15. kafli – Tilkynningar rannsóknarnefndar
15. Tilkynningar rannsóknarnefndar
Með f-lið 2. mgr. þingsályktunar Alþingis nr. 42/139 frá 10. júní 2011 um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna var rannsóknarnefnd Alþingis falið að gera ráðstafanir til að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir tilkynnir rannsóknarnefnd Alþingis ríkissaksóknara ef grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála. Nefndin hefur því ekki á hendi sakamálarannsókn. Þá skal rannsóknarnefndin tilkynna viðkomandi forstöðumanni og hlutaðeigandi ráðuneyti, telji nefndin að ætla megi að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða annarra laga sem um störf hans gilda, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011.
Það er meginhlutverk rannsóknarnefndar að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum í tilteknu máli, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir. Hlutverk rannsóknarnefndarinnar er því að upplýsa mál en ekki að fella sök á einstaklinga eða lögaðila. Því tekur rannsóknarnefndin hvorki afstöðu til þess eða lýsir yfir að refsiverð háttsemi hafi verið viðhöfð né fylgir slíkri yfirlýsingu eftir, enda hefur nefndin, sem aðeins starfar tímabundið, ekki þær valdheimildir sem til þarf. Rannsókn á refsiverðri háttsemi eða brotum gegn starfsskyldum, sem varðað geta viðurlögum, kemur því í hlut þar til bærra yfirvalda.
Rannsókn nefndarinnar lýtur að aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Við rannsóknina vaknaði í vissum tilvikum grunur um brot gegn lögum og reglum, sem jafnan voru talin afleiðing af tilteknum ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi stjórna eða starfsmanna sparisjóðanna þar sem lögum, reglum, leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins eða starfsreglum sparisjóðanna sjálfra, sem settar voru á grundvelli laga, var ekki fylgt. Í samræmi við f-lið þingsályktunarinnar um starf nefndarinnar og áðurnefnda lagaskyldu hefur rannsóknarnefnd Alþingis séð ástæðu til að tilkynna ríkissaksóknara um grun rannsóknarnefndarinnar um refsiverð brot gegn ákvæðum laga eða tilvik þar sem vafi leikur á því að fyrirmælum ákvæða laga hafi verið fylgt, þar sem það getur varðað refsiábyrgð, og vekja athygli hans á þeim málum.
Tilkynningar rannsóknarnefndarinnar byggja á greiningu hennar á þeim atburðum og þeirri atburðarás sem greint er frá í skýrslunni, mati hennar á gögnum og upplýsingum sem aflað var í þágu rannsóknarinnar og afstöðu nefndarinnar til þeirrar háttsemi eða ákvörðunar, athafna eða athafnaleysis sem vakið hafa grun nefndarinnar um brot gegn lögum eða starfsskyldum. Ákvörðun um tilkynningu, án ítarlegrar rannsóknar á grundvelli fullnægjandi heimilda, er sjaldnast óumdeild. Rannsóknarnefndin býr ekki að heimildum til að fylgja grunsemdum sínum eftir, enda fellur það í skaut hlutaðeigandi yfirvalda sem fara með sakamálarannsóknir að taka ákvörðun um hvort efni séu til frekari rannsóknar á grundvelli tilkynninga nefndarinnar. Þá er mikilvægt að hafa í huga að ábendingar í opinberri skýrslu sem þessari geta reynst hlutaðeigandi afar þungbærar, einkum ef grunur reynist síðar ekki gefa tilefni til frekari rannsóknar hjá hlutaðeigandi yfirvöldum. Því er það haft að leiðarljósi að eigi skuli fella sök að ósekju. Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir er nefndinni ekki skylt að gefa viðkomandi kost á að tjá sig sérstaklega um þá ákvörðun rannsóknarnefndar að senda mál til ríkissaksóknara eða tilkynna það forstöðumanni eða ráðuneyti. Rannsóknarnefndin hefur ekki veitt hlutaðeigandi kost á því að gera athugasemdir við tilkynningar nefndarinnar. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ákveðið að greina hvorki frá því í skýrslu sinni hverjir eigi í hlut í tilkynningum nefndarinnar til ríkissaksóknara né lýsa nánar atvikum þeirra mála sem tilkynnt eru.
Í jafn umfangsmikilli rannsókn og þessari kann víða að vakna grunur um að ekki hafi verið farið að lögum. Sá grunur kann að verða staðfestur eða honum eytt með frekari rannsókn. Nokkur tími er liðinn frá þeim atburðum sem greint er frá í þessari skýrslu og frá því að rannsókn nefndarinnar hófst, og hafa yfirvöld gert úttektir á ákveðnum atriðum í starfsemi sparisjóðanna og rekstri á undanförnum árum. Rannsóknir kunna því að standa yfir í málum sem rannsóknarnefndin hefur séð ástæðu til að vekja athygli á hjá þar til bærum yfirvöldum. Því er brýnt að tefla ekki rannsóknarhagsmunum í tvísýnu. Eftir atvikum hefur rannsókn verið hætt. Fjöldi mála sem rannsóknarnefndin hefur tilkynnt til ríkissaksóknara þarf því ekki að endurspegla þann fjölda mála sem kann að verða tekinn til frekari rannsóknar. Í þeim málum sem tilkynnt voru tók rannsóknarnefndin ekki afstöðu til þess hvort þau kynnu að vera fyrnd, enda fellur það í skaut þar til bærra yfirvalda eða dómstóla.
Alls tilkynnti rannsóknarnefndin 21 mál til ríkissaksóknara á grundvelli ٤. mgr. ٥. gr. laga nr. ٦٨/٢٠١١. Þau ákvæði laga sem málin snerta geta öll varðað fangelsisrefsingu. Gert er ráð fyrir því að ríkissaksóknari sendi málin áfram til þess handhafa ákæruvalds, eða annarra yfirvalda eftir atvikum, sem fer samkvæmt ákvæðum laga með rannsókn þeirra mála sem tilkynnt voru. Koma þar helst til greina Fjármálaeftirlitið og embætti sérstaks saksóknara. Í samræmi við ákvæði ١. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara, þar sem segir að kærum og ábendingum um refsiverða háttsemi sem falli undir lögin skuli beint til embættisins, voru embætti sérstaks saksóknara sendar upplýsingar um þau mál þar sem grunur vaknaði um brot gegn lögum sem embættið fer með ákæruvald í, en um var að ræða mál þar sem grunur vaknaði að þar kynnu að hafa verið framin brot gegn ákvæðum í kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um auðgunarbrot. Með sama hætti voru Fjármálaeftirlitinu afhentar upplýsingar um þau mál þar sem grunur vaknaði um brot gegn lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en samkvæmt 1. mgr. 112. gr. d. laganna, sbr. 234. gr. laga nr. 88/2008, sætir brot gegn lögunum aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins. Um var að ræða ákvæði laganna sem varða takmarkanir á stórum áhættum og þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála. Þá var tilkynntur grunur um eitt brot gegn ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, þar sem lagt er bann við lánveitingum til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu, auk þess sem rannsóknarnefndin tilkynnti embætti ríkissaksóknara um þrjú mál þar sem nefndin taldi vafa leika á að farið hefði verið fyllilega að ákvæðum laga um endurskoðendur. Tilkynning um málin var send ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar. Tilkynningum rannsóknarnefndarinnar fylgdu engin gögn sem aflað var í þágu rannsóknarinnar, en samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011 er ekki heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað gæti verið gegn honum.
Af þeim málum sem þegar hafa verið til rannsóknar og tengjast málefnum sparisjóðanna, hefur tveimur verið lokið með þremur dómum Hæstaréttar,1 auk þess sem einum héraðsdómi hefur verið áfrýjað til réttarins.2 Rannsóknarnefndinni er ekki kunnugt um hversu mörg mál er varða sparisjóðina eru eða hafa verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitinu.3
1. Um er að ræða dóma Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 og 31. október 2013 í máli nr. 135/2013. Báðir vörðuðu dómarnir eitt og sama málið. Þá er um að ræða dóm Hæstaréttar 18. apríl 2013 í máli nr. 310/2012.
2. Um er að ræða dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2013 í máli nr. S-898/2012.
3. Á blaðamannafundi Fjármálaeftirlitsins 14. febrúar 2013 kom fram að stofnunin hefði lokið rannsóknum á málum tengdum bankahruninu og aðdraganda þess. Fram kom að alls hefðu 205 mál verið rannsökuð. Af þeim hefðu 66 mál verið kærð til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra eða embættis sérstaks saksóknara, og 37 mál þar sem um væri að ræða ætluð brot gegn almennum hegningarlögum sem vísað hefði verið til embættis sérstaks saksóknara. Ekki liggur fyrir hversu mörg þeirra mála varða sparisjóðina.