5 – Upplýsingar rannsóknarnefndar um raunverulegan þátt Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf.

(einföld vefútgáfa)

Efnisyfirlit

5.1  Inngangur

Í 3. kafla skýrslunnar er fjallað um söluferli Búnaðarbankans síðari hluta árs 2002, einkum frá síðari hluta október 2002 þegar það söluferli hófst á ný með formlegum hætti. Þá ákvað framkvæmdanefnd um einkavæðingu að bjóða tveimur aðilum sem lýst höfðu áhuga á kaupum á hlut ríkisins í bankanum, þ.e. annars vegar hóp sem leiddur var af Kaldbaki fjárfestingafélagi hf. og hins vegar S-hópnum, að leggja fram frekari upplýsingar þar að lútandi. Í kjölfar þess ákvað ráðherranefnd um einkavæðingu, samkvæmt tillögu framkvæmdanefndar um einkavæðingu, að ganga til einkaviðræðna við S-hópinn um kaupin í byrjun nóvember 2002.

Viðræðum við S-hópinn lyktaði með undirskrift rammasamkomulags („Head of Agreement“) um kaupin 16. nóvember 2002 og síðar kaupsamningi 16. janúar 2003.[65] Rétt fyrir undirskrift kaupsamningsins voru íslenskum stjórnvöldum loks gefnar þær upplýsingar, í fyrsta sinn, að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA (einkum vísað til hér eftir sem Hauck & Aufhäuser) ætti 50% hlutafjár í Eglu hf., sem var stærsti aðilinn í kaupendahópnum og keypti 71,2% af hinum 45,8% hlut í bankanum sem seldur var. Samkvæmt því nam fjárfesting Hauck & Aufhäuser ein og sér 35,6% af hinum keypta hlut í Búnaðarbankanum eða sem nam 16,3% af heildarhlutafé bankans. Í framangreindu fólst einnig að bankinn kom fram sem stærsti einstaki kaupandinn innan S-hópsins að hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Áður var svo einnig lýst nánari atriðum um aðild bankans að kaupsamningnum, þátttöku fulltrúa hans í undirskrift kaupsamningsins og yfirlýsingar um fjárfestingu þýska bankans í Búnaðarbankanum sem gefnar voru út í kringum undirskrift kaupsamningsins af hálfu kaupenda bankans og seljandans, íslenska ríkisins.

Á sama tíma og samningaviðræður forsvarsmanna S-hópsins og fulltrúa íslenska ríkisins um kaupin á BÍ voru leiddar til lykta með framangreindum hætti átti sér hins vegar einnig stað bak við tjöldin sú atburðarás sem þessi hluti skýrslunnar varðar og nú verður vikið að.

5.2  Baksamningar um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.

Gögn og upplýsingar rannsóknarnefndarinnar sýna að dagana áður en skrifað var undir kaupsamninginn um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum 16. janúar 2003 stóð hópur manna að gerð leynilegra baksamninga við Hauck & Aufhäuser um hlut bankans í Eglu hf. Baksamningarnir fólu í meginatriðum í sér að þýski bankinn var í reynd aðeins að nafninu til meðal kaupenda að hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Eignarhald Hauck & Aufhäuser í Eglu hf., og þar með eignarhald á hlutum í Búnaðarbankanum en síðar Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og KB banka hf. í gegnum það félag, var aðeins til málamynda og tímabundið. Aðrir aðilar fjármögnuðu í reynd, báru alla áhættu og áttu alla hagnaðarvon af þessum viðskiptum í nafni þýska bankans. Þýska bankanum var tryggt algert skaðleysi af þátttöku sinni í þeim, hann tók enga fjárhagslega áhættu með þeim og fjárhagslegir hagsmunir bankans af þeim takmörkuðust við umsamda þóknun sem kveðið var á um  í baksamningunum.

Þeir sem einkum höfðu með höndum gerð baksamninganna, eða undirbjuggu og framkvæmdu á sama tíma ráðstafanir sem tengdust þeim beint, voru starfsmenn og stjórnendur íslenska fjármálafyrirtækisins Kaupþings hf. og dótturfélags þess í Lúxemborg, Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (einnig hér eftir KBL), Guðmundur Hjaltason, þáverandi framkvæmdastjóri hjá Samskipum hf. og Martin Zeil, þáverandi forstöðumaður lögfræðisviðs hjá Hauck & Aufhäuser. Aðrir einstaklingar voru einnig viðriðnir gerð baksamninganna, þar á meðal Ólafur Ólafsson, helsti forsvarsmaður S-hópsins, þáverandi forstjóri Samskipa hf. og stjórnarmaður í Keri hf. og síðar Eglu hf., Peter Gatti, framkvæmdastjóri, meðeigandi og stjórnarmaður í Hauck & Aufhäuser og sá sem skrifaði af hálfu bankans undir kaupsamninginn við íslenska ríkið sem og Michael Sautter og Ralf Darpe, starfsmenn franska bankans Société Générale sem störfuðu fyrir S-hópinn við einkavæðingu BÍ eins og greint hefur verið frá. Þegar hefur verið vikið að öllum hinum síðastnefndu í fyrri umfjöllun í skýrslunni en nánari grein er gerð fyrir aðild einstakra manna að gerð baksamninganna síðar í þessum kafla.

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar verður ráðið að starfsmenn Kaupþings hf. og KBL hafi einkum gegnt tvenns konar hlutverki við gerð baksamninganna. Annars vegar útveguðu þeir aflandsfélag, og stjórnanda fyrir það, til að standa að umræddum baksamningum við Hauck & Aufhäuser fyrir þá aðila sem í reynd stóðu að baki félaginu og nutu þeirra hagsmuna sem baksamningarnir tryggðu því. Hins vegar greiddi Kaupþing hf. til Hauck & Aufhäuser, í þágu umrædds aflandsfélags, ákveðna peningafjárhæð sem samið var um í baksamningunum, alls um 35,5 milljónir Bandaríkjadala. Fjárhæðin var sett þýska bankanum að handveði til að tryggja skaðleysi hans af hlutafjárframlagi sem honum bæri að greiða til Eglu hf. vegna hlutdeildar Eglu í kaupunum á hlut ríkisins í BÍ og var miðað við að fjárhæðin væri eða yrði jöfn slíku hlutafjárframlagi. Um þá fyrirgreiðslu Kaupþings hf. í þágu aflandsfélagsins var síðan gerður lánssamningur milli sömu aðila. Hin handveðsetta innstæða stóð fyrst og fremst til tryggingar því kaupverði sem aflandsfélagið skyldi greiða fyrir hlutina í Eglu hf. þegar baksamningarnir yrðu framkvæmdir samkvæmt efni sínu á síðara stigi.[66]

Aðilar baksamninganna gerðu á næstum árum ýmsar ráðstafanir og stóðu að frekari gerningum vegna þessara leynilegu samninga. Þau atvik ná allt til upphafs ársins 2006 en þá höfðu samningarnir verið framkvæmdir að fullu og þar með þjónað gildi sínu fyrir samningsaðila. Við það tímamark fór fram uppgjör á þeim ávinningi sem fallið hafði til umrædds aflandsfélags vegna viðskipta með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna. Þeim ávinningi var í grófum dráttum skipt í tvennt og ráðstafað í tvennu aðskildu lagi af bankareikningum Welling & Partners Limited hjá Hauck & Aufhäuser til tveggja annarra aflandsfélaga. Nánari grein er gerð fyrir upplýsingum rannsóknarnefndarinnar um þetta hagnaðaruppgjör síðar í skýrslunni.

Hér á eftir fer nánari lýsing á framangreindum atvikum samkvæmt þeim gögnum sem rannsóknarnefndin býr yfir. Lýst verður helstu tímabilum og áföngum í hinu leynilega viðskiptasambandi aðila, sem og tengdum atvikum að því marki sem samhengi krefst. Að meginstefnu er fylgt tímaröð atvika.[67]

5.3  Aðdragandi baksamninga um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.

5.3.1  „The Puffin“ – Kaupþing hf. kemur til sögunnar

Í kafla 3 hér á undan var meðal annars rakið hvernig ádráttur um að erlendur banki kæmi að tilboði S-hópsins, hvort heldur í Landsbankann eða Búnaðarbankann, var frá upphafi hluti af þeim upplýsingum sem hópurinn veitti framkvæmdanefnd um einkavæðingu í söluferli ríkisbankanna. Tekin voru þar saman meginatriði varðandi þetta úr söluferli Búnaðarbankans. Meðal annars var þar gerð grein fyrir því, seint í þessu ferli, þegar Ólafur Ólafsson, m.a. ásamt ónefndum ráðgjafa S-hópsins frá Société Générale, tilkynnti formanni framkvæmdanefndar um einkavæðingu 13. desember 2002, samkvæmt fundargerð framkvæmdanefndarinnar, að ekki yrði tilkynnt um „erlendan aðila“ fyrr en við undirskrift kaupsamnings um Búnaðarbankann. Einnig var fjallað um upplýsingar sem ráðgjafi framkvæmdanefndarinnar hjá breska bankanum HSBC aflaði þá fyrir nefndina – aftur fyrir milligöngu ráðgjafa S-hópsins frá Société Générale – um þær fjármálastofnanir sem kæmu til greina. Þær upplýsingar voru mjög takmarkaðar og óljósar en af þeim mátti þó ráða að hins „erlenda aðila“ væri helst leitað í Þýskalandi og ekki úr hópi þekktari fjármálastofnana.

Fjórum dögum eftir þetta, 17. desember 2002, sýna gögn rannsóknarnefndar að Ralf Darpe, annar ráðgjafi S-hópsins frá Société Générale, sendi Ólafi Ólafssyni svohljóðandi tölvupóst, með afriti á hinn ráðgjafa S-hópsins frá Société Générale, Michael Sautter:

„Olafur,

we have scheduled two meetings for you on Thursday:

3 p.m. Meeting with Mr. Gatti, Member of the board of Hauck & Aufhäuser and Mr. Zeil, Head of Structured Finance at Hauck & Aufhäuser.

5 p.m. Meeting with Mr. Lehmann, CEO of Seydler Bank

We would propose that you stay in the Frankfurter Hof, Tel.: […] which is close by.

Let us know if we should book the Hotel for you and the Puffin or if we can organize anything else for you.“


Af þessum tölvupósti má ráða að Darpe og Sautter hafi séð um að bóka fyrir Ólaf Ólafsson tvo fundi með þýskum bankamönnum í Frankfurt, sem átt hafi að fara fram tveimur dögum síðar, eða 19. desember 2002. Fyrri fundurinn var bókaður með (Peter) Gatti, sem þar var sagður stjórnarmaður í Hauck & Aufhäuser, og (Martin) Zeil, sem sagður var í tölvupóstinum forstöðumaður samsettrar fjármögnunar hjá sama banka. Síðari fundurinn skyldi vera með framkvæmdastjóra annars þýsks banka en óþarft telst að rekja það nánar hér. Í tölvupósti Darpe var svo stungið upp á hótelgistingu fyrir Ólaf í Frankfurt og að síðustu óskað eftir að hann léti vita hvort Darpe og Sautter ættu að bóka hótel fyrir Ólaf og „the Puffin“, þ.e. „Lundann“. Með síðustu orðunum var augljóslega skírskotað til einhvers einstaklings eða einstaklinga sem Darpe og Sautter væntu að myndu fylgja Ólafi í þessa fundaferð til Frankfurt.[68]

5.3.2  Samantekt  og  ályktanir rannsóknarnefndar

Við rannsókn nefndarinnar gáfu meðal annars skýrslu Kristján Loftsson, Margeir Daníelsson og Finnur Ingólfsson. Tveir hinir fyrstnefndu voru stjórnarmenn í Keri hf. á þessum tíma, þar af Kristján stjórnarformaður og hluthafi gegnum eignarhluti í öðrum félögum. Margeir var einnig framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins sem var hluthafi í Keri hf. ásamt því að vera hluti af S-hópnum og beinn fjárfestir í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Finnur Ingólfsson var þá nýorðinn forstjóri Vátryggingafélags Íslands hf. sem var hluti af S-hópnum og beinn fjárfestir í kaupunum auk óbeinnar fjárfestingar til viðbótar gegnum 0,5% eignarhald í Eglu hf.[69] Samanlagt stóðu Samvinnulífeyrissjóðurinn og VÍS að kaupum á um 21% þess hlutar sem seldur var.[70]

Kristján, Margeir og Finnur höfnuðu því allir í skýrslum sínum fyrir rannsóknarnefndinni að hafa þá eða síðar haft nokkra vitneskju um baksamningana um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Af framburðum þeirra varð ekki annað ráðið en að atriði varðandi þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupunum á hlut ríkisins á Búnaðarbankanum sem þeim voru kynnt innan Kers hf. og S-hópsins, og þá af Ólafi Ólafssyni og öðrum sem unnu að málinu fyrir S-hópinn (sbr. nánar hér á eftir), hefðu verið á sömu leið og kynnt var opinberlega og gagnvart íslenskum stjórnvöldum.

Þetta fær stuðning í fyrirliggjandi gögnum rannsóknarnefndar að því leyti að engin gögn eða upplýsingar hafa komið fram við rannsókn nefndarinnar sem gætu gefið tilefni til að ætla að Kristján, Margeir og Finnur hafi verið viðriðnir eða haft vitneskju um baksamningana og ráðstafanir sem tengdust þeim.

Við rannsókn nefndarinnar hafa engin skjalleg gögn komið fram sem fallið gætu undir fundargerðir S-hópsins sem slíks eða annars sérstök og sjálfstæð gögn um innra starf eða ákvarðanatöku hans, ef frá er talið hluthafasamkomulag sem gert var 16. janúar 2003 og vikið er að í kafla 3.2. Ljóst er að hópurinn var ekki sjálfstæður lögaðili, heldur óformlegur vettvangur fyrir samstarf nokkurra aðila um kaupin í Búnaðarbankanum. Þá tók samsetning hópsins breytingum þá mánuði sem söluferlið stóð. Af gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndar má þó ráða að forsvarsmenn hópsins hafi átt með sér fundi á þessum tíma og það jafnvel oft á einstökum tímabilum. Engin gögn hafa þó komið fram um nánara efni eða niðurstöður slíkra funda.

Þá benda fyrirliggjandi gögn rannsóknarnefndar ekki til þess að aðrir forsvarsmenn félaga úr S-hópnum en Ólafur Ólafsson hafi haft nokkur umtalsverð afskipti af efnislegum viðræðum af hálfu S-hópsins við stjórnvöld um hin fyrirhuguðu kaup eða komið með beinum hætti nálægt þeim þætti málsins sem varðaði aðkomu erlendrar fjármálastofnunar að tilboði S-hópsins. Framburðir Kristjáns Loftssonar, Margeirs Daníelssonar og Finns Ingólfssonar fyrir rannsóknarnefndinni um það atriði voru á sömu leið.

Eins og áður hefur komið fram liggja einnig fyrir meðal gagna rannsóknarnefndar fundargerðir stjórnar Kers hf. frá þessum tíma. Þar áttu sæti meðal annarra Kristján Loftsson, Margeir Daníelsson og Ólafur Ólafsson (sem var varaformaður stjórnarinnar), það er fyrirsvarsmenn tveggja af fjórum innlendum aðilum sem skipuðu S-hópinn. Auk þess hlutu mál varðandi þátt erlendrar fjármálastofnunar í kaupunum eðli máls samkvæmt fyrst og fremst að koma til umræðu og úrlausnar hjá stjórn Kers hf., af þeirri augljósu ástæðu að fyrirhuguð þátttaka hinnar erlendu fjármálastofnunar var samtvinnuð þátttöku Kers hf. sjálfs í kaupunum sem óbein fjárfesting gegnum eignarhaldsfélag (Eglu ehf., síðar hf.) í nokkurn veginn jafnri eigu hennar og Kers hf. Ker hf. var jafnframt stærsti innlendi aðilinn í kaupendahópnum.

Ljóst er einnig að upplýsingagjöf Ólafs Ólafssonar um framgang ráðagerða og síðar tilboða og viðræðna við stjórnvöld um kaup á hlut í ríkisbönkunum, og síðar Búnaðarbankanum sérstaklega, má rekja langt aftur í fundargerðum stjórnar Kers hf., að því er virðist nokkurn veginn til upphafs síns og ná engin önnur gögn rannsóknarnefndarinnar svo langt aftur í tíma hvað það varðar. Samkvæmt þessu telur rannsóknarnefndin óhætt að telja fundargerðir Kers hf. almennt séð áreiðanlega heimild um þær upplýsingar sem Ólafur eða trúnaðarmenn hans í viðræðum við stjórnvöld veittu öðrum aðstandendum S-hópsins meðan á söluferlinu stóð. Á það ekki síst við þar sem upplýsingar í þeim eru að öllu leyti sem hér hefur þýðingu í samræmi við munnlega framburði hlutaðeigandi manna, það er fyrrum stjórnarmanna Kers hf. og forsvarsmanna í S-hópnum, fyrir rannsóknarnefndinni.

Af framburðum fyrrverandi stjórnarmanna Kers hf. og forsvarsmanna annarra félaga í S-hópnum fyrir nefndinni má beint og óbeint ótvírætt ráða að hvatamaðurinn og leiðtoginn í samstarfi S-hópsins um kaupin á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum hafi verið Ólafur Ólafsson. Rannsókn nefndarinnar þykir einnig hafa leitt ótvírætt í ljós að frá upphafi til enda var þátttaka S-hópsins í einkavæðingarferli ríkisbankanna, bæði Landsbankans fyrst í stað og síðar Búnaðarbankans, í öllum meginatriðum falin í hendur Ólafi og leidd af honum og mönnum sem líta verður á sem trúnaðarmenn hans. Annars vegar, og fyrst og fremst, var þá um að ræða Guðmund Hjaltason, þáverandi framkvæmdastjóra hjá Samskipum hf., sem ljóst er af gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndar að kom að þessu ferli í gegnum Ólaf Ólafsson. Hins vegar er átt við tvímenningana frá Société Générale, Ralf Darpe og Michael Sautter.[71] Af gögnum og upplýsingum nefndarinnar verður ráðið að fulltrúar franska bankans hafi komið að þessu ferli a.m.k. frá áliðnu sumri 2002 og að Ólafur hafi fengið þá til þess, að því er virðist á grundvelli eldri tengsla hans inn í Société Générale í Þýskalandi, án afskipta annarra stjórnarmanna Kers hf. eða forsvarsmanna annarra félaga í S-hópnum. Aðild Guðmundar, Darpe og Sautter að ferlinu kom því til vegna Ólafs Ólafssonar og byggðist á beinum eða óbeinum tengslum við hann sem þremenningarnir höfðu ekki á samsvarandi hátt við aðra hlutaðeigandi í stjórn Kers hf. eða S-hópnum á þessum tíma. Samkvæmt þessu, og að virtum öðrum gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndarinnar, einkum þá vitaskuld vitneskju og aðkomu þessara þriggja manna ásamt Ólafi að hinum leynilegu baksamningum um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. sem þessi kafli skýrslunnar varðar, þykir með réttu verða litið á þá sem fulltrúa og trúnaðarmenn Ólafs í þessu ferli en ekki, eða a.m.k. miklum mun fremur en, annarra stjórnarmanna Kers hf. eða forsvarsmanna í S-hópnum.

Í kafla 3 í skýrslunni voru meðal annars dregin saman atvik laust fyrir miðjan desember 2002, í fyrsta lagi varðandi það þegar Ralf Darpe kynnti fyrir stjórn Kers hf. 11. þ.m. að franski bankinn myndi ekki taka þátt í fjárfestingu í Búnaðarbankanum. Fram að því benda bókanir í fundargerðum stjórnar Kers hf. um þetta frá vikunum á undan til þess að gengið hafi verið út frá að Ker hf. og Société Générale myndu, með óbeinum hætti gegnum jafnt eignarhald og fjármögnun á eignarhaldsfélaginu Eglu, standa saman að langstærstum hluta fjárfestingar í Búnaðarbankanum. Þá hefur verið gerð grein fyrir fundi Ólafs Ólafssonar og fleiri af hálfu S-hópsins með formanni framkvæmdanefndar um einkavæðingu tveimur dögum síðar, samkvæmt bókun í fundargerð framkvæmdanefndarinnar, þar sem af hálfu S-hópsins var óskað eftir fresti á undirritun kaupsamnings og tilkynnt að ekki yrði unnt að „tilkynna um erlendan aðila“ fyrr en fyrst þá. Rétt er að taka fram að engar markverðar upplýsingar hafa fengist fram við skýrslutökur eða gagnaöflun rannsóknarnefndarinnar umfram það sem þessi fundargerð framkvæmdanefndarinnar greinir frá um þetta. Jafnframt hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til að draga þessa samtímalýsingu atvika í efa.

Á þessu tímamarki verða ákveðin straumhvörf í þessu ferli. Þannig verður ekki annað séð en að fyrst þarna, að minnsta kosti eins og það var kynnt gagnvart stjórnarmönnum í Keri hf. og eftir atvikum öðrum forsvarsmönnum félaga í S-hópnum, hætti Société Générale að koma til greina sem hugsanlegur fjárfestir í kaupunum.

Örfáum dögum síðar, 17. desember 2002, liggur fyrir tölvupóstur Ralf Darpe til Ólafs Ólafssonar, dagsettur þann dag, um fundi með bankamönnum í Frankfurt. Tölvupósturinn, sem vitnað var til í heild sinni í kaflanum, sýnir tvennt.

Í fyrsta lagi virðist mega ráða af honum upphaf þess að Hauck & Aufhäuser kom inn í þetta ferli. Af efni og samhengi tölvupóstsins virðist ljóst að Darpe (og eftir atvikum Sautter) hafi skipulagt fyrsta fund Ólafs, a.m.k. í samhengi við þau atvik sem hér er fjallað um, með þeim tveimur yfirmönnum frá Hauck & Aufhäuser , Martin Zeil og Peter Gatti, sem síðar komu að gerð baksamninganna með fulltrúum Ólafs og starfsmönnum Kaupþings hf. Rétt er að benda á í því samhengi að gögn nefndarinnar benda ekki til að aðrir úr hópi þáverandi yfirmanna Hauck & Aufhäuser hafi átt þátt í þessu verkefni af hálfu bankans. Þannig verður ekki annað séð en að Peter Gatti hafi verið eini starfsmaður bankans sem kom fram opinberlega fyrir hönd hans við kaupin og raunar einnig á árunum eftir þau. Þá verður ekki séð að aðrir yfirmenn Hauck & Aufhäuser en Gatti og Martin Zeil, og þá einkum sá síðarnefndi, hafi tengst gerð baksamninganna og síðari framkvæmd þeirra.

Í öðru lagi er tölvupóstur Darpe fyrsta skjalið í tíma meðal gagna rannsóknarnefndarinnar sem ótvírætt má ráða af að Kaupþing hf. var komið „um borð“ í hin fyrirhuguðu viðskipti með hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Skírskotun í tölvupóstinum til „the Puffin“ sem hugsanlega ætti að panta hótelgistingu fyrir í Frankfurt samhliða Ólafi Ólafssyni vísaði þannig til Kaupþings hf., og þá eðlilega í reynd til einstaklings eða einstaklinga á vegum þess. Þetta er ljóst af fjölmörgum öðrum gögnum rannsóknarnefndar þar sem þetta viðurnefni kemur fram.[72] Einnig má telja ljóst af samhengi og orðalagi tölvupóstsins að þessu leyti að ráðagerðir um leynilega þátttöku Kaupþings hf. í þessu ferli hafi verið hafnar nokkru fyrir þann tíma sem tölvupósturinn var sendur og þar með áður en Hauck & Aufhäuser kom jafnframt að málinu, a.m.k. með endanlegum hætti. Ekki er þó unnt að fullyrða hversu löngu áður þar sem engra annarra gagna eða upplýsinga nýtur við um nánari tímasetningu þess.[73] Um upphaf og aðdraganda leynilegra afskipta Kaupþings hf. af þessum viðskiptum hefur rannsóknarnefndin þannig ekki frekari haldbærar upplýsingar.[74]

Frá dagsetningu tölvupósts Darpe, 17. desember 2002, og fram til fyrstu daga janúar 2003, eða í rúmar tvær vikur, hefur rannsóknarnefndin ekki óyggjandi gögn eða upplýsingar við að styðjast um framgang undirbúnings að gerð baksamninganna. Í kafla 3 hér að framan var meðal annars gerð grein fyrir upplýsingum úr fundargerðum framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem fyrir liggja um atvik undir lok söluferlis Búnaðarbankans í byrjun janúar 2003. Meðal annars var þar getið um upplýsingar sem hafðar voru eftir Ólafi Ólafssyni í samtali við formann framkvæmdanefndar um einkavæðingu, þess efnis að „samningar við erlenda fjármálastofnun væru langt komnir“. Einnig var gerð grein fyrir upplýsingum sem hafðar voru eftir erlendum ráðgjafa nefndarinnar þremur dögum síðar, 9. janúar 2003, um að hann teldi ónefndan erlendan banka sem kominn væri til liðs við S-hópinn „góðan fjárfesti og vel ásættanlegan fyrir íslensk stjórnvöld“. Eins og nánar er rakið þar verður hins vegar ekkert ráðið af sömu fundargerðum um nafn þessarar erlendu fjármálastofnunar né nákvæmlega um það hvenær framkvæmdanefndin fékk nafn hennar fyrst gefið upp. Aðeins liggur fyrir að það gerðist fyrst örfáum dögum fyrir undirskrift kaupsamningsins 16. janúar 2003.

Hins vegar má ráða af fundargerð stjórnar Kers hf. 10. janúar 2003 að þann dag hafi Ólafur Ólafsson kynnt fyrir öðrum stjórnarmönnum í Keri hf. að Hauck & Aufhäuser „kæmi að Eglu hf. í þessu máli“ og að Martin Zeil, sem nefndur var lögmaður Hauck & Aufhäuser í fundargerðinni, „væri að yfirfara og skoða drög að skjölum og kynna sér löggjöf henni tengdri [svo] hérlendis“.

Víkur þá að umfjöllun um gerð baksamninganna frá og með þessum sama degi, 10. janúar 2003, samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem komu fram við rannsókn nefndarinnar.

5.4  Janúar 2003: Gerð baksamninga um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. og tengdar ráðstafanir

5.4.1  „Puffin“– verkefnið

Á meðal gagna rannsóknarnefndar eru afrit tölvupóstsamskipta sem áttu sér stað á tímabilinu 10. til 16. janúar 2003 á milli Guðmundar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra hjá Samskipum hf. og fulltrúa Ólafs Ólafssonar í söluferli Búnaðarbankans, Bjarka Diego, starfsmanns Kaupþings hf. og Martin Zeil, forstöðumanns lögfræðisviðs Hauck & Aufhäuser. Í þessum tölvupóstsamskiptum voru drög að baksamningunum og skjölum sem tengdust þeim beint eða óbeint send ítrekað á milli mannanna þriggja með breytingum, viðbótum og/eða athugasemdum hverju sinni, allt uns lokadrög baksamninganna lágu fyrir síðla kvölds 15. janúar 2003, það er kvöldið fyrir undirskrift þeirra og kaupsamnings S-hópsins og íslenska ríkisins um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Hátt á annan tug slíkra draga að baksamningunum frá þessu tímabili liggja fyrir í gögnum rannsóknarnefndar, þó með mismiklum innbyrðis breytingum. Virk þátttaka í þessum tölvupóstsamskiptum einskorðaðist að meginstefnu við fyrrnefnda þrjá menn en einstakir tölvupóstar voru langflestir einnig sendir sem afrit á stærri hóp viðtakenda, í sumum tilvikum þannig að slíkir viðtakendur afrita fengu afrit af nær öllum þessum tölvupóstum og fylgiskjölum þeirra. Aðilar að tölvupóstsamskiptunum, bæði virkir og óvirkir, eru annars nánar tilgreindir hér fyrir neðan. Einnig liggja fyrir í gögnum rannsóknarnefndarinnar afrit tölvupóstsamskipta innan Kaupþings hf. og dótturfélags þess, Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (KBL), á sama tíma varðandi þær tengdu ráðstafanir sem Kaupþing hf. og KBL sáu um að framkvæma vegna baksamninganna.

Af þessum gögnum má ráða að verkefnið, sem aðilar lögðu áherslu á að leynd ætti að ríkja um, hafi einkum gengið undir viðurnefninu „Puffin“. Af gögnum rannsóknarnefndar er sömuleiðis ljóst að með viðurnefninu „Puffin“ í samskiptum og skjaladrögum aðila var einnig vísað til Kaupþings hf.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar voru helstu aðilar að fyrrnefndum tölvupóstsamskiptum um gerð baksamninganna eftirtaldir einstaklingar, þ.e. annars vegar þeir sem helst áttu virkan þátt í þeim og hins vegar þeir sem að meginstefnu fengu aðeins send afrit af tölvupóstum og fylgiskjölum án þess að taka virkan þátt sjálfir.[75]

Af hálfu Hauck & Aufhäuser sinnti Martin Zeil gerð baksamninganna eins og hún birtist í þessum tölupóstsamskiptum. Að auki fékk Peter Gatti í sumum tilvikum afrit af umræddum tölvupóstum og skjaladrögum varðandi baksamningana.

Fyrir Kaupþing hf. vann Bjarki Diego, starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar félagsins, helst að gerð baksamninganna, samkvæmt þessum tölvupóstsamskiptum. Að auki voru afrit flestra tölvupósta sem þá vörðuðu einnig send til tveggja úr hópi æðstu stjórnenda Kaupþings hf., Hreiðars Más Sigurðssonar, aðstoðarforstjóra, og Steingríms P. Kárasonar, forstöðumanns áhættustýringar. Einnig fékk Kristján Þorbergsson, hæstaréttarlögmaður, sem ekki starfaði þá hjá Kaupþingi hf., svo kunnugt sé, í flestum tilvikum afrit af slíkum tölvupóstum. Að því er varðar innri tölvupóstsamskipti Kaupþings hf. og KBL um baksamningana og ráðstafanir tengdar þeim áttu sömu starfsmenn þessara félaga þátt í þeim en einnig fleiri starfsmenn, mismikinn eftir atvikum. Framkvæmdastjóri KBL, Magnús Guðmundsson, og Eggert J. Hilmarsson, lögfræðingur hjá KBL, áttu umtalsverðan og virkan þátt í þessu ferli á ýmsum stigum, einkum þá Eggert, varðandi þær ráðstafanir sem Kaupþing hf. og KBL sáu um að framkvæma vegna baksamninganna. Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings hf., átti einnig þátt í tölvupóstsamskiptum og ráðstöfunum innan Kaupþings hf. sem gerðar voru í tengslum við baksamningana.

Loks tók þátt í gerð baksamninganna þröngur hópur manna sem tengdust Ólafi Ólafssyni úr S-hópnum og atvikum sem skýrsla þessi varðar með þeim hætti að óhætt telst að líta á þá sem trúnaðarmenn Ólafs í söluferli Búnaðarbankans, enda þótt þeir hafi allir formlega komið að hinu opinbera söluferli bankans sem fulltrúar eða ráðgjafar S-hópsins.[76] Er þá fyrst og fremst átt við Guðmund Hjaltason, sem líkt og áður sagði átti virkan þátt í gerð baksamninganna og var á sama tíma var einn helsti samningamaður S-hópsins við framkvæmdanefnd um einkavæðingu um kaupin á Búnaðarbankanum. Hins vegar er þá átt við ráðgjafa S-hópsins frá Société Générale, Michael Sautter og Ralf Darpe. Afrit tölvupósta og draga að baksamningunum voru í flestum tilvikum einnig send til þeirra síðarnefndu, aðallega þá Sautter. Ólafur Ólafsson var einnig sjálfur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum rannsóknarnefndarinnar, tvisvar á fyrrnefndu tímabili í hópi þeirra sem Guðmundur sendi afrit af tölvupóstum og meðfylgjandi drögum að baksamningunum.

Tölvupóstarnir og skjöl sem þeim fylgdu í viðhengjum, einkum þá drögin að baksamningunum á hverjum tíma með breytingum og viðbótum frá einni útgáfu til annarrar, bera með sér að hafa að meginstefnu verið send á milli og samin eða fullgerð af Martin Zeil, Bjarka Diego og Guðmundi Hjaltasyni. Athugasemdir í tölvupóstunum benda einnig til þess að aðilar að tölvupóstsamskiptunum hafi þessu til viðbótar hist á fundum á sama tíma þar sem unnið hafi verið að undirbúningi baksamninganna.

Af þeim gögnum um baksamningana sem liggja fyrir hjá rannsóknarnefndinni má ráða að ákvarðanir um efni þeirra í grundvallaratriðum hafi legið fyrir áður en gerð þeirra var kláruð á umræddu dagabili. Markmið og efni beggja samninganna er þannig frá fyrstu drögum að meginstefnu ljóst í þeim gögnum sem nefndin býr yfir. Með tölvupóstsamskiptunum og eftir atvikum öðrum samskiptum fyrrnefnds hóps manna þessa daga frá og með 10. janúar 2003 var endanlega gengið frá samningunum í einstökum atriðum og efni þeirra útfært nánar.

Eitt af því sem stóð eftir að ganga frá í samningunum voru fjárhagsleg atriði sem hlutu að velta á því hvernig um semdist endanlega á milli íslenska ríkisins og S-hópsins um kaupin á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Einkum er þá átt við það kaupverð sem S-hópurinn skyldi greiða en það lá ekki endanlega fyrir fyrr en undir lok þeirra samningaviðræðna. Upplýsingar um slík atriði voru auðveldlega aðgengilegar þeim sem stóðu að baksamningunum jafnskjótt og þær lágu fyrir milli ríkisins og S-hópsins vegna fyrrgreindrar þátttöku Guðmundar Hjaltasonar af hálfu S-hópsins í samningaviðræðunum við íslensk stjórnvöld. Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að Guðmundur kom upplýsingum og gögnum úr þeim samningaviðræðum, þar meðal upplýsingum um verð þegar samið hafði verið um það atriði, á framfæri við þá sem stóðu með honum að gerð baksamninganna.

Baksamningarnir voru því ekki eingöngu fullgerðir samhliða lokastigum samningsgerðar S-hópsins við framkvæmdanefnd um einkavæðingu heldur voru þeir af framangreindum ástæðum beintengdir og háðir henni í mikilvægum atriðum. Í þessu samhengi má til dæmis nefna, eins og síðar verður nánar lýst, að hinir leynilegu baksamningar bera sömu dagsetningu og kaupsamningur S-hópsins við íslenska ríkið um hlut íslenska ríkisins    í Búnaðarbankanum, eða 16. janúar 2003, og voru samkvæmt tiltækum upplýsingum rannsóknarnefndarinnar undirritaðir þann sama dag á erlendri grundu.

Baksamningunum tengdust síðar fleiri samningar aðila sem og ýmsar ráðstafanir sem tengdust ákvæðum samninganna, bæði við gerð þeirra og síðar. Baksamningarnir tveir voru hins vegar grundvöllurinn að leynilegu samstarfi þeirra sem að þeim stóðu. Í því fólst að komið var fram og síðar viðhaldið þeirri röngu hugmynd að Hauck & Aufhäuser tæki þátt sem fjárfestir, og það stærsti einstaki fjárfestirinn, í kaupum S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, eins og íslenskum stjórnvöldum og íslenskum almenningi var kynnt við þau kaup og ávallt síðan.[77] Baksamningarnir miðuðu jafnframt að því að tryggja raunveruleg yfirráð og á endanum hagsbætur annarra aðila af þeim hlut í Eglu hf. og þar með Búnaðarbankanum, síðar Kaupþingi-Búnaðarbanka hf. og KB banka hf., sem Hauck & Aufhäuser var opinberlega sagður kaupandi og svo eigandi að.

Hér á eftir verður greint frá atburðarásinni fyrrgreinda daga í janúar 2003 fram að undirskrift baksamninganna, nánar tiltekið gerð þeirra og tengdum ráðstöfunum á sama tíma. Ekki verður þá fjallað í smáatriðum eða til hlítar um efni baksamninganna (eða einstakra draga að þeim á hverjum tíma) en síðar er gerð nánari grein fyrir efni þeirra í endanlegri mynd.[78] Í viðaukum með skýrslunni eru báðir baksamningarnir einnig birtir í heild sinni auk fjögurra draga þeirra, ásamt meðfylgjandi tölvupóstum, frá tímabilinu 10. til 15. janúar 2003 meðan á gerð samninganna stóð.[79]

Samhengis vegna þykir hins vegar rétt að gera á þessu stigi nokkra grein fyrir meginefni og –einkennum baksamninganna í grófum dráttum. Það er gert í rammagrein hér á eftir.


Meginefni baksamninganna tveggja um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar voru baksamningarnir, frá fyrstu drögum þeirra sem liggja fyrir og allt til endanlegrar útgáfu þeirra, tveir samhliða og nátengdir samningar sem vísuðu hvor til hins og voru hvor fyrir sig sagðir óaðskiljanlegur hluti hins. Sem fyrr sagði liggur meginefni og tilgangur þeirra sömuleiðis í grundvallaratriðum skýr fyrir frá upphafi í þeim gögnum sem rannsóknarnefndin býr yfir.

Söluréttarsamningurinn (e. „Put Option Agreement“)

Annar samningurinn hafði að meginefni ákvæði um óafturkræfan sölurétt Hauck & Aufhäuser á hlutum bankans í Eglu hf. til aflandsfélags sem var gagnaðili bankans að samningunum.[80] Sölurétturinn var háður því eina skilyrði að tiltekinn tími liði en það skilyrði endurspeglaði aftur tiltekið ákvæði í kaupsamningi S-hópsins við ríkið um Búnaðarbanka Íslands hf. um 21 mánaðar lágmarks tímalengd á eignarhaldi. Kaupverð aflandsfélagsins ef sölurétti væri beitt skyldi vera fjárhæð jöfn hlutafjárframlagi bankans til Eglu hf. Fjárhæðin skyldi þó aldrei vera hærri en 33.454.372 Bandaríkjadalir. Á móti var aflandsfélaginu veittur forkaupsréttur að hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. að uppfylltu því eina skilyrði að gilt tilboð hefði komið fram í þá, óháð fjárhæð slíks tilboðs. Kaupverð við beitingu forkaupsréttar var hins vegar fastsett og skyldi að hámarki vera jafnt áðurnefndu kaupverði í tilviki beitingar söluréttar, þ.e. 33.454.372 Bandaríkjadalir. Önnur ákvæði samningsins girtu svo í reynd fyrir að Hauck & Aufhäuser ráðstafaði hlutunum í Eglu hf. til neins nema aflandsfélagsins. Í samræmi við meginefni hans hafði þessi samningur og öll fyrirliggjandi drög að honum yfirskriftina „Put Option Agreement“. Hér verður vísað til hans sem „söluréttarsamningsins“.

Veð- og tryggingasamningurinn (e. „Pledge and Security Agreement“)

Hinn samningurinn hafði að meginefni ákvæði um það að aflandsfélagið greiddi inn á bankareikning sinn hjá Hauck & Aufhäuser 35.454.372 Bandaríkjadali, sem væri jafngildi umsamins hlutafjárframlags bankans til Eglu hf. að viðbættum kostnaði, og skuldbindi sig til að ráðstafa ekki fjárhæðinni meðan samningurinn væri í gildi. Fjárhæðin var handveðsett bankanum sem trygging gegn öllum kröfum bankans vegna söluréttarsamningsins, sérstaklega þá kröfu til greiðslu kaupverðs samkvæmt þeim samningi. Þá kvað samningurinn á um að óháð nýtingu söluréttarins ábyrgðist aflandsfélagið skaðleysi Hauck & Aufhäuser af öllum verðsveiflum og verðlækkun á hlutabréfum í Búnaðarbankanum meðan samningurinn gilti sem og af hvers kyns tjóni bankans vegna fleiri nánar tilgreindra mögulegra atvika og aðstæðna. Í meginatriðum miðuðu þau ákvæði að því að tryggja Hauck & Aufhäuser skaðleysi af öllum hugsanlegum kostnaði og tjóni sem hlotist gæti á hagsmunum bankans vegna aðkomu hans að einkavæðingu Búnaðarbankans. Samningurinn hafði einnig að geyma ákvæði um þóknun Hauck & Aufhäuser fyrir að standa að baksamningunum. Hún var ákveðin samtals 1.000.000 evrur. Í samræmi við meginefni hans hafði þessi samningur og öll fyrirliggjandi drög að honum yfirskriftina „Pledge and Security Agreement“. Hér verður vísað til hans sem „veð- og tryggingasamningsins“.

Eins og fram kemur í meginmáli er gerð ítarlegri grein fyrir efni samninganna síðar í skýrslunni. 


Nú verður vikið að framangreindum tölvupóstsamskiptum og þeirri leynilegu samningagerð sem átti sér stað með þeim og þau endurspegla að öðru leyti á fyrrgreindu dagabili. Samhengis vegna fléttast inn í þá umfjöllun önnur atriði og atvik sem áttu sér stað meðan á gerð baksamninganna stóð og leiddu beint af efni þeirra, einkum um hvernig starfsmenn Kaupþings hf. stóðu að því að útvega aflandsfélag til að standa að samningunum, greiðslur Kaupþings hf. til Hauck & Aufhäuser í þágu aflandsfélagsins í samræmi við ákvæði baksamninganna og gerð lánssamnings við aflandsfélagið um þá sömu fjárhæð.

Um tungumál gagna skal þess almennt getið að þar sem útlendingar áttu hlut að máli eru mörg þeirra eðli máls samkvæmt á ensku, þar með vitaskuld öll gögn sem varða þá beint. Beinar tilvitnanir til slíkra gagna eru á frummáli en ef tilefni telst til eru annað hvort þýddir hlutar þeirra eða gefin óbein þýðing eða samantekt á helstu atriðum þeirra.

Í þágu skýrleika og viðleitni að forðast endurtekningar einskorðast sú umfjöllun sem fylgir að mestu við meginatriði baksamninganna og tengdar ráðstafanir. Að öðru leyti en þegar hefur komið fram, sbr. rammagrein hér á undan, vísast til síðari umfjöllunar um nánara efni baksamninganna. Ekki er þörf á að gera sérstaka eða tæmandi grein fyrir efni hverra draga þeirra fyrir sig eða smávægilegum breytingum sem varða ekki meginatriði og markmið þeirra.

Umfjöllun sem fer hér á eftir er að meginstefnu takmörkuð við lýsingu á efni þeirra gagna og upplýsinga sem rannsóknarnefndin býr yfir og framvindu atvika samkvæmt þeim. Um samantekt eða greiningu einstakra atriða og ályktanir rannsóknarnefndarinnar vísast hins vegar til sérstakra auðkenndra kafla í skýrslunni með slíku efni.

5.4.2  10. janúar 2003: Fyrstu fyrirliggjandi drög baksamninga. Kaupþing útvegar aflandsfélag

Fyrstu drög baksamninganna sem liggja fyrir í gögnum rannsóknarnefndarinnar voru send með tölvupósti Guðmundar Hjaltasonar til Bjarka Diego laust eftir miðnætti aðfararnótt föstudagsins 10. janúar 2003 eða kl. 00:06. Tölvupóstinum fylgdu í viðhengi drög að báðum baksamningunum, það er annars vegar söluréttarsamningnum og hins vegar veð- og tryggingasamningnum. Tölvupósturinn hafði að öðru leyti ekkert efni.[81] 

Þessi drög bera með sér að stafa frá Hauck & Aufhäuser að grunni til en hafa verið breytt af Guðmundi. Drögin að söluréttarsamningnum höfðu þá þegar að geyma nafn Hauck & Aufhäuser sem annars samningsaðila. Til hins samningsaðilans var í þeim drögum einungis vísað með skammstöfuninni „BVI“ (tilvísun til „British Virgin Islands“ eða Bresku-Jómfrúaeyja), það er sem ótilgreinds aflandsfélags. Í drögum að veð- og tryggingasamingnum komu engin nöfn hinna tveggja samningsaðila fram heldur aðeins eyður í upphafi samningsins. Þar, og í meginmáli samningsins, var þó vísað til samningsaðilanna annars vegar sem „bankans“ (e. „the Bank“) og hins vegar sem „BVI“. Samningsdrögin sýna einnig að fyrri tilvísun til „BVI“ eða „aflandsfélags“ samkvæmt drögunum hafði verið „PUFFIN“.[82] 

Eins og áður hefur verið nefnt var meginefni samninganna, miðað við endanlega gerð þeirra, komið fram í grundvallaratriðum strax með þessum drögum og nægir því um nánari lýsingu á helsta efni þeirra að vísa til fyrri umfjöllunar um meginefni samninganna.

Að morgni sama dags, föstudagsins 10. janúar 2003, kl. 08:53 fékk Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri KBL, tölvupóst frá Karim Van den Ende, belgískum ríkisborgara sem rak (og rekur raunar enn við útgáfu skýrslu þessarar) fyrirtækjaþjónustu í Lúxemborg. Hann veitti KBL þá og síðar umtalsverða þjónustu á því sviði, einkum við að útvega og sýsla með aflandsfélög sem bankinn eða viðskiptavinir hans notuðu í viðskiptum. Sú starfsemi Van den Ende fór einkum fram í gegnum félag hans í Lúxemborg, KV Associates S.A.[83] Í tölvupósti Van den Ende kom fram að í samræmi við símtal þeirra Magnúsar daginn áður væri meðfylgjandi listi af tiltækum félögum skráðum á Bresku-Jómfrúaeyjum   (e. „BVI companies“). Í framhaldi voru tilgreind nöfn sex slíkra félaga og kvaðst Van den Ende bíða frekari fyrirmæla.

Magnús svaraði tölvupóstinum um klukkustund síðar með þeirri einu athugasemd sem fram kemur hér til hliðar og bætti þá við Eggert J. Hilmarssyni, lögfræðingi hjá KBL, sem viðtakanda. Einni klukkustund síðar sendi hann annað svar við tölvupóstinum en nú aðeins á Eggert. Þar sagði: „Notum WELLING & PARTNERS LIMITED“. Það félag var meðal þeirra sem talin voru upp í tölvupósti Van den Ende. Eggert svaraði því skeyti stuttu síðar og kvaðst búinn að staðfesta það við Van den Ende og samningur um „umsjón Karims” væri til yfirferðar.

Sama morgun kl. 10:43 sendi Steingrímur Kárason tölvupóst til Bjarka Diego. Í efnislínu hans kom fram að „HMS“, þ.e. Hreiðar Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Kaupþings, vildi að „MG“, þ.e. Magnús Guðmundsson, fyndi lögfræðing í Lúxemborg sem „fengi umboðið“. Tölvupósturinn hafði ekkert efni að öðru leyti. Bjarki Diego áframsendi þennan tölvupóst án viðbóta tafarlaust til Magnúsar Guðmundssonar og Eggerts J. Hilmarssonar. Mínútum síðar ítrekaði Bjarki erindið við Magnús með þeirri athugasemd að viðkomandi „[yrði] að vera einhver sem [þeir gætu] treyst 100% og [gæti] gengið strax og fyrirvaralítið í málin“.

Stuttu eftir að Bjarki sendi síðastnefndan tölvupóst eða kl. 11:30 sendi hann Kristjáni Þorbergssyni, Steingrími Kárasyni og Hreiðari Má Sigurðssyni tölvupóst með yfirskriftinni „Side Letter o.fl.” Með tölvupóstinum fylgdu tvö viðhengi, annars vegar lítillega breytt drög að söluréttarsamningnum sem Bjarki hafði fengið send frá Guðmundi Hjaltasyni nóttina áður og hins vegar uppkast að svonefndu „Side Letter” (hliðarsamkomulagi) í skjali með því heiti. Ekki telst nauðsynlegt að rekja efni þess hér nema í meginatriðum. Það hafði að geyma drög að víðtækri skaðleysisyfirlýsingu til handa Hauck & Aufhäuser vegna aðildar bankans að baksamningunum. Sá sem slíka yfirlýsingu gaf samkvæmt uppkastinu var ekki sérstaklega tilgreindur í því en auðkenndur með eyðu („…..“) og viðurnefninu „Puffin“.[84]

Laust fyrir hádegi þennan dag sendi Bjarki Diego starfsmanni á fyrirtækjasviði Kaupþings hf. tölvupóst, með afritum til Steingríms og Hreiðars Más. Í tölvupóstinum gaf Bjarki fyrirmæli um gerð lánssamnings fyrir aflandsfélagið. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„Vísa til samtals okkar fyrir stundu vegna lánssamnings sem þarf að útbúa.

Lántaki er Welling & Partners, félag stofnað á British Virgin Islands (ég læt þig hafa upplýsingar um heimilisfang og skráningarnr. um leið og ég fæ þær upplýsingar).

Lánið er að fjárhæð € 32 milljónir, til tveggja ára, ber 3,00% vexti yfir 12 mánaða LIBOR en auk þess skal greiða 0,75% lántökugjald (prepayment fee) sem leggst við höfuðstól – sem hækkar þá í € 32,24 milljónir. Höfuðstóll og vextir skulu greiddir í einu lagi á gjalddaga sem er tveimur árum eftir dagsetningu samningsins.

Það eru engar tryggingar, en Negative Pledge, Anti – Disposal og í raun allir restricive covenantar sem okkur dettur í hug. Þá mun lánveitandi öðlast veð í öllu því sem lántaki kann að eignast.

Eins og ég sagði áðan þá liggur mikið við að þessi samningur klárist hið fyrsta.

Vinsamlegast hafðu samband ef þú hefur einhverjar spurningar eða athugasemdir vegna þessa.“


Steingrímur Kárason áframsendi þennan tölvupóst tveimur mínútum síðar til Þórðar Jónssonar, starfsmanns áhættustýringar Kaupþings hf., með þeirri athugasemd að hann „[fylgdi] þessu eftir með [sama starfsmanni á fyrirtækjasviði Kaupþings] en þetta [þyrfti] helst að vera til í dag“. Umræddur starfsmaður á fyrirtækjasviði Kaupþings svaraði tölvupósti Bjarka um stundarfjórðungi síðar. Í honum kom fram að starfsmaðurinn gæti lagt málið fyrir næsta lánanefndarfund (sem átti samkvæmt tölvupóstinum að fara fram „næsta mánudag“ eða strax eftir helgina sem þá fór í hönd) en hann myndi hefja skjalagerð samdægurs.

Gögn rannsóknarnefndar sýna að á sama tíma þennan dag skiptust Bjarki Diego og fyrrnefndir starfsmenn KBL, Magnús og Eggert, á tölvupóstum um það að útvega formleg gögn varðandi aflandsfélagið Welling & Partners Limited og stjórn Karims Van den Ende á því eða umboð hans til að fara með hagsmuni þess. Samskiptin sýna einnig að þennan dag var afráðið að Van den Ende myndi sinna því hlutverki og tæki beint, þ.e. án sérstakrar milligöngu KBL ef því væri að skipta, við fyrirmælum um það frá Kaupþingi hf. á Íslandi.

Af gögnum rannsóknarnefndar um þessi samskipti umræddan morgun innan Kaupþings hf. má ráða að töluvert hafi legið á að koma þessu verkefni fram. Í því sambandi má vísa til tölvupósts Bjarka um lánssamninginn sem áður var vitnað til og þeirra ummæla úr tölvupósti hans sem vitnað er til hér til hliðar og sendur var Magnúsi og Eggerti laust fyrir hádegi. Á meðal þess sem Bjarki bað um og fékk með tölvupósti frá starfsmönnum KBL var ljósrit af vegabréfi Karim Van den Ende. Skömmu eftir hádegi áframsendi hann tölvupóst með afriti af vegabréfi Van den Ende á PDF-formi til Guðmundar Hjaltasonar. Bjarki lét fylgja athugasemd á ensku um að tölvupósturinn væri ætlaður (e. „for the attention of “) Ralf Darpe og að með fylgdi vegabréf Karim Van den Ende, stjórnanda Remp Co. Ltd.[85] Ljóst er af samhengi og orðalagi tölvupóstsins að Guðmundi var ætlað að áframsenda póstinn og afritið af vegabréfinu til Ralf Darpe.

Skömmu eftir hádegi sendi Bjarki Diego ný drög að báðum baksamningunum og tvö drög að hliðarsamkomulagi (e. „Side Letter“, sbr. áður) til Kristjáns Þorbergssonar, Hreiðars Más og Steingríms. Í tölvupóstinum lýsti hann breytingum á baksamningunum sem Hauck & Aufhäuser hefði krafist. Einnig kom fram að Hauck & Aufhäuser hefði gert tillögu að hliðarsamkomulagi fyrir sitt leyti. Önnur þeirra draga að hliðarsamkomulagi sem fylgdu þessum tölvupósti Bjarka voru auðkennd Hauck & Aufhäuser. Þá setti Bjarki fram athugasemdir varðandi forkaupsréttarákvæði söluréttarsamningsins. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„Meðf. eru nýjar útgáfur af Side Letter, Pledge Security Agreement og Put Option Agreement.

Hauck & Aufhäuser hefur krafist innfelldrar breytingar á 3. gr. í Pledge Security Agreement, auk viðauka við 1. gr. í Put Option Agreement (gr. 1 (d)), vegna nauðsynlegra breytinga sem gera verður á hluthafasamkomulagi og samþykktum Eglu til þess að unnt sé að nýta sölurétt. Þá hafa [Hauck & Aufhäuser] stillt upp tillögu að Side Letter (Side Letter Hauck & Aufhäuser) sem gengur heldur lengra en það sem við leggjum til. Við þurfum að fara yfir þetta og ræða áður en við hittum þá aftur.

Hef einnig gert smávægilega breytingu á 2. gr. Put Option samningsins, til að leggja á það áherslu að með ákvæði um forkaupsrétt er ekki á nokkurn hátt verið að veita sérstaka undanþágu frá söluhömlum í 8. gr.

Gögn vegna BVI félagsins eru komin og [starfsmaður á fyrirtækjasviði Kaupþings hf.] er að vinna í lánssamningnum.“


Umrædd drög Hauck & Aufhäuser að hliðarsamkomulagi aðila voru stutt, aðeins um þriðjungur úr blaðsíðu. Af samhengi þessara gagna og annarra er ljóst að hliðarsamkomulagið var hugsað milli Kaupþings hf. annars vegar og Hauck & Aufhäuser hins vegar. Drögin að hliðarsamkomulaginu gerðu í meginatriðum ráð fyrir því að Kaupþing hf. lýsti því yfir að hafa fulla vitneskju um baksamningana milli Hauck & Aufhäuser og aflandsfélagsins, ábyrgðist skilyrðislaust ábyrgðir, tryggingar og skuldbindingar aflandsfélagsins samkvæmt baksamningunum og afsalaði sér hvers konar vörnum eða mótbárum að því leyti.[86]

Síðdegis þennan dag sendi Kristín Pétursdóttir, þáverandi forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings hf., tölvupóst til Hreiðars Más og Steingríms. Í honum gerði Kristín grein fyrir niðurstöðu athugunar og fyrirspurna, sem sjá má að hafa verið lauslegar, um Hauck & Aufhäuser. Yfirskrift tölvupóstsins var „H&A“. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„Heyrði í Andreu hjá BLB í Munchen, hún sagði að þetta væri gamalgróinn banki með gott orðspor, ættum ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af lánstrausti þeirra, pottþéttur banki. BLB á 10% í bankanum.

Alex í Lux, heimsótti bankann þeirra í Lux fyrir um ári síðan, og hann hafði svipaða sögu að segja. Enginn business kominn út úr þessari heimsókn ennþá, en ef við gerum þetta með þeim, ættum við að reyna að fylgja því eftir með línum fyrir lux eða okkur.

Set heimsóknarskýrslu og uppl. úr Bankers Almanac á borðið hjá þér Steingrímur.“


Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar er að síðustu einnig dagsett þennan dag, 10. janúar 2003, svonefnt „Beneficial Owner Agreement“ (sem þýða má sem „Samkomulag við raunverulegan eiganda“) á milli fyrrnefnds félags Karim Van den Ende, KV Associates S.A., og félags með heitinu Serafin Shipping Corp., skráðu á Tortóla á Bresku-Jómfrúaeyjum. Í samkomulaginu var KV Associates S.A. skilgreint sem „the Corporate Agent“ (sem þýða má sem „umboðsaðili“) en Serafin Shipping Corp. sem „the Beneficial Owner“ eða „raunverulegi eigandinn“.

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar er ljóst að raunverulegur eigandi Serafin Shipping Corp. var Ólafur Ólafsson. Aflandsfélagið var hins vegar í umsjón KBL og hafði verið útvegað af þeim banka til að nota í viðskiptum Ólafs, sem hafði þá þegar lengi verið í hópi viðskiptamanna bankans. Meginefni samkomulags þessara félaga Karim Van den Ende og Ólafs Ólafssonar var að KV Associates skyldi fara með stjórn Welling & Partners Limited eftir fyrirmælum, fyrir hönd og samkvæmt óskum hins raunverulega eiganda, þ.e. Serafin Shipping Corp. Önnur ákvæði samkomulagsins kváðu nánar á um hvernig þeirri þjónustu yrði sinnt og um réttarsamband samningsaðila.[87] Undir þetta samkomulag, dagsett í Lúxemborg áðurnefndan dag, rituðu Karim Van den Ende af hálfu KV Associates S.A. og Eggert J. Hilmarsson og Magnús Guðmundsson, starfsmenn KBL, af hálfu hins raunverulega eiganda, Serafin Shipping Corp.

5.4.3  11. og 12. janúar 2003: Ný drög baksamninga. Fyrstu drög að hluthafasamkomulagi o.fl. fyrir Eglu hf.

Eftir hádegi laugardaginn 11. janúar 2003 sendi Guðmundur Hjaltason ný drög að báðum baksamningunum til Ralf Darpe, Hreiðars Más Sigurðssonar, Kristjáns Þorbergssonar, Michael Sautter, Ólafs Ólafssonar, Martin Zeil, Bjarka Diego og Steingríms Kárasonar.[88] Í þessum drögum baksamninganna var búið að færa inn nafn Welling & Partners Limited (einkum vísað til hér eftir sem Welling & Partners), aflandsfélagsins sem valið var daginn áður til að nota sem gagnaðila Hauck & Aufhäuser að baksamningunum.

Daginn eftir, sunnudaginn 12. janúar 2003, sendi Bjarki Diego tölvupóst til Steingríms Kárasonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Kristjáns Þorbergssonar með drögum beggja baksamninganna. Í tölvupóstinum tók Bjarki fram að engar efnislegar breytingar sem máli skiptu hefðu orðið á drögunum og bera þau það með sér. Fram kom einnig að Bjarki teldi „unnt að undirrita þessa samninga“ að því gefnu að önnur nánar tilgreind gögn væru „í réttu lagi“ en þar gat hann nánar tiltekið um samþykktir og hluthafasamkomulag fyrir Eglu hf. og kaupsamning Hauck & Aufhäuser um hlut í félaginu.

Eins og áður kom fram var efni baksamninganna eðli máls samkvæmt að mörgu leyti tengt og háð því hvernig um semdist milli S-hópsins og íslenska ríkisins um kaupin á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum en þær viðræður voru þá á lokastigi. Eitt helsta atriðið þar var kaupverðið sjálft. Grunnforsenda baksamninganna var að Hauck & Aufhäuser væri ávallt tryggð endurgreiðsla á öllu umsömdu fjárframlagi sínu til Eglu hf. vegna þátttöku þess félags í kaupunum. Það fjárframlag hlaut að ráðast af endanlegu kaupverði fyrir hlutinn í Búnaðarbankanum. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar áttu Bjarki Diego og Guðmundur Hjaltason í samskiptum þennan dag um hvort komið væri endanlegt kaupverð. Bjarki sendi Guðmundi fyrirspurn um það sem Guðmundur svaraði neitandi en boðaði frekari svör daginn eftir. Nánar er vitnað til þeirra samskipta hér til hliðar.

Þennan dag sendi Guðmundur Hjaltason einnig enska þýðingu á hluthafasamkomulagi fyrir Eglu hf. til Martin Zeil, Ralf Darpe, Hreiðars Más Sigurðssonar, Kristjáns Þorbergssonar, Michael Sautter og Steingríms Kárasonar. Guðmundur lét fylgja með til viðtakenda athugasemd á ensku um að hann vonaði að samkomulagið væri í samræmi við „hina samningana“ (e. „Hope this is in accordance with the other agreements.“). Í samræmi við áætlanir um eignarhald að Eglu hf. bar hluthafasamkomulagið með sér að vera milli Hauck & Aufhäuser, Kers hf. og Vátryggingafélags Íslands hf. (VÍS) þar sem eignarhaldi Eglu hf. væri skipt þannig að Hauck & Aufhäuser ætti 50%, Ker 49% en VÍS 1% í félaginu. Tilgangur hluthafasamkomulagsins var sagður að staðfesta með formlegum hætti þær reglur sem gilda skyldu milli aðila þess um ráðstöfun hluta í Eglu hf. og ákvarðanatöku innan félagsins. Einstök ákvæði samkomulagsins sneru svo einkum að þessum atriðum en einnig fyrirhugaðri hlutafjáraukningu í félaginu til að standa straum af væntanlegum greiðslum vegna þátttöku þess í kaupunum á Búnaðarbankanum.

Eftir viðtöku á fyrrnefndum drögum að hluthafasamkomulagi Eglu hf. frá Guðmundi Hjaltasyni sendi Bjarki Diego að kvöldi þessa dags Kristjáni Þorbergssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni og Steingrími Kárasyni tölvupóst með eftirfarandi athugasemd um drögin:

„Er ekki rétt að setja inn í hluthafasamkomulagið ákvæði um að félaginu skuli slitið ef (og þegar) Hauck & Aufhäuser selur sinn hlut, eftir að söluhömlum hefur verið aflétt?

Ræðum þetta á morgun.“[89]

5.4.4  13. janúar 2003: Lánveiting Kaupþings hf. til Welling & Partners og tengd atriði. Ný drög og áframhaldandi gerð baksamninga

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar átti Bjarki Diego af hálfu Kaupþings hf. í samskiptum við Martin Zeil hjá Hauck & Aufhäuser mánudaginn 13. janúar 2003 varðandi stofnun bankareiknings hjá Hauck & Aufhäuser fyrir Welling & Partners Limited. Á meðal gagna nefndarinnar eru þar til gerð eyðublöð Hauck & Aufhäuser, fyllt út fyrirfram af Hauck & Aufhäuser að stærstum hluta með viðeigandi upplýsingum, sem Zeil sendi Bjarka af þessu tilefni. Annað eyðublaðið varðaði stofnun bankareiknings en samkvæmt því stofnaði Welling & Partners tvo bankareikninga hjá Hauck & Aufhäuser, annan í evrum og hinn í Bandaríkjadölum. Það eyðublað liggur fyrir í gögnum rannsóknarnefndarinnar undirritað af Karim Van den Ende með dagsetningunni 13. janúar 2003. Hitt eyðublaðið var tengt þýskum reglum, og um leið samsvarandi alþjóðlegum reglum, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka („peningaþvættisreglur“).[90] Um þetta eyðublað setti Zeil fram þá athugasemd við Bjarka að vegna þýskra peningaþvættisreglna yrði Van den Ende að upplýsa bankann í sérstakri yfirlýsingu um að bankareikningur Welling & Partners Limited væri ekki notaður fyrir félagið sjálft heldur fyrir Kaupþing hf. sem raunverulegan eiganda eða þann sem nyti hagsbóta af fjármununum (á þýsku „wirtschaftlich Berechtiger“, á ensku „economical beneficiary“).[91] Eyðublaðið sem ætlað var fyrir þessa yfirlýsingu var á þýsku og hafði sem fyrr segir verið fyllt að mestu út af hálfu Hauck & Aufhäuser, þar á meðal dagsetningin 9. janúar 2003. Í eyðublaðinu var tvívegis fært inn heiti Kaupþings hf. á ensku („Kaupthing Bank HF“) sem raunverulegs eiganda eða „haghafa“ af notkun umræddra bankareikninga Welling & Partners. Þetta atriði kom aftur upp í síðari samskiptum aðila með tilteknum hætti, eins og lýst verður frekar hér á eftir.

Laust eftir hádegi þennan dag sendi Bjarki Diego Eggerti J. Hilmarssyni tölvupóst á ensku sem varðaði stofnun bankareikninga fyrir Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser, lán Kaupþings hf. til félagsins og baksamninga þess við Hauck & Aufhäuser. Í tölvupóstinum var farið yfir það sem gera þurfti að þessu leyti. Þar sem tölvupósturinn er á ensku en sendandi og viðtakandi báðir Íslendingar virðist hann einnig hafa verið ætlaður Karim Van den Ende sem eins konar fyrirmæli eða verkefnalisti til hans. Tölvupóstinum fylgdu einnig drög að baksamningunum eins og þau stóðu þá. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„Eggert,

I refer to our conversation earlier.

Regarding Welling & Partners Ltd., there are a few issues in relation to signing of documents and timing issues that need to be borne in mind.

Welling & Partners Ltd. need to open an account with Hauck & Aufhäuser and enter into the following agreements: A Loan Agreement with Kaupthing Bank, a Put Agreement with Hauck & Aufhäuser and a Pledge and Security Agreement with Hauck & Aufhäuser.

We are currently working on the Loan Agreement and the other agreements are attached in draft versions.

All documents must be signed no later than on Thursday morning [16. janúar 2003 – viðbót RNA]. However, I would suggest that the account with [svo] Welling & Partners Ltd. should be opened as soon as possible since monies have already been transferred to the account. The same applies for the Loan Agreement, I would suggest that it would be signed as soon as it is in place, hopefully later today. As regards the Put Agreement and the Pledge and Security Agreement, the documents will not be signed until Wednesday at the earliest.

I could e-mail the Loan Agreement to Kaupthing Bank Luxembourg once it is ready and I would suggest that the director of Remp Co. Ltd. would sign the other documents at the offices of Hauck & Aufhäuser in Luxembourg.“[92]


Frá morgni þessa dags átti Bjarki Diego einnig í samskiptum við samstarfsmenn hjá Kaupþingi hf. vegna undirbúnings lánveitingar bankans til Welling & Partners Limited. Þar á meðal gaf hann Kristínu Pétursdóttur að ósk hennar upp skráð heimilisfang félagsins á Tortóla sem að hennar sögn þurfti til að hún gæti stofnað félagið sem viðskiptamann í kerfum bankans og sett þar inn lán til þess. Skömmu síðar sendi starfsmaður Kaupþings hf. Bjarka og öðrum starfsmanni á fyrirtækjasviði bankans drög að tillögu um lán til Welling & Partners sem lögð skyldi fyrir lánanefnd Kaupþings hf. Í drögunum var lánsfjárhæðin sögð nema 32 milljónum evra en skilmálum lánsins annars lýst í samræmi við fyrirmæli Bjarka þar um, sem áður var vitnað til.

Í beinu framhaldi áttu Bjarki og starfsmaður fyrirtækjaþjónustu Kaupþings hf. tölvupóstsamskipti þar sem fram kom að rétt fjárhæð væri 34 milljónir sem og að gjaldmiðli lánsins hefði verið breytt og skyldi vera í Bandaríkjadölum. Síðdegis þennan dag sendi umræddur starfsmaður bankans Bjarka drög að lánssamningi með tölvupósti. Samkvæmt honum var lánsfjárhæðin 34.256.913 Bandaríkjadalir að meðtöldu 0,75% lántökugjaldi (e. „Frontend fee“) sem draga skyldi frá áður en lánið væri greitt út en það fól í sér að hin útgreidda lánsfjárhæð yrði rétt tæpar 34 milljónir Bandaríkjadala. Helstu skilmálar voru annars hinir sömu og áður er komið fram, þar á meðal að engar tryggingar voru veittar fyrir endurgreiðslu lánsins. Í því samhengi lét starfsmaðurinn fylgja með spurningu um hvort Kaupþing gæti fengið 2. veðrétt í innláninu og fékk um hæl í tölvupósti það svar Bjarka að slíkt væri í raun einskis virði, sbr. tilvitnun til þeirra skoðanaskipta hér til hliðar.[93]

Samkvæmt gögnum nefndarinnar var lánveitingin í þessari mynd lögð fyrir fund lánanefndar Kaupþings hf. sem fram fór þennan dag, 13. janúar, kl. 12:00 og samþykkt þar. Samkvæmt fundargerð sátu fundinn Hreiðar Már Sigurðsson, Kristín Pétursdóttir, Steingrímur Kárason, Þórður Jónsson og nafngreindur starfsmaður fyrirtækjasviðs Kaupþings sem ritaði fundargerð. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar sendi starfsmaðurinn tölvupóst til Sigurðar Einarssonar samdægurs þar sem lánsumsókn Welling & Partners fylgdi með í viðhengi. Starfsmaðurinn vísaði til hennar og óskaði eftir samþykki Sigurðar á láninu þar sem hann hefði ekki verið á lánanefndarfundinum. Gögn rannsóknarnefndar geyma ekki upplýsingar um hvort eða þá með hvaða hætti Sigurður hafi svarað þessu erindi starfsmannsins.

Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna einnig að fyrr þennan dag, það er kl. 8:44 um morguninn, sendi Kristín Pétursdóttir tölvupóst til Hreiðars Más og Sigurðar Einarssonar með yfirskriftinni „USD Greiðsla“. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„ég er komin með greiðslufyrirmæli um að greiða 34 m. USD inn á reikning Kelling & Partners Ltd. [svo] hjá Hauck & Aufhauser.

Viljið þið vinsamlegast gefa samþykki ykkar fyrir þessari greiðslu.“


Hreiðar Már sendi tölvupóst tveimur mínútum síðar til Kristínar og Sigurðar og veitti umbeðið samþykki með þeim hætti sem vitnað er til hér til hliðar.

Loks er ljóst af gögnum rannsóknarnefndarinnar að þennan dag tók Hauck & Aufhäuser á móti símgreiðslu frá Kaupþingi hf. að fjárhæð 34 milljónir Bandaríkjadala og var fjárhæðin lögð inn á bankareikning Welling & Partners Limited hjá Hauck & Aufhäuser.

Þennan dag var einnig haldið áfram að vinna að baksamningunum. Fyrir hádegi sendi Bjarki Diego tölvupóst til Martin Zeil, með afritum á Kristján Þorbergsson, Hreiðar Má Sigurðsson, Steingrím Kárason og Guðmund Hjaltason. Í tölvupóstinum vísaði Bjarki til samtals þeirra Zeil mínútu áður og sendi afrit af drögum beggja baksamninganna. Drögin kvað hann mjög lítið breytt frá þeirri útgáfu sem þeir hefðu unnið að „á föstudagskvöldið“ (þ.e. 10. janúar).

Martin Zeil svaraði þessum tölvupósti síðdegis með tölvupósti á sömu viðtakendur að viðbættum Peter Gatti og Michael Sautter auk konu sem virðist hafa verið starfsmaður Hauck & Aufhäuser en kemur að öðru leyti ekkert við sögu í gögnum rannsóknarnefndarinnar.[94] Zeil sendi þá til baka yfirfarin drög að baksamningunum, ásamt drögum að samningi um kaup Hauck & Aufhäuser á hlut í Eglu hf., með athugasemdum og breytingum. Í tölvupóstinum óskaði Zeil meðal annars sérstaklega eftir lokadrögum að kaupsamningi við íslenska ríkið um Búnaðarbankann ásamt tiltekinni ábyrgðarskuldbindingu (e. „warranty“) sem ráðgert var að hluthafar Eglu hf. gengust undir í tengslum við þann samning. Athugasemdir Zeil í tölvupóstinum vörðuðu einnig lögfræðiálit sem afla þyrfti að hans sögn um spurningar sem hann taldi upp. Umrætt efni tölvupóstsins hljóðaði nánar tiltekið svo:

„There are still the following points to be resolved or outstanding:

1.  Final Draft of the Share Purchase Agreement with the State of Iceland with the warranty in English to be signed by the shareholders. Please provide me under Mr. Gatti‘s email address […] with the final draft.

[…]

4.  As you will remember we still need a legal opinion on the following questions:

a)  Does the put option agreement interfere with or infringe to the restriction „not to dispose of the shares in EGLA in any other manner“ in the Bank Act and the Purchase Agreement?[95]

b)  Can it be ruled out that Hauck & Aufhäuser will have to seek approval by the Icelandic Authorities when it wants to exercise the Put Option?

c)  Will or can Hauck & Aufhäuser be forced by Icelandic law to declare if it acts on its own behalf or as trustee or agent of a third party?

d)  Are the statements and warranties and guarantees by Welling & Partners Ltd. both in the Pledge and Security Agreement and in the Put Option Agreement, particularly concerning Icelandic law true and complete?

Please ensure as soon as possible that such legal opinion will be delivered by an independent attorney.“


Áminning Zeil um lögfræðiálitið sem eftir væri að afla varð Steingrími Kárasyni og Bjarka Diego tilefni til þeirra skoðanaskipta sín í milli sem vitnað er til hér til hliðar, þar sem meðal annars kom fram hjá Bjarka Diego að best væri að „sem fæstum [væri] kunnugt um þetta“.

Laust fyrir miðnætti þetta kvöld sendi Guðmundur Hjaltason svar við fyrrnefndum tölvupósti Zeil á sömu viðtakendur að viðbættum Ólafi Ólafssyni.[96] Með tölvupóstinum sendi Guðmundur umbeðið afrit (á ensku) til Zeil af nýjustu kaupsamningsdrögum milli S-hópsins og ríkisins um Búnaðarbankann og tók fram að ekki ættu að verða neinar efnislegar breytingar frá þessum drögum en enn væri verið að semja um verð. Guðmundur upplýsti að fundað hefði verið um kvöldið og til stæði að funda aftur næsta morgun og að hann myndi veita frekari upplýsingar jafnskjótt og hann hefði endanleg drög að samningi. Fram kom einnig að ábyrgðaryfirlýsingin sem Zeil hafði beðið um væri viðhengd sem hluti af samningnum. Varðandi kröfu Zeil um öflun lögfræðiálits tók Guðmundur fram að hann hefði haft samband við lögmann sem væri óháður aðilum (e. „independent attorney“) þá um kvöldið og hann myndi hafa umbeðið álit tilbúið fyrir morgundaginn. Guðmundur kvaðst mundu senda Zeil drög að því til yfirferðar og ef hann yrði þá sáttur myndi Guðmundur biðja viðkomandi lögmann að boðsenda Zeil það.[97]

Fáeinum mínútum síðar sendi Bjarki Diego Guðmundi einum svar við tölvupósti Guðmundar þar sem Bjarki lýsti þeim skilningi á svari Guðmundar að ekki væru sem sagt enn komnar tölur til að setja inn í baksamningana. Vitnað er til þess til hliðar en þar var augljóslega brugðist við upplýsingum Guðmundar í tölvupósti hans um að ekki væri enn búið að semja um verð milli S-hópsins og ríkisins fyrir hlutinn í BÍ.

5.4.5  14. janúar 2003: Baksamningar nánast endanlegir. Upplýsingar um kaupverð Búnaðarbankans berast Kaupþingi hf.

Skömmu eftir hádegi 14. janúar 2003 sendi Steingrímur Kárason tölvupóst til Hreiðars Más Sigurðssonar og Bjarka Diego með yfirskriftinni „Herr Z“ en með því mun hafa verið átt við Martin Zeil hjá Hauck & Aufhäuser. Steingrímur upplýsti að hafa rétt í því átt samtal við Zeil þar sem hann hefði sagt að peningarnir væru komnir til Hauck & Aufhäuser og verið afar ánægður með það en viljað vita hvernig Welling & Partners vildi ávaxta fjármunina. Steingrímur gerði grein fyrir því að hafa tilkynnt Zeil að „WP myndi útnefna einhvern í Luxembourg til þess innan 30 daga en til að byrja með skyldi hann setja það í 7 daga MM ávöxtun“.

Bjarki Diego sendi Zeil svo tölvupóst síðdegis þennan dag, með afritum á Eggert J. Hilmarsson, Steingrím Kárason og Hreiðar Má Sigurðsson, og þakkaði honum fyrir skjölin sem hann hafði sent deginum áður, þ.e. annars vegar endurskoðuð drög baksamninganna og hins vegar eyðublöðin varðandi opnun bankareiknings Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser (og peningaþvættisyfirlýsinguna sem var þar á meðal), sbr. umfjöllun hér á undan. Bjarki boðaði síðari svör varðandi nýjustu drög baksamninganna og benti á Karim Van den Ende til að standa að undirritun baksamninganna og opnun bankareikninganna af hálfu Welling & Partners. Í niðurlagi tölvupósts Bjarka kom fram sú athugasemd að Kaupþing hf. væri ekki „haghafi“ fjármunanna heldur félag að nafni Serafin Shipping Corp. Vitnað er til þeirrar athugasemdar Bjarka úr tölvupóstinum hér til hliðar.[98]

Þetta kvöld sendi Steingrímur Kárason Bjarka Diego og Hreiðari Má Sigurðssyni tölvupóst með yfirskriftinni „Tölurnar“. Tölvupósturinn hafði ekkert meginmál en honum fylgdi Excel-tafla í viðhengi með útreikningum sem tengdust baksamningunum.

Af Excel-töflunni er ljóst að á þessu stigi höfðu fyrrgreindir stjórnendur Kaupþings hf. fengið upplýsingarnar sem beðið hafði verið eftir um umsamið söluverð hlutarins í Búnaðarbankanum til S-hópsins. Í Excel-töflunni er meðal annars tilgreint heildarsöluverðið bæði í íslenskum krónum og Bandaríkjadölum (11.787.324.172 íslenskar krónur/147.341.552 Bandaríkjadalir) sem og gengið 4,75. Hvort tveggja samræmist nokkuð nákvæmlega endanlegu söluverði og gengi á hlutum í BÍ samkvæmt kaupsamningi ríkisins og S-hópsins. Útreikningarnir lutu nánar tiltekið að heildarvirði viðskiptanna, sundurliðuðu á þrennan hátt: Í fyrsta lagi eftir heildarkaupverði, í öðru lagi eftir hlut Eglu hf. og í þriðja lagi eftir hlut Hauck & Aufhäuser. Í hverju tilviki var einnig tilgreind fjárhæð eiginfjárframlags (e. Equity) miðað við það 65% lágmarks eiginfjárhlutfall í hlutdeild Eglu hf. í kaupunum sem áskilið var samkvæmt kaupsamningi ríkisins og S-hópsins. Heildar eiginfjárframlag fyrir Hauck & Aufhäuser, miðað við þennan áskilnað kaupsamningsins, var í Excel-töflunni tilgreint sem 34.324.688 Bandaríkjadalir.

Seint þetta kvöld sendi Bjarki Diego tölvupóst til Martin Zeil, með afritum til Steingríms Kárasonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Kristjáns Þorbergssonar, varðandi baksamningana. Tölvupósturinn laut aðallega að einni efnislegri breytingu sem Kaupþingsmenn vildu gera á baksamningunum. Fram kom að þeir teldu hana mikilvæga. Breytingin sem Bjarki lagði til laut í meginatriðum að því hvernig með skyldi fara ef fjármögnun síðari greiðslu S-hópsins fyrir hlutinn í Búnaðarbankanum, sem átti að eiga sér stað í desember 2003, kallaði af einhverjum ástæðum ekki á þá frekari hlutafjárhækkun Eglu hf. vegna þeirrar greiðslu sem á þessum tímapunkti var gert ráð fyrir. Ef ekki yrði þörf á frekari fjárframlögum af hálfu Hauck & Aufhäuser hlyti að teljast sanngjarnt að fara fram á, eins og Bjarki orðaði það, að hin veðsetta innstæða yrði lækkuð með tilsvarandi hætti á því stigi og söluréttarverðið yrði sömuleiðis lækkað. Bjarki gat þess sérstaklega að hann hefði rætt þetta málefni við Guðmund Hjaltason sem hefði lýst yfir fullum skilningi á sjónarmiðum Kaupþingsmanna um þetta. Bjarki lýsti því einnig að fyrir utan það atriði virtist einungis eftir að ganga frá smáatriðum í samningunum. Í tölvupósti Bjarka sagði nánar tiltekið um fyrrgreind atriði:[99]

„There is, though one important issue we would want to reflect in the Agreements which links in with the first recital in the Put Agreement. That is the fact that the share price of EGLA will not be increased to ISK 6.000.000.000 initially, i.e. to finance the initial Financial Close pursuant to the Share Purchase Agreement with the State. It will be increased to approx. 3.3 billion ISK whereof Hauck & Aufhäuser‘s contribution will be approx. 1.65 billion ISK (equivalent to approx. 20 million USD).

The Deferred Financial Close (The Second Stage) pursuant to the SPA with the State will take place in December 2003. If for some reason there will not be a need to increase the share capital of EGLA in order to finance the Deferred Financial Close leading to Hauck & Aufhäuser not being exposed to the payment of approx. 1.1 billions ISK it must be fair to request that the pledged amount (the credit balance) should be decreased accordingly at that stage, and the Put Price in the Put Option Agreement lowered as well. I‘m not sure whether we should amend the current draft versions of the Agreement to reflect the above or whether we should document this specifically, i.e. enter into a specific agreement on the issue (or sign an Appendix or Side Letter) for convenience sake.

I have discussed this with Gudmundur Hjaltason who was in full understanding of our point of view in this matter.

[…]

Apart from the above there appear to be only very minor issues, such as details under Notices, that need to be finalised in the Agreements.“

 5.4.6  15. janúar 2003: Endanleg drög baksamninga liggja fyrir

Snemma morguns 15. janúar 2003, eða degi áður en kaupsamningur íslenska ríkisins við S-hópinn var undirritaður, sendi Steingrímur Kárason stutt svar við síðastnefndum tölvupósti Bjarka Diego frá nóttinni áður. Svarið var aðeins sent á samstarfsmenn Steingríms hjá Kaupþingi hf., þá Bjarka og Hreiðar Má Sigurðsson. Það hljóðaði svo:

„Það þyrfti líka að taka tillit til þess að EGLA getur keypt seinni bréfin og selt strax eða fljótlega aftur stóran hluta og eigið fé aukið í millitíðinni. Þá er EGLA með allt of mikið eigið fé sem yrði væntanlega komið aftur til eigenda með því að kaupa aftur bréf af eigendunum og þar kæmi væntanlega til preemptive right eða hvað? Það þarf amk að taka tillit til þessa líka.“


Efni þessarar athugasemdar Steingríms ber með sér að hún hafi varðað söluhömlur sem kveðið var á um í kaupsamningi S-hópsins og ríkisins um Búnaðarbankann eða nánar tiltekið takmörk þeirra. Tiltekinn hluti af þeim heildarhlut í Búnaðarbankanum sem S-hópurinn var þarna í þann mund að kaupa var undanþeginn slíkum söluhömlum og kaupendum frjáls til ráðstöfunar frá afhendingu. Um þetta vísast til fyrri umfjöllunar um efnisatriði kaupsamningsins.[100]

Skömmu fyrir klukkan 11 þennan morgun barst Bjarka Diego svar við tölvupósti sínum til Martin Zeil og fleiri frá deginum áður, nánar tiltekið þeim tölvupósti þar sem fram kom meðal annars að Kaupþing hf. væri ekki raunverulegur eigandi eða „haghafi“ þeirra fjármuna sem sendir höfðu verið Hauck & Aufhäuser heldur aflandsfélagið Serafin Shipping Corp. Vitnað var til tölvupóstsins hér á undan. Martin Zeil svaraði þessum tölvupósti í meginatriðum á þann veg að bjóða Karim Van den Ende og Eggerti J. Hilmarssyni, starfsmanni KBL, að eiga einkafund með forstjóra útibús Hauck & Aufhäuser í Lúxemborg og gera þar grein fyrir bakgrunni Serafin Shipping Corp. og hluthöfum Welling & Partners. Ástæðuna kvað hann vera að vegna þýskra peningaþvættisreglna þyrfti bankinn fullnægjandi upplýsingar og gögn um hver hinn raunverulegi eigandi væri, hluthafa hans og viðskipti til þess að geta sýnt fram á að bankinn hefði gert allt sem í hans valdi stæði til að útiloka hvers kyns „peningaþvættisaðstæður“ (e. „any Money Laundering background“). Vitnað er til tölvupósts Zeil um þessi atriði hér til hliðar.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar var boðað til fundar milli kl. 12 og 15 þennan dag innan Kaupþings hf. Fundarboðið, sem bar yfirskriftina „Puffin“, samþykktu Bjarki Diego, Hreiðar Már Sigurðsson og Steingrímur Kárason.

Frá síðdegi og fram á kvöld þessa dag var lokið við endanleg drög baksamninganna. Fjölmörg drög, einkum að baksamningunum en einnig að fleiri tengdum skjölum, gengu milli aðila með tölvupósti á þeim tíma ásamt athugasemdum hverju sinni. Í flestum tilvikum, og einkum undir það síðasta, var um að ræða alger smáatriði, svo sem viðbót á einu orði í annan samninganna, svo dæmi sé tekið. Aðilar að þessum samskiptum voru sömu menn og áður, það er Martin Zeil, Bjarki Diego, Hreiðar Már Sigurðsson, Steingrímur Kárason, Kristján Þorbergsson, Guðmundur Hjaltason og Michael Sautter en einkum skrifuðust þar á Zeil og Bjarki Diego meðan hinir fengu afrit af samskiptunum og fylgigögnum. Undir lokin þrengdist þó þessi hópur en síðustu drögin að baksamningunum gengu aðeins á milli Bjarka og Zeil ásamt Guðmundi og Sautter. Ekki þykir þörf á að rekja öll samskipti aðila sem þessu tengdust og verður hér einungis gerð grein fyrir meginatriðum þeirra.

Martin Zeil sendi tölvupóst um klukkan hálf þrjú með ýmsum fylgiskjölum, þ.e. drögum að baksamningunum báðum, drögum að samkomulagi Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners Limited um gerðardóm sem þarna komu fyrst fram og nánar er fjallað um síðar, drögum að kaupsamningi íslenska ríkisins og S-hópsins um BÍ, drögum að kaupsamningi Hauck & Aufhäuser á hlut í Eglu hf. og drögum að umboði Welling & Partners til Karim Van den Ende til að undirrita baksamningana. Í samhengi við drög að umboði Welling & Partners til Van den Ende setti Zeil fram þá athugasemd að hann teldi óhjákvæmilegt að einhver yrði á staðnum sem væri bær til að skrifa undir af hálfu Welling & Partners. Vitnað er til þessarar athugasemdar Zeil hér til hliðar. Athugasemdir Zeil vörðuðu að öðru leyti meðal annars að ráðstafanir yrðu gerðar til að komast hjá gjaldmiðlaáhættu í tengslum við fyrirhuguð ákvæði um greiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningnum um BÍ. Eftir nokkur frekari samskipti vegna baksamninganna tilkynnti Bjarki Diego í tölvupósti til Zeil laust fyrir kl. 15 að Kaupþing hf. myndi með gjaldeyrisskiptasamningi tryggja fyrir Eglu hf., og þar með Hauck & Aufhäuser, gjaldmiðlaáhættu í íslenskum krónum gagnvart Bandaríkjadal.[101]

Í tölvupósti undir kvöld tilkynnti Bjarki Diego af hálfu Kaupþingsmanna í tölvupósti til Martin Zeil, Guðmundar Hjaltasonar og Michael Sautter að þeir hefðu farið yfir nýjustu drög baksamninganna og hefðu ekki gert neinar breytingar. Óhætt væri að segja að þeir væru ánægðir með samningana eins og þeir stæðu. Nánar er vitnað til orða Bjarka á frummálinu hér til hliðar. Baksamningarnir fylgdu í viðhengi með tölvupósti Bjarka og hafði endingunni „final“ nú verið bætt við heiti beggja skjala og þau þannig auðkennd sem lokadrög. Í tölvupósti Bjarka var einnig vikið aftur að gjaldmiðlaáhættu og gengi gjaldmiðla sem samningarnir vörðuðu, þ.e. íslenskri krónu og Bandaríkjadal. Bjarki tilkynnti líka að vegna gengis Bandaríkjadals eins og það stóð á þessum tíma kæmi til hækkunar á fjárframlagi Hauck & Aufhäuser til Eglu hf. sem annars vegar var gert ráð fyrir í kaupsamningnum við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum og endurspeglaðist hins vegar í baksamningunum, sbr. áður um hin beinu tengsl þarna á milli. Bjarki gat þess að lokum að þetta þýddi að hið veðsetta innlán hjá Hauck & Aufhäuser yrði hækkað í samræmi við þetta.

Næsti tölvupóstur frá Zeil til sama hóps hófst á þeim orðum að Zeil teldi einnig að markinu væri næstum náð, sbr. nánari tilvitnun hér til hliðar. Hann tilkynnti einnig um smávægilegar breytingar á lokadrögunum, sem fylgdu tölvupóstinum, og þakkaði fyrir afbragðs samvinnu. Eftir smávægilegar breytingar í viðbót frá Bjarka Diego lágu svo endanleg lokadrög baksamninganna fyrir seinna þetta kvöld en klukkan 22:01 sendi Bjarki þau drög til Guðmundar og Zeil.[102] Bjarki lét fylgja þá athugasemd að hann myndi gera ráðstafanir til að tryggja að stjórnandi Welling & Partners Limited mætti á skrifstofu Hauck & Aufhäuser í Lúxemborg næsta morgun til að undirrita baksamningana og skjöl vegna opnunar bankareikninga Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser.[103]

Sama kvöld áframsendi Bjarki þennan tölvupóst sinn ásamt fylgiskjölum annars vegar til Michael Sautter og Ralf Darpe og hins vegar til Eggerts J. Hilmarssonar hjá KBL, með afritum á Steingrím Kárason og Hreiðar Má Sigurðsson.[104] Í sendingunni til Eggerts, Steingríms og Hreiðars Más lét Bjarki fylgja þær athugasemdir sem vitnað er til hér til hliðar.

5.4.7  16. janúar 2003: Undirskrift baksamninga.
Hækkun á fjárhæð láns Welling & Partners. Hagnaðarskiptingarsamningur Welling & Partners og Serafin Shipping Corp.

Snemma morguns 16. janúar 2003, eða daginn sem kaupsamningur íslenska ríkisins og S-hópsins skyldi undirritaður, sendi Martin Zeil tölvupóst til Bjarka Diego og Guðmundar Hjaltasonar. Tölvupósturinn varðaði efnislega að hækka yrði innlánið á bankareikningi Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser sem var handveðsett til tryggingar samkvæmt baksamningunum. Zeil vísaði í þessu sambandi til þess sem „puffin“, líkt og hann orðaði það, hefði gefið til kynna daginn áður en með því var augsýnilega átt við tölvupóst Bjarka Diego með athugasemd um hið sama, það er að hið veðsetta innlán hjá Hauck & Aufhäuser yrði hækkað, sbr. umfjöllun hér á undan.

Í samræmi við þetta sendi Bjarki Diego tölvupóst til Kristínar Pétursdóttur og Hreiðars Más Sigurðssonar síðdegis sama dag um að auka þyrfti lánveitingu til Welling & Partners um rúmar 1,4 milljónir Bandaríkjadala og senda til Hauck & Aufhäuser samsvarandi fjárhæð. Bjarki óskaði eftir staðfestingu Hreiðars á þessu. Nánar er vitnað til tölvupóstsins hér til hliðar. Hreiðar sendi umbeðna staðfestingu á Bjarka og Kristínu rúmri klukkustund síðar með orðinu „samþykkt“. Bjarki gaf þá starfsmanni á fyrirtækjasviði Kaupþings fyrirmæli um að breyta lánssamningi við Welling & Partners á þann hátt að lánsfjárhæðin yrði 35.454.372 Bandaríkjadalir og skýrði það síðan nánar svo að sú upphæð væri án lántökugjalds, það er útgreidd fjárhæð. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar voru 1.454.372 Bandaríkjadalir lagðir inn á bankareikning Welling & Partners Limited hjá Hauck & Aufhäuser þennan sama dag. Áðurnefndri fundargerð lánanefndar Kaupþings hf. 13. janúar 2003 virðist síðar hafa verið breytt til samræmis við þessa hækkun á lánsfjárhæðinni og hún tilgreind þar 35.454.372 Bandaríkjadalir.

Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að fyrir hádegi þennan dag, líkt og ráðgert hafði verið í þeim tölvupóstsamskiptum sem áður voru rakin, var lokið undirritun beggja baksamninganna milli Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners Limited, þ.e. annars vegar söluréttarsamningsins (e. Put Option Agreement) og hins vegar veð- og tryggingasamningsins (e. Pledge and Security Agreement). Af hálfu Welling & Partners skrifaði Karim Van den Ende undir báða baksamningana en af hálfu Hauck & Aufhäuser skrifuðu tveir fulltrúar bankans undir og var annar þeirra Martin Zeil. Af gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndarinnar verður ekki nákvæmlega ráðið hvar samningarnir voru endanlega undirritaðir eða jafnvel hvort aðilar hafi undirritað á sama stað og tíma.[105] Hvað sem því líður er þó ljóst að fyrir hádegi þennan dag höfðu báðir aðilar samninganna skrifað undir þá.

Þetta síðdegi átti sér svo stað í höfuðstöðvum Búnaðarbanka Íslands við Austurstræti í Reykjavík formleg undirritun kaupsamnings S-hópsins og íslenska ríkisins um 45,8% hlut í Búnaðarbankanum. Frá henni, og því sem haft var eftir aðilum samningsins um aðkomu Hauck & Aufhäuser að viðskiptunum í fjölmiðlum við það og síðari tækifæri, var nánar greint í 3. og 4. kafla þessarar skýrslu.

Áður var fjallað um aflandsfélagið Serafin Shipping Corp., sem var í eigu Ólafs Ólafssonar. Einnig var getið um samkomulag í þess nafni sem raunverulegs eiganda Welling & Partners Limited við KV Associates S.A., félag Karim Van den Ende, um stjórn síðarnefnda félagsins á Welling & Partners. Þann dag sem hér um ræðir, 16. janúar 2003, er einnig dagsett samkomulag milli Welling & Partners Limited og Serafin Shipping Corp. Það ber yfirskriftina „Samkomulag um hagnaðarskiptingu“ (e. „Agreement on Profit Sharing“). Samkomulagið er aðeins fáeinar línur að lengd, undirritað af Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners en af Magnúsi Guðmundssyni og Eggerti J. Hilmarssyni fyrir hönd Serafin Shipping Corp. Það hljóðaði svo:

„The parties to this Agreement have agreed to share the net profit, but not any loss, from the potential investment in EGLA shares and all related transactions in such a way that Welling & Partners Limited will pay to Serafin Shipping Corp. half of its net profit from the transactions.

The settlement on the profit sharing will take place no later than 15 January 2005.

Kaupthing Bank Luxembourg will be appointed to calculate the profit of Welling & Partners and settle the amount between the Parties to this Agreement.

The Agreement shall be governed by Luxembourgian law.“

Eins og fram kemur nánar í tilvitnuðum texta laut samkomulagið að því að aðilar þess myndu skipta með sér nettóhagnaði, en ekki neinu tapi, af hugsanlegri fjárfestingu í hlutum í Eglu hf. og öllum tengdum viðskiptum á þann hátt að Welling & Partners myndi greiða Serafin Shipping Corp. helming nettóhagnaðar síns af þessum viðskiptum. Fram kom einnig að KBL myndi verða tilnefnt til að reikna út hagnað Welling & Partners og skipta þeirri fjárhæð (e. „settle the amount“) á milli aðila samkomulagsins. Gögn rannsóknarnefndar benda enn fremur til að þetta samkomulag hafi verið samið innan Kaupþings hf., nánar tiltekið af Bjarka Diego að kvöldi 15. janúar 2003, daginn áður en það er dagsett.[106]

5.4.8  Síðari atvik í janúar og febrúar 2003: Kaupþingsmenn ákveða að Welling & Partners krefjist ekki vaxta af veðsettri innstæðu. Samkomulag um gerðardóm

Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að á næstu vikum eftir undirskrift baksamninganna var gengið frá lausum endum varðandi þá. Þar var einkum um að ræða tvö atriði. Annars vegar ákvörðun um hvernig farið skyldi með ávöxtun á hinni handveðsettu fjárhæð samkvæmt baksamningunum, þ.e. þeim tæpu 35,5 milljónum Bandaríkjadala sem stóðu á reikningi Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser. Hins vegar var gengið frá því samkomulagi um gerðardóm sem baksamningarnir gerðu ráð fyrir en frestað mun hafa verið að ganga frá þar til þeir höfðu verið undirritaðir.

Daginn eftir undirskrift baksamninganna, föstudaginn 17. janúar 2003, sendi Hauck & Aufhäuser Welling & Partners Limited bréf, stílað á Karim Van den Ende, þar sem fram kom efnislega að bankinn hefði í tvennu lagi, 13. og 16. janúar 2003, móttekið að fullu þær 35.454.372 milljónir Bandaríkjadala sem samið hefði verið um í veð- og tryggingasamningnum frá 16. janúar 2003 milli Welling & Partners og bankans og fjárhæðin verið veðsett í kjölfarið í samræmi við þann samning. Að auki var boðað að bankinn myndi hafa samband við félagið mánudaginn 20. janúar 2003 til að semja um frekari fjárfestingu (e. further investment) innlánsins í samræmi við ákvæði II.1 í fyrrnefndum samningi. Van den Ende sendi Eggerti J. Hilmarssyni þetta bréf bankans samdægurs í tölvupósti en Eggert áframsendi tölvupóstinn til Bjarka Diego að morgni mánudagsins 20. janúar 2003. Sama morgun hafði Martin Zeil samband við Bjarka með tölvupósti og spurðist fyrir um hver væri bær af hálfu Welling & Partners til að semja um skilmála fjárfestingar innlánsins.

Í framhaldi af því setti Zeil fram þá tillögu í tölvupósti til Bjarka Diego að einfaldasta lausnin væri að engir vextir væru greiddir á reikningnum til að ekki skapaðist neinn fjármagnskostnaður (e. „cost of carry“) af vörslum Hauck & Aufhäuser á innláninu. Bjarki áframsendi póstinn strax til Steingríms Kárasonar og Hreiðars Más Sigurðssonar og spurði þá álits á tillögu Zeil. Eftir ítrekun frá Zeil á erindinu síðdegis sama dag samþykkti Bjarki tillögu hans með þeim orðum að honum „hefði verið kynnt af fulltrúum Welling & Partners“ að félagið myndi ekki krefjast vaxta af hinu veðsetta innláni og þar af leiðandi yrði enginn kostnaður samfara vörslum Hauck & Aufhäuser á því. Þetta kallaði Bjarki hina einföldu „núll-niðurstöðu“ (e. „„zero – sum“ solution“). Vitnað er til þessa tölvupósts Bjarka hér til hliðar. Zeil svaraði og boðaði að fjárfestingin yrði meðhöndluð í samræmi við þetta en bað um skriflega staðfestingu á þessu frá Welling & Partners Limited. Bjarki kom því á framfæri við Eggert J. Hilmarsson hjá KBL og spurði hvort hægt væri að fá Karim Van den Ende til að staðfesta þetta með undirritun og senda síðan til Hauck & Aufhäuser. Að því búnu tilkynnti Bjarki Zeil um að hann mætti eiga von á því að stjórnandi Welling & Partners Limited sneri sér til bankans með skriflega staðfestingu á þessu fyrirkomulagi.

Í lok mánaðarins, 31. janúar 2003, hafði Martin Zeil svo aftur samband við Bjarka Diego með tölvupósti. Í tölvupóstinum minnti Zeil á að enn væri ólokið samkomulagi um gerðardóm milli Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners Limited sem baksamningarnir gerðu ráð fyrir. Zeil gat þess að hann hefði meðan stóð á gerð baksamninganna sent drög að slíku samkomulagi en ákveðið hefði verið að semja um það atriði síðar. Með tölvupóstinum sendi Zeil nýjustu drög sín að slíku samkomulagi.

Bjarki svaraði þessu erindi Zeil með tölvupósti viku síðar, 6. febrúar 2003, kvaðst hafa farið yfir drögin að gerðardómssamkomulaginu og teldi það ásættanlegt. Hann lagði til að KBL myndi gera ráðstafanir til að tvö undirrituð eintök yrðu send Zeil á skrifstofu hans í München en hann sendi síðan annað eintakið með undirritun af hálfu Hauck & Aufhäuser til baka. Zeil svaraði þessum tölvupósti Bjarka rúmri viku síðar, 14. febrúar 2003. Í tölvupóstinum kom fram samþykki hans við þessu og að hann byggist við að fá skjölin send. Síðar í febrúar, 22. þ.m., áframsendi Bjarki Eggerti J. Hilmarssyni tölvupóstsamskipti þeirra Zeil ásamt skjali sem hafði að geyma gerðardómssamkomulagið og bað um að Karim Van den Ende yrði fenginn til að undirrita samkomulagið og senda síðan Martin Zeil til undirritunar. Eggert kom erindinu tveimur dögum síðar á framfæri við Van den Ende sem virðist hafa gengið frá því samdægurs að undirrita samkomulagið og afla umbeðinnar undirritunar Zeil á það líka.

Ekki telst þörf á að rekja einstök atriði gerðardómssamkomulags Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners hér og verður ekki fjallað frekar um það í skýrslunni enda verður ekki ráðið af atvikum samkvæmt fyrirliggjandi gögnum rannsóknarnefndarinnar að nokkurn tímann hafi reynt á þetta samkomulag í framkvæmd.

5.4.9  Samantekt  og  ályktanir rannsóknarnefndar

Aðdragandi og gerð baksamninganna um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. sem lýst hefur verið fram að þessu sýnir svo ekki verður um villst að þátttaka þýska bankans gegnum Eglu hf. í kaupum S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum var engan veginn með þeim hætti sem kynnt var fyrir íslenskum stjórnvöldum í tengslum við þau kaup og jafnframt öllum almenningi á Íslandi gegnum fjölmiðla. Að auki má telja ljóst að aldrei stóð einu sinni til að þátttaka bankans yrði með þeim hætti sem kynnt var heldur var styrkur og einbeittur tilgangur þeirra sem stóðu að baksamningunum sá að koma málum leynilega fyrir með öðrum hætti. Þátttaka Hauck & Aufhäuser gegnum Eglu hf. í söluferli Búnaðarbankans var því frá upphafi aldrei annað en yfirvarp á meðan raunverulegar ráðstafanir varðandi eignarhald Eglu hf. voru samtímis gerðar með hinum leynilegu baksamningum, í þágu Ólafs Ólafssonar og Kaupþings hf., eins og þegar er komið fram að nokkru og nánar verður vikið að síðar.

Baksamningarnir voru gerðir 10. til 15. janúar 2003 í þríhliða samvinnu eins eða tveggja starfsmanna Hauck & Aufhäuser, fáeinna lykilstarfsmanna Kaupþings hf. og Guðmundar Hjaltasonar. Ljóst þykir að Guðmundur sinnti því verki af hálfu og í þágu Ólafs Ólafssonar. Guðmundur vann á sama tíma fyrir S-hópinn í heild, sömuleiðis fyrir tilstilli Ólafs Ólafssonar, að samningum við framkvæmdanefnd um einkavæðingu í opinberu söluferli Búnaðarbankans og miðlaði þaðan bæði upplýsingum og gögnum til þeirra sem stóðu með honum að gerð baksamninganna. Margnefndir starfsmenn Société Générale, Michael Sautter og Ralf Darpe, voru einnig frá upphafi viðriðnir gerð baksamninganna. Sömuleiðis má telja ljóst, eins og áður hefur verið rakið, að þeir hafi í reynd verið persónulegir trúnaðarmenn Ólafs Ólafssonar í þessu ferli enda þótt þeir hafi í opinberu söluferli Búnaðarbankans komið fram sem ráðgjafar S-hópsins í heild sinni.

Áður hefur verið dregið saman, og lýst nánar í umfjöllun um einstök atvik hér á undan, hvaða stjórnendur og starfsmenn Kaupþings hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. áttu þátt í undirbúningi og gerð baksamninganna og ráðstöfunum og gerningum sem tengdust þeim. Nægir hér að vísa til þess. Athygli vekur sá fjöldi fólks sem átti þar hlut að máli eða gat ekki dulist hvað málið varðaði, samkvæmt viðkomandi skjallegum gögnum rannsóknarnefndarinnar um þetta tímabil. Sá hópur telur marga af helstu lykilstarfsmönnum fyrirtækisins á þessum tíma (og raunar svo áfram gegnum sameiningu við Búnaðarbankann og allar götur fram að falli Kaupþings banka hf. haustið 2008), utan sjálfs forstjóra Kaupþings hf. á þessum tíma, Sigurðar Einarssonar. Um vitneskju hans eða þátttöku í þessu ferli á þessu tímabili, það er til og með febrúar 2003, verður engu slegið föstu svo óyggjandi sé samkvæmt skjallegum gögnum nefndarinnar einum og sér eða upplýsingum nefndarinnar að öðru leyti. Rannsóknarnefndin hefur því ekki forsendur til að fjalla nánar um eða setja fram ályktanir um það atriði.

Martin Zeil, forstöðumaður lögfræðisviðs, og Peter Gatti, meðeigandi og framkvæmdastjóri, hjá Hauck & Aufhäuser stóðu að gerð baksamninganna í nafni þýska bankans. Í því leynilega ferli átti Zeil einkum virkan þátt en Gatti hafði með höndum að vera fulltrúi bankans út á við í hinu opinbera söluferli. Athygli vekur að fyrir utan þessa tvo menn úr hópi yfirmanna bankans verður ekki séð af neinum fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndarinnar, frá upphafi til enda í þessu ferli, að nokkur annar af stjórnendum Hauck & Aufhäuser hafi komið með beinum hætti að einkavæðingu Búnaðarbankans, hvorki að því að skapa hina röngu ásýnd opinberlega um þátttöku bankans né að hinni raunverulegu þátttöku sem komið var til leiðar með baksamningunum. Þetta á líka við um eftirleikinn á næstu árum eftir viðskiptin þegar enginn nema Peter Gatti (eða nafnlausir fulltrúar hans) svöruðu af hálfu Hauck & Aufhäuser í íslenskum fjölmiðlum fyrir þátttöku bankans í viðskiptunum, og raunar þá aðeins ef og þá sjaldan sem á annað borð fengust nokkur svör frá bankanum. Sömuleiðis var það Peter Gatti sem sinnti stjórnarsetu í nafni Hauck & Aufhäuser næstu misseri eftir viðskiptin í hinum sameinaða Kaupþingi Búnaðarbanka hf., það er á meðan sýndareignarhald Hauck & Aufhäuser í bankanum gegnum eignarhlut í Eglu hf. taldist vara.

Í þessu sambandi ber einnig að benda á upplýsingar sem Helmut Landwehr, þáverandi meðeigandi og framkvæmdastjóri hjá Hauck & Aufhäuser (og þar með jafnsettur Peter Gatti hjá bankanum) veitti rannsóknarnefndinni. Svo vill til að Landwehr var einmitt sá fulltrúi Hauck & Aufhäuser sem undirritaði, ásamt Martin Zeil, umboð bankans, dags. 14. janúar 2003, til handa Gatti til að undirrita kaupsamninginn við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum og fleiri skjöl vegna þátttöku bankans í þessum viðskiptum.[107] Landwehr mun síðar á þessu sama ári, 2003, hafa látið af störfum hjá Hauck & Aufhäuser og starfar nú í Bandaríkjunum. Í viðtali við rannsóknarnefndina upplýsti Landwehr almennt um starfsemi bankans á þessum tíma að meðeigendur hjá Hauck & Aufhäuser hefðu þá haft umtalsvert sjálfræði með það hvernig þeir stunduðu viðskipti og sköpuðu viðskiptasambönd. Samkvæmt Landwehr voru engin almenn takmörk á þeim skuldbindingum sem meðeigendur máttu gangast undir fyrir hönd bankans. Þó hefði, eftir aðstæðum, þurft að upplýsa tilteknar nefndir bankans og fá samþykki þeirra enda þótt slíkt ferli hefði ekki alltaf verið mjög formlegs eðlis. Hvað varðaði þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans gat Landwehr þess að þau viðskipti hefðu verið í höndum Peter Gatti. Samkvæmt upplýsingum um þau sem veittar hefðu verið innan bankans hafi þátttaka Hauck & Aufhäuser í þessum viðskiptum falist í að halda á hlutabréfum í fjárvörslu fyrir íslenska aðila. Jafnframt kom fram hjá Landwehr að ef Hauck & Aufhäuser hefði, í reynd, fjárfest í eigin nafni í þessum viðskiptum (fyrir um 35 milljónir Bandaríkjadala) hefði slíkt ekki verið mögulegt nema með samþykki stjórnar bankans og tilkynningum til viðeigandi þýskra yfirvalda þar um. Samkvæmt Landwehr voru viðskipti Hauck & Aufhäuser varðandi Búnaðarbankann ekki lögð fyrir stjórn Hauck & Aufhäuser.

Af umfjöllun hér á undan um aðdraganda og gerð baksamninganna verður að telja ljóst að Ólafur Ólafsson, líklega í gegnum trúnaðarmenn sína hjá Société Générale, hafi útvegað Hauck & Aufhäuser til þátttöku í þessum viðskiptum. Jafnljóst má telja að ráðagerðir um leynilega aðkomu Kaupþings hf. að þessum viðskiptum, sem baksamningarnir gerðu svo að veruleika, má að minnsta kosti rekja aftur til miðs desembermánaðar 2002, sbr. tölvupóst Ralf Darpe til Ólafs Ólafssonar, dags. 17. desember 2002, sem áður var rakinn.

Þótt ekkert liggi fyrir um hvernig eða hvenær samstarf Ólafs og Kaupþingsmanna um þetta hafi nákvæmlega hafist er ljóst að Kaupþing hf. sá síðan í reynd, í samvinnu þar sem við átti við fulltrúa Ólafs, helst þá Guðmund Hjaltason, um gerð baksamninganna og allt sem máli skipti til að koma þeim og síðari framkvæmd þeirra til leiðar, þar á meðal skjalagerð, fjármögnun, opnun bankareikninga, sendingu fjármuna og aðra umsýslu í þessu ferli. Þá útvegaði Kaupþing hf. aflandsfélagið Welling & Partners Ltd. til að standa að baksamningunum við Hauck & Aufhäuser og stjórnanda fyrir það að nafni til. Sá stjórnandi var Karim Van den Ende sem skrifaði undir baksamningana af hálfu Welling & Partners og átti svo eftir að sjá um að framkvæma samningana og ráðstafanir á grundvelli þeirra allt til enda, eins og síðar verður nánar rakið.

Hér þykir ekki sérstök þörf á að fara heildstætt yfir drögin að baksamningunum eins og þau þróuðust í áðurnefndu ferli. Einungis er ítrekað það sem áður kom fram að ljóst er af fyrstu drögum þeirra sem liggja fyrir meðal gagna rannsóknarnefndarinnar að meginefni og grunnatriði þeirra lágu fyrir þegar í þeim drögum og voru þannig skýr frá upphafi. Um þetta vísast annars til fyrri umfjöllunar um meginefni baksamninganna og síðari umfjöllunar þar sem vikið verður nánar að efni þeirra.

Í tengslum við gerð baksamninganna sendi Kaupþing hf. 13. og 16. janúar 2003 fyrir hönd Welling & Partners samtals 35.454.372 Bandaríkjadali (þá jafnvirði um 2,9 milljarða króna) inn á nýstofnaðan, eða jafnvel „varla stofnaðan“, bankareikning aflandsfélagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Þar af voru um 34 milljónir Bandaríkjadala sendar fyrri daginn en afgangurinn þremur dögum síðar þegar í ljós hafði komið að hlutafjárframlag sem Hauck & Aufhäuser bæri að greiða til Eglu hf. til að fjármagna þátttöku félagsins í kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum myndi hækka sem því nam og þar með nema fyrrnefndri heildarfjárhæð. Fjárhæðin var handveðsett Hauck & Aufhäuser með veð- og tryggingasamningnum og aflandsfélagið skuldbatt sig til að ráðstafa ekki innstæðunni af viðkomandi bankareikningi félagsins meðan samningarnir væru í gildi. Greiðslurnar tvær voru báðar sérstaklega bornar undir Hreiðar Má Sigurðsson sem samþykkti þær. Síðar var gerður lánssamningur um þessa fyrirgreiðslu milli Kaupþings hf. og Welling & Partners. Engar tryggingar voru veittar samkvæmt honum af hálfu aflandsfélagsins fyrir endurgreiðslu lánsins. Lánveitingin var samþykkt formlega í lánanefnd Kaupþings hf. Allir sem sátu þann fund og samþykktu lánið höfðu átt meiri eða minni þátt í að koma málinu til leiðar innan Kaupþings hf. Kaupþing hf. féll síðar, í nafni Welling & Partners, frá öllum vöxtum af þessari innstæðu hjá Hauck & Aufhäuser.

Frekari umfjöllun um þessa fjárskuldbindingu Kaupþings hf. í þágu Welling & Partners, einkum þá áhættu vegna hennar og tengd atriði, heyrir best undir næsta kafla þar sem nánari grein er gerð fyrir efni baksamninganna í einstökum atriðum. Rétt er þó að fram komi strax hér það meginatriði að af baksamningunum leiddi að Kaupþing hf. bar frá upphafi eitt alla fjárhagslega áhættu sem þeim tengdist, einkum þá vegna þessarar næstum þriggja milljarða króna fjárskuldbindingar. Nánari grein er gerð fyrir þessu síðar í skýrslunni í umfjöllun um viðkomandi ákvæði baksamninganna.

Á hinn bóginn var hagnaðarvon vegna baksamninganna ekki á sama hátt og áhættan einskorðuð við Kaupþing hf. Kom þar til hið sérstaka samkomulag um skiptingu hagnaðar, dags. 16. janúar 2003, milli annars vegar Welling & Partners og hins vegar aflandsfélagsins Serafin Shipping Corp. Í því samkomulagi var mælt fyrir um að félögin tvö myndu deila að jöfnu nettóhagnaði, en ekki neinu tapi, vegna þeirrar væntanlegu fjárfestingar á hlutum í Eglu hf. sem baksamningarnir gengu út á að tryggja rétt Welling & Partners til, á þann hátt að Welling & Partners skyldi greiða til Serafin Shipping Corp. helming nettóhagnaðar síns af slíkum viðskiptum. Af gögnum rannsóknarnefndar verður ekki annað ráðið en að Welling & Partners hafi í reynd aldrei farið úr eigu Kaupþings hf. eða Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á meðan þau atvik gerðust sem hér er fjallað um. Þá er enn fremur ljóst að Ólafur Ólafsson var raunverulegur eigandi Serafin Shipping Corp.[108]

Sama dag og bæði baksamningarnir og kaupsamningur S-hópsins og íslenska ríkisins um hlutinn í Búnaðarbankanum voru undirritaðir, hinir fyrrnefndu leynilega en sá síðarnefndi opinberlega, var þannig einnig gengið frá því formlega með fyrrgreindu samkomulagi um skiptingu hagnaðar að aðstandendur baksamningana við Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. (eða Kaupþing Bank Luxembourg S.A.), gegnum Welling & Partners, og Ólafur Ólafsson, gegnum Serafin Shipping Corp., myndu skipta með sér til helminga öllum hugsanlegum hagnaði sem hlytist af viðskiptum á grundvelli baksamninganna með þá hluti í Eglu hf., og þar með undirliggjandi hluti í Búnaðarbankanum, sem opinberlega og í orði kveðnu tilheyrðu Hauck & Aufhäuser.

5.5  Nánar um efni baksamninganna

Í þessum kafla er fjallað um efni baksamninganna tveggja í einstökum atriðum. Umfjöllunin takmarkast við helsta efni þeirra og það sem máli skipti í reynd. Ekki telst þörf á að fjalla með tæmandi hætti um öll ákvæði þeirra enda höfðu þeir einnig að geyma ýmis ákvæði og varnagla sem telja má hefðbundin fyrir viðskiptasamninga og ekki sérstaklega tengd efni og tilgangi þeirra að öðru leyti. Ekki er um að ræða heildstæða íslenska þýðingu á ákvæðum samninganna heldur eru sum ákvæði, og þá þau veigaminni, dregin saman eða lýst efnislega. Mikilvægari ákvæði samninganna eru í meginatriðum þýdd orðrétt og í heild sinni. Þar sem tilefni er til er getið frummáls eða settar fram athugasemdir varðandi þýðingu eða skilning á samningunum. Báðir samningarnir skiptast í aðfararorð og efnisákvæði og er gerð grein fyrir hvorum fyrir sig sérstaklega.[109]

5.5.1  Söluréttarsamningurinn (e. Put Option Agreement)

5.5.1.1 Aðfararorð

Á undan efnisákvæðum söluréttarsamningsins (jafnan kallaður samningurinn hér eftir) eru átta ótölusettar efnisgreinar með aðfararorðum, það er forsendum og athugasemdum aðila um bakgrunn og efni samningsins.

Fyrstu tvær efnisgreinar aðfararorðanna settu í meginatriðum fram þær forsendur aðila að baksamningunum að kaupverð á hlut Eglu í Búnaðarbankanum (hér eftir jafnan til styttingar BÍ) yrði fjármagnað með hlutafjárhækkun í félaginu sem hluthafar þess myndu standa að í hlutfalli við eign sína í félaginu. Í samræmi við 50% eignarhlut Hauck & Aufhäuser skyldu fjárframlög Hauck & Aufhäuser vegna hlutafjárhækkunarinnar, sem fram færi í tveimur skrefum á sama hátt og greiðsla kaupverðs fyrir BÍ, nema samtals 33.454.371,5 Bandaríkjadölum.

Fyrsta efnisgrein aðfararorðanna vísar þannig til skuldbindingar Hauck & Aufhäuser, á grundvelli hluthafasamkomulags, dags. 16. janúar 2003, við Ker hf. og VÍS hf., til að kaupa 50% hlutafjár að nafnvirði í Eglu hf. eftir að hækkun á hlutafé félagsins úr 10.000.000 íslenskra króna að nafnvirði hefði átt sér stað. Forsenda fyrir þessu er sögð vera að undirritaður hefði verið kaupsamningur um hlutafé milli íslenska ríkisins og hóps fjárfesta, þar á meðal Eglu hf., um kaup fjárfestahópsins á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands.

Önnur efnisgrein aðfararorðanna fjallar nánar um hlutafjárhækkunina í Eglu hf. Hún er sögð mundu verða í tveimur skrefum sem aftur tengdust þeim tveimur skrefum í greiðslu kaupverðs og afhendingu hluta sem kveðið var á um í kaupsamningnum um BÍ. Þannig átti fyrra skref hlutafjárhækkunar í Eglu hf. að eiga sér stað við fyrri greiðslu og afhendingu hlutabréfa samkvæmt kaupsamningnum um BÍ sem skyldi fara fram innan 30 daga frá undirritun hans. Hlutur Eglu hf. í þeirri greiðslu nam 15.313.434 Bandaríkjadölum og 1.969.488.580 íslenskum krónum. Sú greiðsla var því sögð leiða til hlutafjárframlags (e. „capital contribution“) að fjárhæð 20.050.184 Bandaríkjadalir (7.656.717 Bandaríkjadalir að viðbættum 981.744.290 íslenskum krónum) af hálfu Hauck & Aufhäuser (e. „on the Bank‘s behalf “). Síðara skref hlutafjárhækkunar í Eglu hf. átti að eiga sér stað við síðari greiðslu og afhendingu hlutabréfa samkvæmt kaupsamningnum um BÍ sem skyldi fara fram ekki síðar en 20. desember 2003. Hlutur Eglu hf. í þeirri greiðslu nam allt að 26.808.375 Bandaríkjadölum. Sú greiðsla var því sögð leiða til hlutafjárframlags að fjárhæð allt að 13.404.187,50 Bandaríkjadölum af hálfu Hauck & Aufhäuser (e. „on the Bank‘s behalf “).

Í þriðju efnisgrein aðfararorðanna var kveðið á um það að samkomulagið tæki til hluta  í Eglu hf., eða hlutfallslega jafns fjölda (það er 50%) af hlutum Eglu hf. í BÍ og öðrum eignum Eglu hf., færi svo að félagið yrði leyst upp.

Í fimmtu efnisgrein aðfararorðanna kom fram að Hauck & Aufhäuser vildi áskilja sér rétt til þess að skylda Welling & Partners Limited til að kaupa hluti bankans í Eglu hf. við tilteknar aðstæður sem lýst væri nánar í samningnum.

Í sjöttu efnisgrein aðfararorðanna sagði að eftir tímabil áskilnaðar um óbreytt eignarhald (e. „lock-up period“) í 21 mánuð væri bankanum frjálst að ráðstafa hlutum sínum í Eglu hf. Hér var vísað til skilyrðis í grein 11.3 í endanlegum kaupsamningi íslenska ríkisins við S-hópinn um óbreytt eignarhald.

Aðrar efnisgreinar aðfararorðanna telst ekki sérstök þörf að rekja nánar.

5.5.1.2 Efnisákvæði

Söluréttarsamningurinn hafði að geyma 16 greinar með efnisákvæðum, mörg hver nánar greind niður í stafliði. Sem fyrr eru aðeins raktar nánar þær greinar samningsins og einstök ákvæði í stafliðum þeirra sem skipta máli hér.

Fyrsta grein samningsins hafði yfirskriftina „Söluréttur“ (e. „Put“). Í a-lið hennar var kveðið á um veitingu söluréttar (e. „Grant of Put“). Samkvæmt því ákvæði veitti Welling & Partners bankanum óafturkræfan rétt og valrétt (e. „the irrevocable right and option (the Put)“) til að krefjast þess af Welling & Partners að félagið keypti alla, en ekki minna en það, (e. „all (but not less than all)“) hluti bankans í Eglu hf. hvenær sem væri innan þrjátíu daga frá því að það skilyrði sem kveðið var á um í 3. gr. samningsins kæmi fram. Það skilyrði skírskotaði til hins 21 mánaðar lágmarkstíma eignarhalds Eglu hf. á hlutunum í BÍ samkvæmt kaupsamningi S-hópsins við ríkið um BÍ en sá tímafrestur gilti frá undirritun þess samnings. Um kaupverð fyrir hlutina var vísað til b-liðar greinarinnar og um form- og framkvæmdaratriði varðandi söluréttinn til c-liðar greinarinnar. Í b-lið 1. gr. samningsins var kveðið á um „söluréttarverðið“ (e. „Put Price“). Heildarkaupverð Welling & Partners fyrir hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. við beitingu söluréttarins skyldi vera fjárhæð jöfn hlutafjárframlagi bankans til Eglu hf. Fjárhæðin skyldi þó aldrei vera hærri en 33.454.372 Bandaríkjadalir nema þó að viðbættum öllum frekari kostnaði og vaxtakostnaði, þar á meðal fjármagnskostnaði, sem gæti hafa fallið á bankann við fjármögnun á framlögum sínum til Eglu hf. Óþarft er að rekja hér sérstaklega ákvæði c-liðar 1. gr. samningsins um formsatriði við beitingu kaupréttarins enda reyndi ekki á þau eins og framkvæmd samningsins varð á endanum, svo sem síðar greinir nánar frá.

Önnur grein samningsins hafði yfirskriftina „Forkaupsréttur“ (e. „Pre – emptive right“).[110] Samkvæmt a-lið hennar veitti bankinn Welling & Partners Limited forkaupsrétt, án þess að áhrif hefði á 8. gr. samningsins (sjá síðar um ákvæði þeirrar greinar), til þess að kaupa hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. fyrir fjárhæð jafnháa söluréttarverðinu (sjá áður um það hugtak samkvæmt samningnum) í því tilviki ef bankanum hefði verið gert gilt tilboð í hlutina, óháð fjárhæð slíks tilboðs. Í b-lið 2. gr. voru form- og framkvæmdarákvæði um forkaupsréttinn. Ekki telst ástæða til að rekja þau hér.

Þriðja grein samningsins hafði að geyma eina skilyrði þess að Hauck & Aufhäuser mætti beita sölurétti sínum. Ákvæðið mælti fyrir um að óháð öllum öðrum ákvæðum samningsins gæti bankinn ekki beitt sölurétti sínum fyrr en við lok tuttugasta og fyrsta mánaðar sem liði eftir undirritun kaupsamnings um hlut ríkisins í BÍ, með fyrirvara um ákvæði 15. gr. samningsins (sjá síðar um ákvæði þeirrar greinar).

Fjórða og fimmta grein samningsins fjölluðu um ýmis atriði, flest lagalegs eðlis og gagnkvæm, sem aðilar samningsins lýstu yfir eða ábyrgðust gagnvart hinum. Fjórða greinin hafði að geyma yfirlýsingar Hauck & Aufhäuser í þessu sambandi en sú fimmta yfirlýsingar Welling & Partners. Ekki er þörf á að rekja þessi ákvæði í smáatriðum hér. Þess skal þó getið að í samhljóða greinum með yfirskriftinni „samþykki stjórnvalda“ (e. Governmental Approvals) kom annars vegar fram í d-lið 4. gr. sú yfirlýsing Hauck & Aufhäuser að bankinn tæki enga ábyrgð á kröfum um slíkt samkvæmt íslenskum lögum og hins vegar, í d-lið 5. gr., yfirlýsing Welling & Partners sem efnislega kvað meðal annars á um að ekki þyrfti að upplýsa eða afla samþykkis neinna íslenskra yfirvalda vegna Welling & Partners Limited í tengslum við gerð samningsins eða framkvæmd þeirra ráðstafana sem hann gerði ráð fyrir að öðru leyti en því að kaup félagsins, eða aðila sem það hefði tilnefnt, á hlutunum myndu verða háð samþykki Fjármálaeftirlitsins á Íslandi og að öll ábyrgð á að afla slíks samþykkis lægi hjá Welling & Partners Limited.

Sjötta grein samningsins bar yfirskriftina „Skaðleysisgreiðslur“ (e. „Indemnification“).[111] Hún kvað á um að, með fyrirvara um önnur ákvæði greinarinnar, skyldi Welling & Partners frá og með sölu bréfanna samkvæmt sölurétti bankans ábyrgjast skaðleysi bankans af í fyrsta lagi hvers kyns tapi eða tjóni sem leiddi af broti eða ágalla á yfirlýsingum eða ábyrgðum Welling & Partners í samningnum, en þó því aðeins að slíks skaðleysis væri krafist innan nánar tilgreindra tímamarka, og í öðru lagi hvers konar vanrækslu Welling & Partners á að efna skyldur samkvæmt samningnum. Greinin hafði svo að geyma nánari ákvæði um, einkum með skírskotunum til þýskra laga, hvernig bæri að túlka ábyrgðir og yfirlýsingar í samningnum en ekki þarf að rekja þau atriði hér.

Áttunda grein samningsins bar yfirskriftina „Ekkert framsal á hlutum“ (e. „No Assignment of Shares“). Í henni skuldbatt Hauck & Aufhäuser sig til að hvorki selja, kvaðabinda, veðsetja né ráðstafa með öðrum hætti hlutum sínum í Eglu hf. öðru vísi en til Welling & Partners Limited og/eða fulltrúa (e. „designee“) þess við beitingu söluréttar samkvæmt samningnum, með fyrirvara um ákvæði 15. gr. samningsins.[112]

Níunda grein samningsins kvað á um að samningurinn skyldi líða undir lok sjálfkrafa við endanlegt framsal (e. „transfer“) hluta Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. til Welling & Partners eða fulltrúa þess.

Tíunda grein samningsins fjallaði um hvert senda skyldi tilkynningar og önnur samskipti milli aðila samningsins. Fyrir bankann var þar gefið upp heimilisfang bankans í Munchen ásamt nánari áritun („Partners‘ Office/Financial Investments“) og viðtakendurnir Martin Zeil og annar starfsmaður bankans sem annars kemur ekki fyrir í gögnum rannsóknarnefndarinnar. Fyrir Welling & Partners var Karim Van den Ende tilgreindur sem viðtakandi af hálfu félagsins og í því sambandi gefið upp nánar tilgreint pósthólf í Lúxemborg.

Þrettánda grein samningsins fjallaði um framsal og síðari rétthafa (e. „Assignment; Successors“). Í henni kom fram að réttindi og skyldur samkvæmt samningnum yrðu ekki framseldar eða faldar öðrum án fyrirfram skriflegs samþykkis hins aðila samningsins, nema hvað „kaupandinn“ (e. „the Purchaser“) mátti framselja og fela sérhver réttindi sín eða skyldur samkvæmt samningnum til sérhvers tengds aðila síns.[113]

Fjórtánda grein samningsins bar yfirskriftina „Ógjaldfærni bankans“ (e. „Insolvency of the Bank“) og kvað á um það að ef Hauck & Aufhäuser yrði ógjaldfær eða aðgerðir eftirlitsaðila hæfust gegn bankanum samkvæmt nánar tilgreindum ákvæðum þýskra bankalaga myndi sölurétturinn virkjast sjálfkrafa, það er eignarhald hluta í Eglu hf. myndi færast til Welling & Partners í skiptum fyrir söluréttarverðið.

Fimmtánda grein samningsins hafði að yfirskrift „Ógjaldfærni Eglu hf. og/eða Búnaðarbanka Íslands/Ógildi eða innlausn hluta“ (e. „Insolvency of EGLA and/or BUNADARBANKI/ Nullification or Redemption of Shares“). Í greininni var kveðið á um það að yrði Egla hf. og/eða Búnaðarbankinn ógjaldfær eða gjaldþrota og/eða hlutir í þeim yrðu ógiltir eða sættu innlausn með lögformlegum hætti samkvæmt íslenskum lögum þá væri Hauck & Aufhäuser einhliða heimilt að beita söluréttinum samkvæmt 1. gr. samningsins án frekari fyrirvara og þar með yfirfæra eignarhald bréfanna til Welling & Partners. Í tilviki þess að söluréttinum væri beitt afsalaði Welling & Partners sér hvers konar andmælum, rétti eða vörnum sem kynnu að leiða af því að Búnaðarbankinn væri ógjaldfær og hlutir í honum kynnu að hafa glatað verðmæti sínu að fullu.

Sextánda grein samningsins hafði svo loks að geyma ákvæði um lög sem gilda skyldu um samninginn og gerðardóm (e. „Governing Law; Arbitration“). Samkvæmt greininni giltu þýsk lög um samninginn og skyldi leysa úr öllum ágreiningi á grundvelli hans fyrir gerðardómi samkvæmt ákvæðum sérstaks samkomulags þar um milli aðila.

Líkt og áður sagði skrifaði Karim Van den Ende undir samninginn f.h. Welling & Partners. Af hálfu Hauck & Aufhäuser skrifuðu tveir fulltrúar bankans undir og var annar þeirra Martin Zeil.

5.5.2  Veð- og tryggingasamningurinn (e. Pledge and Security  Agreement)

5.5.2.1 Aðfararorð

Veð- og tryggingasamningurinn (jafnan kallaður samningurinn hér eftir) skiptist í tvo hluta, I og II. Aðfararorð koma fram í hluta I en efnisákvæði eru í hluta II. Hluti I geymir átta ótölusettar efnisgreinar með aðfararorðum sem nú verður nánar lýst, að því marki sem þýðingu telst hafa.

Í fyrstu efnisgreinum aðfararorðanna, nánar tiltekið fyrstu til og með fjórðu efnisgrein, er vísað til og lýst meginefni annarra samninga sem tengdust veð- og tryggingasamningnum. Fyrsta efnisgreinin vísar til söluréttarsamningsins með dagsetningu hans, 16. janúar 2003. Tekið er fram að hann fylgi með veð- og tryggingasamningnum og sé óaðskiljanlegur hluti hans (e. „forms an integral part of it“). Önnur efnisgreinin gerir grein fyrir að aðilum sé kunnugt um hluthafasamkomulag hluthafa Eglu hf., hluthafasamkomulag innan S-hópsins (e. „Shareholders‘ Agreement between the investor group“)[114] og kaupsamning (e. „Share Purchase Agreement (Final Draft No 10)“) sem verði undirritaður milli S-hópsins og íslenska ríkisins (þ.e. kaupsamning um hlut ríkisins í BÍ), sérstaklega þær takmarkanir og skilmála sem varða framsal á hlutum í Eglu hf. sem og í Búnaðarbankanum. Í þriðju efnisgrein er því lýst að aðilum samningsins sé einnig kunnugt um kaupsamning um hlutafé (e. „Share Purchase Agreement“) milli núverandi hluthafa Eglu hf. (e. „the present shareholder of EGLA“) og bankans varðandi 50% af heildarhlutafé Eglu hf. að nafnvirði 10.000.000 krónur, þar sem kaupverð fyrir 50% hlut nemi 5.000.000 íslenskum krónum. Í fjórðu efnisgrein kemur svo fram að öll þessi samkomulög í núverandi drögum eða lokaútgáfum til undirskriftar (e. „execution copies“) fylgi samningnum.

Fimmta efnisgrein aðfararorðanna varðar það að aðilum samningsins sé kunnugt um „þá staðreynd“ að við beitingu söluréttarins sé Welling & Partners eða fulltrúa þess skylt að tilkynna um ætlun sína að kaupa hlut í BÍ gegnum Eglu hf. til Fjármálaeftirlitsins á Íslandi og að kaup á hlutum í Eglu hf. af hálfu Welling & Partners eða fulltrúa þess verði háð samþykki Fjármálaeftirlitsins á Íslandi.

Sjötta efnisgreinin segir að aðilar samningsins gangist undir og séu sammála um að gagnkvæm samkomulög þeirra séu háð takmörkunum og skilmálum samkvæmt fyrrnefndum samningum og lagafyrirmælum (e. „legal Regulations“).

Í sjöundu og áttundu efnisgrein aðfararorðanna er svo lýst meginefni samningsins. Sjöunda efnisgreinin fjallar um það að í samræmi við b-lið 1. greinar og b-lið 2. greinar söluréttarsamningsins sé Welling & Partners skylt, í því tilviki að söluréttur Hauck & Aufhäuser verði virkjaður, að borga Hauck & Aufhäuser kaupverð allt að hámarksfjárhæðinni 33.454.372 Bandaríkjadölum, sem væri jafngildi hlutafjárframlags bankans til Eglu hf., að viðbættum þeim kostnaði sem skilgreindur væri „þar“ (það er væntanlega í fyrrnefndum ákvæðum söluréttarsamningsins), í skiptum fyrir framsal áðurnefndra hluta í Eglu hf. til Welling & Partners eða annars aðila sem Welling & Partners tilnefndi. Í áttundu efnisgreininni kemur svo fram að samningurinn miði að því að veita bankanum tryggingu fyrir kröfu hans til kaupverðsins á hendur Welling & Partners ef sölurétti yrði beitt sem og fyrir kröfu bankans til bóta vegna mismunar á kaupverði sem bankinn hafi borgað samkvæmt „kaupsamningnum“ (e. „Share Purchase Agreement“) og markaðsverðs hlutanna á hverjum tíma í gildistíð samningsins sem og í tilviki ógjaldfærni Eglu hf. og/eða Búnaðarbankans og/eða ógildi eða innlausnar hlutanna sem og í tilviki hvers konar skuldbindingar sem risi af kaupsamningnum við íslenska ríkið (e. „any obligation arising from the Share Purchase Agreement with the State of Iceland“).

5.5.2.2 Efnisákvæði

Í II. hluta veð- og tryggingasamningsins voru tíu greinar með efnisákvæðum, sumum hverjum greindum niður í stafliði. Líkt og með söluréttarsamninginn hér áður er aðeins gerð grein fyrir þeim ákvæðum veð- og tryggingasamningsins sem teljast hafa þýðingu að mati rannsóknarnefndarinnar.

Í fyrstu grein samningsins var kveðið á um það að Welling & Partners skuldbyndi sig gagnvart bankanum til að millifæra 35.454.372 Bandaríkjadali, fyrir undirskrift kaupsamningsins (e. „the Share Purchase Agreement“), inn á bankareikning félagsins nr. 206-71601-07 hjá bankanum og að ráðstafa ekki þeirri innstæðu meðan samningurinn væri í gildi, fyrir utan greiðslu þóknana til bankans samkvæmt 8. gr. samningsins. Innstæðan skyldi ávöxtuð (e. „invested“) í samræmi við ákvæði sérstaks samkomulags milli aðila samningsins.[115]

Í annarri grein samningsins kom fram að óháð beitingu söluréttarins undirgengist Welling & Partners og ábyrgðist gagnvart bankanum að félagið myndi bæta og halda bankanum skaðlausum af hvers konar verðbreytingum og verðlækkun á „hlutunum“ (e. „the shares“ – það er hlutum í Eglu hf. eða Búnaðarbankanum) á gildistíma samningsins sem og af hvers konar tapi eða tjóni sem bankinn kynni að verða fyrir vegna ógjaldfærni Eglu hf. og/ eða Búnaðarbankans og/eða ógildingu eða innlausn hlutanna sem og af skuldbindingum sem bankinn hefði gengist undir með því að undirrita samning um kaup á hlut í Eglu hf. og með því að undirrita ábyrgðaryfirlýsingar í kaupsamningnum við íslenska ríkið.

Í þriðju grein samningsins kom fram að óháð ákvæðum í a-lið 7. gr. samningsins, sem varðaði synjun eða vangetu bankans til að beita söluréttinum af ástæðum sem hann bæri ábyrgð á, væri samningsaðilum kunnugt um þá staðreynd að framkvæmd söluréttarins gæti orðið háð takmörkunum vegna löggjafar á Íslandi eða athafna þarlendra stjórnvalda, svo sem ef Fjármálaeftirlitið myndi ekki samþykkja framsal hluta samkvæmt söluréttarsamningnum, sem bankinn bæri ekki ábyrgð á. Færi svo að beiting söluréttarins myndi ekki takast eða reynast ómöguleg innan tilskilins tíma vegna slíkra ástæðna skuldbatt Welling & Partners sig til að halda bankanum skaðlausum af kaupverði hlutanna. Í slíku tilviki væri bankanum heimilt að leysa til sín hina veðsettu innstæðu án frekari fyrirvara. Við það að leysa til sín hina veðsettu innstæðu myndi bankinn upp frá því varðveita hlutina í fjárvörslu fyrir Welling & Partners, í eigin nafni en fyrir reikning og að öllu leyti á áhættu Welling & Partners, þangað til framsal bréfanna og beiting söluréttarins yrði möguleg. Bankinn myndi eiga rétt á þóknun samkvæmt b-lið 8. gr. samningsins og Welling & Partners myndi halda bankanum skaðlausum af hvers kyns frekari kostnaði sem leiða myndi af varðveislu hlutanna í fjárvörslu fyrir Welling & Partners.

Fjórða grein samningsins kvað á um að háð þeirri forsendu að bankinn keypti hlutina sem fjallað væri um í I. hluta samningsins veðsetti Welling & Partners bankanum þar með innstæðuna sem minnst væri á í 1. gr. II. hluta samningsins, að meðtöldum vöxtum. Veðsetningin var til tryggingar öllum kröfum, og sérstaklega þá kröfunni um kaupverðið (e. „the purchase price claim“) sem bankinn ætti gagnvart Welling & Partners samkvæmt söluréttarsamningnum sem getið væri um í I. hluta samningsins, eða sem bankinn myndi hafa ef söluréttinum yrði beitt. Hin veðsetta innstæða skyldi þó ekki vera umfram fjárskuldbindingu (e. „exposure“) bankans samkvæmt kaupsamningi S-hópsins (e. „the investor group“)[116] og íslenska ríkisins og/eða gagnvart Eglu hf. Hin veðsetta innstæða skyldi á sama hátt standa einnig til tryggingar öllum kröfum sem bankinn ætti eða kynni að eignast   á hendur Welling & Partners á grundvelli veð- og tryggingasamningsins, sérstaklega þá kröfum samkvæmt 2., 3., 6. og 8. greinum II. hluta hans. Í lok þessarar greinar kom fram að aðilar samningsins væru sammála um að innstæðan yrði veðsett.

Í fimmtu grein samningsins kom fram að bankanum væri heimilt að leysa til sín hina veðsettu innstæðu ef og að því marki sem Welling & Partners vanefndi gjaldfallnar greiðslur samkvæmt söluréttarsamningnum og/eða veð- og tryggingasamningnum.

Í sjöttu og sjöundu grein samningsins komu fram gagnkvæmar ábyrgðir og yfirlýsingar aðila með svipuðum hætti og efni og áður var lýst í umfjöllun um söluréttarsamninginn.

Af hálfu Welling & Partners voru slíkar ábyrgðir og yfirlýsingar í sjöttu grein samningsins. Þar kom meðal annars fram (c-liður 6. gr.) að ef skilyrði væru uppfyllt fyrir því að bankinn leysti til sín veðið afsalaði Welling & Partners sér öllum mótbárum, vörnum  og rétti til riftunar óháð því hvaða lagalegum grundvelli slíkt kynni að byggjast á. Þá sagði að Welling & Partners myndi halda bankanum skaðlausum af öllum kostnaði eða skuldbindingum sem rísa kynnu á grundvelli samningsins og þá sérstaklega af tjóni eða kröfum sem þriðju aðilar héldu fram gagnvart bankanum eða sem kæmu upp gagnvart bankanum vegna vanrækslu á að fylgja, eða brotum gegn, ábyrgðum og yfirlýsingum félagsins samkvæmt þessari grein. Sérstaklega skyldi Welling & Partners endurgreiða bankanum allan lögfræðikostnað sem kæmi til af þessum sökum og skyldi þá standa skil á viðeigandi innborgunum eftir kröfu þar um.

Af hálfu Hauck & Aufhäuser voru fyrrgreindar ábyrgðir og yfirlýsingar í sjöundu grein samningsins. Þar kom fram í a-lið 7. gr. að ef bankanum væri ófært að framselja hlutina til Welling & Partners þegar sölurétti væri beitt eða ef sölurétti væri ekki beitt innan tilsetts tíma til beitingar hans (e. „the exercise period“), sem mælt væri fyrir um í a-lið 1. gr., sbr. 3. gr., söluréttarsamningsins, og fyrir því væru ástæður sem bankanum yrði um kennt, skyldi litið svo á að veðið yfir innstæðunni hjá bankanum væri fallið úr gildi. Í b-lið 7. gr. sagði að ef nánar tilgreindar aðgerðir þýskra eftirlitsyfirvalda á sviði fjármálaþjónustu hæfust gegn bankanum og leiddu til þess að bankanum væri ófært að endurgreiða hina veðsettu innstæðu myndi það virkja söluréttinn. Með öðrum orðum, leiða til framsals   á eignarhaldi hlutanna í Eglu hf. til Welling & Partners eða annarra aðila sem félagið tilnefndi, í skiptum fyrir hina veðsettu innstæðu að því marki sem jafngilti fjárframlagi bankans til Eglu hf. og frekari skuldbindingum sem bankinn hefði undirgengist innan ramma þeirra viðskipta (e. „within the scope of this transaction“) á því tímamarki sem slíkar aðgerðir hæfust. Eftirstöðvar hinnar veðsettu innstæðu skyldu þá vera Welling & Partners til frjálsrar ráðstöfunar og lausar undan veðinu.

Í sjöundu grein samningsins voru til viðbótar tvö ákvæði í sérstökum efnisgreinum. Annað þeirra laut að þeim möguleika ef Egla hf. myndi ekki kaupa hluti í Búnaðarbankanum. Þá skyldi litið svo á að veðið yfir innstæðunni hjá Hauck & Aufhäuser væri fallið niður fyrir utan þær skuldbindingar sem bankinn hefði þegar gengist undir gagnvart Eglu hf. eða væri ábyrgur fyrir samkvæmt kaupsamningnum við íslenska ríkið.[117] Í þessu tilviki skyldu aðilar semja um hæfilega þóknun (e. „reasonable fee“) til bankans fyrir vinnu og kostnað fram að þeim tíma. Hitt ákvæðið laut að því að bankinn héldi Welling & Partners skaðlausu af þeim bótum eða kröfum (e. „damages or claims“) á hendur Welling & Partners sem leitt gætu af vanrækslu bankans á að framfylgja, eða brotum hans gegn, áðurnefndum ábyrgðum og yfirlýsingum. Í öllum öðrum tilvikum gæti bankinn aðeins sætt ábyrgð vegna skyldna sinna samkvæmt samningnum í tilviki beins ásetnings eða stórkostlegrar vanrækslu (e. „wilful intent or gross negligence“).

Í áttundu grein samningsins var kveðið á um þóknun til Hauck & Aufhäuser vegna framkvæmdar samningsins. Hún skyldi nema samtals 1.000.000 evrum í tveimur jöfnum greiðslum sem nánar var kveðið á um. Skyldu 500.000 evrur greiðast innan einnar viku frá undirritun samningsins en aðrar 500.000 evrur við beitingu söluréttarins samkvæmt söluréttarsamningnum. Í þessari grein samningsins kom einnig fram, með vísan til nánar tilgreindra ákvæða þýskra skattalaga, að aðilar samningsins gerðu ráð fyrir (e. „the Parties to the Agreement assume“) að Welling & Partners væri ekki skylt að greiða virðisaukaskatt af þóknun til bankans eða að félagið bæri ekki skattskyldu. Jafnframt var kveðið á um að ef lagabreyting eða utanaðkomandi skattaleg endurskoðun hjá bankanum leiddi til þess að skatt þyrfti að greiða vegna þóknunarinnar undirgengist Welling & Partners að endurgreiða bankanum slíkan skatt. Fram kom einnig að greiðslan skyldi dregin af bankareikningi Welling & Partners hjá bankanum, þeim hinum sama og hin veðsetta innstæða stóð á. Loks var tekið fram að það væri á ábyrgð Welling & Partners að ganga frá þeim framvirku gjaldeyrisviðskiptum sem nauðsynleg kynnu að vera til að tryggja greiðslu í evrum án gjaldeyrisáhættu.

Níunda grein samningsins laut að því að gildistími hans væri sá sami og söluréttarsamningsins. Einnig var kveðið á um heimild Hauck & Aufhäuser til að segja upp (e. „terminate“) samningnum við sérstakar og réttmætar aðstæður (e. „exceptionally for good cause“) ef Welling & Partners bryti gegn ábyrgðarskilmála eða yfirlýsingu samkvæmt 6. gr. samningsins eða ef slíkur ábyrgðarskilmáli eða yfirlýsing reyndist vera röng.[118] Í slíku tilviki væri bankanum heimilt að segja upp söluréttarsamningnum við Welling & Partners og framselja hlutina til félagsins gegn endurgreiðslu kaupverðs þeirra.[119]

Undirritunarstaður samningsins var tilgreindur í Frankfurt am Main en áður var fjallað um vafa um eiginlegan stað og tíma undirritunar samningsins af hvorum aðila fyrir sig þó hins vegar teljist ljóst að undirritun hans fór fram og var lokið á tilgreindum degi, 16. janúar 2003. Áður kom einnig fram hverjir undirrituðu samninginn en það voru Karim Van den Ende af hálfu Welling & Partners og af hálfu Hauck & Aufhäuser tveir fulltrúar bankans, annar þeirra Martin Zeil.

5.5.3 Samantekt og ályktanir rannsóknarnefndar

Í þessum kafla hefur verið farið yfir efni baksamninganna í meginatriðum með íslenskum þýðingum eða, að öðrum kosti, lýsingum á helsta efni þeirra. Í samantekt á efni þessa kafla verður einblínt á þau ákvæði samninganna sem mesta þýðingu hafa fyrir efni skýrslunnar og þau dregin nánar saman, skýrð og eftir atvikum sett í samhengi við atvik málsins.

Líkt og áður var rakið voru baksamningarnir, annars vegar söluréttarsamningurinn og hins vegar veð- og tryggingasamningurinn, tengdir og óaðskiljanlegir samningar samkvæmt skýru orðalagi beggja þar um. Þetta leiddi einnig einfaldlega af efni þeirra. Gerð var almenn grein fyrir samningunum hvorum í sínu lagi í þessum kafla. Ekki verður hér alltaf vísað sérstaklega til einstakra ákvæða samninganna þegar fjallað er um efnisatriði þeirra en sömu efnisatriði hafa öll verið rakin hér á undan undir viðkomandi ákvæðum og því ætti ekki að fara á milli mála við hvaða ákvæði samninganna er átt hverju sinni. Í samræmi við orðanotkun (og orðskýringar) í baksamningunum sjálfum tekur umfjöllun hér um hluti í Eglu hf. (eða stundum einfaldlega „hluti“) einnig til undirliggjandi hluta í Búnaðarbankanum.[120]

Við kaup S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum kom Hauck & Aufhäuser fram, og var kynntur, sem einn fjárfesta (og raunar stærsti einstaki fjárfestirinn) í þeim kaupum gegnum hlut sinn í Eglu hf. Ákvæði baksamninganna, sem gengu í gildi á sama tíma, fólu hins vegar í sér að „fjárfesting“ Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum gegnum Eglu hf. var í reynd ekki nema orðin tóm. Af baksamningunum leiddi að eignarhald Hauck & Aufhäuser á hlutum í Eglu hf. var frá upphafi aðeins tímabundið og takmarkað, og það að slíku marki að eignarhaldið var í raun bara að nafni til. Að öllu leyti sem máli skipti var tryggilega frá því gengið með ákvæðum baksamninganna að hlutirnir í Eglu hf. skyldu komast í eigu Welling & Partners Limited strax að liðnum þeim 21 mánuði sem áskilið var í kaupsamningnum um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum að óbreytt eignarhald yrði á hlutnum sem seldur var (e. „lock-up period“). Að þetta tímabil liði var eina skilyrði samningsins fyrir að Hauck & Aufhäuser mætti beita sölurétti sínum enda varð augljóslega ekki hjá því komist að taka tillit til ákvæða kaupsamningsins um Búnaðarbankann að þessu leyti hvort sem var.[121] Sölurétturinn kvað á um að Hauck & Aufhäuser mætti krefjast þess að Welling & Partners keypti alla hlutina í Eglu hf. og ekki minna en hlutina alla. Bankinn hafði því enga heimild til að selja bara hluta af þessari „eign“ sinni heldur varð hann að selja hana alla. Hlutina í Eglu hf. mátti Hauck & Aufhäuser aukinheldur ekki selja til neins nema Welling & Partners því með sérstöku ákvæði um framsalsbann var girt fyrir það að Hauck & Aufhäuser ráðstafaði hlutunum með nokkrum öðrum hætti en til Welling & Partners (eða fulltrúa þess) með beitingu söluréttarins.

Ákvæði 3. gr. (um 21 mánaðar tímabilið áður en sölurétti yrði beitt) og 8. gr. (um framsalsbann) í söluréttarsamningnum höfðu bæði að geyma fyrirvara um 15. gr. sama samnings. Sú grein fellur undir varnagla af þeim toga sem mun gjarnan finnast í viðskiptasamningum milli lögaðila, nánar tiltekið varðandi gjaldþrot eða annars konar atvik sem valdið geta því að lögaðili hætti að vera til og hvernig fari þá með samningsefnin. Ákvæði greinarinnar mæltu þó ekki fyrir um annað en það, í meginatriðum, að ef slík atvik kæmu upp varðandi Eglu hf. eða Búnaðarbankann myndi Hauck & Aufhäuser geta einhliða beitt sölurétti sínum samkvæmt 1. gr. söluréttarsamningsins og flutt eignarhald hlutanna til Welling & Partners. Í því fólst eðlilega einnig að Hauck & Aufhäuser gat þá krafist eða leyst til sín kaupverðið af hinni handveðsettu innstæðu Welling & Partners hjá bankanum (sjá hér á eftir) á grundvelli sömu greinar og eftir atvikum annarra ákvæða baksamninganna. Í 15. gr. söluréttarsamningsins var einnig mælt einnig fyrir um að Welling & Partners afsalaði sér öllum rétti eða andmælum sem gætu risið af því að hlutirnir hefðu glatað verðgildi sínu með öllu.[122]

Ákvæði 14. gr. söluréttarsamningsins hafði að geyma sams konar varnagla og 15. gr. hans nema í þágu Welling & Partners. Ákvæði 14. gr. fólu efnislega í sér að ef Hauck & Aufhäuser yrði gjaldþrota eða sætti eftirlits- eða fullnustuaðgerðum samkvæmt þýskum bankalögum (væntanlega þá þess eðlis að geta teflt hag bankans í tvísýnu) myndi sölurétturinn virkjast sjálfkrafa og eignarhald hlutanna flytjast til Welling & Partners í skiptum fyrir söluréttarverðið. Þannig voru eigendaskipti að hlutunum enn frekar tryggð, hvernig sem færi.

Það kaupverð sem Welling & Partners skyldi gjalda Hauck & Aufhäuser fyrir hlutina í Eglu hf. (kallað „söluréttarverðið“ (e. Put Price) í baksamningunum) var skilgreint í orðum sem fjárhæð jöfn hlutafjárframlagi Hauck & Aufhäuser til Eglu hf. Það gat þó að hámarki orðið tiltekin fjárhæð, 33.454.372 Bandaríkjadalir eða sama fjárhæð og gert var ráð fyrir við undirskrift baksamninganna að þetta hlutafjárframlag yrði. Söluréttarverðið hafði þannig fastákveðið hámark samkvæmt baksamningunum en ekkert fastákveðið lágmark. Var með því augljóslega tekið tillit til þess að vegna síðari atvika kynni slíkt hlutafjárframlag að enda sem lægri fjárhæð, svo sem raunin varð eins og síðar segir frá. Welling & Partners bar þó að endurgjalda Hauck & Aufhäuser sérstaklega, það er eftir atvikum umfram þetta hámark, allan kostnað sem gæti hafa fallið á Hauck & Aufhäuser vegna fjármögnunar á slíku hlutafjárframlagi sínu. Af þessu má sjá að grunnforsendan var hér að Hauck & Aufhäuser átti alltaf að vera tryggður fyrir öllu sem bankanum bæri að leggja fram til Eglu hf. vegna fjárfestingar í Búnaðarbankanum og einnig öllum hugsanlegum kostnaði sem leiða kynni af fjármögnun slíkra fjárframlaga.[123] Hauck & Aufhäuser átti hins vegar ekki að fá í sinn hlut neitt meira en það, vegna hámarksins sem sett var á söluréttarverðið. Má þannig af þessu einnig sjá að þýski bankinn afsalaði sér frá upphafi öllum hugsanlegum hagnaði vegna „fjárfestingar“ sinnar í hlutum í Eglu hf. og þar með Búnaðarbankanum.

Á móti þeim einhliða sölurétti sem Hauck & Aufhäuser hafði var svo í baksamningunum mælt fyrir um tilsvarandi rétt Welling & Partners til að knýja sjálft fram sölu hlutanna til félagsins. Það var gert með ákvæði um forkaupsrétt Welling & Partners. Welling & Partners átti samkvæmt því rétt á að kaupa hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. af bankanum fyrir fjárhæð jafnháa söluréttarverðinu (sbr. áður) ef bankanum hefði áður verið gert „gilt tilboð“ í hlutina og var forkaupsrétturinn óháður fjárhæð slíks tilboðs. Þessi réttur Welling & Partners var ekki háður neinum sérstökum skilyrðum öðrum en að um „gilt tilboð“ (sem ekki var skilgreint eða afmarkað nánar hvað þýddi) væri að ræða og var ákvæðið þannig mjög opið og óbundið í framkvæmd.[124]

Sérstaka athygli ber að vekja á þeim áskilnaði forkaupsréttarákvæðisins að ekki skipti máli fjárhæð slíks tilboðs sem virkja myndi forkaupsrétt Welling & Partners. Virt í samhengi við hámark söluréttarverðsins til Hauck & Aufhäuser – sem um leið var einnig hámark þess verðs sem Welling & Partners bæri að greiða bankanum ef félagið nýtti forkaupsréttinn – fól sá áskilnaður í raun í sér að hagnaður af allri hugsanlegri verðhækkun hluta í Eglu hf. eða undirliggjandi hlutum í Búnaðarbankanum skyldi tilheyra Welling & Partners en ekki Hauck & Aufhäuser. Samkvæmt hinu áðurnefnda sérstaka samkomulagi Welling & Partners við aflandsfélagið Serafin Shipping Corp. um skiptingu hagnaðar átti síðarnefnda félagið, sem var eins og áður segir í raunverulegri eigu Ólafs Ólafssonar, tilkall til helmings af öllum slíkum hugsanlegum hagnaði (nettóhagnaði) þess fyrrnefnda af viðskiptum með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna. Samkomulagið undanskildi hins vegar einnig berum orðum slík helmingaskipti á hugsanlegu tapi Welling & Partners á hinu sama. Þannig var ljóst að Welling & Partners skyldi eitt bera áhættuna á öllu hugsanlegu tapi sem gæti orðið þegar baksamningarnir yrðu framkvæmdir samkvæmt efni sínu og eignarhald á hlutum í Eglu hf. færðist með slíkum viðskiptum yfir til félagsins. Hvort hagnaður eða tap yrði af slíkum viðskiptum hlaut augljóslega að ráðast af þróun hlutabréfaverðs Búnaðarbankans í millitíðinni eða, eins og síðar var reyndin, af þróun hlutabréfaverðs hins sameinaða banka, Kaupþings Búnaðarbanka hf. (og síðari arftaka hans) og þá vitaskuld þannig að ef og svo lengi sem verðmæti hlutanna færi niður fyrir það sem það stóð í þegar baksamningarnir voru gerðir yrðu þeir að öðru jöfnu ekki gerðir upp nema í tapi.[125]

Líkt og áður hefur komið fram verður ekki annað ráðið af gögnum rannsóknarnefndarinnar en að Kaupþing hf. (eða Kaupthing Bank Luxembourg S.A.) hafi frá upphafi við gerð baksamninganna og allt til þess þegar þeir höfðu verið framkvæmdir samkvæmt efni sínu verið eigandi Welling & Partners. Að auki er ljóst af gögnum nefndarinnar að fjárhagsleg áhætta af hinni upphaflegu og með öllu ótryggðu um 35,5 milljóna Bandaríkjadala lánveitingu Kaupþings hf. til Welling & Partners (þá næstum 3 milljarðar króna) hvíldi ávallt öll á Kaupþingi hf. Það átti áfram við enda þótt með uppskiptingu lánsins á síðari stigum væri hluti af lánveitingunni að nafni til færður yfir til dótturfélagsins Kaupthing Bank Luxembourg S.A.[126] Eins og þegar hefur komið fram, og rakið er nánar hér á eftir í samantekt á ábyrgðar- og skaðleysisákvæðum Welling & Partners gagnvart Hauck & Aufhäuser í baksamningunum, var svo kirfilega búið þannig um hnúta að Hauck & Aufhäuser var undanþeginn kostnaði og áhættu af gerð og framkvæmd þeirra. Slíkur kostnaður og áhætta var á sama hátt alfarið lögð á herðar Welling & Partners.

Samkvæmt framansögðu bar Kaupþing hf. eitt, í gegnum Welling & Partners, annars vegar alla áhættu af andlagi baksamninganna sem slíku, það er þróun verðmætis hluta í Eglu hf./Búnaðarbankanum, og hins vegar af öllu sem máli gat talist skipta varðandi aðkomu Hauck & Aufhäuser að gerð og framkvæmd þeirra. Aðrir sem stóðu að baksamningunum báru hins vegar enga áhættu á neinu sem þá varðaði. Hauck & Aufhäuser var og yrði alltaf undanþeginn kostnaði og áhættu vegna „fjárfestingar“ sinnar og gat hvorki tapað né grætt á henni, heldur átti bara rétt á þóknun fyrir þjónustu sína. Ólafur Ólafsson, þá gegnum félag sitt Serafin Shipping Corp., var undanþeginn áhættu vegna nokkurs hugsanlegs taps við framkvæmd og uppgjör baksamninganna en átti hins vegar vegar tilkall til helmings af hugsanlegum hagnaði sem kynni þá að falla til. Hinn helmingurinn af slíkum hagnaði myndi þá standa eftir hjá Welling & Partners og þar með tilheyra Kaupþingi hf. (eða Kaupthing Bank Luxembourg S.A.).

Hér á undan hefur einkum verið dvalið við ákvæði söluréttarsamningsins. Ákvæði veð- og tryggingasamningsins lutu, eins og nafnið ber með sér, einkum að nánari ákvæðum um fjárhagsleg skipti aðila og tryggingar og ábyrgðir í því sambandi, sbr. einnig lýsingu á meginefni samningsins í sjöundu og áttundu efnisgrein aðfararorða hans.

Welling & Partners skuldbatt sig til að millifæra til Hauck & Aufhäuser, fyrir undirskrift baksamninganna, 35.454.372 Bandaríkjadali inn á bankareikning félagsins hjá bankanum og ráðstafa ekki þeirri innstæðu meðan samningurinn væri gildi fyrir utan greiðslu þóknana til bankans sem einnig voru ákveðnar í baksamningunum. Sjá má að þessi fjárhæð er sléttum tveimur milljónum Bandaríkjadala hærri en sú fjárhæð („söluréttarverðið“) sem Welling & Partners bar að hámarki að greiða bankanum fyrir hlutina. Með því virðist annars vegar hafa verið tekið tillit til hinnar samtals einnar milljónar evra umsömdu þóknunar til Hauck & Aufhäuser og hins vegar væntanlega einhvers konar frekari tryggingar til Hauck & Aufhäuser vegna uppgjörs hugsanlegs kostnaðar, bóta eða ámóta greiðslna sem Welling & Partners gæti orðið ábyrgt fyrir gagnvart bankanum á grundvelli ýmissa ákvæða baksamninganna, sbr. nánar um þau hér á eftir. Eins og nánar var rakið fyrr í skýrslunni var þessi fjárhæð lögð inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser með tveimur símgreiðslum Kaupþings hf. þangað dagana 13. og 16. janúar 2003 og síðar gengið frá láni Kaupþings hf. til Welling & Partners um þá sömu fjárhæð.

Fram kom einnig í veð- og tryggingasamningnum að innstæðan skyldi ávöxtuð (e. „invested“) í samræmi við sérstakt samkomulag þar um. Ekkert virðist hafa orðið af gerð slíks samkomulags þar sem Kaupþing hf., í nafni Welling & Partners, samþykkti stuttu eftir undirskrift samninganna tillögu Martin Zeil hjá Hauck & Aufhäuser um að falla frá kröfu til vaxta af innstæðunni. Það var gert með sérstakri skírskotun til þess að slík „núlllausn“ (e. „zero-sum solution“) væri æskilegust milli aðila þar sem ekki myndi þá skapast neinn fjármagnskostnaður (e. „cost of carry“) vegna varðveislu Hauck & Aufhäuser á fjárhæðinni.[127]

Welling & Partners veðsetti Hauck & Aufhäuser fyrrgreinda innstæðu til tryggingar öllum kröfum, og var þá eðlilega sérstaklega skírskotað til kröfu um kaupverð fyrir hlutina, sem Hauck & Aufhäuser kynni að eiga eða eignast gagnvart félaginu. Í veð- og tryggingasamningnum kom þó fram sambærilegur fyrirvari og í söluréttarsamningnum um það að veðsetningin takmarkaðist við endanlega fjárskuldbindingu Hauck & Aufhäuser vegna fjárframlaga sem bankanum bæri að greiða til Eglu hf. á grundvelli kaupsamnings S-hópsins og íslenska ríkisins. Var þar á sama hátt og áður tekið mið af því ef slík fjárframlög yrðu á endanum lægri heldur en séð var fyrir við undirskrift baksamninganna.

Veðsetning innstæðunnar tók einnig til kröfu Hauck & Aufhäuser um þóknun fyrir þjónustu sína sem og allra krafna sem Hauck & Aufhäuser ætti eða kynni að eignast á hendur Welling & Partners á grundvelli ábyrgðar- og skaðleysisákvæða sem Welling & Partners gekkst undir gagnvart bankanum með baksamningunum.

Slík ákvæði voru afar víðtæk, að ekki sé sagt nær tæmandi. Í 4. gr. veð- og tryggingasamningsins um veðsetninguna og hvað hún tryggði var skírskotað sérstaklega (en án takmörkunar á fyrrgreindri almennri ábyrgð Welling & Partners) til ákvæða 2., 3. og 6. gr. sama samnings, auk 8. gr. hans varðandi þóknun Hauck & Aufhäuser. Fyrrnefndu ákvæðin voru rakin efnislega hér á undan en til að draga þau saman ábyrgðist Welling & Partners með þeim gagnvart Hauck & Aufhäuser að halda bankanum skaðlausum meðal annars af (samkvæmt 2. gr.) hvers konar verðbreytingum og verðlækkun á hlutunum, hvers konar tapi eða tjóni sem kynni að leiða af ógjaldfærni Eglu hf. og/eða Búnaðarbankans og/eða ógildingu eða innlausn hlutanna og „skuldbindingum sem bankinn hefði gengist undir með því að undirrita samning um kaup á hlut í Eglu hf.“[128] Þá ábyrgðist Welling & Partners einnig að halda Hauck & Aufhäuser skaðlausum af undirritun ábyrgðaryfirlýsinga í kaupsamningnum við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum. Samkvæmt 3. og 6. gr. tók ábyrgð Welling & Partners einnig til að halda þýska bankanum skaðlausum af tímabundnum ómöguleika eða töfum við að framkvæma söluréttinn vegna íslenskrar löggjafar eða stjórnvaldsaðgerða og hugsanlegum kostnaði fyrir Hauck & Aufhäuser sem kynni að leiða af slíku sem og öllum kostnaði eða skuldbindingum sem kynnu að rísa á grundvelli veð- og tryggingasamningsins, sérstaklega þá af tjóni eða kröfum þriðju aðila eða brotum gegn sérstökum ábyrgðum og yfirlýsingum Welling & Partners gagnvart bankanum samkvæmt þeirri grein, sem og öllum lögmannskostnaði sem kynni að koma til af þessum sökum.

Til viðbótar við þetta hafði söluréttarsamningurinn einnig að geyma sérstök og víðtæk skaðleysisákvæði af hálfu Welling & Partners gagnvart Hauck & Aufhäuser (sbr. einkum 6. gr. þess samnings) án þess að tilefni sé til að rekja þau að neinu marki hér í ljósi umfangs fyrrnefndra ákvæða í veð- og tryggingasamningnum um hið sama. Þó má nefna að skaðleysisyfirlýsing Welling & Partners gagnvart Hauck & Aufhäuser samkvæmt fyrrnefndri grein söluréttarsamningsins tók meðal annars til hvers konar vanrækslu félagsins á að efna hvers konar skyldur samkvæmt söluréttarsamningnum. Má sjá af því að þar var ekki síður um víðtæk ákvæði að ræða enda vandséð að lengra yrði gengið með slíkri ábyrgðaryfirlýsingu.

Þessi samantekt á ábyrgðar- og skaðleysisákvæðum baksamninganna af hálfu Welling & Partners gagnvart Hauck & Aufhäuser spannar yfir allt frá afmörkuðum og tiltölulega litlum þegar áföllnum kostnaði (sbr. til dæmis 5.000.000 króna hlutafjárkaup Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.) til almennra og víðtækra eða takmarkalausra skaðleysisyfirlýsinga. Af fyrrgreindum ákvæðum baksamninganna verður ekki annað séð en að Hauck & Aufhäuser hafi verið sérstaklega undanþeginn öllum kostnaði sem og hugsanlegri fjárhagslegri áhættu vegna baksamninganna. Og á sama hátt að allur slíkur kostnaður og áhætta hafi með sama hætti verið lögð á herðar Welling & Partners.

Í 7. gr. veð- og tryggingasamningsins má segja að hafi verið einu ákvæði baksamninganna sem gerðu ráð fyrir þeim möguleika að ekki kynni að verða af kaupum Welling & Partners á hlutunum og mæltu fyrir um nánari úrlausn mála í því sambandi. Af efni þeirra ákvæða má telja ljóst að um hreina varnagla var að ræða ef upp kæmu ófyrirséð eða óviðráðanleg jaðartilvik eða alger trúnaðarbrestur yrði milli aðila. Í því ljósi og hins vegar vegna þess að öll rás atvika í málinu samkvæmt gögnum nefndarinnar sýnir að meginstefnu fram á traust og hnökralaust samstarf aðila að baksamningunum frá upphafi til enda við að gera þá og síðar framkvæma til fulls samkvæmt efni sínu þykir ekki þörf á að draga þessi ákvæði saman hér. Látið er nægja að vísa til umfjöllunar á viðeigandi stað í kaflanum um þau.

Þóknun Hauck & Aufhäuser fyrir þjónustu sína sem fólst í gerð og framkvæmd baksamninganna var ákveðin 1.000.000 evrur sem fyrr segir. Síðar í skýrslunni er greint frá þeim upplýsingum sem fram hafa komið með rannsókn nefndarinnar um greiðslu þóknana til Hauck & Aufhäuser.

5.6  Önnur atvik á árinu 2003

Í þessum kafla er gerð grein fyrir atvikum varðandi baksamningana og framkvæmd þeirra síðar á árinu 2003, samkvæmt gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndar, og eftir atvikum einnig framkvæmd kaupsamnings S-hópsins og íslenska ríkisins. Í einstökum köflum hér á eftir, sem eru í tímaröð, er meðal annars fjallað um tvær kaupsamningsgreiðslur S-hópsins til íslenska ríkisins árið 2003, annars vegar í mars og hins vegar desember það ár, uppskiptingu láns Kaupþings hf. til Welling & Partners auk fleiri einstakra atriða sem varpa ljósi á rannsóknarefnið.

5.6.1  Fyrri greiðsla Eglu hf. til íslenska ríkisins samkvæmt kaupsamningi um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum

Samkvæmt kaupsamningi íslenska ríkisins og Eglu hf. o.fl. (S-hópsins) um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum skyldi kaupverðið innt af hendi í tveimur lotum, þ.e. með tveimur aðskildum greiðslum á fyrirfram ákveðnum tímamörkum, sbr. einkum 3. – 5. gr. samningsins. Fyrri hluti kaupverðsins, sem var að hluta í íslenskum krónum og að hluta í Bandaríkjadölum, skyldi greiddur að fram komnum hinum síðasta af tilteknum áföngum sem kveðið var á um í grein 5.1.1 í samningnum. Einn af þeim var að Fjármálaeftirlitið hefði samþykkt að kaupendur færu með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar sendi Guðmundur Hjaltason tölvupóst til Martin Zeil síðdegis 17. mars 2003, með afritum á Peter Gatti, Ólaf Ólafsson og Ralf Darpe, og tilkynnti að Fjármálaeftirlitið á Íslandi hefði samþykkt umsókn kaupenda samkvæmt framangreindu. Því þyrfti að standa íslenska ríkinu skil á fyrri hluta kaupverðsins. Í tölvupóstinum gerði Guðmundur svo grein fyrir hlutdeild Hauck & Aufhäuser í greiðslu Eglu hf. á þeim hluta fyrstu greiðslunnar sem Eglu hf. bar að greiða og sendi greiðsluupplýsingar. Sem fyrr sagði var greiðslunni skipt í íslenskar krónur og Bandaríkjadali. Um þetta sagði í tölvupóstinum:

„The FSA in Iceland has approved our application and therefore, we need to transfer  the money to the Government‘s account. The payment for the first trance should be in two portions:

1.  The payment in ISK in the amount of USD 12,000,000, which corresponds to ISK 981.744.290 should be sent to the account below:

[Felldar út greiðsluupplýsingar um bankareikning – viðbót RNA]

As you rembember, Kaupthing had a USD/ISK forward to hedge the value of USD against ISK. They will forward the value in ISK to us to pay to the government.

It would be best to send this immediately in order to have the amount on correct accounts by Friday [21. mars 2003 – viðbót RNA].

[…]

2.  The payment in USD in the amount of USD 7.656.717 should be sent directly to: [Felldar út greiðsluupplýsingar um bankareikning – viðbót RNA]

Explanation: „Egla‘s portion of share purchase in B.I.“

This payment has to be in the above account no later than Friday [21. mars 2003 – viðbót RNA]. I understand it takes at least three days to clear the payment, so this assumably has to be sent immediately.“

Að teknu tilliti til heildarfjárhæðar fyrstu greiðslunnar samkvæmt grein 4.2 í kaupsamningnum um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum koma þær fjárhæðir sem Guðmundur óskaði eftir að Hauck & Aufhäuser greiddi heim og saman við það eiginfjárframlag sem leiddi af ákvæðum kaupsamningsins að Hauck & Aufhäuser bæri að leggja fram vegna þessarar fyrri greiðslu kaupverðsins.[129]

Eins og fram kemur í tölvupóstinum minnti Guðmundur á varðandi fyrri hluta greiðslunnar að Kaupþing hf. hefði með framvirkum samningi varið gjaldeyrisáhættu vegna Bandaríkjadals og íslenskrar krónu.[130] Bað hann því Hauck & Aufhäuser að greiða þann hluta greiðslunnar, það er fjárhæðina í Bandaríkjadölum sem tilgreind var, til Kaupþings hf. Kaupþing hf. myndi svo sjá um að koma greiðslunni í íslenskum krónum til Eglu hf. og Egla hf. borga íslenska ríkinu hina umsömdu greiðslu samkvæmt kaupsamningnum.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar áframsendi Guðmundur Hjaltason þennan tölvupóst til Bjarka Diego að morgni næsta dags, 18. mars 2003, kl. 9.31. Bjarki Diego áframsendi svo aftur tölvupóstinn umsvifalaust (á sömu mínútu) til Eggerts J. Hilmarssonar, starfsmanns KBL, og bætti við eftirfarandi athugasemd:

„Sæll Eggert,

Það þarf að senda greiðslufyrirmæli skv. neðangreindu frá Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser í Munchen.

Hef samband vegna þessa.“

Samkvæmt þessum fyrirmælum Bjarka til Eggerts átti Welling & Partners að gefa Hauck & Aufhäuser greiðslufyrirmæli samkvæmt þeim fjárgreiðslum vegna kaupa á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum sem Guðmundur Hjaltason gerði grein fyrir í hinum áframsenda tölvupósti. Þeim tölvupósti var upphaflega í beint til Peter Gatti hjá Hauck & Aufhäuser en hins vegar áframsendi Guðmundur hann næsta morgun til Bjarka Diego hjá Kaupþingi hf. – sem hafði ekkert opinberlega að gera með þessa greiðslu eða annað varðandi uppgjör til íslenska ríkisins á greiðslum S-hópsins fyrir hlutinn í Búnaðarbankanum. Bjarki sendi síðan tölvupóstinn umsvifalaust áfram til Eggerts J. Hilmarssonar hjá KBL með áðurnefndum fyrirmælum.

Framangreint verður varla skilið á annan hátt en svo að Welling & Partners hafi átt að greiða til Hauck & Aufhäuser, út af bankareikningi aflandsfélagsins hjá sama banka, þá fjárhæð sem Hauck & Aufhäuser bar að standa skil á til íslenskra yfirvalda vegna þessarar fyrri kaupsamningsgreiðslu S-hópsins. Kemur þá ekki annar bankareikningur Welling & Partners til greina en sá sem hin handveðsetta innstæða stóð á. Þetta bendir þannig til þess að Welling & Partners hafi verið ætlað að greiða að fullu, af hinni handveðsettu innstæðu, fyrir hlutdeild Hauck & Aufhäuser í þessari fyrri greiðslu til ríkisins fyrir hlutinn í Búnaðarbankanum.

Á hinn bóginn liggja ekki fyrir í gögnum rannsóknarnefndar frekari upplýsingar um hvernig atvik urðu endanlega með þessa greiðslu, einkum þá hvort þessi fyrirmæli Bjarka hafi leitt til sendingar slíkra greiðslufyrirmæla af hálfu Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser eða, sem mestu skiptir, hvort umrædd greiðsla hafi í reynd runnið af hinni handveðsettu innstæðu í samræmi við slíkar ráðagerðir.[131]

5.6.2  Uppskipting láns Kaupþings hf. til Welling & Partners Limited

Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að í mars 2003 var 35.454.372 Bandaríkjadala láni Kaupþings hf. til Welling & Partners samkvæmt lánssamningi, dags. 13. janúar 2003, skipt upp og breytt. Lánið var þannig brotið niður í fleiri og lægri einstök lán, Kaupthing Bank Luxembourg S.A. varð að nafni til lánveitandi að hluta slíkra lána og önnur aflandsfélög voru að hluta til sett sem lántakar hjá Kaupþingi hf. og KBL en um leið gerð að „framlánveitendum“ til Welling & Partners á sömu fjárhæðum og kjörum. Þau aflandsfélög voru þannig í reynd ekki annað en óvirkir milliliðir í skuldasambandi á milli Kaupþings hf. og KBL annars vegar og Welling & Partners hins vegar. Umrædd aflandsfélög voru svo í eigu enn annars aflandsfélags.

Þessar breytingar fólu hins vegar ekki í sér neinar eiginlegar fjármagnshreyfingar milli viðkomandi aðila, engar skilmálabreytingar sem máli skiptu og enga endurgreiðslu á láninu heldur var öll upprunalega lánsfjárhæðin eftir sem áður útistandandi og á endanlega áhættu Kaupþings hf. að breytingunum loknum. Eftir sem áður stóðu heldur engin veð til tryggingar lánunum. Með öðrum orðum var hér í reynd einungis um að ræða formbreytingu á hinu upphaflega láni. Á bak við aflandsfélögin sem hér komu inn í myndina voru líka eftir sem áður sömu menn og tengdust hinum upprunalegu gerningum en Karim Van den Ende útvegaði KBL og Kaupþingi hf. aflandsfélög undir sinni stjórn til að koma þessum breytingum í kring.

Í þessum kafla verður grein gerð fyrir þessari uppskiptingu lánsins að því marki sem þýðingu hefur, fyrst og fremst þá til að gefa nauðsynlegt samhengi fyrir síðari umfjöllun um uppgreiðslu þeirra lána sem urðu til með skiptingu upphaflega lánsins.[132]

Síðdegis 18. mars 2003, eða sama dag og Bjarki Diego sendi Eggerti J. Hilmarssyni tölvupóstinn um greiðslufyrirmæli Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser sem gerð var grein fyrir hér á undan, sendi Bjarki annan tölvupóst til Eggerts. Sá tölvupóstur hafði ekkert efni í meginmáli en bar yfirskriftina „Book1.xls“. Honum fylgdi Excel-skjal í viðhengi með sama nafni. Í Excel-skjalinu var tafla þar sem gerð var grein fyrir ráðagerð um uppskiptingu á láni Kaupþings hf. til Welling & Partners Limited með svofelldum hætti:

Mynd Excel tafla

Þessi ráðagerð um uppskiptingu lánsins var að meginstefnu hin sama og gögn rannsóknarnefndar benda til að hafi að endingu verið framkvæmd, sbr. lýsingu á meginatriðum hennar í upphafi þessa kafla, utan þess að önnur aflandsfélög en hér eru nefnd voru skráð fyrir umræddum lánum.

Síðar þetta sama kvöld, 18. mars 2003, sendi Bjarki annan tölvupóst til Eggerts og spurði hvenær Eggert myndi gefa honum upplýsingar um félög sem „tækju við“ láni Welling & Partners Ltd. Af því má ráða að strax hafi þá verið miðað við að það yrðu önnur félög heldur en þau sem Bjarki hafði gert ráð fyrir í ofangreindri töflu að „tækju við“ láninu.

Eggert svaraði þessum tölvupósti snemma morguninn eftir, 19. mars 2003, með þeim orðum að hann fengi „væntanlega staðfestingu á eftir“. Síðdegis þennan dag sendi hann Bjarka annað svar við póstinum og gaf upp nöfn þeirra tveggja félaga sem nota skyldi í þessum tilgangi. Þau voru félag Karim Van den Ende, KV Associates S.A., sem ítrekað kemur hér við sögu, og annað félag undir stjórn Van den Ende, Allan Corporation. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Eggert J. Hilmarsson gaf í tölvupóstinum voru bæði félögin skráð á eyríkinu Niue í Suður-Kyrrahafi, með sama heimilisfang og pósthólf og bæði með Karim Van den Ende sem skráðan stjórnanda (e. „director“). Eggert lét fylgja þá athugasemd að bæði félögin yrðu lántakendur og Karim Van den Ende myndi skrifa undir samninga í eigin nafni.

Nokkrum dögum síðar, eða 21. mars 2003, sendi Eggert J. Hilmarsson öðrum starfsmanni KBL tölvupóst og bað um að útfyllt yrðu eyðublöð vegna stofnunar bankareikninga fyrir KV Associates S.A. og Allan Corporation. Tölvupósturinn hafði að geyma sömu upplýsingar um félögin og Eggert hafði áður sent Bjarka. Fáeinum dögum eftir þetta, 26. mars 2003, sendi Bjarki Diego tölvupóst til starfsmanns fyrirtækjaþjónustu Kaupþings. Tölvupósturinn hafði ekkert efni en honum fylgdi í viðhengi Excel-skjal með heitinu „lending.xls“.

Þetta Excel-skjal hafði að geyma sömu upplýsingar og áðurnefnt Excel-skjal með heitinu „Book1.xls“ sem Bjarki hafði sent Eggerti 18. mars 2003, utan þess að nú var textinn á ensku og aflandsfélögin KV Associates S.A. og Allan Corporation voru komin í stað þeirra tveggja aflandsfélaga sem upphaflega var getið um í skjalinu. Þannig breytt leit fyrrnefnt Excel-skjal, „lending.xls“, sem Bjarki sendi samstarfsmanni sínum svona út:

Mynd Excel tafla

 Daginn eftir, 27. mars 2003, sendi starfsmaður fyrirtækjaþjónustu Kaupþings hf. tölvupóst til Bjarka Diego og tilkynnti honum að lánaskjöl vegna uppskiptingar láns Welling & Partners væru nánast tilbúin. Þennan dag og þann næsta áttu Bjarki, Eggert og áðurnefndur starfsmaður fyrirtækjaþjónustu Kaupþings hf. í frekari tölvupóstsamskiptum um skjalagerð vegna uppskiptingar lánsins. Eins og áður kom fram eru hinir endanlegu lánssamningar allir dagsettir 28. mars 2003. Efni þeirra er í aðalatriðum hið sama og sett var fram í töflunni hér á undan utan þess að fjárhæð láns Kaupþings hf. til KV Associates S.A. var um 347 þúsund Bandaríkjadölum hærri en þar var gert ráð fyrir.[133] Gerð er stuttlega nánari grein fyrir samningunum í rammagrein hér næst á eftir.


Nýir lánssamningar við uppskiptingu á láni Kaupþings hf. til Welling & Partners Limited í mars-apríl 2003

Uppskipting á láni Kaupþings hf. til Welling & Partners Limited frá 13. janúar 2003 var gerð með nýjum lánssamningum Kaupþings hf. og KBL við aflandsfélögin KV Associates S.A., Allan Corporation og Welling & Partners Limited. Þessi gerningar fólu í sér að fyrrgreindu upphaflegu láni Kaupþings hf. til Welling & Partners Limited var skipt upp í smærri lán sem Kaupþing hf. og KBL skiptu með sér samhliða því að Kaupþing hf. ábyrgðist allar lánveitingar sem KBL tók á sig. Welling & Partners var að hluta til áfram lánað beint en fyrrgreind aflandsfélög, sem lántakar að nafni til og „framlánveitendur“ á sömu fjárhæðum til Welling & Partners, voru einnig sett á milli Welling & Partners og lánveitenda. Uppskiptingin fól nánar tiltekið í sér að þessi lán komu í stað hins upphaflega láns:

Kaupþing hf. lánaði Welling & Partners Limited 10.031.290 Bandaríkjadali. Karim Van den Ende skrifaði undir fyrir hönd Welling & Partners Limited. Sigurður Einarsson og Þórður Jónsson skrifuðu undir fyrir hönd Kaupþings hf.

Kaupþing hf. lánaði KV Associates S.A. 8.546.970 Bandaríkjadali. Karim Van den Ende skrifaði undir fyrir hönd KV Associates S.A. Sigurður Einarsson og Þórður Jónsson skrifuðu undir fyrir hönd Kaupþings hf.

KBL lánaði Allan Corporation 11.500.000 Bandaríkjadali. Karim Van den Ende skrifaði undir fyrir hönd Allan Corporation. Tveir starfsmenn KBL skrifuðu undir fyrir hönd KBL, annar var Peter Raun en hin undirskriftin er ólæsileg.

KBL lánaði Welling & Partners Limited 2.000.000 Bandaríkjadali. Karim Van den Ende skrifaði undir fyrir hönd Welling & Partners Limited. Tveir starfsmenn KBL skrifuðu undir fyrir hönd KBL, annar var Peter Raun en hin undirskriftin er ólæsileg.

KBL lánaði KV Associates S.A. 4.000.000 Bandaríkjadali. Karim Van den Ende skrifaði undir fyrir hönd KV Associates S.A. Tveir starfsmenn KBL skrifuðu undir fyrir hönd KBL. Annar þeirra var Peter Raun en hin undirskriftin er ólæsileg.

Allan Corporation lánaði Welling & Partners Limited 11.500.000 Bandaríkjadali. Karim Van den Ende skrifaði undir fyrir bæði félögin.

KV Associates S.A. lánaði Welling & Partners Limited 12.200.000 Bandaríkjadali. Karim Van den Ende skrifaði undir fyrir bæði félögin.

Allir lánssamningarnir voru dagsettir 28. mars 2003 og með gjalddagann 13. janúar 2005.

Líkt og áður kom fram fól þessi uppskipting á hinu upphaflega láni ekki í sér neinar eiginlegar fjármagnshreyfingar milli framangreindra aðila, engar skilmálabreytingar sem máli skiptu og enga endurgreiðslu á hinu upphaflega láni heldur var hér einungis um að ræða formbreytingu á því.


Rétt er að fram komi að lokum að gerningar sem tengdust þessari uppskiptingu lánsins eru sem fyrr segir dagsettir 28. mars 2003. Hins vegar benda gögn rannsóknarnefndarinnar til þess að skjalagerð og undirritanir vegna uppskiptingarinnar hafi að minnsta kosti að hluta til ekki klárast fyrr en í apríl sama ár og einhverjir þessara gerninga því verið dagsettir aftur í tímann.

5.6.3  Hlutafjárhækkun Eglu hf. vegna fyrri kaupsamningsgreiðslu til íslenska  ríkisins

Með ákvörðun hluthafafundar Eglu hf. 25. mars 2003 var hlutafé Eglu hf. hækkað um 3.278.000 krónur að nafnvirði á genginu 999,7150888. Hlutafjárhækkunin var því alls 3.277.066.061 króna að raunvirði. Þetta var gert til að mæta áskildu eiginfjárframlagi hluthafa vegna fyrstu greiðslu Eglu hf. á kaupverðinu fyrir hlutinn í Búnaðarbankanum til íslenska ríkisins. Sú greiðsla hafði átt sér stað nokkrum dögum áður, eins og rakið var í kafla 5.6.1.           Þar kom einnig fram að Guðmundur Hjaltason hafði tilkynnt Hauck & Aufhäuser með tölvupósti 18. mars 2003 um hlutdeild bankans í greiðslunni og sent greiðslufyrirmæli vegna hennar. Hann tók þá fram að greiðslur í nafni Hauck & Aufhäuser yrðu að hafa borist inn á viðkomandi bankareikninga 21. mars s.á. Þetta er í samræmi við fundargerð áðurnefnds hluthafafundar Eglu hf. en þar var þess getið að greiðslur í Bandaríkjadölum sem hluthafar hefðu þegar greitt til félagsins skyldu miðaðar við sama gengi Bandaríkjadals og miðað var við „þegar hluthafar lánuðu félaginu þann 21. mars sl.“[134]

Rétt er að fram komi að í fundargerð umrædds hluthafafundar Eglu hf. er í engu getið um Welling & Partners Limited eða að öðru leyti um þau atvik og þá aðila sem tengdust baksamningunum um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Í upphafi fundargerðarinnar er getið um að fundinn hafi setið Ólafur Ólafsson, formaður stjórnar Eglu hf., sem jafnframt hafi tekið að sér fundarstjórn, og Kristján Loftsson en auk þeirra Finnur Ingólfsson f.h. Vátryggingafélags Íslands hf. og Guðmundur Hjaltason f.h. Kers hf., sem einnig hafi farið með umboð til þess að fara með „hluti Hauck & Aufhaeuser Privatbankiers KGAA“.

5.6.4  Fyrirspurnir endurskoðenda í sameiningarferli Kaupþings hf. og Búnaðarbankans um málefni Welling & Partners Limited og KV Associates S.A.

Sameining Kaupþings hf. og Búnaðarbankans átti sér stað í maí 2003. Aðdragandi sameiningarinnar virðist meðal annars hafa falið í sér, líkt og ekki þarf að koma á óvart, áreiðanleikakönnun á málefnum beggja félaga sem meðal annars endurskoðendur komu að. Af gögnum rannsóknarnefndar má sjá að endurskoðunarskrifstofan Deloitte & Touche á Íslandi (hér eftir D&T) átti þátt í því verki. Meðal gagna rannsóknarnefndar eru einnig afrit af tölvupóstsamskiptum sem stjórnendur Kaupþings hf. áttu sín á milli seint í apríl 2003 varðandi tilteknar fyrirspurnir sem endurskoðendur D&T höfðu beint til starfsmanna bankans. Hinn fyrsta af þessum tölvupóstum sendi Steingrímur Kárason laust eftir hádegi 25. apríl 2003 til Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar, með afritum á Þórð Jónsson og Bjarka Diego. Yfirskrift tölvupóstsins var „Félög sem vantar upplýsingar um tryggingar og ábyrgðir“. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„D&T vildu að ég upplýsti þá um hvaða tryggingar væru til staðar fyrir lánum eftirfarandi aðila:

[…]

KV Associates SA Welling & Partners Ltd.

Þeir eru búnir að spyrja mig, ÞJ og BD en ekki fengið nógu greinargóð svör. Spurning hvað við getum sagt þeim?“[135]

Þórður Jónsson, einn viðtakenda ofangreinds tölvupósts, sendi tæpum hálftíma síðar tölvupóst af þessu sama tilefni til Sigurðar Einarssonar, með afriti á Bjarka Diego. Yfirskrift tölvupóstsins var: „Spurningar vegna DD“.[136] Í tölvupóstinum greindi Þórður frá fyrirspurnum endurskoðendanna og einnig frá svörum sínum við þeim fyrirspurnum. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„Endurskoðendurnir eru að spyrja um 4 aðila sem væntanlega verður beint til ykkar: […]

KV Associates S.A. og Welling and Partners: Sagði að hvoru tveggja væru félög sem sannreynt hefði verið að ættu talsverðar eignir og að negative pledge væri í þeim.

Vildi að þið vissuð hvað ég hefði sagt.“

Síðdegis þennan dag sendi Bjarki Diego svar við fyrrgreindum tölvupósti Steingríms Kárasonar. Tölvupósturinn með svari Bjarka var einungis sendur Steingrími og Sigurði Einarssyni en afrit sent á Magnús Guðmundsson hjá KBL. Tölvupóstur Bjarka hljóðaði svo:

„Hvað varðar Welling & Partners Ltd. þá er staðan sem hér segir:

Kaupþing banki hf. hefur lánað Welling & Partners Ltd. $10,031,290.

Welling & Partners Ltd. er fjárfestingarfélag og er tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum að festa kaup á og eiga hlutabréf, skuldabréf og annars konar verðbréf og kröfur, lánastarfsemi og önnur starfsemi tengd fjárfestingum.

Kaupþingi banka er kunnugt um að félagið eigi eignir sem standa undir framangreindum skuldbindingum. Lánið er að öðru leyti tryggt með „Negative Pledge“-ákvæði í lánssamningi aðila, auk annars konar „Covenants“ sem fela það m.a. í sér að Welling & Partners er óheimilt að veðsetja nokkrar eignir sínar eða ráðstafa þeim með öðrum hætti án samþykkis Kaupþings banka hf. Auk þess tryggja samningar sem gerðir hafa verið milli stjórnenda Welling & Partners Ltd. og Kaupthing Bank Luxembourg, að félagið muni ekki selja eignir sínar eða fara út í annars konar skuldbindingar sem áhrif gætu haft á efnahags- og rekstrarreikning þess nema til komi sérstakt samþykki starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg.

---

Hvað varðar KV Associates S.A. er staðan sem hér segir: Kaupþing banki hf. hefur lánað KV Associates S.A. $8,546,970.

KV Associates S.A. er einnig fjárfestingarfélag og er tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum hefðbundinn, þ.e. að festa kaup á og eiga hlutabréf, skuldabréf og annars konar verðbréf og kröfur, lánastarfsemi og önnur sambærileg starfsemi.

Kaupþingi banka er kunnugt um að félagið eigi eignir sem standa undir framangreindum skuldbindingum. Lánið er að öðru leyti tryggt með „Negative Pledge“-ákvæði í lánssamningi aðila, auk annars konar „Covenants“ sem fela það m.a. í sér að Welling & Partners [svo] er óheimilt að veðsetja nokkrar eignir sínar eða ráðstafa þeim með öðrum hætti án samþykkis Kaupþings banka hf. Auk þess tryggja samningar sem gerðir hafa verið á milli stjórnenda Welling & Partners Ltd. [svo] og Kaupthing Bank Luxembourg, að félagið muni ekki selja eignir sínar eða fara út í annars konar skuldbindingar sem áhrif gætu haft á efnahags- og rekstrarreikning þess nema til komi sérstakt samþykki starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg.“

Um klukkustund síðar áframsendi Bjarki síðastnefnt svar sitt á nýjan leik til sömu viðtakenda en nú með tvenns konar leiðréttingum. Annars vegar breytti hann þá bæði upplýsingunum um Welling & Partners Limited og KV Associates S.A. á þann hátt að þar sem áður stóð að „Kaupþingi banka [væri] kunnugt um“ að félögin ættu eignir sem stæðu undir skuldbindingum þeirra stóð í hinu leiðrétta svari um bæði félög einfaldlega að „félagið [ætti] eignir“ sem stæðu undir skuldbindingunum. Hins vegar leiðrétti Bjarki þá hinar augljósu misritanir í umfjöllun um KV Associcates S.A., sem sjá má í ofangreindri tilvitnun til fyrra svars hans, þar sem nafn Welling & Partners Ltd. kom fram í stað KV Associates S.A.

Þetta leiðrétta síðara svar Bjarka við tölvupósti Steingríms Kárasonar áframsendi Bjarki Diego svo laust fyrir hádegi 28. apríl 2003 til Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, starfsmanns Kaupþings hf., með athugasemdinni „[m]eðf. sent skv. samtali“. Eftir hádegi sama dag sendi Eggert J. Hilmarsson hjá KBL tölvupóst til Bjarka með athugasemdinni „kíktu á þetta“. Tölvupóstinum fylgdi í viðhengi Word-skjal með heitinu „Confirmation-welling“. Skjalið hafði að geyma drög að bréfi frá Welling & Partners Limited til Kaupþings hf. með yfirskriftina „re: Loan Proceeds“. Efni draganna varðaði staðfestingu félagsins á ráðstöfun láns frá Kaupþingi hf. 28. mars 2003. Samkvæmt drögunum var bréfið stílað á Guðnýju Örnu Sveinsdóttur af hálfu bankans en gert ráð fyrir undirritun Karim Van den Ende af hálfu félagsins. Drögin að bréfinu hljóðuðu svo:

„Dear Ms. Sveinsdottir,

Upon your request I hereby confirm that Welling & Partners Limited have invested in unlisted securities for the proceeds of the loan taken with Kaupthing Bank hf., according to a Loan Agreement, duly signed on the 28th of March 2003, amounting to USD 10,231,290 (ten million thirty one thousand two hundred and ninety United States dollars).

As already agreed in the aforementioned Loan Agreement, in particular provision no. 12.1.5 Negative Pledge, the investment was performed with prior approval of Kaupthing Bank hf.“

Á meðal gagna rannsóknarnefndar er síðan tölvupóstur sem Eggert sendi hálftíma síðar til Guðnýjar Örnu. Tölvupósturinn ber með sér að framangreind drög að bréfi hafi fylgt með honum í viðhengi. Í tölvupóstinum kom fram:

„Meðfylgjandi er yfirlýsing sem óskað er eftir frá Welling & Partners Limited. Vinsam- legast staðfestu við mig ef þetta er það sem óskað hefur verið eftir svo fá megi samskonar yfirlýsingu frá KV…“

Guðný Arna sendi Eggerti svar við þessum tölvupósti síðar um daginn. Það hljóðaði svo:

„stoppum hér, kappinn er á leiðinni til mín, ég sagði að málið væri ekki nema mánaðargamalt og því ætti ekki að vera nein hætta í þessu mati, ég held að við bíðum alla vega í bili með frekari aðgerðir“

Að kvöldi þessa dags, 28. apríl 2003, sendi Bjarki Diego svo Eggerti svohljóðandi tölvupóst:

„Samkvæmt mínum útreikningum [er] þetta verðmæti eigna KV og WP sem eru undirliggjandi til tryggingar láninu:

Welling & Partners – u.þ.b. $17,3 milljónir

KV – u.þ.b. $14,8 milljónir

Þarf að athuga þetta betur – þetta er of gott til að vera satt !!“

Um 20 mínútum síðar sendi Bjarki hins vegar svohljóðandi tölvupóst til Guðnýjar Örnu:

„Samkvæmt mínum upplýsingum eru þetta verðmæti eigna KV og WP sem eru undirliggjandi til tryggingar viðkomandi lánum:

Welling & Partners – u.þ.b. $10,5 milljónir

KV – u.þ.b. $8,9 milljónir

Var reyndar rétt í þessu að tala við Hreiðar sem sagði mér að ákveðið hefði verið á fundi með BÍ sl. mánudag að miða DD við áramótin, en gera ekki könnun á því sem gerst hefur eftir áramót !!“

Í niðurlagi tölvupóstsins má telja ljóst að Bjarki vísi til samtals við Hreiðar Má Sigurðsson. Af lýsingunni má ráða að Bjarki hafi á grundvelli þessara upplýsinga frá Hreiðari talið að lánveiting Kaupþings hf. til Welling & Partners Limited vegna baksamninganna um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu, sem síðar var skipt upp með þeim hætti sem gerð hefur verið grein fyrir, yrði ekki hluti af því sem áreiðanleikakönnun vegna sameiningar Kaupþings hf. og Búnaðarbankans myndi beinast að. Samhliða sendingu þessa tölvupósts til Guðnýjar sendi Bjarki á ný tölvupóst til Eggerts þar sem hann leiðrétti upplýsingar í fyrri tölvupósti hans til Eggerts um verðmæti „undirliggjandi eigna“ aflandsfélaganna tveggja. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„Auðvitað var þetta of gott til að vera satt,

þetta er svona:

WP $10,9 milljónir

KV $8,9 milljónir“

Guðný Arna sendi svo tölvupóst skömmu síðar og leiðrétti fyrrgreindan skilning Bjarka, samkvæmt samtali hans við Hreiðar Má Sigurðsson, á umfangi áreiðanleikakönnunar í sameiningarferli Kaupþings hf. og Búnaðarbankans:

„jú það stendur í samningnum að skoða stórar breytingar (yfir 100 millj) og þetta dettur þar undir“

Snemma morguns næsta dag, 29. apríl 2003, sendi Eggert J. Hilmarsson tölvupóst til Guðnýjar Örnu með yfirskriftinni „Confirmation“. Tölvupóstinum fylgdu í viðhengi breytt drög að því bréfi sem áður var vitnað til frá Welling & Partners til Guðnýjar Örnu f.h. Kaupþings hf. um staðfestingu á ráðstöfun láns frá Kaupþingi hf. 28. mars 2003. Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„Þá vona ég að Due Diligence maðurinn verði ánægður.

Þetta er komið með value og hana nú.

Ég held að það væri ekki verra ef þú skrifaðir bréf á sitthvort félagið, formlega, þar sem óskað er eftir umræddum upplýsingum … fyrir fælinn.

Ef þetta er í góðu lagi þá gefur Karim út sambærilega staðfestingu fyrir KV.“

Viðhengið með tölvupóstinum hafði eins og áður sagði að geyma breytt drög að þeirri staðfestingu Welling & Partners Limited til Kaupþings hf. sem samskipti þessi vörðuðu. Hin breyttu drög hljóðuðu svo:

„Dear Ms. Sveinsdóttir,

Upon your request it is hereby confirmed that Welling & Partners Limited has for the proceeds of the loan taken with Kaupthing Bank hf., according to a Loan Agreement, duly signed on the 28th of March 2003, invested in securities according to the objectives for which the Company was established. The main objectives according to the Memorandum of Association of the Company are: To carry on the business of an investment company and for that purpose to acquire and to hold share stocks, debentures, debentures stocks, bonds, notes, obligations or securities, and to subscribe for the same subject to such terms and conditions (if any) as may be thought fit.

It is confirmed as well that the current value of the acquired investment is USD 10,9 million (ten million nine hundred thousand United States dollars) and is covering in full the principal amount of the Loan together with all unpaid accrued interest and any other expenses payable.

As already agreed in the aforementioned Loan Agreement, in particular provision no. 12.1.5. Negative Pledge, the investment was performed with prior approval of Kaupthing Bank hf.“

Af samanburði þessarar útgáfu skjalsins við fyrri útgáfu þess má sjá að lýsingu á ráðstöfun lánsins hefur verið breytt frá því að fjárfest hafi verið í „óskráðum verðbréfum“ (e. „unlisted securities“) eins og stóð í fyrri útgáfunni yfir í að fjárfest hafi verið í „verðbréfum  í samræmi við tilgang félagsins“ (e. „securities according to the objectives for which the Company was established“). Einnig hefur fjárhæð lánsins verið tekin út og hinum nýfengnu upplýsingum frá Bjarka Diego um stöðu fjárfestingarinnar verið bætt við.

Rannsókn nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn eða upplýsingar um hvort þeim svörum til endurskoðenda D&T sem starfsmenn Kaupþings hf. lögðu grunn að með framangreindum tölvupóstsamskiptum var í reynd komið á framfæri við endurskoðendurna. Augljóslega liggur þar með ekkert nánar fyrir um hvers efnis þau hafi þá endanlega verið, með hvaða hætti það hafi verið gert og annað í því sambandi. Óháð því hvernig fór með veitingu slíkra svara á endanum standa hins vegar samskiptin og efni þeirra fyrir sínu sem heimild varðandi baksamningana, framkvæmd þeirra og afstöðu hlutaðeigandi einstaklinga til sömu atriða. Nánar verður vikið að því í samantekt og ályktunum rannsóknarnefndar um efni kaflans.

5.6.5  Síðari greiðsla Eglu hf. til íslenska ríkisins samkvæmt kaupsamningi um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum

Samkvæmt kaupsamningi S-hópsins við íslenska ríkið um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum bar kaupendum að inna af hendi síðari greiðslu af tveimur fyrir hlutinn í síðasta lagi 20. desember 2003. Á meðal gagna rannsóknarnefndar er tölvupóstur á ensku sem Guðmundur Hjaltason sendi 11. desember 2003 til forsvarsmanna allra aðila að S-hópnum, það er Ólafs Ólafssonar (Ker hf./Egla hf.), Finns Ingólfssonar (VÍS hf.), Margeirs Daníelssonar (Samvinnulífeyrissjóðurinn) og Axels Gíslasonar (Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar) auk fleiri manna. Tölvupósturinn ber ekki með sér að hafa verið sendur til neins fulltrúa Hauck & Aufhäuser. Í tölvupóstinum var vísað til meðfylgjandi áætlunar (e. „schedule“) um síðari greiðslu kaupverðs fyrir hlutinn í Búnaðarbankanum og greiðslufyrirmæla fyrir bankareikning íslenska ríkisins sem greiða skyldi inn á. Slík greiðslufyrirmæli komu fram í tölvupóstinum. Guðmundur gat þess í tölvupóstinum að greiðslur þyrftu að hafa borist inn á reikninginn í síðasta lagi 20. desember 2003 og að ríkisstjórnin væri mjög áfram um að engar tafir yrðu á þeim.

Í umræddri áætlun um síðari greiðslu kaupverðsins var lýst skiptingu greiðslunnar milli kaupenda. Í henni kom meðal annars fram að hlutur Hauck & Aufhäuser í eiginfjárgreiðslu Eglu hf. (greiðsla með eigin fé skyldi nema a.m.k. 65% af greiðslu Eglu hf. samkvæmt kaupsamningnum um Búnaðarbankann) reiknaðist sem 12.938.792,31 Bandaríkjadalur.

Sem fyrr sagði var enginn fulltrúi Hauck & Aufhäuser meðal viðtakenda að þessum tölvupósti Guðmundar Hjaltasonar 11. desember 2003. Gögn rannsóknarnefndarinnar bera hins vegar með sér að 11 dögum síðar eða 22. desember 2003, það er tveimur dögum eftir að greiðslur höfðu í síðasta lagi átt að berast til íslenska ríkisins, hafi Guðmundur áframsent tölvupóstinn til Martin Zeil hjá Hauck & Aufhäuser án þess að bæta við neinum athugasemdum.

Þó svo enginn fulltrúi Hauck & Aufhäuser væri meðal viðtakenda að framangreindum tölvupósti Guðmundar Hjaltasonar 11. desember 2003 um síðari greiðslu S-hópsins til íslenska ríkisins sýna þó gögn rannsóknarnefndar að á sama tíma átti Guðmundur í tölvupóstsamskiptum við Martin Zeil hjá Hauck & Aufhäuser. Þau tölvupóstsamskipti vörðuðu tiltekna tillögu Guðmundar vegna fyrirhugaðrar hlutafjárhækkunar Eglu hf. í tilefni af síðari greiðslunni til íslenska ríkisins.[137] Guðmundur sendi Zeil þessa tillögu í tölvupósti 12. desember 2003, með afriti til Ólafs Ólafssonar. Í meginatriðum gekk hún út á það að vegna hagstæðrar gengisþróunar hlutabréfa í KB banka væri eiginfjárhlutfall Eglu hf. um 72% sem Guðmundur kvað vera um 1,2 milljörðum íslenskra króna eða 16 milljónum Bandaríkjadala hærra en krafist væri (það er samkvæmt kröfu um að lágmarki 65% eiginfjárfjármögnun Eglu hf. í kaupsamningnum um Búnaðarbankann).[138] Guðmundur kvaðst hafa fengið samþykki íslenska ríkisins fyrir því að falla frá þessari kröfu um 65% eiginfjárfjármögnun vegna síðari greiðslunnar. Það þýddi að sögn Guðmundar að hægt væri að „lækka“ síðari greiðsluna um nálægt 16 milljónir Bandaríkjadala. Guðmundur stakk þó upp á að heildar eiginfjárgreiðslan yrði lækkuð um 12 milljónir Bandaríkjadala en 4 milljónum Bandaríkjadala yrði haldið sem vörn gegn hugsanlegri gengislækkun. Guðmundur óskaði eftir því að Zeil íhugaði þetta og léti sig vita hvort hann samþykkti.

Zeil svaraði samdægurs með tölvupósti til Guðmundar og afriti á Ólaf Ólafsson. Óþarft þykir að rekja efni svars Zeil nánar, einkum þá vegna þess að í svari Guðmundar til Zeil daginn eftir, 13. desember 2003, með afrit á Ólaf Ólafsson sem fyrr, dró Guðmundur tillöguna til baka með eftirfarandi skýringum:

„We need the money to pay the government for the second portion, but subsequently we might be able to reduce to equity to 65% by selling shares in the bank. The reduction is approx. USD 16. [svo] Suggest that we complete the payment as originally planned and come back to this issue later.“

Þessar skýringar Guðmundar vörðuðu meðal annars að nota þyrfti peningana til að borga íslenska ríkinu aðra greiðsluna (það er þá greiðslu sem verið var að framkvæma um þessar mundir og fjallað hefur verið um í þessum kafla) en síðar yrði hægt að minnka eiginfjárhlutfallið niður í 65% með því að selja hlutabréf í bankanum, það er Kaupþingi Búnaðarbanka hf. Guðmundur lagði til að að greiðslan yrði kláruð eins og upphaflega var ætlað en síðar mætti taka aftur upp þetta málefni.

Rannsóknarnefnd hefur ekki nánari gögn eða upplýsingar um hvað fólst í þeim orðum Guðmundar Hjaltasonar í síðastnefndum tölvupósti að klára ætti greiðslu Eglu hf. eins og „upphaflega var ætlað“. Vikið er nánar að atriðum varðandi kaupsamningsgreiðslur Eglu hf. (og S-hópsins) til íslenska ríkisins í samantekt og ályktunum um efni þessa kafla hér næst á eftir.

5.6.6  Samantekt  og  ályktanir rannsóknarnefndar

Í kaflanum var gerð grein fyrir uppskiptingu hins upphaflega láns Kaupþings hf. til Welling & Partners. Óþarft þykir að draga þau atriði sérstaklega saman hér umfram það sem gert var í viðkomandi umfjöllun. Hún veitir nauðsynlegt samhengi fyrir síðari umfjöllun um uppgreiðslur allra áhvílandi lána Welling & Partners í maí 2004.

Einnig var fjallað um fyrirspurnir endurskoðenda við áreiðanleikakönnun í tengslum við fyrirhugaðan samruna Kaupþings hf. og Búnaðarbankans til stjórnenda og starfsmanna Kaupþings hf. varðandi skuldir og tryggingar aflandsfélaganna Welling & Partners og KV Associates S.A. gagnvart Kaupþingi hf.[139] Umfjöllunin varpaði ljósi á hvernig viðkomandi stjórnendur og starfsmenn Kaupþings hf. höfðu varann á gagnvart slíkum fyrirspurnum og stilltu saman strengi um hvernig skyldi svara þeim. Eins og tekið var fram í niðurlagi þeirrar umfjöllunar er með öllu óvíst hvort eða þá hvernig slík svör voru að endingu gefin, hvað þá hvers efnis þau hafi þá endanlega verið, en gögnin sem slík standa óháð því til vitnis um viðhorf og fyrirætlanir viðkomandi starfsmanna Kaupþings hf. í þessum efnum.

Þau svör og yfirlýsingar sem þannig voru a.m.k. undirbúnar innan viðkomandi hóps starfsmanna Kaupþings hf. vegna fyrirspurna endurskoðendanna lutu í meginatriðum að því að félögin ættu „eignir“ eða „undirliggjandi eignir“ sem stæðu undir lánunum. Þau lutu einnig að því að veðsetningarbann (e. negative pledge), auk annars konar takmarkana í lánssamningum á ráðstöfunarrétti yfir eignunum, tryggðu nægilega hagsmuni Kaupþings hf. vegna lánanna. Í hinum undirbúnu svörum og yfirlýsingum var að auki skírskotað til „fjárfestingar“ Welling & Partners fyrir andvirði lánsins frá Kaupþingi hf.[140]

Að mati rannsóknarnefndarinnar gat þessi orðanotkun um „eign“ og „fjárfestingu“ Welling & Partners, og á sinn hátt einnig útreikningar um stöðu þeirrar fjárfestingar sem starfsmennirnir sendu á milli sín, ekki staðið fyrir annað en rétt félagsins samkvæmt baksamningunum til hluta Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. – og þar með í Búnaðarbankanum eða, áður en langt um liði á þessum tíma (seint í apríl 2003), í sameinuðum banka Kaupþings hf. og Búnaðarbankans.

Loks var í þessum kafla gerð grein fyrir þeim gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndar sem liggja fyrir um báðar greiðslur Eglu hf. (samhliða öðrum í S-hópnum) til íslenska ríkisins á grundvelli kaupsamningsins um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, það er fyrri greiðsluna í mars 2003 og síðari greiðsluna í desember sama ár. Þessum greiðslum tengdust svo hlutafjárhækkanir Eglu hf. á sömu tímum í því skyni að fjármagna greiðslurnar. Vikið var stuttlega að fyrri hlutafjárhækkuninni í kaflanum.

Sú umfjöllun tengist atriðum sem líta verður endanlega á sem óupplýst í rannsókn nefndarinnar, annars vegar um fjármögnun þessara tveggja kaupsamningsgreiðslna Hauck & Aufhäuser til íslenska ríkisins og hins vegar um nánari ráðstöfun hinnar handveðsettu innstæðu Welling & Partners hjá þýska bankanum. Nefndin telur umrædd atriði ekki hafa meginþýðingu í rannsókn nefndarinnar en telur engu að síður rétt vegna samhengis að draga þau hér stuttlega saman.

Líkt og áður hefur komið fram var grunnforsenda baksamninganna sú að tryggja Hauck & Aufhäuser skaðleysi af öllum hugsanlegum fjárframlögum til Eglu hf. vegna fjárfestingar þess félags í Búnaðarbankanum. Í aðfararorðum söluréttarsamningsins var gerð grein fyrir því að slík fjárframlög sem Hauck & Aufhäuser bæri að greiða myndu koma til með hlutafjárhækkunum í Eglu hf. og verða í tvennu lagi. Það var í samræmi við ákvæði kaupsamnings S-hópsins og íslenska ríkisins um tvískiptingu greiðslna fyrir hlutinn í Búnaðarbankanum. Aðfararorðin greindu nánar frá tímasetningum og fjárhæðum slíkra tveggja fjárframlaga sem Hauck & Aufhäuser bæri að greiða og gengu þær ráðagerðir eftir í meginatriðum. „Söluréttarverðið“ (e. Put Price) samkvæmt baksamningunum (og þar með einnig hugsanlegt kaupverð Welling & Partners á grundvelli forkaupsréttar þess) var þessu til samræmis ákvarðað í orðum sem „fjárhæð jöfn hlutafjárframlagi Hauck & Aufhäuser til Eglu hf.“ Fjárhæð hinnar handveðsettu innstæðu Welling & Partners tók einnig samkvæmt þessu mið af þeirri fjárhæð sem við gerð baksamninganna var gert ráð fyrir að þetta hlutafjárframlag myndi nema, það er rúmlega 33,5 milljónir Bandaríkjadala, að viðbættum tveimur milljónum Bandaríkjadala vegna þóknunar Hauck & Aufhäuser og hugsanlegs frekari kostnaðar sem Welling & Partners kynni að verða ábyrgt fyrir gagnvart Hauck & Aufhäuser.

Hin handveðsetta innstæða stóð meðal annars til tryggingar fjárskuldbindingum Hauck & Aufhäuser vegna fyrrnefndra fjárframlaga til Eglu hf. sem bankinn yrði með tíð og tíma krafinn um. Í niðurlagi aðfararorða veð- og tryggingasamningsins var tilgangi samningsins um tryggingar til handa Hauck & Aufhäuser lýst með samandregnum hætti, meðal annars svo að Hauck & Aufhäuser hefði tryggingu fyrir annars vegar kaupverði hluta í Eglu hf. gagnvart Welling & Partners ef söluréttur væri nýttur og hins vegar hvers konar skuldbindingu sem risi af kaupsamningnum við íslenska ríkið (e. „any obligation arising from the Share Purchase Agreement with the State of Iceland“).

Fyrrgreind óupplýst atriði varðandi fjármögnun kaupsamningsgreiðslna Hauck & Aufhäuser til íslenska ríkisins og ráðstöfun hinnar handveðsettu innstæðu eru í hnotskurn eftirfarandi: Annars vegar hvort Hauck & Aufhäuser hafi hugsanlega með sjálfstæðum og utanaðkomandi hætti fjármagnað tímabundið umræddar tvær kaupsamningsgreiðslur í nafni bankans til íslenska ríkisins eða hins vegar hvort þær hafi, með milligöngu Welling & Partners, einfaldlega verið greiddar af hinni handveðsettu innstæðu, hvor á sínum tíma.[141]

Til að gera langa sögu stutta telur rannsóknarnefndin að fyrirliggjandi gögn nefndarinnar sem þessu tengjast gætu bent til þess að atvik hafi í reynd verið með þeim hætti að umrædd fjárframlög Hauck & Aufhäuser til Eglu hf. hafi verið fjármögnuð, hvor fyrir sig, með hinni handveðsettu innstæðu og greidd af henni. Það sem helst fengi stutt það fer hér á eftir.

Í því sambandi má í fyrsta lagi horfa til þess að hin handveðsetta innstæða stóð ekki aðeins til tryggingar kröfu Hauck & Aufhäuser til kaupverðs frá Welling & Partners þegar eigendaskipti færu fram á grundvelli sölu- eða forkaupsréttar samkvæmt baksamningunum. Hún stóð jafnframt til tryggingar kröfu bankans vegna hvers konar skuldbindingar sem risi af kaupsamningnum við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum. Af sjálfu sér leiðir að kaupsamningsgreiðslur kaupenda samkvæmt þeim samningi urðu taldar til slíkra skuldbindinga. Baksamningarnir gerðu því einnig ráð fyrir að innstæðan stæði til tryggingar skuldbindingum Hauck & Aufhäuser vegna slíkra greiðslna.

Í öðru lagi má líta til tölvupóstsamskipta Martin Zeil og Bjarka Diego 20. janúar 2003, eða fjórum dögum eftir undirskrift baksamninganna. Þau vörðuðu hvernig skyldi fara með ávöxtun hinnar handveðsettu innstæðu, sem baksamningarnir gerðu ráð fyrir sérstöku samkomulagi aðila um.[142] Zeil lagði þá til við Kaupþingsmenn, sem vitaskuld fóru með málefni Welling & Partners í reynd, að einfaldasta lausnin væri að engir vextir væru greiddir af innstæðunni til að ekki skapaðist neinn fjármagnskostnaður (e. „cost of carry“) vegna þess. Bjarki tilkynnti Zeil síðar þennan dag í nafni Welling & Partners að þetta væri samþykkt, með þeirri athugasemd að þar með myndi enginn fjármagnskostnaður fylgja vörslum Hauck & Aufhäuser á innstæðunni og þetta væri „hin einfalda „núll-niðurstaða““. Líkt og áður hefur komið fram lá á bak við þessi skoðanaskipti og samkomulag Zeil og Bjarka að Welling & Partners hafði undirgengist í baksamningunum að tryggja Hauck & Aufhäuser skaðleysi af öllum fjármagnskostnaði vegna baksamninganna. Af þessu sést að aðilar baksamninganna fylgdu hinni einföldu „núll-niðurstöðu“ sín á milli varðandi vaxtakostnað af hinni veðsettu innstæðu, sérstaklega til að forðast að fjármagnskostnaður skapaðist hjá Hauck & Aufhäuser. Í því ljósi mætti einnig telja líkur á að sömu stefnu hefði verið fylgt varðandi hugsanlegan (og líklega mun hærri) fjármagnskostnað sem skapast hefði ef Hauck & Aufhäuser hefði fjármagnað kaupsamningsgreiðslur sínar til íslenska ríkisins gegnum Eglu hf. um lengri eða skemmri tíma með sjálfstæðum og utanaðkomandi hætti. Með sama hætti mætti þá telja síðarnefnda möguleikann ósennilegan í ljósi þess að einmitt sú fjárhæð sem þurfti, eyrnamerkt þessum sama tilgangi, lá vaxtalaus sem innstæða á reikningi hjá bankanum sjálfum.

Í þriðja lagi mætti á grundvelli gagna nefndarinnar færa rök fyrir því að þegar kom að því að Hauck & Aufhäuser bar að reiða fram hina fyrri af þessum kaupsamningsgreiðslum hafi einmitt komið fram fyrirmæli um að sú greiðsla skyldi fjármögnuð með tilsvarandi hluta hinnar handveðsettu innstæðu. Af gögnum nefndarinnar varðandi fyrri kaupsamnings- greiðslu Eglu hf. til íslenska ríkisins má þannig sjá að Guðmundur Hjaltason, sem sá um að tilkynna Hauck & Aufhäuser um hlut bankans í þeirri greiðslu, sendi slíka tilkynningu strax næsta dag til Bjarka Diego hjá Kaupþingi hf. sem opinberlega varðaði þetta málefni ekki með neinum hætti. Bjarki áframsendi svo sömu tilkynningu umsvifalaust til Eggerts J. Hilmarssonar hjá KBL með þeim fyrirmælum, sem skírskotuðu til tilkynningarinnar, að það þyrfti að „senda greiðslufyrirmæli skv. neðangreindu frá Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser í Munchen“.[143] Eins og nánar var lýst í tilvísuðum fyrri kafla skýrslunnar telur rannsóknarnefnd að minnsta kosti ljóst af þessu að Bjarki hafi þannig gefið fyrirmæli um að þessi kaupsamningsgreiðsla Hauck & Aufhäuser skyldi með milligöngu Welling & Partners greidd af hinni handveðsettu innstæðu. Ekkert liggur hins vegar nánar fyrir í gögnum rannsóknarnefndar um frekari samskipti þessu tengd, þar á meðal hvort þessi fyrirmæli Bjarka hafi verið framkvæmd og þá hvernig.

Enda þótt framangreind gögn gefi þannig vísbendingu um að kaupsamningsgreiðslur Hauck & Aufhäuser til íslenska ríkisins hafi verið fjármagnaðar með hinni handveðsettu innstæðu verður hér sem fyrr að leggja áherslu á að gögnin geta ekki talist óyggjandi  um þetta. Önnur gögn nefndarinnar varpa heldur ekki óyggjandi ljósi á þetta. Þar með verður að líta á þetta atriði sem óupplýst í rannsókn nefndarinnar. Nefndin telur heldur ekki nægar forsendur liggja fyrir til að ályktað verði með fullnægjandi hætti um hvernig þessu kynni í reynd að hafa verið farið.

Hvað sem öllu líður um framangreint er þó jafnframt ljóst að óvissa um þetta tiltekna atriði hefur þegar allt kemur til alls engin teljandi áhrif á grundvallarniðurstöðu nefndarinnar varðandi fjármögnun á þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Þannig liggur fyrir að alveg óháð því hvort eða hversu líklegt megi telja að Hauck & Aufhäuser hafi hugsanlega fjármagnað með sjálfstæðum og utanaðkomandi hætti kaupsamningsgreiðslur bankans til íslenska ríkisins breytir það engu um að leggja verður til grundvallar hér að aðrir aðilar en Hauck & Aufhäuser, og þá Kaupþing hf., hafi í reynd veitt þá fjármögnun, í mesta lagi þá eftir að þýski bankinn hefði tímabundið lagt út fyrir slíkum kostnaði.

Þetta leiðir af þeirri einföldu ástæðu, sem nánari grein var gerð fyrir í umfjöllun um efni baksamninganna hér á undan, að Hauck & Aufhäuser var undir öllum kringumstæðum tryggt skaðleysi samkvæmt baksamningunum bæði af slíkum fjárframlögum sem og öllum hugsanlegum fjármagnskostnaði vegna þeirra. Að endingu hefði því Welling & Partners eftir sem áður borið allan þann kostnað og fjármögnunin að öllu leyti í reynd þannig ekki verið bankans heldur Welling & Partners og þar með Kaupþings hf.

Samkvæmt framangreindu má þannig á grundvelli gagna rannsóknarnefndarinnar álykta eftirfarandi um fjármögnun á þátttöku Hauck & Aufhäuser gegnum Eglu hf. í kaupum á hlut ríkisins Búnaðarbankanum: Sú fjármögnun var að minnsta kosti í reynd og endanlega, ef ekki frá upphafi og að öllu leyti, frá Kaupþingi hf. en ekki Hauck & Aufhäuser sjálfum og ávallt, hvað sem öllu öðru líður, einungis á áhættu Kaupþings hf. en ekki Hauck & Aufhäuser.

5.7  Atvik á árinu 2004

Hér verður fyrst gerð grein fyrir gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndar um aðdraganda og atvik varðandi sölu Eglu hf. á hlutabréfum í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. í febrúar 2004.[144] Sú sala tengdist svo með vissum hætti þeim atvikum sem mestu varða í þessum kafla skýrslunnar, það er fyrri viðskiptunum sem Welling & Partners og Hauck & Aufhäuser áttu á grundvelli baksamninganna með hlutina í Eglu hf. Þau viðskipti áttu sér stað í apríl 2004. Einnig er í kaflanum fjallað um lítils háttar lækkun sem gerð var á fyrri hluta árs 2004 á hinu svokallaða „söluréttarverði“ samkvæmt baksamningunum. Þá er í kaflanum gerð grein fyrir uppgreiðslu allra áhvílandi skulda Welling & Partners við Kaupþing hf., það er í gegnum uppgreiðslu lánanna sem orðið höfðu til við uppskiptingu hins upphaflega láns Kaupþings hf. til félagsins í janúar 2003. Loks er fjallað um tiltekin atvik í desember 2004 varðandi fyrirhuguð viðskipti á þeim tíma, sem ekki varð af, með eftirstandandi hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.

5.7.1  Minnisblað Ólafs Ólafssonar í janúar 2004 um ráðstöfun á hlutum Eglu hf. í Kaupþingi-Búnaðarbanka hf. og hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.

Samkvæmt kaupsamningi íslenska ríkisins og S-hópsins um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum voru tilteknar takmarkanir á ráðstöfun hins keypta hlutar, eða kvaðir um óbreytt eignarhald, settar af hálfu ríkisins sem seljanda. Um þetta hefur áður verið fjallað. Í meginatriðum lutu þær að því að S-hópnum var óheimilt að ráðstafa tilteknum hluta hinna keyptu hluta, sem samanlagt námu 33,3% af útgefnu hlutafé Búnaðarbankans, í 21 mánuð frá undirskrift kaupsamningsins.[145] Á hinn bóginn var S-hópnum heimilt án takmarkana að ráðstafa afganginum af hinum keypta hlut en hann nam í heildina 45,8% af útgefnu hlutafé Búnaðarbankans eins og komið hefur fram. S-hópnum var samkvæmt þessu heimilt að ráðstafa án sérstakra takmarkana 12,5% af útgefnu hlutafé Búnaðarbankans.

Á meðal gagna rannsóknarnefndar er skjal dagsett 14. janúar 2004 sem ber með sér að stafa frá Ólafi Ólafssyni. Það ber yfirskriftina „Minnisblað“ og fjallar um fyrirhugaða sölu á hlutum Eglu hf. í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og ráðstöfun á hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Minnisblaðið hljóðar svo:

„Egla hf. selur sig niður í Kaupþing – Búnaðarbanki hf. í samræmi við heimildir (% og tímasetningar) í samningi við ríkisstjórnina.

Egla hf. greiðir Hauck & Aufhäuser söluandvirði hluta í KB, að frádregnum skatti og söluþóknun. (skattar 10% og þóknun og kostnaður allt að 3%).

Þegar búið er að greiða upp allan eignarhluta Hauck & Aufhäuser, með því að selja það sem selja má, er hugsanlegt að Ker hf. auki sinn hlut með því að kaupa Hauck & Aufhäuser alfarið út úr Eglu ehf. [svo]

Ganga þarf frá tilkynningu inn á verðbréfaþing vegna þessara viðskipta. Gengið verður í söluna eftir 12. febrúar, þegar uppgjörin hafa verið birt. Heimilt að selja:

Heildar eign Eglu          63.337.092,00  hlutir

[svo][146]

Má selja strax 27,29% (12,5%) 17.830.492,40 hlutir

Má selja með leyfi       12,71% (5,82%) 8.304.344,39 hlutir

40%    26.134.836,79 hlutir

Óselt m.v. 16. okt. 04       60% 39.202.255,21 hlutir

Eignarhlutir H&A eftir fyrri sölur   10% 6.533.709,21 hlutir“

Líkt og sjá má af efni þessa minnisblaðs Ólafs Ólafssonar er í því gerð áætlun um sölu Eglu hf. á hlutum í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. miðað við svigrúm til þess vegna áðurnefndra takmarkana á ráðstöfun hluta í bankanum samkvæmt kaupsamningnum við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum. Minnisblaðið ber einnig með sér að til hafi staðið að selja niður þá hluti í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. sem töldust tilheyra Hauck & Aufhäuser gegnum Eglu hf. og greiða Hauck & Aufhäuser söluandvirðið eða með öðrum orðum að í reynd væri Hauck & Aufhäuser að „selja sig niður“ í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. Þá er í minnisblaðinu vikið að því að þessu næst væri hugsanlegt að Ker hf. keypti Hauck & Aufhäuser alfarið út úr Eglu hf.

Í síðari hluta minnisblaðsins er þessi áætlun sett fram í nánari tölulegum atriðum. Meðal annars er gert ráð fyrir að selja megi um 17.830.492 hluti strax og stendur innan sviga í samhengi við þá ráðagerð áðurnefnt 12,5% hlutfall hlutafjár í Búnaðarbankanum samkvæmt kaupsamningi S-hópsins og ríkisins sem ekki var bundið neinum takmörkunum um ráðstöfun. Sjá má að minnisblaðið gerir að auki ráð fyrir að heimild til að selja 5,82% hlut til viðbótar með ákveðnum skilyrðum yrði nýtt til fullnustu og þannig yrðu seldir samanlagt um 26.134.837 hlutir. Samkvæmt því var gert ráð fyrir að þegar 21 mánaðar tímabilið með takmörkunum á ráðstöfunum samkvæmt kaupsamningi S-hópsins og íslenska ríkisins rynni út 16. október 2004 ætti Egla hf. rúmlega 39 milljónir hluta í bankanum og af því ætti Hauck & Aufhäuser óbeint um 6,5 milljónir hluta eftir fyrri sölur.

Eins og fram kemur í umfjöllun í þessum kafla gekk framangreind áætlun sem sett var fram í minnisblaði Ólafs Ólafssonar í meginatriðum eftir á næstu mánuðum að því undanskildu að Egla hf. seldi ekki jafnmikið af hlutum í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og gert var ráð fyrir í minnisblaðinu. Þar með minnkaði eignarhlutur sem Hauck & Aufhäuser taldist eiga í Eglu hf./Kaupþingi Búnaðarbanka hf. ekki jafnmikið og gengið var út frá í minniblaðinu að yrði raunin á áliðnu ári 2004.

5.7.2  Egla hf. selur hluti í Kaupþingi Búnaðarbanka hf.

Síðdegis 20. febrúar 2004 birtist eftirfarandi tilkynning á heimasíðu Kauphallar Íslands undir yfirskriftinni „Kaupþing Búnaðarbanki – Innherjaviðskipti“:

Egla hf. hefur í dag, 20. febrúar, selt 17.832.176 hluti í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. á genginu 265 á hlut. Beinn eignarhlutur félagsins fyrir söluna nam 65.337.091 hlutum, eða 14,83%, en nemur 47.504.915 hlutum, eða 10,78%, eftir söluna.

Þýski bankinn Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA var eigandi að 50% hlut í Eglu hf. og mun eignarhlutur hans í því félagi minnka en eignarhluti Kers hf., sem átti fyrir 49,5% hlut í Eglu hf., vaxa að sama skapi. Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) á 0,5% eignarhlut í Eglu hf. Þessi sala er í samræmi við stefnu Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA, um að minnka eignarhlut sinn í bankanum eins og tilkynnt var þegar kaup á bréfunum áttu sér stað.

Egla hf. er fruminnherji í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. í krafti eignaraðildar félagsins sbr. 1. tl. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 33/2003. Tilkynningin er gerð í samræmi við 47. gr. laga nr. 33/2003.

Söluverð á hlutunum samkvæmt upplýsingum í tilkynningunni um fjölda þeirra og gengi í viðskiptunum var 4.725.526.640 krónur. Sé þessi tilkynning borin saman við minnisblað Ólafs Ólafssonar sem áður var rakið má sjá að gert var ráð fyrir sendingu slíkrar tilkynningar í minnisblaðinu og einnig að sala Eglu hf. tók nokkurn veginn til þeirra hluta í bankanum sem félaginu var heimilt að selja án takmarkana, eða um 17,8 milljóna hluta, líkt og rakið var í minnisblaðinu.[147] Þá hefur salan átt sér stað á þeim tíma sem gert var ráð fyrir í minnisblaðinu („eftir 12. febrúar“).

Í annarri efnisgrein tilkynningarinnar kemur fram að Hauck & Aufhäuser „[hafi verið] eigandi að 50% hlut í Eglu hf. og [myndi] eignarhlutur hans í því félagi minnka en hlutur Kers hf. […] vaxa að sama skapi“. Fram kemur síðan að þetta hafi verið í samræmi við yfirlýsta stefnu Hauck & Aufhäuser um að „minnka eignarhlut sinn“ í Kaupþingi Búnaðarbanka hf.

Orðalag tilkynningarinnar er að þessu leyti nokkuð óljóst og erfitt að slá fastri nákvæmri merkingu þess. Að öllu virtu virðist þetta helst verða skilið svo að tilkynningin hafi að þessu leyti átt að gefa til kynna að sala Eglu hf. hafi verið af þeim hlutum félagsins í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. sem taldir voru tilheyra Hauck & Aufhäuser gegnum Eglu hf. en að sameigandi Hauck & Aufhäuser að Eglu hf., Ker hf., myndi áfram halda á hlutum sem félagið ætti gegnum Eglu hf. í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og auka hlut sinn í Eglu hf. í öðrum og ótilgreindum síðari viðskiptum við Hauck & Aufhäuser. Áðurnefnt minnisblað Ólafs Ólafssonar gengur enda í sömu átt og eins og síðar verður rakið áttu sér síðar stað einmitt slík viðskipti milli Hauck & Aufhäuser og Kers hf.

Samkvæmt gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndarinnar hafði Kaupþing Búnaðarbanki hf. milligöngu um þessi hlutabréfaviðskipti. Verðbréfamiðlari hjá bankanum sá samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar um að framkvæma viðskiptin og um að tilkynna þau í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands. Af gögnum rannsóknarnefndar má ráða að bankinn hafi keypt bréfin af Eglu hf. inn á sínar bækur og svo selt þau áfram samdægurs til dreifðs hóps fjárfesta, þar á meðal einstaklinga, fyrirtækja og lífeyris- og verðbréfasjóða, í flestum tilvikum á sama gengi, 265, og í hinum tilkynntu viðskiptum. Stærstan hluta bréfanna, næstum 11 milljónir hluta, keypti bankinn sjálfur eða einingar (sjóðir eða deildir) innan hans.

Söluhagnaður af hlutabréfasölunni, sem nam 4.701.898.757 krónum að frádregnum kostnaði og þóknun bankans, var lagður inn á bankareikning Eglu hf. hjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf. þann 25. febrúar 2004. Í umfjöllun síðar í þessum kafla verður gerð grein fyrir endanlegri ráðstöfun þessara fjármuna samkvæmt gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndarinnar þar að lútandi.

5.7.3  Ósk Eglu hf. til viðskiptaráðherra um heimild félagsins eða hluthafa þess til að eiga viðskipti með hluti í félaginu

Fyrr í skýrslu þessari var gerð grein fyrir erindi Kristins Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns fyrir hönd Eglu hf. til viðskiptaráðherra 27. febrúar 2004, eða viku eftir birtingu fyrrgreindrar tilkynningar um sölu Eglu hf. á hlutum í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. Þar var óskað eftir því að „[Egla hf.] og/eða núverandi hluthafar í Eglu hf. [fengju] heimild til að eiga viðskipti sín í milli með hluti í Eglu hf.“ Í erindinu sagði nánar tiltekið:

„Til stendur, ef umbeðið samþykki verður veitt, að Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGAA minnki hlut sinn í félaginu með sölu á hluta hluta sinna til annarra hluthafa félagsins og/eða Eglu hf. um tæp 33%, þannig að eignarhlutur Hauck & Aufhäuser minnki úr hlutum að nafnverði kr. 7.239.000,00, sem taka til 50% alls hlutafjár í félagsins, í hluti að nafnverði kr. 2.505.307,00, sem taka til 17,31% alls hlutafjár í Eglu hf.“

Viðskiptaráðherra veitti umbeðið samþykki við erindinu 8. mars 2004. Í kafla 5.7.5 hér á eftir er nánar fjallað um þau viðskipti með hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. sem áttu sér stað í kjölfarið. Fyrst verður vikið að tvennu öðru sem einnig átti sér stað á þessum tíma.

5.7.4  Kaupverð samkvæmt söluréttarsamningnum lækkað. Tölvupóstsamskipti Hreiðars Más Sigurðssonar og Ralf Darpe hjá Société Générale

5.7.4.1 Lækkun kaupverðs samkvæmt söluréttarsamningnum

Í umfjöllun um baksamningana tvo hér á undan var getið um að þeir fólu í sér þann möguleika að hið svonefnda „söluréttarverð“ (e. Put Price) samkvæmt söluréttarsamningnum, og hin handveðsetta innstæða þar með, kynni að lækka frá því sem gert var  ráð fyrir í baksamningunum. Líkt og nánar kom fram þar var ákvæði um þetta sett inn í söluréttarsamninginn seint í samningagerðinni að ósk Kaupþings hf.[148]

Gögn rannsóknarnefndar sýna að með gerð sérstaks viðauka við söluréttarsamninginn, dagsettum 8. mars 2004, var söluréttarverðið lækkað nokkuð. Af gögnum rannsóknarnefndarinnar má hins vegar ráða að viðaukinn hafi í reynd verið gerður nokkrum vikum síðar en dagsettur aftur í tímann. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar kom það álitaefni sem leiddi til gerðar viðaukans þannig fyrst upp í áliðnum apríl 2004. Þá var verið var að ganga frá fyrstu kaupum Welling & Partners á hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. á grundvelli forkaupsréttar félagsins samkvæmt söluréttarsamningnum og öðrum ákvæðum baksamninganna, og samhliða sölu Hauck & Aufhäuser fyrir hönd Welling  & Partners á sömu hlutum til Kers hf. á grundvelli tilboðs þess félags sem virkjað hafði forkaupsréttarákvæði Welling & Partners.[149]

Frumkvæði að gerð viðaukans kom frá Hauck & Aufhäuser, nánar tiltekið með tölvupósti Martin Zeil 21. apríl 2004 til Guðmundar Hjaltasonar og afrits til Magnúsar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra KBL. Tölvupóstur Zeil ber með sér að hafa verið sendur þegar verið var að ganga frá síðastnefndum viðskiptum Welling & Partners Limited og Hauck & Aufhäuser með hluti í Eglu hf. Tölvupósturinn hljóðaði svo í heild sinni:

„Dear Guðmundur, dear Magnus,

in the course of the settlement of the present transaction[150] we have discovered the following:

The Put Price agreed to in the Put Option Agreement is USD 33.454.372,-- The proportional price for the 4.676.957 shares was adjusted accordingly, whereby the correct number would be USD 21.614.869,75 (=64,61%) instead of USD 21.614.864,75 as indicated in the letter of Welling & Partners, but that is no real problem.

The main point is that we have paid for the two stages of acquisition in fact an aggregate amount of (only) USD 33.006.956,26 according to the requests by EGLA. Thus, by sticking to the agreed amount a profit of USD 450.000,-- would remain with our bank.

The only way to solve this „problem“ would be to create an amendment to the Put Option Agreement to adjust the original Put Price to the amount we have really afforded for the EGLA shares. In this case, of course, the instructions by Welling & Partners would have to be actualised as well.

Please let me know your opinion with regard to the above.“

Efnislega kemur fram í tölvupóstinum sú ábending Zeil að heildargreiðslur Hauck & Aufhäuser samkvæmt óskum Eglu hf. í tengslum við hlutafjárhækkanir Eglu hf. til að standa straum af greiðslum til íslenska ríkisins samkvæmt kaupsamningnum um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum hafi ekki numið nema 33.006.956,26 Bandaríkjadölum.   Sú fjárhæð væri um 450.000 Bandaríkjadölum lægri heldur en söluréttarverðið eins og það hafi verið ákveðið í söluréttarsamningnum (33.454.372 Bandaríkjadalir). Zeil benti á að ef hinu umsamda söluréttarverði væri samt sem áður fylgt myndi það leiða af sér að hagnaður sem næmi þessum mismun yrði eftir hjá Hauck & Aufhäuser. Eina leiðin til að leysa það „vandamál“ (sem Zeil kallaði svo innan gæsalappa) væri að breyta upphaflega söluréttarverðinu.

Gögn rannsóknarnefndar geyma ekki frekari samskipti aðila um þessa ábendingu Martin Zeil en fyrir liggur að viðaukinn var gerður með breyttu söluréttarverði í samræmi við hana, sömu fjárhæðar og Zeil benti á að heildargreiðslur Hauck & Aufhäuser vegna Eglu hf. hefðu numið.

Viðaukinn við söluréttarsamninginn hafði yfirskriftina „Amendment to a Put Option Agreement dated and signed on January 16, 2003“ og var sem fyrr segir dagsettur 8. mars 2004. Sömu menn skrifuðu undir hann og baksamningana milli sömu aðila, það er Karim Van den Ende af hálfu Welling & Partners og tveir fulltrúar Hauck & Aufhäuser, annar þeirra Martin Zeil. Samkvæmt viðaukanum lækkaði söluréttarverðið úr 33.454.372 Bandaríkjadölum og skyldi í staðinn verða 33.006.956,26 Bandaríkjadalir.

Í viðaukanum, sem var um ein og hálf blaðsíða að lengd, voru reifuð helstu ákvæði söluréttarsamningsins í nokkrum efnisgreinum áður en kom að hinni eiginlegu breytingu á söluréttarverðinu. Óþarft þykir að rekja það efni viðaukans hér. Í sjöttu, sjöundu og áttundu efnisgrein viðaukans var svo mælt fyrir um hina eiginlegu breytingu á söluréttarverðinu og lýst ástæðum hennar. Þessar efnisgreinar viðaukans hljóðuðu svo:

„WHEREAS, the equity of EGLA increased in value due to favourable market developments on the acquired shares in Kaupthing Bunadarbanki hf. leading to the capital contribution of up to USD 12.956.772,26 on the Bank‘s behalf, during the Second Stage of the capital contribution.

NOW, THEREFORE, the Parties hereto agree to modify Clause 1 b) (Put Price) by decreasing the maximum amount to be paid by WELLING & PARTNERS LIMITED for the Shares upon exercise of the Put from being USD 33.454.372 to be USD 33.006.956,26.

THEREFORE, Clause 1 b) shall read as follows:

„(b) Put Price. The aggregate purchase price to be paid by WELLING & PARTNERS LIMITED for the Shares upon exercise of the Put shall be an amount equal to the Bank‘s contribution to EGLA, by means of subscription for share capital, not exceeding, in any event, a maximum amount of USD 33.006.956,26 however, plus any further costs and interest expenditure, including cost of carry that might have incurred for the Bank in the course of the financing of its contributions to EGLA provided that the calculation of such costs shall be itemized and fully disclosed by the Bank to WELLING & PARTNERS LIMITED – (the „Put Price“).““

Líkt og þarna kemur nánar fram var ástæða þessarar lækkunar á söluréttarverðinu sögð vera sú að eigið fé Eglu hefði hækkað vegna hagstæðrar markaðsþróunar hinna keyptu hlutabréfa í Kaupþingi Búnaðarbanka hf.[151] Það leiddi til hlutafjárframlags Hauck & Aufhäuser við síðari hlutafjáraukningu Eglu hf. að fjárhæð allt að 12.956.772,26 Bandaríkjadölum, þ.e. lægra en kveðið var á um í söluréttarsamningnum. Af þeirri ástæðu hefðu aðilar ákveðið að breyta ákvæði söluréttarsamningsins um söluréttarverðið með þeim hætti sem þar var gerð grein fyrir.

5.7.4.2 Tölvupóstsamskipti Ralf Darpe og Hreiðars Más Sigurðssonar í mars 2004

Í mars 2004 áttu sér einnig stað samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar tölvupóstsamskipti milli annars vegar Hreiðars Más Sigurðssonar, þá forstjóra KB banka, og hins vegar Ralf Darpe, starfsmanns Société Générale. Sá síðarnefndi kom samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar að undirbúningi og gerð baksamninganna með þeim hætti sem áður hefur verið rakið, ásamt Michael Sautter, samstarfsmanni Darpe hjá franska bankanum. Rétt er að gera stuttlega grein fyrir efni þessara tölvupóstsamskipta að hluta til.

Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að 16. mars 2004 sendi Ralf Darpe tölvupóst til Hreiðars Más. Meginefni hans varðaði hugmyndir Darpe um hugsanleg viðskipti eða samstarf milli Société Générale og KB banka. Ekki er tilefni til að rekja það efni hans hér. Hins vegar komu í upphafi hans fram eftirfarandi athugasemdir sem varða efni skýrslunnar:

„Dear Hreidar,

I could not reach you by phone, hope you are well and everything goes fine in Iceland. When I look at your share price it seems that our transaction was the right thing to do. Congratulations for so much value creation! When I talk to Olafur he seems to be quite happy too. Hope you liked the Acrylic Tombstone that I sent last year …“

Darpe getur þess þarna að þegar litið sé til hlutabréfaverðs KB banka virðist viðskipti þeirra hafa verið vel heppnuð (e. „the right thing to do“) og óskar Hreiðari til hamingju með svo mikla verðmætasköpun. Ljóst er að Darpe vísar þarna til baksamninganna. Hann nefnir einnig að af samtölum við „Ólaf “ virðist hann vera ansi ánægður líka. Víst má telja af samhengi að þarna er átt við Ólaf Ólafsson. Loks minnist Darpe á „the Acrylic Tombstone“ (bókstaflega: „plastlegsteininn“) sem hann hafi sent árið á undan og kveðst vona að Hreiðari Má hafi líkað hann.[152]

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar verður ráðið að Hreiðar Már svaraði ekki þessum tölvupósti Darpe strax. Darpe ítrekaði hann því þremur dögum síðar, 19. mars 2004. Þessum síðari tölvupósti Darpe svaraði Hreiðar Már um hæl með tölvupósti sama dag. Í niðurlagi hans þakkaði Hreiðar fyrir og kvaðst vonast til að þeir gætu átt einhver viðskipti saman á þessu ári svo Darpe gæti heimsótt hann á nýja skrifstofu hans og „kíkt á lundann“ (e. „take a look at the puffin“) sem hann hefði á skrifborðinu sínu. Vitnað er til þessara orða í niðurlagi tölvupósts Hreiðars á frummáli hér til hliðar.[153]

5.7.5  Fyrri viðskipti Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners á grundvelli baksamninganna: Kauptilboð Kers hf. virkjar forkaupsrétt Welling & Partners

Líkt og fram hefur komið í umfjöllun um efni söluréttarsamningsins hafði samningurinn ekki aðeins að geyma ákvæði um sölurétt Hauck & Aufhäuser á hlutum sínum í Eglu  hf. til Welling & Partners heldur einnig ákvæði um forkaupsrétt Welling & Partners að hlutunum. Ákvæðið um forkaupsrétt Welling & Partners var í b-lið 2. gr. söluréttarsamningsins. Samkvæmt því veitti bankinn Welling & Partners Limited forkaupsrétt til þess að kaupa hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. fyrir fjárhæð jafnháa „söluréttarverðinu“ (e. „Put Price“), það er 33.454.372 Bandaríkjadali, í því tilviki ef bankanum hefði verið gert gilt tilboð í hlutina. Sérstaklega var tekið fram í ákvæðinu að forkaupsrétturinn og kaupverð samkvæmt honum væri óháð fjárhæð slíks tilboðs.

Að endingu var það ekki söluréttur Hauck & Aufhäuser heldur forkaupsréttur Welling & Partners sem notaður var til að koma fram þeim eigendaskiptum að hlutunum, frá Hauck & Aufhäuser til Welling & Partners, sem baksamningunum var einkum ætlað að tryggja. Það var gert í tveimur aðskildum atrennum, fyrst í apríl 2004 en svo í júní 2005.[154]

Eins og nánar greinir frá hér á eftir var tilboð Kers hf. til Hauck & Aufhäuser í hluti bankans í Eglu hf. í apríl 2004 undanfari að þessari fyrri sölu bankans á sömu hlutum til Welling & Partners. Það tilboð Kers hf. virkjaði forkaupsrétt Welling & Partners og leiddi til þess að Welling & Partners keypti hlutina af Hauck & Aufhäuser. Þýski bankinn seldi þá svo jafnskjótt til Kers hf. í eigin nafni en í reynd einungis sem fjárvörsluaðili fyrir Welling & Partners og þannig fyrir reikning og á áhættu Welling & Partners. Með þeim hætti var búið svo um hnútana formlega og út á við, þar á meðal í skjalagerð vegna viðskiptanna gagnvart kaupandanum Keri hf., að svo virtist sem Hauck & Aufhäuser væri sjálfur að selja eigin hluti í Eglu hf. á meðan bankinn hafði í reynd þegar selt hlutina Welling & Partners og stóð einungis að sölunni sem milliliður fyrir hönd þess félags samkvæmt fyrirmælum þess.

Þessum atvikum verður nú nánar lýst.

5.7.5.1 Martin Zeil sendir Guðmundi Hjaltasyni endanleg drög að tilboði Kers hf. í hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.

Á meðal gagna rannsóknarnefndar er tölvupóstur sem Guðmundur Hjaltason sendi 13. apríl 2004 til starfsmanns Samskipa hf. ásamt fyrirmælum um frágang bréfs til útsendingar.[155]155 Með tölvupóstinum fylgdi Word-skjal í viðhengi sem hafði að geyma drög að bréfi stíluðu á Martin Zeil hjá Hauck & Aufhäuser. Meginmál bréfsins var svohljóðandi:

„As we have discussed, Ker hf. is willing to give an offer to Hauck & Aufhäuser to buy shares in Egla hf. in the amount ISK 4,676,957, which is 32.3% of the nominal value of the share capital in Egla hf. After the transaction, Hauck & Aufhäuser share capital in Egla hf. amounts to ISK 2,562,043 or 26.14% [svo] of outstanding share capital.

The offered purchase price is USD 59,656,026. 

This offer is valid until 31 March 2004. [svo]“[156]

 Gögn rannsóknarnefndar veita ekki frekari upplýsingar um hvort eða hvenær bréfið sem þessi drög lúta að var sent í endanlegri mynd. Hins vegar er í gögnum rannsóknarnefndarinnar tölvupóstur frá Martin Zeil til Guðmundar Hjaltasonar, dagsettur degi síðar eða 14. apríl 2003. Af þessum tölvupósti má ráða að drögum Guðmundar að tilboði Kers hf. hafi, með áðurnefndu bréfi eða öðrum hætti, verið komið á framfæri við Hauck & Aufhäuser. Nánar tiltekið varðaði tölvupóstur Zeil einmitt slíkt tilboð, efnislega samsvarandi því sem Guðmundur hafði útbúið. Aukinheldur fylgdu honum í viðhengjum bæði drög að tilboði Kers hf. til Hauck & Aufhäuser sem og drög að kaupsamningi um hlutina milli Kers hf. og Hauck & Aufhäuser. Tölvupóstur Zeil til Guðmundar hljóðaði svo:

„Please find enclosed a draft for the offer to be issued by KER and a draft for the purchase contract between KER and Hauck & Aufhäuser in the further course of the transaction.

I assume that as soon as we receive the offer I can take the further steps towards the other party involved and that this party is instructed accordingly.“

Í fyrri hluta tilvitnaðs tölvupósts Zeil til Guðmundar Hjaltasonar er vikið að drögunum að tilboðinu og kaupsamningnum sem áður var minnst á. Í síðari hluta tölvupóstsins kemur hins vegar fram að Zeil reikni með því að jafnskjótt og Hauck & Aufhäuser taki á móti tilboðinu geti hann tekið næstu skref gagnvart „hinum aðilanum sem á hlut að máli“, sem Zeil nefnir svo, og að „sá aðili fái viðeigandi fyrirmæli“.

Ljóst má telja að með þessum ónefnda aðila var átt við Welling & Partners Limited eða Karim Van den Ende fyrir hönd þess félags – eða ef til vill fyrst og fremst Kaupþing hf. sem í raun stóð þar á bak við. Með „viðeigandi fyrirmælum“ (e. „instructed accordingly“) má á sama hátt telja ljóst að skírskotað hafi verið til forkaupsréttarákvæða söluréttarsamningsins og þess ferlis sem þau gerðu ráð fyrir að fylgja skyldi við framkvæmd þeirra.

Fyrra viðhengið með tölvupósti Zeil hafði að geyma ný drög að tilboði Kers hf. til Hauck & Aufhäuser í hluti bankans í Eglu hf., stíluð á bankann á heimilisfang hans í Frankfurt með Peter Gatti og Martin Zeil sem viðtakendur af hans hálfu. Efst í skjalinu stóð innan sviga: „(On the letterhead of KER)“. Yfirskrift tilboðsins samkvæmt drögunum var „Your participation in Egla hf.“ Tilboðið sjálft hljóðaði svo samkvæmt drögunum:

„Dear Mr. Gatti, dear Mr. Zeil,

with reference to the previous discussions we hereby extend to you an irrevocable and binding offer to acquire and buy shares in the nominal amount of ISK 4.676.970,00 in EGLA hf. equalling 32.3% of the aggregate share capital of EGLA hf. for the purchase price of

USD 59.656.025,54

(i.w.: USD fifty-nine million sixhundred fifty-six thousand and twenty five 54/100).

This offer is valid until April 30, 2004.

After the transaction Hauck & Aufhäuser will hold shares in the nominal amount of ISK 2.562.043,00 in EGLA hf., equalling 17,7% of the aggregate share capital of EGLA hf.

Best regards,“

Ef þessi tilboðsdrög eru borin saman við þau sem Guðmundur Hjaltason sendi til starfsmanns Samskipa hf. daginn áður má sjá að fjöldi hluta í Eglu hf., prósentur hlutafjár í félaginu og tilboðsfjárhæðin eru mjög áþekk. Í tilboðsdrögum Zeil er hins vegar leiðréttur eftirstandandi hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. eftir hin fyrirhuguðu viðskipti.[157]

Tölvupósti Zeil fylgdu einnig í viðhengi drög að kaupsamningi milli Hauck & Aufhäuser og Kers hf. um hlutina á grundvelli þessa tilboðs, það er um sama fjölda hluta og á sama verði. Óþarft þykir að rekja þau drög hér sérstaklega.

5.7.5.2  Guðmundur Hjaltason sendir Magnúsi Guðmundssyni hjá KBL og Hauck & Aufhäuser tilboð Kers hf. Hauck & Aufhäuser tilkynnir Welling & Partners um tilboðið

Gögn rannsóknarnefndar sýna að sama dag og Zeil sendi Guðmundi Hjaltasyni framangreind drög að tilboði Kers hf. í hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf., 14. apríl 2004, sendi Guðmundur tilboð sama efnis til Magnúsar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra KBL. Hið endanlega tilboð var að öllu leyti óbreytt frá framangreindum tilboðsdrögum Martin Zeil en ritað á bréfsefni Kers hf. og undirritað af Guðmundi.

Sama dag, 14. apríl 2004, er einnig dagsett bréf, sem er meðal gagna rannsóknarnefndarinnar, frá Hauck & Aufhäuser til Welling & Partners Limited, með Karim Van den Ende skráðan sem viðtakanda. Bréfið ber yfirskriftina „Put Option Agreement dated January 16, 2003“ og hljóðar svo:

„Dear Mr. Van den Ende,

pursuant to Clause 2 b) of the aforesaid agreement we hereby give notice that we have received a binding offer by Ker hf., Reykjavik, to buy shares in the nominal amount of ISK 4.676.957,00 in EGLA hf. ( = 32.3% of the aggregate share capital of EGLA hf.) for the purchase price of USD 59.656.025,54. Please find enclosed a copy of the offer by KER hf.

You are kindly requested to let us know at your earliest convenience if you wish to exercise your Pre-Emptive Right pursuant to Clause 2 a) of the aforesaid agreement with regard to the above mentioned number of shares and, if that is the case, to notify the exercise of your Right to us accordingly. The shares which are subject to the offer equal a portion of 64,61% of our aggregate participation in EGLA hf. The proportional put price according to Clause 2 a) of the agreement would be USD 21.325.794,44.“

Líkt og getið var um í bréfinu fylgdi því afrit af tilboði Kers hf., sama efnis og áður hefur verið lýst. Samkvæmt ofangreindu var í bréfinu, með vísan til b-liðar 2. gr. söluréttarsamningsins, tilkynnt um að bankinn hefði fengið tilboð Kers hf. í hendur. Tilboðinu var lýst nánar og óskað eftir að Welling & Partners léti vita við fyrsta tækifæri hvort félagið hygðist nýta sér forkaupsrétt sinn samkvæmt a-lið 2. gr. söluréttarsamningsins og ef svo væri að tilkynna beitingu forkaupsréttarins til bankans með viðeigandi hætti. Jafnframt var tilkynnt að hlutir sem tilboðið beindist að jafngiltu 64,61% af heildareign Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Kaupverð bréfanna í samræmi við það hlutfall og söluréttarverðið samkvæmt söluréttarsamningnum (e. „the proportional put price“) myndi vera 21.325.794,44 Bandaríkjadalir.[158] Eins og ráða má af bréfi Hauck & Aufhäuser var ekki veittur ákveðinn frestur til að svara erindinu heldur þess óskað að Welling & Partners svaraði „við fyrsta tækifæri“.

Áður en vikið er að svari Welling & Partners við þessu bréfi er rétt að gera stuttlega grein fyrir tilteknu skjali úr gögnum rannsóknarnefndar. Það varpar annars vegar ljósi á aðkomu og umsýslu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. í þessu ferli og hins vegar á tölulega þætti sem hlutaðeigandi aðilar veltu fyrir sér á þessum tíma, það er þegar fyrri viðskipti Welling & Partners og Hauck & Aufhäuser með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna voru í burðarliðnum.

5.7.5.3 Excel-skjal Eggerts J. Hilmarssonar hjá KBL með útreikningum varðandi tilboð Kers hf.

Á meðal gagna rannsóknarnefndarinnar er afrit tölvupósts sem ber með sér að hafa verið sendur 20. apríl 2004 til Eggerts J. Hilmarssonar hjá KBL.[159] Tölvupósturinn hafði yfirskriftina „Loan set-up.xls“ og geymdi ekkert efni í meginmáli. Með honum fylgdi Excel- skjal í viðhengi með framangreindu heiti. Excel-skjalið hafði að geyma eftirfarandi töflu:

Mynd Excel tafla

 Sjá má að þetta skjal er að stofni til sama Excel-skjal og það sem fjallað var um og birt í kafla 5.6.2 varðandi uppskiptingu hins upphaflega láns Kaupþings hf. til Welling & Partners í mars-apríl 2003. Heiti þess þá var „lending.xls“. Munurinn á milli skjalanna felst einkum í að búið er að bæta við efni skjalsins sem hér segir: Í fyrsta lagi dálki með yfirskriftinni „20.4.2004“ hægra megin við dálkana sem fyrir voru, í öðru lagi nýrri töflu í neðri hluta skjalsins hægra megin og í þriðja lagi athugasemd neðarlega til vinstri um 500.000 evra þóknun Hauck & Aufhäuser fyrir að framkvæma söluréttarsamninginn. Annað efni skjalsins er í meginatriðum eins, þótt vissar minni háttar breytingar og leiðréttingar mætti benda á.[160] Fjallað er nánar um tvær fyrrnefndu viðbæturnar í skjalinu hér á eftir.

Dálkur sem bætt hefur verið við hægra megin við upphaflegu dálkana hefur yfirskriftina „20.4.2004“ eða sömu dagsetningu og tölvupósturinn sem Excel-skjalið var sent með. Í hinum nýja dálki eru lánveitingarnar til aflandsfélaganna þriggja uppreiknaðar miðað við fyrrgreindan dag, sem og heildarlánveitingar hvors banka fyrir sig og samtala allra lánveitinganna.

Í töflunni neðarlega til hægri í skjalinu, sem einnig hefur verið bætt við frá fyrri útgáfu skjalsins, eru tveir dálkar með nánar auðkenndum línum.

Í vinstri dálkinum eru færðar inn upplýsingar og útreikningar sem greinilega tengjast þeim kaupum Welling & Partners Limited á hlutum í Eglu hf. af Hauck & Aufhäuser á grundvelli forkaupsréttarins sem voru í burðarliðnum á þessum tíma. Fjárhæðir eru augsýnilega í Bandaríkjadölum. Fram kemur kaupverðið samkvæmt tilboði Kers hf. („Sale Price“ – 59.656.025,54), staða hinnar handveðsettu innstæðu Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser („Deposit“ – 34.922.480,89),[161] kaupverð samkvæmt forkaupsrétti Welling & Partners („Put Price“ – 21.614.864,75),[162] eignastaða Welling & Partners („Balance“ – 72.963.641,68),[163] áhvílandi lán Welling & Partners („Loans“ – 39.244.894,83) og loks nettóeignastaða Welling & Partners („Net Balance“ – 33.718.746,85).[164]

Í dálknum hægra megin í töflunni er hins vegar reiknað út hver staða Welling & Partners hefði verið miðað við það ef viðskiptin hefðu varðað alla hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. á sömu kjörum og hið fyrirliggjandi tilboð Kers hf. kvað á um.[165] Hlutfallslega er þá reiknað út í upphafi að söluverð allra hlutanna hefði verið 92.907.666,56 Bandaríkjadalir. Útreikningar sem koma þar á eftir byggja síðan á sömu forsendum og í vinstri dálkinum og má vísa til skýringa með þeim hér á undan, að breyttu breytanda. Sjá má að áhvílandi lán á Welling & Partners eru jöfnuð upp og áætluð 40 milljónir Bandaríkjadala, væntanlega þá að teknu tilliti til frekari hækkunar þeirra í óákveðinn tíma. Miðað við þessar forsendur er komist að þeirri niðurstöðu að nettóeignastaða Welling & Partners eftir slík ímynduð viðskipti með alla hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. hefði numið 53.775.795,45 Bandaríkjadölum. Sú fjárhæð virðist svo vera umreiknuð, miðað við gengi Bandaríkjadals sem tilgreint er 74 (krónur fyrir hvern Bandaríkjadal), í 3.979.408.863,28 íslenskar krónur.[166] Neðst er svo greinilega deilt í síðastnefnda tölu með tveimur og fundin út talan 1.989.704.431,64 sem hlýtur þá einnig að standa fyrir fjárhæð í íslenskum krónum.

Með öðrum orðum er í þessum síðastnefnda dálki töflunnar reiknuð út eignastaða Welling & Partners á þessum tímapunkti ef tilboð Kers hf. hefði tekið til allra hluta Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. sem baksamningarnir vörðuðu og hvernig þær eignir hefðu deilst í tvennt.

Víkur þá að svari Welling & Partners við áðurnefndu bréfi Hauck & Aufhäuser.

5.7.5.4  Welling & Partners tilkynnir Hauck & Aufhäuser um beitingu forkaupsréttar

Líkt og áður var getið um sendi Hauck & Aufhäuser 14. apríl 2004 bréf til Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners með tilkynningu um tilboð Kers hf. í hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Þar var óskað eftir því að Welling & Partners tilkynnti bankanum við fyrsta tækifæri hvort félagið hygðist beita forkaupsrétti sínum og þá með hvaða hætti. Svör Welling & Partners bárust Hauck & Aufhäuser með tveimur bréfum Welling & Partners sem dagsett voru 20. apríl 2004 eða sama dag og áðurnefndur tölvupóstur og Excel-skjal frá Eggerti J. Hilmarssyni hjá KBL.

Bréfin voru stíluð á Martin Zeil sem viðtakanda af hálfu Hauck & Aufhäuser og bæði undirrituð af Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners. Vitnað er til bréfanna tveggja í heild sinni hér á eftir og efni hvors fyrir sig nánar þýtt og dregið saman að því marki sem þörf krefur.

Annað bréfanna bar yfirskriftina „re : Put Option Agreement / Fiduciary Agent“. Það hljóðaði svo:

„Dear Mr. Zeil,

Please find enclosed a letter in which we (Welling & Partners Limited) submit our notification to your Bank in order to exercise our Pre-emptive Rights according to the Put Option Agreement, cf. Clause 2, an agreement duly signed on the 16th of January 2003 between ourselves and your Bank.

In relation to the offer made by Ker hf. to acquire and to buy shares in the nominal amount of ISK 4,676,957,- in EGLA hf. (the „Shares“) and in relation to the exercise of the Preemptive Rights, our Company wishes your Bank to act – with effect from the transfer of the Shares pursuant to Clause 2b of the Put Option Agreement – as a Fiduciary Agent on our behalf, and therefore to accept the offer from Ker hf. and sell these Shares in the name of your Bank but for the account and at the risk of our Company.

Your Bank‘s obligation is limited to the performance of selling the Shares and to deliver the consideration received in exchange for the Shares into the account of our Company with your Bank. In course of its duties your Bank will consequently sign all relevant agreements and documents and perform the notification to EGLA hf. in order to transfer the ownership of the shares to Ker hf., as the Shares have not been issued.

We hereby confirm that the Put Option Agreement and its stipulations remain unchanged and in force with regard to the residual number of Shares in EGLA hf.

Do not hesitate to contact us for any complementary query on the matter.“

Í bréfi þessu er í upphafi vísað til hins bréfsins, sem gerð eru skil hér á eftir, og sagt að með því tilkynni Welling & Partners bankanum um beitingu forkaupsréttar samkvæmt 2. gr. söluréttarsamningsins. Því næst er vísað annars vegar til tilboðs Kers hf. í hluti að nafnvirði 4.676.957 íslenskra króna í Eglu hf. og hins vegar til forkaupsréttar félagsins og óskað eftir að bankinn tæki að sér, frá og með framsali hlutanna til Welling & Partners samkvæmt ákvæðum b-liðar 2. gr. söluréttarsamningsins (sem jafnframt áskildi að Welling & Partners greiddi fyrir hlutina samhliða slíku framsali), hlutverk fjárvörslumanns (e. „Fiduciary Agent“) fyrir Welling & Partners. Sem slíkur átti bankinn þá að samþykkja tilboð Kers hf. og selja hlutina í nafni bankans en fyrir reikning og á ábyrgð Welling & Partners. Einnig var tekið fram í bréfinu að skyldur bankans í slíku hlutverki takmörkuðust við að standa að sölu hlutanna og að greiða söluandvirði þeirra inn á bankareikning Welling & Partners hjá bankanum. Bankanum var jafnframt falið að skrifa undir alla viðkomandi samninga og skjöl og standa að tilkynningu til Eglu hf. í því skyni að yfirfæra eignarhald hlutanna til Kers hf., þar sem hlutabréf vegna þeirra hefðu ekki verið gefin út.

Hitt bréfið, sem vísað var til í því fyrrnefnda, bar yfirskriftina „re : Put Option Agreement dated January 16, 2003“. Það hljóðaði svo:

„Dear Mr. Zeil,

With reference to your notification letter in which it is required that you are notified in the event that our company wishes to exercise its Pre-emptive Right according to Clause 2 in the above-mentioned Put Option Agreement, we hereby make the following statement.

According to Clause 2 b) of the aforementioned Put Option Agreement, we hereby notify to yourselves that we wish to exercise our Pre-emptive Rights in relation to an offer made by Ker h.f. where this company wishes to acquire and buy shares in the nominal amount of ISK 4.676.957,- in EGLA hf., equalling 32,3% of the aggregate share capital of EGLA hf.

The current participation in EGLA hf. is the nominal amount of ISK 7.239.000 shares, therefore the offer represents 64,61% of the participation that the Bank currently holds in EGLA hf. In consequence, the Put Price shall be in the same proportion as the offer and therefore be equal to USD 21.325.794,44, which shall be debited from our account with your bank.“

Meginefni þessa bréfs var yfirlýsing Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser um að félagið óskaði eftir að beita forkaupsréttinum, í samræmi við áðurnefnt ákvæði söluréttarsamningsins, í tilefni af tilboði Kers hf. í fyrrnefnda hluti í Eglu hf. sem jafngiltu 32,3% af heildarhlutafé félagsins. Fram kom einnig að heildareign Hauck & Aufhäuser  í Eglu hf. fyrir viðskiptin næmi 7.239.000 hlutum að nafnvirði í íslenskum krónum. Þar með beindist tilboðið að 64,61% af þáverandi eign bankans í félaginu. Fyrir vikið skyldi söluréttarverðið (e. „the Put Price“), eða kaupverð Welling & Partners fyrir hlutina, vera í sama hlutfalli og tilboðið og nema 21.325.794,44 Bandaríkjadölum sem skyldu greiðast af bankareikningi félagsins hjá bankanum.

Af gögnum rannsóknarnefndar verður ráðið að þessi viðskipti hafi gengið eftir á þann hátt sem framangreind gögn gerðu ráð fyrir.

Engar upplýsingar virðast hafa birst opinberlega um kaup Kers hf. á hlutunum í Eglu hf. á þeim tíma sem þau viðskipti áttu sér stað, að minnsta kosti ekki ef horft er til frétta í fjölmiðlum. Þykir þá mega líta fram hjá þeim óljósu og ónákvæmu upplýsingum sem óbeint komu fram í fréttatilkynningu um sölu Eglu hf. á hlutum í KB banka í febrúar þetta sama ár eða um tveimur mánuðum áður og voru teknar upp í stuttum frásögnum fjölmiðla af þeim viðskiptum, þ.e. um að Hauck & Aufhäuser hygðist minnka hlut sinn í KB banka og Ker hf. bæta við sig „að sama skapi“. Eins og gefur að skilja komu alls engar upplýsingar fram á þessum tíma eða síðar um aðild Welling & Partners að þessum viðskiptum.

Kaupverð í þessum kaupum Kers hf. á hlutum í Eglu hf. af Hauck & Aufhäuser var fjármagnað með afrakstri þeirrar sölu Eglu hf. á hlutum í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. 20. febrúar 2004 sem gerð var grein fyrir í kafla 5.7.2.[167] Eins og þar kom fram var nettóhagnaður af sölunni, 4.701.898.757 krónur, lagður inn á bankareikning Eglu hf. hjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf. 25. febrúar 2004.[168] Um einni viku síðar, 3. mars s.á. og næstu daga, virðist öll fjárhæðin hafa verið lögð inn á bankareikninga í eigu Kaupþings Búnaðarbanka hf. Tveimur mánuðum síðar, 13. maí 2004, sýna svo gögn rannsóknarnefndar að bankinn sendi í nafni Eglu hf. símgreiðslu að fjárhæð 59.766.308,84 Bandaríkjadalir til Hauck & Aufhäuser í Frankfurt.[169] Skýring með símgreiðslunni var: „Payment according to share purchase agreement dated 11 May 2004“.[170]

Af ofangreindum gögnum og upplýsingum má sjá að tilboð Kers hf. í hlutina í Eglu hf. nam 59.656.025,54 Bandaríkjadölum og skyldi sú fjárhæð renna óskipt til Welling & Partners. Samkvæmt því sem fram kom um greiðslu kaupverðsins hér næst á undan nam það endanlega nokkru hærri fjárhæð (á milli fjárhæðanna munar 110.283 Bandaríkjadölum).[171] Í fyrrgreindum bréfaskiptum Welling & Partners og Hauck & Aufhäuser kom einnig fram að kaupverð sem Welling & Partners bar að greiða fyrir hlutina hafi reiknast sem 21.325.794,44 Bandaríkjadalir og skyldi dragast af reikningi félagsins hjá bankanum.[172] Mismunur á söluandvirði hlutanna sem rann til Welling & Partners og því kaupverði sem félaginu bar að greiða á móti fyrir sömu hluti nam því 38.440.514 Bandaríkjadölum.

Í umfjöllun hér á eftir um uppgreiðslur lána Welling & Partners sem áttu sér stað í beinu framhaldi af þessum fyrri viðskiptum á grundvelli baksamninganna kemur svo nánar fram hverjar voru eftirstöðvar þeirra tæplega 60 milljóna Bandaríkjadala, sem samkvæmt ofangreindu runnu til Welling & Partners í þeim viðskiptum, þegar slík áhvílandi lán félagsins höfðu að fullu verið greidd upp.

5.7.5.5 Gögn rannsóknarnefndar um aðra ráðagerð um þessi viðskipti með Eglu hf. sem kaupanda en ekki Ker hf.

Rétt er að fram komi að lokum um þau viðskipti sem fjallað hefur verið um í þessum kafla að meðal gagna rannsóknarnefndar eru gögn sem benda til þess að aðilar þeirra, þ.e. starfsmenn Hauck & Aufhäuser og fulltrúar Kers hf., Guðmundur Hjaltason og Ólafur Ólafsson, hafi skömmu fyrr, eða í mars 2004, haft áform um að þessi viðskipti yrðu með öðrum hætti. Áður en sú leið var valin sem áður var lýst að láta Ker hf. gera Hauck & Aufhäuser tilboð í, og kaupa svo, umrædda hluti í Eglu hf., að nafni til af Hauck & Aufhäuser en í reynd af Welling & Partners, virðist þannig hafa staðið til að Egla hf. en ekki Ker hf. gerði Hauck & Aufhäuser slíkt tilboð og keypti hlutina með sama hætti. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar var þá fyrirhugað að slík viðskipti yrðu um sama fjölda hluta og á sama verði og í stuttu máli alveg hin sömu nema hvað Egla hf. en ekki Ker hf. væri kaupandi.

Þessi ráðagerð virðist hafa verið langt komin samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nefndarinnar. Meðal annars er í gögnum nefndarinnar að formi til fullfrágenginn kaupsamningur milli Eglu hf. og Hauck & Aufhäuser. Hann er undirritaður af Peter Gatti og Martin Zeil fyrir hönd Hauck & Aufhäuser en af Ólafi Ólafssyni fyrir hönd Eglu hf. og varðar nákvæmlega sams konar viðskipti að öllu leyti sem máli skiptir nema hvað Egla hf. er kaupandi samkvæmt þeim samningi en ekki Ker hf. Þessi samningur er dagsettur 25. mars 2004 eða um mánuði áður en gengið var frá þeim viðskiptum Kers hf. og Hauck & Aufhäuser sem hér hefur verið lýst um sömu hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.

Helst virðist hér verða ráðið að horfið hafi verið frá þessari ráðagerð um aðild Eglu hf. að viðskiptunum í þágu þess að láta Ker hf. standa að þessum viðskiptum við Hauck & Aufhäuser eins og nánar hefur verið lýst í þessum kafla. Þetta má annars vegar ráða af innbyrðis tímasetningum þessara gerninga en einkum þó af öðrum gögnum rannsóknarnefndarinnar og samhengi þeirra við þau gögn sem hér hafa verið rakin. Umrædd gögn benda til að Ker hf. hafi endanlega verið látið eiga aðild að þessum viðskiptum við Hauck & Aufhäuser en ekki Egla hf., hvernig sem síðar hafi farið með ráðstöfun hinna keyptu hluta í Eglu hf. eða annars verið greint frá þessum viðskiptum út á við í einstökum tilvikum.

Ekkert haldbært kom fram við rannsókn nefndarinnar um ástæður á bak við þetta hugsanlega misræmi um hvort Ker hf. eða Egla hf. hafi verið kaupandi í þessum viðskiptum um hluta af hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Líkt og fyrr sagði telur rannsóknarnefnd fyrirliggjandi gögn nefndarinnar og samhengi þeirra benda til að í raun hafi það verið Ker hf. Umfram það að benda á þetta atriði, svo sem hér hefur verið gert, telur rannsóknarnefndin annars óþarft að fjalla frekar um það enda hefur það ekki sjáanlega efnislega þýðingu fyrir meginatriði í rannsókn nefndarinnar.

5.7.6  Skuldir Welling & Partners greiddar upp að fullu

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar voru öll áhvílandi lán Welling & Partners greidd upp í maí 2004, það er í næsta mánuði eftir að samkomulag náðist um þau viðskipti sem lýst var í síðasta kafla og í sama mánuði og söluandvirðið í viðskiptunum var sent Hauck & Aufhäuser.

Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að í maí 2004 hófu Bjarki Diego, sem þá var orðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs KB banka, og Eggert J. Hilmarsson, þá líkt og áður lögfræðingur hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., að undirbúa og framkvæma uppgreiðslu lána Welling & Partners. Er þá bæði átt við bein og óbein lán KB banka (upphaflega Kaupþings hf.) og KBL sem hvíldu endanlega á félaginu.[173]

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar átti uppgreiðsla lána Welling & Partners sér stað um og upp úr miðjum maí 2004 á þann hátt að Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners sendi Hauck & Aufhäuser skrifleg fyrirmæli um að framkvæmdar skyldu nánar tilgreindar símgreiðslur af bankareikningi félagsins hjá Hauck & Aufhäuser og inn á bankareikninga hjá KBL. Bankareikningar viðtakenda sem símgreiðslufyrirmæli Welling & Partners tilgreindu tilheyrðu Welling & Partners sjálfu, KV Associates S.A. og Allan Corporation. Símgreiðslurnar voru allar í Bandaríkjadölum og námu samtals um 41,3 milljónum Bandaríkjadala. Af gögnum rannsóknarnefndarinnar er ljóst að símgreiðslurnar voru framkvæmdar, samtals að fyrrgreindri fjárhæð, og einnig að KBL hafði svo milligöngu um að koma fjármunum til KB banka til að greiða upp þau af áðurnefndum lánum til aflandsfélaganna sem stóðu þá hjá þeim banka.

Höfuðstóll allra lána Kaupþings hf. og KBL til Welling & Partners og áðurnefndra tveggja aflandsfélaga sem voru milliliðir í lánveitingum bankanna tveggja til Welling & Partners nam rúmlega 36,1 milljón Bandaríkjadala, sbr. upplýsingar um fjárhæðir lánanna í kafla 5.6.2. Fjárhæðir fyrrnefndra símgreiðslufyrirmæla um uppgreiðslur lánanna stemma í meginatriðum við uppgreiðsluvirði lánanna á þessum tíma, það er höfuðstól með vöxtum og í sumum tilvikum kostnaði.[174] Ljóst er að með fyrrnefndum símgreiðslum greiddi Welling & Partners upp öll áðurnefnd áhvílandi lán KBL og Kaupþings hf. til félagsins.

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar má ráða að Welling & Partners hafi gefið Hauck & Aufhäuser þau fyrirmæli að eftirstöðvar söluandvirðisins fyrir hlutina í Eglu hf., það er að frádregnum fyrrnefndum símgreiðslum vegna uppgreiðslu lána félagsins, yrðu ávaxtaðar með nánar tilteknum hætti. Af sömu gögnum sést að þær eftirstöðvar námu um 18,4 milljónum Bandaríkjadala.[175]

5.7.7  Fyrirhuguð kaup „Kers hf. og/eða hluthafa Kers hf.“, sem gengu ekki eftir, á eftirstandandi hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.

Hér á undan hefur komið fram að sala á hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. til Welling & Partners samkvæmt ákvæðum baksamninganna hafi farið fram í tveimur atrennum, annars vegar um það bil 2/3 hlutar í apríl-maí 2004 en eftirstandandi hlutirnir í júní-júlí 2005.[176] Gögn rannsóknarnefndar sýna hins vegar einnig að gerðar voru ráðstafanir til að síðari salan færi fram fyrr, nánar tiltekið á tímabilinu desember 2004 til febrúar 2005, án þess þó að slík viðskipti gengju eftir. Enda þótt viðskiptin hafi ekki gengið eftir á þeim tíma telur rannsóknarnefndin tilefni til að gera stuttlega grein fyrir atvikum að þessu leyti, og gögnum sem þau varða, í þessum kafla. Ástæða þess er einkum sú að gögn sem hér verða rakin varpa almennt séð ljósi á aðkomu KBL í undirbúningi bréfasendinga Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser vegna forkaupsréttar Welling & Partners á grundvelli baksamninganna. Þau gögn, og önnur sem hér verða rakin, standa einnig í samhengi við gögn sem tengjast hinni endanlegu sölu á eftirstandandi hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. í júní 2005.

Á meðal gagna rannsóknarnefndar er afrit bréfs, ritað á bréfsefni Kers hf., dagsett 16. desember 2004 og stílað á Hauck & Aufhäuser á heimilisfang bankans í Frankfurt am Main. Bréfið tilgreinir Martin Zeil sem viðtakanda af hálfu bankans og undir það skrifar Guðmundur Hjaltason fyrir hönd Kers hf. Bréfið hljóðar svo:

„Dear Martin.

As we have discussed, Ker hf. and/or Ker‘s shareholders are willing to give an offer to Hauck & Aufhäuser to buy the shares in Egla hf. in the nominal amount of ISK 2.562.043 which is 23,12% of the nominal value of the share capital in Egla hf. After the transaction, Hauck & Aufhäuser will not own any share capital in Egla hf.

The offered purchase price is ISK 4.275.000.000 or equivalent in USD. This price is based on the prevailing market price of the shares of Egla hf. in KB bank at 448.

Based on the current exchange rate of ISK 63.75 for one USD the amount in USD is around 67 million.

This offer is valid until 31 December 2004.“

Samkvæmt bréfinu bauðst Ker hf. og/eða hluthafar sama félags til að kaupa eftirstandandi hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. fyrir 4.275.000.000 krónur eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í Bandaríkjadölum, sem tilgreind var um 67 milljónir Bandaríkjadala. Eftirstandandi eign Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. var tilgreind sem 2.562.043 hlutir að nafnvirði eða 23,12% af nafnvirði hlutafjár í félaginu.

Ráða má af gögnum rannsóknarnefndar að þessu tilboði Kers hf. og/eða hluthafa félagsins til Hauck & Aufhäuser hafi fylgt sams konar atburðarás varðandi fyrirhugaða beitingu forkaupsréttar Welling & Partners og átti sér stað eftir tilboð Kers hf. í apríl 2004 sem fjallað var um í kafla 5.7.5. Á meðal gagna rannsóknarnefndar er þannig afrit af bréfi  frá Hauck & Aufhäuser til Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners sem er í meginatriðum sams konar og bréfið sem bankinn sendi félaginu eftir áðurnefnt fyrra tilboð Kers hf. Umrætt bréf er dagsett 21. desember 2004 og er undirritað af Martin Zeil ásamt öðrum starfsmanni Hauck & Aufhäuser. Yfirskrift bréfsins er „Put Option Agreement dated January 16, 2003, and amended on March 08, 2004“. Það hljóðar svo:

„Dear Mr. Van den Ende,

pursuant to Clause 2 b) of the aforesaid agreement we hereby give notice that we have received a binding offer by KER hf., Reykjavik, to buy shares in the nominal amount of ISK 2.562.043 in EGLA hf. ( = 23,12 % of the aggregate share capital of EGLA hf.) for the purchase price of USD 67.058.823,52. Please find enclosed a copy of the offer by KER hf.

You are kindly requested to let us know at your earliest convenience if you wish to excercise your Pre-emptive Right pursuant to Clause 2 a) of the aforesaid agreement with regard to the above mentioned number of shares and, if that is the case, to notify the exercise of this Right to us accordingly

The proportional put price according to Clause 2 a) of the aforementioned Agreement would be USD 11.681.161,82.

If you wish a settlement similar to the one accomplished in April 2004, you are kindly requested to provide us with the adequate instructions.

Please take in consideration, that the offer of KER hf. expires on Dec. 31. 2004 and therefore the purchase agreement has to be signed before that date.“

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar áttu Karim Van den Ende og Eggert J. Hilmarsson, starfsmaður KBL, í tölvupóstsamskiptum að kvöldi 22. desember 2004. Samskiptin vörðuðu drög að tveimur bréfum sem Van den Ende skyldi senda til Hauck & Aufhäuser. Í tölvupósti Eggerts til Van den Ende sagði nánar tiltekið:

„Hi Karim,

Please find the draft letters to be sent to Hauck & Aufhäuser today, duly signed by you.

Please overview them and give me a call when you are ready.“

Eggert gat þarna um drög að bréfum sem senda ætti Hauck & Aufhäuser þennan dag (þ.e. 23. desember 2004 þar sem tölvupóstur Eggerts var sendur eftir miðnætti aðfaranótt þess dags), undirrituð af Van den Ende. Eggert óskaði þess að Van den Ende færi yfir þau og hringdi í Eggert þegar hann væri tilbúinn. Ljóst þykir að hér var átt við drög tveggja bréfa með svörum Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser við áðurnefndu bréfi bankans til félagsins, dags. 21. desember 2004. Einnig er ljóst að umrædd samskipti Eggerts og Van den Ende komu til vegna yfirferðar yfir drög að slíkum bréfum sem þegar lágu fyrir.[177]

Á meðal gagna rannsóknarnefndar eru, í samræmi við ofangreint, afrit tveggja bréfa Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser, dagsett 23. desember 2003, sem stíluð eru á Martin Zeil af hálfu bankans og undirrituð af Karim Van den Ende af hálfu félagsins. Líkt og með bréf Hauck & Aufhäuser til Welling & Partners samkvæmt framangreindu eru svarbréf Welling & Partners í meginatriðum eins að efni til og svarbréf félagsins til bankans í apríl 2004 varðandi beitingu forkaupsréttar félagsins þá. Annað bréfið ber yfirskriftina „re: Put Option Agreement / Fiduciary Agent.“ og hljóðar svo:

„Dear Mr. Zeil,

Please find enclosed a letter in which we (Welling & Partners Limited) submit our notification to your Bank in order to exercise our Pre-emptive Rights according to the Put Option Agreement, cf. Clause 2, an agreement duly signed on the 16th of January 2003, and amended on the 8th of March 2004, between ourselves and your Bank.

In relation to the offer made by Ker hf. and/or Ker‘s shareholders to acquire and to buy shares in the nominal amount ISK 2.562.043,- in EGLA hf. (the „Shares“) and in relation to the exercise of the Pre-emptive Rights, our Company wishes the Bank to act as a Fiduciary Agent and remain the exclusive owner of the Shares towards Ker hf. and/or Ker‘s shareholders and therefore to accept the offer from Ker hf. and/or Ker‘s shareholders and sell these in the name of the Bank but for the account and at the risk of our Company.

The Bank‘s obligation is limited to the performance of selling the Shares and to deliver the consideration received in exchange for the Shares into the account of the Company with your Bank. In course of its duties the Bank will consequently sign all relevant agreements and documents and perform the notification to EGLA hf. in order to transfer the ownership of the shares to Ker hf. and/or Ker‘s shareholders, as the Shares have not been issued.

Our Company wishes the Bank to accept the offer from Ker hf. and/or Ker‘s shareholders today or at the latest tomorrow, in order to conclude the transaction at the 30th of December or at the latest 31st of December 2004. The consideration received in exchange for the Shares shall be credited into the account of the Company in USD. As the offer is put forward in ISK, the amount in USD shall be based on the exchange rate of ISK for one USD at the date of payment by Ker hf. and/or Ker‘s shareholders.

Subsequent to this transaction your Bank will not hold any participation in EGLA hf. According to clause 9 of the Put Option Agreement the Agreement shall terminate automatically upon the final transfer of the Shares to our Company or its designee. We hereby confirm that upon the completion of the aforementioned transaction the Put Option Agreement is automatically terminated.

Do not hesitate to contact us for any complementary query on that matter.“

Þetta bréf er að meginefni, og að talsverðu leyti orðrétt, eins og bréf Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser, dags. 20. apríl 2004. Að breyttu breytanda má því hér vísa til samantektar um efni þess bréfs í kafla 5.7.5.4. Rétt er að draga fram að hér sem fyrr gerðu fyrirmæli Welling & Partners ráð fyrir því að Hauck & Aufhäuser kæmi fram sem seljandi hlutanna gagnvart tilboðsgjafanum „Keri hf. og/eða hluthöfum Kers hf.“ Í því fólst að Hauck & Aufhäuser tæki tilboðinu í eigin nafni og seldi hlutina með öllum skjalafrágangi sem það útheimti en væri þó í reynd einungis fjárvörsluaðili fyrir Welling & Partners, fyrir reikning og á áhættu félagsins. Hvað þau fyrirmæli varðar er þetta bréf að einu leyti frábrugðið fyrra bréfinu. Hér var hnykkt frekar á þessu eðli erindisrekstrar Hauck & Aufhäuser fyrir Welling & Partners gagnvart tilboðsgjafanum með þeim orðum að bankinn kæmi eftir sem áður fram sem „eini eigandi hlutanna gagnvart Keri hf. og/eða hluthöfum Kers hf.“ (e. „remain the exclusive owner of the Shares towards Ker hf. and/or Ker‘s shareholders“) og gengi þannig frá sölunni.

Munurinn á milli þessa bréfs Welling & Partners og bréfsins í apríl 2004 liggur annars eðlilega einkum í því að um önnur viðskipti átti að vera að ræða. Einnig er í bréfinu (fjórða efnisgrein) vikið að atriðum varðandi tímasetningu viðskiptanna og gengi gjaldmiðla miðað við hvernig greiðslu kaupverðs yrði háttað. Þá er í niðurlagi bréfsins (fimmtu efnisgrein) vikið að því að með þessum fyrirhuguðu síðari viðskiptum hefði Hauck & Aufhäuser selt eftirstöðvar eignarhluta bankans í Eglu hf. og því leiddi af 9. gr. söluréttarsamningsins að samningurinn félli sjálfkrafa úr gildi við uppgjör þessara viðskipta.

Hitt bréfið frá Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser, dags. 23. desember 2004, ber yfirskriftina „re : Put Option Agreement dated January 16, 2003, and amended on March 8 2004“. Það hljóðar svo:

„Dear Mr. Zeil,

With reference to your notification letter, dated December 21, 2004, in which it is required that you are notified in the event that our company wishes to exercise it Pre-emptive Right according to Clause 2 in the abovementioned Put Option Agreement, we hereby make the following statement.

According to Clause 2 b) of the aforementioned Put Option Agreement, we hereby notify to yourselves that we wish to exercise our Pre-emptive Right in relation to an offer made by Ker hf. and/or Ker‘s shareholders where this company (those companies) wish(es) to acquire and buy shares in the nominal amount of ISK 2.562.043,- in EGLA hf., equalling 23,12% of the aggregate share capital of EGLA hf.

The initial participation in EGLA hf. was the nominal amount of ISK 7.239.000 shares, whereof 64,61% of the participation has already been sold. The offer therefore represents 35,39% of the initial participation. In consequence, the Put Price shall be in the same proportion as the offer and therefore be equal to USD 11.681.161,82, which shall be debited from our account with your Bank.“

Þetta bréf er nánast orðrétt samhljóða sams konar tilkynningu Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser í apríl 2004, sbr. kafla 5.7.5.4. Þar fyrir utan eru atriði sem eðli máls samkvæmt voru ólík, það er um fjölda hluta sem viðskiptin áttu að varða (2.562.043 hlutir að nafnvirði), hlutfall þeirra af heildarhlutafé Eglu hf. (23,12%) og kaupverðið samkvæmt forkaupsrétti Welling & Partners. Sem fyrr skyldi kaupverðið í samræmi við ákvæði baksamninganna vera hlutfall af söluréttarverðinu (e. „Put Price“), nánar tiltekið sama hlutfall (35,9%) og milli annars vegar fjölda þeirra hluta sem viðskiptin áttu að taka til og hins vegar upphaflegs fjölda hluta Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. (þarna tilgreindir 7.239.000 hlutir). Á sama hátt og áður var kveðið á um það að kaupverðið, 11.681.161,82 Bandaríkjadalir, skyldi tekið út af bankareikningi Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser sem ekki var nánar tilgreindur.

Af gögnum rannsóknarnefndar er sem fyrr segir ljóst að ekki varð af þessum fyrirhuguðu viðskiptum.[178] Þess í stað voru eftirstandandi hlutir Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. seldir um hálfu ári síðar, í júní 2005, og er nánari grein gerð fyrir þeim viðskiptum hér á eftir.

5.7.8  Samantekt og ályktanir rannsóknarnefndar

Rannsóknarnefndin telur ekki tilefni til að draga hér sérstaklega saman eða setja fram ályktanir um efni þessa kafla að því er varðar þá hlutabréfasölu Eglu hf. sem fram fór í febrúar 2004 eða aðdraganda hennar. Sama máli gegnir um gerð viðaukans við baksamningana um lækkun söluréttarverðsins í mars-apríl 2004 og þau tölvupóstsamskipti milli Ralf Darpe og Hreiðars Más Sigurðssonar í mars 2004 sem rakin voru. Umfjöllun um þessi atriði í kaflanum stendur þannig nægilega fyrir sínu að mati nefndarinnar, að teknu tilliti til meginviðfangsefna skýrslunnar. Þó er aðeins vikið að hlutabréfasölunni í febrúar 2004 í tilteknu samhengi hér á eftir.

Í kaflanum er gerð grein fyrir fyrri viðskiptum Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna. Þau áttu sér stað í apríl-maí 2004. Út á við var þar um að ræða kaup Kers hf./Eglu hf. (sbr. hér á eftir) á sömu hlutum í Eglu hf. af Hauck & Aufhäuser. Lítið eða ekkert virðist hafa verið fjallað um þessi viðskipti opinberlega á þessum tíma. Þó má benda á að þau áttu sér stað áður en lágmarkstími eignarhalds samkvæmt kaupsamningnum við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum rann út en fyrir því var sótt um og fengin sérstök heimild viðskiptaráðherra, líkt og nánar kom fram í kaflanum.

Gerð var grein fyrir tilteknu hugsanlegu misræmi sem finna má um það hver hinn „opinberi“ kaupandi að hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. hafi þarna verið. Með því er átt við kaupandann sem að endingu eignaðist hlutina og átti þau viðskipti á yfirborðinu við Hauck & Aufhäuser sem seljanda hlutanna en í raun einungis í gegnum þýska bankann sem millilið fyrir Welling & Partners, sem áður hafði eignast hlutina með beitingu forkaupsréttar. Gögn rannsóknarnefndar benda til að sá kaupandi hafi í reynd verið Ker hf. en finna má önnur gögn, þar á meðal opinberlega aðgengileg gögn, sem tilgreina Eglu hf. sem kaupandann. Ekki er unnt að útiloka að einhverjar aðrar eða frekari ráðstafanir en rannsóknarnefnd hefur upplýsingar um hafi átt sér stað með eignarhald hlutanna eftir þau viðskipti sem hér var lýst. Óháð því hefur þetta atriði enga sérstaka þýðingu fyrir meginatriði í rannsókn nefndarinnar sem að þessu leyti er vitaskuld aðkoma Welling & Partners að þessum viðskiptum bak við tjöldin sem raunverulegs seljanda hlutanna og þess sem naut alls hagnaðar af viðskiptunum.

Af umfjöllun í kaflanum má sjá að eftir að Martin Zeil hjá Hauck & Aufhäuser og Guðmundur Hjaltason hjá Keri hf. höfðu sín á milli gengið frá tilboði Kers hf. og Guðmundur sent það til Hauck & Aufhäuser þá sendi Guðmundur afrit þess samdægurs, 14. apríl 2004, til Magnúsar Guðmundssonar hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Zeil hafði þá áður getið þess við Guðmund í tölvupósti að hann gerði ráð fyrir að um leið og hann fengi tilboðið gæti hann tekið næstu skref gagnvart „hinum aðilanum sem ætti hlut að máli“ og að „sá aðili fengi viðeigandi fyrirmæli“. Með því var augljóslega skírskotað til forkaupsréttar Welling & Partners og þess ferlis sem baksamningarnir gerðu ráð fyrir að hæfist þegar Hauck & Aufhäuser hefði tekið á móti slíku tilboði í hlutina.

Gögn sem rakin voru í kaflanum, það er Excel-skjal starfsmanns Kaupthing Bank Luxembourg S.A. frá 20. apríl 2004, sýna að tölulegar forsendur baksamninganna og viðskipta á grundvelli þeirra voru brotnar niður í helstu stærðir innan KBL á sama tíma og viðskiptin áttu sér stað. Þar á meðal voru hagnaðarútreikningar. Í samræmi við þá tvískiptingu hagnaðar sem frá upphafi var gert ráð fyrir vegna baksamninganna og viðskipta á grundvelli þeirra var þeim hagnaði sem þótti verða miðað við samkvæmt stöðu mála á þeim tímapunkti deilt niður í tvennt og nam hvor helmingur tæpum tveimur milljörðum króna á þáverandi gengi samkvæmt þessum útreikningum.

Í kaflanum var gerð grein fyrir því að kaupverð Kers hf. fyrir hlutina (eða eftir atvikum Eglu hf., hvernig sem þessu var endanlega komið fyrir) var fjármagnað að fullu með megninu af afrakstri sölu Eglu hf. í febrúar 2004 á um 17,8 milljónum hluta í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. Fram kom í umfjöllun um þau viðskipti að endanlegir kaupendur að þeim hlutum voru að stærstum hluta (næstum að 2/3 hlutum) Kaupþing Búnaðarbanki hf. sjálfur eða einingar innan hans.

Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að til Welling & Partners runnu um 59,7 milljónir Bandaríkjadala við þessi fyrri viðskipti á grundvelli baksamninganna eða allt söluandvirðið sem greitt var til Hauck & Aufhäuser vegna viðskiptanna með símgreiðslu Kaupþings Búnaðarbanka hf. 13. maí 2004. Kaupverð Welling & Partners fyrir hlutina var sama hlutfall af hinu fastákveðna „söluréttarverði“, sbr. fyrri umfjöllun um efni baksamninganna, og hlutfall hinna seldu hluta í Eglu hf. af öllum hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Kaupverðið reiknaðist samkvæmt því um 21,3 milljónir Bandaríkjadala. Gegn því kaupverði var hinni handveðsettu innstæðu Welling & Partners (eða tilsvarandi hluta hennar) ætlað að standa, eins og fram kemur einnig í fyrri umfjöllun um efni baksamninganna. Af gögnum nefndarinnar má telja ljóst að fyrrgreindar 59,7 milljónir Bandaríkjadala runnu óskertar inn á bankareikning Welling & Partners. Miðað við hvenær Kaupþing Búnaðarbanki hf. sendi þá fjárhæð til Hauck & Aufhäuser, það er um miðjan maí 2004, og þar með hvenær fjárhæðin hefur orðið tiltæk Welling & Partners, virðist sem hún hafi umsvifalaust verið notuð til að greiða upp allar áhvílandi skuldir Welling & Partners sem tengdust baksamningunum. Því var einnig nánar lýst í kaflanum. Ljóst er af gögnum rannsóknarnefndar að eftirstöðvar fyrrgreinds söluandvirðis, að aflokinni  uppgreiðslu allra áhvílandi lána Welling & Partners sem tengdust baksamningunum, námu um 18,4 milljónum Bandaríkjadala og var sú fjárhæð sett í ávöxtun á bankareikningum Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser.

Í kaflanum var loks fjallað um fyrirhuguð kaup „Kers hf. og/eða hluthafa Kers hf.“ á eftirstandandi hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. samkvæmt gögnum nefndarinnar sem einkum stafa frá desember 2004. Eins og þar kom fram þótti rétt að gera grein fyrir gögnum nefndarinnar um þau atriði, enda þótt kaupin hafi ekki gengið eftir. Einkum var það vegna þess hvaða ljósi þau varpa, ásamt öðrum gögnum nefndarinnar, á þátt Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á bak við Welling & Partners í að framkvæma baksamningana samkvæmt efni sínu.

5.8  Atvik á árinu 2005

5.8.1  Kaupthing Bank Luxembourg kaupir aflandsfélögin Huntsmead Marketing Limited og Jeff Agents Corp.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar vann Eggert J. Hilmarsson, lögfræðingur hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., að því á fyrstu mánuðum ársins 2005 að ganga frá uppsetningu aflandsfélaga sem virðist hafa tengst framkvæmd og endanlegum lyktum baksamninganna, nánar tiltekið uppgjöri og ráðstöfun á hagnaði vegna viðskipta Welling & Partners með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna. Sjá má af gögnum rannsóknarnefndar að Karim Van den Ende hefur sinnt því hlutverki fyrir KBL að finna aflandsfélög fyrir KBL á þessum tíma. Á meðal gagna rannsóknarnefndar er tölvupóstur þess síðarnefnda til Eggerts 2. febrúar 2005. Efni hans hljóðar svo:

„I found 3 more:

1.        Great Oasis International Limited (05.09.2002)

2.        Huntsmead Marketing Limited (16.09.2002)

3.        Jeff Agents Corp. (17.09.2002)

Price: USD 4.860, 2005 fees included.

Option till end of the week also.“

Með tölvupóstinum tilkynnir Van  den Ende Eggerti um að hann hafi fundið þau þrjú aflandsfélög sem nefnd eru ásamt því að greina frá verði þeirra.[179]

Eggert og Van den Ende áttu aftur í tölvupóstsamskiptum um þetta síðar í febrúar en 21. þ.m. sendi Van Den Ende til Eggerts tölvupóst þar sem meðal annars kom fram að samkvæmt viðræðum þeirra í vikunni á undan hefði Van den Ende haft upp á þremur aflandsfélögum. Tvö þeirra voru hin sömu og í fyrri listanum frá Van den Ende, það er Huntsmead Marketing Limited (hér eftir einnig Huntsmead Marketing) og Jeff Agents Corp. (hér eftir einnig Jeff Agents) og voru jafnframt tilteknar stofndagsetningar þeirra. Í tölvupóstinum minnti Van den Ende jafnframt á að Welling & Partners væri stofnað 9. desember 2002, eða um þremur mánuðum síðar en fyrrnefnd tvö félög, sbr. nánari tilvitnun til þeirra orða hér til hliðar. Eggert svaraði þessum tölvupósti Van den Ende degi  síðar, 22. febrúar 2005, og kvaðst frekar vilja fá félögin sem stofnuð væru á undan Welling & Partners. Van den Ende svaraði samdægurs og spurði hvort fyrstu tvö félögin, það er Huntsmead Marketing og Jeff Agents, myndu þá fullnægja óskum hans.

Önnur gögn rannsóknarnefndar sýna að KBL keypti þessi tvö aflandsfélög skömmu síðar, eða í byrjun mars 2005, og að seljandi þeirra beggja, í gegnum félag Karim Van den Ende, KV Associates S.A., var dótturfélag panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca.

Síðar í þessum kafla greinir nánar frá því hvaða þáttur þessum félögum virðist hafa verið ætlaður í framkvæmd baksamninganna og uppgjöri á milli þeirra aðila sem skipta áttu með sér hagnaði af viðskiptum Welling & Partners með hlutina í Eglu hf.

5.8.2  Síðari viðskipti Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners á grundvelli baksamninganna: Kauptilboð Kjalars ehf. o.fl. virkjar forkaupsrétt Welling & Partners

Áður hefur verið greint frá fyrri sölu á hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf., sbr. kafla 5.7.5, sem og ráðgerðri sölu á afgangi hlutanna í desember 2004 sem ekki varð að veruleika, sbr. kafla 5.7.7. Sala á afgangi hlutanna fór hins vegar að lokum fram í júní 2005 en atburðarásin í kringum hana var með alveg sama hætti í meginatriðum og áður var lýst með fyrri söluna. Hér á eftir er greint frá þessum síðari viðskiptum á grundvelli baksamninganna milli Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners í júní 2005.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar má rekja þá atburðarás til þess þegar Hauck & Aufhäuser var sent eftirfarandi tilboð í eftirstandandi hluti bankans í Eglu hf. Bréf með tilboðinu var dagsett 6. júní 2005 og stílað á Martin Zeil fyrir hönd bankans:

„Dear Martin,

As we have discussed, Kjalar ehf. and four other shareholders of Ker are willing to give an offer to Hauck & Aufhäuser to buy the shares in Egla hf. in the nominal amount of ISK 2.562.043 which is 23,12% of the nominal value of the share capital in Egla hf. After the transaction, Hauck & Aufhäuser will not own any share capital in Egla hf.

The offered purchase price is based on the market price of Egla‘s hf. shares in KB banka [svo] as of 31 May 2005 (market price of around 528) and other assets of Egla hf. less Egla‘s hf. liabilities and obligations as of the same date. Attached is a balance sheet of Egla hf., showing the assets, liabilities and the share of Hauck & Aufhäuser in Egla ehf. [svo]. The total purchase price is ISK 5.501 million. The purchase price will be paid in USD, based on the prevailing rate of exchange between the ISK and the USD at the date of the payment and it will be paid no later than 20 days after your acceptance.

This offer is valid until 30 June 2005.

Best regards,

On behalf of Kjalar ehf. and four other shareholders in Ker hf.

Ólafur Ólafsson“

Líkt og þarna kemur fram laut tilboðið að öllum eftirstandandi hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf., það er hlutum að nafnvirði 2.562.043 íslenskra króna sem tilgreint var sem 23,12% af hlutafé Eglu hf. Tilboðið hafði að geyma nánari útskýringar á forsendum tilboðsins (markaðsvirði hlutabréfa í KB banka o.fl.) sem ekki er þörf að rekja nánar. Kaupverðið samkvæmt tilboðinu var tilgreint sem um 5,5 milljarðar króna sem greitt yrði í Bandaríkjadölum. Gildistími tilboðsins var settur til 30. júní 2005. Það var undirritað af Ólafi Ólafssyni en samkvæmt tilboðinu stóðu að því Kjalar ehf. og fjórir aðrir hluthafar í Keri hf. sem ekki voru nánar tilgreindir.

Tilboðið leiddi til sömu viðbragða af hálfu Hauck & Aufhäuser og við fyrri viðtökur bankans á tilboðum í hlutina í Eglu hf. Á meðal gagna rannsóknarnefndar er þannig afrit af bréfi Hauck & Aufhäuser til Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners sem ber með sér að hafa verið sent félaginu 9. júní 2005. Bréfið ber yfirskriftina „Put Option Agreement“ og vísar þannig til söluréttarsamningsins. Það hljóðar svo:

„Dear Mr. Van den Ende,

according to our mutual Put Option Agreement please find enclosed an offer by Kjalar ehf. and four other shareholders of Ker concerning our shares in Egla.

You are kindly requested to give us the appropriate instructions, especially concerning your pre-emptive rights.

Please note that the transaction should be completed as soon as possible.“

Undir bréfið skrifa tveir starfsmenn Hauck & Aufhäuser sem ekki koma að öðru leyti við sögu í rannsókn þessari en tilgreint er í bréfinu að það komi frá lögfræðisviði Hauck & Aufhäuser og stendur nafn Martin Zeil þar undir. Eins og fram kemur í tilvitnuðum texta er vísað til söluréttarsamningsins og tilboðs Kjalars ehf. Welling & Partners er vinsamlegast beðið að gefa bankanum viðeigandi fyrirmæli, sérstaklega varðandi forkaupsrétt félagsins og tekið fram að ganga ætti frá viðskiptunum svo fljótt sem mögulegt væri.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar sendi Karim Van den Ende tölvupóst með yfirskriftinni „WP“ til Eggerts J. Hilmarssonar hjá KBL sama dag og ofangreint bréf Hauck & Aufhäuser er dagsett, það er 9. júní 2005. Af tölvupóstinum má ráða að honum hafi fylgt afrit af fyrrnefndu bréfi Hauck & Aufhäuser. Eggert svaraði tölvupósti Van den Ende þremur dögum síðar eða að kvöldi 12. júní 2005:

„Hi Karim,

May I please ask you to draft a letter where W&P confirms that the company will utilize its premtion [svo] rights …. like the letter you did in December/January, except the price on the offer has changed.

I will not be in the office tomorrow. Can you please call me on my mobile in order to discuss and overview.“

Samkvæmt þessum tölvupósti óskaði Eggert eftir því að Van den Ende útbyggi drög að bréfi þar sem Welling & Partners staðfesti að félagið hygðist nýta forkaupsrétt sinn. Um það vísaði Eggert til sams konar bréfs sem Van den Ende hefði útbúið í „desember/janúar“ nema hvað verð tilboðsins í hlutina hefði breyst.[180] Eggert óskaði loks eftir því að Van den Ende hefði samband við hann í farsíma daginn eftir, það er 13. júní 2005, til að ræða og fara yfir drögin að bréfinu.

Í samræmi við þetta liggja fyrir meðal gagna rannsóknarnefndar tvö svarbréf Welling & Partners, dagsett 13. júní 2005, við áðurnefndu bréfi Hauck & Aufhäuser. Þau eru mjög keimlík fyrri bréfasendingum félagsins til bankans af samsvarandi tilefni. Bréfin eru bæði stíluð á Martin Zeil fyrir hönd bankans og undirrituð af Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners. Hér er að verulegu leyti um að ræða samhljóða texta og í fyrri bréfum Welling & Partners vegna beitingar forkaupsréttarins. Sem fyrr telur rannsóknarnefndin þó rétt að vitna til beggja bréfa í heild sinni og gera svo nánari grein fyrir efni þeirra, eftir atvikum þá með skírskotun til fyrri umfjöllunar.

Annað bréfið bar yfirskriftina „re: Put Option Agreement / Fiduciary Agent“. Það hljóðaði svo:

„Dear Mr. Zeil,

Please find enclosed a letter in which we (Welling & Partners Limited) submit our notification to your bank in order to exercise our Pre-emptive Rights according to the Put Option Agreement, cf. Clause 2, an agreement duly signed on the 16th of January 2003, and amended on the 8th of March 2004, between ourselves and our bank.

In relation to the offer made by Ker hf. [svo][181] and/or Ker‘s shareholders to acquire and to buy shares in the nominal amount ISK 2.562.043,- in EGLA hf. (the „Shares“) and in relation to the exercise of the Pre-emptive Rights, our company wishes the Bank to act as Fiduciary Agent and remain the exclusive owner of the Shares towards Ker hf. [svo] and/ or Ker‘s shareholders and therefore to accept the offer from Ker hf. [svo] and/or Ker‘s shareholders and sell these in the name of the Bank but for the account and at the risk of our Company.

The Bank‘s obligation is limited to the performance of selling the Shares and to deliver the consideration received in exchange for the Shares into the account of the Company with your Bank. In course of its duties the Bank will consequently sign all relevant agreements and documents and perform the notification to EGLA hf. in order to transfer the ownership of the shares to Ker hf. [svo] and/or Ker‘s shareholders, as the Shares have not been issued.

Our company wishes the Bank to accept the offer from Ker hf. [svo] and/or Ker‘s shareholders today or at the latest tomorrow, in order to conclude the transaction at the 30th of June 2005. The consideration received in exchange for the Shares shall be credited into the account of the Company in USD. As the offer is put forward in ISK, the amount in USD shall be based on the exchange rate of ISK for one USD at the date of payment by Ker hf. [svo] and/or Ker‘s shareholders.

Subsequent to this transaction your Bank will not hold any participation in EGLA hf. According to clause 9 of the Put Option Agreement the Agreement shall terminate automatically upon the final transfer of the Shares to our company or its designee. We hereby confirm that upon the completion of the aforementioned transaction the Put Option Agreement is automatically terminated.

Do not hesitate to contact us for any complementary query on that matter.“

Efni þessa bréfs er að meginstefnu hið sama og í þeim fyrri bréfum Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser af samsvarandi tilefni sem áður hafa verið rakin, sérstaklega þá bréfinu sem Welling & Partners sendi í desember 2004 í tilefni af fyrirhuguðum viðskiptum þá um sömu hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Hér nægir því að mestu að vísa til fyrri umfjöllunar og samantektar á efni þessara fyrri bréfa, einkum þess síðarnefnda.

Líkt og þar lúta fyrirmæli Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser í þessu bréfi að því að bankinn kæmi fram gagnvart tilboðsgjafanum Kjalari ehf. í eigin nafni en í reynd sem fjárvörsluaðili fyrir Welling & Partners, fyrir reikning og á áhættu þess, og tæki þannig tilboðinu og seldi hlutina með öllum skjalafrágangi sem það útheimti.[182] Líkt og í bréfi Welling & Partners í desember 2004 er hér einnig hnykkt á því varðandi þennan erindisrekstur Hauck & Aufhäuser fyrir Welling & Partners að bankinn kæmi fram sem eini eigandi (e. „exclusive owner“) hlutanna gagnvart tilboðsgjafanum og gengi þannig frá sölunni. Þess var óskað að tilboðið yrði samþykkt þennan dag, 13. júní 2005, eða í síðasta lagi daginn eftir til þess að ljúka mætti viðskiptunum 30. júní 2005.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar samþykktu Peter Gatti og Martin Zeil fyrir hönd Hauck & Aufhäuser þennan sama dag formlega að bankinn tæki að sér hlutverk fjárvörsluaðila fyrir Welling & Partners samkvæmt fyrirmælum um sölu hlutanna í bréfi Welling & Partners.

Hitt bréfið, sem vísað var til í því fyrrnefnda, bar yfirskriftina „re: Put Option Agreement dated January 16, 2003, and amended on March 8, 2004“. Það hljóðaði svo:

„Dear Mr. Zeil,

With reference to your notification letter, dated June 9, 2005, in which it is required that you are notified in the event that our company wishes to exercise its Pre-emptive Right according to Clause 2 in the abovementioned Put Option Agreement, we hereby make the following statement.

According to Clause 2 b) of the aforementioned Put Option Agreement, we hereby notify to yourselves that we wish to exercise our Pre-emptive Rights in relation to an offer made by Ker hf. [svo][183] and/or Ker‘s shareholders where this company (those companies) wish(es) to acquire and buy shares in the nominal amount of ISK 2.562.043,- in EGLA hf., equalling 23,12% of the aggregate share capital of EGLA hf.

The initial participation in EGLA hf. was the nominal amount of ISK 7.239.000 shares; whereof 64,61% of the participation has already been sold. The offer therefore represents 35,39% of the initial participation. In consequence, the Put Price shall be in the same proportion as the offer and therefore be equal to USD 11.681.161,82, which shall be debited from our account with your Bank.“

Þetta bréf er, fyrir utan tilvísun til dagsetningar bréfs Martins Zeil frá 9. júní 2005, orðrétt eins – alveg niður í það að tilboðsgjafinn er hér ranglega tilgreindur Ker hf. – og sams konar bréf Welling & Partners vegna hinna fyrirhuguðu viðskipta kringum áramótin 2004-2005, sbr. kafla 5.7.7. Samskiptin vörðuðu enda í báðum tilvikum sömu hluti í Eglu hf., sömu hlutfallstölur áttu við og þar með sama reiknaða kaupverð Welling & Partners, 11.681.161,82 Bandaríkjadalir.

Af gögnum rannsóknarnefndar er ljóst að þessi viðskipti gengu eftir með þeim hætti sem framangreind gögn gerðu ráð fyrir.

Á Íslandi birtust fréttir í fjölmiðlum af þessum viðskiptum 15. og 16. júní 2005, til dæmis í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, þess efnis að Kjalar ehf. hefði keypt umrædda hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Fram kom í þeim fréttum að það félag væri í eigu Ólafs Ólafssonar og fjölskyldu hans. Kaupverð og stærð eignarhlutarins samkvæmt þessum fréttum var í samræmi við ofangreind gögn um viðskiptin, það er um 5,5 milljarðar króna og um 23% eignarhlutur. Í fréttunum er ekki getið um aðra kaupendur en Kjalar ehf.

Eins og gefur að skilja kom hvorki fram í fjölmiðlaumfjöllun um þessi viðskipti, né annars staðar opinberlega þá eða síðar, hvern þátt Welling & Partners hafði átt í þessum viðskiptum.

Greiðsla Kjalars ehf. til Hauck & Aufhäuser fyrir hlutina í Eglu hf. var samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar fjármögnuð að fullu með láni frá Íslandsbanka hf. Umsókn Kjalars ehf. þess efnis til Íslandsbanka hf. var samþykkt á fundi áhættunefndar bankans 22. júní 2005 og lánssamningur undirritaður 29. s.m. Samkvæmt honum var lánið eingreiðslulán til þriggja mánaða, í íslenskum krónum og erlendum myntum, að fjárhæð allt að jafnvirði 5,6 milljarða íslenskra króna. Trygging var veitt með handveði í hlutum í Eglu hf., þeim hinum sömu og lánið var veitt til að kaupa af Hauck & Aufhäuser, það er 2.562.043 hlutum í Eglu hf. Lántaki var Kjalar ehf. Með beiðni um útborgun lánsins, dags. 30. janúar 2005, óskaði Guðmundur Hjaltason fyrir hönd lántaka eftir því að lánið yrði greitt út miðað við nánar tilgreindar fjárhæðir í öllum mynthlutum lánsins. Þær voru jafnframt allar tilgreindar með jafnvirði í íslenskum krónum. Það nam samtals 5.501.000.000 krónum eða rúmum 5,5 milljörðum króna. Viðtakandi greiðslunnar var tilgreindur Kaupþing banki hf. með nánar tilgreindu reikningsnúmeri og kennitölu.

Greiðslan var bókuð inn á reikninga Kaupþings banka hf. 1. júlí 2005. Þar virðist hún hafa runnið til uppgjörs á framvirkum samningum Kjalars ehf.[184] Sama dag sendi Kaupþing banki hf. síðan símgreiðslu til Hauck & Aufhäuser í Frankfurt að fjárhæð 83.912.826,49 Bandaríkjadalir. Skýring með greiðslunni var: „Purchase price for 23.12 percent or nominal value of ISK 2.562.043 of Egla shares pursuant to agreement of 14 June 2005“. Ljóst er að þar var um ræða greiðslu Kjalars ehf. til Hauck & Aufhäuser á kaupverði fyrir hlutina í Eglu hf.

Líkt og áður kom fram skyldi allt söluandvirði hlutanna renna til Welling & Partners. Af gögnum rannsóknarnefndar er enn fremur ljóst að fyrrgreind símgreiðsla frá Kaupþingi banka hf., eða 83.912.826,49 Bandaríkjadalir, rann í reynd inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser. Í fyrrgreindum bréfaskiptum Welling & Partners og Hauck & Aufhäuser kom einnig fram að kaupverð sem Welling & Partners bar að greiða fyrir hlutina hafi reiknast sem 11.681.161,82 Bandaríkjadalir og skyldi dragast af reikningi félagsins hjá bankanum.[185] Mismunur á söluandvirði hlutanna sem rann til Welling & Partners og því kaupverði sem félaginu bar að greiða á móti fyrir sömu hluti nam því 72.231.664,67 Bandaríkjadölum.

5.8.3  Hagnaður Welling & Partners af viðskiptum á grundvelli baksamninganna

Fjallað var um fyrri viðskipti Welling & Partners og Hauck & Aufhäuser með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna í kafla 5.7.5 hér á undan. Eins og þar kom nánar fram var þá um 38,4 milljóna Bandaríkjadala mismunur á söluandvirðinu sem rann til Welling & Partners og því kaupverði sem félaginu bar að greiða samkvæmt baksamningunum.Um síðari viðskipti sömu aðila á grundvelli baksamninganna var fjallað í kafla 5.8.2 hér næst á undan. Eins og þar kom nánar fram var þá um 72,2 milljóna Bandaríkjadala mismunur á söluandvirðinu sem rann til Welling & Partners og því kaupverði sem félaginu bar að greiða samkvæmt baksamningunum.

Samkvæmt þessu nam samanlagður mismunur á annars vegar kaupverði Welling & Partners fyrir hlutina í Eglu hf. samkvæmt ákvæðum baksamninganna og hins vegar söluandvirði sem rann til Welling & Partners vegna viðskipta með sömu hluti um 111 milljónum Bandaríkjadala.[186]

Eins og nánar var rakið í kafla 5.7.8 varðandi fyrri viðskiptin var sömuleiðis í síðari viðskiptunum gert ráð fyrir því, í samræmi við ákvæði baksamninganna, að hin handveðsetta innstæða (eða tilsvarandi hluti hennar) stæði gegn því kaupverði sem Welling & Partners skyldi greiða fyrir hlutina í Eglu hf. í þeim viðskiptum (um 11,7 milljónir Bandaríkjadala). Líkt og í fyrri viðskiptunum rann svo söluandvirðið í hinum síðari (um 83,9 milljónir Bandaríkjadala), sem Hauck & Aufhäuser fékk þá sent sem meintur seljandi, óskert inn á bankareikning Welling & Partners hjá þýska bankanum.

Ljóst er því að með einum eða öðrum hætti rann hin handveðsetta innstæða, fjármögnuð með hinu upphaflega láni Kaupþings hf. til Welling & Partners í janúar 2003, til þess að vega að fullu upp á móti kaupverði Welling & Partners fyrir hlutina í Eglu hf. í báðum viðskiptunum á grundvelli baksamninganna, líkt og gert var ráð fyrir í baksamningunum frá upphafi.

Eftir fyrri viðskiptin, að lokinni uppgreiðslu allra áhvílandi lána Welling & Partners, stóðu um 18,4 milljónir Bandaríkjadala af söluandvirði hlutanna í Eglu hf. eftir á bankareikningum félagsins hjá Hauck & Aufhäuser, það er frá og með maí 2004.[187]

Við síðari viðskiptin í júní-júlí 2005 rann allt söluandvirði hlutanna í Eglu hf., það er um 83,9 milljónir Bandaríkjadala, inn á bankareikninga Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser enda voru þá öll lán félagsins vegna baksamninganna uppgreidd.

Síðastnefndar fjárhæðir nema samanlagt 102,3 milljónum Bandaríkjadala og má líta á það sem hagnað Welling & Partners af viðskiptum á grundvelli baksamninganna.

Gögn rannsóknarnefndar sýna loks að síðari hluta árs 2005 stóðu samtals um 105 milljónir Bandaríkjadala á reikningum Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser.[188] Sú fjárhæð jafngilti um 6,8 milljörðum íslenskra króna miðað við skráð gengi Bandaríkjadals í lok júní 2005.

5.8.4  Ráðstafanir Kaupthing Bank Luxembourg S.A. í aðdraganda skiptingar hagnaðar Welling & Partners vegna viðskipta á grundvelli baksamninganna

Áður var greint frá kaupum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á aflandsfélögunum Huntsmead Marketing Limited og Jeff Agents Corp. snemma árs 2005. Á sama tíma og verið var að ganga frá síðari viðskiptunum á grundvelli baksamninganna, sbr. kafla 5.8.2, má sjá af gögnum rannsóknarnefndar að Eggert J. Hilmarsson hjá KBL og Karim Van den Ende hafa haft til meðferðar málefni aflandsfélaganna tveggja og samband þeirra við Welling & Partners. Í tölvupósti Van den Ende til Eggerts 23. júní 2005 voru þannig sett fram málefni sem æskilegt væri að rædd yrðu á fyrirhuguðum fundi þeirra innan fárra daga. Í lista yfir þau málefni stóð meðal annars:

„2. Welling & Partners (+ Jeff Agents&Huntsmead Marketing) : deadline of 30.06.2005!“

Þetta má skilja svo að ræða hafi átt Welling & Partners og að auki hin aflandsfélögin tvö. Tímafresturinn sem þarna er vísað til að renna myndi út 30. júní 2005 virðist vera sami tímafrestur og miðað var við vegna kaupa Kjalars ehf. á hlutunum í Eglu hf., sbr. kafla 5.8.2. Neðar í tölvupóstinum gat Van den Ende þess að sum önnur nánar tilgreind málefni í umræddum lista vörðuðu einkum tiltekinn samstarfsmann Eggerts hjá KBL. Einnig kom fram að Eggert gæti að vild breytt þessum drögum að dagskrá. Þá spurði Van den Ende fyrir hversu marga hann ætti að bóka á veitingastaðnum þar sem þeir stefndu á að hittast.

Eggert svaraði þessum tölvupósti fjórum dögum síðar, 27. júní 2005. Í svari hans kom fram:

„Regarding point 2 on the agenda (Welling & Partners) I would very much appreciate if we delete this one and discuss it later, i.e. just between me and you, as Olivier has not been involved before. Consequently, Jeff Agents & Huntsmead Marketing should be deleted.“

Að öðru leyti kvaðst Eggert ekki hafa athugasemdir við fyrirhugaða dagskrá fundarins. Van den Ende svaraði tölvupósti Eggerts samdægurs og staðfesti þessa breytingu á dagskrá fundarins.

Gögn rannsóknarnefndar sýna að fljótlega eftir framangreind samskipti Eggerts J. Hilmarssonar og Karim Van den Ende, eða um og eftir mitt ár 2005, hóf Eggert af hálfu Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem fyrr með fulltingi Karim Van den Ende, að skipuleggja nánar uppsetningu aflandsfélaga sem varðaði fyrirkomulag á eignarhaldi Welling & Partners. Má ráða af því að sú vinna hafi verið liður í undirbúningi á skiptingu þess hagnaðar sem fallið hafði til Welling & Partners vegna viðskipta á grundvelli baksamninganna. Baksamningarnir höfðu enda þá lokið hlutverki sínu og fallið formlega úr gildi með kaupum Welling & Partners á öllum eftirstandandi hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. á grundvelli forkaupsréttar félagsins í júní 2005 og samhliða sölu Hauck & Aufhäuser á sömu hlutum til Kjalars ehf. í eigin nafni en fyrir hönd Welling & Partners, sbr. kafla 5.8.2.

5.8.4.1  Uppsetning aflandsfélaga undirbúin. Kaupthing Bank Luxembourg S.A. kaupir Marine Choice Limited

Á meðal gagna rannsóknarnefndarinnar er tölvupóstur Karim Van den Ende 1. september 2005 til Eggerts J. Hilmarssonar hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. með yfirskriftinni „vintage BVI company“.[189] Tölvupósturinn hljóðaði svo:

„Please find hereby 3 proposals of names for a BVI company dated before December 2002 (option on all 3 until next Monday) :

1.        Bagus Fashions Ltd. (15.08.2002)

2.        Marine Choice Limited (04.09.2002)

3.        Great Oasis International Limited (05.09.2002)

Price : USD 4,900.- covering all fees from incorporation through 2005 (plus my EUR 1,000.- if you agree).

Just to remind you : W&P is aged 09.12.2002, Huntsmead 16.02.2002 [svo] and Jeff 17.09.2002.

Unfortunately, I had put the same director in the last companies but I can change this immediately : I have taken over a BVI company for my professional use called Jaeger Investors Corp. aged 25.01.2002. As I do not remember if I have signed something already on behalf of Huntsmead or Jeff Agents, I suggest that you confirm this to me and that Jaeger Investors subsequently becomes director in Huntsmead, meaning that the directors‘ situation would be the following:

-          W&P : Remp Co. Ltd.

-          Huntsmead Marketing : Jaeger Investors Corp.

-          Jeff Agents : Allan Corporation

-          newco: one of the 3 (you choose)“

Í þessum tölvupósti stakk Van den Ende upp á þremur „árgangs-Tortólafélögum“ sem Eggert J. Hilmarsson gat valið úr. Eitt þeirra var Marine Choice Limited. Öll voru stofnsett á undan Welling & Partners, Huntsmead Marketing og Jeff Agents.[190]190 Fram kom einnig að Van den Ende byði fram félag í hans eigu, Jaeger Investors Corp., sem stofnað væri 25. janúar 2002, til að vera skráður stjórnandi í Huntsmead Marketing. Í því samhengi tók Van den Ende fram að hann minntist þess ekki að hafa enn skrifað undir neitt af hálfu Huntsmead Marketing eða Jeff Agents. Í niðurlagi tölvupóstsins setti Van den Ende síðan fram hverjir stjórnendur félaganna gætu verið miðað við tillögu hans. Með „newco“ í þeirri upptalningu má telja ljóst að átt hafi verið við það nýja félag sem Eggert J. Hilmarsson veldi af þeim sem tilgreind voru í upphafi tölvupósts Van den Ende.

Eggert J. Hilmarsson svaraði þessum tölvupósti samdægurs með svofelldum hætti:

„Thanks Karim,

I will go for nr. 2, Marine Choice Limited.

Nothing has been signed yet by the Huntsmead or Jeff.

Regarding which shall be the director of the Marine I will confirm tomorrow, as I need to overview the file tonight at home.“

Eins og fram kemur í þessum tölvupósti valdi Eggert að taka félagið Marine Choice Limited.[191] Í tölvupósti Eggerts kom jafnframt fram að „ekkert hefði enn verið undirritað“ af hálfu Huntsmead Marketing Limited eða Jeff Agents Corp. Var hann þar augljóslega að svara athugasemd Van den Ende í tölvupósti hans um að hann minntist þess ekki að hafa enn skrifað undir neitt af hálfu sömu félaga. Rétt er að nefna að í umfjöllun hér á eftir verða rakin gögn rannsóknarnefndar sem varpa nánara ljósi á samhengi þessara tilteknu samskipta Eggerts og Van den Ende.

Van den Ende sendi Eggerti tölvupóst þremur dögum síðar, 4. september 2005, með nánari samantekt á hvernig stjórn ofangreindra félaga skyldi háttað. Í tölvupóstinum kom fram um þetta:

„Pursuant to our last conversation, I hereby summarize the situation we discussed:

-  W&P Ltd. : director=Remp Co. Ltd., represented by Karim Van den Ende

-  Huntsmead Marketing : director=Jaeger Investors Corp., represented by Joseph Collaro.

-  Jeff Agents : director=Allan Corporation, represented by Karim Van den Ende.

-  Marine Choice : director=Allan Corporation represented by Brigitte Stumm I hope I got it right!“

Eggert svaraði tölvupóstinum snemma morguninn eftir með þeim hætti að þakka Van den Ende fyrir og að þetta liti mjög vel út. Af tölvupósti Van den Ende má ráða að í honum hafi verið gerð tillaga um aflandsfélög sem yrðu skráðir stjórnendur viðkomandi félaga og hverjir kæmu fram fyrir hönd þeirra.[192] Á sama hátt og áður greindi varpar umfjöllun hér á eftir nánara ljósi á samhengi þessara upplýsinga Van den Ende.

5.8.4.2 Ófullgerð skjöl Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um raunverulegt eignarhald Huntsmead Marketing Limited og Jeff Agents Corp.

Á meðal gagna rannsóknarnefndar eru þrjú skjöl með yfirskriftinni „samkomulag við raunverulegan eiganda“ (e. „Beneficial Owner Agreement“) sem varða Huntsmead Marketing Limited og Jeff Agents Corp. Eitt þeirra tekur til fyrrnefnda félagsins en tvö til síðarnefnda félagsins. Þessi skjöl eru aðeins undirrituð að hluta og verður því að líta á þau sem ófullgerð drög að formi til. Hafa verður í huga þann fyrirvara við eftirfarandi umfjöllun um efni þeirra og er því vísað til þeirra sem draga að samkomulögum.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða drög að samkomulagi milli annars vegar KV  Associates S.A. (félags Karim Van den Ende sem komið hefur oft við sögu í skýrslunni í ýmsu samhengi) og hins vegar Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um að KV Associates S.A. stýri félaginu Huntsmead Marketing fyrir raunverulegan eiganda þess, sem tilgreindur er sem KBL. Drögin bera dagsetninguna 16. september 2002 og eru undirrituð af Karim Van den Ende af hálfu KV Associates S.A. en óundirrituð af hálfu KBL sem raunverulegs eiganda.

Í öðru lagi er um að ræða drög að samkomulagi á milli sömu aðila um að KV Associates S.A. stýri félaginu Jeff Agents fyrir raunverulegan eiganda þess, sem tilgreindur er KBL. Þau drög eru eins hvað varðar undirritun og dagsetningu og hin fyrstnefndu, það er dagsett 16. september 2002 og undirrituð af Karim Van den Ende af hálfu KV Associates S.A. en óundirrituð af hálfu KBL sem raunverulegs eiganda.

Þriðju samkomulagsdrögin bera á hinn bóginn með sér að vera milli annars vegar KV Associates S.A. og hins vegar tveggja nafngreindra íslenskra kaupsýslumanna, Lýðs Guðmundssonar og Ágústs Guðmundssonar, og kveða á um að KV Associates S.A. stýri félaginu Jeff Agents fyrir raunverulega eigendur þess, sem tilgreindir eru þeir Ágúst og Lýður. Drögin bera dagsetninguna 29. janúar 2003 en eru á sama hátt og hin tvö fyrrnefndu aðeins undirrituð af hálfu KV Associates S.A., sem fyrr af Karim Van den Ende, en óundirrituð af hálfu hins tilgreinda gagnaðila, það er þeim Lýði og Ágústi Guðmundssonum sem raunverulegra eigenda Jeff Agents samkvæmt samkomulagsdrögunum.[193]

Varðandi þessi gögn er í fyrsta lagi rétt að benda á að þar sem fyrir liggur að KBL keypti aflandsfélögin Huntsmead Marketing og Jeff Agents ekki fyrr en í byrjun mars 2005, eins og áður var rakið, liggur sömuleiðis ljóst fyrir að þessi samkomulagsdrög voru öll dagsett tvö til þrjú ár aftur í tímann. Sama á við um önnur gögn varðandi félögin sem síðar verða rakin.

Í öðru lagi ber drögunum sem varða stjórn og raunverulegt eignarhald Jeff Agents ekki saman um raunverulegt eignarhald þess félags enda gera þau ráð fyrir ólíkum raunverulegum eigendum að því, annars vegar KBL en hins vegar Lýði og Ágústi Guðmundssonum. Eins og fram kom áður liggur einnig fyrir að hvorugt þessara draga að samkomulögum, í þeirri mynd sem þau liggja fyrir í gögnum rannsóknarnefndar, eru undirrituð af hálfu þess raunverulega eiganda Jeff Agents sem hvor fyrir sig tilgreina. Eins og þessi gögn liggja fyrir rannsóknarnefndinni eru þau því ófullkomin að þessu leyti. Af því leiðir að ekki er hægt að draga óyggjandi ályktanir af þessum gögnum um raunverulegt eignarhald Jeff Agents.[194]

Það eitt liggur því fyrir hér eftir sem áður, hvað sem þessum gögnum líður og efni þeirra að öðru leyti, að KBL keypti Jeff Agents í mars 2005 og átti það frá þeim tíma án þess að fram hafi komið með rannsókn nefndarinnar nein gögn sem varpa óyggjandi ljósi á aðrar eða frekari ráðstafanir varðandi eignarhald þess.

5.8.4.3 Viðskiptaflétta Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um eignarhald Welling & Partners. Jeff Agents Corp. eignast Welling & Partners

Líkt og áður var rakið keypti Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Huntsmead Marketing og Jeff Agents í mars 2005. Félögin voru bæði stofnuð í september 2002. Einnig kom áður fram að Eggert J. Hilmarsson hjá KBL hefði í tölvupóstsamskiptum við Karim Van den Ende í byrjun september 2005 tekið fram að af hálfu félaganna hefði enn ekki verið „skrifað undir neitt“ hjá KBL. Þá var rakinn tölvupóstur Van den Ende til Eggerts 4. september 2005 með upplýsingum um það meðal annars hvaða tilteknu önnur aflandsfélög yrðu skráðir stjórnendur þessara aflandsfélaga og hvaða einstaklingar myndu „koma fram“ fyrir hönd (e. „represent“) þeirra félaga – í annars ótilgreindum lögskiptum. Loks voru hér á undan rakin skjaladrög frá KBL, ófullgerð að formi til, sem vörðuðu eða áttu að varða raunverulegt eignarhald Jeff Agents og Huntsmead Marketing.

Af ofangreindum gögnum og umfjöllun um þau hér á undan má ráða að í byrjun september 2005 hafi verið í burðarliðnum viðskipti á milli umræddra félaga sem hafi átt að varða Welling & Partners. Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar var gengið frá gögnum um slík viðskipti á þann hátt að í september 2005 eða síðar gekkst KBL fyrir því að undirritaður var valréttarsamningur milli Huntsmead Marketing og Jeff Agents um kauprétt síðarnefnda félagsins að Welling & Partners af Huntsmead Marketing. Síðarnefnda félagið var í þeim samningi sagt 100% eigandi Welling & Partners. Greiðsla Jeff Agents fyrir félagið samkvæmt valréttarsamningnum skyldi vera 10.000 evrur. Samningurinn var dagsettur aftur í tímann til 30. janúar 2003. Kauprétturinn var ekki bundinn frekari skilyrðum og sagður óafturkræfur í samningnum. Í september 2002 eða síðar stóð KBL jafnframt fyrir því að gengið var frá tilkynningu um beitingu Jeff Agents á þessum kauprétti félagsins. Slík tilkynning fól í sér að Jeff Agents eignaðist félagið Welling & Partners gegn greiðslu á 10.000 evrum til Huntsmead Marketing. Skjöl þessu tengd voru dagsett aftur til 2. apríl 2004. Frá sama tíma var Jeff Agents skráð eini eigandi Welling & Partners í hlutaskrá félagsins.

Í rammagrein hér á eftir er greint nánar frá þessari viðskiptafléttu um eignarhald Welling & Partners með valréttarsamningi milli Huntsmead Marketing og Jeff Agents sem KBL virðist hafa séð um að gera og síðar láta framkvæma samkvæmt efni sínu.


Viðskiptaflétta Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um eignarhald Welling & Partners: Valréttarsamningur milli Huntsmead Marketing Limited og Jeff Agents Corp. og tengd gögn

Á meðal gagna rannsóknarnefndar eru gögn um annars vegar valréttarsamning sem KBL bjó til á milli Huntsmead Marketing og Jeff Agents varðandi eignarhald Welling & Partners og hins vegar gögn um framkvæmd þess samnings. Þessum gögnum er nánar lýst í þessari rammagrein.

Umræddur valréttarsamningur er samningur milli Jeff Agents og Huntsmead Marketing sem ber yfirskriftina „Call Option Agreement“ eða „samningur um kauprétt“. Samningurinn er dagsettur 30. janúar 2003. Ljóst er af gögnum um hvenær KBL keypti aflandsfélögin og öðrum atvikum (sjá áður) að samningurinn hefur verið dagsettur meira en tvö og hálft ár aftur í tímann.

Samningurinn kvað á um að Huntsmead Marketing, sem sagt var eigandi 100% hlutafjár í Welling & Partners, veitti Jeff Agents skilyrðislausan og óafturkræfan rétt til að kaupa af seljanda allt hlutafé seljanda í Welling & Partners gegn greiðslu á 10.000 evrum (skilgreint sem „Option Exercise Price“ eða „kaupréttarverðið“). Tekið var fram í samningnum að aðeins mætti nýta kaupréttinn að öllu hlutafénu í Welling & Partners en ekki hluta þess. Til að nýta kaupréttinn þyrfti Jeff Agents að senda Huntsmead Marketing tilkynningu um nýtingu kaupréttar (e. „Call Exercise Notice“). Óútfyllt eyðublað eða sniðmát fyrir slíka tilkynningu fylgdi samningnum í viðauka. Samningurinn kvað á um að nýting kaupréttarins skuldbindi Huntsmead Marketing til að selja og Jeff Agents til að kaupa allt hlutafé Welling & Partners. Þegar tilkynning um nýtingu kaupréttar hefði verið móttekin af Huntsmead Marketing skyldi Jeff Agents greiða kaupréttarverðið og Huntsmead Marketing á móti afhenda eða sjá til þess að Jeff Agents yrði afhent hlutabréf og eftir atvikum önnur gögn um eignarhald á Welling & Partners. Huntsmead Marketing veitti Jeff Agents jafnframt skilyrðislausan og óafturkræfan forkaupsrétt að félaginu fyrir fjárhæð jafnháa kaupréttarverðinu ef Huntsmead Marketing fengi gilt tilboð í félagið, óháð verðmæti hlutafjárins sem um ræddi (e. „the shares in question“).

Samningurinn er gerður af félaginu Jaeger Investors Corp. fyrir hönd Huntsmead Marketing, með undirskrift Joseph Collaro, og af félaginu Allan Corporation fyrir hönd Jeff Agents, með undirskrift Karim Van den Ende. Undirskriftirnar eru þannig í samræmi við áðurnefndan tölvupóst Van den Ende um hverjir yrðu fulltrúar umræddra félaga í komandi lögskiptum þeirra. Af gögnum rannsóknarnefndar er ljóst að þessi kaupréttarsamningur var saminn innan KBL.

Líkt og fram kom hér ofar fylgdi kaupréttarsamningnum í viðauka óútfyllt eyðublað eða sniðmát fyrir tilkynningu um beitingu kaupréttar samkvæmt honum.

Á meðal gagna rannsóknarnefndarinnar er afrit af undirritaðri tilkynningu um beitingu kaupréttar samkvæmt kaupréttarsamningnum, þar sem umrætt eyðublað eða sniðmát hefur augsýnilega legið til grundvallar. Tilkynningin er dagsett 2. apríl 2004. Á sama hátt og kaupréttarsamningurinn hefur hún því verið dagsett aftur í tímann um nálega eitt og hálft ár, að minnsta kosti. Er þá miðað við að hún getur líkt og kaupréttarsamningurinn fyrst hafa verið gerð eftir septemberbyrjun 2005.

Í tilkynningunni segir að með henni sé tilkynnt um beitingu kaupréttar samkvæmt áðurnefndum kaupréttarsamningi varðandi eignarhald Welling & Partners. Einnig kemur fram að við viðtöku á greiðslu kaupréttarverðsins (sjá áður) skuli Huntsmead Marketing afhenda eða gangast fyrir afhendingu til Jeff Agents á hlutabréfum og eftir atvikum öðrum skjölum varðandi eignarhald Welling & Partners.

Tilkynningin er undirrituð fyrir hönd kaupanda, Jeff Agents, af Karim Van den Ende sem fulltrúa Allan Corporation og fyrir hönd seljanda, Huntsmead Marketing, af Joseph Collaro sem fulltrúa Jaeger Investors Corp. Einnig má ráða af gögnum rannsóknarnefndar að Huntsmead Marketing hafi sama dag, 2. apríl 2004, jafnframt gefið út kvittun til Jeff Agents fyrir viðtöku á kaupréttarverðinu, það er greiðslu að fjárhæð 10.000 evrur sem koma skyldi fyrir eignarhald Welling & Partners samkvæmt kaupréttarsamningnum.

Loks benda gögn rannsóknarnefndar til þess að frá og með þessum degi, 2. apríl 2004, hafi Jeff Agents verið skráð eini eigandi Welling & Partners samkvæmt hlutaskrá félagsins.


5.8.4.4 Samkomulag um hagnaðarskiptingu milli Welling & Partners og Marine Choice Limited

Áður hefur verið fjallað um aflandsfélag Ólafs Ólafssonar, Serafin Shipping Corp., sem var í umsjón Kaupthing Bank Luxembourg S.A.[195] Meðal annars hefur komið fram að í tengslum við gerð og undirskrift baksamninganna var útbúið „samkomulag um hagnaðarskiptingu“ milli Welling & Partners og Serafin Shipping Corp., dagsett 16. janúar 2003. Samkomulagið kvað á um að Welling & Partners og Serafin Shipping Corp. skyldu skipta með sér nettóhagnaði, en ekki neinu tapi, af hugsanlegri fjárfestingu í hlutum í Eglu hf. og öllum tengdum viðskiptum á þann hátt að Welling & Partners myndi greiða Serafin Shipping Corp. helming nettóhagnaðar síns af þessum viðskiptum.

Af gögnum rannsóknarnefndar er hins vegar ljóst að ekki kom til þess að Serafin Shipping Corp. gegndi þessu fyrirhugaða hlutverki sínu. Í síðasta lagi í maí 2005 hafði Serafin Shipping Corp. verið leyst upp. Líkt og áður var rakið með vísan til gagna rannsóknarnefndar keypti KBL hins vegar í byrjun september 2005 aflandsfélagið Marine Choice Limited, skráð á Tortóla á Bresku-Jómfrúaeyjum, af dótturfélagi panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca, með milligöngu félags Karim Van den Ende, KV Associates S.A. Gögn rannsóknarnefndar sýna að Marine Choice Limited var svo sett í stað Serafin Shipping Corp sem aðili að fyrrgreindu samkomulagi um hagnaðarskiptingu við Welling & Partners án þess að samkomulaginu væri efnislega breytt að öðru leyti.

Á meðal gagna rannsóknarnefndarinnar er þannig afrit samkomulags um hagnaðarskiptingu (e. „Agreement on Profit Sharing“) milli annars vegar Welling & Partners og hins vegar Marine Choice Limited. Samkomulagið er dagsett 30. janúar 2003. Samkvæmt því er ljóst, líkt og með mesta eða alla þá skjalagerð KBL sem rakin hefur verið í þessum kafla, að samkomulagið hefur verið dagsett aftur í tímann um meira en tvö og hálft ár. Samkomulagið er undirritað af Karim Van den Ende í nafni Remp Co. Ltd. fyrir hönd Welling & Partners en af Brigitte Stumm í nafni Allan Corporation fyrir hönd Marine Choice Limited.[196] Fyrir utan að kveða á um aðild Marine Choice Limited en ekki Serafin Shipping Corp og vera dagsett fjórtán dögum síðar (30. janúar 2003 í stað 16. janúar 2003) er samkomulag þetta orðrétt eins og hið fyrra samkomulag milli Welling & Partners og Serafin Shipping Corp.[197]

Samkomulagið kvað þannig efnislega á um það að aðilar þess myndu skipta með sér nettóhagnaði, en ekki neinu tapi, af „hugsanlegri fjárfestingu“ í hlutum í Eglu hf. og öllum tengdum viðskiptum á þann hátt að Welling & Partners myndi greiða Marine Choice Limited helming nettóhagnaðar síns af slíkum viðskiptum. Fram kom einnig að KBL væri tilnefnt til að reikna út hagnað Welling & Partners og skipta þeirri fjárhæð (e. „settle the amount“) á milli aðila samkomulagsins.

5.8.4.5 Gögn um raunverulegt eignarhald Marine Choice Limited og upphaf viðskipta þess hjá KBL

Á meðal gagna rannsóknarnefndar er skjal sem hefur að geyma svonefnt samkomulag við raunverulegan eiganda (e. „Beneficial Owner Agreement“) fyrir Marine Choice Limited. Skjalið stafar frá KBL og er sams konar að efni og formi og önnur slík samkomulög sem áður hefur verið fjallað um í skýrslunni. Samkomulagið er gert á milli KV Associates S.A., margnefnds félags Karim Van den Ende, annars vegar og Ólafs Ólafssonar sem hins raunverulega eiganda Marine Choice Limited hins vegar.[198]

Samkvæmt samkomulaginu var KV Associates S.A. falið að taka að sér, fyrir hönd og samkvæmt óskum hins raunverulega eiganda, stjórn Marine Choice Limited samkvæmt nánari ákvæðum samkomulagsins. Í sérstöku ákvæði kom fram að það væri skýr skilningur beggja aðila (e. „expressly understood“) að KV Associates S.A. kæmi fram sem vörsluaðili (e. „trustee“) af hálfu Ólafs en hann bæri fulla ábyrgð á öllu sem tengdist starfsemi félagsins (e. „assumes full responsibility for all aspects related to the corporate life of the Company“).

Önnur ákvæði samkomulagsins telst ekki sérstök þörf að rekja hér. Þó skal nefnt að meðal þeirra voru ákvæði um þóknun KV Associates fyrir þennan starfa, um fjármögnun hins raunverulega eiganda á rekstri félagsins og ákvæði sem fólu í sér að hinn raunverulegi eigandi bæri allan kostnað og áhættu af rekstri félagsins. Samkomulaginu var ætlað að gilda um óákveðinn tíma. Það var dagsett 29. janúar 2003 og því ljóst, samkvæmt því sem áður var rakið um hvenær KBL keypti Marine Choice Limited, að það var á sama hátt og önnur skjöl sem þessi kafli varðar dagsett aftur í tímann, nánar tiltekið um meira en tvö og hálft ár.

Samkomulagið ber undirritun beggja aðila þess, það er Karim Van den Ende fyrir hönd KV Associates S.A. og Ólafs Ólafssonar sem raunverulegs eiganda Marine Choice Limited.

Á meðal gagna rannsóknarnefndarinnar er einnig undirrituð yfirlýsing Ólafs Ólafssonar, dagsett í október 2005, um að hann væri raunverulegur eigandi eigna á bankareikningum Marine Choice Limited hjá KBL. Af því skjali (og fleiri gögnum rannsóknarnefndarinnar) má sjá að reikningsnúmer Marine Choice Limited hjá KBL var „401577“.

5.8.5  Welling & Partners greiðir Hauck & Aufhäuser þóknun að fjárhæð 750.000 evrur

Af atvikum á árinu 2005 sem þýðingu teljast hafa er loks rétt að geta þess að í desember 2005 krafði Hauck & Aufhäuser Welling & Partners um þóknun sem síðan var greidd  af félaginu.

Á meðal gagna rannsóknarnefndarinnar er þannig afrit af bréfi Hauck & Aufhäuser til Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners, dags. 5. desember 2005. Bréfið er undirritað af Martin Zeil og öðrum starfsmanni bankans. Það ber yfirskriftina „Residual Fee for our activities“. Í bréfinu var með vísan til samninga aðila tilkynnt um að Hauck & Aufhäuser hefði hug á að krefja félagið um þóknun sem kölluð var „Residual Fee for 2005“ að fjárhæð 750.000 evrur. Þar sagði nánar tiltekið:

„Dear Mr. Van den Ende,

we refer to the mutual agreements and would like to invoice our activities as follows: Residual Fee for 2005                            $ 750.000,00“

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar má sjá að Welling & Partners innti nokkru síðar af hendi greiðslu að þessari fjárhæð til Hauck & Aufhäuser.[199]

5.8.6  Samantekt  og  ályktanir rannsóknarnefndar

Meginefnið í þessum kafla var tvíþætt, annars vegar síðari viðskiptin á grundvelli baksamninganna og hins vegar ráðstafanir Kaupthing Bank Luxembourg S.A. við uppsetningu á aflandsfélögum sem telja má ljóst að hafi tengst fyrirhugaðri skiptingu á hagnaði Welling & Partners af viðskiptum á grundvelli baksamninganna.

Síðari viðskiptunum á grundvelli baksamninganna var komið af stað með sama hætti og þeim fyrri, það er sendingu tilboðs til Hauck & Aufhäuser í eftirstandandi hluti bankans í Eglu hf. sem virkjuðu forkaupsrétt Welling & Partners í sömu hluti. Í þetta sinn var það „Kjalar ehf. og fjórir aðrir hluthafar Kers“ sem gerðu tilboðið. Tilboðið var sent Hauck & Aufhäuser, undirritað af Ólafi Ólafssyni, í byrjun júní 2005 og svo gengið frá viðskiptunum í sama mánuði. Það var gert með alveg sama hætti í meginatriðum og við fyrri viðskiptin í apríl-maí 2004. Ekki þarf að rekja aftur þann gang mála hér heldur vísast til ítarlegrar umfjöllunar hér á undan um þetta.

Þrátt fyrir tilgreiningu á „fjórum öðrum hluthöfum Kers“ í tilboðinu samhliða Kjalari ehf. verður ekki annað séð af síðari gögnum um þessi viðskipti en að hinn „opinberi“ eða „endanlegi“ kaupandi að hlutunum í Eglu hf. sem viðskiptin vörðuðu hafi verið einungis Kjalar ehf. Þetta verður a.m.k. ráðið af fréttum íslenskra fjölmiðla um viðskiptin. Ekki kom fram við rannsókn nefndarinnar neinn kaupsamningur milli Hauck & Aufhäuser og Kjalars ehf., og þá eftir atvikum hugsanlega fleiri aðila, um hlutina en af gögnum nefndarinnar sem rakin voru hér má ráða að hann hafi verið dagsettur 14. júní 2005. Hér gildir hið sama og um hið hugsanlega misræmi varðandi aðild Kers hf. eða Eglu hf. sem „opinbers“ eða „endanlegs“ kaupanda í fyrri viðskiptunum. Út frá rannsóknarefni nefndarinnar skiptir ekki meginmáli hver slíkur kaupandi eða kaupendur voru í þessum síðari viðskiptum heldur sem fyrr aðeins aðkoma Welling & Partners að viðskiptunum sem raunverulegs seljanda bréfanna bak við tjöldin.

Þessi síðari viðskipti voru fjármögnuð að fullu með skammtíma kúluláni frá Íslandsbanka, eins og nánar var rakið í kaflanum, samtals að fjárhæð um 5,5 milljarðar króna.[200] Fjárhæðin var greidd út frá Íslandsbanka til Kaupþings banka hf. 1. júlí 2005 og umbreytt þar í Bandaríkjadali, að því er virðist á grundvelli framvirkra samninga Kjalars ehf. Samdægurs sendi Kaupþing banki hf. símgreiðslu til Hauck & Aufhäuser að fjárhæð um 83,9 milljónir Bandaríkjadala sem ljóst er að fól í sér greiðslu söluandvirðisins í þessum viðskiptum. Það rann svo í heild sinni til Welling og Partners, eins og nánar var rakið í kaflanum varðandi uppgjör félagsins og þýska bankans í þessum viðskiptum.

Í kaflanum voru einnig í sérstökum undirkafla dregin saman atriði varðandi endanlegan hagnað Welling & Partners af viðskiptum á grundvelli baksamninganna. Rétt þótti að gera það strax í kjölfar umfjöllunar um síðari viðskiptin. Vísast hér til þess kafla um atriði varðandi þann hagnað og fjárhæðir sem eftir stóðu á bankareikningum félagsins hjá Hauck & Aufhäuser þegar baksamningarnir höfðu verið framkvæmdir til fulls. Eftir stóð þá hins vegar að skipta þeim hagnaði sem þannig hafði fallið til. Umfjöllun hér á eftir í skýrslunni tekur einkum til atvika varðandi þá hagnaðarskiptingu. Með henni var leidd til lykta sú atburðarás sem hér hefur verið lýst og hófst með undirbúningi og gerð baksamninganna á síðari hluta árs 2002 og upphafi ársins 2003.

Meginefni síðari hluta kaflans laut að ráðstöfunum af hálfu Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um það bil frá miðju ári 2005 sem ljóst þykir að stóðu í samhengi við slíka fyrirhugaða skiptingu á hagnaði vegna baksamninganna. Því var nánar lýst þegar KBL keypti í september 2005 aflandsfélag að nafni Marine Choice Limited, enn sem fyrr af félagi í eigu panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca, með milligöngu félags Karims Van den Ende, KV Associates S.A. Marine Choice Limited var svo í kjölfarið með afturvirkum hætti sett í staðinn fyrir Serafin Shipping Corp sem aðili að samkomulagi við Welling  & Partners um skiptingu hagnaðar af fjárfestingu í hlutum í Eglu hf. Líkt og áður kvað samkomulagið á um að aðilar þess, nú Welling & Partners og Marine Choice Limited, myndu skipta með sér nettóhagnaði, en ekki neinu tapi, af „hugsanlegri fjárfestingu“ í hlutum í Eglu hf. og öllum tengdum viðskiptum á þann hátt að Welling & Partners myndi greiða Marine Choice Limited helming nettóhagnaðar síns af þessum viðskiptum. Efni samkomulagsins var annars áður lýst í skýrslunni og vitnað til þess beint. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited, líkt og áður að Serafin Shipping Corp, var Ólafur Ólafsson.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar stóðu KBL og Karim Van den Ende á sama tíma að því, einnig með afturvirkum hætti, að ganga frá ýmsum skjölum milli aflandsfélaganna Jeff Agents og Huntsmead Marketing varðandi eignarhald á Welling & Partners, þar á meðal um tiltekna viðskiptafléttu sem fól í sér að fyrrnefnda félagið varð að endingu eitt eigandi að Welling & Partners. Í því sambandi ber að hafa í huga að sá helmingur nettóhagnaðar af viðskiptum á grundvelli baksamninganna sem ekki átti að renna til Ólafs Ólafssonar gegnum Marine Choice Limited myndi augsýnilega verða eftir hjá Welling & Partners. Eignarhald að því félagi þýddi því eignarhald á þessum helmingshlut í hagnaði á grundvelli baksamninganna.

Eins og rakið var nánar í kaflanum eru þau gögn sem gengið var frá í umræddri skjalagerð af hálfu KBL varðandi eignarhald Welling & Partners því marki brennd að vera ófullkomin að formi til, þ.e. óundirrituð að hluta. Gögnin geta þrátt fyrir þetta að vissu leyti staðið sem vísbendingar um það hvernig fara skyldi með þennan helmingshlut í hagnaði Welling & Partners sem þarna var undir. Þau atriði verða nánar rakin síðar, í samhengi við annað sem stefnir í sömu átt. Hins vegar er óþarfi að dvelja nánar við þessi gögn sem slík. Annars vegar hlýst það af fyrrgreindri ástæðu varðandi ófullkomið form þeirra. Hins vegar verða þessi gögn ekki með skýrum hætti tengd fyrirliggjandi gögnum rannsóknarnefndarinnar um endanlega ráðstöfun þess helmingshluta hagnaðarins sem þessi gögn virðast samkvæmt framangreindu hafa staðið í samhengi við.

Þetta kemur nánar fram í næsta kafla þar sem gerð verður nánari grein fyrir hinu endanlega uppgjöri á þessum hagnaði í ársbyrjun 2006.

Að endingu var í lok þessa kafla vikið að gögnum rannsóknarnefndar varðandi greiðslu Welling & Partners á umkrafinni þóknun til Hauck & Aufhäuser að fjárhæð 750.000 evrur. Sú greiðsla átti sér stað í desember 2005. Fyrri gögn rannsóknarnefndarinnar þykja sýna að Hauck & Aufhäuser hafði áður fengið að minnsta kosti greidda þá 500.000 evra þóknun sem bankinn átti rétt á samkvæmt baksamningunum strax eftir undirritun þeirra.[201] Samkvæmt þessu þykir ljóst, svo langt sem gögn rannsóknarnefndarinnar ná, að á þessum tímapunkti hafði Hauck & Aufhäuser fengið greiddar að minnsta kosti 1.250.000 evrur frá Welling & Partners fyrir veitta þjónustu við gerð og framkvæmd baksamninganna, eða um 250.000 evrur umfram það sem bankinn átti upphaflega rétt á samkvæmt baksamningunum.

5.9  Atvik á árinu 2006

Þegar kom fram á árið 2006 höfðu baksamningarnir verið framkvæmdir til enda samkvæmt efni sínu og fallið úr gildi með síðari viðskiptunum á grundvelli baksamninganna í júní 2005 sem áður sagði frá. Áður hefur verið fjallað um meira en 102 milljóna Bandaríkjadala hagnað sem rann til Welling & Partners af viðskiptunum tveimur með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna. Líkt og einnig kom fram í þeirri umfjöllun stóðu frá og með síðari hluta árs 2005 samtals um 105 milljónir Bandaríkjadala á bankareikningum Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser.

Í þessum kafla skýrslunnar verður nánar lýst hvernig þessum fjármunum var að endingu ráðstafað, samkvæmt þeim gögnum sem komið hafa fram við rannsókn nefndarinnar.

5.9.1  Welling & Partners greiðir 46,5 milljónir Bandaríkjadala til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Ltd. í janúar 2006

Á meðal gagna rannsóknarnefndarinnar er afrit af bréfi Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser, dags. 17. janúar 2006. Martin Zeil er sem fyrr tilgreindur viðtakandi af hálfu bankans. Bréfið bar yfirskriftina „re : our USD account with yourselves“. Í bréfinu komu fram fyrirmæli um greiðslu af bankareikningi Welling & Partners í Bandaríkjadölum hjá Hauck & Aufhäuser og símgreiðslufyrirmæli vegna þeirrar greiðslu. Í bréfinu sagði um þetta:

„Dear Mr. Zeil,

We kindly require you to carry out the following payment by debiting our above mentioned account :

Currency and amount USD 46,500,000.00 (Forty six million five hundred thousand US Dollars)

Bank account nr.          001-1-799574

Beneficiary      Banque Julius Baer & Co.

CH – Zurich SWIFT: BAERCHZZ

Bank  The Chase Manhattan Bank

USA – New York

SWIFT: CHASUS33

Reference        for further credit Bank Julius Baer&Co, Geneva Branch CH41 0851 5030 2605 8200 1/Dekhill Advisors Ltd.“

Með þessu bréfi og símgreiðslufyrirmælunum sem það innihélt gaf Welling &  Partners Hauck & Aufhäuser fyrirmæli um að greiða 46,5 milljónir Bandaríkjadala út af bankareikningi sínum hjá bankanum. Samkvæmt skráðu gengi Bandaríkjadals á þessum tíma jafngilti sú fjárhæð um 2,9 milljörðum íslenskra króna. Eftir nánara efni símgreiðslufyrirmælanna skyldi greiðslan send í gegnum tilgreindan bankareikning í útibúi svissneska bankans Julius Bär & Co í Zürich til endanlegs viðtakanda hjá útibúi sama banka í Genf sem tilgreindur var í tilvísun (e. „reference“) fyrirmælanna. Þar kom fram IBAN númer (það er alþjóðlegt bankareikningsnúmer) og nafn viðtakanda greiðslunnar, sem var félag að nafni Dekhill Advisors Ltd.

Af gögnum rannsóknarnefndar er ljóst að símgreiðslan var framkvæmd 18. janúar 2005 samkvæmt þessum fyrirmælum.

Í gögnum rannsóknarnefndar sem rakin hafa verið í fyrri köflum skýrslunnar kemur félagið Dekhill Advisors Ltd. hvergi annars staðar fyrir. Á meðal gagna rannsóknarnefndar að öðru leyti liggur einungis fyrir formlegt skráningarvottorð um félagið. Samkvæmt því var félagið stofnsett á Bresku-Jómfrúaeyjum 25. júlí 2005 með númerinu „668854“. Rannsóknarnefndin hefur engar aðrar upplýsingar um þetta félag, þar á meðal ekki um stjórn þess eða eignarhald á neinum tíma eða þá afdrif þeirra 46,5 milljóna Bandaríkjadala sem sendir voru á svissneskan bankareikning þess 18. janúar 2005.

Rannsóknarnefndin hefur þannig ekki undir höndum nein gögn eða upplýsingar sem sýnt geta með beinum og óyggjandi hætti fram á það hver eða hverjir stóðu á bak við aflandsfélagið Dekhill Advisors Ltd. og hvað varð um framangreinda fjármuni eftir að þeir bárust á áðurnefndan bankareikning félagsins.

Á hinn bóginn telur rannsóknarnefndin að önnur gögn nefndarinnar og öll sú atburðarás frá ársbyrjun 2003 sem rakin hefur verið fram að þessu hljóti að verða að virða svo að fyrir liggi að minnsta kosti tilteknar vísbendingar um hvaða aðilar má telja líklegast að hafi átt að njóta þess hluta hagnaðar af viðskiptum Welling & Partners á grundvelli baksamninganna sem hér um ræðir, hvað sem líður þætti hins annars óþekkta aflandsfélags Dekhill Advisors Ltd. Umfjöllun um þetta er sett fram í kafla 5.9.3 um samantekt og ályktanir rannsóknarnefndar.

5.9.2  Welling & Partners lokar reikningum sínum hjá Hauck & Aufhäuser og greiðir alla eftirstandandi innstæðu félagsins hjá bankanum til aflandsfélagsins Marine Choice Limited

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar verður ráðið að eftir fyrrgreinda 46,5 milljóna Bandaríkjadala greiðslu út af bankareikningi Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser til Dekhill Advisors Ltd. hafi staðið eftir á bankareikningnum um 58 milljónir Bandaríkjadala.

Á meðal gagna rannsóknarnefndarinnar er afrit af bréfi Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser, dags. 20. febrúar 2006, með Martin Zeil tilgreindan viðtakanda af hálfu bankans. Bréfið bar yfirskriftina „re : our account with yourselves“. Bréfið hljóðar svo í heild sinni:

„Dear Mr. Zeil,

We hereby kindly require you

-          to liquidate all positions on our account and/or sub-accounts with yourselves

-          to convert, if required, all positions in USD

-          to establish a detailed balance of our account and provide us therewith

-          to close down our account in your books by transferring the remaining balance in USD as follows:

Bank account nr.          400-213125

ABA 021000021

Beneficiary      Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (KAUP LULL) Bank       JP Morgan Chase Bank

USA – New York SWIFT: CHASUS33

Reference        401577

Do not hesitate to contact us for any complementary query on that matter. We thank you for your good collaboration and remain

Sincerely,

Welling & Partners Limited Remp Co Ltd.

by Karim Van den Ende Director“

Með þessu bréfi og símgreiðslufyrirmælunum sem það innihélt gaf Karim Van den Ende fyrir hönd Welling & Partners fyrirmæli til Hauck & Aufhäuser um að innleysa allar stöður á reikningum og undirreikningum félagsins hjá bankanum. Þá skyldi breyta, ef með þyrfti, öllum innstæðum í Bandaríkjadali, taka saman og afhenda félaginu nákvæmt yfirlit um reikning félagsins hjá bankanum og loks að loka reikningi félagsins hjá  bankanum með því að senda eftirstandandi innstæðu félagsins í Bandaríkjadölum samkvæmt þeim símgreiðslufyrirmælum sem á eftir fylgdu. Þau kváðu á um að fjármunirnir skyldu sendir á tilgreindan bankareikning í eigu KBL hjá JP Morgan Chase Bank í New York í Bandaríkjunum en endanlegur viðtakandi greiðslunnar var tilgreindur í tilvísun (e. „reference“) fyrirmælanna. Þar kom fram númerið „401577“ sem var reikningsnúmer aflandsfélags Ólaf Ólafssonar, Marine Choice Limited, hjá KBL.[202]

Í kafla 5.8.4.5 var gerð grein fyrir gögnum rannsóknarnefndar um raunverulegt eignarhald Marine Choice Limited og upphaf viðskipta þess hjá KBL eftir að KBL keypti félagið í september 2005. Einnig hefur komið fram að á þeim tíma var aflandsfélagið Allan Corporation, sem Brigitte Stumm var tilgreindur fulltrúi fyrir, skráður stjórnandi félagsins. Ljóst er  af gögnum rannsóknarnefndar að þegar komið var fram í febrúar 2006 höfðu tilteknir starfsmenn KBL tekið við stjórn Marine Choice Limited af fyrrnefndri konu. Einnig er ljóst af gögnum rannsóknarnefndar að Ólafur Ólafsson var eftir sem áður raunverulegur eigandi félagsins og skráður rétthafi að reikningi félagsins hjá bankanum nr. 401577. Hélst sú skipan svo langt sem gögn rannsóknarnefndarinnar um þessi efni ná eða a.m.k. fram á síðari hluta árs 2008.

Samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndar var fyrst formlega og endanlega gengið frá stofnun og opnun reiknings Marine Choice Limited hjá KBL nr. 401577 þann 22. febrúar 2006 eða um sama leyti og framangreind fyrirmæli voru gefin um að greiða til Marine Choice Limited eftirstöðvar innstæðu Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser. Gögn rannsóknarnefndar sýna svo að tveimur dögum síðar, 24. febrúar 2006, runnu 57,5 milljónir Bandaríkjadala inn á þann bankareikning félagsins eða undirreikninga hans. Sú fjárhæð jafngilti um 3,8 milljörðum króna samkvæmt skráðu gengi Bandaríkjadals á þeim degi.

Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna enn fremur að síðastnefndan dag, 24. febrúar 2006, var innan KBL annars vegar gengið frá skriflegu samkomulagi um eignastýringu á milli KBL og Marine Choice Limited, sem tveir starfsmenn KBL undirrituðu sem stjórnarmenn af hálfu Marine Choice Limited. Hins vegar var stórum hluta fyrrgreindra fjármuna félagsins ráðstafað til fjárfestingar í dreifðu safni ýmissa erlendra hlutabréfa fyrir hönd þess. Ekki verður séð af gögnum rannsóknarnefndarinnar að félagið Marine Choice Limited hafi á þessu stigi fengið neina fjármuni annars staðar frá eða búið yfir neinum fjármunum áður en það tók á móti greiðslunni frá Welling & Partners. Varðandi hið síðarnefnda má hafa í huga það sem áður kom fram um það hvenær bankareikningurinn var fyrst stofnaður og opnaður.

Þess má loks geta að gögn rannsóknarnefndar varpa ljósi á ávöxtun og ráðstöfun eigna og fjármuna Marine Choice Limited í stýringu KBL næstu mánuði og ár eftir þetta, eða fram á síðari hluta árs 2008. Þau gögn sýna meðal annars beina aðkomu Ólafs Ólafssonar sem raunverulegs eiganda félagsins að ýmsum fjárhagslegum gerningum milli félagsins og bankans á því tímabili. Ekki er þó tilefni til að rekja þau atriði frekar hér, í ljósi þess hvernig umboð rannsóknarnefndarinnar er afmarkað.

5.9.3  Samantekt  og  ályktanir rannsóknarnefndar

Samanlagðar greiðslur sem gerð var grein fyrir í þessum kafla af bankareikningi Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser til Dekhill Advisors Ltd. og Marine Choice Limited námu um 104 milljónum Bandaríkjadala. Það er nálægt þeirri fjárhæð sem hér á undan kom fram að líta mætti á sem hagnað af viðskiptum Welling & Partners með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna. Í umfjöllun hér á undan um hagnað félagsins af þeim viðskiptum var gerð grein fyrir hugsanlegum skýringum á því að litlu hærri fjárhæð stóð að endingu inni á bankareikningum félagsins heldur en sem nam einungis þessum afmarkaða hagnaði af viðskiptunum hvorum um sig. Þar sem tiltölulega litlu munar telur rannsóknarnefndin hins vegar ekki þörf á að fjalla frekar um það atriði.[203]

Gögn rannsóknarnefndarinnar sem rakin hafa verið í skýrslunni sýna fram á að hagnaði af viðskiptum Welling & Partners á grundvelli baksamninganna var ætlað að skiptast, og skiptist í reynd, í grófum dráttum í tvennt. Rúmur helmingur rann til Marine Choice Limited, og þar með Ólafs Ólafssonar sem raunverulegs eiganda þess félags. Tæpur helmingur rann til annarra aðila. Í gögnum rannsóknarnefndar liggja ekki fyrir óyggjandi upplýsingar um hverjir þeir voru. Þar sem fyrir liggur að öllum eignum Welling & Partners var skipt á milli Marine Choice Limited og Dekhill Advisors Ltd. má telja ljóst að þeir aðilar sem njóta áttu þessa hagnaðar á móti Ólafi Ólafssyni hafi fengið skerf sinn í gegnum Dekhill Advisors Ltd. með einhverjum hætti. Ef mat er lagt á það hverjir þeir aðilar kynnu helst að hafa verið telur rannsóknarnefndin einkum mega horfa til eftirfarandi atriða.[204]

Baksamningarnir um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. voru undirbúnir og frágengnir í janúar 2003 í þríhliða samstarfi Hauck & Aufhäuser, Kaupþings hf. og manna sem ljóst þykir að sinntu því verkefni af hálfu og í þágu Ólafs Ólafssonar, einkum þá Guðmundi Hjaltasyni. Strax á þeim tíma voru gerðar ráðstafanir með hvernig skyldi fara með hagnað vegna viðskipta með þá hluti í Eglu hf. sem baksamningarnir vörðuðu og opinberlega töldust tilheyra þýska bankanum. Í fyrsta lagi tryggðu baksamningarnir sjálfir Welling & Partners allan hugsanlegan hagnað af viðskiptum með hlutina. Kaupþing hf. (eða Kaupthing Bank Luxembourg S.A.) átti það félag á þeim tímapunkti og, eins langt og gögn rannsóknarnefndar ná, allar götur síðan meðan þau atvik gerðust sem skýrslan varðar.  Í öðru lagi var gengið frá sérstöku samkomulagi um hagnaðarskiptingu sem efnislega tryggði aflandsfélagi í eigu Ólafs Ólafssonar (þá Serafin Shipping Corp. en síðar Marine Choice Limited eins og rakið hefur verið) tilkall til helmings af nettóhagnaði Welling & Partners vegna slíkra viðskipta. Aflandsfélög Ólafs Ólafssonar voru hins vegar í þessum samkomulögum um hagnaðarskiptingu sérstaklega undanþegin nokkru tapi sem kynni að verða á slíkum viðskiptum og skyldi slíkt tap þannig falla á Welling & Partners eitt ef þannig færi. Endanlega hefði þá það tap þá lent á Kaupþingi hf. sem fjármagnaði eitt og bar alla fjárhagslega áhættu á gerð baksamninganna.

Síðari atvik sem hér hafa verið rakin um ráðstafanir sem tengdust baksamningunum og framkvæmd samninganna samkvæmt efni sínu á árunum 2004 og 2005, einkum þá viðskiptin tvö með hluti í Eglu hf. á grundvelli þeirra, sýna að Kaupþing hf. (og Kaupthing Bank Luxembourg S.A.) hafði umsjón með öllu því ferli í meginatriðum, eftir atvikum þá gegnum málamyndastjórnanda Welling & Partners, Karim Van den Ende. Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að Van den Ende rukkaði KBL um þann kostnað sem féll til vegna slíkra ráðstafana og að þessi þjónusta hans við KBL var gegn þóknun. Á síðari hluta árs 2005, þegar baksamningarnir höfðu verið framkvæmdir til fulls og fallið úr gildi, lagði KBL grunn að uppsetningu aflandsfélaga sem varðaði eignarhald Welling & Partners. Til þess voru notuð „ný“ aflandsfélög, Huntsmead Marketing Limited og Jeff Agents Corp., sem KBL virðist hafa útvegað fyrr á því ári í þessum sérstaka tilgangi.

Gögn og skjaladrög sem þetta varða fólu í meginatriðum í sér annars vegar að annað þessara aflandsfélaga, Jeff Agents Corp., skyldi verða eigandi Welling & Partners með tiltekinni viðskiptafléttu milli þeirra sem lýst var nánar hér á undan. Sú viðskiptaflétta virðist samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar hafa verið framkvæmd með formlegum hætti.

Hins vegar eru í gögnum rannsóknarnefndarinnar ein skjaladrög sem varða raunverulegt eignarhald Huntsmead Marketing Limited og tvenn skjaladrög varðandi raunverulegt eignarhald Jeff Agents Corp. Þessi skjaladrög eru öll óundirrituð að hluta og því ófullkomin að formi til. Af þessum sökum, líkt og árétta ber hér, telst ekki unnt að byggja á þessum gögnum samkvæmt sjálfu efni þeirra.[205]

Rétt er að fram komi hvað varðar skjaladrögin sem gerðu ráð fyrir raunverulegu eignarhaldi Lýðs og Ágústs Guðmundssona, að með bréfum til þeirra beggja, dags. 15. mars 2017, beindi rannsóknarnefndin skriflegum fyrirspurnum til þeirra um þessi atvik málsins. Viðkomandi atvikum úr þessum kafla skýrslunnar var þar lýst í meginatriðum og meðal annars óskað eftir að þeir veittu nefndinni allar upplýsingar sem þeir kynnu að hafa vitneskju um varðandi félögin Jeff Agents Corp. og Dekhill Advisors Limited, þar á meðal um raunverulegt eignarhald þeirra eða hverjir kynnu á öðrum grundvelli að hafa verið haghafar að eigum félaganna. Í samhljóða svörum Lýðs og Ágústs við þessum fyrirspurnum, sem bárust nefndinni með bréfum þeirra beggja, dags. 21. mars 2017, kom fram að þeim ræki ekki minni til þessara atriða eða annarra sem umræddar fyrirspurnir nefndarinnar beindust að.[206]

Þegar framangreind atriði eru virt, og að öðru leyti öll aðkoma Kaupþings hf. (og KBL) að baksamningunum og tengdum atvikum sem skýrslan varðar, er það afstaða rannsóknarnefndarinnar að telja megi annað verulega ólíklegt en að sá hagnaður af viðskiptum á grundvelli baksamninganna sem skyldi heyra til Welling & Partners, og var ráðstafað til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Ltd. samkvæmt framangreindu, hafi endanlega runnið til aðila sem tengdust Kaupþingi hf. eða KBL eða að minnsta kosti að starfsmenn Kaupþings hf. og KBL hafi á einhverju stigi haft vitneskju um hverjir nutu þessa ávinnings sem rann til Dekhill Advisors Limited.[207]

Ítreka ber að um þetta hefur nefndin þó engar óyggjandi upplýsingar og að hér er um að ræða ályktun nefndarinnar á grundvelli þeirra atriða sem hér voru tekin saman og niðurstaðna í skýrslunni að öðru leyti.

Rétt er að taka loks fram í þessu sambandi að við rannsókn nefndarinnar hafa engin gögn eða upplýsingar komið fram sem varpað gætu ljósi á hugsanlega vitneskju eða aðkomu þáverandi stjórnar eða hluthafa Kaupþings hf. að þeim atvikum sem skýrslan varðar og þannig engar upplýsingar komið fram sem bent gætu til þess að einstaklingar úr þeim hópi hafi átt hér hlut að máli. 

 


[65] Um atvik í söluferlinu er nánar vísað til fyrri umfjöllunar, og þá sérstaklega yfirlýsinga og upplýsingagjafar af hálfu S- hópsins og forsvarsmanna hans varðandi þátttöku erlendrar fjármálastofnunar í kaupunum, sem og kröfur og forsendur framkvæmdanefndar um einkavæðingu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda um sama atriði.

[66] Efni og áhrifum baksamninganna er lýst með nánari hætti síðar í þessum kafla og í öðrum köflum þessa hluta skýrslunnar.

[67] Vakin er athygli á að í umfjöllun um atvik hér í tímaröð er jafnan fjallað um einstök skjöl á þeim tíma í atburðarásinni sem ljóst er að þau urðu til á samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar. Það tímamark fer hins vegar í sumum tilvikum alls ekki saman við þær dagsetningar sem færðar voru inn á umrædd skjöl. Nokkur þess háttar tilvik eru í gögnum rannsóknarnefndarinnar og er þeirra nánar getið á viðeigandi stöðum í umfjöllun hér á eftir.

[68] Eins og nánar kemur fram síðar er ljóst af gögnum rannsóknarnefndarinnar sem varða baksamningana um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. að viðurnefnið „Puffin“ var hjá þeim sem stóðu að baksamningunum jöfnum höndum notað annars vegar um það verkefni sem slíkt og hins vegar um fjármálafyrirtækið Kaupþing hf., sem átti þátt í því á þann hátt sem áður var getið um og síðar verður lýst nánar.

[69] Athuga ber að Finnur Ingólfsson var ráðinn forstjóri VÍS í lok september 2002 og tók formlega við starfinu 1. nóvember s.á. Söluferli Búnaðarbankans var þannig komið vel á veg þegar Finnur kom að málinu af hálfu VÍS sem forstjóri þess félags.

[70] Nánari upplýsingar um skiptingu og hlutföll kaupanna innan S-hópsins er að finna í 3. kafla skýrslunnar í umfjöllun um kaupsamninginn 16. janúar 2003. Kaup Eglu hf., Samvinnulífeyrissjóðsins og VÍS hf. námu samtals um 92,4% kaupanna en Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, fjórða félagið í S-hópnum eins og hann leit út endanlega, keypti um 7,6% af hlutnum sem seldur var. Eins og fram kom fyrr í skýrslunni var Axel Gíslasyni, þáverandi framkvæmdastjóra Eignarhaldsfélagsins Samvinnutryggingar, sem skrifaði undir kaupsamninginn 16. janúar 2003 fyrir hönd þess félags, ekki fært af heilsufarsástæðum að gefa skýrslu fyrir nefndinni.

[71] Rétt er að taka fram í þessu sambandi að fyrir liggur, og hefur legið fyrir opinberlega allt frá því þessi atvik áttu sér stað, að Kristinn Hallgrímsson hrl., þá á lögmannsstofunni Fulltingi, sinnti á öllum stigum söluferlis Búnaðarbankans því hlutverki að koma formlega fram fyrir hönd S-hópsins eða einstakra félaga innan hans gagnvart stjórnvöldum, til að mynda framkvæmdanefnd um einkavæðingu og síðar Fjármálaeftirlitinu. Að því er varðar þátt Kristins í þessu ferli skal tekið fram að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar nefndarinnar benda ekki til annars en að sá þáttur hafi einskorðast við slíka umboðsmennsku Kristins sem lögmaður í viðræðum, samningsgerð og formlegum samskiptum við framkvæmdanefndina og önnur stjórnvöld. Engin gögn eða upplýsingar hafa þannig komið fram við rannsókn nefndarinnar sem gætu gefið tilefni til að ætla að Kristinn hafi átt þátt í undirbúningi, gerð eða síðari framkvæmd þeirra baksamninga um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. sem þessi kafli skýrslunnar varðar. Öðru máli gegnir hins vegar um Guðmund Hjaltason, Ralf Darpe og Michael Sautter, eins og komið hefur fram og nánar verður rakið hér á eftir.

[72] Sjá nánar í síðari köflum skýrslunnar.

[73] Rannsókn nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós upplýsingar um hvort sú fundaferð til Frankfurt sem tölvupóstur Darpe varðaði var farin og þá hvernig hún fór nánar fram né hvaða einstaklingar hafi þá farið í þá ferð og setið slíka fundi. Þó óupplýst sé þannig hvort eða hvernig þessi fyrirhuguðu fundahöld í Frankfurt voru að endingu framkvæmd, eða annars þá hvernig samskipti Ólafs og Kaupþingsmanna við Hauck & Aufhäuser um baksamninganna fóru fyrst af stað, breytir það þó engu um þær upplýsingar sem skýrlega má ráða af tölvupóstinum samkvæmt framangreindu.

[74] Þó má benda hér á að ítrekað hefur verið haldið fram opinberlega á liðnum árum að aðilar tengdir S-hópnum og Kaupþing hf. hafi síðari hluta árs 2002 gengið frá einhvers konar leynilegu samkomulagi um sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings hf. eftir væntanlega einkavæðingu þess fyrrnefnda, sem þá var í burðarliðnum. Eins og kunnugt er gekk slík sameining eftir vorið 2003. Slíkir fundir hafa verið sagðir hafa átt sér stað á skrifstofum eignarhaldsfélagsins Sunds í svonefndum litla turni Kringlunnar og hefur tímasetningin október 2002 verið nefnd í því sambandi. Ekkert óyggjandi kom fram með rannsókn nefndarinnar um þetta atriði né þá heldur nokkuð sem gæti bent til að samstarf um gerð og framkvæmd baksamninganna um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. hefði þá e.t.v. einnig verið rætt eða ákveðið á slíkum fundum.

[75] Í umfjöllun síðar í kaflanum um einstaka tölvupósta koma nánar fram sendendur og viðtakendur í hverju og einu tilviki og nánar er fjallað um efni tölvupóstanna, framvindu og þróun þessa ferlis og þátt hvers og eins af þeim sem hér eru taldir upp.

[76] Sjá nánar um þetta í kafla 5.3.2 hér að framan.

[77] Í umfjöllun nefndarinnar er tekið mið af hefðbundinni merkingu hugtaksins „fjárfestir“ sem rannsóknarnefndin telur mega kalla alkunna og ekki gefa tilefni til raunhæfs ágreinings. Ekki fer heldur á milli mála að einmitt þannig var þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupunum, það er óbeinni fjárfestingu í Búnaðarbankanum gegnum Eglu hf., lýst á þeim tíma sem gengið var frá þeim. Þeirri almennu merkingu, a.m.k. að því leyti sem hér getur haft þýðingu, má lýsa svo að fjárfestir sé einhver sem leggur fram og bindur verðmæti á eigin áhættu (yfirleitt þá fjármagn og hvort heldur þá eigið fé eða lánsfjármagn) í eign eða starfsemi í því skyni að hagnast á slíkri fjárfestingu í framtíðinni.

[78] Sjá kafla 5.5 hér á eftir.

[79] Afrit baksamninganna eru birt í viðaukum með prentútgáfu skýrslunnar. Drögin að baksamningunum, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum, eru birt í viðaukum með vefútgáfu skýrslunnar.

[80] Greint er nánar frá aflandsfélaginu sem notað var í þessum tilgangi síðar í þessum kafla.

[81] Tölvupósturinn og fylgiskjöl hans, samningsdrögin tvö, eru birt í viðauka með vefútgáfu skýrslunnar.

[82] Það viðurnefni vísaði til Kaupþings hf. eins og komið hefur fram hér á undan.

[83] Eins og fram mun koma átti það félag síðar ýmsan frekari þátt í þeirri atburðarás sem hér er rakin.

[84] Eins og áður sagði er ljóst af gögnum rannsóknarnefndarinnar þar sem viðurnefnið „Puffin” kemur fyrir að með því var vísað til Kaupþings hf. Rétt er að fram komi að gögn rannsóknarnefndar gefa ekki tilefni til að ætla að við endanlega gerð og undirskrift baksamninganna hafi verið undirritað neitt sérstakt hliðarsamkomulag, hvorki með þessu efni né öðru. Hins vegar höfðu baksamningarnir sjálfir að geyma víðtæk skaðleysisákvæði til handa Hauck & Aufhäuser, eins og áður var getið um og síðar verður nánar rakið.

[85] Formlega var hafður sá háttur á að stjórn Karim Van den Ende á Welling & Partners Limited væri í gegnum aflandsfélagið Remp Co. Ltd., sem hann stýrði einnig. Að gættri þessari skýringu er í skýrslunni eftirleiðis horft í gegnum það fyrirkomulag að láta þannig Remp Co Ltd. standa á milli Karim Van den Ende og Welling & Partners, að því marki sem gögn rannsóknarnefndarinnar bera slíkt fyrirkomulag á annað borð með sér, enda ljóst að það hafði enga raunhæfa þýðingu.

[86] Eins og fyrr sagði benda gögn og upplýsingar rannsóknarnefndarinnar ekki til þess að neitt hliðarsamkomulag af þessu tagi hafi verið gert samhliða baksamningunum þegar endanlega var gengið frá þeim. Hins vegar geymdu baksamningarnir sjálfir efnislega sambærileg ákvæði um skaðleysi Hauck & Aufhäuser gagnvart aflandsfélaginu sem varð gagnaðili bankans að baksamningunum, Welling & Partners.

[87] Ekki þykir ástæða til að fjalla frekar um þetta samkomulag af eftirfarandi ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að áður en baksamningarnir voru kláraðir, nokkrum dögum eftir þetta, má telja ljóst af öðrum og síðari gögnum sem gengið var frá að ekki var að endingu gert ráð fyrir að Serafin Shipping Corp. teldist raunverulegur eigandi Welling & Partners heldur hélst slíkt eignarhald áfram hjá Kaupþingi hf. (sjá nánar síðar í þessum kafla). Í öðru lagi stóð KBL að því á árinu 2005 að gerðar voru aðrar ráðstafanir, í nafni annarra aflandsfélaga, með eignarhald Welling & Partners Limited sem ljóst er að lutu að fyrirhugaðri skiptingu hagnaðar af viðskiptum á grundvelli baksamninganna (sjá nánar kafla 5.8). Í þriðja lagi kom annað aflandsfélag Ólafs Ólafssonar síðar í stað Serafin Shipping Corp. sem rétthafi að hagsmunum vegna viðskipta á grundvelli baksamninganna (sjá nánar kafla 5.8 og 5.9).

[88] Tölvupósturinn og fylgiskjöl hans, samningsdrögin tvö, eru birt í viðauka með vefútgáfu skýrslunnar.

[89] Vegna sendingar Guðmundar Hjaltasonar á hluthafasamkomulagi Eglu hf. til stjórnenda Kaupþings hf. og ofangreindrar athugasemdar Bjarka Diego til samstarfsmanna hans hjá Kaupþingi hf. um efnisatriði þess er rétt að hafa í huga að Kaupþing hf. átti á þessum tíma formlega og opinberlega engan hlut í, eða nokkra hagsmuni af, Eglu hf.

[90] Reglur sem hér eru nefndar til styttingar peningaþvættisreglur fela almennt í sér að þeim sem undir þær falla, m.a. bönkum og fjármálafyrirtækjum, ber að kanna áreiðanleika og bakgrunn viðskiptamanna sinna með tilteknum hætti áður en til viðskipta er stofnað. Ein helsta skyldan í því sambandi er í meginatriðum að aflað sé fullnægjandi upplýsinga um raunverulegan eiganda lögaðila eða hagsmuna sem tengjast fyrirhuguðum viðskiptum.

[91] Til er á íslensku orðið „haghafi“ sem virðist mega nota um þetta og er það gert eftirleiðis til styttingar.

[92] Með orðunum „director of Remp Co. Ltd.“ var vísað til Karim Van den Ende en það félag stóð formlega á milli Van den Ende og Welling & Partners, sbr. fyrri skýringu neðanmáls.

[93] Rétt er að fram komi að í lánssamningnum var í engu vikið að ráðstöfun lánsins nema að það væri veitt til að nota „í almennum viðskiptatilgangi“ (e. „for general business purposes“).

[94] Þessi tölvupóstur, ásamt svari Guðmundar Hjaltasonar við honum sem fjallað er um í meginmáli næst á eftir, er birtur í viðauka með vefútgáfu skýrslunnar.

[95] Óvíst er hvað Zeil á við hér með „the Bank Act“ í þessu samhengi (hugsanlega þó óljós skírskotun til lagaskilyrða um eignarhald virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum) en með „the Purchase Agreement“ er ljóst að Zeil vísar til draga að kaupsamningi Eglu hf. o.fl. við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum.

[96] Líkt og fram kom nánar í fyrri athugasemd neðanmáls með umræddum tölvupósti Zeil er svar Guðmundar birt með tölvupósti Zeil í viðauka með vefútgáfu skýrslunnar. Einnig eru þar birt þau fylgiskjöl í tölvupóstsamskiptum þeirra sem nefnd eru í meginmáli, þ. á m. drög að baksamningunum eins og þau stóðu á þessum tímapunkti.

[97] Við rannsókn nefndarinnar kom ekki fram afrit af neinu slíku lögfræðiáliti né heldur nánari upplýsingar um hvort þess hefði yfirhöfuð verið aflað og þá frá hverjum.

[98] Líkt og áður kom fram var Ólafur Ólafsson raunverulegur eigandi Serafin Shipping Corp. Það kom þó ekki fram í tölvupósti Bjarka Diego heldur takmörkuðust upplýsingar hans við félagið.

[99] Um þau ákvæði kaupsamnings S-hópsins við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum sem hér er vitnað til, þ.e. hins tvískipta greiðslufyrirkomulags sem samningurinn kvað á um, er nánar vísað til fyrri umfjöllunar í kafla 3.

[100] Sjá kafla 3.2

[101] Rétt er að fram komi strax í þessu samhengi að gögn rannsóknarnefndar sýna að framvirkur gjaldeyrisskiptasamningur milli Kaupþings hf. og Welling & Partners Limited var gerður í samræmi við það sem Kaupþing hf. lofaði Hauck & Aufhäuser. Samkvæmt honum lofaði Kaupþing hf. að selja Welling & Partners Limited 20.000.000 Bandaríkjadali fyrir 1.674.600.000 íslenskar krónur, þ.e. á genginu 83,73, á gjalddaganum 21. janúar 2004. Samningurinn kvað á um viðskiptadaginn 16. janúar 2003 og var sagður í gildi frá þeim degi en fyrir liggja gögn sem sýna að hann var þó enn óundirritaður í september 2003. Fyrir liggja einnig gögn sem sýna að 19. janúar 2004, eða tveimur dögum fyrir gjalddaga samningsins, beindi starfsmaður KB Banka (þ.e. hins sameinaða banka Kaupþings hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.) fyrirspurn til Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra KB Banka, um hvort gera skyldi samninginn upp á gjalddaga eða framlengja hann. Starfsmaðurinn kvað vanta heimild fyrir samningnum. Hreiðar Már svaraði þessum tölvupósti samdægurs með fyrirmælum um að samningurinn yrði framlengdur í sex mánuði.

[102] Tölvupósturinn er birtur í viðauka með skýrslunni ásamt fylgiskjölum, þ.e. lokadrögum baksamninganna tveggja.

[103] Þrátt fyrir þetta var undirritunarstaður tilgreindur Frankfurt am Main í lokadrögum sem og endanlegri útgáfu veð- og tryggingasamningsins.

[104] Tölvupósturinn var áframsending á fyrri tölvupósti Bjarka Diego sama kvöld til Guðmundar Hjaltasonar og Martin Zeil, sem fjallað var um hér á undan, og er birtur með honum í viðauka með skýrslunni. Viðhengi voru hin sömu með hinum áframsenda tölvupósti og því er óþarft að birta þau sérstaklega.

[105] Eins og rakið hefur verið virðist hafa verið óvíst fram á síðustu stundu hvar undirritað yrði. Veð- og tryggingasamningurinn tilgreinir Frankfurt am Main sem staðsetningu undirritunar en af öðrum gögnum og samhengi þeirra leiðir að telja verður óvíst nákvæmlega hvar undirritun átti sér stað. Jafnvel er hugsanlegt að aðilar hafi hvorir fyrir sitt leyti skrifað undir á ólíkum stöðum en sent samningana á milli sín.

[106] Rannsóknarnefnd telur m.a. ljóst af þessu samkomulagi um hagnaðarskiptingu milli Welling & Partners og Serafin Shipping Corp. að með því hefur verið horfið frá því að láta Serafin Shipping Corp. vera raunverulegan eiganda Welling & Partners. Áður var getið um þetta neðanmáls í tengslum við umfjöllun um samkomulag, dags. 10. janúar 2002, (e. Beneficial Owner Agreement) um stjórn KV Associates S.A. á Welling & Partners fyrir raunverulegan eiganda þess samkvæmt því samkomulagi, Serafin Shipping Corp. Svo virðist sem þetta hafi verið ætlunin í upphafi, það er að Serafin Shipping Corp. yrði raunverulegur eigandi Welling & Partners og þar með „haghafi“ vegna baksamninganna. Hins vegar fær það varla samrýmst því að síðar hafi þótt tilefni til að gera sérstakt samkomulag um skiptingu hagnaðar milli sömu félaga, enda hefði þá Serafin sem raunverulegur eigandi Welling & Partners ekki þurft að gera neitt slíkt samkomulag heldur einfaldlega átt allan hugsanlegan hagnað á sama hátt og sjálft félagið. Af þessu og samhengi gagna nefndarinnar að öðru leyti telur rannsóknarnefnd óhætt að álykta að á þessum tíma hafi í staðinn fyrir fyrri ráðagerðir um þetta verið ákveðið að Kaupþing hf. (eða KBL) skyldi (eftir sem áður) eiga Welling & Partners Ltd. Hins vegar hafi í staðinn verið gengið frá nýju og undirrituðu samkomulagi, það er umræddu samkomulagi um skiptingu hagnaðar. Með því var Serafin Shipping Corp. tryggð helmingshlutdeild í hugsanlegum hagnaði, en ekki neinu tapi, Welling & Partners Ltd. vegna viðskipta með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna.

[107] Afrit af umboði þessu liggur fyrir meðal gagna rannsóknarnefndarinnar.

[108] Í köflum 5.4.2 og 5.4.7 hér á undan, bæði í meginmáli og neðanmáls, er nánar fjallað um þetta endanlega samkomulag um hagnaðarskiptingu, tiltekið fyrra samkomulag sem varðaði eignarhald Welling & Partners (Beneficial Owner Agreement), dags. 10. janúar 2003, milli KV Associates S.A. og Serafin Shipping Corp. sem gerði ráð fyrir að síðastnefnda félagið væri raunverulegur eigandi Welling & Partners sem og breytingar á ráðagerðum eignarhald Welling & Partners sem ráða má af þessum gögnum. Rétt þótti að setja viðeigandi ályktanir nefndarinnar um þessi atriði fram strax þar (sjá einkum neðanmálsgreinar með viðkomandi umfjöllun í báðum köflunum) og vísast hér til þeirra.

[109] Fyrir utan þá umfjöllun sem hér kemur fram er minnt á að afrit baksamninganna í endanlegri gerð eru birt með skýrslu þessari. Þá er minnt á að í kafla 5.4.1 var með almennum hætti gerð grein fyrir því hvað báðir samningarnir fólu í sér. Vísast þangað um þær upplýsingar en hér er gerð nánari grein fyrir einstökum ákvæðum þeirra.

[110] Réttindi eins og þau sem þessi grein samningsins lýsir virðast raunar jafnan vera kölluð á ensku „pre-emption“ eða „preemption rights“. Þá er forkaupsréttur í venjulegum skilningi, a.m.k. miðað við almenna merkingu hugtaksins í íslensku lagamáli, jafnan kallaður á ensku „right of first refusal“. Á hinn bóginn þykir ekki ástæða til að velta hér frekar vöngum yfir hugtakanotkun þar sem því þykir mega slá föstu að íslenska hugtakið forkaupsréttur eigi hér við, og í öllu falli betur en nokkurt annað hugtak um óbein eignarréttindi, miðað við efni samningsins og forsendur aðila hans eins og þær endurspeglast í ákvæðum samningsins sem og gögnum rannsóknarnefndarinnar að öðru leyti.

[111] Enska orðið „indemnification“ tekur bæði yfir „skaðabætur“ og „skaðleysisgreiðslur“ en síðari þýðingin þykir eiga betur við hér.

[112] Ákvæði þeirrar greinar vörðuðu einungis heimildir Hauck & Aufhäuser vegna hugsanlegrar ógjaldfærni Eglu hf. eða Búnaðarbanka Íslands eða innlausn eða ógildi hluta í sömu félögum, nánar tiltekið óvænt og óvenjuleg atvik sem iðulega eru gerðir slíkir varnaglar um í viðskiptasamningum en sjaldnast reynir á. Að auki skipti sá varnagli í raun engu máli fyrir hið almenna framsalsbann þessarar greinar samningsins vegna nánara efnis ákvæða 15. gr. samningsins. Gerð er grein fyrir þeim nokkru síðar í meginmáli og vikið nánar að þessu atriði í samantektum og ályktunum nefndarinnar í lok kaflans.

[113] Í samningnum er hvergi skýrt sérstaklega til hvers sé vísað með hugtakinu „Purchaser“ en af samhengi má telja ljóst að átt hafi verið við Welling & Partners (eða fulltrúa sem færi þá með réttindi Welling & Partners samkvæmt samningnum), þar sem Welling & Partners hefði í öllum tilvikum, það er bæði við beitingu söluréttar sem og nýtingu forkaupsréttar, verið eini hugsanlegi kaupandinn í samningssambandi aðila.

[114] Af samhengi og gögnum rannsóknarnefndarinnar að öðru leyti er ljóst að með orðunum „the investor group“ hér er vísað til S-hópsins.

[115] Um hið síðastnefnda er rétt að fram komi að ekkert virðist hafa orðið úr gerð slíks samkomulags því Welling & Partners féll stuttu síðar frá kröfu til vaxta af innstæðunni. Um þetta var áður fjallað og vísast til þeirrar umfjöllunar.

[116] Sjá fyrri athugasemd um merkingu þessa orðasambands.

[117] Ekki kemur nánar fram í samningnum hvernig þetta tvennt átti fyrirsjáanlega að geta farið saman, það er annars vegar að Egla hf. keypti ekki hluti í Búnaðarbankanum en hins vegar yrði samt sem áður fyrir hendi kaupsamningur við íslenska ríkið sem fæli í sér skuldbindingar af hálfu Hauck & Aufhäuser.

[118] Í ákvæðinu var reyndar vísað til 4. gr. samningsins að þessu leyti. Þar sem efni þeirrar greinar varðaði veðsetningu innstæðunnar en ekki ábyrgðarskilmála og yfirlýsingar Welling & Partners en 6. gr. samningsins hafði hins vegar að geyma ábyrgðarskilmála og yfirlýsingar Welling & Partners gagnvart bankanum og bar yfirskrift í samræmi við það má telja ljóst að hér sé um misritun að ræða og átt hafi verið við 6. gr. samningsins.

[119] Tíunda grein samningsins hafði loks að geyma ýmis formákvæði sem óþarft er að rekja nánar auk ákvæðis um að samningurinn lyti þýskum lögum og um gerðardómsmeðferð og -samkomulag, samsvarandi við lokaákvæði söluréttarsamningsins sem áður var rakið

[120] Eins og fram kom í fyrri umfjöllun um aðfararorð söluréttarsamningsins var í baksamningunum einfaldlega talað   um

„hlutina“ (e. „Shares“) og átt við þetta hvort tveggja.

[121] Svo fór þó raunar að eigendaskiptum á hlutum í Eglu hf. frá Hauck & Aufhäuser til Welling & Partners á grundvelli baksamninganna var að hluta til komið fram fyrir lok þessa tímabils. Nánari grein er gerð fyrir því síðar í skýrslunni.

[122] Sjá einnig umfjöllun hér á eftir um áhættu af hlutunum í Eglu hf.

[123] Sjá nánari umfjöllun um þessi atriði í kafla 5.6.6.

[124] Svo fór enda að stuðst var við þetta ákvæði í báðum tilvikum þess þegar eigendaskiptum að hlutunum frá Hauck & Aufhäuser til Welling & Partners var komið fram á síðari stigum, eins og nánar verður fjallað um síðar í skýrslunni.

[125] Raunin varð hins vegar ekki sú, eins og vart þarf að rekja hér sérstaklega.

[126] Sjá umfjöllun í kafla 5.6 um þessa uppskiptingu lánsins í mars-apríl 2003. Eins og þar kemur nánar fram ábyrgðist Kaupþing hf. gagnvart Kaupthing Bank Luxembourg S.A. allan þann hluta lánsins sem þá var að nafni til færður yfir til síðarnefnda félagsins.

[127] Fjallað er nánar um þetta atriði í tilteknu samhengi í kafla 5.6.6.

[128] Ekki verður betur séð en að þessi ábyrgðarskilmáli hafi meðal annars getað tekið til Hauck & Aufhäuser bankans á 50% hlut í Eglu hf., það er 5.000.000 króna hlut í félaginu á nafnvirði, sem áttu sér stað um líkt leyti og verið var að gera baksamningana.

[129] Samkvæmt tilvísaðri grein 4.2 í kaupsamningnum um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum voru fjárhæðirnar, sem greiða skyldi í íslenskum krónum annars vegar og Bandaríkjadölum hins vegar, í þessari fyrri greiðslu samtals, þ.e. fyrir allan S-hópinn, 4.243.436.857 íslenskar krónur og 33.094.968 Bandaríkjadalir. Eiginfjárframlag í kaupunum skyldi vera a.m.k. 65% fyrir Eglu hf. samkvæmt 7. gr. kaupsamnings um Búnaðarbankann. Hlutdeild Eglu hf. í kaupunum var um 71,2% og Hauck & Aufhäuser var sagður eiga 50% í Eglu hf. Samkvæmt því gerði kaupsamningurinn um Búnaðarbankann ráð fyrir því að Hauck & Aufhäuser keypti um 35,6% af þeim hlut í Búnaðarbankanum sem seldur var. Hlutur bankans í fyrrnefndum fjárhæðum fyrri greiðslunnar var því reiknaður samkvæmt því hlutfalli.

[130] Í kafla 5.4 hér á undan kom fram að Hauck & Aufhäuser hafði óskað eftir þessari gjaldeyrisvörn við gerð baksamninganna og fengið upplýsingar af því tilefni um að Kaupþing hf. myndi sjá um að koma henni upp.

[131] Vikið verður nánar að þessu atriði í kafla með samantekt og ályktunum nefndarinnar í lok þessa kafla.

[132] Sú uppgreiðsla átti sér stað rúmu ári síðar eða í maí 2004. Sjá kafla 5.7.

[133] Hugsanlega skýrist mismunur þessi af lántökugjaldi (eða ámóta kostnaði) sem lagðist við höfuðstól. Það atriði skiptir þó ekki máli í heildarsamhenginu hér.

[134] Í umfjöllun í kafla 5.6.1 um fyrrgreindan tölvupóst Guðmundar var í beinu framhaldi rakinn tölvupóstur Bjarka Diego til Eggerts J. Hilmarssonar hjá KBL sama dag um að Welling & Partners Limited þyrfti að senda Hauck & Aufhäuser greiðslufyrirmæli vegna þessara greiðslna. Eins og fram kom virðist ekki annað verða ráðið af þeim tölvupósti en að Welling & Partners hafi í reynd verið ætlað að standa straum af þessari greiðslu í nafni Hauck & Aufhäuser en óyggjandi gögn um endanleg atvik kringum þessa greiðslu skorti þó til að nánar væri unnt að fjalla um eða álykta í því sambandi. Vikið er nánar að þessu atriði í kafla 5.6.6.

[135] Felld eru út nöfn lögaðila sem varða ekki efni skýrslunnar.

[136] „DD“ stendur fyrir enska hugtakið „Due Diligence“, á íslensku „áreiðanleikakönnun“.

[137] Fyrr í skýrslunni er fjallað um samsvarandi hlutafjárhækkun Eglu hf. í mars 2003 vegna fyrri greiðslunnar til íslenska ríkisins sem átti sér stað um það leyti.

[138] Sjá nánari umfjöllun um efnisákvæði kaupsamningsins 16. janúar 2003 um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum í kafla 3 í skýrslunni.

[139] Síðarnefnda félagið var í hópi þeirra aflandsfélaga sem gerð voru að „lántökum“ við uppskiptingu hins upphaflega láns til Welling & Partners.

[140] Var þá einskis getið um hið upphaflega lán til félagsins sem skömmu áður, fyrir uppskiptingu þess, hafði numið meira en þrefalt hærri fjárhæð. Einnig var í engu vikið að tengslunum milli Welling & Partners og KV Associates S.A. eða tildrögum og tengslum lánveitinga Kaupþings hf. til félaganna. Þau atvik má kalla augljós í ljósi fyrri umfjöllunar í skýrslunni. Þannig var KV Associates S.A. aðeins milliliður til málamynda, og nýorðinn slíkur í ofanálag, í skuldasambandi Welling & Partners og Kaupþings hf. Það skuldasamband hafði ekki tekið neinum breytingum sem máli skiptu með uppskiptingu hins upphaflega láns nokkru áður.

[141] Á bak við þessi álitaefni býr að sjálfsögðu endanlega spurningin um það hvort Hauck & Aufhäuser hafi yfirhöfuð átt nokkurn þátt í því, á neinum tíma og í neinum skilningi, að fjármagna hlutdeild Eglu hf. í kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

[142] Sjá nánar í kafla 5.4.8.

[143] Sjá nánar í kafla 5.6.1.

[144] Kaupþing Búnaðarbanki hf. tók upp heitið KB banki um áramótin 2003-2004 en fyrra heiti bankans kemur þó víða fyrir í gögnum rannsóknarnefndarinnar, sem og opinberum gögnum, frá og með þeim tíma. Í umfjöllun hér á eftir koma því bæði heitin fyrir að nokkru marki.

[145] Þrátt fyrir þetta var þó heimilt með leyfi íslenskra stjórnvalda að selja hlut sem nam 5,82% af útgefnu hlutafé Búnaðarbankans, með tilteknum nánari skilyrðum sem ekki er þörf að rekja hér.

[146] Heildareign Eglu hf. í Kaupþingi – Búnaðarbanka hf. var samkvæmt öðrum gögnum rannsóknarnefndarinnar 65.337.092 hlutir. Sú tala samræmist þeim tölum sem koma fram neðar í minnisblaðinu (26.134.836,79 hlutir og 39.202.255,21 hlutir). Hér er því líklega um innsláttarvillu að ræða og rétt tala hér líklega fyrrnefnd tala um heildareign Eglu hf. í bankanum á þessum tíma.

[147] Í minnisblaðinu eru þeir hlutir tilgreindir 17.830.492,40 hlutir en samkvæmt tilkynningunni voru seldir 17.832.176 hlutir. Á milli munar 1684 hlutum.

[148] Eins og fram hefur komið tók hugtakið „söluréttarverð“ (e. Put Price) í baksamningunum til kaupverðs Welling & Partners fyrir hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf., hvort heldur á grundvelli ákvæða samninganna um sölurétt Hauck & Aufhäuser eða forkaupsrétt Welling & Partners.

[149] Frá þessu segir nánar í kafla 5.7.5 hér á eftir.

[150] Sjá meginmál næst á undan tilvitnuninni og kafla 5.7.5 um skýringu á því til hvaða viðskipta er vísað hér.

[151] Áður í viðaukanum kom fram að hlutabréfin í Búnaðarbankanum væru nú hlutabréf í hinum sameinaða banka.

[152] Eftir því sem rannsóknarnefndin kemst næst munu slíkir gripir vera eins konar áletraðir heiðurs- eða minningarskildir úr glæru harðplasti, eða áletruð skjöl inni í glærri harðplastsskel, sem virðist þekkjast að útbúnir séu og afhentir manna á milli í viðskiptalífinu til að minnast áfanga eða árangurs í viðskiptum.

[153] Eins og oft hefur komið fram kemur orðið „Puffin“ eða „Lundi“ víða fyrir í gögnum rannsóknarnefndar sem rakin hafa verið, bæði sem viðurnefni verkefnisins um baksamningana og viðurnefni fyrir Kaupþing hf. við gerð þeirra.

[154] Rétt er að nefna í því samhengi að samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar voru ráðagerðir uppi um að síðari salan færi fram kringum áramótin 2004-2005 en þær gengu ekki eftir. Nánar er fjallað um það í kafla 5.7.7.

[155] Tölvupósturinn hafði ekkert efni en yfirskrift hans var einfaldlega „Haus“. Má ráða af því að Guðmundur hafi með tölvupóstinum og yfirskrift hans falið starfsmanni Samskipa hf. að setja meðfylgjandi viðhengi með tölvupóstinum á merkt bréfsefni.

[156] Líkt og sést af niðurlagi tilvitnaðs texta var tilboðinu markaður gildistími aftur í tímann og virðist þar hafa verið um mistök að ræða eða ástæður þess annars ókunnar. Drögin að bréfinu voru sömuleiðis dagsett 20. mars 2004 af ókunnum ástæðum. Ekki er þörf á að fjalla nánar um þessi atriði af ástæðum sem í ljós koma í framhaldinu, nánar tiltekið að hið endanlega tilboð var ekki með þessum dagsetningum.

[157] Enda virðast viðkomandi tölur í tilboðsdrögum Zeil (32,3% og 17,7%) í samræmi við það að Hauck & Aufhäuser var (formlega) eigandi að samtals 50% hlutafjár í Eglu hf. á þeim tíma en sömu tölur í tilboðsdrögum Guðmundar (32,3% og 26,14%) samræmast því ekki.

[158] Til að varpa ljósi á samhengi og tímaröð gagna um atvik á þessum tíma er eftirfarandi athugasemd sett fram til skýringar: Í tilvitnuðu bréfi Hauck & Aufhäuser er söluréttarverðið ekki tilgreint með beinum hætti. Af þeim tölum sem koma fram í bréfinu má þó leiða að miðað er við 33.006.956,26 Bandaríkjadali sem fullt söluréttarverð (21.325.794,44 / 0,6461). Söluréttarverð samkvæmt söluréttarsamningnum var hins vegar upphaflega hærra eða 33.545.372 Bandaríkjadalir. Því var fyrst breytt með gerð hins sérstaka viðauka til að lækka söluréttarverðið. Um það var fjallað í kafla 5.7.4 hér á undan. Tók þá söluréttarverðið lækkun og varð 33.006.956,26 Bandaríkjadalir eða sama fjárhæð og miðað var við í tilvitnuðu bréfi Hauck & Aufhäuser. Í sama kafla kom fram að þessi lækkun á söluréttarverðinu með gerð viðaukans getur fyrst hafa átt sér stað eftir 21. apríl 2004 en þann dag vakti Martin Zeil athygli á, í tölvupósti til Guðmundar Hjaltasonar og Magnúsar Guðmundssonar, að greiðslur Hauck & Aufhäuser við hlutafjárhækkanir Eglu hf. hefðu í reynd aðeins numið þessari lægri fjárhæð. Vitnað er nánar til tölvupósts Zeil í áðurnefndum kafla. Meðal annars kemur fram í honum sú athugasemd Zeil að ef gerður yrði viðauki við söluréttarsamninginn þar sem söluréttarverðið yrði lækkað í samræmi við ábendingu hans leiddi af því að uppfæra yrði einnig fyrirmæli Welling & Partners (e. „In this case, of course, the instructions by Welling & Partners would have to be actualised as well.“). Einnig má ráða af inngangi tölvupósts Zeil að við undirbúning þessara viðskipta hafi hið hlutfallslega söluréttarverð við forkaupsréttarviðskiptin fyrst verið reiknað samkvæmt hinu upphaflega og hærra fulla söluréttarverði. Af samhengi þessara gagna má telja ljóst að þau bréfaskipti sem hér eru rakin milli Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners um beitingu forkaupsréttar hafa verið „uppfærð“ (e. „actualised“) að þessu leyti, þ.e. varðandi hið hlutfallslega söluréttarverð, samhliða eða eftir að að viðaukinn um lækkun söluréttarverðsins var gerður en upphaflegar dagsetningar þeirra þá verið látnar halda sér.

[159] Sendandi er nánar tilgreindur af netfangi með lúxemborgískri endingu („.lu“) en rannsóknarnefnd hefur ekki nánari upplýsingar um hver sá sendandi kunni að vera.

[160] Helstu breytingarnar eru leiðrétting, eða endanleg fjárhæð, á lánveitingu Kaupþings banka hf. til KV Associates S.A. (sjá nánar athugasemd um það í kafla 5.6.2) og þar með tilsvarandi hækkun heildarlánveitinga (e. „Total Borrowing“). Einnig hefur verið breytt nafni annars aflandsfélagsins sem voru að hluta til milliliðir í hinu nýja lánaskipulagi, það er „Allan Corporation“ (sem var rétt heiti aflandsfélagsins og notað í fyrri útgáfu skjalsins) er í þessari síðari útgáfu skjalsins nefnt „Allan Inc.“

[161] Þessi fjárhæð er um 531 þúsund Bandaríkjadölum lægri en innstæðan nam við undirskrift baksamninganna. Ekki er nákvæmlega ljóst hvað veldur mismuninum en minna má á að Hauck & Aufhäuser átti samkvæmt baksamningunum rétt á 1.000.000 evra þóknun fyrir að standa að gerð þeirra, þar af 500.000 evrum innan viku frá undirskrift baksamninganna (og öðrum 500.000 evrum þegar söluréttinum væri beitt). Í Excel-skjalinu er einnig sérstaklega tekið fram að Hauck & Aufhäuser hafi á þessu tímamarki átt (ennþá) rétt á 500.000 evra þóknun. Líklegt má því telja að framangreindan mismun á innstæðunni megi rekja til greiðslu fyrri helmings umsaminnar þóknunar til Hauck & Aufhäuser.

[162] Sjá má að þessi fjárhæð er nokkru hærri en kaupverðið samkvæmt forkaupsrétti Welling & Partners sem gefið var upp af Hauck & Aufhäuser til Welling & Partners í bréfi til félagsins 14. apríl 2004. Hér eiga við sömu skýringar og áður hafa verið raktar um lækkun fjárhæða í þessum viðskiptum. Nánar tiltekið er skýringin hér sú að umrædd fjárhæð í Excel-skjalinu er reiknuð sem hlutfall af hinu upphaflega og fulla söluréttarverði (33.454.372 Bandaríkjadölum) en ekki lækkaða söluréttarverðinu (33.006.956,26 Bandaríkjadölum) enda eru skjölin sem hér er fjallað um, þ.e. tölvupósturinn og Excel-skjalið frá 20. apríl 2004, dagsett einum degi á undan þeim tölvupósti Martin Zeil þar sem fyrst var bent á að lækka gæti þurft söluréttarverðið vegna þess að greiðslur Hauck & Aufhäuser hefðu verið lægri í reynd. Nánar er annars vísað til fyrri skýringa á þessum atriðum.

[163] Samanlagt kaupverð Kers hf. („Sale Price“) og innstæða Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser („Deposit“) að frádregnu kaupverði samkvæmt forkaupsrétti Welling & Partners („Put Price“).

[164] Eignastaða Welling & Partners („Balance“) að frádregnum áhvílandi lánum félagsins („Loans“).

[165] Þetta má sjá af því að í næstu tveimur reitum fyrir ofan dálkinn er deilt í verð hlutanna samkvæmt tilboði Ker hf. (59.656.025,54) með hlutfallstölunni 0,6421 (sem stendur fyrir 64,21% af hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. en er raunar röng og átti að vera 0,6461, sbr. fyrri umfjöllun í þessum kafla og kafla 5.7.4). Þannig var fengin út talan 92.907.686,56 sem stæði þá fyrir söluverð í ímynduðum viðskiptum um alla hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. á sama verði og hið fyrirliggjandi tilboð í um 64% hlutanna gerði ráð fyrir. Eftirfarandi útreikningar í dálknum byggja síðan á þessari ímynduðu tölu.

[166] Samkvæmt upplýsingum um opinbera gengisskráningu sem aðgengilegar eru á heimasíðu Seðlabanka Íslands var miðgengi Bandaríkjadals 73,15 þann 20. apríl 2004.

[167] Varðandi ráðstöfun á þessum afrakstri hlutabréfasölunnar til greiðslu kaupverðs í þessum viðskiptum fáeinum mánuðum síðar má einnig nefna að í bréfaskiptum af hálfu Eglu hf. við Fjármálaeftirlitið í mars 2006, sem eru meðal gagna rannsóknarnefndarinnar, virðast upplýsingar um hið sama hafa verið veittar Fjármálaeftirlitinu, þ.e. að söluandvirði úr umræddri hlutabréfasölu hefði verið „að mestu ráðstafað til kaupa á 23,86% [svo] hluta Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.“

[168] Fyrir þá innborgun var staða bankareikningsins 0 kr.

[169] Sú fjárhæð jafngilti þá 4.434.660.116 íslenskum krónum miðað við miðgengi Bandaríkjadals þann dag samkvæmt opinberri gengisskráningu Seðlabanka Íslands.

[170] Við rannsókn nefndarinnar kom ekki fram kaupsamningur um þessi viðskipti með þessari dagsetningu. Vakin er athygli á því að hér á eftir er fjallað um hugsanlegt misræmi sem finna má í fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum um þessi fyrri kaup á hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf., nánar tiltekið varðandi kaupandann að hlutunum. Finna má gögn og upplýsingar sem tilgreina Eglu hf. sem kaupanda í viðskiptunum eða a.m.k. að upphaflega hafi verið ætlunin að hafa þann háttinn á. Um þetta vísast nánar til umfjöllunar í næsta kafla.

[171] Af augljósum ástæðum er miðað við þessa endanlegu fjárhæð söluandvirðisins, en ekki fjárhæð tilboðs Kers hf., í útreikningi hér á eftir. Við rannsókn nefndarinnar komu ekki fram sérstök gögn eða upplýsingar um ástæður þessa veigalitla munar milli fjárhæðanna en hann þykir enga þýðingu hafa fyrir meginatriði rannsóknarinnar.

[172] Telja má ljóst að þar var um að ræða skírskotun til hinnar handveðsettu innstæðu á bankareikningi Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser.

[173] Sjá nánar umfjöllun í kafla 5.6.2 um uppskiptingu hins upphaflega láns Kaupþings hf. til Welling & Partners sem veitt var við gerð baksamninganna í janúar 2003. Aflandsfélögin KV Associates S.A. og Allan Corporation, voru sett á milli Welling & Partners annars vegar og hins vegar Kaupþings hf. og KBL sem lánveitenda við uppskiptingu lánsins í mars-apríl 2003. Þau voru í raun einungis óvirkir milliliðir í skuldasambandi Welling & Partners og bankanna tveggja. Líkt og fram kemur þar var þó öll endanleg áhætta vegna lánanna eftir sem áður hjá KB banka (upphaflega Kaupþings hf.).

[174] Um uppgreiðsluandvirðið má einnig til samanburðar vísa til töflunnar í Excel-skjali Eggerts J. Hilmarssonar, starfsmanns KBL, sem fjallað er um í kafla 5.7.5.3 en í henni er samanlagt uppgreiðsluandvirði lánanna miðað við 20. apríl 2004 tilgreint sem 39.244.894,83 Bandaríkjadalir.

[175] Það er um 59,7 milljónir Bandaríkjadala að frádregnum um 41,3 milljónum Bandaríkjadala.

[176] Fyrri sölunni hefur þegar verið lýst í kafla 5.7.5. Seinni sölunni verður lýst í kafla 5.8.2 hér á eftir.

[177] Líkt og fram kom í upphafi kaflans var hér um að ræða fyrirhuguð viðskipti sem ekki urðu að veruleika. Engu að síður þykir rétt að rekja þau gögn sem hér eru rakin varðandi undirbúning þeirra. Rétt er að minna á að ástæða þess er að hluta til sú að bréfin hér eru næstum orðrétt samhljóða sams konar bréfum sem Welling & Partners sendi Hauck & Aufhäuser í júní 2005 þegar viðskiptin voru leidd til lykta. Um það er nánar fjallað í kafla 5.8.2.

[178] Nefna má að samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar var tilboðið raunar framlengt tvisvar sinnum, fyrst til loka janúar 2005 en síðan til loka febrúar sama ár, með nokkrum frekari samskiptum milli aðila af því tilefni. Af því má ráða að viðleitni til að láta viðskiptin ganga eftir hafi teygt sig nokkuð fram yfir áramótin án þess að ástæða sé til að rekja það frekar hér. Einnig má nefna hér að stjórnarfundargerðir Kers hf. frá þessum tíma sýna að þessi tilboðsgerð gagnvart Hauck & Aufhäuser kom upp og var rædd á vettvangi stjórnarinnar með tilteknum hætti sem ekki þarf að rekja nánar hér. Á sama hátt og áður bendir ekkert til þess að aðrir stjórnar- eða fyrirsvarsmenn Kers hf. en Ólafur Ólafsson og Guðmundur Hjaltason hafi þá haft vitneskju um baksamningana, rétt Welling & Partners samkvæmt þeim til hlutanna í Eglu hf. eða önnur atvik þessu tengd.

[179] Rétt er að nefna að dagsetningar í sviga á eftir heiti hvers félags standa fyrir skráðan stofndag þeirra.

[180] Með skírskotun til sams konar bréfs í „desember/janúar“ er ljóst að vísað var til þess þegar Van den Ende útbjó slíkt bréf í tengslum við hin fyrirhuguðu viðskipti á þeim tíma um eftirstandandi hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. sem ekki urðu að veruleika, sbr. kafla 5.7.7.

[181] Í bréfinu er ítrekað vísað til tilboðs „Kers hf.“ og er þar um augljósa misritun að ræða því að tilboðið sem samskiptin vörðuðu var frá Kjalari ehf. (ásamt fjórum ótilgreindum hluthöfum Kers hf.).

[182] Sjá fyrri skýringu á augljósri misritun á nafni tilboðsgjafans, sem með réttu var Kjalar ehf., í tilvitnuðu bréfi Welling & Partners.

[183] Sjá fyrri athugasemdir neðanmáls um misritun á nafni tilboðsgjafans í bréfinu.

[184] Telja má líklegt að þeir framvirku samningar hafi þá verið gerðir á einhverju fyrra tímamarki til tryggingar á gjaldmiðlaáhættu þar sem lánið frá Íslandsbanka var greitt út í íslenskum krónum en greiðslan til Hauck & Aufhäuser skyldi vera í Bandaríkjadölum.

[185] Telja má ljóst að þar var um að ræða skírskotun til hinnar handveðsettu innstæðu á bankareikningi Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser.

[186] Frá þeirri tölu þarf að draga endanlegan kostnað vegna lántöku Welling & Partners til að fjármagna hina handveðsettu innstæðu hjá Hauck & Aufhäuser við gerð baksamninganna í janúar 2003. Þar er átt við hið upphaflega um 35,5 milljóna Bandaríkjadala lán Kaupþings hf. sem síðar var skipt upp með þeim hætti sem gerð var grein fyrir í kafla 5.6.2. Þau lán sem komu til við uppskiptinguna voru svo greidd upp að fullu í maí 2004, strax eftir fyrri viðskiptin á grundvelli baksamninganna og þá með hluta söluandvirðis af hlutum í Eglu hf. sem rann til Welling & Partners í þeim viðskiptum sbr. kafla 5.7.5 og 5.7.6. Af umfjöllun og samhengi fjárhæða í síðastnefndum kafla má ætla að endanlegur kostnaður Welling & Partners af lántökunni hafi verið um 5-6 milljónir Bandaríkjadala.

[187] Sjá nánar kafla 5.7.6. Líkt og þar kemur fram nam samanlögð uppgreiðsla skuldanna, það er höfuðstólsandvirði lánanna með vöxtum og kostnaði, um 41,3 milljónum Bandaríkjadala, sem dróst frá söluandvirðinu sem rann til Welling & Partners eftir fyrri viðskiptin (um 59,7 milljónir Bandaríkjadala). Eftir urðu því um það bil 18,4 milljónir Bandaríkjadala.

[188] Munur á þessari fjárhæð og samanlögðum fjárhæðunum tveimur sem runnu inn á bankareikninga Welling & Partners eftir viðskiptin í apríl-maí 2004 og í júní-júlí 2005 (það er annars vegar 18,4 og hins vegar 83,9 eða samanlagt um 102,3 milljónir Bandaríkjadala) skýrist af um 3 milljóna Bandaríkjadala innstæðu sem stóð eftir auk síðastnefndra fjárhæða á bankareikningum Welling & Partners frá og með þessum tíma. Rannsóknarnefndin hefur ekki óyggjandi skýringar á hvernig hún var nánar til komin. Að hluta til mætti þó benda á þá augljósu staðreynd að a.m.k. 18,4 milljónir Bandaríkjadala höfðu þá verið til ávöxtunar á bankareikningum félagsins í rúmlega eitt ár. Einnig má þá benda á um 450 þúsund Bandaríkjadala lækkun söluréttarverðsins frá því sem upphaflega var ráðgert (sjá kafla 5.7.4) og það að fjárhæð hinnar handveðsettu innstæðu var að nokkru marki höfð hærri en ella hefði þurft vegna tillits til hugsanlegra bóta- og kostnaðargreiðslna til Hauck & Aufhäuser (sjá kafla 5.5.2) sem ekki verður séð af gögnum rannsóknarnefndarinnar að komið hafi til greiðslu á meðan  á gildistíma samninganna stóð. Fyrrnefnd atriði eru einungis nefnd sem hugsanlegar skýringar en annars hefur nefndin ekki óyggjandi upplýsingar um þetta atriði, sem enga teljandi þýðingu hefur fyrir meginatriði í rannsókn nefndarinnar.

[189] Með vissri einföldun má þýða það hugtak sem „árgangs-Tortólafélag“. Með hugtakinu mun vera átt við aflandsfélag skráð á Bresku-Jómfrúaeyjum (þar sem Tortóla er helsta eyjan og sú sem einkum er tengd starfsemi aflandsfélaga) sem er eldra en eins árs, miðað við skráningardag þess, þegar það er keypt. Af almennum upplýsingum sem aðgengilegar eru á netinu má ráða að bak við kaup á slíku „árgangsfélagi“ liggi jafnan sú ástæða að þörf þyki á því að viðkomandi félag hafi verið til, það er formlega stofnsett en óvirkt, um lengri tíma.

[190] Í tilvitnuðum tölvupósti Van den Ende var stofndagur Huntsmead Marketing ranglega tilgreindur sem 16. febrúar 2002 en af öðrum gögnum rannsóknarnefndar, sbr. til dæmis kafla 5.8.1, er ljóst að félagið var stofnað 16. september 2002.

[191] Rúmri viku síðar, eða 13. september 2005, sendi Van den Ende stofngögn Marine Choice Limited til Eggerts með tölvupósti ásamt afriti af reikningi dótturfélags panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca vegna kaupa á félaginu.

[192] Aflandsfélögin Remp Co. Ltd. og Allan Corporation hafa bæði komið við sögu áður í skýrslunni. Eins og fram kemur í tölvupósti Van den Ende stóð fyrrnefnda félagið sem skráður „stjórnandi“ formlega á milli Karim Van den Ende og Welling & Partners. Síðarnefnda félagið gegndi í mars-apríl 2003 hlutverki í uppskiptingu á upphaflegu láni Kaupþings hf. til Welling & Partners frá janúar 2003, sjá kafla 5.6.2. Rannsóknarnefndin hefur ekki frekari haldbærar upplýsingar um þá einstaklinga, Joseph Collaro og Brigitte Stumm, sem Van den Ende lagði til að kæmu fram fyrir hönd þeirra aflandsfélaga sem skráð væru stjórnendur umræddra félaga.

[193] Rétt er að fram komi að rannsóknarnefndin beindi skriflegum fyrirspurnum til Lýðs og Ágústs um þessi atriði. Þær er að finna í viðauka með vefútgáfu skýrslunnar ásamt öðrum skriflegum fyrirspurnum nefndarinnar. Nánar er annars fjallað um þetta og getið um svör Lýðs og Ágúst við þeim fyrirspurnum í kafla 5.9.3.

[194] Engu breytir í því sambandi þó samkomulagsdrögin tvö varðandi raunverulegt eignarhald Jeff Agents hafi mismunandi dagsetningar, það er annars vegar 16. september 2002 (þar sem KBL er tilgreindur raunverulegur eigandi) og hins vegar 29. janúar 2003 (þar sem Lýður og Ágúst Guðmundssynir eru tilgreindir raunverulegir eigendur). Í báðum tilvikum var um dagsetningar langt aftur í tímann að ræða, eins og rakið er nánar í meginmáli. Hinum fyrrnefndu var augsýnilega valin dagsetning um líkt leyti og Jeff Agents var stofnað – sem var þó raunar ekki fyrr en 17. september 2002, eða degi síðar en þau samkomulagsdrög voru dagsett. Síðarnefndu drögunum var valin dagsetning skömmu eftir gerð baksamninganna í janúar 2003. Í ljósi þeirra vankanta á formi gagnanna, a.m.k. eins og þau liggja fyrir rannsóknarnefndinni, sem raktir eru í meginmáli telst þó ekki nægilegt tilefni hér til að fjalla sérstaklega um hugsanlega þýðingu hinna ólíku dagsetninga á þessum samkomulagsdrögum. Sama á við um hugsanlegt samhengi þeirra dagsetninga við dagsetningar sem valdar voru á skjöl varðandi viðskiptafléttu með eignarhald Welling & Partners milli Huntsmead Marketing og Jeff Agents. Fjallað er um þau gögn síðar í kaflanum.

[195] Sjá kafla 5.4.2 og 5.4.5 – 5.4.7, einkum þann síðastnefnda um samkomulag Welling & Partners og Serafin Shipping Corp um hagnaðarskiptingu. Sjá einnig kafla 5.4.9 með samantektum og ályktunum rannsóknarnefndar vegna umfjöllunar í kafla 5.4.

[196] Sjá fyrri athugasemd um það háttalag að hafa annað aflandsfélag milli aflandsfélags og stjórnanda þess.

[197] Vitnað er beint til þess samkomulags í kafla 5.4.7 og vísast þangað, að breyttu breytanda.

[198] Hér má minna á að áður hafði verið í gildi sams konar samkomulag milli sama félags Karim Van den Ende og Serafin Shipping Corp, félags Ólafs Ólafssonar sem áður hafði verið ætlaður helmingshlutur af skiptingu hagnaðar Welling & Partners af viðskiptum á grundvelli baksamninganna. Um það samkomulag var fjallað í kafla 5.4.2.

[199] Af gögnum rannsóknarnefndar verður ekki ráðið með vissu hvort þessi greiðsla Welling & Partners til Hauck & Aufhäuser hafi staðið í samhengi við hina umsömdu þóknun bankans samkvæmt baksamningunum (samtals að fjárhæð 1.000.000 evrur eins og áður kom fram) eða verið henni til viðbótar. Greiðslur á hinni samningsbundnu þóknun skyldu vera tvær greiðslur að fjárhæð 500.000 evrur. Ljóst er af gögnum rannsóknarnefndar að önnur þeirra hafði þá þegar verið greidd. Það þýðir að af samningsbundnu þóknuninni stóðu þarna „aðeins“ 500.000 evrur eftir. Vikið er nánar að þessu atriði í samantekt og ályktunum nefndarinnar í lok þessa kafla.

[200] Ekki telst hafa þýðingu hér, eins og rannsóknarefni nefndarinnar er afmarkað, að gera nánari grein fyrir afdrifum þessa láns á síðari stigum, svo langt sem gögn rannsóknarnefndar um það ná á annað borð.

[201] Hér má einkum vísa til Excel-skjals Eggerts Hilmarssonar hjá KBL frá 20. apríl 2004 sem birt er og nánar fjallað um í kafla 5.7.5.3. Af því skjali má ráða að Hauck & Aufhäuser hafði þá fengið greiddar 500.000 evrur fyrir þjónustu sína vegna baksamninganna og framkvæmdar þeirra. Nánar er vikið að þessu neðanmáls í umræddum kafla.

[202] Sjá kafla 5.8.4.5.

[203] Sjá nánar um þetta í kafla 5.8.3, einkum umfjöllun og skýringar neðanmáls.

[204] Hér eru dregin saman án sérstakra tilvísana ýmis atriði sem öll hafa verið nánar reifuð og rökstudd í fyrri umfjöllun.

[205] Sjá nánari umfjöllun um þetta í kaflanum.

[206] Fyrirspurnabréf nefndarinnar til Lýðs og Ágústs sem og svarbréf þeirra eru birt ásamt öðrum slíkum bréfum nefndarinnar og svarbréfum við þeim í viðauka með vefútgáfu skýrslunnar.

[207] Rétt er að taka fram að í kafla 6 hér á eftir eru nánar rakin svör Sigurðar Einarssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar, Bjarka Diego, Steingríms Kárasonar og Magnúsar Guðmundssonar, sbr. bréf hvers fyrir sig til rannsóknarnefndarinnar, öll dags.

20. mars 2017, við fyrirspurnum rannsóknarnefndar um atriði varðandi Dekhill Advisors Limited og fjárhagslegan ávinning af viðskiptum á grundvelli baksamninganna, sbr. bréf rannsóknarnefndar til hvers þeirra fyrir sig, öll dags. 13. mars 2017. Í meginatriðum svöruðu sumir þeirra ekki fyrirspurnum varðandi félagið en aðrir höfnuðu að kannast við eða muna eftir nokkru varðandi félagið. Þá má aftur vísa til viðauka með vefútgáfu skýrslunnar þar sem öll fyrirspurnabréf nefndarinnar og svör viðkomandi einstaklinga við þeim eru birt.