Rannsóknarnefndir Alþingis taka til starfa

27.09.2011

17.10.2011

Á nýafstöðnu þingi samþykkti Alþingi tvær þingsályktanir, annars vegar um rannsókn á Íbúðalánasjóði og hins vegar um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Jafnframt voru á þinginu samþykkt almenn lög um rannsóknarnefndir en með þeim er Alþingi fengið þýðingarmikið úrræði til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu. Á grundvelli þeirra hefur forseti Alþingis, að undangengnu samráði innan Alþingis, skipað tvær rannsóknarnefndir til þess að sinna þeim rannsóknum sem þingið hefur samþykkt að hefja.

Formaður nefndar um rannsókn á Íbúðalánasjóði er Sigurður Hallur Stefánsson, fv. héraðsdómari. Með honum í nefndinni eru Kirstín Flygenring hagfræðingur og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri. Er nefndinni ætlað að rannsaka starfsemi sjóðsins frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans, sem hrundið var í framkvæmd á árinu 2004, og til ársloka 2010. Enn fremur á nefndin að meta áhrifin af þessum breytingum, stefnu sjóðsins og einstökum ákvörðunum á þessum tíma á fjárhag sjóðsins og fasteignamarkaðinn í heild sinni. Þá er nefndinni ætlað að meta áhrif starfsemi Íbúðalánasjóðs á stjórn efnahagsmála og loks að leggja mat á hversu vel sjóðnum hefur tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu á tímabilinu, sbr. þingsályktun Alþingis frá 17. desember 2010.

Formaður nefndar um rannsókn á orsökum og falli sparisjóðanna er Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari. Með henni í nefndinni eru Tinna Finnbogadóttir hagfræðingur og Bjarni Fr. Karlsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Er nefndinni ætlað að leita sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots sparisjóðanna á Íslandi, sbr. þingsályktun Alþingis frá 10. júní 2011.

Guðrún Aradóttir viðskiptafræðingur hefur verið ráðin til þess að liðsinna nefndunum í daglegum störfum þeirra.

Nefndarmenn hafa undanfarna daga unnið að því, með aðstoð starfsfólks Alþingis, að koma sér upp aðstöðu fyrir starfsemi nefndanna sem verður að Austurströnd 5 á Seltjarnarnesi. Sameiginlegur sími nefndanna er 563 0210.

 

Til baka Senda grein