6 – Ágrip um meginniðurstöður skýrslunnar

(einföld vefútgáfa)

Við sölu íslenska ríkisins á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands hf. til hins svonefnda S-hóps, þ.e. Eglu hf. og fleiri aðila, í janúar 2003 voru íslensk stjórnvöld og um leið íslenskur almenningur blekkt um þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser í þeim kaupum.

Við þessi kaup og í aðdraganda þeirra var kynnt fyrir íslenskum stjórnvöldum og almenningi að Hauck & Aufhäuser væri gegnum helmingseignarhlut í Eglu hf. á meðal fjárfesta í Búnaðarbankanum í þessum viðskiptum og þá raunar stærsti einstaki fjárfestirinn með meira en þriðjungshlut í viðskiptunum. Upplýsingar sem gefnar voru af hálfu kaupenda í viðskiptunum að þeim loknum, bæði gagnvart íslenskum stjórnvöldum og opinberlega í fjölmiðlum, voru á sama veg. Í bréfi umboðsmanns S-hópsins til Fjármálaeftirlitsins, dags. 17. febrúar 2003, var því enn fremur lýst sérstaklega yfir að umbjóðendum hans, það er kaupendum að hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, væri ekki kunnugt um að í gildi væru samningar milli annarra en þeirra um ráðstöfun hluta í Búnaðarbankanum, um það hvernig beita skyldi atkvæðisrétti eða „um nokkuð það sem varðar eignarhald og þann rétt og þær skyldur sem slíkt eignarhald veitir“. Í sama bréfi sagði enn fremur að samkvæmt upplýsingum Hauck & Aufhäuser ætlaði „bankinn að fjármagna kaupin með eigin fé, þ.e. nota óbundna fjármuni til fjárfestinga“.[208]

Rannsóknarnefnd Alþingis telur hafið yfir allan vafa að Hauck & Aufhäuser var ekki raunverulega fjárfestir í þessum viðskiptum. Því fór fjarri og stóð í reynd aldrei til. Eins og lýst hefur verið í skýrslu nefndarinnar liggur fyrir að áður en skrifað var undir samning S-hópsins og íslenska ríkisins um kaup á Búnaðarbankanum 16. janúar 2003, voru með leynd gerðar ráðstafanir sem fólu í sér og tryggðu að eignarhald Hauck & Aufhäuser á hlutunum í Eglu hf. og þar með fjárfesting þýska bankans í Búnaðarbankanum var ekki nema að nafni til og til málamynda. Opinber þátttaka þýska bankans var einungis tímabundið yfirvarp fyrir endanleg yfirráð, áhættu og ávinning annarra aðila af sömu hlutum í Eglu hf og þar með í Búnaðarbankanum.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar má rekja undirbúning þessara ráðstafana að minnsta kosti aftur til miðs desembermánaðar 2002. Þeim var síðan komið til leiðar með tveimur skriflegum samningum um hlutina í Eglu hf. milli annars vegar Hauck & Aufhäuser og hins vegar aflandsfélags, Welling & Partners Limited, sem aflað var sérstaklega í þessu skyni og íslenska fjármálafyrirtækið Kaupþing hf. stóð í reynd á bak við.

Þessir samningar voru undirritaðir á erlendri grundu 16. janúar 2003, eða sama dag    og kaupsamningur íslenska ríkisins og S-hópsins var undirritaður í Reykjavík. Gerð og lokafrágangur þeirra hófst í síðasta lagi tæpri viku áður, 10. janúar 2003, og átti sér stað með þríhliða samvinnu fulltrúa Hauck & Aufhäuser, starfsmanna Kaupþings hf. og dótturfélags þess Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og síðan manna sem telja verður ljóst að komu að því verki af hálfu og í þágu Ólafs Ólafssonar, þáverandi forstjóra Samskipa hf., stjórnarmanns í Keri hf. og helsta forsvarsmanns S-hópsins. Þannig var samhliða þessum samningum meðal annars gengið frá ráðstöfunum sem tryggðu Ólafi, í gegnum aflandsfélag sem hann var raunverulegur eigandi að, helming þess nettóhagnaðar sem kynni að falla til Welling & Partners Limited vegna viðskipta með hlutina í Eglu hf. á grundvelli hinna leynilegu samninga.

Framangreind atburðarás var í grófum dráttum þannig að fáeinum dögum fyrir undirskrift kaupsamningsins milli íslenska ríkisins og S-hópsins keypti Kaupthing Bank Luxembourg S.A. í Lúxemborg, dótturfélag Kaupþings hf. á Íslandi, fyrrgreint aflandsfélag, Welling & Partners, sem skráð var á Bresku-Jómfrúaeyjum. Welling & Partners gerði síðan skriflegu samningana tvo við Hauck & Aufhäuser sem vikið er að hér að framan.

Í skýrslu nefndarinnar er jafnan vísað sameiginlega til þessara tveggja samninga sem baksamninganna. Annars vegar var þar um að ræða söluréttarsamning sem tryggði í meginatriðum eigendaskipti frá Hauck & Aufhäuser til Welling & Partners á hlutunum í Eglu hf. um leið og tiltekin skilyrði um lágmarkstíma eignarhalds samkvæmt kaupsamningi S-hópsins og íslenska ríkisins voru uppfyllt. Samkvæmt söluréttarsamningnum yrði þessari niðurstöðu annaðhvort komið til leiðar með því að þýski bankinn nýtti sölurétt eða aflandsfélagið forkaupsrétt en um hvort tveggja hafði söluréttarsamningurinn að geyma sérstök ákvæði. Að auki var þar búið svo um hnútana að Hauck & Aufhäuser gæti ekki selt neinum öðrum en Welling & Partners hluti sína í Eglu hf.

Samhliða þessum samningi gerðu Welling & Partners og Hauck & Aufhäuser síðan veð- og tryggingarsamning. Hann fól í sér að Welling & Partners lagði inn á bankareikning félagsins hjá þýska bankanum, sem gagngert var stofnaður í þessu skyni, áætlað andvirði allra fjárframlaga til Eglu hf. sem Hauck & Aufhäuser bæri síðar að inna af hendi vegna hlutdeildar Eglu hf. í kaupverði Búnaðarbankans. Sú fjárhæð var áætluð um 33,5 milljónir Bandaríkjadala. Að auki tók fjárhæðin mið af þóknun Hauck & Aufhäuser fyrir að standa að þessum viðskiptum, sem ákveðin var 1.000.000 evrur í baksamningunum, og óvissum hugsanlegum kostnaði sem Welling & Partners gæti orðið ábyrgt fyrir gagnvart Hauck & Aufhäuser á grundvelli nánast takmarkalausra skaðleysis- og ábyrgðaryfirlýsinga aflandsfélagsins gagnvart þýska bankanum í baksamningunum. Samtals nam því fjárhæðin um 35,5 milljónum Bandaríkjadala.

Þessa fjárhæð sendi Kaupþing hf. inn á bankareikning aflandsfélagsins hjá Hauck & Aufhäuser fyrir undirskrift baksamninganna. Í kjölfar þess var útbúinn lánssamningur milli Kaupþings hf. og aflandsfélagsins um þá fyrirgreiðslu. Lánið var veitt og greitt út frá Kaupþingi hf. án nokkurra veðtrygginga. Öll fjárhæðin var sett Hauck & Aufhäuser að handveði til tryggingar því að þýski bankinn bæri enga fjárhagslega áhættu af aðkomu sinni að einkavæðingu Búnaðarbankans hf. Fjárhæðin skyldi svo jafnframt standa straum af kaupverði Welling & Partners fyrir hlutina þegar baksamningarnir yrðu framkvæmdir samkvæmt efni sínu.

Af ákvæðum baksamninganna leiddi loks síðast en ekki síst að allur hugsanlegur fjárhagslegur ávinningur af hlutunum í Eglu hf. myndi renna til Welling & Partners en ekki til eiganda þeirra að nafninu til, Hauck & Aufhäuser.

Baksamningarnir þýddu að Hauck & Aufhäuser fór aldrei í reynd með þau umráð hluta í Búnaðarbanka Íslands hf. gegnum eignarhald sitt í Eglu hf. sem fylgja raunverulegri fjárfestingu. Þegar fulltrúi Hauck & Aufhäuser undirritaði samninga við íslenska ríkið hafði bankinn fyrirfram skuldbundið sig með undirskrift baksamninganna nokkrum klukkustundum áður til að selja Welling & Partners hlut sinn um leið og unnt var, og jafnframt firrt sig allri áhættu og von um hagnað af þeirri fjárfestingu sem bankinn hafði tekið þátt í opinberlega að nafninu til. Af gögnum rannsóknarnefndar verður ekki annað séð en að fjárhagslegur ávinningur bankans hafi takmarkast við þóknun að fjárhæð ein milljón evra. Telja verður ljóst að sú þóknun var endurgjald fyrir að koma fram sem fjárfestir í Búnaðarbanka Íslands hf. í gegnum Eglu hf. þótt bankinn væri alls ekki raunverulegur fjárfestir.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar var aflandsfélagið Welling & Partners, gagnaðili Hauck & Aufhäuser í fyrrnefndum baksamningnum, í eigu Kaupþings hf. eða dótturfélagsins Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Jafnframt lánaði Kaupþing hf. Welling & Partners með þeim hætti sem áður var getið, án nokkurra haldbærra trygginga. Að auki féll Kaupþing hf., í nafni Welling & Partners, frá öllum vöxtum vegna innstæðunnar hjá Hauck & Aufhäuser. Kaupþing hf. eitt bar því alla áhættu af því ef hlutabréfaverð í Búnaðarbankanum þróaðist á verri veg heldur en það stóð þegar baksamningarnir voru gerðir. Sú verðþróun var vitaskuld forsenda þess hvernig færi með hugsanlegan ávinning af þessum leynilegu gerningum og síðari viðskiptum á grundvelli þeirra.

Welling & Partners innleysti hluti sína í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna og tók þann ávinning sem því fylgdi með tvennum viðskiptum, annars vegar í apríl-maí 2004 og hins vegar í júní-júlí 2005. Þau viðskipti áttu sér í báðum tilvikum stað bak við tjöldin í tengslum við það þegar Hauck & Aufhäuser stóð í eigin nafni út á við, sem opinber eigandi hlutanna, að sölu þeirra til annarra aðila en í reynd einungis sem fjárvörsluaðili fyrir Welling & Partners, fyrir reikning og á áhættu þess. Söluandvirðið sem viðkomandi kaupendur greiddu fyrir hlutina rann því ekki til Hauck & Aufhäuser heldur óskipt til Welling & Partners. Samanlagður mismunur á fastákveðnu kaupverði Welling & Partners fyrir hlutina samkvæmt ákvæðum baksamninganna og söluandvirðinu í þessum viðskiptum nam um 111 milljónum Bandaríkjadala. Þessi mismunur kom til vegna hækkunar á markaðsvirði hlutabréfa í Búnaðarbanka Íslands hf., síðar Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og KB Banka hf., í kjölfar samruna Kaupþings hf. og Búnaðarbankans, frá því að kaupsamningurinn milli S-hópsins og ríkisins – og einnig baksamningarnir – voru undirritaðir 16. janúar 2003.

Af gögnum rannsóknarnefndar má sjá að samanlagður hagnaður Welling & Partners af þessum tvennum viðskiptum með hluti í Eglu hf. á grundvelli baksamninganna hafi numið að lágmarki 102 milljónum Bandaríkjadala.

Þrátt fyrir að Kaupþing hf. hafi samkvæmt framangreindu lánað Welling & Partners að fullu og án veðtrygginga þá fjármuni sem þurfti til að efna baksamninganna, verið eigandi félagsins og borið alla fjárhagslega áhættu af baksamningum þess við Hauck & Aufhäuser verður þó ekki séð af gögnum rannsóknarnefndar að fjárhagslegur ávinningur Welling & Partners hafi á sama hátt alfarið átt að tilheyra Kaupþingi hf. Líkt og áður var getið um sýna gögn rannsóknarnefndar að gert var sérstakt samkomulag um endanlega skiptingu hagnaðar milli Welling & Partners og aflandsfélagsins Marine Choice Limited, sem skráð var á Tortóla á Bresku-Jómfrúaeyjum. Þetta félag keypti Kaupthing Bank  Luxembourg S.A. að því er virðist sérstaklega í þessu skyni í september 2005 af dótturfélagi panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca. Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson.

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndar millifærði Hauck & Aufhäuser þann 24. febrúar 2006 samkvæmt beiðni Welling & Partners eftirstöðvar innstæðu Welling & Partners að fjárhæð 57,5 milljóna Bandaríkjadala inn á reikning Kaupthing Luxembourg S.A. hjá JP Morgan Chase Bank í New York. Í símgreiðslufyrirmælum var reikningsnúmer fyrrgreinds félags Ólafs Ólafssonar tilgreint sem endanlegur viðtakandi fjármunanna. Jafnframt er ljóst að hjá Kaupthing Bank Luxembourg runnu þessir fjármunir fáeinum dögum síðar inn á bankareikning félagsins þar og var ráðstafað til ýmissa fjárfestinga beint í kjölfarið.

Rúmlega mánuði áður, eða 18. janúar 2006, millifærði Hauck & Aufhäuser samkvæmt beiðni Welling & Partners 46,5 milljónir Bandaríkjadala inn á reikning aflandsfélags með heitinu Dekhill Advisors Ltd. Sú símgreiða var send í gegnum tilgreindan bankareikning í útibúi svissneska bankans Julius Bär & Co í Zürich til Dekhill sem endanlegs viðtakanda hjá útibúi sama banka í Genf. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki tekist að afla upplýsinga um raunverulega eigendur þess félags eða afdrif þessara fjármuna eftir þetta.

Telja verður að vegna áhrifa baksamninganna sem hér er lýst hafi því í reynd farið víðs fjarri að Hauck & Aufhäuser væri fjárfestir í Búnaðarbankanum í gegnum Eglu hf. með þeim hætti sem gefinn var til kynna bæði gagnvart stjórnvöldum og í fjölmiðlum. Ljóst er einnig að þessum baksamningum, áhrifum þeirra og síðari framkvæmd var haldið leyndum bæði fyrir stjórnvöldum og almenningi.

Að auki liggur fyrir af opinberum gögnum, eins og rakið var í 4. kafla skýrslunnar, að frá einkavæðingu Búnaðarbankans hafa ítrekað komið fram efasemdir í fjölmiðlum og opinberri umræðu um hvort aðkoma Hauck & Aufhäuser hefði í reynd verið með þeim hætti sem kynnt var gagnvart stjórnvöldum og í fjölmiðlum á sínum tíma. Slík umræða hefur jafnframt komið fram á vettvangi Alþingis og leitt ítrekað til athugana opinberra stofnana. Á sama hátt liggur fyrir að fulltrúar Hauck & Aufhäuser og Eglu hf., einkum þeir Peter Gatti, framkvæmdastjóri og meðeigandi hjá bankanum, og Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri Eglu hf., hafa ítrekað borið slíkar efasemdir og staðhæfingar til baka á opinberum vettvangi. Eins og rakið hefur verið hér, og nánar kemur fram í 5. kafla skýrslunnar, er ljóst af gögnum rannsóknarnefndar að báðir þessir menn höfðu samt sem áður fulla vitneskju um tilvist og efni baksamninganna.

Af gögnum rannsóknarnefndar verður ekki annað ráðið en að vitneskja um baksamninganna hafi takmarkast við fámennan hóp einstaklinga sem ýmist stóðu að eða fylgdust með gerð samninganna í upphafi, önnuðust síðan framkvæmd þeirra eða nutu að lokum ávinnings á grundvelli þeirra með þeim hætti sem lýst hefur verið.

Í þeim hópi voru í fyrsta lagi Ólafur Ólafsson og einstaklingar sem ljóst þykir að komu fram sem fulltrúar eða trúnaðarmenn hans við gerð baksamninganna. Þeir einstaklingar voru í fyrsta lagi, og sérstaklega, Guðmundur Hjaltason, framkvæmdastjóri Eglu hf. og starfsmaður Samskipa hf., en í öðru lagi Ralf Darpe og Michael Sautter, báðir starfsmenn bankans Société Générale. Af þeim gögnum og upplýsingum sem rannsóknarnefnd hefur aflað verður ráðið að enda þótt Darpe og Sautter hafi í söluferli Búnaðarbankans komið formlega fram af hálfu Société Générale sem ráðgjafar S-hópsins hafi aðkoma þeirra þó einkum í reynd verið í þágu Ólafs Ólafssonar, ekki síst þá við gerð baksamninganna og að því er virðist einnig við að koma á viðskiptasambandi Ólafs og Kaupþingsmanna við Hauck & Aufhäuser.

Eins og áður hefur komið fram ritaði rannsóknarnefndin Ólafi og Guðmundi hvorum um sig bréf, dags. 13. mars 2017, þar sem kynntar voru upplýsingar og meginatriði úr gögnum nefndarinnar í tengslum við gerð baksamninganna, það er um sjálfa gerð þeirra og efni þeirra og áhrif. Einnig kom fram að nefndin hefði undir höndum gögn sem vörpuðu ljósi á síðari framkvæmd samninganna samkvæmt efni sínu, þar á meðal viðskipti milli Hauck & Aufhäuser og Welling & Partners sem síðar hafi farið fram á grundvelli baksamninganna með viðkomandi hluti í Eglu hf. og um síðara fjárhagslegt uppgjör á hagnaði vegna slíkra viðskipta. Í því sambandi var ákveðnum fyrirspurnum beint til þeirra.

Í svarbréfi Ólafs Ólafssonar til rannsóknarnefndar, dags. 20. mars 2017, sagði að eftir því sem hann kæmist næst hefði Michael Sautter annast öll samskipti fyrir hönd Hauck & Aufhäuser gagnvart Kaupþingi. Í bréfinu kvaðst Ólafur jafnframt ekki hafa tekið þátt í viðræðum um gerð samninganna og að enginn fulltrúi á hans vegum hefði verið aðili að þeim. Hann hefði enn fremur „ekkert innlegg“ haft „í samningaviðræðurnar“ og „ekki séð þá samninga sem samningsaðilar gengu frá sín á milli“. Af þeim sökum væri hann „ekki í aðstöðu til að svara spurningum um samninga Kaupþings og Hauck & Aufhäuser“. Síðan sagði í bréfi Ólafs:

„Ef mér hafa borist upplýsingar um eða afrit af tölvupóstsamskiptum milli fulltrúa Hauck & Aufhäuser og Kaupþings þar sem viðskiptin voru til umræðu þá rekur mig ekki minni til þess. Hvorki ég né fyrirtæki í beinni eða óbeinni eigu minni voru aðilar að samningnum. Samningarnir voru eðli málsins samkvæmt alfarið á forræði þeirra sem þá undirrituðu. Hafi efni þeirra verið tilkynningaskylt hér landi eða erlendis þá var það hlutverk samningsaðilanna að upplýsa um efni þeirra. Rétt er að taka fram að fulltrúar S-hópsins voru aldrei spurðir um fjármögnun Hauck & Aufhäuser. Öll samskipti við ríkið voru í samræmi við þá samninga sem undirritaðir voru og öllum spurningum sem beint var að hópnum var svarað með fullnægjandi hætti.“

Í bréfi Guðmundar Hjaltasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eglu hf., til rannsóknarnefndar, dags. 20. mars 2017, sagði að eftir því sem hann kæmist næst hefði Michael Sautter annast „öll samskipti fyrir hönd Hauck & Aufhäuser gagnvart Kaupþingi“. Síðan sagði:

„Við lestur bréfs [rannsóknarnefndar] frá 13. mars sl. rifjaðist upp að líklega var undirrituðum kunnugt um viðræður milli þýska bankans og Kaupþings. Hugsanlega hafi ég verið cc. í tölvupóstsamskiptum milli aðila og jafnvel veitt álit á samningsdrög. Mikilvægt er hins vegar að hafa í huga að ég hafði ekkert umboð til að koma fram fyrir hönd annars hvors samningsaðilans við samningsgerðina. Samninga þá sem samningsaðilar gengu frá sín á milli hef ég ekki séð. Af þessum sökum er ég ekki í aðstöðu til að svara spurningum um samninga Kaupþings og Hauck & Aufhäuser. Samningarnir voru eðli málsins samkvæmt alfarið á forræði þeirra aðila sem þá undirrituðu. Hafi efni þeirra verið tilkynningarskylt hér á landi eða erlendis þá var það hlutverk samningsaðilanna að upplýsa um efni þeirra. Rétt er að taka fram að fulltrúar S-hópsins voru aldrei spurðir um fjármögnun Hauck  & Aufhäuser. Öll samskipti við ríkið voru í samræmi við þá samninga sem undirritaðir voru og öllum spurningum sem beint var að hópnum var svarað með fullnægjandi hætti.“

Með vísan til þeirra gagna sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum og rakin hafa verið og birt í 5. kafla þessarar skýrslu telur rannsóknarnefndin í sjálfu sér ekki tilefni  til að taka sérstaka nánari afstöðu til þeirra sjónarmiða sem fram koma í bréfum Ólafs og Guðmundar og vitnað er til hér að framan. Telja verður að gögn rannsóknarnefndar sýni meðal annars svo að ekki verður um villst að Ólafur Ólafsson hafi ekki aðeins verið upplýstur um gerð baksamninganna heldur hafi hann einnig frá upphafi átt að njóta, og notið í reynd, fjárhagslegs ávinnings af þeim. Þá telur nefndin rétt að minna á að í tölvupósti Ralf Darpe til Ólafs Ólafssonar, dags. 17. desember 2017, sem sendur var með afriti á Michael Sautter og rakinn er í 5. kafla, var Ólafur spurður sérstaklega, í tilteknu samhengi sem nánar er rakið þar, hvort bóka ætti hótelherbergi fyrir „the Puffin“ eða „lundann“. Af gögnum rannsóknarnefndar, m.a. skjaladrögum aðila og samskiptum sem tengjast baksamningunum er ljóst að með viðurnefninu „Puffin“ var vísað til Kaupþings hf. eða þess verkefnis sem fólst í baksamningunum.

Að því er snertir aðkomu Guðmundar Hjaltasonar í ljósi fyrrgreindra svara hans telur rannsóknarnefndin nægja að vísa til þeirra ítarlegu upplýsinga og gagna sem rakin eru og birt í 5. kafla skýrslunnar um beinan og verulegan þátt hans í gerð baksamninganna frá upphafi til enda.

Rannsóknarnefndin telur rétt að taka fram að í gögnum hennar hefur ekkert komið fram um að aðrir einstaklingar sem voru í forsvari fyrir aðila innan S-hópsins, þ.e. þeir Kristján Loftsson, stjórnarformaður Kers hf., Margeir Daníelsson, framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins, Finnur Ingólfsson, framkvæmdastjóri VÍS hf. og Axel Gíslason, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, hafi á nokkru stigi haft vitneskju um gerð, tilvist, áhrif eða síðari framkvæmd þeirra baksamninga sem hér um ræðir.

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar telur nefndin einnig hafið yfir allan vafa að tilteknir starfsmenn Kaupþings hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A hafi annars vegar átt beinan og verulegan þátt í eða hins vegar haft vitneskju um baksamninganna og gerð þeirra. Ljóst er að drög að baksamningunum voru m.a. samin og fullgerð af Bjarka Diego, sem starfaði sem lögfræðingur í Kaupþingi hf. á þessum tíma. Þá fylgdust ýmsir stjórnendur Kaupþings hf. og dótturfélags þess í Lúxemborg með gerð samninganna og tóku ákvarðanir um ráðstafanir sem tengdust þeim og framkvæmd þeirra. Þar á meðal voru Hreiðar Már Sigurðsson, þáverandi aðstoðarforstjóri Kaupþings hf., Steingrímur Kárason, yfirmaður áhættustýringar í Kaupþingi hf., og Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings hf., eins og rakið er í 5. kafla skýrslunnar.

Rannsóknarnefndin sendi einstaklingum úr ofangreindum hópi fyrrverandi starfsmanna Kaupþings hf. einnig bréf með fyrirspurnum, samsvarandi þeim sem áður voru nefnd varðandi Ólaf Ólafsson og Guðmund Hjaltason. Í svarbréfi Hreiðars Más til rannsóknarnefndarinnar, dags. 20. mars 2017, kom fram að við lestur á bréfi nefndarinnar „rifjaðist eitthvað upp um lánaviðskiptin“ en að hann treysti sér ekki til að svara spurningum nefndarinnar vegna þess tíma sem liðinn væri frá atvikum málsins án þess að hafa fullan aðgang að gögnum þess. Í bréfi Bjarka Diego, dags. 20. mars 2017, var enn fremur vísað til þess hversu langt væri um liðið frá atvikum málsins og hann gæti því ekki sagt til um eða svarað fyrir þau atriði sem fyrirspurnir nefndarinnar til hans beindust að. Í bréfi Steingríms Kárasonar, dagsettu sama dag, kvaðst hann ekki muna með neinni vissu eftir þeim atriðum sem fyrirspurnir nefndarinnar lutu að þannig að hann treysti sér til að svara þeim með áreiðanlegum hætti. Í bréfi Kristínar Pétursdóttur, dags. 21. mars 2017, sagði að ekki væri útilokað að hún hafi átt einhverja aðkomu að einstökum samningum eða ráðstöfunum sem lýst var í bréfinu þegar hún starfaði hjá Kaupþingi en vegna hins langa tíma sem liðið hefði væri erfitt að segja til um það með afgerandi hætti.

Að mati nefndarinnar liggur fyrir að Sigurður Einarsson, þáverandi forstjóri Kaupþings, fékk sendar upplýsingar í tölvupóstum um lánveitingu Kaupþings til Welling & Partners og fyrirmæli um símgreiðslur vegna þess láns inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Af gögnum rannsóknarnefndar verður hins vegar ekki ráðið með óyggjandi hætti hvort Sigurður hafi á þeim tíma öðlast vitneskju um gerð baksamninganna og efni þeirra, enda verður hvorki séð að hann hafi komið að ráðstöfunum þeim tengdum eða sent öðrum upplýsingar eða fyrirmæli þar um. Í bréfi Sigurðar til nefndarinnar, dags. 20. mars 2017, kvaðst hann því miður ekki geta aðstoðað nefndina við að svara þeim spurningum sem að honum væri beint.

Á hinn bóginn er ljóst að hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. höfðu bæði Magnús Guðmundsson, annar framkvæmdastjóra bankans, og Eggert J. Hilmarsson, lögfræðingur hjá bankanum, vitneskju um gerð baksamninganna, auk þess að taka virkan þátt í ráðstöfunum sem þeim tengdust og síðari framkvæmd þeirra. Í því sambandi nutu þeir aðstoðar Karim Van den Ende hjá félaginu KV Associates S.A. sem útvegaði félagið Welling & Partners, auk þess að annast ýmsa umsýslu í tengslum við félagið og framkvæmd baksamninganna með þeim hætti sem rakið er í þessari skýrslu. Í bréfi til nefndarinnar, dags. 20. mars 2017, kvaðst Magnús ekki minnast atriða um gerð baksamninganna og framkvæmd þeirra. Eins og rakið er í 1. kafla skýrslunnar kom Eggert þeirri afstöðu á framfæri við nefndina að honum væri ekki unnt að svara neinum fyrirspurnum nefndarinnar vegna reglna um bankaleynd í Lúxemborg.

Ekkert í gögnum rannsóknarnefndar bendir til þess að nefndarmenn í framkvæmdanefnd um einkavæðingu, starfsmenn nefndarinnar, ráðherrar sem sátu í ráðherranefnd um einkavæðingu eða raunar nokkur annar fulltrúi eða starfsmaður íslenskra stjórnvalda eða stofnana þeirra hafi á nokkru stigi haft vitneskju um hver aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. hafi verið í reynd og þá með hvaða hætti staðið var að þeim málum bak við tjöldin af hálfu Ólafs Ólafssonar, Guðmundar Hjaltasonar, tiltekinna starfsmanna Kaupþings hf., svo og einstakra starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A og Hauck & Aufhäuser. Þá hefur ekkert komið fram við rannsókn nefndarinnar sem bent gæti til þess að neinn þessara aðila hafi haft hugmynd um að fjárhagslegur ávinningur af viðskiptum með þá hluti í Eglu hf. sem Hauck & Aufhäuser var í orði kveðnu eigandi að hafi frá upphafi verið áskilinn og í reynd á endanum runnið til aflandsfélags í eigu Ólafs Ólafssonar og aflandsfélagsins Dekhill Advisors Ltd.

Við rannsókn nefndarinnar komu ekki fram upplýsingar um raunverulega eigendur síðastnefnda félagsins. Með vísan til þess að Kaupþing hf. lagði fram fjármuni til þeirra viðskipta sem baksamningarnir lutu að, bar í reynd alla fjárhagslega áhættu af baksamningunum og að öðru leyti annars sem rakið hefur verið í skýrslunni varðandi þátt starfsmanna Kaupþings hf. í gerð og síðari framkvæmd hinna leynilegu baksamninga telur nefndin þó að líkur standi til þess að Kaupþing sjálft eða aðilar því tengdir hafi verið raunverulegir eigendur Dekhill Advisors eða notið þeirra fjármuna sem þangað runnu. Í bréfi Hreiðars Más Sigurðssonar sem vitnað er til hér að framan kvaðst hann aldrei hafa heyrt minnst á þetta félag fyrr en í bréfi nefndarinnar. Svör Bjarka Diego og Magnúsar Guðmundssonar í fyrrnefndum bréfum þeirra sama dag voru á sömu leið. Í svarbréfum Sigurðar Einarssonar, Kristínar Pétursdóttur og Steingríms Kárasonar var spurningum nefndarinnar um Dekhill Advisors ekki svarað sérstaklega. Í bréfum Sigurðar Einarssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar, Steingríms Kárasonar og Magnúsar Guðmundssonar var hins vegar fullyrt að þeir hefðu aldrei sjálfir notið fjárhagslegs ávinnings af viðskiptum sem tengdust þeim baksamningnum sem fyrirspurnir til þeirra lutu að. Þá hafa þeir Lýður og Ágúst Guðmundssynir svarað fyrirspurnum nefndarinnar um félagið á þann veg að þá reki ekki minni til atriða sem því tengjast.

Ofangreind bréf rannsóknarnefndarinnar og svör við þeim eru birt í viðauka með vefútgáfu skýrslunnar.

Í íslensku lagamáli nær hugtakið blekking almennt til þess að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd manns um einhver atvik. Telja verður raunar að almennur skilningur á þessu hugtaki sé í meginatriðum á sömu lund. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að þau gögn sem rakin hafa verið og birt í þessari skýrslu, og þau atvik sem umrædd gögn varpa skýru og ótvíræðu ljósi á, sýni fram á svo ekki verði um villst að íslensk stjórnvöld hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Aufhäuser að þeirri einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. sem lokið var með kaupsamningi 16. janúar 2003. Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefndarinnar skýru og ótvíræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekkingu, komu henni fram og héldu svo við æ síðan, ýmist með því að leyna vitneskju sinni um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser eða halda öðru fram gegn betri vitund.[208] Í bréfi umboðsmanns S-hópsins er samhliða vísað til þess sem virðist vera yfirlýsing þýska bankans á ensku en hún var svohljóðandi: „Hauck & Aufhäuser will finance its purchase from its own resources - meaning that it will use its free assets to purchase the shares in Egla.“