23. kafli – Sparisjóður Bolungarvíkur

23. Sparisjóður Bolungarvíkur

Sparisjóður Bolungarvíkur var stofnaður 15. apríl 1908 af 17 ábyrgðarmönnum.1 Á stofnfundi sparisjóðsins var kosin þriggja manna stjórn sem skipuð var þeim Pétri Oddssyni kaupmanni, Hálfdáni Örnólfssyni hreppstjóra og Sigurði Jónssyni kennara.

Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Súgfirðinga sameinuðust 1. júlí 1994 undir nafni hins fyrrnefnda. Sparisjóður Súgfirðinga var stofnaður 12. október árið 1912 og tók til starfa vorið eftir. Fyrstu stjórn sjóðsins skipuðu þeir Kristján Albert Kristjánsson, Þorvarður Brynjólfsson og Friðbert Guðmundsson.

Í gildandi samþykktum Sparisjóðs Bolungarvíkur sem eru frá því í apríl 2011 segir í 3. grein að sparisjóðurinn sé sjálfseignarstofnun sem starfi samkvæmt gildandi lögum um fjármálafyrirtæki og stundi sparisjóðastarfsemi eins og hún er skilgreind í áðurnefndum lögum. Hlutverk sparisjóðsins sé að láta gott af sér leiða og standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð á starfssvæði sínu.2 Sparisjóður Bolungarvíkur er með starfsstöðvar að Aðalstræti 14 í Bolungarvík og að Aðalgötu 8 á Suðureyri. Afgreiðslu fyrir Íslandspóst er sinnt á báðum stöðum.

Stjórn Sparisjóðs Bolungarvíkur var óbreytt á árunum 2005–2010. Finnbogi Jakobsson tók við sem stjórnarformaður af Gesti Kristinssyni 2005. Eftir að 90,95% stofnfjár komust í eigu ríkissjóðs skipaði Bankasýsla ríkisins fjóra stjórnarmenn af fimm og varð Ragnar Birgisson þá formaður stjórnar. Stefanía Birgisdóttir var eini stjórnarmaðurinn sem ekki var tilnefndur af Bankasýslu ríkisins. Sparisjóðsstjóri er Ásgeir Sólbergsson og hefur hann gegnt því starfi frá árinu 2000.

Í lok árs 2007 voru stofnfjárhafar í Sparisjóði Bolungarvíkur 273 talsins og var eignaraðildin dreifð. Heildareignir sjóðsins námu þá rúmlega 9,2 milljörðum króna.3 Sparisjóðurinn var einn af minni sparisjóðunum í landinu með um 1,5% af heildareignum sparisjóðanna. Samanlagðar eignir allra sparisjóða voru þá 614 milljarðar króna.

Á fundi stjórnar sparisjóðsins 30. maí 2007 var kynnt bréf frá stjórn Sparisjóðs Vestfirðinga þar sem lögð var fram formleg ósk um sameiningarviðræður. Stjórn Sparisjóðs Bolungarvíkur hafnaði henni þar sem þá var unnið að undirbúningi stofnfjáraukningar og tilboðsmarkaðar með stofnfé sjóðsins. Boði Sparisjóðsins í Keflavík um hugsanlega sameiningu var einnig hafnað á sömu forsendum. Stofnfjáraukning upp á 500 milljónir króna var samþykkt samhljóða á fundi stofnfjárhafa 28. júní 2007 og var henni ætlað að gera sjóðnum kleift að grípa fjárfestingartækifæri sem upp gætu komið.4 Útboðið fór fram í desember 2007 og seldust rúmlega 99% stofnfjárins og keyptu flestir hámarkshlut. Innborgað stofnfé á árinu 2007 nam 518 milljónum króna. Í ræðu formanns stjórnar á aðalfundi sjóðsins 17. mars 2008 kom fram að stjórnin teldi ekki skynsamlegt að setja á fót tilboðsmarkað með stofnfé sjóðsins í ljósi breytinga á íslenskum fjármálamarkaði og var því frestað um óákveðinn tíma.5

Með sviptingum á fjármálamarkaði árið 2008 varð mikið tap á rekstri sparisjóðsins, eða rúmlega 1,6 milljarðar króna. Munaði þar mest um gengistap af hlutabréfum og skuldabréfum upp á tæplega 1,2 milljarða króna. Í lok árs 2007 hafði eiginfjárhlutfall sparisjóðsins verið 15,10%, en í árslok 2008 var það komið niður í 2,41% og því undir lögbundnu 8% lágmarki.

Áfram var tap á rekstri sjóðsins árið 2009 og þá námu framlög í afskriftareikning útlána rúmum 2,2 milljörðum króna. Í lok árs 2009 var eigið fé sjóðsins orðið neikvætt um rúma tvo milljarða króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 48,74%.

Á fyrri hluta árs 2009 sótti Sparisjóður Bolungarvíkur um stofnfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008. Mat óháðs endurskoðunarfyrirtækis á eignum sparisjóðsins leiddi í ljós að staða hans var verri en talið var og að fyrrnefnt framlag úr ríkissjóði myndi ekki duga til að endurreisa hann fjárhagslega. Sparisjóðurinn þurfti því á aðkomu kröfuhafa að halda til að fjárhagsleg endurskipulagning væri möguleg. Í ljósi þess að Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi Sparisjóðs Bolungarvíkur tóku Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið upp samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins, gegn því að hann félli frá umsókn um eiginfjárframlagið.

Hinn 22. september 2010 undirrituðu forsvarsmenn Sparisjóðs Bolungarvíkur og Seðlabanka Íslands samkomulag um endurskipulagningu á skuldum sparisjóðsins.6 Gefnar voru eftir skuldir sem námu samtals um 2,7 milljörðum króna og var sú fjárhæð tekjufærð í rekstrarreikningi. Stofnfé sjóðsins var fært niður að mestu leyti og var 635 milljóna króna kröfum á hendur sjóðnum breytt í stofnfé.7

Í lok árs 2011 voru stofnfjárhafar Sparisjóðs Bolungarvíkur 259. Þar af átti Ríkissjóður Íslands 90,95% hlut og Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV 4,06% hlut.8 Heildareignir sjóðsins voru þá 4,9 milljarðar króna9 og námu 8,3% af heildareignum sparisjóðanna allra.

23.1 Ársreikningar 2001–2011

Hér verður farið yfir þróun rekstrarreiknings og efnahagsreiknings Sparisjóðs Bolungarvíkur, helstu liði þeirra og kennitölur á árunum 2001–2011. Umfjöllunin miðast við verðlag hvers árs nema annað sé tekið fram.10 Sparisjóðurinn tók upp reikningsskil samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilareglum (IFRS) árið 2007. Það kallaði á nokkrar tilfærslur í framsetningu hér til þess að reikningar yrðu samanburðarhæfir á milli ára. Upptaka alþjóðlegra reikningsskilareglna leiddi til hækkunar á eigin fé sparisjóðsins um 114 milljónir króna í ársbyrjun 2007, aðallega vegna matsbreytinga á fjáreignum til gangvirðis.

23.1.1 Rekstrarreikningar

Sparisjóður Bolungarvíkur var rekinn með hagnaði öll árin frá 2001 til 2007 en það ár nam hagnaður 255 milljónum króna. Þar vó þyngst gengishagnaður af fjáreignum upp á rúmar 447 milljónir króna. Viðsnúningur varð í rekstrinum á árinu 2008 og þá tapaði sparisjóðurinn 1,6 milljörðum króna. Tapið mátti rekja til 1,2 milljarða króna gengistaps af fjáreignum og 667 milljóna króna framlags í afskriftareikning útlána. Enn meira tap var á rekstri sjóðsins á árinu 2009 þegar framlag í afskriftareikning útlána nam 2,2 milljörðum króna og 368 milljóna króna gengistap varð af fjáreignum.

Í viðauka C má sjá sömu rekstrarreikninga á föstu verðlagi.

Hagnaðurinn af rekstri sjóðsins árið 2010 upp á 1,9 milljarða króna skýrðist algjörlega af 2,7 milljarða króna eftirgjöf skulda við lánardrottna.

Tap á árinu 2011 upp á 84 milljónir króna stafaði einkum af framlagi í afskriftareikning útlána. Þá gætti enn óvissu um lán sparisjóðsins í erlendri mynt og voru frekari afskriftir mögulegar vegna þeirra.11

Hreinar rekstrartekjur

Hreinar rekstrartekjur hækkuðu samfellt á árunum 2002–2007. Tekjur af fjáreignum áttu þar stærstan hlut að máli. Árið 2006 voru það arðs- og hlutdeildartekjur, en 2007 gengishagnaður af fjáreignum. Mikið gengistap varð hins vegar á fjáreignum á árunum 2008 og 2009 sem leiddi til tapreksturs sparisjóðsins. Þá breyttust hreinar vaxtatekjur og þjónustutekjur ekki í sama mæli og fjáreignatekjurnar umrædd ár. Fjárfestingastarfsemi var þannig orðin afar umfangsmikil í starfsemi sparisjóðsins, einkum í samanburði við kjarnastarfsemi hans.

Gengishagnaðurinn árið 2007 var fyrst og fremst til kominn vegna 508 milljóna króna gangvirðisbreytingar á hlutabréfum. Árið 2008 nam gangvirðislækkun hlutabréfa hins vegar nærri 1,3 milljörðum króna. Stærstan þátt í því áttu rúmlega milljarðs króna tap vegna 100% niðurfærslu á eignarhlut Sparisjóðs Bolungarvíkur í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. og 235 milljóna króna niðurfærsla á eignarhlut sparisjóðsins í VBS Fjárfestingarbanka hf.12 Tap á fjáreignum á árinu 2009 nam 368 milljónum króna og þar af voru 143 milljónir króna vegna gangvirðislækkunar hlutabréfa.

Arðs- og hlutdeildartekjur voru ekki umtalsverðar í rekstri Sparisjóðs Bolungarvíkur á tímabilinu, ef árin 2005 og 2006 eru undanskilin. Þær tvöfölduðust á árinu 2005 en þar skipti mestu 78,5 milljóna króna hlutdeild í hagnaði Sparisjóðabanka Íslands hf. Á árinu 2006 námu arðs- og hlutdeildartekjur sparisjóðsins 229 milljónum króna, þar af var hlutdeild í hagnaði Sparisjóðabanka Íslands hf. 184 milljónir króna.

Hreinar þjónustutekjur námu tæpum 25 milljónum króna á árinu 2001 og voru 10% af hreinum rekstrartekjum. Vægi þessara tekna var að jafnaði 9% hreinna rekstrartekna fram til ársins 2006 en lækkaði í 3% á árinu 2007. Hreinar þjónustutekjur voru 7% hreinna rekstrartekna á árinu 2011.

Aðrar rekstrartekjur voru óverulegur hluti hreinna rekstrartekna hjá Sparisjóði Bolungarvíkur allt umrætt tímabil og voru aldrei sundurliðaðar í ársreikningi sjóðsins.

Hreinar vaxtatekjur voru nokkuð sveiflukenndar á þessu ellefu ára tímabili. Þær fóru almennt lækkandi til 2007 og hélst það í hendur við minnkandi vaxtamun hjá sparisjóðnum og á fjármagnsmarkaði almennt. Árið 2008 hækkaði vaxtamunur verulega á markaðnum og jukust vaxtatekjur Sparisjóðs Bolungarvíkur þá að nýju. Stærstur hluti vaxtatekna sparisjóðsins kom frá útlánum. Vaxtatekjur af skuldabréfaeign voru ekki umtalsverðar nema helst árin 2004–2006 þegar þær námu á bilinu 21–26% af vaxtatekjunum. Vaxtatekjur af kröfum á lánastofnanir voru allt tímabilið innan við 10% vaxtatekna.

Vaxtagjöldin voru að stærstum hluta vegna almennra innlána. Vaxtagjöld vegna lántöku vógu á bilinu 18–31% af vaxtagjöldunum nær allt tímabilið nema árið 2001 er þau voru 41% og tvö síðustu árin varð hlutfall þeirra mun lægra eftir fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Vaxtagjöld til lánastofnana voru óveruleg að undanskildum árunum 2008 og 2009. Þá námu þau 78 og 119 milljónum króna hvort árið um sig.

Vaxtamunur Sparisjóðs Bolungarvíkur var lægri en annarra sparisjóða frá 2001–2008 ef frá eru talin árin 2005 og 2007. Eftir fall bankanna jókst vaxtamunur Sparisjóðs Bolungarvíkur og varð umtalsvert meiri en annarra sparisjóða. Vaxtatekjur minnkuðu nokkuð en greiddir vextir vegna innlána lækkuðu mun meira.

Rekstrargjöld

Rekstrargjöld Sparisjóðs Bolungarvíkur breyttust lítið fyrr en á árinu 2007 þegar þau tóku að hækka og jukust svo mikið á næstu tveimur árum, aðallega vegna framlags í afskriftareikning útlána. Á tímabilinu 2001–2011 nam framlag í afskriftareikninginn samtals 4,2 milljörðum króna, en þar af voru 3,4 milljarðar króna á árunum 2008–2010.

Í árslok 2008 þurfti að fimmfalda framlag í afskriftareikning útlána frá árinu áður og færa útlánin niður um 667 milljónir króna. Þar af voru 543 milljónir vegna „útrásarlána“ sem svo voru nefnd í skýrslu endurskoðanda með ársreikningi 200813 og vísaði hann þar til lána sem sparisjóðurinn veitti fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. Árið 2009 nam framlag í afskriftareikninginn 2,2 milljörðum króna. Fall krónunnar hafði leikið útlánasafn sparisjóðsins grátt og endurspeglaðist það í þessari miklu niðurfærslu. Framlag ársins 2010 nam 467 milljónum króna og skýrðist fyrst og fremst af því hvernig sparisjóðurinn leit til áhrifa dóma um lán í erlendri mynt auk úrræða sem stóðu skuldurum til boða til lækkunar á lánum.14

Samanlagt framlag í afskriftareikning útlána á árunum 2008–2010 nam 3,4 milljörðum króna og var það 1,4 milljörðum króna meira en bókfært eigið fé sjóðsins í árslok 2007. Í árslok 2007 var niðurfærsluhlutfall15 útlána sjóðsins 4,2% en til samanburðar var hlutfallið þá 1,6% hjá sparisjóðunum í heild. Í lok árs 2010 var niðurfærsluhlutfallið orðið 37,7% hjá Sparisjóði Bolungarvíkur en var á sama tíma 21,3% hjá sparisjóðunum í heild.

Almennur rekstrarkostnaður breyttist lítið á árunum 2001–2006 og var í samræmi við vöxt sparisjóðsins. Árið 2007 hækkaði rekstrarkostnaðurinn um 31% frá fyrra ári og hélt síðan áfram að hækka næstu tvö ár en lækkaði í kjölfar hagræðingaraðgerða árið 2010. Eins og sjá má á mynd 3 var hlutfall rekstrarkostnaðar af meðaleignum sjóðsins á árunum 2001–2004 talsvert lægra en hjá sparisjóðunum í heild, en á árunum 2005–2008 var það svipað. Árin 2009–2011 var hlutfall almenns rekstrarkostnaðar af meðaleignum hærra hjá Sparisjóði Bolungarvíkur en hjá sparisjóðunum í heild. Mest bar á milli á árinu 2009 þegar munurinn var eitt prósentustig. Það ár var kostnaður vegna skuldatryggingarsamnings á Baug Group hf. við Sparisjóðabanka Íslands hf. færður meðal almenns rekstrarkostnaðar en með uppfærðum ársreikningi fyrir árið 2009 sem sparisjóðurinn sendi nefndinni hafði þessi fjárhæð verið færð sem virðisrýrnun útlána. Hún er látin standa hér sem rekstrarkostnaður eins og hún birtist í ársreikningi hjá ársreikningaskrá, þó með þessum fyrirvara.16

Launakostnaður sparisjóðsins hækkaði verulega árið 2007, meðal annars vegna þess að hækkun lífeyrisskuldbindingar það árið var 14,7 milljónir króna en var 2,5 milljónir árið áður. Þá hækkaði meðallaunakostnaður á stöðugildi um 31,4% og laun sparisjóðsstjóra hækkuðu um sama hlutfall. Þrátt fyrir fækkun starfsmanna árið 2008 lækkaði launakostnaður ekki en það ár hækkaði meðallaunakostnaður á stöðugildi um 16,3% og laun sparisjóðsstjóra um 13,5%. Launakostnaður lækkaði síðan talsvert árið 2009, þá lækkuðu meðallaun um 12,6% og laun sparisjóðsstjóra um 20,6%. Eins og sjá má á mynd 4 þróaðist launakostnaður á stöðugildi á svipaðan hátt hjá Sparisjóði Bolungarvíkur og hjá sparisjóðunum í heild, en eftir 2008 lækkuðu launin ekki að marki hjá Sparisjóði Bolungarvíkur eins og hjá öðrum sparisjóðum.18 Stór hluti lækkunar meðallaunakostnaðar hjá öðrum sparisjóðum skýrðist af því að stærri sparisjóðir, sem gjarnan greiddu hærri laun en þeir minni, voru ekki starfandi lengur.

Í samþykktum sparisjóðsins var ekkert fjallað um fríðindi starfsmanna en í kafla VI um sparisjóðsstjórn og sparisjóðsstjóra voru reglur um starfskjör stjórnar. Þar sagði að fyrir störf í þágu sparisjóðsins skyldi greiða stjórnarmönnum fasta, mánaðarlega þóknun sem ákveðin skyldi á aðalfundi ár hvert. Starfsmenn nutu ekki annarra fríðinda en þeirra almennu fríðinda sem tíðkuðust hjá sparisjóðunum.19

Kaupaukagreiðsla til allra starfsmanna að fjárhæð 200 þúsund krónur miðað við fullt starf á árinu 2006 var samþykkt á fundi stjórnar 5. febrúar 2007. Það var eina greiðslan af þessu tagi á tímabilinu sem til umfjöllunar er.

Kjarnarekstur

Frá árinu 2001 til 2011 var tap af kjarnarekstri20 Sparisjóðs Bolungarvíkur og skýrðist það fyrst og fremst af framlagi í afskriftareikning útlána. Hagnaður sparisjóðsins 2001–2007

var því borinn uppi af tekjum af fjáreignum. Vaxta- og þjónustutekjur stóðu undir almennum rekstrarkostnaði á árunum 2001, 2002, 2004 og 2005 en tæplega 2,1 milljón króna vantaði upp á árið 2006. Rekstrarkostnaður hækkaði umtalsvert á árinu 2007 og hélt áfram að hækka á árunum 2008 og 2009. Vantaði að jafnaði 70 milljónir króna til að samanlagðar vaxta- og þjónustutekjur stæðu undir almennum rekstrarkostnaði á árunum 2007–2009. Viðsnúningur varð árið 2010 þegar almennur rekstrarkostnaður lækkaði umtalsvert og var þá lægri en samanlagðar vaxta- og þjónustutekjur. Það ár var 432 milljóna króna tap á kjarnastarfsemi vegna 468 milljóna króna framlags í afskriftareikning útlána.

23.1.2 Efnahagsreikningar

Hér er fjallað um stærstu eigna- og skuldaliði í efnahagsreikningi Sparisjóðs Bolungarvíkur í lok áranna 2001–2011 og þróunina á tímabilinu. Í viðauka C má sjá efnahagsreikning sparisjóðsins á árunum 2001–2011 á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.

Eignir

Í árslok 2001 námu eignir Sparisjóðs Bolungarvíkur 5,3 milljörðum króna en í árslok 2011 voru þær 4,9 milljarðar króna á verðlagi hvors árs um sig. Ef miðað er við verðlag í árslok 2011 voru heildareignir sparisjóðsins í árslok 2001 9,3 milljarðar króna og hafði hann því minnkað um nærri helming á þessum ellefu árum. Mynd 5 sýnir skiptingu eigna sparisjóðsins í lok áranna 2001–2011. Árin 2007 og 2008 skera sig úr en þá hljóp mikill vöxtur í eignir sjóðsins. Útlánin jukust verulega þessi tvö ár og hlutabréfaeignin margfaldaðist á árinu 2007.

Útlán voru stærsti einstaki eignaliður sparisjóðsins og var vægi þeirra af heildareignum að jafnaði 58%. Í árslok 2003 varð hlutfall útlána lægst, eða 44%. Þá þurfti sparisjóðurinn að afskrifa útlán vegna gjaldþrots stórs viðskiptavinar. Útlán jukust umtalsvert á árunum 2007 og 2008, vægi þeirra af heildareignum hækkaði úr 54% í árslok 2006 í 66% í árslok 2008 þegar útlán námu 7,2 milljörðum króna og höfðu tvöfaldast frá árslokum 2006. Stóran þátt í þessari aukningu áttu útlán sem veitt voru með milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. Þau útlán töpuðust síðan að miklu leyti svo sem nánar er rakið hér aftar.

Í lok árs 2009 höfðu útlán dregist saman um tæpan helming frá fyrra ári og námu í árslok 3,8 milljörðum króna. Skýrðist það að stærstum hluta af ríflega 2,2 milljarða króna framlagi í afskriftareikning.

Stærstur hluti útlána sparisjóðsins var í formi skuldabréfa, eða 83% í árslok 2008 og var hlutfallið óbreytt í árslok 2011. Útlán til einstaklinga fóru vaxandi frá árslokum 2001, er þau námu 23% af útlánum sparisjóðsins, til ársloka 2005 þegar hlutfall þeirra var 61%. Eftir það lækkaði hlutfall útlána til einstaklinga jafnt og þétt og nam 37% í árslok 2011. Önnur útlán sparisjóðsins voru nær eingöngu til fyrirtækja en lán til opinberra aðila voru óveruleg allt tímabilið.

Staða á afskriftareikningi útlána hækkaði mjög á árunum 2008–2010. Hann stóð í tæpum 227 milljónum króna í árslok 2007, sem jafngilti 4,2% af heildarútlánum. Í árslok 2010 var staðan orðin meira en nífalt hærri og nam þá ríflega tveimur milljörðum króna, sem jafngilti 34,7% af heildarútlánum.

Kröfur á lánastofnanir voru sérgreindar í ársreikningum Sparisjóðs Bolungarvíkur allt fram til ársins 2007 þegar þær voru færðar undir sama lið og sjóður og óbundnar innistæður í Seðlabanka o.fl. Kröfurnar námu 1,8 milljörðum króna í árslok 2003, sem jafngilti 33% af heildareignum, og var þar nánast eingöngu um að ræða kröfur á Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. Kröfur á lánastofnanir voru aftur mjög háar í árslok 2008 þegar þær námu rúmum 1,7 milljörðum króna.

Fjáreignir voru stækkandi eignaliður hjá Sparisjóði Bolungarvíkur á árunum 2001–2007. Bókfært virði fjáreigna sparisjóðsins nánast fjórfaldaðist á þessu tímabili og nam nærri 3,7 milljörðum króna í árslok 2007. Þessi aukning var langt umfram vöxt heildareigna sjóðsins sem nam 75% á sama tímabili. Hlutfall fjáreigna af heildareignum sparisjóðsins hækkaði úr 18% í árslok 2001 í 41% í árslok 2007. Bókfært virði fjáreigna lækkaði síðan um rúman helming í árslok 2008. Munaði þar mest um 1,3 milljarða króna gangvirðislækkun hlutabréfa. Fjáreignir drógust enn frekar saman á árunum 2010 og 2011 og í lok árs 2011 var bókfært virði þeirra tæpur milljarður króna, eða liðlega 19% heildareigna. Til samanburðar má geta þess að hlutfall fjáreigna af heildareignum allra sparisjóðanna var 6,6% í árslok 2011.

Markaðsskuldabréf o.fl. með föstum tekjum voru stærsti hluti fjáreigna sparisjóðsins á árunum 2001–2011, að undanskildu árinu 2007 þegar hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum voru 59% fjáreigna í lok árs. Á árunum 2001–2007 jukust eignir sjóðsins í skuldabréfum um 280% og í árslok 2007 námu þær 1,5 milljörðum króna, þar af voru skuldabréf útgefin af opinberum aðilum aðeins 23%. Í árslok 2008 hafði bókfært virði skuldabréfaeignar sjóðsins lækkað um 200 milljónir króna og var meginástæða lækkunarinnar 150 milljóna króna varúðarafskrift markaðsskuldabréfa.21 Í lok áranna 2009 og 2010 voru um 90% skuldabréfa í eigu sparisjóðsins útgefin af opinberum aðilum og 85% í lok árs 2011.

Hlutabréf og verðbréf með breytilegum tekjum námu 346 milljónum króna í árslok 2006, eða um 5% af heildareignum sparisjóðsins. Í árslok 2007 nam bókfært virði þessa eignaliðar 2,2 milljörðum króna, eða 24% af heildareignum. Þessi mikla aukning stafaði einkum af breyttri meðhöndlun á eignarhlut í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. í reikningshaldi sparisjóðsins Hann hafði verið færður sem hlutdeildarfélag en var nú settur í flokk veltuhlutabréfa. Einnig jók sparisjóðurinn hlut sinn í bankanum úr 3,26% í 4,59% og nam fjárfestingin 426 milljónum króna. Á árinu 2008 lækkaði gangvirði hlutabréfa umtalsvert og nam niðurfærslan tæplega 1,3 milljörðum króna, þar af var rúmur milljarður króna vegna 100% niðurfærslu á eignarhlutnum í Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf.22 Í lok árs 2011 nam bókfært virði hlutabréfa og verðbréfa með breytilegum tekjum 183 milljónum króna, eða 4% af heildareignum sjóðsins.

Hlutur sparisjóðsins í hlutdeildarfyrirtækjum var óverulegur á umræddu tímabili ef frá er talið árið 2006 þegar sjóðurinn keypti hlut í Fjárfestingarfélagi sparisjóðanna (FSP) auk þess sem eignarhlutur í Sparisjóðabanka Íslands hf. hækkaði um 204 milljónir króna. Í árslok 2007 voru aðeins eignarhlutir í Reiknistofu bankanna og Tölvumiðstöð sparisjóðanna/Teris eftir í flokki hlutdeildarfélaga sparisjóðsins.

Aðrar eignir greindust í rekstrarfjármuni, skattinneign og aðrar eignir. Þessi liður hækkaði umtalsvert á árunum 2008 og 2009 þegar tekjuskattsinneign myndaðist vegna taps af rekstri sjóðsins. Í lok árs 2008 nam tekjuskattsinneign 80 milljónum króna og hækkaði í 452 milljónir króna í lok árs 2009. Í lok árs 2011 var tekjuskattsinneign leyst upp að stærstum hluta vegna hagnaðar ársins 2010 og eftir stóðu 44 milljónir króna.

Skuldir

Innlán voru yfirleitt stærsti fjármögnunarþáttur Sparisjóðs Bolungarvíkur umrætt tímabil, nema árin 2008 og 2009 þegar skuldir við lánastofnanir voru meiri. Hlutfall milli innlána og útlána var mjög sveiflukennt. Lægst var hlutfallið 52% í árslok 2001 en hæst tveimur árum síðar þegar það var 101%. Í árslok 2008 fór hlutfallið aftur niður fyrir 53% en á því ári hækkuðu útlánin mjög vegna falls krónunnar. Eftir fall bankanna var hlutfall innlána af útlánum að jafnaði um 100%.

Lántökur sparisjóðsins voru einkum langtímalán í Sparisjóðabankanum og öðrum lánastofnunum, og í formi útgefinna skuldabréfa. Sparisjóðurinn gerði lánasamning við Íbúðalánasjóð í lok árs 2004 og á árinu 2005 vegna fasteignaveðlána, og námu þeir samtals nærri 200 milljónum króna. Á árinu 2005 gaf sjóðurinn út skuldabréf fyrir 365 milljónir króna og aftur árið 2007 fyrir rúmar 400 milljónir króna.

Skuldir við lánastofnanir23 jukust umtalsvert á árunum 2007 og 2008. Í árslok 2008 voru þær orðnar stærsti skuldaliður sjóðsins og námu 5 milljörðum króna. Þar af var skuld í erlendri mynt við Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf. upp á 3,9 milljarða króna. Í lok árs 2009 námu skuldir Sparisjóðs Bolungarvíkur við lánastofnanir 3,9 milljörðum króna og var skuldareigandinn þá Seðlabanki Íslands.24 Skuldin var gerð upp á árinu 2010 með samkomulagi við Seðlabankann um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins.

Víkjandi lán voru lengst af lítilvægur þáttur í fjármögnun sparisjóðsins. Á árinu 2008 tók sparisjóðurinn 200 milljóna króna víkjandi lán hjá Byggðastofnun. Í árslok 2010 námu víkjandi lán 264 milljónum króna og höfðu þá lækkað um liðlega 100 milljónir króna frá fyrra ári vegna samkomulags um endurskipulagningu skulda.25

Eigið fé

Eigið fé Sparisjóðs Bolungarvíkur tók litlum breytingum á árunum 2001–2005. Stofnfé hækkaði milli ára fyrst og fremst við endurmat. Ráðist var í mikla stofnfjáraukningu árið 2007 og var stofnfé þá aukið um 518 milljónir króna. Hlutfall stofnfjár af eigin fé var 8,9% í árslok 2001 og hækkaði með hverju ári. Það var orðið 38,3% í lok árs 2007. Varasjóðurinn hækkaði einnig óslitið til 2007. Eigið fé sparisjóðsins nam tveimur milljörðum króna í árslok 2007 og eiginfjárhlutfallið var þá 21,7%. Rekstur sjóðsins árið 2007 skilaði 255 milljóna króna hagnaði og að auki hækkaði eigið fé vegna upptöku IFRS á því ári um 113 milljónir króna. Árið eftir greiddi sparisjóðurinn stofnfjáreigendum 153 milljóna króna arð á grundvelli afkomunnar 2007 og nam arðgreiðslan 19,9% af stofnfé í árslok 2007. Það var umfram raunávöxtun eigin fjár, sem var 13,2% árið 2007 og var þetta þriðja árið í röð sem sparisjóðurinn greiddi arð umfram leyfilegt hámark.

Mikið tap varð á rekstri sparisjóðsins á árinu 2008, eða 1,6 milljarðar króna. Eigið fé í árslok 2008 féll við það niður í 234 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið niður í 2,41% og þar með niður fyrir lögbundið 8% lágmark. Árið 2009 var tapið enn meira, eða tæpir 2,3 milljarðar króna. Í árslok var eigið fé orðið neikvætt um rúma tvo milljarða króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 48,74%. Farið var í fjárhagslega endurskipulagningu og lauk henni með undirritun samkomulags við Seðlabanka Íslands 22. september 2010 um endurskipulagningu skulda sparisjóðsins.26 Stofnfé sparisjóðsins var fært niður að mestu leyti og ríkissjóður, Byggðastofnun og Rekstrarfélag verðbréfasjóða hjá Íslenskum verðbréfum hf. gáfu eftir hluta af kröfum sínum og lögðu fram nýtt stofnfé upp á 635 milljónir króna. Í rekstrarreikningi ársins 2010 voru 2,7 milljarðar króna færðir til tekna vegna þessarar skuldbreytingar. Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Bolungarvíkur á árinu 2010 nam 1,9 milljörðum króna og var meginskýringin þessi tekjufærsla.

Eigið fé í lok árs 2010 var 538 milljónir króna, bókfært eiginfjárhlutfall var þá 10% og eiginfjárhlutfallið (CAD) 16,18%, eða rétt yfir 16% lágmarkinu sem Fjármálaeftirlitið setti í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Árið 2011 var 85 milljóna króna tap á rekstri sjóðsins og í árslok nam eigið fé hans ríflega 453 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið komið niður í 14,51%.

23.2 Útlán, útlánareglur og lánveitingar

Útlán voru stærsta eign Sparisjóðs Bolungarvíkur á tímabilinu 2005–2011. Frá 2005 til 2007 uxu útlán sjóðsins úr 2,8 milljörðum í rúma 5 milljarða króna. Þau náðu svo hámarki í árslok 2008 þegar þau voru 7,1 milljarður króna eða um 65,6% af heildareignum sjóðsins.

Samkvæmt upplýsingum úr skýrslum Sparisjóðs Bolungarvíkur um útlán og vanskil jukust gengisbundin útlán sjóðsins úr 909 milljónum króna í árslok 2006 í 2.143 milljónir króna í lok árs 2007 og voru þau þá um 37% af heildarútlánum sjóðsins. Í lok árs 2008 námu gengisbundin lán 3.863 milljónum króna eða um 46,7% af heildarútlánum sjóðsins og var það hlutfall eitt það allra hæsta hjá sparisjóðunum á tímabilinu.

Skuldabréf voru algengasta tegund útlána sparisjóðsins á tímabilinu 2005–2011. Önnur útlán sparisjóðsins voru aðallega yfirdráttarlán og afurða- og rekstrarlán.

Í töflu 9 má sjá hlutfallslega skiptingu lántakenda Sparisjóðs Bolungarvíkur. Árið 2005 var 61% útlána til einstaklinga en í lok árs 2011 hafði vægi þeirra minnkað í 36,6%. Á sama tíma jókst vægi lána til þjónustustarfsemi úr 4,8% í 22,1%. Þá jókst vægi útlána til sjávarútvegs úr 25,4% í 30,5%.

Niðurfærslur útlána höfðu mikil áhrif á afkomu sparisjóðsins á tímabilinu 2008–2010. Í lok árs 2007 var staða afskriftareiknings útlána 226 milljónir króna, ári síðar stóð hann í 893 milljónum króna og í árslok 2009 í 1.994 milljónum króna, eða 34,7% af heildarútlánum.

23.2.1 Athugasemdir eftirlitsaðila

Fjármálaeftirlitið vann ekki sérstaka eftirlitsskýrslu um Sparisjóð Bolungarvíkur á árunum 2005 til 2011 en í skýrslum um innri endurskoðun frá sama tímabili var að finna nokkrar athugasemdir.

Í skýrslu um innri endurskoðun ársins 2005 var sérstaklega bent á útlánaáhættu og að ársreikningur sýndi að endanlega tapaðar kröfur næmu um 197,4 milljónum króna. Gjaldfærsla ársins 2005 væri þó mun lægri, eða 64,8 milljónir króna, en þó væri ljóst að verulegar fjárhæðir hefðu tapast á undanförnum árum. Eðlilegt væri að freista þess að lækka útlánatöp með skýrum markmiðum um útlánaáhættu. Í skýrslu um innri endurskoðun fyrir árið 2006 var að finna samsvarandi athugasemdir. Ekki liggja fyrir skýrslur um innri endurskoðun sparisjóðsins frá 2007 til 2011. Að sögn sparisjóðsstjóra var enginn innri endurskoðandi hjá sjóðnum frá árinu 2008.27

Fjallað var um útlánatöp sparisjóðsins í endurskoðunarskýrslu sjóðsins fyrir árið 2005. Kom þar fram að á síðustu sex árum hefðu afskrifuð, töpuð útlán sparisjóðsins numið 623 milljónum króna en vonir stæðu til að úr þessum töpum myndi draga á næstu árum þar á eftir. Þó þyrfti að halda áfram afskriftum fullnustueigna en sumar þeirra skiluðu sjóðnum ekki neinum tekjum og væru einungis byrði. Ekki liggja fyrir endurskoðunarskýrslur fyrir árin 2006 og 2007 en í endurskoðunarskýrslu ársins 2008 var sjónum einkum beint að niðurfærslu útlána og talin hætta á enn frekari útlána- og eignatöpum þrátt að fyrir að miklar niðurfærslur og afskriftir eigna hefðu þegar átt sér stað.

23.2.2 Útlánareglur og heimildir

Reglur um útlán hjá Sparisjóði Bolungarvíkur var annars vegar að finna í reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra og hins vegar í útlánareglum sparisjóðsins.

Útlánareglur Sparisjóðs Bolungarvíkur voru settar samhliða starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra 22. janúar 2004. Í 1. gr. útlánareglnanna sagði að þær væru settar á grundvelli reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum og hefðu að geyma almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir sparisjóðsins. Samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðnum voru reglurnar ekki uppfærðar við tilkomu nýrra reglna um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum nr. 216/2007.28 Í 2. gr. reglnanna sagði að meginmarkmið með útlánum og ábyrgðarveitingum sparisjóðsins væri að eðlilegur tekjuafgangur yrði af rekstri sjóðsins og að viðhalda traustri eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu ásamt því að veita sem besta þjónustu á hverjum tíma. Við ákvörðun um fyrirgreiðslu skyldi þess gætt að heildarfjárhæð hennar væri í hæfilegu hlutfalli við eigið fé sjóðsins með hliðsjón af framlögðum tryggingum og fjárhag viðskiptaaðila. Þá bæri að skoða útlánaáhættu vegna fjárhagslega tengdra aðila í einu lagi. Ekki var sérstaklega vikið að skilgreiningu á stórum áhættuskuldbindingum eða hver heildarfjárhæð stórra áhættuskuldbindinga mætti vera en þó kom fram að heildarskuldbinding eins eða tengdra aðila skyldi aldrei fara yfir 25% af eigin fé sjóðsins eins og það var skilgreint í 84. og 85. gr. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Að jafnaði skyldu teknar fullnægjandi tryggingar vegna skuldbindinga sem stofnað var til gagnvart sparisjóðnum. Ekki var þó að finna nánari skilgreiningu á því hvað teldist til fullnægjandi trygginga. Heimilt var að víkja frá þessari reglu ef upplýsingar sem fyrir lágu sýndu að ekki væri þörf sérstakra trygginga, enda skyldi fylgst með afkomu og fjárhag viðskiptaaðilans á meðan skuldbinding varði. Ekki kom fram í reglunum hvernig sú eftirfylgni skyldi framkvæmd og í skýrslu sparisjóðsstjóra fyrir rannsóknarnefndinni kom fram að ekki hefði verið fylgst með afkomu og fjárhag viðskiptaaðila með skipulegum hætti.29

Lánveitingar og önnur fyrirgreiðsla við atvinnufyrirtæki áttu að taka mið af viðskiptum þeirra við sparisjóðinn ásamt upplýsingum um rekstur þeirra og fjárhag. Eftir því sem unnt væri skyldi aflað ársreikninga, rekstrar- og greiðsluáætlana og annarra fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptavinum og úr þeim unnið á skipulegan hátt. Sérstaklega var tekið fram í útlánareglunum að miða skyldi við raunmat á tryggingarandlagi og að gögn því til staðfestingar ætti að geyma með viðkomandi skjölum þegar um veð væri að ræða. Lán til einstaklinga skyldu taka mið af viðskiptum þeirra við sparisjóðinn og greiðslugetu.

Engin útlánanefnd var starfandi í sparisjóðnum heldur tók sparisjóðsstjóri ákvörðun um lánveitingar og ábyrgðir ef heildarskuldbinding aðila eða fjárhagslega tengdra aðila var innan við 1,5% af eigin fé sparisjóðsins. Útlánaheimild hans á tímabilinu frá janúar 2005 til október 2008 var því á bilinu frá tæpum 13 milljónum króna til tæpra 15 milljóna króna. Ef heildarskuldbinding eins eða fleiri fjárhagslega tengdra aðila fór fram úr 1,5% af bókfærðu eigin fé sjóðsins þurfti samþykki sparisjóðsstjórnar. Ákveðið misræmi var því milli heimilda sparisjóðsstjóra og stjórnar, annars vegar var vísað til 1,5% af eigin fé samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og hins vegar til 1,5% af bókfærðu eigin fé. Þá var hámark útlánaheimildar staðgengils sparisjóðsstjóra 1 milljón króna samkvæmt útlánareglum. Sparisjóðsstjóri átti að halda skrá yfir útlánaheimildir starfsmanna og breytingar á skránni þurftu samþykki hans. Í reglunum var ekki að finna ákvæði um hámarkslánveitingar til einnar atvinnugreinar til dreifingar á áhættu.

Reglur Sparisjóðs Bolungarvíkur um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra voru settar 22. janúar 2004 með vísan til 2. mgr. 54. gr. laga 161/2001 um fjármálafyrirtæki og til samþykkta sparisjóðsins og tóku til verkaskiptingar stjórnar og sparisjóðsstjóra.

Sparisjóðsstjóri sat stjórnarfundi sem skyldu haldnir einu sinni í mánuði að jafnaði. Útlánaeftirlit var á ábyrgð sparisjóðsstjórnar og var henni skylt að taka mánaðarlega fyrir yfirlit yfir skuldbindingar viðskiptaaðila með heildarskuldbindingu sem nam 2,5% eða meira af eigin fé sjóðsins. Á stjórnarfundum skyldi einnig gera grein fyrir heildarlánveitingum sem átt höfðu sér stað milli stjórnarfunda og lánveitingum og ábyrgðum til einstakra aðila umfram 0,5% af eigin fé sjóðsins. Á þriggja mánaða fresti átti stjórnin að skoða yfirlit yfir heildarvanskil eftir einstökum útlánaformum og einu sinni á ári skyldi lögð fyrir hana útlánaskýrsla yfir stöðu stærstu skuldara og vanskilaaðila með upplýsingum um greiðslutryggingar, sem skyldi unnin af innri endurskoðanda. Þá skyldi stjórnin fjalla árlega um framlag í afskriftareikning og tillögur um endanlegar afskriftir ásamt skýrslu um niðurstöður innri endurskoðunar, þar á meðal fyrirgreiðslu til venslaðra aðila.

Sparisjóðsstjórninni bar að setja markmið um áhættur í starfseminni, ákveða mörk áhættutöku og byggja upp tryggt eftirlit með rekstrinum og fylgja því eftir. Sparisjóðsstjóri bar svo ábyrgð á að greina, mæla, fylgjast með og hafa eftirlit með áhættum sem starfseminni fylgdu, móta markmið fyrir innra eftirlit í samráði við stjórn og fylgjast með því að eftirlitskerfið væri skilvirkt. Ekki voru sérstakar reglur um framkvæmd áhættustýringar í Sparisjóði Bolungarvíkur.

Í reglunum sagði að Fjármálaeftirlitið hefði veitt sjóðnum undanþágu frá rekstri endurskoðunardeildar í samræmi við leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2003. Skilyrði þess var að gerður væri samningur um árlega úttekt á innra eftirliti við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila. Þá var sérstaklega tekið fram í reglunum að innra eftirlit væri hluti af skipulagi sparisjóðsins og þáttur í áhættu- og eftirlitskerfi hans og að sparisjóðsstjórninni bæri að afgreiða tillögur sem undirbúnar væru af sparisjóðsstjóra um innra eftirlit sjóðsins. Sparisjóðsstjórn bar að setja viðmið um hverjir gætu talist innherjar og á grundvelli þeirra átti regluvörður að útbúa innherjalista. Samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðnum voru slík viðmið þó aldrei sett.30

Starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra innihéldu almenn skilyrði um hæfi stjórnarmanna og sparisjóðsstjóra og einnig um hæfi stjórnarmanna til afgreiðslu einstakra mála. Skýrt var kveðið á um meðferð mála er snertu viðskipti stjórnarmanna sjálfra og fyrirtækja á þeirra vegum, sem og þeirra sem töldust venslaðir þeim eða samkeppnisaðilar þeirra. Stjórn sparisjóðsins þurfti einnig að samþykkja þá samninga sem sparisjóðurinn gerði við sparisjóðsstjóra.

Í starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra kom fram að sparisjóðurinn hefði látið útbúa útlánareglur sem náðu til framkvæmdar á lánveitingum og ábyrgðum. Þar kæmu fram mörk heimilda sparisjóðsstjóra og annarra starfsmanna, auk fleiri mikilvægra atriða sem snertu útlánareglur sjóðsins. Starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra heimiluðu sparisjóðsstjóra að veita öðrum starfsmönnum sparisjóðsins umboð til að fara með afmarkaðar starfsheimildir sínar að fengnu samþykki stjórnar. Á hinn bóginn skyldi sparisjóðsstjórn ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti nema umfang þeirra væri verulegt miðað við stærð sparisjóðsins, en nánar var kveðið á um mörkin í útlánareglum sjóðsins.

Starfsreglur um framlög í afskriftareikning og endanlegar afskriftir útlána voru settar í desember 2003 á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglna nr. 834/2003 um reikningsskil lánastofnana, sem og samþykkta sparisjóðsins. Markmið með reglunum var að tryggja fagleg og vönduð vinnubrögð við mat á útlánum sparisjóðsins og að færðar væru í afskriftareikning útlána nægilegar fjárhæðir, með hliðsjón af niðurstöðu slíks mats. Í reglunum kom meðal annars fram að til skoðunar í sérstök afskriftarframlög skyldu koma lánveitingar til aðila sem a) hefðu verið í vanskilum í 6 mánuði eða lengur, b) væru komnir í greiðslustöðvun, c) gert hefði verið árangurslaust fjárnám hjá, d) væru gjaldþrota, e) hefðu lagt fram beiðni um nauðasamninga, eða f) aðrar aðstæður ættu við sem skertu gjaldþol eða greiðslugetu þeirra og gerðu það líklegt að ekki yrði staðið að fullu við lánasamninga.

Fjárhæð sérstaks framlags í afskriftareikning útlána skyldi metið með tilliti til heildarskuldbindinga lánþega og áætlaðs verðmætis tryggingaandlaga.

Endanlegar afskriftir útlána skyldu ákveðnar i) við lok gjaldþrotaskipta, ii) við skuldaeftirgjöf, eða iii) við árangurslaust fjárnám, þegar fyrir lægi mat lögmanns sparisjóðsins um að frekari innheimtuaðgerðir myndu ekki skila árangri.

23.2.3 Stærstu lántakendur

Rannsóknarnefndin valdi úrtak stærstu lántakenda sparisjóðsins til sérstakrar skoðunar og greiningar með það að markmiði að varpa ljósi á útlánastefnu sparisjóðsins, starfshætti útlánastarfsemi og ástæður fyrir afskriftum útlána. Kannað var hvort útlánastarfsemi sparisjóðsins hefði verið í samræmi við reglur sjóðsins og gildandi lög og reglur.

Skýrslum um stórar áhættuskuldbindingar sem skila bar til Fjármálaeftirlitsins ársfjórðungslega samkvæmt reglum nr. 216/2007 var ætlað að varpa ljósi á áhættu fjármálafyrirtækis af útlánum og öðrum slíkum skuldbindingum og aðstoða við áhættustýringu.31 Úrtak tók mið af stærstu lántakendum í árslok 200832 og þeim sem voru með sérgreind framlög í afskriftareikning yfir 25 milljónum króna í lok árs 2009.

Við skoðun á lánahópum í úrtaki rannsóknarnefndar komu fram dæmi um að sparisjóðsstjóri hefði farið út fyrir þær heimildir sem útlánareglur sjóðsins kváðu á um og veitt sjálfur lán sem honum bar að leggja fyrir stjórn.33 Þá voru mörg dæmi þess í fundargerðum stjórnar að lán væru samþykkt í íslenskum krónum, en síðan veitt í erlendri mynt án þess að þess væri getið í fundargerðum.34 Skoðun á lánahópum í úrtaki leiddi í ljós að verklagi við skilgreiningu á fjárhagslega tengdum aðilum var ábótavant. Til að mynda fundust nokkur dæmi þess að eigendur fyrirtækja sem voru með lán hjá sparisjóðnum væru ekki taldir fjárhagslega tengdir fyrirtækjum sínum á skýrslum sjóðsins til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar.

Við skoðun á úrtaki rannsóknarnefndarinnar komu í ljós ágallar á tryggingatöku. Til að mynda fékk fiskvinnslufyrirtæki í Bolungarvík lán gegn veði sem tryggt var með 3. veðrétti í bát í eigu fyrirtækisins. Lánið, sem nam 34 milljónum króna, var samþykkt á stjórnarfundi 10. júní 2005 gegn því að tekið yrði veð í fasteignum, kvóta og veittar sjálfskuldarábyrgðir. Gögn um veðsetningu sýna ekki að önnur veð en 3. veðréttur í bátnum hafi verið lögð fram.35

Hér á eftir fer umfjöllun um sjö lánahópa hjá Sparisjóði Bolungarvíkur sem rannsóknarnefndin taldi ástæðu til að gera nánari grein fyrir. Farið er yfir helstu lánveitingar til þessara aðila, hvort þær hafi verið í samræmi við lánareglur og gildandi lög og reglur á fjármálamarkaði og fjallað um mat sparisjóðsins á afskriftarþörf vegna þeirra. Skoðun á öðrum lánahópum í úrtakinu gaf ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Hexa ehf. (Arnarmúli ehf.)

Arnarmúli ehf. var stofnað árið 2007 í þeim tilgangi að kaupa alla hluti í Hexa ehf. með sameiginlegu láni (sambankaláni) nokkurra sparisjóða, þ.á.m. Sparisjóðs Bolungarvíkur. Í árslok 2007 var Arnarmúli ehf. svo sameinað Hexa ehf. undir nafni þess síðarnefnda.36 Eftir sameininguna voru aðaleigendur Hexa ehf. Guðmundur Sigþórsson (44%) og Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir (19%). Nokkrum mánuðum eftir kaup Arnarmúla ehf. á Hexa ehf. eignaðist fyrirtækið annað félag, Kolt ehf., einnig með sambærilegu láni nokkurra sparisjóða með þátttöku sparisjóðsins. Lánveitingarnar voru báðar til komnar fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf.37

Frá júní 2007 til október 2008 jukust skuldbindingar lántaka gagnvart Sparisjóði Bolungarvíkur úr 66 milljónum króna í 247 milljónir króna og var fyrirgreiðslan í erlendum myntum. Um var að ræða fjármögnun á svokallaðri skuldsettri yfirtöku með öfugum samruna.38

Arnarmúli ehf. fékk þrjú lán í erlendum myntum, jafnvirði 277 milljóna króna, til kaupa á Hexa ehf. Allir samningarnir skiptust til helminga í svissneska franka og japönsk jen og voru dagsettir 14. maí 2007. Sparisjóðir sem tóku þátt í lánveitingum í gegnum Sp-ráðgjöf ehf. skiptu með sér hlutdeild í lánasamningum og var hlutur Sparisjóðs Bolungarvíkur í lánveitingunni 25%. Auk þeirra sparisjóða var Byr sparisjóður með 50% hlut í fjármögnuninni.39

Framlengingarheimildir voru háðar því skilyrði að lánin væru í skilum, tryggingar fullnægjandi og vaxtakjör í samræmi við fjármögnunarkostnað lánveitanda. Í stjórnarfundargerð sparisjóðsins frá 12. apríl 2007 sagði um lánveitinguna:

SP Ráðgjöf – HEXA 25%. Sparisjóðsstjóri kynnti beiðni um lán til kaupa á Hexa, sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í vinnufatnaði og einkennisfatnaði fyrir opinbera aðila og stórfyrirtæki. Núverandi framkvæmdastjóri er að kaupa fyrirtækið ásamt nokkrum lykilstarfsmönnum. Fjármögnun upp á allt að 277 milljónir króna þar sem Sparisjóður Bolungarvíkur myndi fronta málið með lánshlutfall um 25% með hefðbundnar tryggingar. Stjórn samþykkti þátttöku með öllum greiddum atkvæðum.

Á stjórnarfundi Sparisjóðs Bolungarvíkur 27. apríl 2007 var eftirfarandi bókun gerð:

Hexa ehf. Mál kynnt fyrir stjórn 27. mars, [hefði átt að vera 12. apríl, sbr. fyrri umfjöllun, virðist vera misritun] máli lokið með þátttöku Sparisjóðsins í Bolungarvík, sú breyting varð á að Byr Sparisjóður frontar þetta mál en Sparisjóðurinn í Bolungarvík er með 25% hlutdeild eins og gert var ráð fyrir.

Til tryggingar þessum lánveitingum voru handveð í tveimur bankareikningum í eigu Arnarmúla ehf. og Hexa ehf. ásamt handveðum í öllum hlutum eigenda í Arnarmúla ehf. og öllum hlutum Arnarmúla ehf. í Hexa ehf., tveir tryggingarvíxlar með umboði til útfyllingar. Þá gaf Hexa ehf. út „yfirlýsingu um kvöð“ (e. negative pledge) sem var veðsetningarkvöð á allar almennar fjárkröfur samkvæmt vörureikningum, allar vörubirgðir fyrirtækisins og allt óskráð lausafé. Eignarhaldsfélagið Huldar ehf. sem var í eigu Hexa ehf. gaf einnig út veðsetningarkvöð á fasteign sína að Smiðjuvegi í Kópavogi. Þá gáfu helstu stjórnendur Hexa ehf. út yfirlýsingu sem í fólst loforð um að gegna sínum störfum í þágu fyrirtækisins og ekki stofna ný á meðan skuldastaða þess að mati sparisjóðsins væri með ákveðnum tilgreindum hætti.

Haustið 2007 leituðu forsvarsmenn Hexa ehf. til Sp-ráðgjafar ehf. með ósk um fjármögnun til kaupa á Kolti ehf. sem rak vinnufataverslunina Þjark að Smiðjuvegi 6 í Kópavogi. Fyrirtækið hafði sérhæft sig í innflutningi á ódýrum vinnufatnaði frá Kína og var ætlunin að nýta samlegðaráhrif af sameiningu félaganna. Heildarkaupverð var 240 milljónir króna og var óskað eftir fullri fjármögnun. Sparisjóður Bolungarvíkur var í forsvari fyrir sameiginlegu láni sparisjóðanna til Hexa ehf., samtals að fjárhæð 240 milljónir króna, þar sem hlutur Sparisjóðs Bolungarvíkur var 25%. Þetta var samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 4. september 2007.

Gengið var frá þremur lánasamningum við Hexa ehf. í erlendum gjaldmiðlum 7. september 2007 sem skiptust til helminga í svissneska franka og japönsk jen.

Til tryggingar lánveitingunum var undirrituð handveðsyfirlýsing þar sem allir hlutir í Kolti ehf., samtals 500.000 krónur að nafnvirði, voru sagðir veðsettir Sparisjóði Bolungarvíkur. Á handveðsyfirlýsingunni kom fram að hinir veðsettu hlutir hefðu ekki verið gefnir út og væru ekki í vörslum veðhafa.40 Þá afhenti lántaki lánveitanda tvö „tryggingarvíxilform“, eins og segir í lánasamningi, útgefin af lántaka ásamt umboði til útfyllingar.

Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Húnaþings og Stranda, Sparisjóður Vestfirðinga og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis stofnuðu eignarhaldsfélagið Protinus ehf. á árinu 2007.41 Hinn 30. ágúst 2007 keypti Protinus ehf. Smiðjuveg 6 af Kolti ehf. á 46 milljónir króna gegn staðgreiðslu og leigði síðan félaginu til baka með leigusamningi til sex mánaða. Hinn 8. október var svo gerður annar kaupsamningur þar sem Protinus ehf. seldi Hexa ehf. sömu fasteign á 50 milljónir króna sem greiðast áttu við afhendingu húsnæðisins hinn 1. apríl 2008. Samkomulag um riftun kaupsamningsins milli Protinus ehf. og Hexa ehf. sökum vanefnda var gert 21. apríl 2009. Á sama tíma var leigusamningi milli Protinus ehf. og Kolts ehf. um sömu fasteign rift.

Í óundirrituðu minnisblaði sem fylgdi gögnum um lánveitingar til kaupa á Kolti ehf. sagði:

Við höfum lagt til að Protinus kaupi fasteign Koltar ehf. að Smiðjuvegi 6 á 46 milljónir og leigi síðan Kolti/Hexa þar til svigrúm gefst hjá þeim til þess að kaupa fasteignina til baka. Þeir fjármunir eru nú þegar til í Protinusi vegna þess að ekki varð af hlutafjárþátttöku í JK-fjárfestingum eins og til stóð.

Ekki var að finna neina bókun um þessi kaup í fundargerðum stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur.

Í lok nóvember 2007 var óskað eftir um 45 milljóna króna láni til handa Kolti ehf. fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. á þeirri forsendu „að ýmsir útgjaldaliðir hefðu reynst hærri en ráð var fyrir gert“. Fékk félagið í desember 2007 eingreiðslulán til fjögurra ára með 25% þátttöku Sparisjóðs Bolungarvíkur. Til tryggingar láninu voru einungis afhentir tveir tryggingarvíxlar á Kolt ehf. með umboði til útfyllingar.

Í byrjun desember 2007 gáfu Hexa ehf. og Koltur ehf. út tvö tryggingarbréf með 1. veðrétti í fasteignum, rekstrartækjum, þinglýstum leigurétti, vörubirgðum, vörureikningum og sérgreindu lausafé fyrirtækjanna á starfsstöð þeirra við Smiðjuveg. Annað tryggingarbréfið, sem Hexa ehf. gaf út, var að fjárhæð 160 milljónir króna, þinglýst á 1. veðrétt fasteignarinnar að Smiðjuvegi 10 ásamt rekstrartækjum að Smiðjuvegi 10 og 12 og með 1. veðrétti í vörubirgðum og vörureikningum. Tryggingabréfinu var þinglýst með athugasemd um að á 1. veðrétti í vörubirgðum og vörureikningum væri fyrir tryggingabréf að fjárhæð 3 milljónir sænskra króna. Tryggingabréfið til Sparisjóðs Bolungarvíkur var því á 2. veðrétti í vörubirgðum og vörureikningum. Þá var veðsett bifreið af gerðinni Renault Clio árgerð 1999. Hitt tryggingarbréfið að fjárhæð 120 milljónir króna var útgefið til tryggingar skuldum Kolts ehf. og Hexa ehf. og var þinglýst á 1. veðrétti fasteignarinnar að Smiðjuvegi 6.

Á þessum sama tíma var Smiðjuvegur 6 í eigu Protinusar ehf. og hafði verið frá því í ágúst sama ár, enda var veðsetningin samþykkt með undirskrift stjórnar Protinusar ehf. í desember 2007. Því verður ekki annað séð en að Protinus ehf., og þar með sparisjóðirnir sem að því stóðu, hafi lánað Kolti ehf. og Hexu ehf. 1. veðrétt í eign Protinusar til tryggingar skuldum félaganna tveggja við Sparisjóð Bolungarvíkur. Óskað var eftir skýringu á þessari veðsetningu hjá sparisjóðnum. Í svari sparisjóðsstjóra til rannsóknarnefndarinnar sagði:

Þegar Hexa gat ekki greitt af lánunum vegna kaupa á húsnæðinu, var Protinus stofnað og það félag yfirtók rekstur á húsnæðinu og allar veðskuldir sem hvíldu á húsnæðinu. Þetta tryggingarbréf er bara með veði í rekstrartækjum og fleiru, ætli að það hafi ekki verið krafa sýslumannsins í Kópavogi um að Protinus samþykkti þessa veðsetningu á rekstrarvörum sem eigandi húsnæðisins. Meira veit ég ekki.42

Í ljósi þess að rannsóknarnefndin hafði fengið staðfest að tryggingabréfinu hefði samkvæmt efni sínu verið þinglýst á 1. veðrétt í Smiðjuvegi 6 fyrir skuldum Hexa ehf. og Kolts ehf. var sparisjóðsstjóri inntur eftir því hvort gengið hefði verið að veðum þegar félögin urðu gjaldþrota:

Ef þetta tryggingabréf hafi verið þinglýst á 1. veðrétt, þá er það trúlega mistök hjá sýslumanninum í Kópavogi, sem ég hafi ekki vitað um og þar af leiðandi ekki gert kröfu í búið.43

Rétt er að taka fram að þar sem Sparisjóður Bolungarvíkur átti 25% eignarhlut í Protinus ehf., sem átti Smiðjuveg 6, og var 25% þátttakandi í sambankaláni til Hexa ehf. og Kolts ehf. verður ekki séð að sparisjóðurinn hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni þótt ekki hafi verið gengið að fasteigninni.

Í fundargerð stjórnar sparisjóðsins frá 2. desember 2008 var bókað að staða krónunnar væri að valda flestum fyrirtækjum hjá Sp-ráðgjöf ehf. miklum vandræðum. Um stöðu Hexa og Kolts kom eftirfarandi fram:

Slæmt mál að mati SpStjóra. Lagt er til að fyrirtækið verði selt en búast má við 120 mkr afskrift hjá SpB vegna þessa. Fyrirtækið er komið í sölumeðferð.

Í lok árs 2008 færði sparisjóðurinn sérgreint afskriftarframlag vegna lána sem veitt höfðu verið Arnarmúla ehf., samtals 110 milljónir króna, og í lok árs 2009 var framlagið tæplega 71 milljón króna. Sérgreint afskriftarframlag í lok árs 2008 vegna lána sem veitt voru Hexa ehf. var samtals 99 milljónir og tæplega 34 milljónir króna vegna ársins 2009 en það ár varð félagið gjaldþrota. Koltur ehf. varð gjaldþrota árið 2010. Sparisjóðurinn afskrifaði endanlega 315 milljónir króna vegna lána til Hexa ehf. og Arnarmúla ehf. á árinu 2009.

Hrói Höttur ehf. og DGN ehf.

Eignarhaldsfélagið H.H. ehf. sem síðar varð Hrói Höttur ehf. var í eigu Dagbjarts Bjarnasonar sem átti 33%, Fenja ehf., í eigu Hrafnhildar Hauksdóttur, sem átti 33%, Nikulásar Kristins Jónssonar sem átti 33% og Sp-eigna ehf. sem átti 1%. Gísli Ingason, eiginmaður Hrafnhildar, Nikulás og Dagbjartur áttu síðan þriðjungshlut hver í DGN ehf. sem var einnig með fyrirgreiðslu hjá Sparisjóði Bolungarvíkur en DNG ehf. var fasteignafélag og keypti húsnæði þar sem rekstur Hróa Hattar ehf. fór fram, á Smiðjuvegi í Kópavogi og Hjallahrauni í Hafnarfirði.

Í febrúar 2007 keypti Eignarhaldsfélag H.H. ehf., rekstur, vörumerki, viðskiptavild, lén, heimasíðu, öll tæki, áhöld, lager, innréttingar og búnað Hróa Hattar ehf. að Langarima 21–23, Fákafeni 11 og Smiðjuvegi 2, sem og bifreiðar. Kaupin voru fjármögnuð með sameiginlegu láni nokkurra sparisjóða til Eignarhaldsfélags H.H. ehf. fyrir milligöngu Sp-ráðgjafar ehf. Hlutdeild Sparisjóðs Bolungarvíkur í láninu var 40%. Á stjórnarfundi Sparisjóðs Bolungarvíkur 5. febrúar 2007 var samþykkt heimild til þátttöku í sameiginlegri lánveitingu upp á 25%, sem næmi um 22–25 milljónum króna. Þegar til kom varð hlutur sparisjóðsins hins vegar rúmar 38 milljónir króna. Ekki var að finna samþykki fyrir þessari hækkun í fundargerðum stjórnar. Um var að ræða þrjá lánasamninga í erlendum gjaldmiðlum, samtals jafnvirði 95 milljóna króna.

Til tryggingar lánunum voru þrír handveðssamningar við eigendur Eignarhaldsfélags H.H. ehf. þar sem 99% af hlutum í félaginu voru veðsettir sparisjóðnum. Auk þess var gefið út 45 milljóna króna tryggingarbréf með 1. veðrétti í rekstrartækjum ásamt þinglýstum leigurétti, vörubirgðum, vörureikningum og sérgreindu lausafé á starfsstöðvum fyrirtækisins, þar með talið bifreiðum. Þá voru gefnar út tvær yfirlýsingar um veð í almennum fjárkröfum, undirritaðar annars vegar af Visa Ísland og hins vegar af Kreditkortum ehf., þar sem félögin staðfestu að þeim væri kunnugt um veðsetningu á þeim kröfum sem Eignarhaldsfélag H.H.ehf. átti á hendur þeim. Í tilviki Kreditkorta ehf. virðist ekki hafa verið gengið svo frá að greiðslur færu inn á þann reikning félagsins sem veðsettur var sparisjóðnum. Greiðslur inn á reikning félagsins hjá Visa Ísland voru í vörslu veðsala en sparisjóðnum var heimilað að taka út af honum ef til vanskila kæmi. Eignarhaldsfélag H.H. lagði einnig fram handveðsyfirlýsingu um innistæðu á tékkareikningi þar sem inn áttu að koma afslættir sem félagið fengi af viðskiptum við Vífilfell hf. og réðust af umfangi viðskipta, án þess að það væri tilgreint nánar. Þessi tékkareikningur var líka í vörslu veðsala en sparisjóðnum heimilað að taka út af honum ef til vanskila kæmi.

Þá voru útbúnir tveir tryggingarvíxlar með umboði til útfyllingar. Dagbjartur og Gísli gáfu einnig út sérstakar yfirlýsingar til sparisjóðsins þar sem þeir skuldbundu sig til að hætta ekki störfum fyrir félagið eða stofna ný fyrirtæki sem færu í samkeppni við það, án samþykkis sparisjóðsins.

Eignarhaldsfélag H.H. ehf. fékk eingreiðslulán til tveggja ára, jafnvirði 20 milljóna króna, 30. maí 2007. Lánið var til kaupa á vörumerkinu Pizzabæ, áhöldum, vefsíðu og viðskiptavild. Lánveitendur voru Sparisjóður Bolungarvíkur (56%) og Sparisjóður Húnaþings og Stranda (44%).

Til tryggingar láninu var gefið út 10 milljóna króna tryggingarbréf með 1. veðrétti í rekstrartækjum ásamt þinglýstum leigurétti, vörubirgðum, vörureikningum og sérgreindu lausafé sem fólst í færibandaofni, hrærivél, léninu Pizzabær og fjórum sjónvarpstækjum. Jafnframt samþykkti Eignarhaldsfélag H.H. tvo tryggingarvíxla ásamt umboði til útfyllingar.

Í september 2007, þegar Eignarhaldsfélag H.H. ehf. og Hrói Höttur ehf. höfðu verið sameinuð undir síðarnefnda nafninu, fjármagnaði Sparisjóður Bolungarvíkur í samvinnu við aðra sparisjóði kaup félagsins á veitingastaðnum Hróa Hetti að Hjallahrauni 13 í Hafnarfirði, ásamt innréttingum, tækjum, viðskiptavild, bifreiðum o.fl., af Hróa ehf. á 48 milljónir króna. Lánsbeiðni Hróa Hattar ehf. var tekin fyrir hjá stjórn sparisjóðsins 2. október 2007:

SP-Ráðgjöf: Hrói Höttur Hafnarfirði. Sparisjóðsstjóri lagði fyrir stjórn beiðni um sambankalán frá Hróa Hetti, til kaupa á Hróa Hattar veitingastaðnum í Hafnarfirði. Sparisjóðurinn væri með 50% hlut sem eru um 24 milljónir og fronta málið í framhaldi af fyrri viðskiptum við Hróa Hattar menn. Stjórn samþykkti þátttöku með hefðbundnum tryggingum.

Sparisjóður Húnaþings og Stranda fjármagnaði helming lánsins á móti Sparisjóði Bolungarvíkur. Um var að ræða tvo lánasamninga í erlendum myntum, jafnvirði 50 milljóna króna.

Til tryggingar lánveitingunum var tryggingarbréf að fjárhæð 54 milljónir króna með veði í rekstrartækjum ásamt þinglýstum leigurétti í fasteigninni að Hjallahrauni 13 ásamt veði í vörubirgðum, vörureikningum og sérgreindum bifreiðum. Þá voru samþykktir tveir tryggingarvíxlar ásamt umboði til útfyllingar.

DGN ehf.44 var í fullri eigu Gísla Ingasonar og Dagbjarts Bjarnasonar. Með afsali útgefnu 18. september 2007 seldu þeir Nikulási K. Jónssyni 1/3 hlut í félaginu og áttu þeir þá sinn þriðjunginn hver.

Í september 2007 fékk DGN ehf. lán með 25% hlutdeild Sparisjóðs Bolungarvíkur, samtals jafnvirði 160 milljóna króna í erlendum myntum. Samkvæmt lánasamningi var tilgangur lánsins að fjármagna kaup á Hjallahrauni 13 í Hafnafirði og Smiðjuvegi 4a í Kópavogi þar sem Hrói Höttur var með starfsstöðvar, ásamt ýmsu lausafé. Kaupverð fasteignanna var samtals 161 milljón króna og var því um 100% fjármögnun að ræða. Samhliða kaupunum var gengið frá leigusamningi um fasteignirnar milli DGN ehf. og Hróa Hattar ehf. Til tryggingar skuldinni gaf DGN ehf. út tvö tryggingarbréf með veði í ofangreindum eignum, samtals að fjárhæð rúm 181 milljón króna. Eigendur DGN ehf. gáfu út handveð í öllum hlutum félagsins og lögðu fram yfirlýsingu frá stjórn þess um samþykki á veðsetningunni. Þá var einnig gengið frá tveimur tryggingarvíxlum ásamt umboði til útfyllingar. Lánasamningurinn var undirritaður 26. september 2007 en lánveitingin var ekki afgreidd á fundi stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrr en 2. október sama ár:

Sparisjóðsstjóri lagði fyrir stjórn beiðni um sambankalán frá DGN fasteignakaupum. Sparisjóðurinn væri með 33% hlut sem eru um 50 milljónir. DGN er félag stofnað til að kaupa fasteign þar sem Hrói Höttur í Hafnarfirði er til húsa, auk þess að kaupa Smiðjuveg 4a, þar sem er eldhús sem á að gera birgðahald fyrir allan mat fyrir staðina. Félagið er í eigu sömu aðila og eiga Hróa Hött. Stjórn samþykkti þátttöku með hefðbundnum tryggingum.

Sparisjóður Bolungarvíkur skilgreindi Hróa Hött ehf. og DGN ehf. ekki sem fjárhagslega tengda aðila í skýrslum til Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættuskuldbindingar fyrr en á seinni hluta árs 2010, þótt félögin væru bæði með fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum fyrir þann tíma. Aðspurður viðurkenndi sparisjóðsstjóri í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni að hann hefði aldrei tengt DGN ehf. við Hróa Hött ehf., en taldi að ef til vill hefði átt að gera það.45

Í lok árs 2008 var fært 53 milljóna króna sérgreint afskriftarframlag vegna DGN ehf. og í lok árs 2009 var framlagið hækkað um tæpar 22 milljónir króna. Ekkert sérgreint afskriftarframlag var fært vegna Hróa Hattar ehf. á árinu 2008 en 114,5 milljónir króna á árinu 2009. Hrói Höttur ehf. var úrskurðað gjaldþrota 19. janúar 2012 og DGN ehf. 13. september 2012 og lán félaganna voru endanlega afskrifuð um 251 milljón króna á árinu 2011.

Útgerðarfélag

Stór lántaki með háar afskriftir hjá bankanum var útgerðarfélag í Bolungarvík sem gerði út netabát. Félagið var alfarið í eigu einstaklings. Frá árslokum 2006 til ársloka 2008 hækkuðu skuldbindingar félagsins við Sparisjóð Bolungarvíkur úr tæplega 77 milljónum króna í tæplega 380 milljónir króna. Lánin voru nær eingöngu í erlendum myntum en tilgangur lánanna var að stórum hluta fjármögnun á báta- og kvótakaupum.

Frá því í ágústmánuði 2004 fram til janúarmánaðar 2008 fékk félagið sex lán hjá Sparisjóði Bolungarvíkur, samtals jafnvirði um 245 milljóna króna.

Lánin voru flest til þriggja ára með háum lokaafborgunum en með nokkuð löngum framlengingarheimildum. Lánin voru með veði í bátnum og kom fram í öllum tryggingarbréfunum að veðsala væri óheimilt að skilja aflahlutdeild frá honum nema með þinglýstu samþykki veðhafa. Þá voru útgefnir tryggingarvíxlar með upphaflegri höfuðstólsfjárhæð lánanna sem heimilt var að fylla út kæmi til vanefnda á lánum félagsins.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 12. ágúst 2004 var samþykkt lánveiting til einstaklings upp á 35 milljónir króna til báta- og kvótakaupa, án þess að frekar væri um það fjallað í fundargerð. Sá aðili hafði upphaflega ætlað að kaupa kvóta en úr varð að hann keypti félag ásamt kvóta. Í félagið var lagður netabáturinn ásamt kvóta sem hafði verið í eigu þess er keypti félagið.46 Félagið gaf út veðskuldabréf í erlendum myntum, jafnvirði um 36,5 milljóna króna. Til tryggingar skuldinni var 1. veðréttur í vélbáti ásamt kvóta og var veðsala óheimilt að skilja aflahlutdeild frá veðsettum báti nema með þinglýstu samþykki sparisjóðsins. Til frekari tryggingar skuldinni voru Sparisjóði Bolungarvíkur framseld 20% af brúttóverðmæti og hvers konar brúttótekjum af hinu veðsetta, þar með talið hvers konar styrkjum af hendi hins opinbera.

Áður en til frekari lánveitinga sparisjóðsins kom, yfirtók félagið þrjú skuldabréfalán frá sjóðnum útgefin af eiganda sínum, með skilmálabreytingum dagsettum 9. mars 2006, samtals um 14 milljónir króna. Til tryggingar lánunum var 1. til 3. veðréttur í vélbát og var veðsala óheimilt að skilja aflahlutdeild frá skipinu nema með þinglýstu samþykki veðhafa. Til frekari tryggingar skuldinni voru Sparisjóði Bolungarvíkur framseld 30–35% af brúttóverðmæti og hvers konar brúttótekjum af hinu veðsetta, þar með töldum hvers konar styrkjum af hendi hins opinbera. Umræðu um þessa skuldskeytingu er ekki að finna í fundargerðum stjórnar sparisjóðsins, þótt heildarskuldbinding félagsins hafi þar með orðið hærri en 1,5% af eigin fé sparisjóðsins og því borið að fara fyrir stjórn.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 17. ágúst 2006 var enn samþykkt að lána félaginu með veði í bát og kvóta og var gerður lánasamningur í erlendum myntum að jafnvirði 29 milljóna króna. Næst var fjallað um málefni útgerðarfélagsins á fundi stjórnar 5. febrúar 2007 en í fundargerð var bókað:

Sparisjóðsstjóri kynnti beiðni um lántöku til kvótakaupa. Boðið var veð í bát og kvóta. Stjórn samþykkti lánveitingu upp á 64 milljónir í erlendu láni með hefðbundnum tryggingum.

Samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðsstjóra var þetta lán aldrei veitt.47

Í apríl 2007 veitti sparisjóðurinn félaginu lán í erlendum myntum að jafnvirði rúmra 27 milljóna króna. Engin stjórnarsamþykkt fannst fyrir lánveitingunni en sparisjóðsstjóri taldi trúlegt að lánið hefði verið veitt í krafti samþykktar stjórnar frá 5. febrúar 2007.48 Í maí 2009 var gerður viðauki við lánasamninginn um að endurgreiðslum yrði frestað um sex mánuði, auk þess sem sparisjóðnum var heimilað hvenær sem var á lánstímanum að myntbreyta samningnum yfir í evrur eða íslenskar krónur með verðtryggðum kjörum. Fundargerðir stjórnar bera ekki með sér að þessi frestun á endurgreiðslum hafi verið tekin þar fyrir. Til tryggingar láninu var þinglýst tveimur tryggingarbréfum í erlendum myntum á 6. og 7. veðrétti í vélbát, þá jafnvirði 28,5 milljóna króna.

Útgerðarfélagið fékk eingreiðslulán í erlendum myntum að jafnvirði 13,6 milljónir króna 10. maí 2007 sem skyldi endurgreiðast 1. október sama ár. Lánið var veitt til að fjármagna kaup á vélbáti auk grásleppuleyfis. Ekki var fjallað um lánveitinguna í stjórn sjóðsins. Samkvæmt lánasamningnum skyldi lánþegi gefa út tryggingarbréf í svissneskum frönkum að jafnvirði tæpra 16 milljóna króna, með 8. veðrétti í bátnum og var veðsala óheimilt að skilja aflahlutdeild frá skipinu nema með þinglýstu samþykki veðhafa.

Enn var fjallað um lánsbeiðni frá útgerðarfélaginu á stjórnarfundi sparisjóðsins 30. maí 2007:

Sparisjóðsstjóri kynnti beiðni um lán til Fiskihóls, til kvótakaupa ca. 30 tonn af þorsk. Lánaðar væru um 83 milljónir með hefðbundnum tryggingum, svo sem veði í bát og kvóta. Veðsetningarhlutfall yrði um 60% eftir lánveitingu.

Samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðsstjóra var um að ræða lán í erlendum myntum, veitt 29. júní 2007, til kaupa á félagi sem átti kvóta sem að lokum hefði hljóðað upp á 104 milljónir króna.49 Meðal annars hefðu bæst við samþykkta lánsfjárhæð 13,6 milljónir króna til að greiða skammtímalán vegna kvótakaupa en ráðstöfun á 7 milljónum króna gat hann ekki skýrt en grunaði að það væri í krafti stjórnarsamþykktarinnar frá 5. febrúar 2007.50

Ný lánsbeiðni frá félaginu var tekin fyrir á stjórnarfundi sparisjóðsins 21. janúar 2008:

Sparisjóðsstjóri lagði fyrir stjórn beiðni frá Fiskihól ehf., um lán upp á kr. 35.000.000,– til kvótakaupa. Veð í bát og kvóta félagsins. Stjórn samþykkti lánveitinguna.

Þremur dögum áður en lánið var samþykkt af stjórninni var undirritaður lánasamningur í erlendum myntum að jafnvirði 35 milljóna króna. Lánið átti að endurgreiða á þremur árum en það mátti framlengja fjórum sinnum til þriggja ára í senn. Til tryggingar skuldinni var tryggingarbréf í erlendri mynt, jafnvirði tæpra 40 milljóna króna, með 10. veðrétti í vélbáti.

Hinn 30. september 2008 keypti Icebank hf. fimm veðskuldabréf af Sparisjóði Bolungarvíkur, útgefin af útgerðarfélaginu, þá að eftirstöðvum 101 milljón króna

Í lok árs 2009 færði Sparisjóður Bolungarvíkur samtals 248 milljónir króna í sérgreindan afskriftareikning vegna lána til útgerðarfélagsins. Ástæðan var sú að félagið uppfyllti skilyrði til að vera tekið á „Beinu brautina“ sem stóð lífvænlegum litlum og meðalstórum fyrirtækjum til boða um tíma.51 Í lok árs 2010 var afskriftarframlagið lækkað í 238 milljónir króna. Lán til félagsins voru endanlega afskrifuð á árinu 2011 um 233 milljónir króna.

Ferðaþjónustufyrirtæki

Meðal stærstu lántaka sparisjóðsins var félag á sviði ferðaþjónustu sem rak gistiheimili, veitingasölu og báta til sjóstangveiði. Frá árinu 2009 átti Sparisjóður Bolungarvíkur 32% hlut í félaginu en áður var það að fullu í eigu einstaklinga og einkahlutafélaga.52 Frá árslokum 2006 til október 2008 hækkaði lánafyrirgreiðsla félagsins hjá sparisjóðnum úr rúmum 29 milljónum króna í tæpar 236 milljónir króna. Í lok árs 2010 stóðu skuldbindingar félagsins við sparisjóðinn í tæpum 300 milljónum króna. Lán til félagsins voru flest í erlendum myntum en þau voru veitt til að endurfjármagna kaup á húsum, bátum og öðrum rekstrartækjum vegna ferðaþjónustu tengdra sjóstangveiði og rekstri. Tryggingar að baki skuldbindingum félagsins voru bátar, sumarhús á Vestfjörðum og aðrar fasteignir. Þá undirrituðu stjórnarmenn og framkvæmdastjóri félagsins samning þar sem þeir skuldbundu sig, að viðlögðu févíti, til að ráða sig ekki til samkeppnisaðila.

Stjórn sparisjóðsins fjallaði um lánsbeiðni frá ferðaþjónustufyrirtækinu 8. maí 2007 og bókaði eftirfarandi:

Sparisjóðsstjóri kynnti beiðni um skammtímalán til [ferðaþjónustufyrirtækisins], til að brúa bilið meðan gengið er frá sambankaláni til [sama félags]. Lánaðar væru um 30 milljónir til skamms tíma með veði í þeim 8 bátum sem búið er að afhenda. Það lán verður svo greitt upp framtíðar fjármögnun [svo]. Stjórn samþykkti að veita þetta skammtímalán.

Sparisjóðsstjóri fór yfir stöðu sambankalánsins eins og hún er í dag, samkvæmt upplýsingum frá SP-ráðgjöf. Rætt var um að vera með 40% aðild af 135 milljón króna láni gegn því að skuldir [félagsins] verði greiddar upp með láni frá Íbúðalánasjóði. Óskað var eftir að allar mögulegar tryggingar væru nýttar ásamt áheyrnarfulltrúa í stjórn, veði í hlutabréfum og að fjármálastjóri væri samþykktur af sparisjóðnum. Stjórn óskaði eftir frekari skoðun á sambankaláninu.

Gengið var frá samningi 9. maí 2007 um eingreiðslulán í erlendri mynt að fjárhæð 30,5 milljónir króna, sem skyldi endurgreitt að fullu 6. ágúst 2007. Tilgangur lánveitingarinnar var samkvæmt samningnum að greiða inn á skuld vegna bátasmíða og til tryggingar voru gefin út átta tryggingarbréf, 4 milljónir króna hvert, með veði í bátum. Annar svipaður lánasamningur var gerður 27. maí 2007. Hann var í erlendum myntum að jafnvirði 15,2 milljóna króna og var lokadagur hans 6. ágúst 2007. Ekki er að sjá að lánveitingin hafi verið samþykkt af stjórn. Til tryggingar skuldinni voru gefin út fjögur tryggingarbréf, hvert um sig að fjárhæð 4 milljónir króna, með veði í bátum. Samið var um þriðja eingreiðslulánið til félagsins tveimur vikum síðar, 6. júní 2007. Það var til þriggja mánaða og gengistryggt að jafnvirði 30,5 milljóna króna. Stjórnarsamþykkt er ekki að finna í fundargerðum en tilgangur lánsins í samningi var standsetning þjónustu félagsins fyrir erlenda ferðamenn. Til tryggingar skuldinni voru gefin út átta 4 milljóna króna tryggingarbréf með veði í bátum.

Hinn 14. nóvember 2007 fjallaði stjórn sparisjóðsins um lánsbeiðni frá ferðaþjónustu-
fyrirtækinu:

Sparisjóðsstjóri lagði fyrir stjórn beiðni um lán frá [ferðaþjónustufyrirtækinu], til endurfjármögnunar vegna standsetningar og kaupa á búnaði til reksturs ferðaþjónustu við sjóstangveiðimenn á Vestfjörðum. SpB myndi lána um 100 mkr. til 15 ára í erlendri mynt á móti láni frá Byggðastofnun upp á 72 mkr. Lánið á að nýtast til að greiða niður skammtímafjármögnun félagsins. Tryggingar verða í bátum félagsins, húsnæði félagsins og í hlutafé félagsins. Eftir þessa fjármögnun verða eftir um 32 mkr. sem félagið á eftir að fjármagna, á það að greiðast með 5 milljóna VSK endurgreiðslu, 10 milljónum auka frá Byggðastofnun auk 10 milljóna sem sparisjóðurinn á tryggingu fyrir. Það sem eftir stendur lagði SpStjóri til að væri breytt í hlutafé í [félaginu], eða um 10 mkr. Stjórn samþykkti lánveitinguna og heimilaði að athuga hlutafjárkaupin.

Gengistryggður lánasamningur að jafnvirði 110 milljóna króna var undirritaður 19. desember 2007. Fyrstu greiðslu af láninu, sem nam 1/30 af höfuðstóli, átti að greiða 1. september 2008. Jafnháar greiðslur skyldu fara fram á þriggja mánaða fresti fram til 1. mars 2010 þegar það sem eftir stæði yrði greitt í einni greiðslu. Heimilt var að framlengja lánið með sama endurgreiðsluferli til allt að tólf ára og sex mánaða, hefðu forsendur ekki raskast að mati lánveitanda.

Fyrir þessu láni voru sett veð þeirra lána sem það var notað til að greiða upp ásamt fleiri bátum sömu gerðar. Til tryggingar skuldinni voru því alls 22 fjögurra milljóna króna tryggingarbréf, með veði í jafnmörgum bátum. Þá var gefið út tryggingarbréf að fjárhæð 110 milljónir króna með 1. veðrétti, samhliða Byggðastofnun, í fasteign í Ísafjarðarbæ. Einnig átti að gefa út þrjú fjögurra milljóna króna tryggingarbréf með 1. veðrétti í sumarhúsum án fastanúmers, þá staðsett tímabundið á lóð, en samkvæmt upplýsingum frá sparisjóðnum varð ekkert úr því þar sem í ljós kom að húsin voru þegar veðsett Glitni.53 Með skilmálabreytingum á láninu 7. janúar og 17. nóvember 2008, og 4. febrúar og 20. desember 2010 var afbogunum frestað og lánstími lengdur. Með skilmálabreytingu 20. desember 2010 var gjaldföllnum afborgunum og vöxtum bætt við höfuðstól lánsins miðað við stöðu þess 26. nóvember 2010 að jafnvirði um 231 milljónar króna. Þar af voru gjaldfallnar 22 milljónir króna sem bættust við höfuðstól ásamt vöxtum. Í fundargerðir stjórnar sparisjóðsins er ekkert bókað um þessar skilmálabreytingar.

Ferðaþjónustufyrirtækið gaf út 15 milljóna króna viðbótartryggingarbréf 30. júlí 2007 með 2. veðrétti í ellefu sumarhúsum á Vestfjörðum. Á tryggingarbréfinu kom ekki fram hvað hvíldi á 1. veðrétti og lítur út fyrir að því hafi ekki verið þinglýst.54

Félagið fékk 23 milljóna króna eingreiðslulán til sjö mánaða í nóvember 2008 án veða eða ábyrgðarmanna. Enga bókun um lánveitinguna var að finna í fundargerðum stjórnar, þótt lánsupphæðin væri yfir útlánaheimildum sparisjóðsstjóra.

Forsvarsmenn félagsins komu á fund í sparisjóðnum í mars 2009 og ræddu alvarlega stöðu fyrirtækisins. Á stjórnarfundi 17. mars 2009 var talið að von væri á ársreikningi frá fyrirtækinu og áætlun fyrir næsta ár. Á fundi stjórnar 13. nóvember samþykkti stjórn tillögu sparisjóðsstjóra um að breyta um 30 milljóna króna skuldum félagsins í hlutafé.

Í lok árs 2008 var fært 25 milljóna króna sérgreint afskriftarframlag vegna félagsins og ári síðar voru færðar 8 milljónir króna til viðbótar sem sérgreint afskriftarframlag. Í árslok 2010 var staða á sérgreindum afskriftareikningi 63 milljónir króna. Á árinu 2011 voru 110 milljónir króna endanlega afskrifaðar af lánum félagsins og var þar tekið tillit til ólögmætis gengistryggðra lána og skilyrða vegna „Beinu brautarinnar“.

Flugrekstrarfélag

Í árslok var íslenskt flugrekstrarfélag með eina af stærstu skuldbindingum í sparisjóðnum. Sama félag átti tæplega eitt prósent hlutafjár í Sparisjóðabanka Íslands hf.55

Sparisjóðurinn lánaði félaginu byggt á bókun í fundargerð stjórnar frá 9. september 2008 undir liðnum „Sala á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum“:

Sparisjóðsstjóri fór yfir stöðu Sparisjóðsins. CAD hlutfall sjóðsins er orðið lágt eða rétt rúmlega 10% en lögbundið lágmark er 8%, því verður að gera ráðstafanir nú til hækkunar á hlutfallinu. Sala á hluta eignar sjóðsins í fjármálafyrirtækjum hefur bein áhrif til hækkunar CAD hlutfalls. Sparisjóðsstjóri hefur fengið tilboð um að [félag sem átti félag sem átti flugrekstrarfélagið] kaupi bréf Saga Capital með endurkaupsrétt og hefur óskað eftir tilboðum í ÍV. Með þessum aðgerðum á CAD hlutfall sjóðsins að lagast um 2–3%. Stjórn samþykkti að veita sparisjóðsstjóra heimild til að hefja viðræður um sölu eða vistun eignarhluta í fjármálafyrirtækjum.

Gerður var 198 milljóna króna lánasamningur 22. september 2008 með lokadag 23. janúar 2009. Tilgangur lánsins var að fjármagna kaup lántaka á hlutabréfum í Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Til tryggingar skuldinni var gefin út handveðsyfirlýsing þar sem settir voru að veði 180 milljónir hluta að nafnverði í Saga Capital Fjarfestingarbanka hf.

Rúmum þremur mánuðum síðar, í lok árs 2008, var fært 90 milljóna króna sérgreint afskriftarframlag vegna skuldbindingarinnar, samtals 90 milljónir króna og í lok árs 2009 staða á afskriftareikningi vegna félagsins 199 milljónir króna. Ástæður afskriftarinnar voru þær að undirliggjandi tryggingar urðu verðlausar og félagið sjálft eignalaust. Lánið var endanlega afskrifað á árinu 2009.

Dapes ehf.

Dapes ehf. var eignarhaldsfélag, stofnað í september 2007 til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðum.56 Félagið var til helminga í eigu Heiðu Jónu Hauksdóttur og Kristjáns Valtýs K. Hjelm. Kristján var forstöðumaður og Heiða sérfræðingur hjá Sp-ráðgjöf ehf. Dapes ehf. átti um 0,7% stofnfjárbréfa í Sparisjóði Húnaþings og Stranda sem urðu að um 0,1% stofnfjárhlut í Sparisjóðnum í Keflavík þegar sparisjóðirnir sameinuðust.57

Lánsbeiðni frá Dapes ehf. var tekin fyrir á stjórnarfundi Sparisjóðs Bolungarvíkur 23. október 2007:

Sparisjóðsstjóri lagði fyrir stjórn beiðni um lán frá Dapes ehf., til kaupa á stofnfé í Sparisjóði Húnvetninga. Sjóðurinn væri með 100% hlut sem eru um 45 milljónir skammtímalán sem greiðist upp 1. maí næstkomandi. Dapes er félag stofnað af tveimur starfsmönnum SP ráðgjafar til fjárfestinga á þeirra eigin vegum. Lánið væri tryggt með veði í stofnfé í Sparisjóð Húnvetninga ásamt stofnfé í Sparisjóð Vestfirðinga og hlutafé í eigu félagsins. Stjórn samþykkti þátttöku.

Lánasamningur í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði 46 milljóna króna var undirritaður 29. október 2007. Lánið var eingreiðslulán á gjalddaga 1. maí 2008. Sparisjóðurinn fékk handveð í öllum hlutum í Dapes ehf., auk gagna um samþykki stjórnar félagsins á veðsetningu. Í handveðsyfirlýsingunum kom fram að hinir veðsettu hlutir hefðu ekki verið gefnir út og væru því ekki í vörslu veðhafa. Veðsali skuldbatt sig hins vegar til þess að hafa umráð og vörslu veðsins á gildistíma veðsetningarinnar. Af samkomulagi aðila frá 2. október 2007 má ráða að til stóð að setja að veði stofnfjárbréfin sem ætlunin var að kaupa, auk stofnfjárbréfa sem félagið átti fyrir í Sparisjóði Vestfirðinga, að nafnverði 500 þúsund krónur sem ekki varð. Um þessa lánveitingu sagði Kristján Hjelm í skýrslu hjá rannsóknarnefndinni:

Við leitum út til sparisjóðanna, hvort þeir séu tilbúnir til að lána okkur 100% eða þannig, 100% mínus stofnun á félagi 500 þúsund kall, [og hjá Sparisjóði Bolungarvíkur voru okkur boðin] góð kjör, án allra trygginga, maður hafði bara aldrei séð aðra eins gjöf.58

Af framangreindu má ráða að framkvæmd lánveitingarinnar og tryggingataka var ekki í samræmi við samþykkt stjórnar frá 23. október 2007, þar sem áskilið var að „lánið væri tryggt með veði í stofnfé í Sparisjóð Húnvetninga ásamt stofnfé í Sparisjóð Vestfirðinga og hlutafé í eigu félagsins“. Aðrar bókanir um Dapes ehf. er ekki að finna í stjórnarfundargerðum sparisjóðsins.

Í athugasemdum Ásgeirs Sólbergssonar, sparisjóðsstjóra, til rannsóknarnefndarinnar 24. október 2013 kom fram að Kristján hefði leitað til sparisjóðsins og sparisjóðsstjóri beðið starfsmann um að sjá um málið í fjarveru sinni. Það hefði misfarist að taka veð í bréfunum sjálfum en þegar það uppgötvaðist var búið að veðsetja Landsbanka Íslands bréfin. Eftir að stofnfjárbréfin urðu verðlaus fór sparisjóðurinn fram á að félagið yrði sett í þrot.

Í árslok 2008 færði sparisjóðurinn sérstakt afskriftarframlag vegna Dapes ehf., samtals 75 milljónir króna, og í árslok 2009 var það sem eftir stóð af láninu fært á sérgreindan afskriftareikning. Þá nam sérgreint afskriftarframlag vegna lána félagsins samtals um 132 milljónum króna en endanlegar afskriftir, sem fram fóru árið 2011, voru 146 milljónir króna. Dapes ehf. var úrskurðað gjaldþrota 20. júní 2012

23.2.4 Lán til starfsmanna og stjórnarmanna

Starfsreglur stjórnar og sparisjóðsstjóra fólu stjórn sparisjóðsins að setja reglur um viðskipti starfsmanna sjóðsins, að fengnum tillögum sparisjóðsstjóra, og máttu þær koma fram í almennum útlánareglum hans. Í útlánareglunum kom fram að sparisjóðsstjóra var heimilt að veita starfsmönnum lán, enda væri slík fyrirgreiðsla á engan hátt frábrugðin sambærilegri fyrirgreiðslu til annarra viðskiptavina. Sparisjóðsstjóra bar þó að gera stjórn grein fyrir fyrirgreiðslu til starfsmanna á fyrsta stjórnarfundi á eftir, og skyldi hún færð í gerðabók. Í starfsreglum stjórnar og sparisjóðsstjóra kom ennfremur fram að samningar sparisjóðsins um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við sparisjóðsstjóra væru háðir samþykki stjórnar og skyldu bókaðir í gerðabók. Ákvæðið gilti einnig um maka sparisjóðsstjóra. Lán Sparisjóðs Bolungarvíkur til starfsmanna á tímabilinu 2005–2011 urðu mest 31 milljón króna í lok árs 2008.

Stjórnum sparisjóða bar að setja sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi fjallað um framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt bar sparisjóðum að skila hálfsárslega til Fjármálaeftirlitsins skýrslu um fyrirgreiðslu til venslaðra aðila þar sem fram kæmu allar fyrirgreiðslur til venslaðra aðila, það er stjórnarmanna, maka þeirra og barna, og félaga tengdra þeim, yfir 5 milljónum króna. Samkvæmt leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 4/2006, um efni reglna skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, skyldi sparisjóðurinn leggja fyrir innri endurskoðanda að fara með reglubundnum hætti yfir kjör fyrirgreiðslna til venslaðra aðila og bera þau saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina.

Í útlánareglum Sparisjóðs Bolungarvíkur var sérstaklega tiltekið að lánveitingar til stjórnarmanna þar sem heildarskuldbinding stjórnarmanns og maka væri yfir 5 milljónum króna, skyldi leggja fyrir stjórn sjóðsins til samþykktar. Á árinu 2007 skilaði ytri endurskoðandi skýrslu um samanburð á kjörum venslaðra og óvenslaðra aðila hjá sparisjóðnum. Að mati hans komu ekki fram tilvik þar sem venslaðir aðilar voru taldir njóta betri kjara en sambærilegir óvenslaðir aðilar. Könnun rannsóknarnefndar á fyrirgreiðslum sparisjóðsins við venslaða aðila á tímabilinu 2005–2010 í útlánagrunni sparisjóðanna gaf ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

23.3 Fjáreignir og fjárfestingar

Sparisjóður Bolungarvíkur setti sér ekki sérstakar reglur um fjárfestingar en um þær var fjallað í reglum um framkvæmd starfa sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra. Þar kom fram að um mörk heimilda sparisjóðsstjóra til fjárfestinga í verðbréfum færi samkvæmt reglum stjórnar sparisjóðsins um áhættustýringu en ekki voru til neinar reglur um áhættustýringu sparisjóðsins.59 Samkvæmt sömu reglum skyldi stjórn sparisjóðsins fjalla um meiriháttar eða óvenjulegar fjárfestingar, auk fjárfestinga í öðrum fasteignum en fullnustueignum. Gögn rannsóknarnefndarinnar sýna að stórar fjárfestingar hafa verið bornar undir stjórn.

Árið 2005 nam samanlögð verðbréfaeign allra minni sparisjóðanna 157% af samanlögðu eigin fé þeirra en hæst varð hlutfallið 401% í árslok 2008.60 Í Sparisjóði Bolungarvíkur voru fjáreignir mun hærra hlutfall af bókfærðu eigin fé sjóðsins en í öðrum minni sparisjóðum, eða allt að 756% árið 2008, en það var einkum vegna lækkunar á eigin fé sparisjóðsins á árinu 2008. Ef frá er talið árið 2009, þegar eigið fé var neikvætt og hlutfall fjáreigna af eigin fé einnig, var hlutfall fjáreigna af eigin fé sparisjóðsins lægst árið 2006, þegar það var 186%. Hlutfall fjáreigna Sparisjóðs Bolungarvíkur af heildareignum varð mest 41% í árslok 2007 en á sama tíma voru fjáreignir 26% af samanlögðum heildareignum minni sparisjóða.

Skuldabréfaeign Sparisjóðs Bolungarvíkur nam 1,2–1,6 milljörðum króna frá því í lok árs 2005 til loka árs 2010 en eignin hafði dregist saman í lok árs 2011. Stærsta skuldabréfaeign sparisjóðsins á tímabilinu var í íbúðabréfum en í þeim átti sparisjóðurinn til dæmis 751 milljón króna að bókfærðu virði í lok árs 2005. Mest átti sparisjóðurinn af íbúðabréfum í lok árs 2009, eða 1,4 milljarða króna. Meðal annarra stórra skuldabréfaeigna 2005–2011 voru spariskírteini ríkissjóðs, ríkisbréf og sjóðir Íslenskra verðbréfa hf. Á árunum 2006 og 2007 átti sparisjóðurinn töluvert af skuldabréfum útgefnum af íslenskum fyrirtækjum. Í árslok 2006 átti hann um 50 milljónir að bókfærðu virði í skuldabréfum útgefnum af Sparisjóði Keflavíkur og Exista hf., 80 milljónir að bókfærðu virði í skuldabréfum FL Group hf., 54 milljónir króna af bréfum Fasteignafélagsins Stoða hf. og 57 milljóna króna skuldabréf útgefið af Meiði ehf. (síðar Exista hf.). Árið 2007 átti sparisjóðurinn mest af skuldabréfum útgefnum af Baugi Group hf., Samson eignarhaldsfélagi ehf., Olíufélaginu hf., FL Group hf., Nýsi hf., Fasteignafélaginu Stoðum hf. og Meiði ehf.

Í byrjun aldarinnar seldi Sparisjóður Bolungarvíkur hluti sína í Scandinavian Holding S.A. og Kaupþingi hf. árin 2000 og 2001 og hagnaðist nokkuð á þeirri sölu. Gengishagnaður ársins 2001 var til að mynda um 125 milljónir króna en lítils háttar tap varð á sama lið á árinu 2002. Samkvæmt endurskoðendaskýrslu ársins 2002 var söluhagnaður hlutabréfa 46 milljónir króna árið 2002 og 97 milljónir króna árið 2001. Því hafði verðbréfaeign sparisjóðsins skilað honum töluverðum innleystum hagnaði fyrir 2005.

Frá 2005 var hlutur í Sparisjóðabanka Íslands hf. stærsta hlutabréfaeign Sparisjóðs Bolungarvíkur en bréfin voru bókfærð á 1.048 milljónir króna í lok árs 2007. Árið 2007 var mati á þessari eign breytt þegar farið var að bókfæra bréfin á gangvirði en áður hafði eignarhluturinn verið færður sem hlutdeildarfélag sem hækkaði eða lækkaði í bókum sparisjóðsins eftir rekstrarniðurstöðu bankans. Sparisjóðurinn tók þátt í hlutafjárútboði Sparisjóðabanka Íslands hf. á árinu 2006 og á fundi sínum 11. apríl það ár samþykkti stjórn sparisjóðsins að kaupa hlutabréf fyrir 20 milljónir króna. Þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. og Byr sparisjóður seldu stóran hlut eignar sinnar í Sparisjóðabankanum síðla árs 2007, keypti Sparisjóður Bolungarvíkur 1,33% hlut í bankanum fyrir 426 milljónir króna og varð eignarhlutur sparisjóðsins við það 4,59%. Þessi kaup voru samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 23. október 2007 en á sama fundi var jafnframt veitt heimild til að selja hlutabréf sparisjóðsins í SP Fjármögnun hf. og VBS Fjárfestingarbanka hf. í því skyni að auka frekar við hlut sparisjóðsins í Sparisjóðabanka Íslands hf. Ásgeir Sólbergsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Bolungarvíkur sat í bankaráði Sparisjóðabankans (Icebank) frá því í október 2008.61

Aðrar stórar hlutabréfaeignir sparisjóðsins voru í VBS Fjárfestingarbanka hf., Íslenskum verðbréfum hf. og Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Líkt og margir aðrir sparisjóðir átti Sparisjóður Bolungarvíkur hlut í Fjárfestingarfélagi sparisjóðanna hf. (síðar FSP hf.). Stjórn sparisjóðsins samþykkti á stjórnarfundi 3. maí 2005 að taka þátt í hlutafjáraukningu félagsins og kaupa fyrir 20 milljónir króna. Í ársbyrjun 2007 sameinuðust FSP hf. og VBS Fjárfestingarbanki hf. Samkvæmt ársreikningi VBS Fjárfestingarbanka hf. fyrir rekstrarárið 2007 jókst eigið fé bankans um 4,1 milljarð króna við sameininguna.

Sparisjóður Bolungarvíkur átti 3,2% hlut í Íslenskum verðbréfum hf. í árslok 2005 og 2006. Á fundi stjórnar 20. febrúar 2007 var samþykkt að sparisjóðsstjóri keypti hlut í félaginu sem næmi 3 milljónum króna að nafnvirði á genginu 18. Í lok árs 2007 átti sparisjóðurinn 4,1% í félaginu en vegna breytinga á verðmatsaðferðum milli ársreiknings 2006 og 2007 hækkaði virði Íslenskra verðbréfa hf. í bókum sparisjóðsins um tæpar 158 milljónir króna milli ára.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 20. febrúar 2007 óskaði sparisjóðsstjóri eftir heimild til þess að fjárfesta í nýjum banka, Saga Capital Fjárfestingarbanka hf. Stjórnin veitti honum heimild til að fjárfesta fyrir allt að 160 milljónir króna sem væri um 2% eignarhlutur. Í lok áranna 2007, 2008 og 2009 átti sparisjóðurinn 180 milljónir króna í bankanum, sem var um 1,86% eignarhlutur samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað var til ríkisskattstjóra. Sparisjóðurinn fékk svo hlut í Hildu hf. og Sögu eignarhaldsfélagi hf. fyrir hluti sína í Saga Capital þegar fjárfestingarbankinn gekkst undir fjárhagslega endurskipulagningu.

Sparisjóðabanki Íslands hf. var hlutdeildarfélag Sparisjóðs Bolungarvíkur á árunum 2005 og 2006 og varð góð rekstrarafkoma bankans þessi tvö ár til þess að hækka virði hans í bókum sparisjóðsins. Nýjar matsaðferðir sem teknar voru upp á árinu 2007 urðu til þess að sparisjóðurinn hafði töluverðar tekjur af þessari sömu eign, en hún var færð niður að fullu á árinu 2008 og hafði það mikil áhrif á rekstur sparisjóðsins. Breytt verðmat á VBS Fjárfestingarbanka hf. og áður FSP hf. höfðu einnig sín áhrif á rekstrarafkomu sparisjóðsins á árunum 2006–2009.

Auk þeirra tekna og gjalda sem fram koma í töflu 19 hafði skuldabréfaeign sparisjóðsins áhrif á tekjur hans. Tap vegna skuldabréfa á árinu 2008 nam um 200 milljónum króna og 179 milljónum króna á árinu 2009. Tekjur af skuldabréfum árið 2010 voru 76 milljónir króna og um 37 milljónir kóna árið eftir.

Afkoma af fjáreignum hafði nokkur áhrif á tekjur Sparisjóðs Bolungarvíkur á tímabilinu 2005–2011. Aðrar hreinar rekstrartekjur höfðu minni áhrif á rekstur frá 2006 til 2009. Árið 2006 voru tekjur af fjáreignum nær allur hagnaður ársins og árið 2007 var hagnaður af fjáreignum meiri en hagnaður af rekstri sparisjóðsins. Tap ársins 2008 var einkum vegna taps á fjáreignum en afskriftir útlána áttu þó einnig hlut að máli. Tap sparisjóðsins árið 2009 var nær eingöngu vegna afskrifta á útlánum og hagnað ársins 2010 má nær alfarið rekja til niðurfellinga á skuldum sparisjóðsins við Seðlabanka Íslands. Niðurfellingarnar námu 2,7 milljörðum króna en hagnaður sparisjóðsins fyrir skatta nam 1,9 milljörðum króna. Því hefði orðið tap af rekstrinum ef þessar skuldaniðurfellingar hefðu ekki komið til. Sparisjóðurinn hafði tekjur af fjáreignum á árinu 2011 en tap var á rekstri sparisjóðsins það ár. Uppsafnaður hagnaður af fjáreignum á árunum 2001–2007 á föstu verðlagi ársins 2011 nam um 2 milljörðum króna en tap áranna 2008–2011 nam 1,8 milljörðum króna á sama verðlagi. Sparisjóðsstjóri taldi sig hafa dreift áhættu af fjáreignum sparisjóðsins eftir fremsta megni og sagði það hafa komið á óvart að viðskiptabankarnir þrír skyldu allir falla á sama tíma. Afleiðing þess hafi meðal annars verið sú að sparisjóðurinn hefði orðið fyrir verulegu tjóni þar sem verðmæti fjárfestinga sparisjóðsins í skuldabréfum, sem tekin hefðu verið til viðskipta í Kauphöll Íslands, lækkaði. Því til viðbótar hafi hrun á erlendum fjármálamörkuðum einnig haft áhrif á verðmæti annarra eigna sparisjóðsins, til dæmis í fjárfestingarfélögum með starfsemi erlendis. Fjárfestingar sparisjóðsins hafi verið hluti af áhættustýringu sparisjóðsins en sparisjóðurinn hafi horft mjög til áhættudreifingar í þeim efnum, meðal annars með fjárfestingu í skuldabréfum sem skráð voru í kauphöll.62

23.4 Fjármögnun

Frá árslokum 2005 til ársloka 2008 rúmlega tvöfölduðust skuldir Sparisjóðs Bolungarvíkur. Skuldir við lánastofnanir voru sá skuldaliður sem jókst mest á þessum tíma en 2008 voru þær 47% af skuldum sparisjóðsins að undanskildu eigin fé.63 Innlán voru stöðug í sparisjóðnum á árunum 2005–2011 og voru á bilinu 35–72% af skuldum á þessu tíma.

Frá 2005 voru bundin innlán að meðaltali 54% af innlánum sparisjóðsins, lægst var hlutfall þeirra 44% í mars, júní og júlí 2007 og janúar 2008 en hæst 67% í desember 2005.64 Innlán heimila voru að meðaltali 63% af innlánum sparisjóðsins, innlán fjármálafyrirtækja um 16% og innlán annarra fyrirtækja 18%.65 Hlutfall milli innlána og útlána frá árslokum 2005 til ársloka 2011 var lægst 52% í árslok 2008 en hæst í árslok 2009 og 2010 þegar innlán voru 100% af útlánum.

Einu skuldir Sparisjóðs Bolungarvíkur við lánastofnanir í árslok 2005 til ársloka 2007 voru við Sparisjóðabanka Íslands hf., en þar vó þyngst lánalína sem fjármagnaði erlend útlán sparisjóðsins. Staða hennar í árslok 2005 var um 450 milljónir króna, 811 milljónir króna í árslok 2006 og 1.468 milljónir króna í árslok 2007. Árið 2008 nam þessi lánalína 3,3 milljörðum króna. Sparisjóðabankinn og Sparisjóður Bolungarvíkur gerðu með sér samning um kaup bankans á 12 veðskuldabréfum að verðmæti um 286 milljónir króna. Að sögn sparisjóðsstjóra var þessi samningur gerður til þess að lækka skuld sparisjóðsins við bankann og var hugmyndin að sjóðurinn leysti aftur til sín bréfin þegar betur stæði á. Kröfurnar voru þó aldrei keyptar til baka og að sögn sparisjóðsstjóra varð bankahrunið til þess að sparisjóðnum varð það ókleift sökum lausafjárskorts og bágs eiginfjárhlutfalls.66 Krafa á hendur sparisjóðnum um að leysa til sín bréfin var síðan felld niður þar sem samkomulag náðist við þrotabú Icebank hf. um uppgjör.67

Í árslok 2008 var sparisjóðurinn í fyrsta skipti í beinni skuld við Seðlabanka Íslands vegna endurhverfra viðskipta sem nam 837 milljónum króna. Sparisjóðurinn hafði áður átt í endurhverfum viðskiptum en Sparisjóðabanki Íslands hf. hafði þá haft milligöngu um veðlánaviðskipti sparisjóðsins við Seðlabankann. Í kjölfar falls viðskiptabankanna var verklagi vegna veðlánatöku sparisjóðanna breytt. Í stað þess að Sparisjóðabanki Íslands hf. tæki lán hjá Seðlabanka Íslands og endurlánaði sparisjóðunum, sendi Sparisjóðabankinn inn umsóknir um veðlán fyrir hönd hvers sparisjóðs um sig, þannig að þeir urðu sjálfir skuldarar hjá Seðlabanka Íslands.68 Í athugasemdum sparisjóðsstjóra til rannsóknarnefndarinnar 24. október 2013 kom fram að þessi viðskipti hefðu verið til að útvega Sparisjóðabankanum lausafé. Sparisjóðurinn lagði fjármuni inn í Seðlabankann og fékk þaðan fyrirgreiðslu sem svo var endurlánuð með vaxtamun til Sparisjóðabankans.

Eftir fall Sparisjóðabankans í mars 2009 voru kröfur bankans á hendur sparisjóðunum fluttar til Seðlabankans og yfirtök bankinn kröfur á hendur Sparisjóði Bolungarvíkur sem námu tæpum 3,9 milljörðum króna. Þar af voru 3,2 milljarðar króna vegna erlendrar lánalínu og 722 milljónir króna vegna annarra gengistryggðra skammtímaskulda. Á árinu 2010 lauk fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins, en liður í henni var uppgjör á kröfum Seðlabanka Íslands og voru 16% þeirra, eða 620 milljónir króna, greidd með nýju láni til 5 ára í sterlingspundum og evrum, en 10% voru greidd með reiðufé. Þá var 14% krafna Seðlabankans breytt í stofnfé og það sem eftir stóð var afskrifað.69

Sparisjóður Bolungarvíkur tók þátt í fjármögnunarverkefni í gegnum Klettháls ehf. Í júlí 2008 gerði sparisjóðurinn samning við félagið um sölu á safni veðskuldabréfa með rétti til endurkaupa, að fjárhæð 195 milljónir króna. Á þessum tíma var farið að gæta lausafjárskorts hjá sjóðnum og voru þessi viðskipti liður í því að útvega honum laust fé.70 Samningurinn var gerður upp í júlí 2009 með því að sparisjóðurinn keypti veðskuldabréfin aftur.71

Í árslok 2008 nam skuld Sparisjóðs Bolungarvíkur við Íbúðalánasjóð 260 milljónum. Í september sama ár hafði sparisjóðurinn gefið út skuldabréf til Íbúðalánasjóðs, að nafnverði tæpra 286 milljóna króna, vegna tímabundinnar endurfjármögnunar íbúðalána sparisjóðsins. Til tryggingar á greiðslu skuldabréfsins var safn fasteignaveðbréfa og þurfti sjóðurinn að leggja fram lista yfir fasteignaveðbréf einstaklinga með veði í fullbúnu íbúðarhúsnæði hérlendis, verðtryggðum í íslenskum krónum. Gjalddagi skuldabréfsins var 17. desember 2008 en nýr samningur var gerður 18. desember 2008 með gjalddaga 30. janúar 2009. Íbúðalánasjóður bókaði þessi viðskipti sem endurhverf viðskipti þar sem Íbúðalánasjóður seldi íbúðabréf gegn kaupum á skuldabréfi Sparisjóðs Bolungarvíkur (SPB 05). Í samningnum sagði að íbúðabréf sem þannig væru afhent skyldu eingöngu notuð í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands.72 Viðskiptin voru hugsuð sem tímabundin lausn þar til heimildir Íbúðalánasjóðs til kaupa á lánasöfnum fjármálafyrirtækja yrðu rýmkaðar með nýrri reglugerð.73

Lántaka Sparisjóðs Bolungarvíkur var þriðji stærsti fjármögnunarþáttur sparisjóðsins að undanskildu eigin fé hans. Sparisjóðurinn gaf út einn verðtryggðan skuldabréfaflokk árið 2005 með lokagjalddaga 19. ágúst 2010 og annan óverðtryggðan skuldabréfaflokk árið 2007 með lokagjalddaga 30. apríl 2009. Í lok árs 2008 var bókfært virði þessarar verðbréfaútgáfu 894 milljónir króna.

Sparisjóður Bolungarvíkur gerði, líkt og margir aðrir sparisjóðir, lánasamninga við Íbúðalánasjóð í lok árs 2004 og um mitt ár 2005 en að baki þeim lánasamningi var safn fasteignatryggðra veðskuldabréfa. Lán Íbúðalánasjóðs til Sparisjóðs Bolungarvíkur námu 183 milljónum króna. Í lok árs 2005 gaf Sparisjóðabanki Íslands hf. út skuldabréf til Íbúðalánasjóðs en að baki því skuldabréfi voru fasteignalán margra sparisjóða, þar á meðal Sparisjóðs Bolungarvíkur. Heildarfjárhæð skuldabréfsins var rúmir 3 milljarðar króna og var hlutur Sparisjóðs Bolungarvíkur 30 milljónir króna.

Í júlí 2009 seldi Sparisjóður Bolungarvíkur Íbúðalánasjóði safn skuldabréfa sem tryggt var með veði í íbúðarhúsnæði fyrir 477 milljónir króna. Í ágúst sama ár seldi sparisjóðurinn Íbúðalánasjóði annað safn skuldabréfa tryggt með veði í íbúðahúsnæði, að fjárhæð 426 milljónir.74

Við fjárhagslega endurskipulagningu Sparisjóðs Bolungarvíkur á árinu 2010 voru skuldabréf sparisjóðsins í eigu sex aðila en kröfur þeirra voru einu útistandandi lántökur sparisjóðsins í lok árs 2010 og 2011, að undanskildum víkjandi lánum.

Í tengslum við þessa fjárhagslegu endurskipulagningu tók sparisjóðurinn víkjandi lán sem nam um 231 milljón króna. Sparisjóður Bolungarvíkur gaf út sjö víkjandi skuldabréf 27. júlí 2004, öll voru þau 10 milljónir króna að nafnverði, en Íslensk verðbréf hf. keyptu bréfin.75 Þá keypti Byggðastofnun víkjandi skuldabréf af sparisjóðnum 23. janúar 2008, að nafnverði 200 milljónir króna. Skuldabréfið var verðtryggt og bar breytilega vexti. Í skýrslu sparisjóðsstjóra fyrir rannsóknarnefndinni sagði hann þetta lán hafa verið tekið til þess að fjármagna útlán til rækjuvinnslu.76 Við fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins voru 69% víkjandi lána afskrifuð, eða 254 milljónir króna, 25% krafnanna, eða 92 milljónum króna, var breytt í stofnfé og 6% skuldarinnar var áfram í formi víkjandi láns. Á þessum tíma voru Byggðastofnun og Íslensk verðbréf hf. einu kröfuhafar víkjandi lána sparisjóðsins.77

23.5 Stofnfé og stofnfjáreigendur

Í samþykktum Sparisjóðs Bolungarvíkur frá árinu 2001 kom fram að stofnfé hans mætti vera allt að eitt hundrað milljónir króna og var nafnverð hvers hlutar 24.378 krónur. Stofnfjáreigendur skyldu aldrei vera færri en þrjátíu og eiga einn eða fleiri jafngilda stofnfjárhluti. Atkvæðisréttur var í hlutfalli við stofnfjáreign. Óheimilt var að eiga fleiri en 25 stofnfjárhluti eða fara, fyrir sjálf sín hönd eða annarra, með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóðnum. Samþykktum sparisjóðsins var breytt árið 2003 á þann veg að stofnfé sjóðsins skyldi eigi vera minna en 75 milljónir króna og allt að eitt hundrað milljónir króna. Nafnverð hvers hlutar var 27.110 krónur og fylgdi eitt atkvæði hverjum hlut. Árið 2004 var nafnverð stofnfjárhlutar hækkað í 28.769 krónur og hámarkseign einstakra stofnfjáreigenda hækkuð upp í fjörtíu hluti. Árið 2006 var samþykktum sparisjóðsins breytt enn á ný þannig að stofnfé gat numið allt að 300 milljónum króna. Nafnverð hvers hlutar var 32.910 krónur og var einstökum stofnfjáreigendum, öðrum en lögaðilum, óheimilt að eiga fleiri en sextíu hluti. Á stofnfjáreigendafundi sparisjóðsins 28. júní 2007 var færð í samþykktir sparisjóðsins heimild til handa stjórn til að auka stofnfé hans um allt að 500 milljónir króna með áskrift jafnmargra nýrra stofnfjárhluta eftir nánar tilgreindu fyrirkomulagi. Á þeim tíma var stofnfé sparisjóðsins 233.196.664 krónur sem skiptust í jafnmarga hluti, að nafnverði ein króna hver. Þá var fellt úr samþykktum sparisjóðsins ákvæði um hámarkseignarhluta einstakra stofnfjáreigenda. Samþykktum sparisjóðsins var enn breytt árið 2010 og stofnfé sparisjóðsins þá ákveðið 668.185.600 krónur sem skiptist í jafnmarga einnar krónu hluti.

Stofnfé Sparisjóðs Bolungarvíkur í árslok 2005 var 161 milljón króna en stofnfé hafði verið aukið um 31 milljón króna á árinu. Sala á nýju stofnfé var samþykkt á stjórnarfundi sparisjóðsins 4. nóvember 2005 og mátti hver stofnfjárhafi kaupa tíu hluti, en hámarkseign var fjörutíu hlutir.78 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 24. október 2006 var rætt um framtíðarstefnu sparisjóðsins í „málefnum tengdum stofnfé sparisjóða, í sambandi við stofnfé sem komið er á markað“. Á fundinum upplýsti sparisjóðsstjóri að hann hefði fundað með ráðgjöfum frá verðbréfafyrirtækinu H.F. Verðbréfum hf. sem sögðu að „Sparisjóður Bolungarvíkur væri á réttri leið með að gera stofnfé að markaðsvöru“. Sparisjóðsstjóra var síðan veitt heimild til að fá „fagþekkingu og ráðgjöf um stofnfé“.79 Á næsta stjórnarfundi var samþykkt að auka stofnfé sparisjóðsins með því að heimila hverjum stofnfjáreiganda að kaupa tíu hluti.80 Stofnfé seldist þá fyrir 39 milljónir króna. Með þessari hækkun, auk endurmats stofnfjár, var heildarstofnfé í árslok 2006 orðið 219 milljónir króna.81

Í lok árs 2007 jókst stofnfé sparisjóðsins verulega. Unnið hafði verið að því allt árið að auka það. Á stjórnarfundi 30. maí 2007 var greint frá því að stjórnarformaður og sparisjóðsstjóri hefðu fundað með sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins í Keflavík „til að kynna sér frekar ferlið við að gera stofnfé sjóðsins markaðsvænni“.82 Ákveðið var að ráða Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmann sem ráðgjafa, en Jóhannes hafði unnið að útfærslu á stofnfjáraukningu fyrir Sparisjóðinn í Keflavík.83 Á stjórnarfundi sparisjóðsins 19. júní sama ár var farið yfir tillögur að breytingum á samþykktum sparisjóðsins þar sem stjórn yrði heimilað að auka stofnfé sparisjóðsins um allt að 500 milljónir króna. Ákveðið var að boða til fundar stofnfjáreigenda til að breyta samþykktum sparisjóðsins 28. júní sama ár.84 Á stofnfjáreigendafundinn mættu fulltrúar 34% stofnfjáraðila, sem höfðu yfir að ráða 47% stofnfjár. Á fundinum var breytingartillagan kynnt en sparisjóðsstjóri sagði þar aðspurður að engin ákvörðun hefði verið tekin um að auka við stofnfé í lok árs 2007, aðeins ætti að hafa heimildir ríflegar „til að svara fjárfestingartækifærum sem gætu komið upp“. Svo fór að breytingartillögurnar voru samþykktar samhljóða.85

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 2. október 2007 var samþykkt að ráðast í stofnfjáraukningu. Ákveðið var að fullnýta heimildir samþykkta sparisjóðsins og auka stofnfé um 500 milljónir króna í einu lagi. Stofnfjárútboðið stóð yfir dagana 6.–14. desember 2007. Boðið var út stofnfé að nafnvirði 500 milljónir króna og var sölugengi í útboðinu 1,0349. Heildarvirði útboðsins var því 517 milljónir króna. Í útboðslýsingu sparisjóðsins sagði að útboðinu væri ætlað að styrkja eiginfjárstöðu sparisjóðsins og styðja um leið við frekari vöxt í útlánum og auka samkeppnishæfni sjóðsins.86 Alls fengu 97 stofnfjáreigendur lán vegna stofnfjárútboðsins, að upphæð samtals 207 milljónir króna. Veðsetningar á stofnfjárhlutum í sparisjóðnum námu samtals 303 milljónum króna og nýtt fé inn í sparisjóðinn var um 155–165 milljónir króna. Rúmlega 99% stofnfjárins seldist í útboðinu.87

Í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefndinni sagði Ásgeir Sólbergsson, sparisjóðsstjóri, að árið 2007 hefði komið krafa frá stofnfjárhöfum um að fá að kaupa meira stofnfé og fá auknar arðgreiðslur. Menn hefðu horft á þróunina hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og hvernig stofnfé hefði verið endurmetið þar. Þá hefði einnig vakað fyrir mönnum að verja sparisjóðinn fyrir áhlaupi.88 Að sögn Finnboga Jakobssonar, fyrrum stjórnarformanns Sparisjóðs Bolungarvíkur, höfðu stjórnarmenn áhyggjur af því að sparisjóðurinn væri af þeirri stærð að auðvelt yrði að taka hann yfir. Með því að auka stofnfé og fjölga stofnfjáreigendum mætti verjast því.89

Ekki var gefið út nýtt stofnfé árið 2008 en stofnfé hækkaði þó við sérstakt endurmat stofnfjár sem samþykkt var á aðalfundi 2009. Við endurskipulagningu sparisjóðsins var stofnfé síðan fært niður um 758 milljónir króna og ríkissjóður Íslands lagði fram stofnfé fyrir 635 milljónir króna.

Stofnfjáreigendur Sparisjóðs Bolungarvíkur voru 215 árið 2005 og fjölgaði um einn ári síðar. Við stofnfjárútboðið árið 2007 fjölgaði þeim töluvert og urðu 273 talsins. Á árunum 2008–2011 fækkaði stofnfjáreigendum aftur og urðu þeir 255 talsins á árinu 2009. Markaður með stofnfjárbréf var ekki virkur en helstu breytingarnar milli ára voru vegna erfðaskipta og framsals stofnfjárskírteina til félaga í eigu stofnfjárhafa.90

Stærsti stofnfjárhafinn á tímabilinu 2005–2009 var Ísafjarðarbær með um 3% eignarhlut. Aðrir stórir stofnfjárhafar voru Sparisjóður Vestfirðinga, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Daði Guðmundsson og Karitas Hafliðadóttir. Árið 2010 lauk fjárhagslegri endurskipulagningu sem fól í sér að íslenska ríkið eignaðist 90,95% hlut í sparisjóðnum.

23.5.1 Hlutafélagsvæðing

Á fundi stjórnar sparisjóðsins í júlí 2008 var rætt um stöðu sparisjóðanna og lagði sparisjóðsstjóri til að hafinn yrði undirbúningur að hlutafélagsvæðingu sparisjóðsins. Rætt var um að lengstan tíma tæki að fá óháð verðmat á sjóðinn og því væri ráðlegt að hefjast handa við það. Stjórn sparisjóðsins samþykkti að vinna frekar að undirbúningi hlutafélagsvæðingar og semja við lögmann um að hefja vinnu við hana.91 Málið virðist þó ekki hafa verið rætt frekar á stjórnarfundum eða fundum stofnfjáreigenda og í júlí 2009 var heimild til hlutafélagsvæðingar sparisjóða síðan felld úr gildi með lögum nr. 76/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002.

23.6 Fjárhagsleg endurskipulagning

Í upphafi árs 2008 var staða sparisjóðsins góð, hagnaður af rekstri sjóðsins árið 2007 nam 255 milljónum króna, bókfært eigið fé rúmum 2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 15,1%.92 Fall íslensku viðskiptabankanna hafði mikil áhrif á sparisjóðinn og varð mikill viðsnúningur í rekstri á árinu 2008, en samkvæmt ársreikningi nam tap á rekstri sparisjóðsins rúmlega 1,6 milljörðum króna, bókfært eigið fé í árslok nam 234 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið komið í 2,41%.

Þegar í lok sumars 2008 voru blikur á lofti hjá Sparisjóði Bolungarvíkur. Árshlutauppgjör 30. júní 2008 sýndi 322 milljóna króna tap á rekstri sjóðsins sem var að miklu leyti til komið vegna niðurfærslu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum en regluleg starfsemi virtist ekki skila hagnaði.93 Vegna lækkandi eiginfjárhlutfalls veitti stjórn sparisjóðsins sparisjóðsstjóra heimild til að hefja viðræður um sölu eða vistun eignarhluta sparisjóðsins í öðrum fjármálafyrirtækjum.94 Fjármálaeftirlitið hafði framkvæmt álagspróf á Sparisjóði Bolungarvíkur og var niðurstaða þess að hætta væri á að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins færi undir lögbundið lágmark. Hvatti Fjármálaeftirlitið sparisjóðinn til úrbóta í bréfi sem tekið var fyrir á stjórnarfundi í sparisjóðnum 30. september 2008 en stjórnin taldi að sala á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum myndi bæta úr stöðunni. Á sama fundi var tilkynnt að gengið hefði verið frá samningum um sölu á eignarhlut sparisjóðsins í Íslenskum verðbréfum hf.95

Bráðabirgðauppgjör 10. október 2008 var lagt fyrir stjórn 28. október en samkvæmt því nam tap af rekstri sparisjóðsins 628 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 10,8%.96 Gengi sparisjóðsins fór versnandi, m.a. sýndi milliuppgjör 30. nóvember rúmlega eins milljarðs króna tap, og samþykkti stjórnin í kjölfarið að fela sparisjóðsstjóra að vinna að umsókn um eiginfjárframlag úr ríkissjóði.97 Á sama fundi voru kynntar hugmyndir um framtíð sparisjóðanna; komið hefði fram tillaga um svæðisskipta sparisjóði, hugsanlega einn sparisjóð á Vestfjörðum með sameiningu Sparisjóðs Bolungarvíkur og Sparisjóðs Strandamanna, auk útibúa Sparisjóðsins í Keflavík. Stjórn heimilaði sparisjóðsstjóra að eiga óformlegar viðræður við Sparisjóð Strandamanna og væntanlegan sameiginlegan sparisjóð á Reykjavíkursvæðinu um mögulegar sameiningar.98

23.6.1 Umsókn um 20% eiginfjárframlag

Hinn 19. mars 2009 sótti Sparisjóður Bolungarvíkur um eiginfjárframlag úr ríkissjóði og óskaði eftir því að það næmi allt að 20% af bókfærðu eigin fé eins og það var í árslok 2007. Í árslok 2007 nam bókfært eigið fé sparisjóðsins rúmum tveimur milljörðum króna og því var óskað eftir rúmlega 401 milljónar króna framlagi.99 Í staðfestingu endurskoðanda sparisjóðsins, sem fylgdi umsókninni, kom fram að hækkun stofnfjár sem næmi þeirri fjárhæð myndi hækka eiginfjárhlutfall sparisjóðsins úr 2,4% í tæp 10,6%. Það dygði þó ekki til að ná hlutfallinu upp fyrir 12%, eins og reglurnar áskildu. Til að ná því marki hugðist stjórn sparisjóðsins auka stofnfé hans um 50 milljónir króna með þátttöku nýrri og eldri stofnfjárhafa, en jafnframt var ætlunin að selja íbúðabréf til Íbúðalánasjóðs fyrir um 850 milljónir króna. Leitað hefði verið leiða til að selja eignarhluti í öðrum fjármálafyrirtækjum, en án árangurs, ef undan er skilin sala á eignarhlut í Íslenskum verðbréfum hf. í september 2008. Í umsókn sparisjóðsins kom fram að stofnfjáraukning hefði enn ekki verið ákveðin en að hún yrði á dagskrá stofnfjáreigendafundar sem boðað hefði verið til 31. mars 2009.100 Þá greindi frá því að stjórn sparisjóðsins áformaði sameiningarviðræður við Sparisjóð Strandamanna en teldi að sameining væri háð því að Sparisjóður Bolungarvíkur fengi eiginfjárframlag úr ríkissjóði.101

Umsókn sparisjóðsins var vísað til Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins til umsagnar 23. mars 2009. Yfirferð Fjármálaeftirlitsins staðfesti að sparisjóðurinn næði ekki að uppfylla skilyrði reglna um framlag til sparisjóða um lágmarks eiginfjárhlutfall. Í tölvupósti starfsmanns Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 21. apríl 2009 kom fram að sparisjóðurinn myndi senda staðfestingu á kaupum heimamanna á stofnfé um leið og þau væru frágengin. Um leið og sú yfirlýsing lægi fyrir myndi Fjármálaeftirlitið senda umsögn um umsókn sparisjóðsins til fjármálaráðuneytisins.102 Þar sem fyrirhuguð stofnfjáraukning kom ekki til framkvæmda á árinu 2009 barst fjármálaráðuneytinu ekki umsögn frá Fjármálaeftirlitinu um umsókn sparisjóðsins. Seðlabanki Íslands sendi fjármálaráðuneytinu sameiginlega umsögn um umsóknir sparisjóðanna um 20% eiginfjárframlag úr ríkissjóði 21. apríl 2009 en hún tók ekki til Sparisjóðs Bolungarvíkur.103

Á aðalfundi Sparisjóðs Bolungarvíkur 20. maí 2009 kom fram í skýrslu stjórnar að stofnfé hefði verið aukið um 50 milljónir króna, en nýtt stofnfé kæmi frá Frjálsa lífeyrissjóðnum og Bæjarsjóði Bolungarvíkur auk þess sem Tryggingasjóður sparisjóða hefði keypt víkjandi skuldabréf í eigu sparisjóðsins. Stofnfjáraukningin fæli í sér að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins að viðbættu framlagi úr ríkissjóði myndi ná tilskyldu 12% lágmarki.104

23.6.2 Aðdragandi fjárhagslegrar endurskipulagningar

Fleiri sparisjóðir sóttu um eiginfjárframlag úr ríkissjóði og í kjölfarið fór fjármálaráðuneytið fram á að fengið yrði óháð endurskoðunarfyrirtæki til að fara yfir ársreikninga og leggja mat á virði eigna sparisjóðanna. PricewaterhouseCoopers hf. var fengið til að gera fjárhagslega áreiðanleikakönnun á ákveðnum þáttum í efnahagsreikningi og starfsemi Sparisjóðs Bolungarvíkur og skilaði skýrslu sinni 16. júní 2009. Helstu niðurstöður voru að virðisrýrnun eigna væri 734 milljónum króna meiri en sparisjóðurinn hafði gert ráð fyrir í ársreikningi sínum, en væri tekið tillit til skattáhrifa væri virðisrýrnunin 627 milljónir króna. Eigið fé sparisjóðsins væri því neikvætt um tæpar 393 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 6,38%.

Í ljósi niðurstaðna PricewaterhouseCoopers hf. lá fyrir að eiginfjárframlag úr ríkissjóði, auk þeirra aðgerða sem sparisjóðurinn hugðist grípa til, myndu ekki nægja til að koma sparisjóðnum til bjargar. Eigið fé sparisjóðsins þyrfti að hækka um 970 milljónir króna til þess að ná 12% eiginfjárhlutfalli105 og því væri ljóst að aðkoma kröfuhafa að fjárhagslegri endurskipulagningu væri nauðsynleg.

Um mánaðamót janúar og febrúar 2009 hafði stjórnendum Sparisjóðs Bolungarvíkur orðið ljóst að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var komið undir lögbundið lágmark og var Fjármálaeftirlitinu tilkynnt um þá stöðu.106 Ekki kom þó til aðgerða af hálfu Fjármálaeftirlitsins fyrr en 11. júní 2009. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins þann dag var vísað til þess að samkvæmt ársuppgjöri sparisjóðsins væri eiginfjárhlutfall hans 2,4% og samkvæmt eiginfjárskýrslu miðað við 31. mars 2009 væri eiginfjárhlutfallið orðið neikvætt um 0,1%. Með vísan til greinargerðar sparisjóðsins sem fylgdi umsókn um eiginfjárframlag og þeirra ráðstafana er sparisjóðurinn boðaði þar veitti Fjármálaeftirlitið Sparisjóði Bolungarvíkur frest til 30. júní 2009 til að auka við eiginfjárgrunn sinn.107

Í ljósi stöðu sparisjóðsins nýtti Fjármáleftirlitið sér heimild í lögum til að skipa sparisjóðnum sérstakan sérfræðing til að hafa eftirlit með rekstri sparisjóðsins og var Björn Jóhannesson hæstaréttarlögmaður skipaður til starfans 22. júlí 2009. Í skipunarbréfi Björns kom fram að honum væri ætlað að hafa sérstakt eftirlit með rekstri sparisjóðsins og gera Fjármálaeftirlitinu reglulega grein fyrir starfi sínu. Samkvæmt skipunarbréfinu gilti skipunin til 19. ágúst 2009 eða þar til ákvörðun yrði tekin um annað.108 Skipunin var framlengd níu sinnum á um það bil mánaðarfresti, síðast til 7. júlí 2010. Á tímabilinu skilaði Björn reglulega minnisblöðum eða skýrslum til Fjármálaeftirlitsins.

Á stjórnarfundi sparisjóðsins 19. júní 2009 var bókað að samið hefði verið við ráðgjafarfyrirtækið Möttul ehf. og Guðmund Hjaltason um sérfræðiráðgjöf við fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins.109 Fjármálaeftirlitinu voru kynntar hugmyndir sparisjóðsins um fjárhagslega endurskipulagningu á fundi 29. júní 2009, í megindráttum fólu þær í sér að samið yrði við kröfuhafa og annars vegar óskað eftir að kaupa kröfur þeirra með afföllum eða hins vegar óskað eftir að kröfuhafar breyttu kröfum sínum í stofnfé að hluta. Stærsti kröfuhafi sparisjóðsins var Sparisjóðabanki Íslands hf. og fór bankinn með rúmlega 81% krafna á hendur sparisjóðnum.110 Samningaviðræður við kröfuhafa gengu þó hægt og í bréfi sparisjóðsins til Fjármálaeftirlitsins 6. ágúst 2009 kom fram að ágreiningur um mat á tryggingum sem Seðlabanki Íslands fékk fyrir innlán sparisjóða hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. stæði í vegi fyrir viðræðum um kröfurnar.111 Fresturinn sem Fjármálaeftirlitið veitti Sparisjóði Bolungarvíkur til að auka við eiginfjárgrunn sinn var síðan ítrekað framlengdur, síðast til 11. júní 2010.

Undir lok sumars 2009 tóku fjármálaráðuneytið og Seðlabanki Íslands, undir forystu bankans, upp nánari samvinnu um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóða, þegar ljóst var að sparisjóðirnir uppfylltu ekki allir skilyrði reglna um framlag til sparisjóða.112 Seðlabanki Íslands var helsti kröfuhafi sparisjóðanna á þessum tíma, eftir að hafa fengið framseldar kröfur Sparisjóðabankans á hendur sparisjóðunum, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars sama ár. Þar á meðal voru kröfur á hendur Sparisjóði Bolungarvíkur sem námu 3.718 milljónum króna.113 Í september 2009 sendi Seðlabanki Íslands, í samvinnu við fjármálaráðuneytið, sparisjóðunum tillögu um meðferð krafna á hendur sparisjóðunum og var unnið að frekari útfærslu hennar um veturinn.

Staða Sparisjóðs Bolungarvíkur var erfið á þessum tíma og á stjórnarfundi sparisjóðsins 15. september 2009 var árshlutareikningur miðað við 30. júní 2009 til umræðu, en þar kom fram að tap á fyrstu sex mánuðum ársins 2009 næmi rúmum 1.133 milljónum króna, að eiginfjárhlutfallið væri neikvætt um 13,1% og eigið fé sparisjóðsins neikvætt um 900 milljónir króna. Miklu munaði á rekstraráætlun og rauntölum, en þar vógu afskriftir útlána og eigna þyngst. Þá var fjallað um árshlutareikning miðað við 31. ágúst 2009 og fram kom að staða sparisjóðsins væri enn að síga á „þyngri hliðina“.114 Seðlabankinn hafði líka miklar áhyggjur af stöðu sparisjóðsins, en í minnisblaði Seðlabankans frá 20. nóvember kom fram að sparisjóðurinn „[hefði] hvorki stöðu til að fá eiginfjárframlag frá ríkinu né falla inn í starfsramma SÍ. Þ.a.l. væri næsta skref fyrir sjóðinn að sækja um greiðslustöðvun og fara i nauðasamninga. Hægt væri að taka til íhugunar afskrift með ströngum skilyrðum, þ.m.t. 99% niðurskrift á stofnfé EF FME samþykki aukið endurgjald. Einnig er til athugunar að sameina sparisjóðinn við SpKef.“115

Hinn 1. febrúar 2010 sendi Seðlabankinn sparisjóðunum bréf þar sem þeim var boðið að semja um uppgjör krafna með ákveðnum kjörum og skilyrðum.116 Viku síðar, 8. febrúar, kynnti Fjármálaeftirlitið sparisjóðnum kröfur sínar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu með aðild ríkissjóðs á grundvelli laga nr. 125/2008 eða með aðild Seðlabanka Íslands á grundvelli samnings um uppgjör krafna. Fjármálaeftirlitið gerði þá meðal annars kröfu um að eiginfjárhlutfallið yrði að lágmarki 16% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.117

Sparisjóðurinn sendi Fjármálaeftirlitinu útreikninga vegna skilyrða um eiginfjár- og lausafjárkröfur sem settar voru fram í bréfinu. Taldi Fjármálaeftirlitið að yfirferð gæfi ekki tilefni til annars en að álykta að sparisjóðurinn myndi standast gerðar kröfur að fjárhagslegri endurskipulagningu lokinni. Því samþykkti Fjármálaeftirlitið, miðað við fyrirliggjandi gögn að sparisjóðurinn gengi til endanlegra samninga við Seðlabanka Íslands og aðra kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu.118

23.6.3 Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu

Sparisjóður Bolungarvíkur kynnti tillögur að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrir Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu 5. mars 2010.119 Í kynningunni var farið yfir endurmat á útlánasafni sparisjóðsins og lagt til að varúðarniðurfærslur yrðu samtals 2,1 milljarður króna, auk þess sem þegar var búið að afskrifa 910 milljónir króna. Gert var ráð fyrir að eiginfjárhlutfallið yrði 17,6% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu. Tillögurnar höfðu að geyma mismunandi leiðir til uppgjörs við helstu kröfuhafa, meðal annars um greiðslu í reiðufé, breytingu krafna, lánalengingar og afskriftir. Hvað kröfur Seðlabankans varðaði, var gert ráð fyrir að 10% þeirra yrðu greidd 30 dögum eftir að endurskipulagningu lyki, 16% krafnanna yrðu greidd með nýju láni, 14% með stofnfé og eftirstöðvarnar afskrifaðar.120 Seðlabankinn samþykkti tilboðið 9. mars 2010, en endanlegur frágangur beið samþykkis annarra kröfuhafa og Fjármálaeftirlitsins.121 Áform ríkisins og Seðlabanka Íslands um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna voru einnig háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem samþykkti áformin 21. júní 2010.122

Á stofnfjáreigendafundi 10. júní 2010 voru lagðar fram til samþykktar tillögur sem lutu að fjárhagslegri endurskipulagningu. Þær lutu að lækkun stofnfjár úr 794,4 milljónum króna í tæplega 33,4 milljónir króna og síðan að stofnfé yrði hækkað aftur í 668 milljónir króna. Skyldu stofnfjáreigendur á sama tíma falla frá forkaupsrétti sínum. Tillögurnar voru allar samþykktar.123

Í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010, í málum nr. 92/2010 og 153/2010, varðandi lögmæti lánsskuldbindinga í íslenskum krónum tengdum gengi erlendra gjaldmiðla, sendu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fjármálafyrirtækjum tilmæli vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða 30. júní 2010. Var fjármálafyrirtækjum gert að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi þeirra aðstæðna og tryggja að eigið fé yrði nægilegt til þess að mæta hugsanlegri rýrnun eigna umfram það sem endurreikningur hefði í för með sér.124 Forsvarsmenn og endurskoðendur Sparisjóðs Bolungarvíkur könnuðu áhrif dómanna í samráði við Fjármálaeftirlitið miðað við forsendur um vaxtakjör sem gefin voru í tilmælunum. Niðurstaðan varð sú að þörf væri á frekari aðgerðum svo sparisjóðurinn uppfyllti eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins. Fjallað var um þá stöðu sem upp var komin á stjórnarfundi sparisjóðsins 13. ágúst 2010. Þar kom fram að Seðlabankinn gæti ekki afskrifað meira af kröfum sínum og því yrðu aðrir kröfuhafar að taka á sig 141 milljón króna vegna „líklegra dóma vegna erlendra lána“. Ganga yrði á ný til samninga við kröfuhafa.

Sparisjóðurinn lagði fram nýja tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu, en áhrif dóma Hæstaréttar voru einkum á þrjá liði í efnahag sjóðsins, þ.e. til lækkunar á stöðu útlána, til lækkunar á eigin fé og til lækkunar á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli. Tillaga sparisjóðsins fól í sér að almennir kröfuhafar myndu afskrifa 19% krafna sinna, en 10% yrðu greidd með peningum, 35% með nýju skuldabréfi og 36% með nýju víkjandi láni.125 Eigendur víkjandi lána, Byggðastofnun og Íslensk verðbréf hf., myndu umbreyta 6% krafna sinna í nýtt víkjandi lán, 25% í stofnfé og afskrifa 69%. Engar breytingar voru gerðar á meðferð krafna Seðlabankans frá fyrri tillögu. Gert var ráð fyrir að eiginfjárhlutfallið yrði 18,1% að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.126

Hinn 17. september 2010 endurnýjaði Fjármálaeftirlitið samþykki sitt fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Bolungarvíkur eftir að hafa móttekið nýja útreikninga sem gerðir voru á grundvelli nýrrar áætlunar sparisjóðsins um fjárhagslega endurskipulagningu. Taldi Fjármálaeftirlitið ekki tilefni til annars en að álykta að sparisjóðurinn myndi uppfylla skilyrði þess um eiginfjárhlutföll næstu þrjú árin. Með vísan til þess staðfesti Fjármálaeftirlitið fyrra samþykki sitt með fyrirvara um að endanlegir samningar næðust við kröfuhafa sparisjóðsins um eftirgjöf skulda.127

Sparisjóðurinn og Seðlabanki Íslands undirrituðu samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu 22. september 2010. Samkomulagið skyldi koma í stað stofnfjárframlags úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 125/2008. Samkomulagið tók til krafna samkvæmt „Rammasamningi um reikningslán milli Sparisjóðs Bolungarvíkur og Sparisjóðabanka Íslands hf.“ frá 14. júlí 2005 og krafna vegna skammtímalána í erlendum myntum sem Sparisjóðabankinn veitti Sparisjóði Bolungarvíkur. Uppgjörið miðaðist við áætlaða stöðu 31. desember 2009, sem var 3.876 milljónir króna, og skyldu 388 milljónir króna (10%) greiddar með reiðufé; 620 milljónir króna (16%) greiddar með nýju láni í erlendum myntum til fimm ára, en 543 milljónir króna (14%) yrðu greiddar með afhendingu á stofnfé í sparisjóðnum. Skyldi það svara til 81,6% af heildarstofnfé sparisjóðsins. Eftirstöðvarnar yrðu afskrifaðar.128

Uppgjörið var háð því að fjárhagsleg endurskipulagning gengi eftir í samræmi við samþykkta áætlun sparisjóðsins og að dregin yrði til baka umsókn um eiginfjárframlag úr ríkissjóði.129 Á stjórnarfundi 30. september 2010 samþykkti stjórn Sparisjóðs Bolungarvíkur að falla frá umsókn sinni.130 Seðlabanki Íslands staðfesti síðan við fjármálaráðuneytið 8. október að allir skilmálar, sbr. bréf bankans 1. febrúar 2010, væru uppfylltir.131 Þar með var fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Bolungarvíkur lokið.

Að fjárhagslegri endurskipulagningu lokinni eignaðist Seðlabanki Íslands 81,2% stofnfjár og Byggðastofnun 9,7%. Bankasýslu ríkisins var því síðar falið að fara með samtals 90,9% heildarstofnfjár í sparisjóðnum. Aðrir stofnfjárhafar fóru með 9,1%, þar af Íslensk verðbréf hf. með 4,1%.132

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2010 nam hagnaður af rekstri sparisjóðsins rúmum 1,9 milljörðum króna, og hafði eftirgjöf skulda upp á rúma 2,7 milljarða króna þá verið tekjufærð. Bókfært eigið fé í árslok 2010 nam 538 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 16,18%.133 Tap á rekstri Sparisjóðs Bolungarvíkur á árinu 2011 nam tæplega 84,5 milljónum króna, bókfært eigið fé í árslok nam 453,5 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 14,51% og því undir því 16% lágmarki sem Fjármálaeftirlitið setti þeim sparisjóðum sem gengust undir fjárhagslega endurskipulagningu.134 Í árslok 2012 var sparisjóðurinn enn undir þeim mörkum.

Ásgeir Sólbergsson sparisjóðsstjóri lýsti því fyrir rannsóknarnefndinni að fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðsins hefði komið miklu verr út en menn hefðu búist við, þar sem svo fljótt hefði orðið taprekstur á honum.135 Þá taldi Finnbogi Jakobsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, að sparisjóðurinn hefði þurft að fá mun hærri afskriftir hjá Seðlabanka Íslands og vísaði til endurútreiknings á uppgjöri fleiri sparisjóða á fyrri hluta árs 2013. Hins vegar hafi ekki verið „til í dæminu“ að hjálpa Sparisjóði Bolungarvíkur frekar.136

Ákveðið var á aðalfundi Sparisjóðs Bolungarvíkur 22. maí 2013 að auka stofnfé sparisjóðsins um 80 milljónir króna, að undangenginni niðurfærslu eldra stofnfjár um 234,5 milljónir króna. Niðurfærslan var til jöfnunar taps sem ekki yrði jafnað á annan hátt. Á fundinum samþykktu eldri stofnfjáreigendur að falla frá forkaupsrétti sínum en Tryggingasjóður sparisjóða keypti stofnfjáraukninguna og eignaðist við það 15,6% í Sparisjóði Bolungarvíkur. Í kjölfar niðurfærslu og stofnfjáraukningar fór Bankasýsla ríkisins með 76,8% stofnfjár, sem samsvaraði 394,4 milljónum króna að nafnverði.137

23.7 Arður af stofnfjáreign

Sparisjóður Bolungarvíkur greiddi stofnfjárhöfum lengst af arð af stofnfé þeirra. Á árunum 2001–2008 námu arðgreiðslur vegna næstliðinna rekstrarára samtals tæpum 250 milljónum króna. Þar af voru 153 milljónir króna greiddar vegna ársins 2007. Arðgreiðslurnar vegna áranna 2005, 2006 og 2007 voru hærri en reglur Tryggingasjóðs sparisjóða heimiluðu. Samkvæmt þeim var sparisjóðnum heimilt að greiða 10% arð af stofnfé árið 2005 og 11,9% árið 2006, en greiðslurnar voru ívið hærri, eða samtals 8,4 milljónir króna umfram leyfilegt hámark. Arðgreiðslan vegna ársins 2007 var 33,2 milljónum króna hærri en heimilt var. Leyfilegt hámark miðaðist við raunarðsemi eigin fjár, sem var 13,24% og mátti arðgreiðsla samkvæmt því hæst nema 101,9 milljónum króna. Við þá fjárhæð var heimilt að bæta 18,0 milljónum króna sem var ónýttur möguleiki til arðgreiðslu vegna leiðréttrar afkomu 2006. Sú leiðrétting var vegna upptöku sparisjóðsins á reikningsskilum í samræmi við IFRS á árinu 2007.138 Með þessari viðbót var því heimilt að greiða 119,9 milljóna króna arð. Sparisjóður Bolungarvíkur greiddi ekki arð eftir 2008. Reglur Tryggingasjóðs giltu til ársins 2009 þegar lögum var breytt og eftir það mátti greiða út arð sem næmi að hámarki 50% af hagnaði.139

Í lögum um fjármálafyrirtæki var heimild til að endurmeta stofnfé sparisjóðs og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda og skyldi höfð hliðsjón af verðlagsbreytingum við endurmatið.140 Árin 2005–2007 var stofnfé Sparisjóðs Bolungarvíkur hækkað með endurmati vegna verðlagsbreytinga um 37,6 milljónir króna og var framkvæmdin í samræmi við reglur. Árið 2007 var stofnfé miðað við ársbyrjun endurmetið vegna verðlagsbreytinga um 9% en verðbólga ársins var 5,9%. Mismuninn mátti rekja til stofnfjáraukningar sjóðsins á árinu um 518 milljónir króna en að teknu tilliti til hennar var endurmatið í samræmi við verðlagsbreytingar ársins. Stofnfé var ekki verðbætt eftir 2007.

Í lögunum var jafnframt heimild til þess að ráðstafa 10% af hagnaði næstliðins rekstrarárs til hækkunar stofnfjár með svokölluðu sérstöku endurmati.141 Hækkunin mátti þó ekki vera meiri en 5% á ári og ekki mátti flytja heimild til þessa endurmats milli ára. Á aðalfundum sparisjóðsins var samþykkt að hækka stofnfé í lok næstliðins árs um 5% vegna áranna 2005 og 2006 og 3,32% vegna ársins 2007. Alls var stofnfé hækkað með sérstöku endurmati um 44,5 milljónir króna á þessum árum og var hækkunin í samræmi við reglur.

Hér eru tilfærðar þær upplýsingar sem útreikningur á arði og endurmati byggist á. Hafa verður í huga að arðurinn og sérstaka endurmatið eru þar höfð undir því ári sem þau eru útreiknuð. Arðurinn var hins vegar greiddur út ári síðar og sérstaka endurmatið bættist þá við stofnféð. Ástæða þess er sú að tillaga stjórnar um hvort tveggja þurfti að hljóta samþykki aðalfundar til þess að koma til framkvæmdar. Þannig sjást viðkomandi fjárhæðir ekki fyrr en í ársreikningi næsta árs.

23.8 Innra eftirlit

Við skoðun á innra eftirliti sparisjóðanna var leitast við að kanna hvernig fyrirkomulagi þess var háttað og hvort veikleikar hafi verið í eftirlitskerfum sparisjóðanna. Almenna umfjöllun um innra eftirlit, hlutverk stjórnar, innri endurskoðun og áhættustýringu er að finna í 6. kafla, en eftirfarandi umfjöllun lýtur að virkni þessara þátta í starfsemi Sparisjóðs Bolungarvíkur og áhrif þeirra á rekstur sparisjóðsins. Áhersla er lögð á tímabilið frá 2005 til 2011.

23.8.1 Innri endurskoðun

Sparisjóður Bolungarvíkur starfrækti ekki eigin innri endurskoðunardeild á því tímabili sem til athugunar var, fremur en aðrir smærri sparisjóðir. Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum undanþágu frá rekstri eigin innri endurskoðunardeildar í kjölfar þess að sparisjóðurinn gerði samning um innri endurskoðun við Löggilta endurskoðendur Vestfjörðum ehf. 7. maí 2004.142 Annaðist fyrirtækið innri endurskoðun sparisjóðsins vegna áranna 2005 og 2006. Rannsóknarnefndinni bárust ekki skýrslur um innri endurskoðun vegna áranna 2007 til 2011 og að sögn sparisjóðsstjóra var engin innri endurskoðandi hjá sparisjóðnum frá árinu 2008.143

Hinn 12. október 2007 barst Fjármálaeftirlitinu bréf frá Tryggingasjóði sparisjóða vegna innri endurskoðunar Sparisjóðs Bolungarvíkur, en Tryggingasjóðurinn hafði í febrúar 2005 boðið smærri sparisjóðum þjónustu sína við innri endurskoðun frá og með rekstrarárinu 2005. Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins til Tryggingasjóðsins 12. október 2009 sagði, að teknu tilliti til hlutverks Tryggingasjóðsins, samþykkta hans og í kjölfar skoðunar á samningi Tryggingasjóðsins og Sparisjóðs Bolungarvíkur um innri endurskoðun sparisjóðsins, teldi Fjármálaeftirlitið ekki ástæðu til að gera athugasemdir við framangreinda ráðstöfun.144

Löggiltir endurskoðendur Vestfjörðum ehf. töldu að bæta þyrfti innra eftirlit sparisjóðsins á ýmsum sviðum. Í skýrslu vegna innri endurskoðunar fyrir árið 2006 var athygli stjórnar og sparisjóðsstjóra vakin á leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2002 um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum. Bent var á að reynslan hefði sýnt að undanfari erfiðleika í starfsemi fjármálafyrirtækja hefði verið skortur á yfirsýn stjórnenda, ófullnægjandi markmiðssetning um áhættutöku og veikleikar í innra eftirliti. Þá var bent á að í tilmælunum væru settar fram lágmarkskröfur um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum og að stjórn bæri ábyrgð á því að fullnægjandi og skilvirkt innra eftirlitskerfi væri ávallt til staðar.145

Í skýrslum um innri endurskoðun vegna áranna 2005 og 2006 voru tilgreindir ýmsir veikleikar í eftirlitskerfi sparisjóðsins. Bent var á veikleika í innra eftirliti með bókhaldi og var þar vísað til upplýsinga frá ytri endurskoðanda um rangfærslu sem kom upp í ársreikningi fyrir árið 2006 þar sem tekjur af húsbréfum voru ofreiknaðar.146 Við innri endurskoðun vegna ársins 2005 hafði komið í ljós að engar skriflegar starfsreglur væru til þar sem verksvið og ábyrgðir starfsmanna kæmu fram. Ári síðar voru komin drög að slíkum reglum sem þó höfðu ekki verið kynntar starfsmönnum.147 Veikleikar voru í aðgreiningu starfa og var eftirliti ábótavant í þeim tilvikum sem ekki var unnt að koma við aðgreiningu starfa.148 Þá voru ekki til skrifleg markmið varðandi helstu áhættuþætti og var því áhættustýring ómarkviss. Bent var sérstaklega á útlánaáhættu og vísað til fjárhæða í ársreikningum vegna endanlegra tapaðra krafna og vísað til þess að þær hefðu verið verulegar á undanförnum árum. Það var mat innri endurskoðunar að eðlilegt væri að freista þess að lækka útlánatöp með skýrum markmiðum um útlánaáhættu.149 Veikleika var einnig að finna í innra eftirliti upplýsingakerfis, en starfsmenn sem hætt höfðu störfum höfðu enn aðgang að tölvukerfum. Ekki lá fyrir skjalfest öryggisstefna eða áhættumat vegna upplýsinga kerfa.150

Í skýrslu ytri endurskoðanda sparisjóðsins, Endurskoðunar Vestfjarða ehf., vegna endurskoðunar ársreiknings 2009, var almenn umfjöllun um innra eftirlit og mikilvægi þess. Einnig var fjallað um ábyrgð stjórnenda á innra eftirliti. Í skýrslunni kom ekki skýrt fram mat endurskoðandans á innra eftirliti sparisjóðsins en greint var frá ýmsum veikleikum í eftirlitskerfi sparisjóðsins sem sneri að bókhaldi og fjárreiðum. Bent var á að enginn innri endurskoðandi væri starfandi hjá sparisjóðnum eins og lög um fjármálafyrirtæki kvæðu á um.151 Samsvarandi umfjöllun var um innra eftirlit í skýrslu ytri endurskoðanda um ársreikning 2010 og ábending um að enginn innri endurskoðandi væri starfandi hjá sparisjóðnum.152

 


 

1 . Sigurður Pétursson, Aldarsaga Sparisjóðs Bolungarvíkur 1908–2008, Ísafirði 2009.

2 . Samþykktir Sparisjóðs Bolungarvíkur, apríl 2010.

3 . Ársreikningar Sparisjóðs Bolungarvíkur 2001–2011.

4 . Fundargerð stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 28. júní 2007.

5 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 17. mars 2008.

6 . Samningar um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Bolungarvíkur, samantekt fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, 12. nóvember 2010.

7 . Ársreikningur Sparisjóðs Bolungarvíkur 2009.

8 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Bolungarvíkur 2000–2011.

9 . Ársreikningur Sparisjóðs Bolungarvíkur 2011.

10 . Fjallað er um meðhöndlun ársreikninga og reikningsskilareglur í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

11 . Skýrsla Bankasýslu ríkisins um starfsemi sína 2012.

12 . Skýrsla Endurskoðunar Vestfjarða ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Bolungarvíkur 2008, 4. mars 2009.

13 . Skýrsla Endurskoðunar Vestfjarða ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Bolungarvíkur 2008, 4. mars 2009.

14 . Skýrsla Endurskoðunar Vestfjarða ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Bolungarvíkur 2010, 18. mars 2011.

15 . Staða afskriftareiknings útlána sem hlutfall af heildarútlánum.

16 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 28. október 2013.

17 . Ársreikningar Sparisjóðs Bolungarvíkur 2001–2011.

18 . Um launaþróun sparisjóðanna í heild er fjallað í 8. kafla, um reikningsskil sparisjóðanna.

19 . Í 8. kafla má lesa almennt um risnu og fríðindi starfsmanna sparisjóðanna.

20 . Útreikningur á kjarnarekstri er skýrður nánar í 8. kafla.

21 . Skýrsla Endurskoðunar Vestfjarða ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Bolungarvíkur 2008, 4. mars 2009.

22 . Skýrsla Endurskoðunar Vestfjarða ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Bolungarvíkur 2008, 4. mars 2009.

23 . Fyrirgreiðsla í formi millibankalána og ádráttarlína í erlendum myntum frá Sparisjóðabanka Íslands hf. var færð sem skuldir við lánastofnanir.

24 . Í lok árs 2009 hafði Seðlabanki Íslands tekið yfir eignir og skuldir Sparisjóðabanka Íslands hf./Icebank hf.

25 . Samningar um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Bolungarvíkur, samantekt fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, 12. nóvember 2010.

26 . Samningar um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Bolungarvíkur, samantekt fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, 12. nóvember 2010.

27 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

28 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 1. maí 2013.

29 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

30 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 1. maí 2013.

31 . Sjá nánari umfjöllun í 6. og 9. kafla.

32 . Undanskildar eru skuldbindingar Bolungarvíkurkaupstaðar.

33 . Í athugasemdum Ásgeirs Sólbergssonar, sparisjóðsstjóra, til rannsóknarnefndarinnar 24. október 2013 kom fram að hann hafi hitt stjórnarformann vikulega og farið yfir stöðu sparisjóðsins. Þannig hafi hann, milli stjórnarfunda, borið lánveitingar undir formanninn og fengið samþykki fyrir þeim. Þá hafi framlengingar og skilmálabreytingar í framkvæmd almennt ekki verið borin undir stjórn.

34 . Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 24. október 2013 sagði sparisjóðsstjóri að á þessum tíma hefðu flest lán verið veitt í erlendri mynt og þetta því ekki óeðlilegt.

35 . Rannsóknarnefndinni gekk erfiðlega að afla upplýsinga hjá sparisjóðnum og svör voru oft óljós. Við skoðun á útlánum ráku starfsmenn nefndarinnar sig oft á að í gögnum frá Sparisjóði Bolungarvíkur um einstök lánamál vantaði lánaskjöl. Var ítrekað óskað eftir því við sparisjóðsstjóra að hann tryggði heildstæði gagna, með því að ábyrgjast að nefndinni hefði ávallt verið afhent öll skjöl sem sparisjóðurinn hafði um hvert lánamál fyrir sig en við því var ekki orðið. Rannsóknarnefndin getur því ekki treyst áreiðanleika þeirra upplýsinga sem bárust frá sjóðnum.

36 . Síðar var nafninu breytt í KK1905 ehf. Arnarmúli ehf. var afskráð. Samruni var tilkynntur til fyrirtækjaskrár í október 2008 og tók hann gildi frá lokum árs 2007. Í árslok 2007 og árslok 2008 eru skuldbindingar Arnarmúla ehf. annars vegar og Hexa ehf. hins vegar gefnar upp sem sérstakar skuldbindingar hvor um sig, þó um sé að ræða skuldbindingar sama félagsins. Tölurnar í töflu á spássíunni eru birtar sem samtala fyrir lán þessara félaga þó þau hafi ekki verið talin tilheyra sama „lánahópnum“ enda ekki um slíkt að ræða þar sem félögin voru ekki til á sama tíma, annað var stofnað til að yfirtaka hitt.

37 . Sp-ráðgjöf ehf. var samstarfsverkefni fimm sparisjóða af landsbyggðinni og starfaði sem þjónustueining þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Sp-ráðgjöf ehf. var milligönguaðili sem veitti ekki útlán heldur voru lánin veitt af sparisjóðunum samkvæmt ákveðnu hlutfalli hverju sinni. Sjá nánari umfjöllun um Sp-ráðgjöf ehf. í 9. kafla. Í athugasemdum til rannsóknarnefndarinnar 24. október 2013 sagði Ásgeir Sólbergsson að öll lánamál sem komu til sparisjóðsins fyrir tilstilli Sp-ráðgjafar ehf. hefðu verið unnin af forsvarsmönnum þess og hann gæti lítið sagt um þau.

38 . Skuldsett yfirtaka með öfugum samruna fer fram með þeim hætti að félag A fær lán til að kaupa félag B. Til tryggingar skuldinni eru allir hlutir í A og B. Að nokkrum tíma liðnum (oft sex mánuðum) eru lán A á gjalddaga og eru þá endurfjármögnuð í kjölfar samruna A við B. Með þessu móti getur lántaki sett að veði þær eignir félags B sem keyptar voru fyrir upphaflegt lánsfé og lánveitandinn fær betri tryggingar fyrir láni sínu. Til að uppfylla ákvæði laga um einkahlutafélög er nokkur tími látinn líða frá kaupum á félagi B og samruna þess við A.

39 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 19. júní 2013.

40 . Um handveðsyfirlýsingar sem þessar er nánar fjallað í 9. kafla.

41 . Tilgangur félagsins samkvæmt ársreikningi var lánastarfsemi, rekstur fasteigna og skyldur rekstur.

42 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 24. júní 2013.

43 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 24. júní 2013.

44 . Samkvæmt samþykktum félagsins var tilgangur þess hvers konar fjárfestingastarfsemi, svo sem eignarhald, kaup og sala fasteigna, verðbréfa og hlutabréfa, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur.

45 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

46 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 14. júní 2013; tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 18. júní 2013.

47 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 26. júní 2013.

48 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 26. júní 2013.

49 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 14. júní 2013.

50 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 26. júní 2013.

51 . Úrræðið er heiti á samkomulagi fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs, Félags atvinnurekenda, fjármálaráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis sem undirritað var 15. desember 2010. Í samkomulaginu fólst samræmt átak til að endurskipuleggja skuldir lítilla og meðalstórra lífvænlegra fyrirtækja sem skulduðu minna en 1.000 milljónir króna. Á grundvelli „Beinu brautarinnar“ veitti Samkeppniseftirlitið fjármálafyrirtækjum tímabundna heimild til að samræma úrlausnir vegna greiðsluvanda fyrirtækja til 30. júní 2012. Í athugasemdum Ásgeirs Sólbergssonar sparisjóðsstjóra til rannsóknarnefndarinnar 24. október 2013 kom fram að ef búið hefði verið að leiðrétta erlendu lánin hefði félagið ekki þurft að fara í gegnum „Beinu brautina“.

52 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

53 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 14. júní 2013.

54 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 21. júní 2013.

55 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

56 . Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. nóvember 2012.

57 . Samkvæmt hlutafjármiðum sem skilað er til ríkisskattstjóra.

58 . Skýrsla Kristjáns Hjelm fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 21. nóvember 2012. Í athugasemd Kristjáns Hjelm til rannsóknarnefndarinnar 6. mars 2014 kom hann því á framfæri að með því að tala um gjöf hefði hann átt við þau vaxtakjör sem boðin voru.

59 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 2. maí 2013.

60 . Um það hverjir töldust til minni sparisjóða og hverjir til hinna stærri vísast til taflna 5, 9 og 10 í 8. kafla skýrslunnar.

61 . Fundargerð hluthafafundar Icebank hf., 17. október 2008.

62 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

63 . Sjá nánari útskýringu í upphafi 11. kafla, um fjármögnun sparisjóðanna.

64 . Lausafjáryfirlit Sparisjóðs Bolungarvíkur, greining sem skilað var til Seðlabanka Íslands mánaðarlega frá janúar 2005 til desember 2011.

65 . Atvinnugreinaflokkun innlána sparisjóðsins sem skilað var mánaðarlega til Seðlabanka Íslands frá júlí 2007 til desember 2011.

66 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 13. júní 2013.

67 . Tölvuskeyti Sparisjóðs Bolungarvíkur til rannsóknarnefndarinnar 18. júní 2013.

68 . Yfirlit dag- og veðlána frá Seðlabanka Íslands, 2005–2011; REPO blöð Sparisjóðabanka Íslands hf. árið 2008.

69 . Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu, 22. september 2010.

70 . Í athugasemd til rannsóknarnefndarinnar 24. október 2013 sagði sparisjóðsstjóri að þetta verkefni hefði verið sett á laggirnar til að útvega Sparisjóðabankanum lausafé. Sparisjóðurinn hefði með þessu aðstoðað Sparisjóðabankann til þess.

71 . Nánar er fjallað um Klettháls ehf. og fjármögnunarverkefnið í 11. kafla.

72 . Endurhverf verðbréfaviðskipti Íbúðalánasjóðs við Sparisjóð Bolungarvíkur, 17. september 2008.

73 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

74 . Nánar er fjallað um lántökur og viðskipti sparisjóðanna við Íbúðalánasjóð í 11. kafla.

75 . SPBOL 04 1 víkjandi skuldabréf, 24. júlí 2004.

76 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

77 . Samningar um endurskipulagningu skulda Sparisjóðs Bolungarvíkur, samantekt fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, 12. nóvember 2010.

78 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 4. nóvember 2005.

79 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 24. október 2006.

80 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 14. nóvember 2006.

81 . Ársreikningur Sparisjóðs Bolungarvíkur 2006.

82 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 30. maí 2007.

83 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 30. maí 2007.

84 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 19. júní 2007.

85 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Bolungarvíkur, 28. júní 2007.

86 . Lýsing Sparisjóðs Bolungarvíkur, 4. desember 2007.

87 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 31. desember 2007; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur,
8. janúar 2008.

88 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

89 . Skýrsla Finnboga Jakobssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

90 . Stofnfjáreigendalistar Sparisjóðs Bolungarvíkur 2000–2011.

91 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 29. júlí 2008.

92 . Í desember 2007 var efnt til stofnfjárútboðs í Sparisjóði Bolungarvíkur sem skýrir meðal annars sterka stöðu sparisjóðsins.

93 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 19. ágúst 2008; fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 28. ágúst 2008.

94 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 9. september 2008.

95 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 30. september 2008.

96 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 28. október 2008.

97 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 19. desember 2008.

98 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 19. desember 2008.

99 . Beiðni um viðbótar eiginfjárframlag í samræmi við 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimildir til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., 19. mars 2009.

100 . Á stofnfjáreigendafundinum 31. mars 2009 var tillagan samþykkt mótatkvæðalaust.

101 . Beiðni um viðbótar eiginfjárframlag í samræmi við 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimildir til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., 19. mars 2009.

102 . Tölvuskeyti Fjármálaeftirlitsins til fjármálaráðuneytisins 21. apríl 2009.

103 . Í svari Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurnar rannsóknarnefndarinnar kom fram að eftir ítarlega leit í skjalakerfi bankans þætti ljóst að eintak af bréfi fjármálaráðuneytisins, þar sem farið var fram á umsögn, hefði ekki borist bankanum. Skýrir það hvers vegna umsögn bankans tók ekki til sparisjóðsins. Þegar Seðlabankinn hafði samband við fjármálaráðuneytið gat það ekki, samkvæmt hefðbundinni skjalavinnslu þess, staðfest að bréfið hefði verið sent Seðlabankanum. Fjallað er um umsögn Seðlabanka Íslands um umsóknir hinna sparisjóðanna í 13. kafla.

104 . Fundargerð aðalfundar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 20. maí 2009.

105 . Skýrsla PricewaterhouseCoopers vegna könnunar á afmörkuðum þáttum í efnahag og rekstri Sparisjóðs Bolungarvíkur, 16. júní 2009.

106 . Beiðni um viðbótar eiginfjárframlag í samræmi við 2. gr. laga nr. 125/2008 um heimildir til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., 19. mars 2009.

107 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Bolungarvíkur 11. júní 2009.

108 . Fjármálaeftirlitið, „Skipun sérfræðings með Sparisjóði Bolungarvíkur, skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.“

109 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 19. júní 2009.

110 . Kröfur Sparisjóðabanka Íslands hf. á hendur Sparisjóði Bolungarvíkur voru fluttar til Seðlabanka Íslands í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðabanka Íslands hf.

111 . Bréf Sparisjóðs Bolungarvíkur til Fjármálaeftirlitsins 6. ágúst 2009.

112 . Bréf Seðlabanka Íslands til sparisjóða 8. september 2009.

113 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um vinnu með kröfur Seðlabanka Íslands á hendur sparisjóðunum, 21. ágúst 2009.

114 . Fundargerð stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur, 15. september 2009.

115 . Minnisblað Seðlabanka Íslands um endurskipulagningu skulda sparisjóða, 20. nóvember 2009.

116 . Ákvörðun bankastjóra Seðlabanka Íslands nr. 1028, 1. febrúar 2010. Um bréf Seðlabanka Íslands, kjör hans og skilmála má lesa í 13. kafla.

117 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til sparisjóða 8. febrúar 2010. Frekari umfjöllun um kröfur Fjármálaeftirlitsins er í 13. kafla.

118 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Sparisjóðs Bolungarvíkur 24. mars 2010.

119 . Í minnisblaði Seðlabanka Íslands frá 10. febrúar 2010, sem ritað var eftir fund fulltrúa Seðlabankans, fjármálaráðuneytis og Sparisjóðs Bolungarvíkur 9. febrúar, kom fram að líklega yrðu endurheimtur meiri ef skuldir sparisjóðsins við Seðlabankann yrðu endurskipulagðar en ef sparisjóðurinn færi í þrot. Ársreikningur sparisjóðsins fyrir árið 2009 var áritaður með fyrirvara en þar sagði: „Sparisjóðurinn hefur unnið að endurskipulagningu en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009 er eigið fé í árslok neikvætt um rúma 2 milljarða króna og CAD hlutfall neikvætt um 48,74% en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki á það að vera að lágmarki 8%. Lánardrottnar aðrir en Seðlabanki Íslands hafa nú þegar samþykkt tillögu að endurskipulagningu sjóðsins en beðið er eftir niðurstöðu ESA áður en Seðlabanki Íslands mun samþykkja fyrir sitt leyti. Í framhaldi af þessu þarf samþykki stofnfjárfundar fyrir endurskipulagningunni. Ljóst er að ef endurskipulagningin gengur ekki eftir einhverra hluta vegna þá er rekstrarhæfi Sparisjóðsins brostið en ársreikningurinn er settur fram með þeim hætti að rekstrarhæfi sé til staðar.“

120 . Tillaga Sparisjóðs Bolungarvíkur um fjárhagslega endurskipulagningu, 5. mars 2010.

121 . Bréf Seðlabanka Íslands til Sparisjóðs Bolungarvíkur 9. mars 2010.

122 . Nánari umfjöllun um ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA er í 13. kafla.

123 . Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Bolungarvíkur, 10. júní 2010.

124 . „Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða“, fme.is, http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650. Nánari umfjöllun er að finna í 13. kafla.

125 . Fjárhagsleg endurskipulagning Sparisjóðs Bolungarvíkur – breyting vegna áhrifa gengistryggðra lána, drög dags. 23. ágúst 2010, í hefti frá Seðlabanka Íslands, nóvember 2010.

126 . Fjárhagsleg endurskipulagning Sparisjóðs Bolungarvíkur – breyting vegna áhrifa gengistryggðra lána, drög dags. 23. ágúst 2010, í hefti frá Seðlabanka Íslands, nóvember 2010.

127 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Seðlabanka Íslands 17. september 2010.

128 . Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu, 22. september 2010.

129 . Samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu, 22. september 2010.

130 . Bréf stjórnar Sparisjóðs Bolungarvíkur til Fjármálaeftirlitsins 30. september 2010.

131 . Bréf Seðlabanka Íslands til fjármálaráðuneytisins 8. október 2010.

132 . Fjárhagsleg endurskipulagning Sparisjóðs Bolungarvíkur – breyting vegna áhrifa gengistryggðra lána, drög dags. 23. ágúst 2010, í hefti frá Seðlabanka Íslands, nóvember 2010.

133 . Ársreikningur Sparisjóðs Bolungarvíkur 2010.

134 . Ársreikningur Sparisjóðs Bolungarvíkur 2011.

135 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

136 . Skýrsla Finnboga Jakobsson fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 27. maí 2013.

137 . Skýrsla Bankasýslu ríkisins um starfsemi sína 2013.

138 . Gerð er grein fyrir reglum um greiðslu arðs í 12. kafla.

139 . Lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með lögum nr. 76/2009. Sjá nánari umfjöllun í 12. kafla.

140 . Þessi heimild hafði verið við lýði allt frá 1993. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009.

141 . Sú heimild kom í lögin 2001. Ákvæðinu var síðar breytt með lögum nr. 76/2009.

142 . Skýrsla Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2006. Löggiltir endurskoðendur Vestfjörðum ehf. er samstarfsfyrirtæki Deloitte.

143 . Skýrsla Ásgeirs Sólbergssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um sparisjóðina 28. maí 2013.

144 . Bréf Fjármálaeftirlitsins til Tryggingasjóðs sparisjóða 12. október 2009.

145 . Skýrsla Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2006.

146 . Skýrsla Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2006.

147 . Skýrsla Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2006.

148 . Skýrsla Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2005 (drög).

149 . Skýrsla Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2005 (drög); skýrsla Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. um innri endurskoðun Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir árið 2006.

150 . Skýrsla Deloitte hf. um endurskoðun innra eftirlits upplýsingakerfa Sparisjóðs Bolungarvíkur 2006, 22. maí 2007.

151 . Skýrsla Endurskoðunar Vestfjarða ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Bolungarvíkur 2009, 26. maí 2010.

152 . Skýrsla Endurskoðunar Vestfjarða ehf. um endurskoðun ársreiknings Sparisjóðs Bolungarvíkur 2010, 18. mars 2011.