4 – Síðari tengd atvik og opinber umræða varðandi þátt Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans

(einföld vefútgáfa)

4.1  Sameining Búnaðarbankans og Kaupþings hf. og umfjöllun fjölmiðla um tildrög hennar

Vorið 2003 sameinaðist Búnaðarbankinn Kaupþingi hf. Hluthafafundir beggja banka samþykktu sameiningu 26. maí 2003. Hinn sameinaði banki fékk heitið Kaupþing Búnaðarbanki hf.

Af skrifum í fjölmiðlum á sama tíma voru uppi ýmsar vangaveltur um hvernig til þessarar sameiningar hafði komið. Í pistli Innherja, sem birtur var í Viðskiptablaði Morgunblaðsins

3. apríl 2003, sagði meðal annars svo:

„Sá stutti tími sem það tók forsvarsmenn Kaupþings að sammælast um formlegar viðræður hefur vakið upp hinar ýmsu samsæriskenningar í viðskiptalífinu. Meðal þeirra er að fyrirfram hafi verið búið að semja um sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans. Samkvæmt henni er ástæðan sú að S-hópinn skorti fjármagn til þess að greiða fyrir 45,8% hlut ríkisins í bankanum. Því til stuðnings er bent á kaup Kaupþings á tæplega 20% hlut Kers í VÍS tveimur dögum eftir að Fjármálaeftirlitið heimilaði kaup S-hópsins í Búnaðarbankanum. Greiddi Kaupþing 2,8 milljarða fyrir bréfin. Jafnframt hefur það vakið athygli að Hauck & Aufhäuser, sem er stærsti einstaki hluthafinn innan S-hópsins, sé ekki með mann í bankaráði Búnaðarbankans né hafi fulltrúi bankans mætt á aðalfund Búnaðarbankans. Heldur er framkvæmdastjóri hjá Société Générale, dr. Michael Sautter, meðal bankaráðsmanna en eins og fram hefur komið veitti franski bankinn Société Générale S-hópnum ráðgjöf við tilboðsgerð í Búnaðarbankann án nokkurra eignatengsla við kaupin. Ef Kaupþing og Búnaðarbanki sameinast verður spennandi að sjá hver eða hverjir setjast í stól bankastjóra í sameinuðum banka og hvernig stjórn bankans verður skipuð. Hvort bankastjórinn komi frá Kaupþingi og formaður stjórnar frá Búnaðarbankanum eða öfugt. En þrátt fyrir allar samsæriskenningar er ekki hægt að fullyrða neitt um hversu langt tilhugalífið er hjá Búnaðarbankanum og Kaupþingi enda hefur ekkert komið fram opinberlega sem sannar þær.“

Daginn eftir, 4. apríl 2003, var í dagblaðinu DV fjallað um yfirlýsingu sem sögð var stafa frá Ólafi Ólafssyni. Fréttin hófst þannig:

„Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Eglu hf., segir í yfirlýsingu það rangt að samningar hafi legið fyrir um sameiningu Búnaðarbanka og Kaupþings áður en gengið var frá kaupunum á kjölfestuhlutnum í Búnaðarbankanum eins og ýjað hafi verið að.“

Síðar í fréttinni var vitnað beint til yfirlýsingarinnar sem sögð var stafa frá Ólafi Ólafssyni með svofelldum hætti:

„„Það er einnig rangt að Kaupþing hafi annast fjármögnun Eglu á hlutunum í Búnaðarbankanum. Ker á tæplega helmings hlut í Eglu á móti þýska bankanum Hauck & Aufhäuser Privatbankiers. Sú lánafyrirgreiðsla sem Egla fékk vegna kaupa sinna er alfarið frá Landsbankanum, viðskiptabanka Eglu og Kers. Það er einnig rangt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser eigi ekki fulltrúa í bankaráði Búnaðarbankans né hafi fulltrúar bankans ekki mætt á aðalfund Búnaðarbankans. Dr. Michael Sautter, framkvæmdastjóri Société Générale, var tilnefndur sem fulltrúi Eglu og þar með þýska bankans í bankaráðið,“ segir Ólafur Ólafsson.“

4.2  Sala Eglu hf. á 4,05% hlut í KB banka og erindi Eglu hf. til viðskiptaráðherra um afléttingu á hömlum á eignarhaldi

Með bréfi dagsettu 27. febrúar 2004 leituðu Egla hf. og hluthafar félagsins eftir því við viðskiptaráðherra að hann veitti fyrir hönd ríkisins samþykki sitt fyrir því að félagið eða hluthafar í því fengju heimild til þess að eiga viðskipti sín á milli með hluti í félaginu þrátt fyrir sérákvæði í 11. gr. kaupsamningsins sem takmarkaði ráðstöfun eigenda Eglu hf. á hlutum í félaginu. Eins og áður var getið fór viðskiptaráðherra samkvæmt kaupsamningnum með fyrirsvar fyrir ríkið í tilvikum þar sem afla þyrfti samþykkis seljanda. Í bréfinu, sem Kristinn Hallgrímsson, hæstaréttarlögmaður, ritaði fyrir hönd Eglu hf. sagði m.a. svo:

„Samkv. gr. 11.3. í kaupsamningi dags. 16. janúar 2003 milli viðskiptaráðherra f.h. íslenska ríkisins og Eglu hf., Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, Samvinnulífeyrissjóðsins og Vátryggingafélags Íslands hf., um kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf., sem nú tekur til hluta í KB-banka hf., er hluthöfum Eglu hf. óheimilt að „selja, veðsetja eða ráðstafa á annan hátt, hlutum í Eglu hf., eða réttindum samkvæmt þeim, í tuttugu og einn mánuð frá undirritun samnings“, „nema að fengnu skriflegu samþykki seljanda“. Framangreindur frestur rennur út í október nk.

Með vísan til framangreinds, þá óskar Egla hf. og hluthafar þess eftir samþykki viðskiptaráðherra f.h. íslenska ríkisins, fyrir að félagið og/eða núverandi hluthafar í Eglu hf. fái heimild til þess að eiga viðskipti sín í milli með hluti í Eglu hf. Til stendur, ef umbeðið samþykki verður veitt, að Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGAA minnki hlut sinn í félaginu með sölu hluta sinna til annarra hluthafa félagsins og/eða Eglu hf. um tæp 33%, þannig að eignarhlutur Hauck & Aufhäuser minnki úr hlutum að nafnverði kr. 7.239.000,00, sem taka til 50% alls hlutafjár félagsins, í hluti að nafnverði kr. 2.505.307,00, sem taka til 17,31% alls hlutafjár í Eglu hf.

Erindi þetta felur í sér minniháttar frávik frá upphaflegum kaupsamningi aðila, og felur einvörðungu í sér að Egla hf. og/eða hluthafar þess breyti eignarhlutföllum innan hópsins, en þetta eru allt aðilar sem þegar eru bundnir af öllum fyrirvörum, skilyrðum og hluthafasamningi samkv. framangreindum kaupsamningi.

Undirritaður vill vekja athygli á, f.h. ofangreindra umbj. minna, þótt ekki sé sú ábending hluti af erindi þessu, að tímabært kann að vera að fella niður skilyrði ákvaðar í 11. kafla framangreinds kaupsamnings, um takmarkanir á ráðstöfun hinna seldu hluta, með vísan til þess að umbj. mínir ráða ekki lengur yfir kjölfestuhlut í banka eftir samruna Búnaðarbanka Íslands hf. og Kaupþings-banka hf. í KB-banka hf. Með vísan til þess hversu lítinn hluta í hinum sameinaða banka umbj. mínir eiga, þá virðist eðlilegt að alm. lög um eignarhald í fjármálastofnunum og viðskiptabönkum gildi um þann eignarhlut, en ekki sérstakar tímabundnar takmarkanir í kaupsamningi aðila, enda forsendur fyrir þeim ákvæðum löngu brostnar.“

Með bréfi, dags. 8. mars 2004, féllst viðskiptaráðherra á erindi Eglu hf. fyrir hönd ríkisins.[43] Síðar í skýrslunni er greint nánar frá viðskiptum annars vegar með hluti Eglu hf. í KB- banka skömmu fyrir þessa beiðni til viðskiptaráðherra og hins vegar með hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. skömmu eftir samþykki viðskiptaráðherra við henni.

4.3  Athuganir Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins í kjölfar opinberrar umræðu um aðkomu Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu  Búnaðarbankans

4.3.1  Opinber umfjöllun sumarið 2005 varðandi efasemdir um þátt Hauck & Aufhäuser í einkavæðingunni

Í viðtali við Morgunblaðið 27. júní 2005, gerði Vilhjálmur Bjarnason, þá aðjúnkt í hagfræði við Háskóla Íslands, opinberlega athugasemdir við hvernig aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum Eglu hf. á Búnaðarbankanum hefði verið háttað. Taldi Vilhjálmur að íslenska ríkið, framkvæmdanefnd um einkavæðingu og Ríkisendurskoðun hefðu í reynd verið blekkt um aðkomu bankans, þar sem mun líklegra væri að bankinn hefði ekki sjálfur fjárfest í Búnaðarbankanum heldur aðeins fyrir hönd viðskiptavinar, sem fjármagnað hefði fjárfestinguna.

Í viðtalinu lýsti Vilhjálmur þeirri skoðun að ljóst hafi legið fyrir frá upphafi að S-hópurinn hefði ekki átt fyrir Búnaðarbankanum og því orðið að útvega fé með einhverjum öðrum hætti. Hópurinn hefði því tekið lán hjá hinum þýska banka, en til þess að tilboð hópsins liti betur út hefði verið sagt að þýski bankinn væri hluthafi. Þýski bankinn hefði hins vegar aldrei ráðið nokkru um þennan meinta hlut, heldur hefðu aðrir farið með eignarhaldið, annaðhvort einhver innan S-hópsins eða hugsanlega Kaupþing. Síðar hefði lánið verið greitt upp, m.a. með gróðanum sem myndaðist þegar hlutabréf í Búnaðarbankanum snarhækkuðu.

Sama dag var einnig rætt við Vilhjálm í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Er þar rakið að í fréttum útvarpsins daginn áður hafi verið haft eftir Vilhjálmi að Hauck & Aufhäuser hefði aldrei átt þann hlut í Búnaðarbankanum sem hann var sagður eiga heldur S-hópurinn svonefndi sem seinna varð aðalkaupandi að bankanum. Í ársskýrslu þýska bankans frá árinu 2003 komi fram að engar breytingar hafi orðið hlutabréfaeign bankans í fjármálafyrirtækjum það árið. Síðan segir í fréttinni:

„Vilhjálmur Bjarnason: Sko ályktunin sem ég dreg er ósköp einfaldlega sú að bankinn var ekki hluthafi, bankinn eignaðist þessi bréf sem veðhafi.“ Hér sé um að ræða framvirkan samning þar sem aðili leggi fram bréf og hafi á þeim endurkauparétt án þess að hafa rétt til frjálsrar sölu. Vilhjálmur vill ekki segja til um hvort það hafi einhverju ráðið við bankasöluna að þýski bankinn hafi verið sagður einn kaupenda. Vilhjálmur Bjarnason aðjúnkt við HÍ: „Ég get ómögulega giskað á það en það hins vegar kom fram að það þótti mjög gott í þessari sölu að erlendur banki væri hluthafi í bankanum. Héðinn Halldórsson: „Sem að svo reyndist ekki vera.“ Vilhjálmur Bjarnason: „Sem reynist greinilega ekki vera, en svo segja að vísu aðilar sem tengjast málinu að þeir hafi komið hér á aðalfund og setið í stjórn en menn verða þá að leika leikritið til loka og þetta var mjög vel leikið.“

Sama dag og viðtalið við Vilhjálm birtist var fjölmiðlum send yfirlýsing í nafni Hauck & Aufhäuser með undirritun Peters Gatti, framkvæmdastjóra bankans. Yfirlýsingin var, samkvæmt frétt Morgunblaðsins um hana næsta dag, 28. júní 2005, sögð gefin út „vegna umræðu um sölu íslenska ríkisins á Búnaðarbankanum“. Yfirlýsingin hljóðaði í heild sinni svo:

„Frankfurt am Main, 27. júní 2005.

Hauck & Aufhäuser bankanum bauðst á sínum tíma að taka þátt í útboðsferli vegna sölu íslenska ríkisins á Búnaðarbanka Íslands hf. Að okkar mati var Búnaðarbankinn áhugaverður fjárfestingarkostur, þrátt fyrir að verðið væri hátt á þeim tíma. Enginn vafi leikur á að Kaupþing banki hf., sem varð til við samruna Búnaðarbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf., hefur staðið sig afar vel og gert mjög góða hluti. Undirritaður hefur notið þess að sitja í stjórn bankans allt þar til ég gekk úr stjórn bankans á síðasta aðalfundi, og vona að framlag mitt hafi orðið til góðs. Við hjá Hauck & Aufhäuser erum eindregið þeirrar skoðunar að Íslendingar geti verið stoltir af að hafa byggt upp jafn-öfluga fjármálastofnum og Kaupþing banki hf. er.

Við lýstum því yfir í upphafi að við værum skammtímafjárfestar en myndum virða í hvívetna samninga við íslenska ríkið um lágmarkstíma eignarhalds á bankanum. Það fyrirheit höfum við efnt.

Á því tímabili sem við höfum átt hlutabréf í Eglu hf., en það félag á hlutabréf í Búnaðarbankanum og síðar í Kaupþing banka hf., hafa þau verið bókuð í ársreikningi bankans.

Okkur þykir miður að efasemdir skuli hafa vaknað um heilindi okkar í þessu máli og að nafn bankans skuli dragast með neikvæðum hætti inn í umræðu um einkavæðingu á Íslandi.

Virðingarfyllst,

f.h. Hauck & Aufhäuser bankans Peter Gatti, framkvæmdastjóri.“[44]

Í yfirlýsingu sem Egla hf. sendi fjölmiðlum sama dag, og fjallað var um í fjölmiðlum samhliða yfirlýsingunni sem send var í nafni Hauck & Aufhäuser, sagði að ekkert væri hæft í þeim ummælum Vilhjálms Bjarnasonar að Hauck & Aufhäuser hafi aldrei átt    þá hluti sem bankinn var skráður fyrir í Eglu hf. Í yfirlýsingunni sagði enn fremur að „Hauck & Aufhäuser [hafi gerst] hluthafi í Eglu hf. hinn 15. janúar 2003, ásamt Keri hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf., og [verið] eigandi helmings hlutafjár félagsins þegar það keypti kjölfestuhlut af íslenska ríkinu í Búnaðarbanka Íslands hf. hinn 16. janúar 2003“.

Að því er snerti þau ummæli Vilhjálms að eignarhlutur þýska bankans hefði raunverulega verið í höndum S-hópsins og um hefði verið að ræða lán með veði í hlutabréfunum sagði í yfirlýsingunni að „þessar fullyrðingar [væru] rangar,“ og að eina lánafyrirgreiðslan sem Egla hf. hafi notið í viðskiptunum hafi verið frá Landsbankanum, viðskiptabanka Eglu hf. Um þá fullyrðingu Vilhjálms að engar upplýsingar kæmu fram í ársskýrslu Hauck & Aufhäuser um að þýski bankinn ætti hlut í Búnaðarbankanum, sagði svo í yfirlýsingunni:

„Eðlilega finnast engar upplýsingar um að Hauck & Aufhäuser hafi átt hlut í Búnaðarbankanum. Hauck & Aufhäuser var hluthafi í Eglu hf., sem keypti kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. ásamt fleiri fjárfestum, og þau bréf voru færð í ársreikningi Hauck & Aufhäuser á því tímabili sem bankinn átti hlut í Eglu hf., eins og fram kemur í yfirlýsingu frá Hauck & Aufhäuser 27. júní 2005. Jafnframt skal það áréttað enn og aftur að Hauck & Aufhäuser átti fulltrúa í bankaráði Búnaðarbankans og síðar KB banka, frá því gengið var frá kaupum Eglu hf. á kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum þar til á síðasta aðalfundi KB banka.

Vangaveltur um að Hauck & Aufhäuser hafi ekki tekið fullan þátt í kaupunum á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf., í gegnum kaup sín í Eglu hf., eiga ekki við nein rök að styðjast og sætir undrum að kennari við jafn virta stofnun og viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, skuli láta hafa slíkar órökstuddar dylgjur eftir sér í fjölmiðlum.“

Fjölmiðlar leituðu viðbragða Vilhjálms Bjarnasonar við þessum yfirlýsingum vegna staðhæfinga hans. Í viðtali dagblaðsins Blaðsins við Vilhjálm 30. júní 2005 kom þannig meðal annars fram að Vilhjálmur teldi skýringar Eglu hf. sem fram komu með  yfirlýsingunni „engu breyta“. Eftir Vilhjálmi var haft að ekkert í ársreikningi þýska bankans gæfi til kynna að hann hefði komið beint að kaupum í Búnaðarbankanum. Þvert á móti sýndist Vilhjálmi að bankinn hefði einungis verið „leppur fyrir einhvern óþekktan aðila“. Aðspurður um hver það gæti hafa verið var haft eftir Vilhjálmi að hann „[vildi] láta öðrum þær vangaveltur eftir“. Í viðtalinu kom nánar fram um þetta:

„Vilhjálmur Bjarnason efast um að þýski „sveitabankinn“, eins og hann orðar það, hafi nokkurn tímann ætlað sér raunverulega að taka þátt í kaupunum á Búnaðarbanka. Þess í stað hafi bankinn einfaldlega verið leppur fyrir óþekktan aðila í kaupunum. Því til staðfestingar bendir hann á að ekkert í ársreikningi bankans sýni hreyfingar sem nauðsynlegar væru við svo stór kaup. Hlutabréfaeign bankans væri það lítil að öll hlutabréfakaup af þeirri stærðargráðu, sem þurfi í tengslum við kaupin á Búnaðarbanka, væru auðsjáanleg í ársreikningi. Hauck & Aufhäuser hafi því aldrei eignast hlut í Búnaðarbanka árið 2003.

Vilhjálmur fullyrðir að stjórnvöld hafi því verið blekkt og segir að full ástæða sé fyrir forráðamenn Kaldbaks að heimta fullnægjandi skýringar á málinu – þær upplýsingar sem gefnar hafi verið út í gær breyti engu í málinu.“

Í kjölfar sendingar framangreindra yfirlýsinga í nafni Hauck & Aufhäuser og Eglu hf. á fjölmiðla fjallaði Fréttablaðið í nokkrum fréttum þessa og næstu viku á eftir um atriði sem telja verður almennt séð óvenjuleg um slíkar yfirlýsingar í opinberri umræðu, nánar tiltekið að því leyti að sú umfjöllun varðaði annars vegar misræmi milli enskrar og íslenskrar útgáfu yfirlýsingarinnar sem send var út í nafni Hauck & Aufhäuser og hins vegar atriði sem þóttu gefa tilefni til að draga í efa að sú tilkynning hefði í reynd yfirhöfuð verið samin og send frá þýska bankanum sjálfum. Rétt þykir að greina í stuttu máli frá þessari umfjöllun Fréttablaðsins í rammagrein hér á eftir.


Fréttaflutningur um misræmi í orðalagi þýðingar og frumtexta og um óljósan uppruna yfirlýsingar í nafni Hauck & Aufhäuser 27. júní 2005 um aðkomu bankans að einkavæðingu Búnaðarbankans

Miðvikudaginn 29. júní 2005, eða daginn eftir að yfirlýsing Eglu hf. og yfirlýsing sú sem sögð var stafa frá Hauck & Aufhäuser birtust í fjölmiðlum, var fjallað nánar um þær í frétt á forsíðu Fréttablaðsins. Í fréttinni var meðal annars getið um að yfirlýsingin í nafni Hauck & Aufhäuser hefði verið send fjölmiðlum á ensku og íslensku. Bent var á að í enskri útgáfu yfirlýsingarinnar segði að hlutur þýska bankans í Eglu hf. hefði verið „færður í reikningsskil bankans“.[45] Í íslenskri útgáfu sömu yfirlýsingar væri hins vegar sagt að bréfin hefðu verið „bókuð í ársreikningi bankans“. Þessu næst var bent á það í frétt Fréttablaðsins að í ársreikningi þýska bankans væri ekkert getið um hlutinn í Eglu hf. eða Búnaðarbankanum, hvorki fyrir árið 2003 né 2004. Haft var eftir Kristni Hallgrímssyni, sem titlaður var lögmaður Eglu, að tildrög yfirlýsingarinnar hefðu verið samtöl fyrirsvarsmanna Eglu við fyrirsvarsmenn þýska bankans sem átt hefðu sér stað mánudaginn á undan (það er 27. júní 2005). Þar hefðu þeir fyrrnefndu upplýst hina síðarnefndu um umræðuna sem átt hefði sér stað í íslenskum fjölmiðlum vikurnar á undan, þar sem meðal annars hefði verið „dregið í efa eignarhald þeirra á hlutum í Eglu“. Samkvæmt Kristni hafi þýski bankinn þá ákveðið „að senda frá sér sína yfirlýsingu“. Í fréttinni sagði svo:

„Guðmundur Hjaltason, endurskoðandi og framkvæmdastjóri Eglu, mun að eigin sögn hafa þýtt tilkynningu Eglu [svo][46] yfir á íslensku og fyrirtækið Athygli sá svo um að koma tilkynningunum til fjölmiðla.“ Haft var eftir Árna Þórði Jónssyni hjá síðastnefnda almannatengslafyrirtækinu að það hefði aðeins séð um að senda tilkynninguna en hann vissi ekki hver hefði skrifað hana. Fram kom einnig hjá Kristni Hallgrímssyni að yfirlýsingu Hauck & Aufhäuser hefði verið „snarað yfir á íslensku til þess að hún kæmist til fjölmiðla sem fyrst“. Eftir honum var líka haft að „ef áhöld [væru] uppi um ónákvæmni í þýðingunni þá [væri] ekki við þýska bankann að sakast“. Einnig var bent á í fréttinni að í yfirlýsingu Hauck & Aufhäuser kæmi ekkert fram um hvort þýski bankinn hefði verið raunverulegur eigandi hlutarins í Búnaðarbankanum.

Fréttablaðið fjallaði aftur um þetta mál daginn eftir, fimmtudaginn 30. júní 2005, en í frétt í blaðinu þann dag var greint frá því að bæði íslenska og þýska fjármálaeftirlitið neituðu að tjá sig um málið. Í niðurlagi þeirrar fréttar var tekið fram að „forsvarsmenn þýska bankans“ hefðu ekki svarað skilaboðum Fréttablaðsins daginn áður.

Laugardaginn 2. júlí 2005 hélt Fréttablaðið áfram umfjöllun um málið. Í frétt blaðsins þann dag var haft eftir ónefndum fulltrúa Hauck & Aufhäuser (sem einnig var vísað til sem fulltrúa Peters Gatti, framkvæmdastjóra og meðeiganda bankans) að hann hefði fyrst heyrt um það „á miðvikudag“ (það er 29. júní 2005) að opinber umræða um bankann ætti sér stað á Íslandi. Af fréttinni mátti ráða að þessi svör hefðu fengist þegar óskað hefði verið eftir símaviðtali við Peter Gatti eða aðra forsvarsmenn bankans í höfuðstöðvum hans í Frankfurt í Þýskalandi. Einnig var haft eftir hinum ónefnda fulltrúa Peter Gatti að „honum væri ekki kunnugt um að nokkur fréttatilkynning hefði verið send út á vegum bankans til Íslands“. Í fréttinni var þessu næst vitnað aftur til þess sem haft hafði verið eftir Kristni Hallgrímssyni hrl. um tildrög umræddrar yfirlýsingar og rakið það fyrrnefnda misræmi sem var á milli enskrar og íslenskrar útgáfu hennar. Tekið var fram að engar leiðréttingar hefðu verið sendar vegna þessa „misræmis í þýðingu framkvæmdastjóra Eglu, Guðmundar Hjaltasonar“ og að yfirlýsingin hefði verið send út „á bréfsefni bankans, sem starfsmaður [almannatengslafyrirtækisins] Athygli [segðist] hafa fengið í hendurnar frá forsvarsmönnum Eglu hf.“. Loks var tekið fram í fréttinni að Guðmundur Hjaltason hefði ekki viljað tjá sig um málið og ekki hefði náðst í Kristin Hallgrímsson.

Ekki verður séð að Fréttablaðið hafi flutt frekari fréttir um þessi málefni eftir þetta eða að umfjöllun blaðsins hafi leitt til neinna frekari opinberra yfirlýsinga af hálfu fulltrúa Eglu hf. eða Hauck & Aufhäuser.


Ekki virðist hafa orðið frekari opinber umfjöllun um þessi málefni sumarið 2005, a.m.k. sem teldist einhverju geta bætt við framangreind efnisatriði. Umræða um þau hófst þó  á ný þegar skammt var liðið af árinu 2006 og leiddi þá til viðbragða opinberra stofnana eins og nánar verður greint frá í næsta kafla.

4.3.2  Athugun Fjármálaeftirlitsins á fyrri hluta árs 2006

Aðkoma Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans kom til umfjöllunar í sjónvarpsþættinum Silfri Egils, 19. febrúar 2006, þar sem Vilhjálmar Bjarnason var gestur. Vilhjálmur mun hafa gert þar grein fyrir sams konar athugasemdum og efasemdum um þetta og sumarið á undan, líkt og áður var rakið. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins sama dag kom eftirfarandi fram:

„Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við Háskóla Íslands segir að íslenska ríkið, Ríkisendurskoðun og einkavæðingarnefnd hafi verið beitt blekkingum við sölu Búnaðarbankans. Ítrekuð athugun hans á málinu staðfesti það. Hann segir að ekkert verði aðhafst í málinu ef menn séu sáttir við að láta ljúga að sér. Ríkið samdi við S-hópinn svokallaða um kaup á 45% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum fyrir 3 árum. S-hópurinn samanstóð af fjórum hópum: Vátryggingarfélagi Íslands, Samvinnulífeyrissjóðnum, Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum og Eglu hf. sem þýski bankinn Hauck und Aufhäuser var sagður eiga 35% hlut í. Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við Háskóla Íslands segir að nú sé komið á daginn að þýski bankinn átti ekkert í Eglu. Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við Háskóla Íslands: „Það er afskaplega einfalt að rekja það vegna þess að þessi þýski banki er mjög lítil stofnun. Hann er svona á stærð við stærri íslenska sparisjóði og reikningar bankans eru mjög skýrir og einfaldir.“ Ein af ástæðunum sem gefin var fyrir því að S-hópurinn fékk að kaupa Búnaðarbankann var sú að hann hafði innanborðs, eins og það var orðað þá: hið virta erlenda fjármálafyrirtæki.

Vilhjálmur segir líka hægt að rekja það út frá afkomutölum Búnaðarbankans þetta árið að þýski bankinn átti ekkert í Eglu. Vilhjálmur Bjarnason: „Egla er eignarhaldsfélag um hlutabréfin í Búnaðarbankanum. Þetta er þeirra eina eign og þetta er samkvæmt öllum reikningsskilareglum, þá er þetta dótturfélag. Þetta er helmingseign bankans. Og sú eign er óbreytt á milli ára. En í árslok 2003 þá ætti þetta að sjá sér stað með 30 milljónum evra en eign bankans er aðeins 6 milljónir evra, bæði í árslok 2002 og 2003.“ Jóhanna Margrét Einarsdóttir: „En ertu ekki bara með þessum orðum að segja að fjárfestahópurinn hafi logið að ríkinu?“ Vilhjálmur Bjarnason: „Ja, alla vegana að þær upplýsingar sem fyrir liggja, þær benda ekki til þess að bankinn sé eigandi og þessir eftirlitsaðilar íslensku, sem að, til dæmis eins og Fjármálaeftirlit, sem veitir heimild fyrir virkum eignarhlut í Búnaðarbankanum, hann kveikir ekki á perunni þarna. Ríkisendurskoðun athugar ekki þetta atriði í árslok 2003 þegar skýrslan, Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu er gerð. Einkavæðingarnefnd virðist heldur ekki hafa kveikt á málinu.“ Vilhjálmur segir að íslenska ríkið, Ríkisendurskoðun og einkavæðingarnefnd hafi verið beitt blekkingum við sölu Búnaðarbankans. En er eitthvað hægt að aðhafast í málinu nú? Vilhjálmur Bjarnason: „Ég veit það ekki. Ef menn eru sáttir við það að láta ljúga að sér þá er náttúrulega ekkert hægt að gera.“

Í kjölfar þessarar umfjöllunar var málið tekið til umfjöllunar á Alþingi en daginn eftir, 20. febrúar 2006, beindi Lúðvík Bergvinsson alþingismaður munnlegri fyrirspurn til viðskiptaráðherra á Alþingi þar sem meðal annars var spurt hver hinn raunverulegi eigandi viðkomandi hlutar í Búnaðarbankanum hefði verið.[47] Vitnað er nánar til fyrirspurnarinnar og svars viðskiptaráðherra hér til hliðar.

Sama dag lagði Ögmundur Jónasson alþingismaður fram svohljóðandi skriflega fyrirspurn til viðskiptaráðherra um kaup Eglu hf. á Búnaðarbankanum:[48]

1.  Getur viðskiptaráðherra upplýst með óyggjandi hætti, m.a. á grundvelli upplýsinga sem aflað verði frá Fjármálaeftirlitinu hérlendis og sambærilegri stofnun í Þýskalandi, hvort þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var eins og haldið hefur verið fram meðal raunverulegra kaupenda og síðan eigenda Búnaðarbankans sem hluti af Eglu hf. þegar einkavæðingu Búnaðarbankans lauk, sbr. tilkynningu 16. janúar 2003?

2.  Ef í ljós kemur að hinn erlendi banki var ekki meðal raunverulega kaupenda og upplýsingar þar um voru rangar, hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér gagnvart:

a.       öðrum bjóðendum í Búnaðarbankann sem gengið var fram hjá með vísan til hins erlenda banka sem þátttakanda í tilboði Eglu hf.,

b.       einkavæðingarnefnd,

c.       ráðherranefnd um einkavæðingu,

d.       Kauphöll Íslands vegna rangrar upplýsingagjafar eða mistaka við eftirlit,

e.       Fjármálaeftirlitinu vegna rangrar upplýsingagjafar eða mistaka við eftirlit,

f.        Ríkisendurskoðun, sbr. skýrslu þeirrar stofnunar um einkavæðinguna,

g.       kaupandanum Eglu hf.?“

Hinn 21. febrúar 2006, afhenti Vilhjálmur Bjarnason Fjármálaeftirlitinu gögn, sem að hans mati sýndu fram á að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hefði ekki verið hluthafi í Eglu hf. árið 2003 og þar með þátttakandi í einkavæðingu Búnaðarbankans í janúar það ár. Meðal gagna sem Vilhjálmur afhenti voru annars vegar ársreikningur þýska bankans fyrir árið 2003 og glærur sem hann hafði tekið saman þar sem fram kemur rökstuðningur hans fyrir fyrrgreindri fullyrðingu.[49]

Í tengslum við þá endurteknu umfjöllun fjölmiðla sem átti sér stað á þessum tíma um staðhæfingar Vilhjálms Bjarnasonar um þessi efni greindu fjölmiðlar einnig frá viðbrögðum forsvarsmanna Kers hf. og Hauck & Aufhäuser við þeim staðhæfingum. Rétt þykir að rekja helstu atriði úr þeirri fjölmiðlaumfjöllun, svo langt sem tilefni er til og gögn rannsóknarnefndar þar um ná, í rammagrein hér á eftir.


Guðmundur Hjaltason og Peter Gatti hafna að blekkingum hafi verið beitt varðandi þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans

Í Fréttablaðinu 21. febrúar 2006 var gagnrýnin umfjöllun um einkavæðingu Búnaðarbankans sem hófst á tilvísun í staðhæfingar Vilhjálms Bjarnasonar um blekkingar varðandi þátttöku Hauck & Aufhäuser í henni. Í fréttinni var skírskotað til málflutnings Vilhjálms með þeim hætti að hann hefði „haldið því fram að þýski bankinn hafi ekki átt neinn hlut í Eglu [hf.]“.[50] Í stuttri frétt sem birtist samhliða hinni fyrrnefndu var gerð grein fyrir viðbrögðum Guðmundar Hjaltasonar, sem þá var orðinn forstjóri Kers hf., við staðhæfingum Vilhjálms. Fyrirsögn fréttarinnar var „Þetta er rangt“ og voru þau orð höfð eftir Guðmundi. Í texta fréttarinnar var haft eftir Guðmundi að Vilhjálmur hyggi þarna í sama knérunn og sumarið áður þegar hann héldi því fram að S- hópurinn hefði beitt blekkingum við kaupin á Búnaðarbankanum. Hann hefði ekki komið fram með nýjar upplýsingar eða sýnt fram á að þessar ásakanir væru réttar. Svo var haft beint eftir Guðmundi: „Þetta er rangt. Við buðum Hauck & Aufhäuser að koma inn í Eglu og þeir komu inn sem fjárfestar og lögðu fram sitt hlutafé eins og allir aðrir. Ég er með samninginn sem sýnir það. Ásakanir um annað eru úr lausu lofti gripnar.“

Næsta dag, 22. febrúar 2006, birtist í viðskiptahluta Fréttablaðsins, Markaðnum, viðtal við Peter Gatti, sem þar var nefndur „bankastjóri Hauck & Aufhäuser“. Vísað var til viðtalsins í frétt á forsíðu Fréttablaðsins. Fyrirsögn fréttarinnar, ásamt yfirfyrirsögn, var: „Bankastjóri Hauck & Aufhäuser: Bankinn átti hlutinn sjálfur“. Í fréttinni var haft eftir Peter Gatti að hann vísaði því á bug að bankinn hefði keypt hlut í Búnaðarbankanum fyrir annan og að Hauck & Aufhäuser hefði keypt í bankanum vegna áhuga á að taka þátt í einkavæðingu hans. Viðtalið sjálft inni í blaðinu bar fyrirsögnina: „Segir bankann ekki lepp í einkavæðingu“. Í undirfyrirsögn sagði: „Peter Gatti, bankastjóri Hauck & Aufhäuser, vísar á bug ásökunum um að bankinn hafi ekki verið raunverulegur kaupandi við einkavæðingu.“ Í texta viðtalsins var haft eftir Gatti að hann vísaði því algerlega á bug að bankinn hefði verið „leppur í þessum viðskiptum, eins og haldið hefði verið fram í umræðu hér á landi“, bankinn hefði auðvitað haft áhuga á að hagnast á þessum viðskiptum og talið sig vera að taka vel ásættanlega áhættu, „umfang fjárfestingarinnar“ hefði ekki verið af þeirri stærðargráðu að áhættan væri of mikil. Gatti var einnig í viðtalinu spurður út í atriði sem umræða um þetta mál á Íslandi hafði ekki síst beinst að, það er varðandi færslu eignarhlutar bankans í Eglu hf. í bókhaldi bankans, og svaraði því með tilteknum hætti sem ekki er ástæða til að rekja nánar hér. Undir lok viðtalsins var haft eftir Gatti að hann „[ítrekaði] að við einkavæðingu Búnaðarbankans hefði bankinn keypt sjálfur og ekki [hefðu] legið fyrir neinir skriflegir eða munnlegir baksamningar í tengslum við kaupin“. Loks var haft eftir Gatti að bankinn hefði „fjárfest og fengið ágætan hagnað af þeirri fjárfestingu“.


Með bréfi, dags. 27. febrúar 2006, óskaði Fjármálaeftirlitið eftir því að Egla hf. upplýsti um hreyfingar á hlutafjárþátttöku Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. frá ársbyrjun 2003, nánar tiltekið dagsetningar og fjárhæðir og eignarhlutdeild þýska bankans eftir hverja breytingu á eignarhaldi í Eglu hf. Enn fremur var óskað eftir greinargerð um breytingar á eignarhaldi hluthafa í Eglu hf. frá ársbyrjun 2003 til þess dags sem bréfið var ritað.[51]

Með bréfi, dags. 2. mars 2006, mun viðskiptaráðherra hafa óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið veitti ráðuneytinu þær upplýsingar sem því væru nauðsynlegar til að svara framangreindri fyrirspurn Ögmundar Jónassonar alþingismanns.

Lögmaður Eglu hf., Kristinn Hallgrímsson hrl., svaraði fyrrnefndu erindi Fjármálaeftirlitsins með bréfi, dags. 3. mars 2006. Í bréfinu kom fram að því fylgdi yfirlit um hreyfingar á nafnverði hlutafjár í Eglu hf. frá stofnun félagsins til dagsins sem bréfið var dagsett en yfirlitið var sett fram með eftirfarandi hætti:

„1.  Stofnhlutafé félagsins var 10 mkr. Félagið var stofnað að ósk forráðamanna Kers hf. af undirrituðum lögmanni Kers hf. og Eglu hf. til að nota í viðskiptum við íslenska ríkið vegna kaupa á hlutabréfum í Búnaðarbanka Íslands hf.

2.  Þann 15. janúar 2003 var gerður kaupsamningur milli undirritaðs annars vegar og Kers hf., Hauck & Aufhäuser og VÍS hf. hins vegar um kaup á hlutum í Eglu hf.

3.  Þann 25. mars 2003 var hlutafé félagsins aukið til að standa við fyrri greiðslu af tveimur á kaupverði hlutabréfa í Búnaðarbanka Íslands hf. í samræmi við kaupsamning félagsins við íslenska ríkið.

4.  Þann 12. desember 2003 var hlutaféð aftur aukið til að standa undir síðari greiðslu í samræmi við fyrrgreindan kaupsamning við íslenska ríkið.

5.  Þann 20. febrúar 2004 seldi Egla hf. rúmlega 17,8 milljónir hluta í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. Andvirðinu var að mestu ráðstafað til kaupa á 23,86% hluta Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Var hlutafé Eglu hf. lækkað um rúmlega 4,6 mkr. að nafnverði í framhaldi af þeim kaupum.

6.  Þann 27. ágúst 2004 var hlutur VÍS hf. í Eglu hf. keyptur af Keri hf.

7.  Þann 29. desember 2004 var hlutafé Eglu hf. aukið um rúmlega 1,28 mkr. að nafnverði til að standa undir kaupum á nýjum hlutum í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. Egla hf. hafði tekið þátt í hlutafjáraukningu í bankanum, sem fram fór í október það ár.

8.  Þann 17. mars 2005 var tilkynnt um sölu Sunds ehf. og J&K eignarhaldsfélags ehf. á öllum hlutum félaganna í Eglu hf. til Fjárfestingarfélagsins Grettis hf.

9.  Þann 14. júní 2005 keypti Kjalar ehf. alla hluti Hauck und Aufhäuser í Eglu hf.

10.  Þann 2. ágúst 2005 er tilkynnt um sölu Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. á öllum hlutum þess félags í Eglu hf. til Burðaráss hf. 11. Þann 31. október 2005 kaupir Egla hf. eigin hluti af Straumi Burðarási hf.“

Fjármálaeftirlitið svaraði áðurnefndu bréfi viðskiptaráðherra með bréfi, dags. 3. apríl 2006. Í bréfinu eru rakin samskipti Fjármálaeftirlitsins við Eglu hf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Samvinnulífeyrissjóðinn og Vátryggingafélag Íslands hf. í tengslum við umsókn þessara aðila um samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupum á virkum eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands og hvaða upplýsinga Fjármálaeftirlitið hefði aflað vegna umsóknarinnar.[52] Þá segir í bréfinu:

„Miðað við þær upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið býr yfir og hefur aflað í samræmi   við skyldur sínar skv. VI. kafla laga nr. 161/2002, er ekkert sem bendir til annars en að umræddur þýsk[ur] banki hafi verið hluthafi í Eglu hf. í samræmi við veittar upplýsingar við sölu bankans í janúar 2003.“

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins var enn fremur vísað til þess að stofnunin hefði undir höndum ársreikning Hauck & Aufhäuser fyrir árið 2003 þar sem fram kæmi að hlutabréfaeign og önnur verðbréf með breytilegum tekjum (e. „shares and other variable-yield securities“) hefði verið 167,4 milljónir evra samkvæmt samstæðuuppgjöri og 137,5 milljónir evra samkvæmt móðurfélagsuppgjöri. Enn fremur hafi komið fram í skýringum ársreikningsins að verðbréf („securities“) væru metin á því sem lægra reyndist, kostnaðarverði eða markaðsverði. Samkvæmt þeim gögnum sem Fjármálaeftirlitið hefði undir höndum hefði kostnaðarverð 50% eignarhlutar þýska bankans í Eglu hf. í árslok 2003 verið innan við 30 milljónir evra. Síðan sagði í bréfinu:

„Í samræmi við skyldur Fjármáleftirlitsins skv. VI. kafla laga nr. 161/2002, hefur Fjármálaeftirlitið aflað upplýsinga frá Eglu hf., um hlutafjárþátttöku Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. frá ársbyrjun 2003 og breytingar á eignarhaldi hluthafa í Eglu hf. frá sama tíma. Samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem Fjármálaeftirlitið hefur undir höndum er ekkert sem bendir til annars en að umræddur þýski banki hafi verið hluthafi í Eglu hf. frá 15. janúar 2003 til 17. mars 2005.

Fjármálaeftirlitinu er kunnugt um að fyrir liggur staðfesting KPMG í Frankfurt, Þýskalandi, endurskoðanda Hauck & Aufhäuser, um að umræddur eignarhlutur í Eglu hf. hafi verið hluti af verðbréfaeign bankans árið 2004.

Með hliðsjón af framangreindu telur Fjármálaeftirlitið ekki nauðsyn bera til að afla sérstakrar staðfestingar frá þýska fjármálaeftirlitinu um tilvist umrædds eignarhlutar í ársreikningi Hauck & Aufhäuser.“

Að því er snerti 2. tölul. fyrirspurnarinnar sem ráðherra sendi, um hvaða áhrif það hefði á upplýsingagjöf gagnvart Fjármálaeftirlitinu, ef í ljós kæmi að hinn þýski banki hefði ekki verið meðal hluthafa Eglu hf. þegar einkavæðingu Búnaðarbankans lauk í janúar 2003 benti Fjármálaeftirlitið á að röng upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlits kynni að vera refsiverð sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið veitti viðskiptaráðherra frekari svör með bréfi, dags. 2. maí 2006, og lauk þar með málinu af hálfu stofnunarinnar.

Skriflegt svar viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar var lagt fram á Alþingi 4. maí 2005.[53] Í því var vísað til áðurnefnds bréfs ráðherra til Fjármálaeftirlitsins 2. mars 2006 og tekið fram að svör hefðu borist með bréfum Fjármálaeftirlitsins, dags. 3. apríl og 2. maí 2006. Svar ráðuneytisins væri byggt á upplýsingum stofnunarinnar. Fram kemur í svari viðskiptaráðherra:

„Ráðuneytið ritaði forseta Alþingis bréf hinn 13. mars sl. og tilkynnti um væntanlega töf á svari. Á þeim tíma reiknaði ráðuneytið með að [Fjármálaeftirlitið] mundi leita til Bundesanstalt für Finanzdienstleistungsaufsicht (BaFin), systurstofnunar FME í Þýskalandi, um staðfestingu á því að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hefði verið „raunverulegur eigandi“ hlutafjár í Eglu hf., sbr. orðalag fyrirspurnar háttvirts þingmanns. Því væri svars ekki að vænta innan þess tímafrests sem áskilinn er í þingskapalögum. Við nákvæma yfirferð þeirra gagna sem FME hafði tiltæk þróuðust mál hins vegar á þann veg að stofnunin sá ekki tilefni til þess að leita til BaFin.

Í svari FME kemur fram að hinn 16. janúar 2003 hefðu Egla hf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Samvinnulífeyrissjóðurinn og Vátryggingafélag Íslands hf. lagt fram umsókn til Fjármálaeftirlitsins í samræmi við 40. gr. laga nr. 161/2002, um samþykki stofnunarinnar fyrir kaupum þessara aðila á virkum eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Við athugun á umsókninni aflaði FME upplýsinga og gagna um umsækjendur til þess að geta lagt mat á hæfi þeirra. Upplýsingaöflun þessi varðaði m.a. hluthafa Eglu hf., þ.m.t. þýska bankann Hauck & Aufhäuser. Við upplýsingaöflun um þýska eignaraðilann var FME í samskiptum við systurstofnun sína í Þýskalandi. FME fékk staðfest að þýski bankinn hefði starfsleyfi sem viðskiptabanki í Þýskalandi og lyti eftirliti BaFin. Enn fremur óskaði FME eftir upplýsingum BaFin um það hvort sú stofnun gerði athugasemdir við fyrirhuguð viðskipti Hauck & Aufhäuser og fékk staðfest að svo væri ekki. Á grundvelli þess að FME hafði þegar átt samskipti við þýsku systurstofnunina um þátttöku Hauck & Aufhäuser í hlutafélaginu Eglu hf. og kaupum á Búnaðarbankanum og fengið staðfestingu á því að BaFin gerði ekki athugasemdir við viðskiptin taldi FME ekki tilefni til að leita aftur til BaFin. Í svari [Fjármálaeftirlitsins] til ráðuneytisins kemur fram að miðað við þær upplýsingar sem stofnunin hefur aflað sér, sbr. þær skyldur sem VI. kafli laga nr. 161/2002 leggur á hana, sé ekkert sem bendi til annars en að Hauck & Aufhäuser hafi verið hluthafi í Eglu hf. í samræmi við veittar upplýsingar í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. í janúar 2003.

Í svarbréfi FME kemur enn fremur fram að stofnunin hafi m.a. farið yfir ársreikning Hauck & Aufhäuser fyrir árið 2003, aflað upplýsinga frá Eglu hf. um hlutafjárþátttöku þýska bankans í Eglu hf. í upphafi árs 2003 og breytingar á eignarhaldi hluthafa frá sama tíma. Að mati FME kemur ekkert fram í gögnum sem aflað hefur verið og í þeim upplýsingum sem stofnuninni hafa verið veittar sem gefur tilefni til að ætla að Hauck & Aufhäuser hafi ekki verið hluthafi í Eglu hf. frá janúar 2003 og allt til 17. mars 2005 [svo]. FME lætur þess enn fremur getið í svari sínu til ráðuneytisins að fyrir liggi staðfesting endurskoðanda Hauck & Aufhäuser í Þýskalandi, KPMG í Frankfurt, að eignarhlutur bankans í Eglu hf. hafi verið hluti af verðbréfaeign bankans árið 2004. Með tilvísun til framangreindra upplýsinga telur FME, eins og áður er getið, ekki nauðsyn á að afla sérstakrar staðfestingar BaFin, systurstofnunar sinnar í Þýskalandi, á því að Hauck & Aufhäuser hafi verið hluthafi í Eglu hf. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að fyrirliggjandi upplýsingar lögbærra yfirvalda, í þessu tilviki FME og BaFin, og staðfesting virts endurskoðunarfirma, samanber og sjálfstæða athugun Ríkisendurskoðunar, gefi ekki tilefni til þess að efast um að Hauck & Aufhäuser hafi verið meðal hluthafa í Eglu hf. frá 16. janúar 2003 til 17. mars 2005 [svo].

Í bréfi FME til ráðuneytisins, dags. 2. maí sl., segir orðrétt: „Með vísan til ofangreindra gagna og efnis bréfs Fjármálaeftirlitsins frá 3. apríl sl. eru engar forsendur til að ætla annað en að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi verið hluthafi í Eglu hf. og þátttakandi í einkavæðingu Búnaðarbankans í janúar 2003.“

[…]

Með tilvísun til þess sem fram kemur í svari við fyrri hluta fyrirspurnarinnar þar sem fram kemur að mati ráðuneytisins fullnægjandi vissa fyrir því að upplýsingar um eignaraðild Hauck & Aufhäuser hafi reynst réttar, telst ekki tilefni til að fjalla um annan hluta fyrirspurnarinnar.“

Rétt er að benda á hér að í framangreindu svari viðskiptaráðherra, sem og því bréfi Fjármálaeftirlitsins til ráðherra, dags. 3. apríl 2006, sem þar er vitnað til, er ítrekað lagt til grundvallar að Hauck & Aufhäuser hafi verið „meðal hluthafa í Eglu hf. frá 16. janúar 2003 til 17. mars 2005“. Síðari dagsetningin hér fær ekki staðist, enda er ljóst af gögnum rannsóknarnefndar, og raunar einnig af gögnum og upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið sjálft aflaði og bjó yfir á þessum tíma, sem og fjölmiðlaumfjöllun um málefni Eglu hf. og Hauck & Aufhäuser frá viðkomandi tíma, að Hauck & Aufhäuser seldi eftirstöðvar hlutar bankans í Eglu hf. ekki fyrr en um miðjan júní 2005, til félags Ólafs Ólafssonar, Kjalars ehf., eins og áður kom fram og vikið verður nánar að hér síðar.[54]54

4.3.3. Athugun Ríkisendurskoðunar á fyrri hluta árs 2006

Í umræðum vegna þeirra þingmála á Alþingi um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans á Alþingi sem áður var vikið að, og kölluðust á við þá fjölmiðlaumfjöllun um sama málefni sem áður var rakin, kom fram í máli þáverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar í þingræðu á Alþingi 20. febrúar 2006 að hann hefði haft samband við ríkisendurskoðanda þann morgun vegna málsins og innt hann eftir því „hvort eitthvað nýtt væri í þessu máli“. Halldór kvað ríkisendurskoðanda hafa svarað því til að svo væri ekki og rakti nánar samræður þeirra af þessu tilefni.[55] Þessu næst átti Ríkisendurskoðun fund með Vilhjálmi Bjarnasyni miðvikudaginn 22. febrúar 2006 þar sem hann kynnti athugasemdir sínar um þetta málefni og röksemdir fyrir þeim og lagði fram gögn þar að lútandi.[56]

Í kjölfar fundarins leitaði ríkisendurskoðandi eftir áliti Stefáns Svavarssonar, löggilts endurskoðanda og dósents við Háskólann í Reykjavík, á því hvort unnt væri að fullyrða, með hliðsjón af upplýsingum í reikningsskilum Hauck & Aufhäuser fyrir árið 2003, að bankinn hefði ekki fjárfest í Eglu hf. Í svari Stefáns, dags. 1. mars 2006, sagði að fjárfesting bankans í Eglu hf. rúmaðist vel innan liðarins „hlutabréf og önnur verðbréf með breytilegum tekjum“ í efnahagsreikningi bankans í reikningsskilunum 2003. Í svarinu sagði enn fremur að ef bankinn hefði selt hluta af fjárfestingu sinni í Eglu hf. árið 2004, þá væru tekjuliðir í ársreikningi bankans fyrir árið 2004, sem rúmuðu vel mögulegan ágóða af þeirri sölu. Niðurstaða Stefáns var sú að ekki væri hægt að fullyrða með því að rýna einungis í reikningsskil þýska bankans fyrir árið 2003 að hann hefði ekki fjárfest í Eglu hf. á árinu 2003. Það gagnstæða ætti raunar einnig við, þ.e. þess sæjust ekki merki með beinum hætti að bankinn hefði fjárfest í félaginu. Í bréfinu tók Stefán jafnframt fram að ekki væri skylda í reikningsskilum banka að sundurgreina fjárfestingu í hlutabréfum eða öðrum verðbréfum og því hafi þýski bankinn verið í fullum rétti að veita ekki frekari upplýsingar um fjárfestingu sína í verðbréfum en hann gerði.[57]

Ríkisendurskoðun sendi frá sér samantekt til formanns fjárlaganefndar Alþingis um athugun stofnunarinnar á ábendingum Vilhjálms. Í samantektinni, sem dagsett er 28. mars 2006 og birtist einnig opinberlega, er lýst athugun stofnunarinnar, meðal annars ofangreindu áliti Stefáns Svavarssonar og fundi stofnunarinnar með Guðmundi Hjaltasyni, framkvæmdastjóra Eglu hf., og Kristni Hallgrímssyni hrl., lögmanni félagsins. Fram kemur í samantektinni lýsing á þeim fundi og fjölmörgum gögnum „úr fórum félagsins“ sem tvímenningarnir hafi lagt fram.[58] Undir lok samantektar Ríkisendurskoðunar lýsti stofnunin þessari afstöðu til málsins:

„Að mati Ríkisendurskoðunar tala þau gögn sem fylgja samantekt þessari skýru máli og því óþarft að skýra þau nánar. Með vísan til þeirra telur stofnunin að ekkert nýtt hafi verið lagt fram í málinu, sem stutt geti hinar víðtæku ályktanir, er Vilhjálmur hefur dregið af gögnum þeim, sem hann hefur lagt fram og þeim óformlegu upplýsingum, sem hann kveðst búa yfir. Þvert á móti liggja fyrir óyggjandi upplýsingar og gögn um hið gagnstæða.“

4.4  Umfjöllun frá síðari árum

Framangreindar athuganir og niðurstöður Fjármálaeftirlitsins og Ríkisendurskoðunar  á árinu 2006 urðu ekki til þess að kveða niður þær efasemdir sem upp höfðu komið um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans. Hér á eftir eru raktir nokkrir áfangar úr opinberri umræðu um þetta sem rannsóknarnefndinni er kunnugt um. Rétt er að vekja athygli á að hér er einungis gerð grein fyrir opinberri umræðu um einstök atriði en síðar í skýrslunni koma helstu efnisatriði hér til sjálfstæðrar nánari umfjöllunar nefndarinnar að því leyti sem tilefni er til.

4.4.1  Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis 12. apríl 2010

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði sem út kom 12. apríl 2010 var meðal annars fjallað um einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans á árunum 2002 til 2003, sbr. 6. kafla skýrslunnar.[59] Á meðal þess sem fjallað var um þar var sú aðkoma erlendrar fjármálastofnunar að kaupunum sem gert var ráð fyrir í samningaviðræðum S-hópsins og framkvæmdanefndar um einkavæðingu og var að endingu kynnt við undirskrift kaupsamnings sem þátttaka Hauck & Aufhäuser í kaupunum gegnum 50% eignarhlut í Eglu hf. Í umræddum kafla skýrslunnar kemur meðal annars fram að af framburði Sigurjóns Þ. Árnasonar, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Búnaðarbankans þegar sala bankans átti sér stað en síðar bankastjóri Landsbankans, mætti ráða að þýski bankinn hefði hvorki verið almennt þekktur meðal íslenskra bankamanna á þessum tíma né talinn líklegur til að styðja faglega við rekstur Búnaðarbankans á þeim sviðum sem hinn síðarnefndi starfaði.[60] Nánar tiltekið var haft eftir Sigurjóni:

„[Þ]essi útlenski banki sem átti að vera Hauck & Aufhäuser sem var einhver lítill prívatbanki í Þýskalandi sem enginn hafði heyrt á minnst og hafði í rauninni enga getu til þess að taka þátt í, jafnvel þó að Búnaðarbankinn væri ekkert sérstaklega stór. Þess vegna fannst okkur þetta alltaf skrýtið þegar þetta var að gerast. Upphaflega átti að vera Société Générale sem það þótti […] þetta var allt eitthvað rosalega skrýtið.“

Í viðauka 1 með fyrrnefndri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 12. apríl 2010 var birt sérstök skýrsla vinnuhóps sem starfaði samhliða rannsóknarnefndinni og falið var að rannsaka starfshætti og siðferði í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í I. hluta viðaukans var meðal annars fjallað um einkavæðingu Búnaðarbankans og „þátttöku þýsks banka“ í henni. Í þeirri umfjöllun var haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni að hann hefði hitt fulltrúa þýska bankans og lýsti hann upplifun sinni af því með eftirfarandi hætti:[61]

„[…] og maður hitti hann og maður upplifði það að hann hefði alveg eins getað hafa verið að kaupa ísbúð, hann vissi ekkert hvað hann var að kaupa. Það var algjörlega sénslaust að hann hafi verið að leggja svona mikla peninga undir þannig að ég hef alltaf verið sannfærður um það að þetta var bara einhvers konar framvirkur samningur, eða eitthvað slíkt, sem að, eða einhvers konar útfærsla þar sem hann var bara fulltrúi fyrir aðra aðila.“

Á sama stað í skýrslunni var einnig vitnað til frekari orða Sigurjóns Þ. Árnasonar um þetta:[62]

„Ég hef alltaf haft þá trú að það væru, að það væru allt aðrir aðilar sem hefðu átt bankann heldur en hérna, eða sem sagt allt aðrir aðilar keypt bankann heldur en menn hafa sagt. Og mig hefur oft grunað að það væru einhverjir aðrir sem raunverulega ættu hann.“

Hér áður hefur meðal annars komið fram að auk efasemda um að þátttaka Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans hefði í reynd verið með þeim hætti sem kynnt var hefði því einnig verið borið við allt frá þeim tíma sem einkavæðingin var nýlega afstaðin að sameining Kaupþings og Búnaðarbankans hefði í reynd verið fyrirfram ákveðin áður en sá síðarnefndi var einkavæddur. Nánari staðhæfingar um þetta atriði hafa einnig ítrekað komið fram á síðustu árum og allar lotið að því að gengið hafi verið frá samkomulagi um sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans í október 2002 á fundum í þáverandi skrifstofuhúsnæði eignarhaldsfélagsins Sunds ehf. í svonefndum litla turni Kringlunnar. Á þeim fundum voru sagðir hafa verið meðal annarra Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarssonar, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings hf. Um þetta var haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni í fyrrnefndri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 12. apríl 2010:[63]

„Þessi díll held ég var allur og það að sameiningunni, þetta var allt hannað miklu fyrr, það er alltaf talað um að það hafi verið hannað í skrifstofunni hjá Sund í október 2002.“

Þann 8. janúar 2010 tók rannsóknarnefndin skýrslu af Björgólfi Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Landsbankans, en í skýrslu hans fyrir nefndinni sagði meðal annars:

„Það var aldrei, en það var eitt sem ég man eftir sem að kannski, ég veit ekki hvort hefur komið fram fyrr að það á, hvort það var ári árið, að þá voru starfsmenn Búnaðarbankans að leita að hópi fjárfesta til að bjóða í, bjóða í bankann og það var gert. Hvort að Kaupþingsmenn hafi verið á bak við það veit ég ekki með vissu en ég hef svona í dag lúmskan grun um að það hafi verið. Og það voru teknir einhver hópur viðskiptamanna og við, ég var meðal þar, eða var einn af þeim. Og ég man ekki einu sinni hver hópurinn var, ég man eftir Sigfúsi í Heklu, þetta voru starfsmenn eins og Elín Sigfúsdóttir o.fl. sem voru að reyna að búa til pakka til þess að reyna að losa um Búnaðarbankann. Þannig kemur Kaupþing inn í myndina, þeir voru hvergi skráðir og ekki neitt, hvort þeir hefðu getað verið þar, það veit ég ekki því að þetta voru kannski viðskiptamenn þeirra. En við höfðum, ég hef, og ég hef eiginlega aldrei haft neitt samband mikið við Kaupþingsmenn. Og það var, Hreiðar Má afskaplega lítið og Sigurð svona, ja, ekki mikið. Það var ekki, og eitt af því sem ég held að hafi nú eitt af vandamálunum í þessu öllu saman var að, voru nú samskipti yfirmanna bankanna. Þá á ég við þeirra, bankastjórar banka, það voru sko Íslandsbanki, Landsbanki og hvernig þeir hugsuðu til hvors annars og hvernig sú, það var, það var ekki mikill, mikil, þeir gátu vel hugsað sér [þögn], á ég segja, ja, þeir glöddust ekkert yfir velgengni hvors annars. Það var ekki góður tónn.

SN [Salvör Nordal]: Og hvernig, bara heyrðirðu það mikið í S…?

Ja, ég heyrði það bara þegar menn töluðu saman, er ég, ég var náttúrlega til hliðar en bara hvernig þeir töluðu um hvorn annan, það, manni fannst það mjög furðulegt að svona, mjög óvinveitt og ég held bara, búinn að velta því fyrir mér, hvort þetta gæti verið úr stúdentapólitíkinni, þeir höfðu nú allir verið saman þar, Sigurjón formaður og svo var Bjarni þarna og hann (SN: Hreiðar.) Hreiðar Már, og þú veist, það bara á köflum fannst mér þeir vera þarna uppi í háskóla í einhverri háskólapólitík, töluðu, mállýskan var þannig, þannig að það var aldrei, aldrei, mér fannst aldrei vera þannig samband á milli bankastjóranna, svona vinveitt. Og alls ekki milli, ég hafði afskaplega lítið og eiginlega ekki neitt samband við Sigurð Einarsson. Það er ekki fyrr en að kannski hann Lárus Welding kemur í Íslandsbanka sem að verður kannski aðeins, af því að hann hafði verið starfsmaður okkar, og hvernig hann er ráðinn í Íslandsbanka veit ég ekki en hann var okkar maður í London og [þögn] hann var náttúrlega, hann var mikill vinur Sigurjóns, en hann var held ég, starfaði mikið fyrir, eða Jón Ásgeir var stór kúnni hjá honum í London. Þannig að Lárus var ráðinn þarna og þá fyrst var það svona sem menn virtust geta talað eitthvað saman.

SN: Alla vega þar á milli?

BG: Já, þar á milli en það var óskaplega mikið hatur. Bara séð hatur á milli Búnaðarbankans og, sem ég skildi aldrei, og okkar og það, skýringin var var einhver sú að við höfðum komið því af stað, og við værum, að þeir hefðu, væru með einhverja falstilboð frá Þýskalandi og, frá (PH [Páll Hreinsson]: Já!), sem frægt varð, já, það, kenndu okkur um það. (PH: Nú, nú?) og þetta væri allt upp úr okkur og ég man bara eftir því að ég var kallaður til ákveðins aðila, hann hundskammaði fyrir mig að vera að leggja þá í einelti, þessa góðu drengi, Ólaf Ólafsson og félaga út af þessu máli í Þýskalandi, þetta væri allt hreint og klárt og þetta var nú Halldór Ásgrímsson sem að gerði það. Mér brá mikið af því ég man ég sagði við hann: Heyrðu, má ég skrifa þetta eftir þér? Af því að hann var, þetta var nú mánudagur kl. 9, erfið helgi og ég fékk miklar skammir fyrir það að ég stæði fyrir einhverjum miklum áróðri, eða við, um þann hóp sem hefði keypt Búnaðarbankann að það væri hvergi allt greitt með erlendu fjármagni. Ég hafði ekki hugmynd um það.

SN: Hvenær var þetta?

BG: Þetta var svona, ja, þetta var ári seinna, ég gæti fundið það í … SN: Kannski 2004, eitthvað svoleiðis?

BG: Já!

SN: Og varstu þá kallaður inn á skrifstofu utanríkisráðherra?

BG: Ja, þá talaði hann við mig og sagði þetta gengi og svona og þeir færu að, þá væru þeir alltaf að kvarta í sig yfir að við værum með, hefðum haldið uppi áróðri að þeir hefðu, þessi þýski banki væri bara falskt identity og við værum með, ég man ekki einu sinni hvað hann sagði, þetta var 20 manna lið að elta uppi, það var eitthvað svo fjarstæðukennt að ég einhvern veginn, þess vegna sagði ég honum: Heyrðu, má ég nú bara skrifa þetta niður? Og, þetta var nú svo, þessi tengsl, það voru rosaleg framsóknartengsl þarna inni, alveg ótrúleg. Ég veit ekkert um flokkapólitík eða neitt en þetta var, virtist vera, Ólafur Ólafsson virtist hafa alltaf beinan aðgang að Halldóri og einhvern veginn, og var alltaf að magna upp einhver leiðindi, var alltaf að magna upp einhver leiðindi sem var eiginlega allan tímann.

SN: Líka þarna alveg fyrir, alveg …? BG: Og bara á eftir.

SN: Já.

BG: Bara alveg í gegnum allt, og eftir, ég meina, það var svo ótrúlegt og ég skildi það aldrei, ég var alltaf að velta fyrir mér hvað, hvernig svona menn væru þá í umgengni við aðra sem að væru bara með svona rugl alltaf hreint því að maður hafði ekki nokkurn áhuga á því að, eða tíma, til að vera að eltast við eitthvað svona. Og ég veit til þess að þeir létu m.a.s. taka, komst nú að því að þeir létu taka saman skýrslu um okkur til þess að reyna að finna eitthvað mjög bjagað um okkur í Rússlandi.

PH: Hvað ertu að segja?

BG: Já, ég þekki það vegna þess að sá sem, og það var nú bara heimsþekkt fyrirtæki sem var fengið til þess, og það var Kroll, ég held að það hafi verið Kroll frekar en … Málið er að við störfuðum úti og við þekktum, við vorum þeir einu sem vorum í erlendu bönkunum og þekktum til. Það er nefnilega þegar, það bara kom til okkar maður frá þeim og sagði að það væri eitthvað óttalega leiðinlegt, leiðinleg, einhverjir aðilar sem að, og þeir höfðu tekið saman einhverja mikla skýrslu og þeim fyndist bara, þeir væru ekkert ánægðir fyrr en það kæmi eitthvað í ljós að við værum bara einhverjir [þögn]. Sannleikurinn var nú sá að maðurinn kom til mín og hann vildi að ég læsi skýrsluna sem ég gerði, og sagði, hann sagði bara: Veistu, ég vil ekki vera í svona vinnubrögðum. Og þetta var alveg í gegnum allt, Búnaðarbankinn einhvern veginn var með okkur á heilanum alla tíð. Nú er ég að segja frá einhverju, sko, þetta er mín tilfinning, að þeir einhvern veginn, það var allt, þeir voru, það var alveg sama hvort það voru Bakkabræður eða hinir, Ólafur verstur, að við vorum einhvern veginn, þeim finnst við fá alltof góða umfjöllun og það var alltaf, þetta var mjög slæmt, að þetta var mjög óþægilegt. Mjög óþægilegt.“

Rannsóknarnefndin tók einnig skýrslu af Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings hf., en í skýrslu hans fyrir nefndinni, dags. 14. júlí 2009, voru þessi ummæli höfð eftir honum:

„Það er nefnilega þannig að þegar þetta einkavæðingarferli fer í gang þá komum við þar hvergi nálægt. Það er hins vegar þannig að bæði þeir sem keyptu Landsbankann og þeir sem keyptu Búnaðarbankann komu að máli við okkur – báðir þessir aðilar komu að máli við okkur áður en þeir keyptu – og spurðu hvort við, þegar þeir væru búnir að kaupa, ef þeir fengju að kaupa, ég man nú ekki nákvæmlega hvernig það var orðað, værum tilbúnir til að sameinast þeirra fyrirtæki. Ég man ég átti ítrekað fundi bæði með Björgólfi Thor og Björgólfi Guðmundssyni um þetta og þeir voru mjög áfram um það að Kaupþing og Landsbanki sameinuðust. Síðan koma Ólafur Ólafsson og Hjörleifur Jakobsson að máli við mig með nákvæmlega sama erindi. Við hins vegar komum hvergi nálægt kaupunum.“

4.4.2  Þátttaka Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans sögð yfirvarp fyrir Kaupþing hf.

Í 3. hefti tímaritsins Þjóðmála árið 2013 birti Vilhjálmur Bjarnason grein sem fjallaði um óskyld efni við þau sem hér eru til umfjöllunar. Í tilteknu samhengi við efni greinar sinnar, sem ekki þarf að gera nánari grein fyrir hér, setti Vilhjálmur þó fram ummæli sem tengjast umfjöllunarefni skýrslu þessarar. Þau voru nánar tiltekið á þá leið að í „máli er tengdist sölu ríkisins á eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. [hefði] hinn meinti kaupandi [þóst] vera Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA, en í raun [verið] Kaupþing hf.“[64]

4.4.3  Opinber umræða í aðdraganda skipunar  rannsóknarnefndarinnar

Þess skal loks getið að í fréttaflutningi af aðdraganda þess að rannsóknarnefnd sú sem stendur að skýrslu þessari var skipuð, nánar tiltekið meðan tillaga um rannsókn málsins var til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, hafði Fréttablaðið 26. maí 2016 eftir Guðmundi Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eglu, að hann „[vissi] ekki til þess að þýski bankinn [hefði] verið leppur fyrir aðra aðila“. Eftir Guðmundi var svo haft í beinu framhaldi og sama samhengi:

„Ég þekki það ekki og ég þekki engan sem þekkir það, svo ég viti til. […] Ég veit bara hverjir voru hluthafar Eglu og það er alveg rétt.“

4.5  Samantekt  og  ályktanir rannsóknarnefndar

Eins og að framan er rakið birtist ítrekað umfjöllun í fjölmiðlum árin 2003 til 2006 þar sem lýst var efasemdum um hvort aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi verið með þeim hætti sem gefið var til kynna af hálfu S-hópsins við kaup á hlut ríkisins á Búnaðarbankanum. Stór hluti þessarar umfjöllunar var í tengslum við staðhæfingar Vilhjálms Bjarnasonar, þá aðjúnkts við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, um að íslensk stjórnvöld hefðu verið blekkt um hlutverk Hauck & Aufhäuser við einkavæðingu Búnaðarbankans og að þýski bankinn hafi einungis verið leppur fyrir óþekktan aðila.

Hauck & Aufhäuser og Egla hf., sem og einstakir fyrirsvarsmenn þeirra, báru í kjölfarið brigður á yfirlýsingar Vilhjálms á opinberum vettvangi. Þannig sendi t.d. Peter Gatti, framkvæmdastjóri Hauck & Aufhäuser, frá sér yfirlýsingu 27. júní 2005 um að starfsmönnum bankans þætti miður að efasemdir skyldu hafa vaknað um heilindi þeirra í þessu máli og að nafn bankans skyldi dragast með neikvæðum hætti inn í umræðu um einkavæðingu á Íslandi.

Í yfirlýsingu frá Eglu hf. sama dag sagði að vangaveltur um að Hauck & Aufhäuser hefði ekki tekið fullan þátt í kaupunum á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf., í gegnum kaup sín í Eglu hf., ættu ekki við nein rök að styðjast og sætti undrum að kennari við jafn virta stofnun og viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, skyldi „láta hafa slíkar órökstuddar dylgjur eftir sér í fjölmiðlum.“ Í frétt Markaðarins, viðskiptahluta Fréttablaðsins, frá 22. febrúar 2006, var jafnframt haft eftir Gatti að hann vísaði því á bug að Hauck & Aufhäuser hefði keypt hlut í Búnaðarbankanum fyrir annan. Í texta viðtalsins var einnig haft eftir Gatti að hann vísaði því algerlega á bug að bankinn hefði verið „leppur í þessum viðskiptum, eins og haldið hefði verið fram í umræðu hér á landi“. Þá var haft eftir Gatti að hann „[ítrekaði] að við einkavæðingu Búnaðarbankans hefði bankinn keypt sjálfur og ekki [hefðu] legið fyrir neinir skriflegir eða munnlegir baksamningar í tengslum við kaupin“.

Í bréfaskiptum umboðsmanns S-hópsins við Fjármálaeftirlitið, í kjölfar þess að stofnunin hóf upplýsingaöflun að beiðni viðskiptaráðherra til að svara fyrirspurn Ögmundar Jónassonar alþingismanns, var í engu vikið að eða gefið til kynna að Hauck & Aufhäuser hefði haft annað hlutverk við kaupin hlut ríkisins í Búnaðarbankanum en upphaflega var gefið upp. Sama máli gegnir um þær upplýsingar sem fulltrúar Eglu hf. veittu Ríkisendurskoðun við athugun stofnunarinnar sem hófst í febrúar 2006 og lauk með samantekt 28. mars 2006.

 


[43] Um tildrög þessarar beiðni og ákvörðun viðskiptaráðherra um að fallast á hana vísar rannsóknarnefndin annars til samantektar, dags. 28. mars 2006, sem Ríkisendurskoðun tók saman fyrir fjárlaganefnd Alþingis um atriði varðandi söluna á Búnaðarbankanum.

[44] Í enskri útgáfu tilkynningarinnar, sem mun hafa verið send fjölmiðlum samhliða íslenskri útgáfu hennar, segir orðrétt: „The Hauck & Aufhäuser Bank was, at that time, offered to take part in a tender process concerning the Icelandic Government's selling of the Bunadarbanki Bank. We considered the Bunadarbanki Bank an interesting investment option, although the price was high at the time. There was no doubt that at the end of the privatisation process, the successor bank, which was established with the merger of the Bunadarbanki Bank and Kaupthing, has performed excellently and accomplished many good things. The Managing Partner of Hauck & Aufhäuser, Peter Gatti, has enjoyed being a Board Member of the bank, right until he resigned at the beginning of this year, and hopes that his contribution has had positive influence. We are wholeheartedly of the opinion that Icelanders can be proud of having built up such a powerful financial institution as KB Banki. We stated at the beginning, that our position was that of a catalyst for the privatisation in the Icelandic bank sector. We also stated that we would in every respect comply with the contracts with the Icelandic State about the lock-up period of the bank. We have carried out that contract and even more than that. During our investment period, we held the shares of the intermediary holding company EGLA hf. on our own books. We regret the doubts that have been cast concerning our integrity in this matter and that the name of the bank should have been brought in a negative way discussion about privatisation in Iceland.“

[45] Í enskri útgáfu yfirlýsingarinnar stóð orðrétt að þýski bankinn hefði haldið á hlutum í Eglu hf. „on our own books“, sbr. fyrri tilvitnun neðanmáls til enskrar útgáfu yfirlýsingarinnar.

[46] Telja má ljóst af samhengi og skírskotun til þýðingar Guðmundar að hér er átt við tilkynningu Hauck & Aufhäuser en ekki tilkynningu Eglu.

[47] B373. mál, 132. löggjafarþing.

[48] 550. mál, 132. löggjafarþing.

[49] Af glærum Vilhjálms verður meðal annars ráðið að athugasemdir hans hafi verið byggðar á því að hann taldi að þýski bankinn hefði átt að færa eignarhlut sinn í Eglu hf. í ársreikningi bankans fyrir árið 2003 eftir svonefndri hlutdeildaraðferð, þ.e. hlutdeild í afkomu og eigin fé Eglu. Hlutdeild í afkomu Eglu hafi þannig átt að vera 2,85 ma.kr. árið 2003 og hlutdeild í eigin fé 5,37 ma.kr. Í ársreikningi þýska bankans hafi hins vegar komið fram að verðbréfaeign væri færð á kostnaðarverði.

[50] Rétt er að nefna að telja má álitamál hvort tilvitnuð orð feli í sér nákvæma útleggingu á málflutningi Vilhjálms, eða að öðrum kosti að þau lýsi honum á þrengri hátt en efni stóðu til.

[51] Af gögnum rannsóknarnefndar verður ráðið að 25. apríl 2006 hafi verið gerð drög að bréfi til þýska fjármáleftirlitsins (BaFin) innan Fjármálaeftirlitsins þar sem óskað var eftir staðfestingu á því að Hauck & Aufhäuser hefði verið hluthafi í Eglu hf. Ekki verður séð að það bréf hafi nokkru sinni verið sent.

[52] Sjá umfjöllun um sömu atriði í kafla 3.3 hér að framan.

[53] Svar ráðherrans er aðgengilegt á sama þingmálsnúmeri 132. löggjafarþings og áður var vitnað til varðandi fyrrispurnina sem svarið laut að.

[54] Varðandi gögn og upplýsingar Fjármálaeftirlitsins sem það sjálft aflaði og bjó yfir á þessum tíma má t.d. vísa til áður tilvitnaðs svarbréfs Kristins Hallgrímssonar hrl., dags. 3. mars 2006, við fyrirspurn stofnunarinnar um hreyfingar hlutafjárþátttöku Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. Í bréfinu er getið um umrædda sölu á „öllum hlutum H&A í Eglu hf.“ til Kjalars ehf. 14. júní 2005. Benda má á að næst á undan í sama bréfi er getið um nánar tilgreind viðskipti annarra og ótengdra aðila með hluti í Eglu hf. sem sögð eru hafa átt sér stað 17. mars 2005 eða á sömu dagsetningu og ranglega var í svari Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra, og þar með svari viðskiptaráðherra við fyrirspurninni, sögð vera endapunktur eignarhalds Hauck & Aufhäuser  á hlutum í Eglu hf.

[55] B372. mál, 132. löggjafarþing.

[56] Sjá nánari lýsingu á athugasemdum, röksemdum og gögnum sem Vilhjálmur kom á framfæri við Ríkisendurskoðun í samantekt stofnunarinnar til formanns fjárlaganefndar Alþingis um málið, dags. 28. mars 2006. Samantektin er aðgengileg á þessum tengli: http://rikisendurskodun.is/wp-content/uploads/2016/01/Samantekt-mars-2006int.pdf.

[57] Samantekt Ríkisendurskoðunar til formanns fjárlaganefndar Alþingis, dags. 28. mars 2006.

[58] Samantektin geymir ítarlegan lista um þessi gögn og vísast hér til hans hvað þau varðar. Varðandi aðra gagnaöflun Ríkisendurskoðunar og athugasemdir stofnunarinnar þar um vísast einnig til samantektarinnar.

[59] Sjá einnig fyrri tilvísanir hér á undan til umfjöllunar um einkavæðingu Búnaðarbankans í 6. kafla skýrslunnar.

[60] Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 1. bindi, bls. 259.

[61] Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði, 8. bindi, bls. 28.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild, bls. 29. Sjá einnig grein Björns Jóns Bragasonar, Sagan af einkavæðingu Búnaðarbankans, í tímaritinu Sögu, 49. árgangi 2011, 2. tölublaði, bls. 126. Sjá einnig grein Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., Prúðuleikararnir, í vefritinu Pressunni 19. október 2009. Greinin er aðgengileg á tenglinum: http://www.pressan.is/pressupennar/LesaSigurdurG/pruduleikararnir. (Sótt: 10. janúar 2017.)

[64] Vilhjálmur Bjarnason: Ríkisendurskoðandi og skýrslan um Íbúðalánasjóð. Tímaritið Þjóðmál, 9. árgangur 2013, 3. hefti, bls. 44-45.