga Capital.

Á árinu 2007 var hlutafé Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. aukið um 10 milljarða króna og fleiri fjárfestar keyptu sig inn í félagið, en Sparisjóður Svarfdæla jók hlutafé sitt um 46 milljónir króna á árinu 2007.44 Í lok árs 2007 átti Sparisjóður Svarfdæla 3,1% í fjárfestingarbankanum. Jóhann Antonsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, var spurður að því fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra hvers vegna sparisjóðurinn hefði ekki bætt við sig hlutafé í Saga Capital í samræmi við eignarhlut sinn fyrir hlutafjáraukninguna og svaraði því til að þetta hefði verið það magn hlutafjár sem fulltrúum sparisjóðsins hefði þótt eðlilegt að eiga og að þeir hefðu talið sig vera búna að leggja mikið í félagið fram að hlutafjáraukningunni.45

Stjórnendur og stjórnarmenn Sparisjóðs Svarfdæla voru tengdir inn í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Þannig átti Jóhann Antonsson fyrrum stjórnarformaður sparisjóðsins 0,7% hlut í bankanum og sat í stjórn hans. Félag í eigu Friðriks Friðrikssonar fyrrum sparisjóðsstjóra og Jónasar Péturssonar þáverandi skrifstofustjóra sparisjóðsins átti 1% í Saga Capital á árunum 2007 og 2008.

Sparisjóður Svarfdæla bókfærði töluverðan hagnað af verðbréfaeign sinni og hafði góðar tekjur af hlutdeildarfélögum á árunum 2005 og 2006. Árið 2007 dró úr hagnaði sparisjóðsins af verðbréfum, einkum vegna taps á Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Á árinu 2007 seldi sparisjóðurinn bréf í Exista hf. inn í Kistu – fjárfestingarfélag ehf. og hafði þó nokkrar tekjur af því. Gengi bréfa í Exista hf. náði hámarki í júlí 2007 en í árslok 2007 var það svipað og það hafði verið í árslok 2006. Kista – fjárfestingarfélag ehf. tapaði á bréfunum sem félagið keypti, meðal annars af Sparisjóði Svarfdæla, á árinu 2007. Tap sparisjóðsins á Kistu var 1,1 milljarður króna árið 2008.

Sparisjóðabanki Íslands hf. hafði jákvæð áhrif á afkomu Sparisjóðs Svarfdæla allt fram til ársins 2008. Á því ári varð mikið tap á rekstri Sparisjóðabankans og eign Sparisjóðs Svarfdæla í honum var færð niður um 670 milljónir króna í rekstrarreikningi sjóðsins fyrir árið 2008. Þar töpuðust að fullu þeir fjármunir sem sparisjóðurinn hafði lagt fram til hlutafjáraukningar á árinu 2007.

Á árinu 2007 tapaði Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. rúmum milljarði króna og árið 2008 rétt rúmum 5,5 milljörðum króna. Tapið má einna helst rekja til taps á markaðsverðbréfum. Árið 2009 tapaði Saga Capital um það bil einum milljarði króna, en afskriftir af útlánum félagsins voru þá helsti gjaldaliðurinn.46 Sparisjóður Svarfdæla bókfærði 39 milljóna króna gengishagnað af Saga Capital 2007 en gengistap áranna 2008–2011 var samtals 345 milljónir króna.

Sparisjóðurinn hagnaðist töluvert á eign sinni í Kaupþingi banka hf. og Exista hf. á árunum 2005–2007. Þessi bréf voru að fullu færð á gangvirði á árinu 2006, sem skilaði miklum gengishagnaði á því ári. Sala á bréfum í þessum fyrirtækjum á sömu árum gerði það að verkum að gengistap vegna þessara bréfa var minna á árinu 2008 en ella hefði orðið. Sparisjóðurinn seldi bréf í Exista hf. til Kistu – fjárfestingarfélags ehf. með hagnaði á árunum 2006 og 2007 og árið 2007 var hagnaður af seldum bréfum í Kaupþingi banka hf. 79 milljónir króna.

Afkoma Sparisjóðs Svarfdæla 2005–2011 hélst í hendur við afkomu af fjáreignum hans. Fjáreignir voru töluvert stærri hluti eignasafns Sparisjóðs Svarfdæla en annarra minni sparisjóða og því hafði hagnaður eða tap af fjáreignum mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu sparisjóðsins. Stærstur hluti fjáreigna Sparisjóðs Svarfdæla var í bréfum Exista hf., Kaupþings banka hf., Kistu – fjárfestingarfélags ehf., VBS Fjárfestingarbanka hf. og Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Fjáreignir sparisjóðsins voru nær eingöngu hlutabréf og var nær einvörðungu fjárfest í fjármálafyrirtækjum og eignarhaldsfélögum. Um þetta sagði núverandi sparisjóðsstjóri í skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni:

Jú, það er alveg rétt […] að svona eftir á að hyggja má kannski segja að sú dreifing hafi ekki verið nægileg. Ekki hvað síst í ljósi þess hvernig fór, því við vorum með of mikið í sama geiranum, í fjármálageiranum og tengdum félögum. Það er nú kannski það sem maður sér eftir, eftir á, að hafa ekki verið með víðtækari dreifingu á eignasafninu í öðrum geirum.47

Samanlagður hagnaður sparisjóðsins af verðbréfaeign á árunum 2001–2007 á verðlagi ársins 2011 var 2,7 milljarðar króna, en tap áranna 2008–2011 var 3,1 milljarður króna miðað við sama verðlag.

25.4 Fjármögnun

Sparisjóður Svarfdæla var einkum fjármagnaður með innlánum, en þau námu 101–137% af útlánum sparisjóðsins á árunum 2005–2011, lægst var hlutfallið árið 2008 og hæst árið 2011. Önnur fjármögnun sparisjóðsins var einkum fólgin í skuldum við lánastofnanir en lántaka sparisjóðsins og víkjandi lán komu þar næst á eftir.

Innlán voru minnst 57% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé árið 2008 en mest 98% árið 2011.48 Heimili áttu að meðaltali 76% innlána og fyrirtæki 11%.49 Bundin innlán voru að meðaltali 24% allra innlána frá ársbyrjun 2005 til ársloka 2011, hæst var hlutfall þeirra 38% í mars 2007 og lægst 17% í janúar 2008.50

Skuldir Sparisjóðs Svarfdæla við lánastofnanir á árunum 2005–2007 voru við Sparisjóðabanka Íslands hf. Um var að ræða erlenda ádráttarlínu sem notuð var til að fjármagna lán sparisjóðsins til viðskiptavina sinna í erlendri mynt. Á árinu 2008 jukust skuldir sparisjóðsins um rúman milljarð króna og í lok ársins nam skuld hans við Sparisjóðabanka Íslands hf. 682 milljónum króna, skuld við Seðlabankann 339 milljónum króna í daglánum með veðum í íbúðabréfum (HFF flokkum) og við Kaupþing banka hf. 282 milljónum króna vegna skuldskeytingar sem framkvæmd var vegna Kistu – fjárfestingarfélags ehf. Erlend endurlán sparisjóðsins hjá Sparisjóðabankanum jukust aðallega vegna gengisfalls krónunnar en nýjar lánveitingar á árinu 2008 námu 55 milljónum króna. Skuldir sparisjóðsins við Seðlabankann voru gerðar upp á árinu 2010 með samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu hans.

Árið 2008 tók Sparisjóður Svarfdæla víkjandi lán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. sem nam 350 milljónum króna. Í árslok 2008 voru útistandandi af því láni rétt tæpar 450 milljónir króna en skuldin var færð niður um tæpar 230 milljónir króna á árinu 2009. Þetta lán var tekið til þess að bæta eiginfjárhlutfall sparisjóðsins, en víkjandi lán má telja til eiginfjárþáttar B samkvæmt 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002.51 Eiginfjárþáttur B má hins vegar hæst nema 50% af eiginfjárþætti A, en hjá Sparisjóði Svarfdæla samanstóð hann eingöngu af bókfærðu eigin fé sem í árslok 2008 nam 33 milljónum króna. Víkjandi lán að fjárhæð 350 milljónir króna nýttist því lítið sem ekkert til þess að bæta eiginfjárhlutfall sparisjóðsins á þeim tíma. Hefði víkjandi lánið ekki komið til hefði eiginfjárhlutfall sparisjóðsins um mitt ár 2008 hins vegar verið 1,3% en ekki 13,3% eins og raunin var samkvæmt skýrslum sem þá var skilað inn til Fjármálaeftirlitsins.

Vextir á víkjandi láninu frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. voru 11% fastir verðtryggðir ársvextir. Skýrslutökur af Jónasi Péturssyni sparisjóðsstjóra leiddu í ljós að fjármunirnir sem teknir voru að láni voru nýttir til þess að kaupa hlutdeildarskírteini í skuldabréfasjóðum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.52

Sparisjóður Svarfdæla gerði tvo lánasamninga við Íbúðalánasjóð sem flokkuðust undir lántöku sparisjóðsins. Sá fyrri var gerður í desember 2004 og var upphafleg lánsfjárhæð tæpar 154 milljónir króna. Seinna lánið, sem var veitt í apríl 2005, var að fjárhæð 61 milljón króna. Að baki þessum lánasamningum voru 25 fasteignalán í eigu sparisjóðsins.53

25.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Samkvæmt samþykktum Sparisjóðs Svarfdæla frá 2003 skyldi stofnfé hans eigi vera minna en 3 milljónir króna, skiptast í eigi færri en 30 jafnháa hluti og eitt atkvæði fylgja hverjum hlut. Atkvæðisréttur stofnfjáreigenda var í réttu hlutfalli við stofnfjáreign og einstökum stofnfjáreigendum var óheimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Sparisjóðurinn mátti ekki eiga meira en 10% af eigin stofnfé og atkvæðisréttur fylgdi ekki þeim stofnfjárbréfum sem sjóðurinn kunni að eiga. Sala eða annað framsal stofnfjárhluta í sparisjóðnum var óheimilt, nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Þá var veðsetning stofnfjárhlutar í sjóðnum óheimil. Fundur stofnfjáreiganda gat ákveðið að auka stofnfé umfram það sem kveðið var á um í samþykktum með áskrift nýrra stofnfjárhluta. Auk þess var heimilt að auka stofnfé með endurmati og með ráðstöfun hluta hagnaðar. Verð sem greiða skyldi fyrir nýjan stofnfjárhlut átti að vera nafnverð hans að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár. Við aukningu stofnfjár skyldu stofnfjáreigendur eiga rétt til þess að skrá sig fyrir auknu stofnfé í réttu hlutfalli við stofnfjáreign sína.

Samþykktunum var breytt í tvígang árið 2007, 26. september og 28. desember. Eftir fyrri breytinguna var kveðið á um að stofnfé sparisjóðsins væri 18.007.500 krónur og skiptist í jafnmarga einnar krónu hluti og eitt atkvæði skyldi fylgja hverjum hlut. Þá skyldi stjórn sparisjóðsins vera heimilt að hækka stofnfé um allt að 500.000.000 króna eða um jafnmarga hluti. Stjórn skyldi ákveða hvenær og hvernig hækkunarheimildinni yrði beitt en gildistími hennar var til loka ágúst 2012. Einnig var veðsetning stofnfjárhlutar heimiluð að tilskyldu samþykki stjórnar sparisjóðsins. Eftir seinni breytinguna var kveðið á um að stofnfé skyldi vera 535.883.017 krónur og skiptast í jafnmarga einnar krónu hluti og eitt atkvæði skyldi fylgja hverjum hlut. Hin sérstaka hækkunarheimild sem finna mátti í samþykktunum frá 26. september, var þar ekki áfram og frekari breytingar á ákvæðum um stofnfé voru ekki gerðar.

Á stofnfjáreigendafundi 16. júní 2010 var samþykktum sjóðsins enn breytt. Þar kom fram að stofnfé væri 424.400.000 krónur og skiptist í jafnmarga einnar krónu hluti, og eitt atkvæði skyldi fylgja hverjum hlut. Ákvæði um að einstökum stofnfjáraðilum væri óheimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum var fellt brott. Þá skyldi stjórn sparisjóðsins vera heimilt að auka stofnfé sjóðsins um allt að 381.960.000 krónur með áskrift jafnmargra nýrra stofnfjárhluta. Ef til stofnfjáraukningar kæmi skyldu stofnfjáreigendur falla frá forgangsrétti til að skrá sig fyrir auknu stofnfé í réttu hlutfalli við stofnfjáreign. Áskriftargengi var 1,0 og var stjórninni heimilt að bjóða Seðlabanka Íslands eða fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins að skrá sig fyrir hinu nýja stofnfé. Þá kom fram að gefa mætti út stofnfjárbréf sparisjóðsins í verðbréfamiðstöð með rafrænum hætti í samræmi við ákvæði laga um rafræna eignaskráningu verðbréfa nr. 131/1997. Jafnframt gæti fundur stofnfjáreigenda, að tillögu stjórnar, ákveðið að lækka stofnfé sparisjóðsins til jöfnunar taps sem ekki yrði jafnað á annan hátt.54 Einnig kom þar fram að aðalfundur sparisjóðsins gæti heimilað stjórn að ráðstafa allt að 50% hagnaðar hans til hækkunar á nafnverði stofnfjár í sjóðnum og til arðgreiðslna. Aðalfundur mætti ekki úthluta meiri arði en stjórn sparisjóðsins legði til og heimild til ráðstöfunar hagnaðar með þessum hætti væri aðeins fyrir hendi ef um óráðstafað eigið fé væri að ræða í sparisjóðnum.

Stofnfé Sparisjóðs Svarfdæla var 8,4 milljónir króna að nafnverði í lok árs 2005 og áttu allir 150 stofnfjáreigendur 0,67% hlut. Engir lögaðilar voru meðal stofnfjáreigenda á þeim tíma. Eigendaskipti stofnfjárbréfa voru óalgeng og komu helst til við skipti dánarbúa.

Sparisjóðurinn nýtti sérstaka heimild til endurmats stofnfjár á árinu 2006, auk þess sem 20% af greiddum arði fór til hækkunar stofnfjár. Stofnfé var því 12,1 milljón króna að nafnverði í árslok.55 Stofnfjáraðilar voru áfram 150 með jafnan hlut og eingöngu tvö framsöl voru samþykkt af stjórn en í báðum tilvikum hélst eignin innan sömu fjölskyldu.56

Á stofnfjárfundi Sparisjóðs Svarfdæla 13. júní 2007 samþykkti stjórn sjóðsins að hefja undirbúning að því að breyta sparisjóðnum í hlutafélagssjóð. Formanni stjórnar ásamt endurskoðanda sjóðsins var falið að móta tillögu um hvernig ætti að standa að breytingunni. Boðað var til fundar stofnfjáreigenda 26. september 2007 þar sem tillagan var kynnt, borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. Auk þess var á fundinum samþykkt heimild til stjórnar til stofnfjáraukningar að nafnvirði 500 milljónir króna. Heimildin gilti til ársins 2012 og höfðu stofnfjáreigendur forgangsrétt að nýjum hlutum í hlutfalli við stofnfjáreign sína. Að því marki sem stofnfjáreigendur kusu að nýta sér ekki áskriftarrétt sinn, skyldi hann ganga til annarra stofnfjáreigenda sem vildu nýta hann. Samhliða tillögunni var lagt fram árshlutauppgjör miðað við 30. júní 2007.

Stjórn sparisjóðsins nýtti 500 milljóna króna heimildina til stofnfjáraukningar með útboði í desember 2007. Í útboðslýsingu frá 30. nóvember sagði að stofnfjáraukningin væri liður í fyrirhugaðri hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins sem væri ætlað að styrkja sparisjóðinn og gera hann betur í stakk búinn að takast á við breytingar í fjármálaumhverfinu.57 Hins vegar bar fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins, Jóhann Antonsson, því við að ekkert í rekstri sjóðsins hefði kallað á stofnfjáraukningu, heldur hefði ætlunin verið að verjast yfirtöku manna sem buðu hátt verð í stofnfé á þessum tíma.58

Í minnisblaði endurskoðanda sem lagt var fyrir stjórnarfund sparisjóðsins 15. ágúst 2007 kom fram að best væri að auka stofnfé áður en sjóðnum yrði breytt í hlutafélag til þess að auka hlut stofnfjáreigenda í væntanlegu hlutafélagi. Í sama minnisblaði var fjallað um mögulegar arðgreiðslur í framhaldi af stofnfjáraukningunni og ýjað að því að hægt væri að greiða út 100% arð þannig að stofnfjáreigendur myndu koma út á sléttu í þessum viðskiptum. Þó voru settir mikilvægir fyrirvarar við þetta: „Útilokað er að segja til um hver arðsemi eigin fjár verður þegar árið verður gert upp, ekki síst í því ljósi að afkoman er borin uppi af gengishagnaði skráðs félags, Exista hf.“59 Auk þess stóð í bréfinu: „Ríka áherslu verður þó að leggja á að fyrirfram er ekki hægt að tryggja tiltekna ávöxtun […] til dæmis vegna skyndilegs verðfalls á verðbréfamörkuðum.“

Í útboðslýsingunni 30. nóvember 2007 var birt fjárhagsstaða sparisjóðsins miðað við lok júní 2007.60 Hagnaður var á rekstrinum fyrstu sex mánuðina, einkum vegna gengisbreytinga á bréfum í Exista hf. sem sparisjóðurinn átti í beinni eign og í gegnum hlut sinn í Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. Gengi bréfa í Exista hf. náði hámarki í júlí 2007 og var þá rúmar 40 krónur á hlut. Í desember 2007 var meðalgengi Exista hins vegar tæpar 22 krónur á hlut. Fram kom í skýrslutöku af þáverandi stjórnarformanni sparisjóðsins fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra að stjórnin hafi ekki talið ástæðu til að vara við verri útkomu en gert hefði verið ráð fyrir við gerð útboðslýsingarinnar meðan á útboðinu stóð, þrátt fyrir mikið fall á bréfum í Exista hf. frá gerð útboðslýsingarinnar fram að lokadegi útboðs. Taldi stjórnin gengisfall bréfanna vera tímabundna sveiflu, en svo reyndist ekki vera.61

Stofnfjárútboðinu lauk 14. desember 2007 og átti að greiða fyrir stofnféð fyrir 21. desember 2007. Í útboðslýsingunni kom fram að hlutur þeirra stofnfjáreigenda sem ekki nýttu rétt sinn í útboðinu myndi skerðast um 96,5% ef allt stofnféð seldist. Stjórn sparisjóðsins hafði milligöngu um það að stofnfjáreigendur gætu fjármagnað stofnfjárkaupin með lánum frá Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Af 150 stofnfjáreigendum skrifuðu 145 sig fyrir stofnfé og því breyttist eignarhlutfall milli stofnfjáreigenda, sem hafði verið jafnt fram að útboði. Í lok árs 2007 var hlutfallsleg stærð stofnfjárhluta á bilinu 0,02–0,71% og heildarstofnfé 535.883.017 krónur.62

Við skýrslutökur af fyrrum stjórnarformanni sparisjóðsins í vitnamáli V-2/2011 í Héraðsdómi Norðurlands eystra kom meðal annars fram að ýmsir aðilar hefðu boðið stofnfjáreigendum hátt verð í stofnfé á þessum tíma og að stofnfjáraukning og hlutafélagsvæðing hefðu hugsanlega getað komið í veg fyrir yfirtöku á sparisjóðnum. Hann sagðist ekki vita nákvæmlega hvaða menn þetta hefðu verið en þeir hefðu meðal annars auglýst eftir bréfum í blöðunum. Með því að auka hlut stofnfjáreigenda og breyta sparisjóðnum í hlutafélag, þar sem sjálfseignarstofnun eignaðist þann hluta sparisjóðsins sem ekki yrði í eigu stofnfjáreigenda eftir hlutafjárvæðingu, hefði verið hægt að koma í veg fyrir að einn aðili gæti náð yfirráðum yfir sparisjóðnum. Stefnt var að því að sjálfseignarstofnunin eignaðist meirihluta í sparisjóðnum eftir hlutafélagsvæðingu og að stjórn hennar yrði ekki heimilt að selja hluta af eigninni. Þannig hefði verið hægt að koma í veg fyrir að utanaðkomandi aðilar eignuðust sparisjóðinn.63

Sparisjóður Svarfdæla hf. var stofnaður 26. mars 2008. Sparisjóður Svarfdæla átti að renna inn í þetta hlutafélag og hlutabréf í honum að skiptast eftir hlutfallslegri eign stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar sem sett skyldi á stofn við breytingu á sparisjóði í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 74., sbr. 73. og 76. gr. þágildandi laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.64 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 30. maí 2008 var kynnt skýrsla um mat Capacent á virði sparisjóðsins en hann var þá metinn á 1.890 milljónir króna. Skiptihlutfall milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar var 55,13% á móti 44,87%.65 Þetta mat var endurskoðað 7. ágúst 2008, en þá hafði stjórnarformaður óskað eftir því við Capacent að virði sjóðsins yrði metið miðað við 30. júní 2008, en fyrra mat miðaði við 31. mars 2008. Varð niðurstaðan sú að sparisjóðurinn væri 1.146 milljóna króna virði og næmi hlutur stofnfjáreigenda 75,45% og hlutur sjálfseignarstofnunarinnar 24,55%.66 Virði sparisjóðsins hafði því lækkað um 744 milljónir króna á þremur mánuðum. Þar sem tapið félli á varasjóð en stofnfé stóð óbreytt breyttust hlutföll milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunarinnar.

Stjórnin ákvað 1. júlí 2008 að leggja til við fund stofnfjáreigenda að ákvörðun um hlutafélagsvæðingu yrði slegið á frest, en tók þó fram að ekki hefði verið hætt við þau áform sem samþykkt voru á fundi stofnfjáreigenda í september 2007.67 Hinn 9. október sama ár samþykkti stjórn að fresta stofnfjáreigendafundi og ætlaðri hlutafélagsvæðingu um óákveðinn tíma.68 Af hlutafélagsvæðingu Sparisjóðs Svarfdæla varð ekki þótt hlutafélagið hafi verið stofnað.

Stofnfé breyttist á árinu 2010 þegar sparisjóðurinn gerði upp kröfur Seðlabanka Íslands á hendur honum, meðal annars með umbreytingu hluta þeirra í stofnfé. Á stofnfjáreigendafundi 16. júní 2010 voru samþykktar breytingar á samþykktum sjóðsins þar sem heimilað var að færa niður stofnfé til jöfnunar taps sem ekki yrði mætt á annan hátt. Gefið var út nýtt stofnfé að fjárhæð 381.960.000 krónur og varð heildarstofnfé 424.400.000 krónur. Seðlabanki Íslands fékk nýja stofnféð upp í kröfur sínar en stofnfjáreigendur sem fyrir voru í sparisjóðnum færðu niður stofnfjáreign sína þannig að þeir ættu 10% stofnfjár eftir þessa stofnfjáraukningu. Stofnfé Seðlabanka Íslands var síðan framselt til fjármálaráðherra sem tók við því fyrir hönd íslenska ríkisins og fól Bankasýslu ríkisins að fara með eignarhald þess.

25.5.1 Lán frá Saga Capital vegna stofnfjáraukningar

Í nóvember 2007 sendi Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. stofnfjáreigendum í Sparisjóði Svarfdæla bréf þar sem fram kom að stjórn sparisjóðsins hefði óskað eftir því við bankann að hann tæki að sér fjármögnun stofnfjárkaupa þeirra sem þess óskuðu í stofnfjáraukningu sjóðsins.69 Ekkert er bókað í stjórnarfundargerðum um þá ákvörðun stjórnar að óska eftir aðkomu bankans að þessari fjármögnun.

Af þeim 145 stofnfjáraðilum sem tóku þátt í stofnfjáraukningunni fengu 108 lánað fyrir stofnfénu hjá Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., samtals 388 milljónir króna eða 75% af heildargreiðslu útboðsins. Lánin voru til fjögurra og hálfs árs með tryggingar í stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Aðrir sem tóku þátt í útboðinu fengu lánað hjá öðrum fjármálastofnunum eða nýttu sparnað sinn í fjárfestinguna.70

Við fall viðskiptabankanna haustið 2008 og gengishrun bréfa í Exista hf. varð ljóst að staða sparisjóðsins væri slæm og virði stofnfjárbréfa ekki hið sama og þegar ráðist var í stofnfjáraukninguna. Þeir sem tekið höfðu lán vegna stofnfjáraukningarinnar sáu fram á að arðgreiðslur af bréfunum yrðu mun minni en gert hafði verið ráð fyrir, auk þess sem veð að baki lánunum höfðu rýrnað til muna. Þá höfðu lán í mörgum tilfellum hækkað þar sem einhver þeirra voru gengistryggð.

Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. og sparisjóðurinn, ásamt SPRON-Verðbréfum hf., unnu að því á árunum 2009 og 2010 að finna lausn á vanda þeirra stofnfjáreigenda sem höfðu tekið lán vegna stofnfjárkaupa. Mál stofnfjárhafa voru mikið rædd í stjórn sparisjóðsins. Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. sendi í desember 2010 bréf til þeirra sem höfðu tekið lán vegna stofnfjárkaupa og tilkynnti að greiðslur af lánunum ættu að hefjast í janúar 2011. Lántökum var boðið að lengja afborganir lánsins úr 18 mánuðum í 180 mánuði og að fyrstu greiðslu yrði frestað til 1. febrúar 2011.71 Fulltrúar Saga Capital mættu á fundi með samtökum stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla 25. janúar 2011 þar sem úrlausn skuldamála var rædd. Komu þar fram sjónarmið starfsmanna Saga Capital um að lagaleg óvissa ríkti um lán sem bundin væru við erlenda mynt. Þó að dómar hefðu fallið í málum sem svipaði til þeirra sem voru til umræðu á fundinum, væri ekki um fyllilega sambærilega samninga að ræða. Vilji Saga Capital væri þó að leysa lánamál þeirra sem skulduðu bankanum vegna stofnfjáraukningar í Sparisjóði Svarfdæla.72

Við endurskipulagningu Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. í lok árs 2009 var stofnað félagið Hilda hf. sem tók yfir ákveðnar eignir Saga Capital, þar á meðal lánin til stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla og skuldir við Seðlabanka Íslands. Í janúar 2011 sendu stofnfjáreigendur tilboð til Hildu hf. um uppgjör á lánunum. Þessu tilboði var ekki svarað formlega en á árinu 2011 tók dótturfélag Seðlabankans, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., yfir Hildu hf.73

Á stofnfjáreigendafundi í ágúst 2011 var lagt fram tilboð frá Seðlabanka Íslands um uppgjör krafnanna. Að sögn formanns samtaka stofnfjáreigenda svipaði því tilboði mjög til tilboðs samtakanna til Hildu í janúar sama ár. Formaður samtakanna bað um að fá að bera tilboðið undir stofnfjáreigendur áður en því yrði svarað formlega.74 Áður en til þess kom hófust vitnaleiðslur í vitnamáli fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í máli stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla gegn Sögu fjárfestingarbanka hf. (áður Saga Capital), Hildu hf., KPMG ehf. og Sparisjóði Svarfdæla. Þá auglýsti Bankasýsla ríkisins sparisjóðinn til sölu í september 2011. Lögmaður samtaka stofnfjáreigenda var í samskiptum við Seðlabankann frá því samtökunum var gert tilboðið en engin niðurstaða náðist.75

Það var svo 23. janúar 2012 sem Hilda hf. gerði stofnfjáreigendum í sparisjóðnum tilboð um að falla frá kröfunum. Skilyrði niðurfellingarinnar var að meira en 95% stofnfjáreigenda samþykktu tilboð Landsbankans hf. í allar eignir sparisjóðsins á fundi stofnfjáreigenda sem fór fram 24. janúar sama ár.76 Nærri 100% stofnfjáreigenda samþykktu tilboðið og voru skuldir stofnfjáreigenda við Hildu hf. felldar niður.77

25.6 Fjárhagsleg endurskipulagning

Í upphafi árs 2008 var staða Sparisjóðs Svarfdæla ágæt, hagnaður af rekstri sjóðsins árið 2007 nam 107 milljónum króna, eigið fé sjóðsins í árslok 2007 nam 2.337 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 21,1%. Stofnfjáraukningin á árinu 2007 skýrði að hluta góða stöðu sparisjóðsins. Hann fór þó ekki varhluta af þeirri þróun sem varð á fjármálamörkuðum á árinu 2008 og mikill viðsnúningur varð í rekstri sparisjóðsins þá. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 var tap á rekstri sparisjóðsins 2.150 milljónir króna. Eigið fé sparisjóðsins í árslok 2008 nam 33 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var neikvætt um 10,8%. Meginástæða þessa mikla rekstrartaps var verðfall á ýmsum eignarhlutum í félögum sem sparisjóðurinn hafði fjárfest í auk þess sem nauðsynlegt reyndist að hækka framlag í afskriftarreikning útlána verulega.78 Stærstu einstöku niðurfærslur vegna eignarhluta í félögum voru vegna Kistu – fjárfestingarfélags ehf., 1.117 milljónir króna, og vegna Sparisjóðabanka Íslands hf., 671 milljón króna.

Í október 2008 var hugað að því að styrkja stöðu Sparisjóðs Svarfdæla og á stjórnarfundi hans 27. október 2008 var samþykkt að veita stjórnarformanni heimild til að vinna að umsókn um eiginfjárframlag frá ríkissjóði.79 Aðrar leiðir voru einnig til skoðunar og í kjölfar birtingar yfirlýsingar um sameiningaráform Byrs sparisjóðs, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og Sparisjóðsins í Keflavík urðu miklar umræður um framtíð sparisjóðanna á stjórnarfundi Sparisjóðs Svarfdæla 4. desember 2008.80 Stjórnin fól formanni að kanna vilja til sameiningar sparisjóða á Eyjafjarðarsvæðinu. Óformlegar sameiningarviðræður sparisjóða á svæðinu voru til umræðu á stjórnarfundi sparisjóðsins í upphafi árs 2009 en forsvarsmenn sparisjóðanna á Grenivík, Siglufirði og Ólafsfirði höfðu samþykkt að gerð yrði áætlun um sameiginlegan sjóð með Sparisjóði Svarfdæla. Taldi stjórn Sparisjóðs Svarfdæla æskilegt að vinnu við áætlanagerð yrði hraðað sem frekast væri unnt svo hægt yrði að hefja formlegar sameiningarviðræður, gæfu niðurstöður tilefni til.81 Ekkert varð þó af formlegum sameiningarviðræðum á þeim tíma.

25.6.1 Umsókn um 20% eiginfjárframlag

Sparisjóður Svarfdæla sótti um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli reglna um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. 18. mars 2009.82 Óskaði sparisjóðurinn eftir eiginfjárframlagi sem næmi allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans eins og það var í árslok 2007, en það var 2.337 milljónir króna og var því óskað eftir rúmlega 467 milljóna króna framlagi.

Í umsókn sparisjóðsins voru raktar meginástæður rekstrartaps ársins 2008, svo sem verðfall á eignarhlutum í félögum, auk hærri framlaga í afskriftareikning útlána. Mikil óvissa væri um eignamat í ljósi stöðu á fjármálamörkuðum, auk þess sem erfitt væri að meta greiðslugetu lántakenda, sem og rekstrarhæfi fyrirtækja. Auk umsóknar um eiginfjárframlag úr ríkissjóði hugðist sparisjóðurinn grípa til hagræðingar í rekstri og gerði í rekstraráætlun fyrir árin 2009–2012 ráð fyrir hagnaði af rekstri á tímabilinu. Hvorki var gert ráð fyrir eftirgjöf skulda sparisjóðsins né sameiningu við aðra sparisjóði. Sparisjóðurinn hefði kannað ýmsa kosti í sameiningarmálum en taldi rétt að bíða, enda yrði „góður jarðvegur“ til að huga að sameiningu eða nánari samvinnu sparisjóðanna þegar þeir hefðu fengið úrlausn sinna mála. Greint var frá því að viðræður hefðu átt sér stað við Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. um aðkomu hans að úrlausn skuldavanda viðskiptamanna sparisjóðsins vegna stofnfjárkaupa árið 2007, en þetta kynni að leiða til þess að bankinn yrði eigandi meirihluta stofnfjár í sparisjóðnum.83

Í staðfestingu endurskoðanda sem fylgdi umsókninni kom fram að hefði sparisjóðurinn fengið 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði í árslok 2008 hefði eiginfjárhlutfall verið 13,2%. Samkvæmt drögum að ársreikningi fyrir árið 2008 væri eiginfjárhlutfallið hins vegar neikvætt um 11,1% og þyrfti eiginfjárgrunnurinn að hækka um 553 milljónir króna til að ná lögbundnu 8% lágmarki. Bókfærð staða víkjandi lána nam þá 443 milljónum króna en lág eiginfjárstaða sparisjóðsins setti því takmörk að hve miklu leyti væri hægt að telja þau til eiginfjárgrunns. Með 20% framlaginu myndi eiginfjárstaðan batna og hægt yrði að nýta meira af víkjandi lánum í eiginfjárgrunninn. Því myndi 467 milljóna króna framlag leiða til 701 milljónar króna hækkunar á eiginfjárgrunni, og eiginfjárhlutfallið yrði 13,2%.84

Umsókn Sparisjóðs Svarfdæla var vísað til Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til umsagnar 19. mars 2009.85 Fjármálaeftirlitið taldi rekstraráætlun sparisjóðsins nokkuð raunhæfa og spár um kostnaðarliði áreiðanlegar, spá um tekjuinnflæði væri ekki óraunhæf en háð meiri óvissu. Benti Fjármálaeftirlitið á að langt væri síðan það hefði metið útlánasafn sparisjóðsins og mat á virðisrýrnun útlána væri alltaf háð einhverri óvissu. Engu að síður lagði Fjármálaeftirlitið til að Sparisjóði Svarfdæla yrði veitt 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði.86

Seðlabanki Íslands sendi fjármálaráðuneytinu sameiginlega umsögn um umsóknir sparisjóðanna um eiginfjárframlag úr ríkissjóði 21. apríl 2009. Í umsögn sinni lagði Seðlabanki Íslands ríka áherslu á að breytingar yrðu gerðar á yfirstjórn viðkomandi fjármálafyrirtækja, þar sem það ætti við, að framtíðar arðgreiðslur yrðu takmörkunum háðar og að nýjar viðskiptaáætlanir myndu liggja fyrir. Þá lagði Seðlabankinn áherslu á að leitað yrði leiða til að fá fleiri aðila til að leggja sparisjóðunum til nýtt eigið fé, til að styrkja þá og dreifa eignarhaldi, og að tryggt yrði að fyrirliggjandi tap yrði borið af þáverandi eigendum áður en ríkið legði til nýtt eigið fé. Mikilvægt væri að Fjármálaeftirlitið og endurskoðendur sparisjóðanna mætu eigið fé þeirra og að það yrði fært niður eins og þörf væri á, áður en ríkissjóður legði til nýtt eigið fé.87

25.6.2 Aðdragandi fjárhagslegrar endurskipulagningar

Fjármálaráðuneytið fór fram á að sparisjóðir sem sóttu um stofnfjárframlag fengju óháð endurskoðunarfyrirtæki til að fara yfir reikninga sína og verðmæti eigna. Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers hf. var fengið til að gera fjárhagslega áreiðanleikakönnun á ákveðnum þáttum í efnahagsreikningi og starfsemi sparisjóða og skilaði skýrslu um Sparisjóð Svarfdæla 16. júní 2009. Helstu niðurstöður voru að virðisrýrnun eigna væri meiri en sparisjóðurinn hefði gert ráð fyrir í ársreikningi ársins 2008 sem nam um 185 milljónum króna eða 152 milljónum króna eftir skattáhrif. Eigið fé sjóðsins væri því neikvætt um 119 milljónir króna.88

Samkvæmt mati PricewaterhouseCoopers hf. leiddi virðisrýrnunin til þess að eiginfjárhlutfallið lækkaði og varð neikvætt um 16,24%. Eigið fé sparisjóðsins hefði þurft að hækka um 605 milljónir króna til þess að 12% eiginfjárhlutfall næðist, eins og áskilið var í reglum um eiginfjárlag til sparisjóða.89 Því var ljóst að frekari endurskipulagning fjárhags sparisjóðsins þyrfti að koma til svo sparisjóðurinn fengi eiginfjárframlag úr ríkissjóði.

Fjármálaeftirlitið greip fyrst til formlegra aðgerða vegna eiginfjárstöðunnar með bréfi 11. júní 2009 og veitti Sparisjóði Svarfdæla þriggja vikna frest til að auka við eiginfjárgrunn sinn. Í bréfinu var vísað til ársuppgjörs sparisjóðsins og skýrslu um eiginfjárhlutfall frá 31. mars 2009, en hlutfallið var neikvætt um 11,5%.90 Í svarbréfi sparisjóðsins 30. júní var óskað eftir viðbótarfresti, sem var veittur, en í bréfinu sagði að sparisjóðurinn hefði ráðið Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. til að vinna að tillögu að lausn á eiginfjárvanda sparisjóðsins. Lausnin ætti meðal annars að felast í því að menningarhúsið Berg á Dalvík yrði eignfært í bókum sparisjóðsins, samið yrði við lánardrottna og nýtt stofnfé sem næmi 50–100 milljónum króna yrði lagt fram af Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. og öðrum. Sparisjóðurinn hugðist jafnframt freista þess að semja við helstu lánardrottna sína, Seðlabankann, sem hafði fengið framseldar kröfur Sparisjóðabanka Íslands hf. á hendur sparisjóðnum, og Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. sem hafði veitt sparisjóðnum víkjandi lán.91

Hinn 29. júlí 2009 óskaði sparisjóðurinn með bréfi enn á ný eftir auknum fresti, en áform sparisjóðsins voru enn hin sömu og áður. Í bréfinu kom fram að ekki lægi fyrir hver tæki ákvörðun um meðhöndlun krafna Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðnum og væri beðið eftir þeirri ákvörðun, en samskipti við fjármálaráðuneytið hefðu bent til þess að niðurstaða í málinu lægi fyrir í ágúst.92 Fjármálaeftirlitið framlengdi síðan frest sparisjóðsins til að auka við eiginfjárgrunn sinn ítrekað, allt til 11. júní 2010.

Fjármálaeftirlitið skipaði Sparisjóði Svarfdæla sérstakan sérfræðing til að hafa eftirlit með rekstri sparisjóðsins 15. júlí 2009, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Í skipunarbréfi Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns í stöðuna kom fram að honum væri ætlað að hafa sérstakt eftirlit með rekstri sparisjóðsins og gera Fjármálaeftirlitinu reglulega grein fyrir starfi sínu. Samkvæmt skipunarbréfinu gilti skipunin til 12. ágúst 2009 eða þar til ákvörðun yrði tekin um annað.93 Skipunin var framlengd ellefu sinnum, allt til 7. júlí 2010. Á tímabilinu skilaði Árni reglulega skýrslum til Fjármálaeftirlitsins.

Undir lok sumars 2009 tóku fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands, undir forystu bankans, upp nánari samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða, þegar ljóst var að sparisjóðirnir uppfylltu ekki allir skilyrði reglna um framlag til sparisjóða.94 Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna á þessum tíma, eftir að hafa fengið framseldar kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars sama ár. Þar á meðal voru kröfur á hendur Sparisjóði Svarfdæla sem námu 694 milljónum króna.95 Í september 2009 sendi Seðlabanki Íslands, í samvinnu við fjármálaráðuneytið, sparisjóðunum tillögu um meðferð krafna á hendur sparisjóðunum og var unnið að frekari útfærslu hennar um veturinn. Hinn 1. febrúar 2010 sendi Seðlabankinn síðan sparisjóðunum bréf þar sem þeim var boðið að semja um uppgjör krafna með ákveðnum kjörum og skilyrðum.96 Viku síðar, 8. febrúar, kynnti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu með aðild ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 125/2008 eða með aðild Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um uppgjör krafna. Fjármálaeftirlitið gerði þá meðal annars kröfu um að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 16% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.97

Sparisjóður Svarfdæla svaraði boði Seðlabanka Íslands með bréfi 8. febrúar 2010 og lýsti þar vonbrigðum sínum með það að kjör Seðlabankans gerðu einungis ráð fyrir 12% lækkun krafna gegn eingreiðslu, en sparisjóðurinn hafði ítrekað óskað eftir að fá að greiða kröfuna upp með 25–33% niðurfærslu og taldi ýmsa vankanta fylgja því að staðgreiða kröfurnar.98

Sparisjóðurinn sendi Fjármálaeftirlitinu útreikninga vegna skilyrða um eiginfjár- og lausafjárkröfur þess sem settar voru fram í bréfinu. Fjármálaeftirlitið taldi að yfirferð gagna gæfi ekki tilefni til annars en að álykta að sparisjóðurinn stæðist gerðar kröfur að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu. Því samþykkti Fjármálaeftirlitið, miðað við fyrirliggjandi gögn, að sparisjóðurinn gengi til endanlegra samninga við Seðlabanka Íslands og aðra kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu.99

25.6.3 Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu

Seðlabanka Íslands barst áætlun Sparisjóðs Svarfdæla um fjárhagslega endurskipulagningu 5. mars 2010 og samþykkti hana, en með fyrirvara um hlut stofnfjárhafa í sparisjóðnum eftir fjárhagslega endurskipulagningu. Seðlabankinn fór fram á að hlutur þeirra yrði ekki meiri en 10% af heildarstofnfé sparisjóðsins.100 Hinn 19. mars lagði Sparisjóður Svarfdæla fram lítillega breytta tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu sem samþykkt var af Seðlabankanum. Breytingin fólst í því að stofnfé sem fyrir var yrði fært niður um 93,74%; um 207 milljónir króna af víkjandi lánum greiddar upp með 45% afslætti; Seðlabankinn afskrifaði rúmar 343 milljónir króna, og tæpum 382 milljónum króna af kröfum Seðlabankans yrði breytt í stofnfé. Að lokum tæki sparisjóðurinn nýtt 120 milljóna króna víkjandi lán.101 Seðlabanki Íslands samþykkti tilboð Sparisjóðs Svarfdæla 19. mars 2010, en endanlegur frágangur samnings beið samþykkis annarra kröfuhafa og Fjármálaeftirlitsins. Áform stjórnvalda um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna voru einnig háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem samþykkti áformin 21. júní 2010.102 Þá samþykkti stofnfjáreigendafundur í sparisjóðnum 16. júní 2010 áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins og nauðsynlegar breytingar á samþykktum.103

Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, varðandi lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdum gengi erlendra gjaldmiðla, sendu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum tilmæli 30. júní 2010 vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða. Í kjölfarið var fjármálafyrirtækjum gert að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi aðstæðna og að tryggja að eigið fé yrði nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem endurreikningur hefði í för með sér.104 Í ljós kom að sparisjóðurinn uppfyllti ekki eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins eftir að tekið hafði verið tillit til niðurfærslna lána sökum óskuldbindandi gengistryggingarákvæða. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 frá 16. september 2010 var lokið við að meta áhrif dómanna á eiginfjárstöðu sparisjóðsins. Í ljós kom að enn skorti eigið fé til að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins.105

Sparisjóðurinn lagði fram uppfærða áætlun að fjárhagslegri endurskipulagningu 16. desember 2010 þar sem fram kom að eigið fé sparisjóðsins væri neikvætt um tæpar 296 milljónir króna. Þá voru eldri víkjandi lán þegar upp gerð. Í áætluninni var gert ráð fyrir niðurfærsla stofnfjár með sama hætti og áður; Seðlabankinn myndi afskrifa 363 milljónir króna af kröfu sinni og breyta 382 milljónum króna í stofnfé. Þá myndi sparisjóðurinn taka nýtt 20 milljóna króna víkjandi lán hjá Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. Auk þessa var gert ráð fyrir hagnaði vegna sölu á eignarhlut í Valitor Holding hf. upp á rúmar 35 milljónir króna, og að ólögmæt, gengistryggð lán yrðu niðurfærð um 70 milljónir króna. Að þessum aðgerðum loknum yrði eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Svarfdæla 16,25%.106 Í endanlegu samkomulagi, 21. desember 2010, sem gert var á grundvelli áætlunarinnar var miðað við stöðu krafna 31. desember 2009 en þá námu þær 725 milljónum króna. Fól það í sér að Seðlabankinn afskrifaði aðeins 343 milljónir króna.

Samkomulagið kom í stað eiginfjárframlags úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 125/2008 og afturkallaði stjórn sparisjóðsins umsóknina um eiginfjárframlagið. Samkomulagið tók til krafna samkvæmt „Rammasamningi um reikningslán milli Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðabanka Íslands hf.“ frá 6. desember 2004, sem voru meðal krafna sem Seðlabankinn fékk framseldar í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009. Meðal skilyrða fyrir samkomulaginu var að stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Svarfdæla samþykkti niðurfærslu eldra stofnfjár, en þær breytingar höfðu þegar verið samþykktar á fundi stofnfjáreigenda 16. júní 2010.

Niðurfelling skulda við Seðlabankann að fjárhæð 343 milljónir króna var tekjufærð í ársreikningi Sparisjóðs Svarfdæla 2010 og nam hagnaður ársins 135 milljónum króna. Bókfært eigið fé var 280 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 10,5%. Fjármálaeftirlitið hafði krafist 16% eiginfjárhlutfalls hjá þeim sparisjóðum sem gengu í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og því uppfyllti Sparisjóður Svarfdæla ekki skilyrði Fjármálaeftirlitsins.107 Sparisjóðurinn uppfyllti heldur ekki eiginfjárkröfurnar á árinu 2011 en tap af rekstri sjóðsins var 48 milljónir króna á því ári. Bókfært eigið fé í lok árs 2011 nam 232 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 12,5%.108 Sparisjóðurinn var því áfram rekinn á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu.

25.6.4 Eftirmálar fjárhagslegrar endurskipulagningar

Í febrúar 2011, að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Svarfdæla, var orðið ljóst að sparisjóðurinn uppfyllti ekki kröfur Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall. Í bréfi sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2011 var bent á að helstu ástæður þess væru viljayfirlýsing um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna (110% leiðin), lækkun á mati á eignarhlutum í Saga fjárfestingarbanka hf. og FSP Holding hf. og niðurfærsla á útláni sem tryggt var með eignarhluta í Saga fjárfestingarbanka hf.109 Fjármálaeftirlitið óskaði því eftir greinargerð sparisjóðsins um þær ráðstafanir sem stjórn sparisjóðsins hygðist grípa til.110 Í greinargerð sparisjóðsins 8. apríl 2011 kom fram að á vettvangi Bankasýslu ríkisins væri unnið að hagræðingaraðgerðum í starfseminni. Ef sú vinna leiddi ekki til lausnar á vanda sparisjóðsins hygðist sjóðurinn skoða aðrar leiðir. Vísað var til þess að háar fjárhæðir hefðu verið lagðar sem varúðarframlag í afskriftareikning útlána vegna óvissu í mati á gengistryggðum lánum, 110% leiðinni og úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Var þess vænst að eitthvað af því myndi skila sér til baka í sex mánaða uppgjöri. Þá kom fram að umsókn um 50 milljóna króna stofnfjárframlag frá Tryggingasjóði sparisjóðanna hefði verið endurnýjuð og til skoðunar væri að fá fjárfesta á Eyjafjarðarsvæðinu til að koma að stofnfjáraukningu. Þá höfðu verið skoðaðir möguleikar á nýju 80 milljóna króna víkjandi láni.111 Hinn 16. maí 2011 veitti Fjármálaeftirlitið Sparisjóði Svarfdæla frest til að auka við eiginfjárgrunn sinn til 31. júlí 2011.

Í júní 2011 lagði sparisjóðurinn til við Bankasýslu ríkisins að hlutur ríkisins í sparisjóðnum yrði seldur. Bankasýslan, sem fór með 90% stofnfjár í sparisjóðnum, fékk heimild fjármálaráðuneytisins til að hefja söluferli með fyrirvara um samþykki Alþingis.112 Á grundvelli þessa framlengdi Fjármálaeftirlitið frest sparisjóðsins til að bæta eiginfjárhlutfallið til 1. október 2011.113 Hlutur ríkisins var settur í opið söluferli í lok ágúst 2011 og voru áhugasamir aðilar beðnir um að skila inn óskuldbindandi tilboðum og bárust þrjú tilboð. Í kjölfarið fengu bjóðendur aðgang að gagnaherbergi með ítarlegum upplýsingum um starfsemi sparisjóðsins. Í síðari hluta söluferlisins skilaði aðeins Landsbankinn hf. inn skuldbindandi tilboði og var gengið til samninga við hann. Hópur stofnfjáreigenda taldi sig eiga kröfu á hendur sparisjóðnum vegna stofnfjárútboðsins 2007 og var ágreiningur uppi um þessa kröfu.114 Sparisjóðurinn var talinn síður álitlegur fjárfestingarkostur vegna þessarar kröfu sem gæti fallið á hann og varð úr að samið var um kaup Landsbankans hf. á öllum eignum og rekstri Sparisjóðs Svarfdæla, en ekki stofnfénu sjálfu sem auglýst hafði verið til sölu. Samkomulag þess efnis var undirritað 29. desember 2011.

Stofnfjáreigendafundur 24. janúar 2012 samþykkti tillögu stjórnar um söluna og í framhaldi af því tillögu um heimild til að slíta sparisjóðnum. Kaupin voru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA.115 Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA samþykktu kaupin en frumathuganir Samkeppniseftirlitsins leiddu í ljós að samruninn raskaði samkeppni á fjármálamarkaði. Í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins sem birt var aðilum 28. ágúst 2012 var talið að samruninn samrýmdist ekki samkeppnislögum. Bent var á að til greina kæmi að endurskoða þá afstöðu ef bætt yrði úr ágöllum í söluferlinu. Annars vegar væri hægt að kanna hvort fjárfestar sem tóku þátt í fyrri hluta söluferlisins væru reiðubúnir að ganga til samninga um kaup á eignum og rekstri sparisjóðsins á sömu forsendum og samið var um við Landsbankann. Hins vegar mætti leita svara hjá Tryggingasjóði sparisjóða um hvort sjóðurinn væri reiðubúinn að taka þátt í stofnfjáraukningu Sparisjóðs Svarfdæla eða veita honum víkjandi lán.116 Í september 2012 komust Sparisjóður Svarfdæla og Landsbankinn hf. að samkomulagi um að fallið yrði frá kaupunum þar sem Tryggingasjóður sparisjóða hefði samþykkt að leggja honum til nýtt eigið fé og veita víkjandi lán þannig að sparisjóðurinn uppfyllti eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins. Gekk það eftir því samkvæmt ársreikningi sparisjóðsins fyrir árið 2012 var eiginfjárhlutfall sparisjóðsins 16,9%. Áður en nýtt stofnfé var gefið út til Tryggingasjóðsins þurfti að færa niður stofnfé sparisjóðsins sem nam neikvæðum varasjóði. Við það lækkaði eignarhlutur ríkisins í sparisjóðnum úr 90,0% í 86,3% en Tryggingasjóður sparisjóðanna eignaðist 4,1% stofnfjár.117

Tilkynnt var um sameiningu Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Þórshafnar 26. mars 2013 og á aðalfundum sparisjóðanna 4. júlí 2013 var lögð fram tillaga um samruna sparisjóðanna sem samþykkt var einróma. Fjármálaeftirlitið samþykkti samrunann fyrir sitt leyti sama dag en beðið var afstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA. Sparisjóðirnir voru sameinaðir undir nafni Sparisjóðs Norðurlands ses.118

25.7 Arður af stofnfjáreign

Sparisjóður Svarfdæla greiddi stofnfjárhöfum lengst af arð af stofnfé þeirra. Á árunum 2001–2008 námu arðgreiðslur vegna næstliðinna rekstrarára samtals 73,4 milljónum króna. Af þeirri fjárhæð var samtals 8,6 milljónum króna varið til hækkunar á stofnfé, en það átti sér stað þrisvar sinnum á þessum átta árum. Greiðsla arðs á þessum árum rúmaðist alltaf innan útgefinna reglna Tryggingasjóðs sparisjóða hverju sinni um hámarksarðgreiðsluhlutfall.119 Sparisjóðurinn greiddi engan arð eftir 2008.120

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.121 Árin 2001–2008 var stofnfé Sparisjóðs Svarfdæla hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um 98 milljónir króna. Framkvæmdin var í samræmi við reglur. Endurmati var sleppt árið 2003 en það var leiðrétt árið 2005. Stofnfé var aukið um tæpar 514 milljónir króna árið 2007 en það ár nam endurmat vegna verðlagsbreytinga 4,5 milljónum króna. Árið 2008 var stofnfé hækkað um 16,36% vegna verðlagsbreytinga. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2008.

Í sömu lögum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.122 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Sparisjóður Svarfdæla nýtti þessa heimild til sérstaks endurmats og hækkaði stofnfé jafnan um 5% á ári. Á árunum 2001 til 2007 nam þetta sérstaka endurmat samtals 28,7 milljónum króna. Árið 2007, síðasta árið sem sérstakt endurmat var framkvæmt, var stofnfé hækkað um tæpar 16 milljónir króna umfram það sem reglur heimiluðu en ekki var heimilt að ráðstafa meira en 10% af hagnaði til þessa sérstaka endurmats. Sérstakt endurmat var ekki framkvæmt eftir þetta.

Í töflu 19 eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

25.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Svarfdæla og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla var lögð á tímabilið frá 2005 til 2007.

25.8.1 Innri endurskoðun

Sparisjóður Svarfdæla starfrækti ekki eigin innri endurskoðunardeild á því tímabili sem til athugunar var, en Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri eigin endurskoðunardeildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning við KPMG endurskoðun hf.123 um innri endurskoðun.124 Annaðist KPMG innri endurskoðun sparisjóðsins á því tímabili sem til athugunar var og sá félagið einnig um ytri endurskoðun sparisjóðsins á sama tímabili. Í ráðningarbréfi innri endurskoðanda frá 21. janúar 2004 sagði að framkvæmdar skyldu reglulegar athuganir á tilteknum þáttum í innra eftirliti sparisjóðsins og var það í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2003.

Margar athugasemdir innri endurskoðanda beindust að því að eftirlitsaðgerðir stjórnenda væru ekki nægjanlega sýnilegar eða formlegar. Við innri endurskoðun vegna ársins 2007 var bent á að vanskil eldri en eins mánaðar gömul væru að aukast og væru meiri en hjá lánastofnunum almennt. KPMG taldi því nauðsynlegt að fylgja vanskilamálum vel og tímanlega eftir. Í desember 2006 voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem tóku mið af nýjum alþjóðlegum reglum Basel-nefndarinnar um bankaeftirlit, svonefndum Basel II staðli um eigið fé fjármálafyrirtækja. Í lögunum voru ákvæði til bráðabirgða um aðlögun að nýjum reglum sem fólu meðal annars í sér að fjármálafyrirtæki höfðu val um að beita eldri reglum um eigið fé og áhættugrunn. Sparisjóður Svarfdæla nýtti sér framangreint frestunarákvæði og hafði ekki lokið innleiðingu nýrra reglna og framkvæmd sjálfsmats í janúar 2008 þegar skýrsla innri endurskoðanda vegna ársins 2007 var lögð fram, en þeirri vinnu átti að vera lokið 1. janúar 2008. Innri endurskoðandi taldi nauðsynlegt að þessari vinnu lyki sem fyrst.

Í skýrslu innri endurskoðanda vegna ársins 2008 var bent á að samþjöppunaráhætta hefði aukist verulega þar sem heildarfyrirgreiðslur til tíu stærstu aðila hefðu hækkað úr um 23% í 35% af heildarútlánum. Þá voru skuldbindingar fimm viðskiptamanna sparisjóðsins komnar umfram 25% af eigin fé sparisjóðsins eins og það var skilgreint í reglum um stórar áhættuskuldbindingar. KPMG taldi brýnt að skuldbindingar einstakra viðskiptamanna færu ekki yfir þau mörk og ef slíkar aðstæður kæmu upp yrði að gera Fjármálaeftirlitinu viðvart. Í sömu skýrslu benti KPMG á að engar tryggingar væru fyrirliggjandi vegna þeirrar ábyrgðar sem sparisjóðurinn hafði veitt Kistu – fjárfestingarfélagi ehf. upp á 130 milljónir króna og taldi innri endurskoðandi óvissu um hvort sparisjóðurinn þyrfti að greiða ábyrgðina. Vanskil héldu áfram að aukast á árinu 2008, auk vaxtafrystra lána og lagði KPMG áherslu á að vanskilamálum yrði fylgt vel eftir.

Í skýrslu innri endurskoðunar vegna ársins 2009 greindi innri endurskoðandi frá því að eigið fé sparisjóðsins, eins og það er skilgreint samkvæmt eiginfjárgrunni, væri neikvætt og starfaði sparisjóðurinn á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu vegna þessa. Sami texti er í skýrslu innri endurskoðunar vegna ársins 2010. Þá taldi innri endurskoðandi óvissu ríkja um verðmæti trygginga einstakra lána og því væri ekki hægt að meta hvort þörf væri á frekari afskriftum. Þá benti KPMG á að stjórnarmönnum bæri að víkja af fundi þegar rædd væru mál sem tengdust þeim persónulega eða fyrirtækjum sem þeir tengdust, en ekki væri hægt að sjá af fundargerðum að formaður stjórnar sparisjóðsins hefði vikið af fundi þegar fjallað hefði verið um vanskil fyrirtækja sem tengdust honum.

Innri endurskoðandi gagnrýndi nokkur atriði í starfsemi sparisjóðsins endurtekið. Bendir það til þess að stjórn hafi ekki sinnt úrbótum vegna ábendinga innri endurskoðanda með skilvirkum hætti. Í skýrslum innri endurskoðanda fyrir árin 2007 og 2008 var bent á að sjóður í hraðbanka væri ekki talinn reglulega og að áritun vantaði á vanskilalista til að staðfesta yfirferð. Í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2008 og 2009 var bent á að leggja ætti endanlegar afskriftir einstakra krafna fyrir stjórn til staðfestingar þegar fyrir lægi að þær væru tapaðar, en ekki safna þeim saman til afgreiðslu við reikningsskil sparisjóðsins. Þá væri nauðsynlegt að fara yfir aðgangsheimildir starfsmanna að tölvukerfum sparisjóðsins reglulega og þyrfti sú vinna að vera sýnileg. Í skýrslum innri endurskoðanda vegna áranna 2007 til 2009 var bent á að skriflegar verklagsreglur vegna úthlutunar styrkja vantaði. Einnig var bent á að fjárfestingarstefnu sparisjóðsins um lausafé og ávöxtun þess vantaði sem og að viðskiptabréf sparisjóðsins væru ekki talin reglulega, en þær athugasemdir voru einnig í skýrslu vegna ársins 2010.

 


 

1 . „Sparisjóður stofnaður í Svarfaðardal“, spar.is, http://www.spar.is/category.aspx?catID=432, sótt 10. janúar 2012.

2 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og rekstri Sparisjóðs Svarfdæla, skýrsla unnin fyrir Fjármálaráðuneytið, 16. júní 2009.

3 . „Sparisjóður Svarfdæla“, spar.is, http://www.spar.is/spsv-svarfdaela/sparisjodur-svarfdaela.

4 . „Aðalfundur Sparisjóðs Svarfdæla 2012“, bankasysla.is 13. júní 2012, http://www.bankasysla.is/fjolmidlar/frettir/nr/300/.

5 . Ársreikningur Sparisjóðs Svarfdæla 2007.

6 . Ársreikningur Sparisjóðs Svarfdæla 2008.

7 . „Sparisjóður Svarfdæla – söluferli“, Vefsíða H.F. verðbréfa, http://www.hfverdbref.is/node/71.

8 . „Sparisjóður Svarfdæla starfar áfram sjálfstætt“, spar.is, http://www.spar.is/spsv-svarfdaela/frettir/nanar/280/sparisjodur-svarfdaela-starfar-afram-sjalfstaett.

9 . Ársreikningur Sparisjóðs Svarfdæla 2011.

10 . Fjallað er um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla.

11 . Framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), árgjald til Fjármálaeftirlitsins, árgjald til umboðsmanns skuldara og bankaskattur.

12 . Skýrsla Bankasýslu ríkisins um starfsemi sína 2012.

13 . Staða afskriftareiknings útlána sem hlutfall af heildarútlánum.

14 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Svarfdæla 2008, 20. maí 2009.

15 . Hér er átt við rekstrarkostnað sem hlutfall af meðaltali heildareigna í upphafi og lok ársins.

16 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Svarfdæla 2009, mars 2010.

17 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

18 . Upplýsingar um kaupaukagreiðslur og hlunnindi eru úr svari sparisjóðsstjóra við fyrirspurn rannsóknarnefndarinnar 6. desember 2012.

19 . Útreikningur á kjarnarekstri er skýrður nánar í 8. kafla.

20 . Í viðauka B er tafla sem sýnir afkomu af kjarnarekstri allra sparisjóðanna á tímabilinu 2001 til 2011.

21 . Ársreikningar Sparisjóðs Svarfdæla 2001–2011.

22 . Ástæða þess að fjárhæð útlána hér er lægri en í efnahagsreikningi er að í efnahagsreikningi eru fullnustueignir taldar með útlánum.

23 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til rannsóknarnefndarinnar 7. maí 2012.

24 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til rannsóknarnefndarinnar 7. maí 2012.

25 . „Menningarhús í Dalvíkurbyggð“, nordurlandid.is, http://www.nordurlandid.is/index.php?option=com_content&view=article&id=2571:menningarhus-i-dalvikurbygge-&catid=14&Itemid=39.

26 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um samninga um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Svarfdæla, 23. desember 2010.

27 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Svarfdæla 2007.

28 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til rannsóknarnefndarinnar 31. janúar 2012.

29 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Svarfdæla til Fjármálaeftirlitsins 9. nóvember 2011.

30 . Um skilgreiningu á eigin fé vísast til 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

31 . Nánari umfjöllun um aðferðafræði, forsendur og gögn má finna í 9. kafla, um útlán sparisjóðanna.

32 . Reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja. Það telst vera stór áhættuskuldbinding þegar viðskiptamaður eða fjárhagslega tengdir aðilar fá lán, ábyrgðir, gera framvirka samninga eða fá aðrar fyrirgreiðslur hjá fjármálafyrirtæki og slík skuldbinding fer yfir 10% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækisins. Áhættuskuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila máttu ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni, sbr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002 er eiginfjárgrunnur reiknaður út samkvæmt 84.–85. gr. laga nr. 161/2002 og reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja.

33 . Sparisjóðurinn tók á sig skuldir Kistu – fjárfestingarfélags ehf. gagnvart Kaupþingi banka hf. sem samsvöruðu hlutfallslegri eign sparisjóðsins í félaginu í stað ábyrgðarinnar.

34 . Eiginfjárgrunnur samkvæmt skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar 31. mars 2008 var 966,8 milljónir króna. Í skýrslum um eiginfjárhlutfall á sama tíma var eiginfjárgrunnurinn 875,5 milljónir króna og í árshlutareikningi 31. mars 2008 var eiginfjárgrunnurinn 867,2 milljónir króna.

35 . Ábyrgðin gagnvart Glitni hf. nam rúmum 30% af eiginfjárgrunni og ábyrgðin gagnvart Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. nam rúmum 18%.

36 . Sjá 25. gr. reglna Sparisjóðs Svarfdæla um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra frá 19. desember 2003 og í endurnýjaðri útgáfu frá 13. febrúar 2007.

37 . Síðar leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2010 um efni reglna samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, endurskoðun á leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2006.

38 . Það er stjórnarmenn, makar þeirra, félög í meira en 10% eigu stjórnarmanna eða maka eða félög þar sem stjórnarmenn sátu í stjórn.

39 . Mögulegt er að ekki hafi öll útlán komið fram í útlánagrunni sparisjóðsins og eru upplýsingarnar því settar fram með fyrirvara.

40 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.

41 . Skýrsla Jónasar M. Péturssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. ágúst 2012.

42 . Minnisblað til stjórnar Kistu – fjárfestingarfélags ehf. frá Guðmundi Haukssyni sparisjóðsstjóra SPRON, 8. mars 2007; ársreikningur Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 2008; ársreikningur Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 2007.

43 . Ársreikningur Kistu – fjárfestingarfélags ehf. 2007.

44 . Um var að ræða 40 milljón hluti á genginu 1,15.

45 . Endurrit úr vitnamáli V-2/2011 fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, 13.–14. september 2011.

46 . Miðað er við tap fyrir skatta og stuðst við ársreikning hvers árs fyrir sig. Í ársreikningi fyrir árið 2009 eru tölur fyrir árið 2008 aðrar en í ársreikningi fyrir árið 2008.

47 . Skýrsla Jónasar M. Péturssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. ágúst 2012.

48 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

49 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

50 . Byggt á lausafjáryfirlitum Sparisjóðs Svarfdæla fyrir árin 2005–2011.

51 . Um þetta er fjallað í 6. kafla og 11. kafla.

52 . Skýrsla Jónasar M. Péturssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. ágúst 2012.

53 . Nánar er fjallað um fjármögnun íbúðalána sparisjóðanna hjá Íbúðalánasjóði í 11. kafla.

54 . Heimild til að lækka stofnfé kom inn í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki árið 2009 með lögum nr. 76/2009. Áður var slíkt ekki mögulegt fyrir sparisjóði. Sjá nánari umfjöllun í 4. og 12. kafla.

55 . Ársreikningur Sparisjóðs Svarfdæla 2006; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla, 28. apríl 2005.

56 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Svarfdæla.

57 . Útboðslýsing Sparisjóðs Svarfdæla, 30. nóvember 2007.

58 . Endurrit úr vitnamáli V-2/2011 fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, 13.–14. september 2011.

59 . Bréf KPMG hf. til stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla 4. ágúst 2007.

60 . Þó má finna upplýsingar um samsetningu fjármögnunar sparisjóðsins fyrir 30. september 2007.

61 . Endurrit úr vitnamáli V-2/2011 fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, 13.–14. september 2011.

62 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Svarfdæla; útboðslýsing Sparisjóðs Svarfdæla, 30. nóvember 2007.

63 . Endurrit úr vitnamáli V-2/2011 fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, 13.–14. september 2011.

64 . Með lögum nr. 76/2009, sem tóku gildi 16. júlí 2009, var lögum um fjármálafyrirtæki breytt þannig að heimild til að breyta sparisjóði í hlutafélag var felld brott. Sú heimild var svo endurvakin með lögum nr. 77/2012.

65 . Matsgerð Capacent ehf. við breytingu Sparisjóðs Svarfdæla í hlutafélag, maí 2008.

66 . Matsgerð Capacent ehf. við breytingu Sparisjóðs Svarfdæla í hlutafélag, ágúst 2008.

67 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla, 1. júlí 2008.

68 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla, 9. október 2008.

69 . Bréf Saga Capital Fjárfestingarbanka til stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla 29. nóvember 2007.

70 . Yfirlit yfir lántakendur Sparisjóðs Svarfdæla. Gögn afhent rannsóknarnefndinni af Saga Capital vegna fyrirspurnar frá 16. nóvember 2011; stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Svarfdæla; lánasamningur í erlendum myntum milli Saga Capital Fjárfestingarbanka og stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla, desember 2007.

71 . Bréf Saga Capital Fjárfestingarbanka til stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla 28. desember 2010.

72 . Fundargerð Samtaka stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla, 25. janúar 2011.

73 . Ársskýrsla Seðlabanka Íslands 2011, bls. 53.

74 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Svarfdæla, 11. ágúst 2011.

75 . Skýrsla Jóhanns Ólafssonar, formanns samtaka stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 7. ágúst 2012.

76 . Sátt utan réttar og afsal vegna tilboðs Hildu hf. til stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla um að falla frá kröfum, 23. janúar 2012.

77 . „Sala á rekstri Sparisjóðs Svarfdæla samþykkt á stofnfjárhafafundi“, bankasysla.is 6. febrúar 2012, http://www.bankasysla.is/fjolmidlar/frettir/nr/289/.

78 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands 19. mars 2009.

79 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla, 27. október 2008. Á þeim tíma höfðu reglur um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., en 2. gr. laga nr. 125/2008 heimilaði fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að leggja sparisjóði til fjárhæð sem næmi allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans.

80 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla, 4. desember 2008.

81 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Svarfdæla, 8. janúar 2009.

82 . Fjallað er um reglur um framlag til sparisjóða skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. í 13. kafla.

83 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til fjármálaráðuneytisins 17. mars 2009.

84 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til fjármálaráðuneytisins 17. mars 2009.

85 . Bréf fjármálaráðuneytisins til Seðlabanka Íslands 19. mars 2009; bréf fjármálaráðuneytisins til Fjármálaeftirlitsins 19. mars 2009.

86 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 20. apríl 2009.

87 . Bréf Seðlabanka Íslands til fjármálaráðuneytisins 21. apríl 2009. Nánar er fjallað um umsögn Seðlabankans um umsóknir sparisjóðanna í 13. kafla.

88 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og rekstri Sparisjóðs Svarfdæla, skýrsla unnin fyrir Fjármálaráðuneytið, 16. júní 2009.

89 . Samningar um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Svarfdæla, samantekt fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, 16. júní 2009; skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og rekstri Sparisjóðs Svarfdæla, skýrsla unnin fyrir Fjármálaráðuneytið, 16. júní 2009.

90 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Svarfdæla 11. júní 2009.

91 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til Fjármálaeftirlitsins 30. júní 2009.

92 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til Fjármálaeftirlitsins 29. júlí 2009. Niðurstaðan lá svo fyrir um miðjan ágúst 2009.

93 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Árna Pálssonar 15. júlí 2009.

94 . Bréf Seðlabanka Íslands til sparisjóða 8. september 2009.

95 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um vinnu með kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðunum, 21. ágúst 2009.

96 . Ákvörðun bankastjóra Seðlabanka Íslands nr. 1028, 1. febrúar 2010. Um bréf Seðlabanka Íslands, kjör hans og skilmála má lesa í 13. kafla.

97 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til sparisjóða 8. febrúar 2010. Frekari umfjöllun um kröfur Fjármálaeftirlitsins er í 13. kafla.

98 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til Seðlabanka Íslands 8. febrúar 2010.

99 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Svarfdæla 24. mars 2010.

100 . Bréf Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Svarfdæla 8. mars 2010.

101 . Áætlun Sparisjóðs Svarfdæla um fjárhagslega endurskipulagningu, 31. mars 2010.

102 . Nánari umfjöllun um ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA er í 13. kafla.

103 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Svarfdæla, 16. júní 2010.

104 . „Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða“, fme.is, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650. Nánari umfjöllun er að finna í 13. kafla.

105 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um samninga um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Svarfdæla, 23. desember 2010.

106 . Sparisjóður Svarfdæla – Endurskipulagning, skjal frá Sparisjóði Svarfdæla í hefti Seðlabanka Íslands um samninga um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Svarfdæla, 16. desember 2010.

107 . Skýrsla KPMG hf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Svarfdæla 2010, 30. mars 2011.

108 . Ársreikningur Sparisjóðs Svarfdæla 2011.

109 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til Fjármálaeftirlitsins 23. febrúar 2011.

110 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Svarfdæla 25. febrúar 2011.

111 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til Fjármálaeftirlitsins 8. apríl 2011.

112 . Bréf Sparisjóðs Svarfdæla til Fjármálaeftirlitsins 31. júlí 2011.

113 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Svarfdæla 5. ágúst 2011.

114 . Meðal annars var farið fram á skýrslutökur fyrir dómi vegna ágreinings aðila, sbr. vitnamál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 13.–14. september 2011 í máli nr. V-2/2011.

115 . Skýrsla Bankasýslu ríkisins um starfsemi sína 2012.

116 . Ákvörðun nr. 18/2012. Kaup Landsbankans hf. á rekstri og eignum Sparisjóðs Svarfdæla.

117 . Skýrsla Bankasýslu ríkisins um starfsemi sína 2013.

118 . „Samruni Sparisjóðs Svarfdæla við Sparisjóð Norðurlands ses. (áður Sparisjóð Þórshafnar og nágrennis)“, fme.is 9. júlí 2013, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/1863.

119 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.

120 . Arðgreiðslur og forsendur þeirra eru tíundaðar í töflu 19.

121 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

122 . Sú heimild kom inn í lög 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

123 . Nú KPMG ehf.

124 . Samkvæmt skýrslu um innri endurskoðun sparisjóðsins vegna ársins 2005 kom fram að sparisjóðurinn og KPMG hefðu gert með sér samning í desember 2003.